Einar Benediktsson. Ævisaga 1-3

 

Næst á dagskrá hjá mér var að ráðast í það stórvirki að skrifa ævisögu Einars Benediktssonar skálds og athafnamanns. Þó að mikið hefði verið skrifað um hann áður var mjög margt enn á huldu um æviferil hans, sérstaklega þau ár sem hann bjó erlendis og var í miklum fjármálaumsvifum. Leitaði ég því víða fanga, meðal annars á Englandi, í Skotlandi, Noregi, Danmörku og Þýskalandi. Varð mér mun betur ágengt í heimildaöflun en ég hafði fyrirfram búist við. Við ritun sögunnar sviðsetti ég svo atburði í mun meira mæli en ég hafði áður gert. Er skemmst frá því að segja að ævisaga Einars hlaut afbragðs viðtökur. Fyrsta bindið var önnur söluhæsta bókin fyrir jólin 1997 og hlaut ég Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir hana, í annað skipti sem ég hlaut þau. Annað og þriðja bindi ævisögu Einars voru líka meðal tíu söluhæstu bóka þegar þær komu út árin 1999 og 2000.

 

Úr umsögnum um 1. bindi:

 

Ótvírætt með bestu ævisögum… nautn að njóta svo vandaðs verks.

Ármann Jakobsson bókmenntafræðingur (DV 15. des. 1997)

 

Mér liggur við að segja að loksins sé komin út „samin“ ævisaga sem reynir að segja sögu tiltekins manns með svolitlum stæl, en ekki í gamla staðreyndatuggustílnum og leggur sig fram um að gæða bókina lífi með því að beita brögðum skáldskaparins í frásögninni. Fyrir vikið er bókin geysilega skemmtileg aflestrar, hreinlega rígheldur manni við lesturinn. En um leið er hvergi slegið af fræðilegum kröfum.

Þröstur Helgason ritstjóri (Lesb. Mbl. 16. des. 1997)

 

Bókin mun, þrátt fyrir stærð sína, vera fyrsta bindið af ævisögu Einars, sem Guðjón vinnur nú að af elju, áhuga og gleði sem blasir við af hverri síðu þessa fyrsta bindis… Það má ljóst vera að bók Guðjóns hefur hrifið undirritaða sem tímdi varla að sleppa af henni hendi fyrr en síðasta síðan var lesin.

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur (Mbl. 17. des. 1997).

 

Ég er ódugleg við ævisögurnar en það skrýtna er að ein slík situr samt efst í huganum eftir lestur jólabókanna, bók Guðjóns Friðrikssonar um Einar Benediktsson. Það er frábært verk og ég er farin að hlakka til að lesa framhald þess.

Ólöf Nordal lögfræðingur, síðar ráðherra (DV 10. jan. 1998).

 

Hið mikla framlag Guðjóns Friðrikssonar til íslenskrar sagnaritunar sem aldrei verður fullþakkað – bæði í þessu verki og enn frekar verki hans um Jónas frá Hriflu – er að loksins fær maður að lesa ævisögur sem eiga bara að vera ævisögur, en ekki bautasteinar… Hann hefur fundið sitt Kólumbusaregg. Það sem virðist svo sjálfsagt að gera – svona eftir á að hyggja – að skrifa hreina og beina ævisögu án þess að skammast sín vitund fyrir það. Hafi höfundur heila þökk.

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur (Dagur 13. Jan. 1998).

 

Umsagnir um 2. bindi:

 

Guðjón á svo sannarlega skilið hrós fyrir þessa bók. Hann hefur ekki aðeins kafað ofan í heimildir víða um lönd, heldur unnið afbragðs vel úr þessu og dregur ekkert undan. Einar Benediktsson birtist hér í öllu sínu veldi á hátindi veraldlegrar velgengni sinnar. En höfundur sýnir einnig mótsagnir í fari og eðli þessa sérstæða Íslendings sem varð í einkalífi sínu enn ein sönnun hins fornkveðna að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki.

Elías Snæland Jónsson ritstjóri (Dagur 13. nóv. 1999)

 

Annað bindi ævisögu Einars Benediktssonar er umfangsmesta rannsóknarrit Guðjóns Friðrikssonar hingað til. Fyrir það verðskuldar hann lof og prís.

Ármann Jakobsson bókmenntafræðingur (DV 15. nóv. 1999)

 

Hún [bókin] skapar spennu hjá lesenda sem bíður óþreyjufullur eftir þriðja og síðasta bindi ævisögunnar.

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur (Mbl. 14. des. 1999).

 

Umsagnir um 3. bindi:

 

Guðjón Friðriksson fjallar um Einar Benediktsson af samúð og sanngirni en án þess að draga dul á bresti hans. Mynd hans af Einari er þrívíð og víðfeðm og dregin upp af nákvæmni sem er til fyrirmyndar.

Ármann Jakobsson bókmenntafræðingur (DV 22. nóv. 2000)

 

Með þessu bindi lýkur Guðjón Friðriksson sex ára rannsóknarvinnu og skilar af sér verki sem hlýtur að eiga langt líf fyrir höndum sem eitt af stórvirkjum íslenskrar ævisagnaritunar.

Mbl. 13. des. 2000)