Saga af forseta

Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar

Og þá er komið að þeirri bók sem hefur valdið mestu uppnámi. Hún kom út haustið 2008, rétt eftir að bankakerfið hrundi. Vinsældir Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands hröpuðu jafnframt niður úr öllu valdi og þess galt bókin í ríkum mæli. Hann var ásakaður fyrir að vera guðfaðir útrásarinnar svokölluðu sem endaði svo hrapallega. Hugmyndin að bókinni varð til í samtali okkar Ólafs í byrjun árs 2006 og byggðist síðan að verulegu leyti á löngum samræðum mínum við hann sjálfan og aðgangi að skjölum forsetaembættisins. Hún er ekki ævisaga heldur fjallar hún eingöngu um forsetatíð Ólafs Ragnars og eru að verulegu leyti upplifun hans sjálfs þó að ég hafi einnig rætt við ýmsa aðra sem komu við sögu, samherja og andstæðinga Ólafs. Dómar um bókina voru mjög misjafnir og var ég af sumum ritdómurum sakaður um gagnrýnisleysi á forsetann og gjörðir hans. Sannleikurinn er sá að aldrei var ætlun mín að skrifa mjög gangrýna bók um forsetann eða reyna að brjóta persónu hans til mergjar með öllum sínum kostum og göllum. Ég var fyrst og fremst að leita eftir viðhorfum forsetans sjálfs til embættis hans og embættisstarfa. Sem slík hefur bókin orðið mikilvæg heimild. Í rannsóknarskýrslu alþingis um hrunið var bók mín aðalheimildin um þátt forsetans og jafnan er til hennar vitnað þegar fjallaðer um Ólaf Ragnar og forsetaembættið í fræðilegum ritgerðum.

Bókin Saga af forseta er áhugaverð bók… Kaflar um samskipti forsetans og Davíðs Oddssonar eru sérlega áhugaverðir.

Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur (gudmundsson,blog.is)

 

Bók Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings um forsetatíð Óiafs Ragnars Grímssonar er mikil að vöxtum, ítarleg og fróðleg. Óhætt er að fullyrða að hún verði ómissandi heimild um forsetatíð Óiafs Ragnars og samtíða hans.

Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur (Stjórnmál og stjórnsýsla – vefur 4:2 (2008)

Það er að mörgu leyti fróðlegt að lesa þessa bók, en ástæðan fyrir því er ekki dýpt hennar eða skörp greining. Ástæðan er sú að nú þegar, fáeinum vikum eftir að útrásinni lauk… er bókin orðin minnisvarði um veröld sem var. Hún er skrifuð í anda útrásarinnar og endurspeglar viðhorfin sem gættu þegar við trúðum því ennþá að Íslendingar væru stórkostlegir og myndu leggja heiminn að fótum sér vegna einstakra hæfilkeika sinna og grindar. Nú vitum við betur, en þessi bók mun minna okkur á hvernig heimurinn var.  Jón Ólafsson heimspekingur (Mbl. 20. des. 2008)

Gildi þessarar bókar felst fyrst og fremst í því að Guðjóni lánaðist að taka viðtöl við ýmsa forkólfa útrásarinnar svökölluðu á árunum 2006 og 2007 þegar allt lék í lyndi. Með því bjó hann til mikilvæga heimild án þess þó að það hafi verið aðalmarkmið hennar. Hin sögulega framvinda, það er bankahrunið mikla haustið 2008, hefur nefnilega lokað slíkum viðtalsleiðum að þeim viðhorfum sem hann safnaði og kynnti í bókinni. Bókinni mætti því líkja við beina útsendingu á þeim mikla bjartsýnisanda sem þá ríkti. Í því felst helsti styrkur þessa verks.

Páll Björnsson sagnfræðingur (Saga 47:2 (2009), 186-7).

 

19. Saga af forseta