Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands 1-2

 

Meðhöfundur minn að þessu tveggja binda verki er dr. Jón Þ. Þór sagnfræðingur en hugmyndin að því varð í samtölum okkar í Kaupmannahöfn árið 2004. Okkur tókst að afla danskra og íslenskra styrkja til verkefnisins og dvöldum meðal annars mánuðum saman í Kaupmannahöfn við heimildakönnun. Þetta er fyrsta heildarritið um sögu borgarinnar sem höfuðborgar Íslands en það var hún um nær 500 ára skeið. Á árinu 2016 mun Sjónvarpið sýna fjóra heimildaþætti undir stjórn Egils Helgasonar sem byggjast á verki okkar Jóns og verð ég þar sögumaður með Agli.

 

 

Umsagnir

.. hér er i boði bæði fróðlegt, gagnlegt og glæsilegt rit sem varpar nýju ljósi á meginatriði í sögu Íslendinga

Gunnar Karlsson prófessor (Saga 52:1 (2014), 244).

Þetta tæplega 1200 blaðsíðna verk er tvímælalaust stórvirki. Það er lifandi frásögn þar sem persónusaga og lýsingar á daglegum háttum og umhverfi er rækilega tengd við megindrætti þjóðfélagsþróunar á Íslandi og Danmörku í fimm aldir. Verkið markar tímamót að því leytinu að aldrei fyrr hefur birst jafn umfangsmikil, sanngjörn og greinargóð lýsing á allsherjarsamskiptum Dana og Íslendinga. Þetta er hvalreki fyrir fræðimenn, námsmenn og almenning..

Ólafur Þ. Harðarson prófessor (Stjórnmál og stjórnsýsla – vefur 10:1 (2014).

Þetta ágæta verk þeirra Guðjóns Friðrikssonar og Jóns Þ. Þór, er jafnhliða því sem það er barmafullt af fróðleik og skemmtun gott og mikilvægt framlag til bættra gagnkvæmra samskipta við Danmörku

Páll Valsson bóknmenntafræðingur (Tímarit Máls og menningar 75:1 (2014), 125-6).