Ævisaga Jóns Sigurðssonar:  Fyrri og seinni hluti.

 

Ég tók það upp hjá sjálfum mér að skrifa nýja ævisögu Jóns Sigurðssonar forseta, fannst að draga þyrfti svolítið úr þeirri miklu upphafningu sem þessi þjóðhetja Íslendinga hafði alla tíð sætt. Áhugi á Jóni var orðinn sáralítill og ég hugsaði með mér að kannski fengi fólk aftur áhuga ef hann yrði gerður mannlegri en áður. Meðan ég var að rita ævisöguna dvaldi ég vetrarlangt í Kaupmannahöfn til að kanna gögn um Jón þar og kynnast sögusviði hans en eins og kunnugt er bjó hann þar alla sína fullorðinstíð. Ævisögunni, sem kom út í tveimur bindum, var ljómandi vel tekið og fékk ég Íslensku bókmenntaverðlaunin í þriðja sinn fyrir síðara bindið.

 

Guðjón Friðriksson hefur fyrir löngu skipað sér í röð allra fremstu ævisagnaritara íslenskra og ekki verður þessi bók til að rýra orðstír hans á því sviði, miklu fremur hið gagnstæða. Hún er afbragðs vel skrifuð og öll er frásögn höfundar einkar trúverðug. Eins og í sumum fyrri ævisögum sínum leyfir hann sér að krydda frásögnina með því að geta í stöku eyður, en aldrei svo að það rýri fræðilegt gildi verksins. Þvert á móti verður sagan öll læsilegri fyrir vikið. Mestu skiptir þó að Guðjón hefur náð því markmiði sínu að færa Jón Sigurðsson nær okkur sem nú lifum. Eftir lestur þessarar bókar hljóta allir að skilja Jón og samtíða hans betur en áður.

Jón Þ. Þór (Mbl. 6. nóv. 2002).

 

Fróðleg, læsileg og vel unnin ævisaga.

Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntafræðingur (DV 9. nóv. 2002)

 

Frábær lesning.

Össur Skarphéðinsson alþingismaður og ráðherra (DV 23. nóv. 2002)

 

Höfundi tekst jafn vel að draga fram tíðarandann og borgarandann. Ekki síst þegar lýst er aðdraganda þjóðfundarins. Byltingarárið 1848 og hræringarnar á undan og á eftir verða spennandi í meðförum Guðjóns sem nálgast hér Barböru Tuckmann, þá ókrýndu drottningu frásagnarlistarinnar…

Ármann Jakobsson bókmenntafræðingur (DV 12. nóv. 2002).

 

Ég var… að ljúka við fyrsta bindi ævisögu Jóns Sigurðssonar forseta eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing og líkaði bara nokkuð vel. Oft hefur það verið tilhneiging sagnfræðinga að setja Jón á stall, líkt og maður sér hann á Austurvelli. En Guðjón hefur komið honum niður á jöðrina og sýnir hann í nýju ljósi án þess að Jón tapi nokkru á því..

Jónas Kristjánsson prófessor (DV 13. mars 2003)

 

Niðurstaðan er því sú að ævisaga Jóns Sigurðssonar í búningi Guðjóns Friðrikssonar sé tímabært verk. Hún fellir ekki endanlegan dóm um Jón Sigurðsson, en gerir trausta úttekt á manninum og lífsstarfi hans, sem er miðuð við hugmyndir og þarfir okkar tíma.

Guðmundur Hálfdanarson prófessor (Saga 42:1 (2004), 243.