Ég elska þig stormur

Ævisaga Hannesar Hafstein

Afstaða mín til að skrifa ævisögu Hannesar Hafstein var svipuð og afstaðan til ævisögu Jóns Sigurðssonar. Búið var að hlaða svo miklu lofi á Hannes að mér fannst tímabært að athuga hver þessi maður í raun og veru var. Of mikil lof gerir minningu manna sjaldan greiða. Bókin varð með söluhæstu bókum fyrir jólin 2005 og hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Jón Ólafsson heimspekingur (Mbl. 20. des. 2005)

 

Læsileg og vel skrifuð ævisaga, mjög vönduð saga.

Jón Yngvi Jóhannesson bókemnntafræðingur (Kastljós)

 

Guðjóni Friðrikssyni tekst að gera þetta þannig að maður bíður spenntur eftir hverri bók.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor (NFS).

 

Ég var á dögunum að lesa hina prýðilegu ævisögu Hannesar Hafstein eftir Guðjón Friðriksson sem virðist ætla að takast það sem Kristjáni Albertssyni tókst ekki með sinni ævisögu að gera mig að æstum aðdáanda Hannesar Hafstein og eiginlega heimastjórnarmanni.

(RÚV 4. Des. 2005)

 

Öll byggist sagan á feiknarlega yfirgripsmikilli og nákvæmri heimildavinnu sem er í raun aðdáunarverð miðað við að verkið er ekki unnið á sérlega löngum tíma… Í þessari ævisögu um Hannes Hafstein sýnir Guðjón hins vegar enn og aftur einstaka hæfni í að byggja upp lifandi og trúverðuga atburðarás… Þannig má segja að höfundur gefi stjórnmálaatburðum aldamótanna nýtt líf og lit… Í tengslum við útgáfu bókarinnar benti hann [Guðjón] einnig á að Hannes Hafstein var frá fyrstu tíð umvafinn konum og konur voru áhrifamiklar í lífi hans í ýmsum skilningi. Ég vil halda því fram að Guðjón Friðriksson hafi unnið afar þarft verk með því að gera þessi tengsl að mikilvægu atriði til skilnings á manninum. Má segja að hér sé lagður grunnur að því að skoða ævi Hannesar út frá því kynjasögulegri nálgun sem kynjasögufræðingar segja að sé nauðsynleg til skilnings m.a. á almennri stjórnmálasögu og mótun borgarastéttar á 19. og 20. öld.

Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur (Saga 44:2 (2006), 232-238)

Almennt einkennist bókin af því að Guðjón kýs að sjá fremur en segja. Þykir mér sú aðferð heppnast vel í þetta sinn og að mínu viti er saga Hannesar besta bók Guðjóns um langan aldur… Guðjón hefur engan áhuga á íkonasmíð. Hann lýsir Hannesi sem manni sem gat verið undirförull, skapmikill, sem drakk of mikið og kunni ekki alveg með fé að fara. En þessa ágalla nálgast hann með virðingu þannig að Hannes er í rauninni stærri eftir. Það er frekar eins og hann sé núna loksins kominn í lit. Aðferð Guðjóns er þegar allt kemur til alls árangursríkari en öll lofsyrðin sem aðrir hafa áður hlaðið á Hafstein… Ég elska þig stormur er myndarleg og vel samnin ævisaga og höfundi sínum til sóma enda þykir mér hann hafa sterkari tök á frásagnarlistinni en nokkru sinni fyrr. Enn fremur finnst mér fallegt hvernig Guðjón nálgast sérhvert viðfangsefni sitt af virðingu og alúð en þó vægðarlaust. Á þann hátt færir saga hans lesendur sína skrefinu nær skilningi á því hvers vegna menn hrifust svo mjög að Hannesi Hafstein á sínum tíma. Guðjón hefur veitt Hannesi enn eitt tækifæri til að heilla ókunnuga upp úr skónum.

Ármann Jakobsson prófessor (Andvari 131:1 (2006), 157-177).

 

Í heild er saman komin í þessari bók mikill fróðleikur og greining á þessu tímabili og leyfi ég mér að segja að hún sé skyldulesning stjórnmálafræðinga og annarra sem áhuga hafa á Íslandssögu og stjórnmálum.

Auður Styrkársdóttir (Stjórnmál og stjórnsýsla – vefur 1:1 (2005).

 

Frábær bók.

Þráinn Bertelsson rithöfundur (Fréttablaðið 20. Maí 2006)

18. Hannes Hafstein