Alfræði Reykjavíkur

Skrá um reykvísk fyrirbæri í stafrófsröð. Hér er um að ræða hverfisheiti, götunöfn, húsanöfn, örnefni, náttúrufyrirbæri, stofnanir, embætti, verslanir, heildsölur, iðnfyrirtæki, verksmiðjur, verkstæði, skipafélög, flugfélög, bílastöðvar, félög og samtök, bryggjur, varir og bólverk, skóla, leikvelli, borgarhátíðir, gallerí, hótel, skemmtistaði, krár, kaffihús, kvikmyndahús, samkomuhús, fjölmiðla, bókasöfn, listahópa, leikhús og leikfélög, hljómsveitir og svo mætti lengi telja.
Mikið vantar upp á alfræðin sé tæmandi enda verður hún það aldrei. Þó að hér hafi verið safnað saman miklum fróðleik (um 7000 uppflettiorð) verður að líta þetta verk mitt sem drög. Við sum uppflettiorðin eru ófullnægjandi upplýsingar og önnur eiga eftir að koma inn. Bíður það allt frekari vinnslu. Ég vil þó endilega deila því með mér sem þegar er komið en bið fólk að virða við mér það til vorkunnar sem óunnið er.

Vel þegnar eru viðbætur, upplýsingar, leiðréttingar eða athugasemdir. Sendist á gf@akademia.is

 

Alfræði Reykjavíkur

 

101 hótel. Stofnsett 2003 af  Ingibjörgu Pálmadóttur í gamla Alþýðuhúsinu, Hverfisgötu 8-10.

101 Skuggahverfi. Byggingafélag, sett á stofn árið 2000 af Þyrpingu og Eimskip til að annast uppbyggingu á svokölluðum Eimskipafélagsreit við Skúlagötu.

10-11 verslanir. Stofnaðar 1991af þeim Eiríki Sigurðssyni og Jóhannesi Jónssyni í Bónus en komust síðar undir Haga sem áttu þær til 2010. Sú fyrsta var í Kópavogi en á næstu árum voru opnaðar fjölmargar 10-11 búðir í Reykjavík og annars staðar. Árið 2012 voru 11 slíkar verslanir í Reykjavík; að Arnarbakka 2, Austurstræti 17, Álfheimum 74, Barónsstíg 4, Efstalandi 26, Eggertsgötu 24, Laugalæk 2, Langarima 21, Lágmúla 7 og Seljavegi 2.

11-11 verslanir. Verslanakeðja sem hófst á vegum Miklagarðs árið 1991. Fyrsta verslunin í Reykjavík var á Grensásvegi 46. Árið 1993 komust verslanirnar undir hlutafélagið Kaupás, sem níu kaupfélög stóðu að, og 2003 undir Norvik. Árið 2010 voru reknar þrjár 11-11 verslanir í Reykjavík; að Grensásvegi 46, Hraunbæ 102 og Laugavegi 116. Þær voru seldar 10-11 verslunum árið 2012 og hvarf þá keðjan úr sögunni.

12 tónar. Verslun með tónlist, einkum klassíska, sett á stofn 1998 af Jóhannesi Ágústssyni og Lárusi Jóhannessyni. Hefur einnig staðið fyrir útgáfu tónlistar. Var fyrst til húsa að Grettisgötu 64 en hefur verið á Skólavörðustíg 15 frá 2001 og einnig í Hörpunni frá 2011.

365 miðlar. Fjölmiðla- og þjónustufyrirtæki á sviði blaðaútgáfu, sjónvarps- og útvarpsrekstur og vefmiðlunar. Meðal fjölmiðla sem félagið rekur er Fréttablaðið, Stöð 2 og visir.is. Varð til árið 2005 með yfirtöku og samruna. Fyrsti forstjóri félagsins var Gunnar Smári Egilsson, stærsti hluthafinn Baugur Group en síðar Ingibjörg Pálmadóttir.

38 þrep. Skóverslun, stofnsett 1994 af Hólmfríði Sigvaldadóttur og Matthildi Leifsdóttur. Var fyrst til húsa að Laugavegi 89, síðan að Laugavegi 76 en lengst á Laugavegi 49.

4 árstíðir. Blóma- og gjafavöruverslun, stofnuð af Elísu Ó. Guðmundsdóttur 2014. Er til húsa í Lágmúla 4.

50th Hospital. Hersjúkrahús á stríðsárunum, til húsa í og við Gamla Garð.

66°Norður. Sjá Sjóklæðagerðin.

A. J. Bertelsen & Co. Heildverslun, stofnuð af Andreas J. Bertelsen 1919. Flutti einkum inn gólfteppi og vefnaðarvörur. Var lengi til húsa í Hafnarstræti 11. Hætti um 1980.

A. Jóhannsson & Smith. Verslun og umboðssala á sviði lagna og hreinlætisvara, stofnuð 1944 af Aðalsteini Jóhannssyni, Axel Smith og fl. Var fyrst til húsa að Njálsgötu 112, síðan að Bergstaðastræti 52 og loks í Brautarholti 4. Fyrirtækið hætti 1977.

A.Karlsson. Heildsala, flutti einkum inn vörur á sviði heilbrigðismála og til stofnana og veitingahúsa, stofnuð 1976 af Aðalsteini Karlssyni. Starfaði til 2010.

A&B bakaríið. Stofnsett 1962 af þeim Albert Ólafssyni og Sigurði B. Jónssyni og rekið til 1997 á Dalbraut 1.

A-gata. Sjá Blesugróf.

Aalls-gata. Gata í Skerjafirði (í landi Skildinganess) um 1930, kennd við Oluf Aall, hinn norska stjórnarformann Titanfélagsins en félagið átti Skildinganes á árunum 1918-1922 og var með áform um að reisa þar áburðarverksmiðju. Gatan hvarf þegar Reykjavíkurflugvöllur var gerður.

AA samtökin. Samtök karla og kvenna sem vilja leita sér hjálpar við áfengissýki. Hafa starfað í Reykjavík frá 1954 og var Guðni Þór Ásgeirsson einn helsti hvatamaður samtakanna. Starfa nú um allt land. Í Landsþjónustunefnd AA samtakanna sitja 12 fulltrúar, níu aðalmenn og þrír varamenn. Einn af aðalmönnunum skal vera öldungur.

ABC barnahjálp. Samtök stofnuð 1988 af hjónunum Guðrúnu Margréti Pálsdóttur og Hannesi Lentz  o.fl. til að koma nauðstöddum börnum víðs vegar í heiminum til hjálpar. Hefur sett á fót um 40 skóla í löndum Afríku og Asíu.

ABS fjölmiðlahús. Stofnsett 2001 með samruna birtingadeilda Íslensku auglýsingastofunnar og Hvíta hússins. Sérhæfir sig í markaðsrannsóknum. Til húsa á Bergstaðastræti 54.

Aberdeen. Tvílyft timburhús við Vesturgötu 5, reist 1898 af Einari Benediktssyni skáldi.

A B varahlutir. Verslun sem sérhæfir sig í sölu bifreiðavarahluta. Stofnsett 1996 af Jóni S. Pálssyni. Hefur frá upphafi verið í Bíldshöfða 18 en flutti árið 2011 að Funahöfða 9.

Accessorize. Verslun í Kringlunni með tískuvörur og aukahluti, stofnuð 1994 af Sjöfn Kolbeins og rekin til 2012.

Aco. Stofnað 1972 af Áka Jónssyni til að sjá um tölvuþjónustu fyrir bandaríska herinn og varð eitt allra fyrsta tölvufyrirtækið á Íslandi og með þeim stærstu. Sameinaðist Tæknivali árið 2001 undir nafninu Tæknival-Aco (ATV) og hélst það nafn til 2003.

Acta. Húsið Mjóstræti 6, reist árið 1918. Fékk nafn af prentsmiðjunni Acta sem sem starfaði lengi á neðstu hæð.

Acta. Prentsmiðja sem stofnuð var 1919 af Guðbirni Guðmundssyni og fleirum og starfaði til um 1934 í Mjóstræti 6 en síðan til 1936 á Laugavegi 1. Þar var meðal annars dagblaðið Tíminn prentað.

Activity Group. Sjá Afþreyingafélagið.

Adam. Tískuverslun. Stofnsett 1970 af Þorvarði Árnasyni. Var í Vesturveri við Aðalstræti 6 til 1973 en frá þeim tíma að Laugavegi 47. Sameinaðist Herrahúsinu og hét eftir 1988 Herrahúsið Adam.

Adapter Ensemble. Tónlistarhópur sem sérhæfir sig í nútímatónlist. Stofnaður 2003 og hefur reglulega haldið tónleika í Reykjavík síðan.

Addís. Ferðaskrifstofa sem sérhæfði sig í ævintýraferðum, svo sem fjallaferðum á jeppum. Stofnuð 1989 af Arngrími Hermannssyni og til húsa í Álftalandi 17. Sameinaðist þremur öðrum ferðafélögum árið 2001 undir heitinu Íslenskar ævintýraferðir sem reknar voru til um 2006.

Adelgaden. Sjá Aðalsræti.

ADHD samtökin. Stofnuð 1988, hétu fyrst Foreldrasamtök misþroska barna. Fyrsti fornmaður samtakanna var Matthías Kristiansen. Eru með skrifstofur og greiningastöð á Háaleitisbraut 13-15.

Adlon-barir. Veitingastaðir sem kaupmennirnir Silli og Valdi settu á stofn eftir 1945 eftir fyrirmynd frá Bandaríkjunum, svokölluðum „soda fountain“ stöðum þar sem seldir voru gosdrykkir, hristingur, ís og fleira. Öll borð voru plasthúðuð með stálköntum, straumlínulöguð og innréttingarnar með dökkrauðbrúnum blæ. Silli og Valdi nefndu staðina Adlon eftir frægu hóteli í Berlín. Fyrsti staðurinn kom um 1946 og var í Aðalstræti 8 og upphaflega kallaður Adlon Soda Fountain en síðar jafnan Langibar (sjá). Um 1950 bættust svo við Adlon-barir í Bankastræti 12, hann var síðar kallaður Prikið (sjá) og er sá eini sem enn er við lýði þó að í breyttu formi sé, Laugavegi 11 (sjá), Klapparstíg 26 og Laugavegi 126 við Hlemm.

Adlon-klúbburinn. Skemmtiklúbbur sem starfaði á árunum 1926 til 1936 og gekkst fyrir dansleikjum í Reykjavík.

Aðalbílasalan. Stofnuð af Halldóri Snorrasyni 1954 og var framan af í Lækjargötu 8 en frá 1956-1963 í Aðalstræti 16 og jafnfram í Ingólfsstræti 11 frá 1960-1968. Eftir það við við Skúlagötu 40 til 1984 en þá flutti Aðalbílasalan í hús neðan við Miklatorg þar sem hún var til 2003. Þá flutti hún að Grensásvegi 11 og var þar þangað til 2006 að nafn hennar breyttist í Bernhard Notaðir bílar sem er til húsa að Eirhöfða 11.

Aðalból. Hús við Starhaga 7, áður Þormóðsstaðaveg, reist 1932. Þar rak Guðrún Daníelsdóttir ljósmóðir lengi fæðingarheimili.

Aðalbraut.Verktakafyrirtæki, stofnað 1970 af nokkrum öðrum fyrirtækjum til að bjóða í stór verkefni. Starfaði fram yfir 1990, lengst undir forystu Guðmundar Einarssonar verkfræðings.

Aðalbúðin. Vefnaðarvöruverslun, stofnsett 1945 af Olgeiri Vilhjálmssyni. Var við Lækjartorg norðanvert og rekin til um 1969.

Aðalendurskoðun.  Stofnsett af Ragnari Á Magnússyni endurskoðanda og fleirum um 1974 en áður hafði Ragnar einn rekið endurskoðunarskrifstofu frá 1966.

Aðalkjör. Matvöruverslun að Grensásvegi 48, rekin á árunum 1963-1975.

Aðalskipulag Reykjavíkur. Fyrsta heildartillagan að skipulagi fyrir Reykjavík var gerð árið 1927 en öðlaðist ekki lögformlegt gildi. Fyrsta aðalskipulag Reykjavíkur sem hlaut lögformlegt gildi var Aðalskipulagið 1962-1983 en helsti ráðgjafinn við gerð þess var danski prófessorinn Peter Bredsdorff. Síðan hefur Aðalskipulag Reykjavíkur, sem yfirleitt er unnið 20 ár fram í tímann með reglulegri endurskoðun, verið aðalstjórntæki borgarinnar varðandi landnotkun, landnýtingu og samgöngur. Síðasta gildandi aðalskipulag nær yfir árin 2001-2024.

Aðalskoðun. Bifreiðaskoðun, stofnuð 1994 af Bergi Einarssyni, Gunnari Svavarssyni og fleirum og var upphaflega staðsett í Hafnarfirði. Á næstu árum voru stofnuð útibú víða um land, meðal annars í Reykjavík í Sóltúni 3 sem rekin var þar um árabil. Árið 2008 var opnuð skoðunarstöð í Skeifunni 5 og árið 2012 að Grjóthálsi 10.

Aðalstræti. Elsta gata Reykjavíkur. Upphaflega líklega sjávargata Ingólfs Arnarsonar, ef trúa má sögnum um hann, og síðan bænda í Reykjavík. Þegar þéttbýli fór að myndast eftir 1750 voru fyrstu húsin sett niður við þessa gömlu götu. Nefndist hún eftir það ýmsum nöfnum, svo sem Hovedgaden, Adelgaden, Klubgaden eða Klúbbgata. Árið 1848 var henni formlega gefið nafnið Aðalstræti.

Aðalstrætisbúðin. Nýlenduvöruverslun sem Sigurjón Þóroddsson rak í Aðalstræti 10 á árunum 1975-1982.

Aðalstöðin. Leigubílastöð, stofnuð af Magnúsi Bjarnasyni og Páli Guðjónssyni, starfaði á árunum 1930 til 1945 með afgreiðslu á Lækjartorgi.

Aðalvideoleigan. Stofnsett 1982 að Klapparstíg 37. Reynir Guðmundsson kom að stofnun hennar og hefur stýrt henni lengst af síðan.

Aðalvík. Byggingafyrirtæki og trésmiðja, stofnsett 1998 af Jóhannesi T. Halldórssyni og Páli Trausta Jörundssyni. Til húsa í Ármúla 15.

Aðalökuskólinn. Settur á stofn 1996 og er í eigu fjölmargra ökukennara. Til húsa í Menntaskólanum við Sund.

Aðföng. Stærsta birgða- og dreifingastöð matvæla á landinu, annast innkaup og dreifingu matvæla til verslana Hagkaups og Bónuss, til húsa í stórhýsi að Skútuvogi 7. Stofnuð 1998 en starfsemina annaðist áður innkaupastofnun Baugs.

Aðhald. Stekkjartættur frá bænum Hrafnhólum, um 150 metrum ofan við Tröllafoss í Leirvogsá.

Aðventkirkjan. Kirkja sjöundadagsaðventista við Ingólfsstræti, reist ásamt félagsheimili árið 1926. Teiknað af sænska arkitektinum Waldemar Johansson.

Afgreiðsla Sameinaða danska gufuskipafélagsins (DFDS). Þar til Eimskipafélag Íslands var stofnað árið 1914 var Sameinaða danska gufuskipafélagið langöflugasta skipafélagið sem sigldi til Íslands. Það hélt uppi siglingum til Reykjavíkur allt til ársins 1969. Afgreiðsla félagsins var frá 1904 og nær allt til loka í tvílyftu timburhúsi sem stóð fram til um 1920 í Pósthússtræti 2 en var þá flutt yfir Tryggvagötu á gagnstætt horn við Pósthússtræti (Tryggvagata 23).

Afgreiðsla smjörlíkisgerðanna. Stofnuð 1939 til að annast sameiginleg innkaup fyrir nokkrar smjörlíkisgerðir. Þetta leiddi síðan til sameiningar þeirra árið 1964 undir nafninu Smjörlíki h.f. Afgreiðsla smjörlíkisgerðanna var áfram rekinn undir því nafni fram undir 1980 og alla tíð í Þverholti 21. Magnús Sch. Thorsteinsson var lengst af framkvæmdastjóri.

Afl og orka. Verkfræðifyrirtæki á sviði raflagna. Til húsa að Hraunbergi 4.

Afltækni. Innflutningsfyrirtæki á sviði á báta- og skipavéla. Stofnað 1993 af bræðrunum Gunnari og Aage Petersen. Til húsa á Barónsstíg 5.

Aflvaki. Stofnaður 1992 sem þróunar- og fjárfestingarfélag á sviði nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar í Reykjavík. Hét upphaflega Aflvaki – þróunarfélag Reykjavíkur og var stofnað af Reykjavíkurborg og stofnunum hennar. Fyrsti forstjtóri félagsins var Ragnar Kjartansson. Árið 1995 komu Háskóli Íslands og Hafnarfjarðarbær að félaginu og kallaðist það þá Aflvaki hf.  Félaginu var skipt upp árið 2000.

Afmælisfélagið. Stofnað 1924 af frímúrurum til að koma börnum í sveit á sumrin. Reisti barnaheimilið Egilsstaði í Hveragerði 1931 þar sem 38 börn gátu dvalið og var það rekið til 1936.

Afmælissjóður Reykjavíkurkaupstaðar 1786-1936. Gefinn til minningar um 150 ára afmæli kaupstaðarins og skyldi hann vera varinn til að reisa ráðhús og nýja kirkju að jöfnu. Fé úr sjóðnum var meðal annars veitt til byggingar Laugarneskirkju.

AFS á Íslandi (American Field Service). Hefur starfað í Reykjavík síðan 1957 og vinnur að nemendaskiptum unglinga milli landa.

Aftanköld. Brekka norðaustur af Heljarkinn í Viðey.

Aftur. Tískuverslun sem hefur einkum endurunninn fatnað á boðstólum. Stofnuð 1999 af systrunum Báru, Hranhildi og Sigrúnu Hólmgeirsdætrum. Var á Laugavegi 23 en frá 2012 á Laugavegi 39.

Afþreyingarfélagið. (The Activity Group). Ferðafélag sem sérhæfir sig í ævintýratengdri ferðaþjónustu. Stofnsett 2002(?) af Halldóri Kristjánssyni.

Agðir. Eystri kvísl Elliðaáa eftir að hún skiptist við ofanverðan Blásteinshólma, neðan Hundasteina.

Aggva. Gjafa- og nytjavöruverslun, stofnuð 1988 af Alfred Guðmundssyni og var til húsa á Hverfisgötu 37. Enn starfandi 1992.

Agnar Lúðvíksson hf.  Heildverslun og framleiðslufyrirtæki, sérstaklega á sviði bökunarvara. Stofnuð 1941, var lengst til húsa á Nýlendugötu 21 en eftir 2007 í Klettagörðum 23.

Agnar Norðfjörð & co. Heildsala, stofnuð árið 1941, var framan af til húsa í Lækjargötu 4, síðan lengi í Hafnarhúsinu. Starfaði fram til um 2000.

Aha. Gjafavöruverslun. Starfrækt í Kringlunni frá upphafi 1987 til um 2006.

Ahrentzenshús. Einlyft timburhús í Hafnarstræti 8, reist 1790 af Jens I. Ahrentzen skipherra frá Kaupmannahöfn. Í húsinu voru síðar ýmsar verslanir, svo sem Robbsverslun (sjá) og Verslun Þorláks Ó. Johnsen (sjá). Húsið, sem einnig var kallað Svendsenshús, var rifið 1902.

Ahrenzhús. Tvílyft timburhús í Lækjargötu 4, reist 1852 af danska smiðnum Georg Ahrenz. Um tíma var húsið kallað Biskupshús meðan Helgi Thordersen biskup bjó í því. Húsið var flutt í Árbæjarsafn 1988.

Aikikai Reykjavík. Íþróttafélag þar sem æfð er japanska sjálfsvarnarlistin aikido. Stofnað 1995 af Hróari Jóhönnusyni.

Air Viking. Flugfélag, stofnað 1970 og var aðallega flogið til London og Mallorca á vegum ferðaskrifstofunnar Sunnu það ár. Félagið lá síðan niðri til ársins 1973 en þá hóf það aftur starfsemi, fyrst með leiguflugvél en síðan með eigin flugflota. Haustið 1975 varð félagið fyrst íslenskra flugfélaga til að fljúga svokallað pílagrímaflug. Hætti 1976 þegar starfsmenn þess stofnuðu Arnarflug.

Airwaves.  Sjá Iceland Airwaves.

Aka. Bílaleiga á Vagnhöfða 25. Hefur starfað síðan 1992 (?)

Akademiska arkitektafélagið. Sjá Arkitektafélag Íslands.

Akoges-salurinn. Samkvæmissalur félagsins Akoges frá Vestmannaeyjum, var í Brautarholti 6 frá um 1972 en síðar í Sigtúni 3 (nú Sóltúni 3).

Akron. Verslun og umboðssala. Stofnsett 1981 til innflutnings á plexigleri af þeim Markúsi og Árna V. Atlasonum. Hefur frá upphafi verið með verslun í Síðumúla 31.

Aktu Taktu. Skyndibitastaðir þar sem afgreitt er út um bílalúgu. Stofnsettir af Kristjáni Þór Sveinssyni og fleirum. Sá fyrsti kom að Skúlagötu 15 árið 1993 en árið 2010 voru þeir tveir auk þess fyrsta í Reykjavík, annar að Stekkjarbakka 2 og hinn að Fellsmúla 22.

Akur. Steinbær Þorkels Helgasonar, reistur 1896, við Bræðraborgarstíg 25. Síðar var á lóðinni timburhús með sama nafni sem brann 1925.

Akur. Íbúðarhús við Laugarnesveg 38, reist 1928.

Akurey. Fiskveiðahlutafélag, stofnað 1947 af Oddi Helgasyni og fleirum til reksturs samnefnds nýsköpunartogara. Félagið og togarinn selt til Akraness 1951.

Akurey. Óbyggð eyja í Kollafirði, rétt fyrir utan Örfirisey. Hefur verið í eigu Reykjavíkurborgar frá 1969 og tilheyrt lögsagnarumdæminu frá 1978. Í eynni hefur verið æðarvarp og kofutekja.

Akureyjarhólmi. Sjá Hólmurinn.

Akureyjarhólmsgrandi. Grandi suður af Akurey.

Akureyjarrif. Rif norður af Akurey. Þar var sett upp sjómerki 1856.

Akurgerði. Torfbær, reistur um 1880, og síðar lítill steinbær sem Þorsteinn Einarsson og Margréti Magnúsdóttur reistu árið 1903. Stóð þar sem nú er Brávallagata 40.

Akurfell. Heildverslun sem sérhæfði sig í innflutingi á kæliútbúnaði. Stofnuð um 1960 og starfrækt til um 1998 (ath). Var í Skipholti 5

Akurinn. Örnefni í Gufunesi sem bendir til akuryrkju til forna. Akurinn er á sjávarbökkum ofan Fjósakletta.

Akurvellir. Örnefni innarlega í Stardal milli Bolagils og Beinagils.

Alabaster Camp. Sjá Camp Pershing.

Al-Anon. Samtök aðstandenda alkóhólista. Hafa starfað í Reykjavík frá 1972.

Alaska. Gróðarstöð. Stofnsett af Jóni H. Björnssyni landslagsarkitekt 1953. Lengi voru höfuðstöðvar hennar við Vatnsmýrarveg 20 en einnig var eftir 1960 rekin gróðarstöð og síðar verslun í býlinu Breiðholti (nú Skógarsel 11-15). Gróðrarstöðin var rekin fram undir aldamótin 2000.

Albert Guðmundsson heildverslun. Stofnsett 1955 og starfaði fram yfir 2005. Síðari árin lengi til húsa á Grundarstíg 12.

Albertsbær. Torfbær að Bræðraborgarstíg 34, kenndur við Albert Þorvaldsson. Reistur um 1880. Árið 1901 var reistur samnefndur steinbær á lóðinni sem rifinn var upp úr 1960. (athuga, aðrar upplýsingar í Reykvíkingar) Einnig nefndur Guðrúnarkot.

Alda. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)(1952), stóð fyrir norðan Heimahvamm niður með árkvíslinni.

Aldamótagarðarnir. Fyrstu garðlönd Reykvíkinga. Stofnað var til þeirra að frumkvæði Einars Helgasonar garðyrkjumanns árið 1901 og voru þau í Vatnsmýri fyrir sunnan Gróðrastöðina (nú Einarsgarð). Þar fékk fólk úthlutað reitum til ræktunar kartaflna og kálmetis. Voru við lýði fram yfir seinni heimsstyrjöld.

Aldan. Félag skipstjóra og stýrimanna í Reykjavík. Stofnað 1893. Síðar náði það til skipstjóra og stýrimanna um sunnanvert og vestanvert landið og hét þá einungis Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan.

Aldan. Tvílyft timburhús við Traðarkotssund 6. Þar rak Guðrún Matthíasdóttir kaffihúsið Ölduna frá 1913 fram yfir 1940. Húsið var rifið um 1990.

Aldan. Nýlenduvöruverslun, stofnsett um 1925 á Bræðraborgarstíg 18a af Jóhannesi V. H. Sveinssyni. Var síðan á Öldugötu 41 frá um 1930 og á Öldugötu 29 frá 1954-1984.

Aldarprentsmiðjan. Upphaflega stofnuð af Jóni Ólafssyni ritstjóra 1898 en var frá 1899 í eigu Davids Östlund. Lengi til húsa í Kolasundi. Rekin til um 1914. Einnig nefnd Frækornaprentsmiðjan eða Prentsmiðja Davids Östlund.

Alefli. Byggingaverktakar. Fyrirtækið var stofnsett 1993 af þeim Arnari Guðnasyni og Þorsteini Kröyer. Er til húsa á Þarabakka 3, var áður í Dalhúsum 54.

Alfa. Umboðs- heildverslun, stofnuð af Inga Árdal árið 1941 og rekin til um 1980. Flutti einkum inn vélar.

Alfa. Vefnaðarvöruverslun sem starfrækt var af Marteini Einarssyni 1917-1931. Var fyrst á Laugavegi 5 en frá 1927 í Bankastræti 14.

Alfesca. Sjá Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda.

Alifuglabú Bakarameistarafélagsins. Stofnsett 1941 og rekið til 1983 undir stjórn Norðmannsins Einars Tönsberg. Var nokkurn veginn þar sem nú er Ármúli 32. Alifuglabúið var flutt að Fellsmúla í Mosfellssveit árið 1955.

Alkul. Fyrirtæki í kæli- og frystiútbúnaði, stofnsett árið 1994. Til húsa að Funahöfða 7.

Allegro Suzukitónlistarskólinn. Stofnaður 1998 og fór kennsla að mestu leyti fram í Réttarholtskóla til að byrja með en frá 2003 að Trönuvogi 5. Skólinn byggist á kenningum fiðluleikarans Shinichi Suzuki.

Alliance. Togaraútgerð stofnuð 1905 af Thor Jensen kaupmanni og fimm skútuskipstjórum. Varð eitt stærsta togaraútgerðarfélag landsins fram í seinni heimsstyrjöld. Var með fiskvinnslustöðvar í Ánanaustum í Vesturbænum og við Þormóðsstaði í Skerjafirði. Alliance leið undir lok sem togaraútgerðarfélag um 1965.

Alliancehúsið. Tvílyft fiskverkunarhús í klassískum stíl á Grandagarði 2, reist fyrir togarafélagið Alliance árið 1925 eftir teikningum Guðmundar H. Þorlákssonar. Á árunum 1976-2006 var Verslunin Ellingsen í húsunum.

Alliance francais. Stofnað í Reykjavik 1911 með það fyrir augum að auka áhuga á franskri tungu og frönskum bókmenntum. Hefur starfað æ síðan.

Allianz Ísland. Íslandsdeild alþjóðlegs tryggingafélags sem opnaði skrifstofu í Reykjavík 1995. Var fyrst til húsa á Langholtsvegi 115 en síðan á ýmsum stöðum svo sem Síðumúla 32 og Skaftahlíð 24.

Allied Domecq Ísland. Sjá Mekka Wines & Spirits.

Allra best. Söluturn í Stigahlíð 45-47. (Kominn 1988)

Allrahanda. Hópferðafyrirtæki, stofnað 1989 af Þóri Garðarssyni og Sigurdóri Sigurðssyni. Skrifstofa þess er í Hafnarstræti 20.

Allt. Verslun með margs konar gjafavörur og fatnað. Stofnsett 1986 af Vigdísi Stefánsdóttur og fleirum. Rekin til 1999 í Drafnarfelli 6. Einnig heildsala með hannyrðavörur, námskeið, bókaútgáfa og fleira undir sama nafni.

Allt í einu. Söluturn í Jafnaseli 6 (Kominn 1996)

Almannadalur. Dalverpi í landi Grafarholts sem gengur upp í Hólmsheiðina austan Rauðavatns, beint norður af Rauðhólum. Alfaraleið fyrr á öldum. Þar byggðu hjónin Aðalsteinn Jónsson og Þorgerður Árnadóttir samnefndan sumarbústað upp úr 1930 sem fljótlega varð að heilsársbústað þeirra. Búið var í húsinu til 1983. Síðar voru reistir þar fleiri sumarbústaðir og um árabil var sprengiefnageymsla borgarinnar á afgirtu landsvæði í dalnum. Bifreiðaklúbbur Reykjavíkur fékk úthlutað landi í Almannadal 1967 og reisti þar skála. Árið 2002 var ákveðið að dalurinn og hluti Hólmsheiðar yrði framtíðarathafnasvæði Hestamannafélagsins Fáks og þar yrði jafnframt hestahúsabyggð félagsins.

Almannavarnanefnd Reykjavíkur.  Hefur starfað frá 1963. Hlutverk hennar er að skipuleggja og framkvæma ráðstafanir vegna hernaðaraðgerða, náttúruhamfara eða annarrar vár.  Nær nú til alls höfuðborgarsvæðisins.

Almenna auglýsingastofan. Stofnuð 1983 upp úr Auglýsingastofu SGS. Starfrækt til um 1994. Var m.a. til húsa á Klapparstíg 26 og síðar í Síðumúla 27.

Almenna bílaverkstæðið. Stofnað 1991 af Kristmundi Þórissyni og Ríkharði Kristinssyni. Hefur frá upphafi verið í Skeifunni 5.

Almenna bókafélagið. Stofnsett 1955, ekki síst til mótvægis við Mál og menningu. Fyrsti stjórnarformaður var Bjarni Benediktsson ráðherra en í bókmenntaráði félagsins voru m.a. skáldin Gunnar Gunnarsson, Davíð Stefánsson, Guðmundur Hagalín, Kristmann Guðmundsson og Tómas Guðmundsson. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Eyjólfur Konráð Jónsson. Höfuðstöðvar þess voru í Austurstræti 18. Almenna bókafélagið var eitt helsta bókaforlag landsins um langt skeið en upp úr 1990 hallaði undan fæti og var það gjaldþrota árið 1996. Vaka-Helgafell keypti það þá og rak áfram undir sama nafni. Með sameiningu Vöku-Helgafells og Máls og menningar árið 2000 komst það undir Eddu-útgáfu. Frá 2011 er Almenna bókafélagið rekið af BF-útgáfu í Fákafeni 11.

Almenna byggingafélagið. Stofnað 1941 af verkfræðingunum Gústaf Pálssyni og Árna Snævarr og varð eitt fyrsta stóra verktakafyrirtækið á Íslandi. Það reisti stórhýsið Borgartún 7 og var þar lengst af með höfuðstöðvar. Félagið hætti starfsemi á árunum 1971-1974 en segja má að Almenna verkfræðistofan, sem stofnuð var 1971, sé arftaki þess.

Almenna fasteignasalan. Stofnsett 1944 af Brandi Brynjólfssyni lögfræðingi og starfrækt á ýmsum stöðum í bænum til 1999.

Almenna húsamálunin. Málaraverktakafélag, stofnað 1947 af Ástvaldi Stefánssyni, Hjálmari Kjartanssyni og Ólafi T. Jónssyni. Starfrækt til um 1990.

Almenna húsgagnavinnustofan. Stofnsett 1945 af Jóni Þorvaldssyni, Ólafi H. Guðmundssyni og Sigurði Úlfarssyni. Alla tíð á Vatnsstíg 3B en starfseminni var hætt 1976(?)

Almennar tryggingar. Vátryggingarfélag, stofnsett 1943. Var til húsa fyrstu árin í Austurstræti 10 en fluttist 1961 í nýtt stórhýsi sitt að Pósthússtræti 9. Sameinaðist Sjóvá árið 1988 undir nafninu Sjóvá-Almennar tryggingar (sjá).

Almenna verkfræðistofan. Umsvifamikil verkfræðistofa sem sérhæft hefur sig á sviði bygginga-, véla- og umhverfisverkfræði. Stofnuð 1971 af Almenna byggingafélaginu og verkfræðingum þess. Var fyrsta árið til húsa á Suðurlandsbraut 32 en frá 1972 í Fellsmúla 26.

Almenna verslunarfélagið. Verslun með bíla, vélar, byggingarefni, hreinlætistæki o.fl. Sofnsett 1961(?) og starfrækt til 1979(?), fyrst að Laugavegi 168, síðan í Skipholti 15.

Almenni hlutabréfasjóðurinn. Stofnaður 1990 sem dótturfyrirtæki Fjárfestingarfélagsins (sjá). Starfaði til 2001 þegar hann sameinaðist hlutabréfasjóðnum Auðlind (sjá).

Almenni lífeyrissjóðurinn. Stofnaður 2003 með sameiningu Lífeyrissjóðs arkitekta og Almenns lífeyrissjóðs Íslandsbanka. Síðar hafa lífeyrissjóðir hljómlistarmanna, leiðsögumanna, lækna og tæknifræðinga sameinast sjóðnum.

Almennur lífeyrissjóður iðnaðarmanna. Stofnsettur 1964 að frumkvæði Landsambands iðnaðarmanna. Var sameinaður Lífeyrissjóðnum Framsýn árið 1996.

Almindelige Handelskompagni (Almenna verslunarfélagið). Stofnað 1747 í Kaupmannahöfn, hafði einkaleyfi á allri Íslandsverslun á árunum 1764-1774 og eignaðist jafnframt iðnaðarstofnanirnar í Reykjavík (Innréttingarnar) og rak þær.

Alno innréttingar. Verslun, stofnsett 1982 á Grensásvegi 8 af Arnari Sigurðssyni, Helenu Guðmundsdóttur, Reynald Jónssyni og Sesselju Guðmundsdóttur. Hét fyrstu árin Alno eldhús. Hætti um 2008.

Alnæmissamtökin á Íslandi. Einnig kölluð HIV-Ísland. Stofnsett 1988 sem samtök áhugafólks um alnæmisvandann. Aðsetur þeirra er á Hverfisgötu 69.

Alprent. Fyrirtæki sem stofnað var 1983 til annast setningu og umbrot Alþýðublaðsins og Helgarpóstsins. Eftir að Alþýðublaðið hætti að koma út 1997 voru tæki félagsins seld til Akureyrar.

Alvarr. Borunarfyrirtæki, stofnsett 1985 af Friðfinni K. Daníelssyni, hefur staðið fyrir jarðborunum víða um land. Félagið var stofnað á Akureyri en hefur  haft aðsetur í Skipholti 68 síðari árin.

Alveg milljón. Hugmyndasmiðja, stofnsett árið 2000 af Margréti Blöndal og Inger Önnu Aikman. Var fyrst í Hafnarfirði en síðari árin í Ármúla 20.

Alzheimerfélagið. Félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimersjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma. Stofnað árið 1985.

Alþingishúsgarðurinn. Sunnan við Alþingishúsið, fyrsti opinberi skrúðgarðurinn á Íslandi. Hafist var handa um gerð hans 1893 að frumkvæði Tryggva Gunnarssonar bankastjóra og alþingismanns en hann er sjálfur grafinn í garðinum.

Alþingishúsið. Reist árið 1881 á Austurvelli. Arkitekt Ferdinand Meldahl. Kringlan sunnan við húsið er frá 1908, teiknuð af Fr. Kjörboe. Skálinn, þjónustubygging Alþingis vestan og sunnan við húsið, var tekinn í notkun 2002, arkitektar Jón Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson.

Alþjóðaflugþjónustan. Hefur verið starfrækt á Reykjavíkurflugvelli frá 1948 sem deild innan Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Undir hana heyrir flugumferðarsjtórn og fjarskipti á N-Atlantshafi.

Alþjóðahúsið. Stofnsett 2001 af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu ásamt Reykjavíkurdeild Rauða krossins. Tilgangur þess er að auðvelda aðlögun iunnflytjenda að íslensku samfélagi. Var fyrstu árin að Hverfisgötu 18 en flutti að Laugavegi 37 árið 2010 eftir stutta veru í Ofanleiti 2.

Alþjóðalíftryggingafélagið. Stofnsett árið 1966 en formlega lagt niður árið 2002 þegar Kaupþing banki hafði eignast meirihluta hlutafjár í félaginu.

Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi (ABÍ). Stofnað 1970 til að gangast fyrir alþjóðlegri ábyrgð á bílum. Starfar núna einkum sem tjónsuppgjörs- og upplýsingamiðstöð. Helstu tryggingafélögin eiga aðild að ABÍ.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (Riff). Hefur verið haldin árlega síðan 2004 af samtökum áhugafólks og fagmanna á sviði kvikmyndagerðar.

Alþjóðleg ungmennaskipti (AUS). Íslandsdeild alþjólegra samtaka, International Christian Youth Exchange, sem hafa það að markmiði að stuðla að friði og skilningi milli einstaklinga og þjóða og eyða fordómum. Stofnuð 1962 í Reykjavík.

Alþýðubandalagið í Reykjavík. Stofnað 1966 á átakafundi í Lídó. Fyrsti formaður félagsins var Magnús Torfi Ólafsson. Starfaði til um 1999.

Alþýðubankinn. Stofnsettur 1970 upp úr Sparisjóði alþýðu (sjá). Höfuðstöðvar hans voru að Laugavegi 31. Rann inn í nýstofnaðan Íslandsbanka árið 1990.

Alþýðublaðið. Fyrra blaðið með þessu nafni kom óreglulega út í Reykjavík á árunum 1906-1907 og var róttækt verkalýðsblað. Ritstjóri þess var Pétur G. Guðmundsson. Seinna blaðið var dagblað og var málgagn Alþýðuflokksins á árunum 1919-1997. Fyrsti ritstjóri þess var Ólafur Friðriksson.

Alþýðubókasafn Reykjavíkur. Sjá Borgarbókasafn Reykjavíkur.

Alþýðubrauðgerðin. Stofnuð 1917 að frumkvæði Verkamannafélagsins Dagbrúnar en fyrir atbeina Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins. Fyrsti framkvæmdastjóri hennar var Jón Baldvinsson. Var fyrsta árið til húsa í Fischersundi 3 en frá 1918 á Laugavegi 61. Byggði stórhýsi á Laugavegi 63 (Vitastígsmegin) á árunum 1942-44og átti frumkvæði að stofnun Rúgbrauðsgerðarinnar og fleiri fyrirtækjum. Hafði að jafnaði 10-15 útsölur í bænum. Hætti 1977.

Alþýðuflokksfélag Reykjavíkur. Stofnað 1938. Fyrsti formaður þess var Haraldur Guðmundsson.

Alþýðuhús Reykjavíkur. Stórhýsi sem Alþýðuflokkurinn og Fulltrúaráð verkalýðsfélagananna reisti í sameiningu árið 1935 á Hverfisgötu 8-10. Áður höfðu verið á lóðinni bráðabirgðahús á vegum Alþýðuflokksins. Arkitekt nýja hússins var Þórir Baldvinsson. Þar voru skrifstofur flokksins og verkalýðsfélaga en auk þess aðsetur Alþýðublaðsins og Alþýðuprentsmiðjunnar. Myndað var hlutafélag um húsið 1940 og fleiri eignir og var það að lokum selt árið 2001 undir hótelrekstur.

Alþýðuhúskjallarinn. Sjá Ingólfs Café.

Alþýðuleikhúsið. Róttækt leikhús, stofnað á Akureyri 1975 af Arni Jónssyni, Böðvari Guðmundssyni, Þórhildi Þorleifsdóttur, Þráni Karlssyni og fleirum. Flutti til Reykjavíkur 1978 og var starfrækt þar til um 1994. Sýningar fóru fram á ýmsum stöðum, svo sem Lindarbæ, Hafnarbíói, Kjarvalsstöðum, Hlaðvarpanum og í Hafnarhúsinu.

Alþýðulestrarfélag Reykjavíkur. Stofnað 1901 fyrir forgöngu Tryggva Gunnarssonar bankastjóra og Þorleifs H. Bjarnarsonar kennara. Tilgangur þess var að glæða lestraráhuga og fróðleiksfýsn alþýðu. Rak lestarstofu í Reykjavík sem var á ýmsum stöðum, svo sem í Kirkjuhvoli, Pósthússtræti 14 og Lækjargötu 6a. Rekstrinum var hætt 1923 þegar félagið sameinaðist Alþýðubókasafninu.

Alþýðuprentsmiðjan. Stofnsett 1926 fyrir atbeina Hallbjarnar Halldórssonar. Var fyrst til húsa í gamla Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu en frá 1936 í nýja Alþýðuhúsinu, Hverfisgötu 8-10. Síðast eða frá um 1972 var prentsmiðjan á Vitastíg 10 og var hún rekin til ársloka 1984. Alþýðublaðið var prentað í Alþýðuprentsmiðjunni til 1972.

Alþýðusamband Íslands. Allsherjarsamtök verkalýðs, stofnuð 1916 í nánum skipulagstengslum við Alþýðuflokkinn. Þau tengsl voru rofin 1940. Fyrsti forseti Alþýðusambandsins var Ottó N. Þorláksson. Höfuðstöðvar þess hafa alla tíð verið í Reykjavík.

Alþýðuskólinn. Stofnaður 1935 sem kvöldskóli með námsflokkasniði. Rekinn fyrst af  ASÍ og síðan Menningar- og fræðslusambandi alþýðu. Var til að byrja með í Austurstræti 14, síðan lengi í Stýrimannaskólanum við Öldugötu og loks í Melaskóla og Austurbæjarskóla. Skólastjóri lengst af dr. Símon Jóhannes Ágústsson.  Mun hafa hætt um 1950.

Amadeus. Hársnyrtistofa, stofnuð 1985 af Jökli Jörgensen. Var fyrst á Laugavegi 59 en frá 1990 á Laugavegi 62.

Amadeus Ísland. Stofnað í Reykjavík 1988 í því skyni að selja og þjónusta alþjóðlega flugbókunarkerfið Amadeus.

Amatörverslunin.  Ljósmyndavöruverslun, stofnsett af Þorleifi Þorleifssyni 1925 og var hún fyrst lengi til húsa í Austurstræti 12 og Austurstræti 6 en frá 1955 á Laugavegi 55 og loks Laugavegi 82 til um 1993.

Amazon. Sérverslun með gæludýr, stofnuð af Árna, Gylfa og Helga Helgasonum 1979. Var fyrsta árið á Njálsgötu 86 en síðan á Laugavegi 30 þar til hún hætti 1999.

American Field Service. Sjá AFS á Íslandi.

American Red Cross Recreation Center. Sjá Skátaheimilið við Snorrabraut.

American Style. Skyndibitastaðir, sá fyrsti var opnaður 1985 í Skipholti 70. Árið 2010 voru sex skyndibitastaðir með þessu nafni, þar af fjórir í Reykjavík; auk Skipholts 70 í Tryggvagötu 26, Bolholti 4 og Bíldshöfða 14. Stofnendur voru Einar Ásgeirsson og Bjarni Óskarsson.

Ameríska bókasafnið.

Amiina. Strengjakvartett sem varð til í Tónlistarskólanum í Reykjavík um 1999. Hefur spilað víða um heim, einkum á tónleikum með hljómsveitinni Sigur-rós. Í kvartettinum voru upphaflega Edda Rún Ólafsdóttir, María Huld Markan Sigfúsdóttir, Ólöf Júlía Kjartansdóttir og Sólrún Sumarliðadóttir en frá 2002 kom Hildur Ársælsdóttir í stað Ólafar.

Amnesty International Íslandsdeild. Stofnuð 1974 í Reykjavík. Hreyfingin berst fyrir mannréttindum á alþjóðlega vísu. Aðsetur Íslandsdeildar er í Þingholtsstræti 27.

Amor. Sælgætisgerð, stofnsett um 1958 af Stanley Kiernan ásamt Efnablöndunni hf. Bæði fyrirtækin voru til húsa að Melavöllum við Rauðagerði og rekin til 1978.

Amper. Raftækjavinnustofa, stofnsett 1950 af Árna Brynjólfssyni, Guðjóni Ingvarssyni og fl. Var fyrstu árin í Þingholtsstræti 21, síðar í Rauðalæk 16 og víðar. Starfaði fram undir árið 2000.

Amtmannsbrú. Sjá Gunnlaugsensbrú.

Amtmannshúsið. Tvílyft timburhús, reist 1879 af amtmönnunum Magnúsi Stephensen og Eggerti Theodór Jónassen, að Ingólfsstræti 9. Höfundur hússins, sem var í nýklassískum stíl, var Helgi Helgason. Húsið var stundum kallað Mikligarður eða Uppsalir. Rifið 1972.

Amtmannsstígur. Gata frá Lækjargötu að Ingólfsstræti. Fékk þetta nafn eftir Amtmannshúsinu (sjá). Var oft áður nefndur Smithsstígur.

Ananda Marga. Indversk  jóga- og hugleiðsluhreyfing sem barst til Íslands 1975. Frá árinu 1977 hefur hreyfingin rekið leikskóla í Reykjavík, frá 1985 í Sælukoti að Þorragötu 1 í Skerjafirði sem reist var undir skólann. Ennfremur rekur Ananda Marga Jógaskóla í Efstasundi 26.

Andalúsía. Uppnefni á amk. tveimur húsum þar sem Einar H. Kvaran bjó en hann var frumkvöðull sálarrannsókna (andarannsókna). Þetta eru húsin Stýrimannastígur 6 og Mjóstræti 2.

Andapollurinn. Lítil andatjörn í almenningsgarði við Hólmasel í Breiðholti.

Andersen & Lauth. Klæðaverslun, stofnsett 1918 af klæðskerunum Ludvig Andersen og O.J. Lauth en áður hafði Andersen rekið eigin fataverslun og klæðskeraverkstæði frá 1910 í Reykjavík. Fyrstu árin var verslunin í Kirkjustræti 10 en síðan í Austurstræti 6 frá 1924-1940. Frá 1941 var verslunin að Vesturgötu 17 og einnig voru um árabil rekin útibú á Laugavegi 39, Laugaveg 28 og í Glæsibæ. Verslanirnar hættu árið 1978 en nafnið var endurvakið árið 2007 þegar Gunnar Hilmarsson og Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir hófu framleiðslu á tískufötum undir þessu merki og opnuðu tískuverslun á Laugavegi 7.

Andresen & Scmidt. Verslunarfélag í Kaupmannahöfn sem rak verslun í Jóska húsinu (Hafnarstræti 16) á árunum 1821-1843.

Andrews Memorial Field House. Sjá Hálogaland.

Andrés. Klæðskeraverkstæði og verslun, stofnað af Andrési Andréssyni 1908. Lengi kallað Andrés Andrésson, síðan stundum Hjá Andrési og loks einungis Andrés. Var í Þingholtsstræti 1 til 1913, þá í Bankastræti en frá 1918 að Laugavegi 3. Flutti þaðan í Ármúla 5 þar sem hún var í fá ár. Árið 1971 opnaði fyrirtækið búðir á tveimur stöðum, í  Aðalstræti 16 þar sem hún var til 1973, og á Skólavörðustíg 22A þar sem hún til um 2005.

Andrésarhús. Steinhús frá 1896 að Óðinsgötu 18, byggt af Andrési Þorleifssyni.

Andri. Umboðs- og heildverslun, stofnsett 1967 af Gunnari Þór Ólafssyni, Ólafi H. Ólafssyni o.fl. Síðar eignaðist Haraldur Haraldsson fyrirtæki og var jafnan kenndur við það. Var um skeið eitt stærsta útflutningsfyrirtæki landsins á sviði sjávarafurða og var einnig aðili að útgerð. Umsvifum þess var að mestu lokið um 1995.

Andríðshóll. Hóll í eyjunni Andríðsey sem sagnir herma að sé haugur Andríðs sem kemur fyrir í Kjalnesingasögu.

Andríðsey. Eyja skammt undan Saurbæ á Kjalarnesi.

Andvaka. Líftryggingafélag, upphaflega Íslandsdeild norsks tryggingafélags sem Helgi Valtýsson stóð að árið 1919. Alíslenskt frá 1950 og þá rekið ásamt með Samvinnutryggingum. Varð hluti af Lífís árið 1990.

Andvari. Bifreiðastjórafélag.

Andvari. Heildverslun, einkum á sviði ritfanga og pappírsvara. Stofnsett 1966 af Ragnari Gunnarssyni. Var fyrst til húsa á Laugaveg 28 en lengst af í Sundaborg 3. Starfrækt fram undir árið 2000.

Anglia. Félag enskumælandi manna á íslandi. Stofnsett í Reykjavík 1921. Fyrsti formaður þess var Ásgeir Sigurðsson konsúll.

Anikuhús. Lítið timburhús, reist árið 1846, nokkurn veginn þar sem nú er gamla Slökkviliðsstöðin við Tjarnargötu. Upphaflega byggði Pétur Eggertsson  beykir húsið en síðar var það kallað Grundtvigshús um skeið. Frá 1862 bjó í því Anika Knudsen og var það eftir það jafnan kallað Anikuhús. Rifið árið 1891.

Anna. Gistiheimili að Smáragötu 16, stofnsett 1996 af Önnu Tryggvadóttur.

Annað veldi. Hugbúnaðarfyrirtæki, stofnað 2002 af Skúla Jóhannssyni.Starfar að Klaparstíg 25-27.

Annata. Alþjóðlegt þekkingarfyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar. Stofnað á Íslandi 2001.

Antíkhúsið. Fornmunaverslun, stofnuð af Fjólu Magnúsdóttur 1988. Var í Þverholti 7 til 1997 en síðan á Skólavörðustíg 21.

Antíkmunir. Fornmunaverslun, stofnuð 1974 af Fjólu Magnúsdóttur og Þórunni Magneu. Var fyrst á Týsgötu 3 en lengi síðan á Laufásvegi 6 og frá 1993 á Klapparstíg 40.

Aparóló. Sjá Melhagaróló.

Apótek. Veitingastaður sem hjónin Guðvarður Gíslason og Guðlaug Halldórsdóttir opnuðu í Austurstræti 16 árið 1999.

Apótekarafélag Íslands.

Apótekarinn. Sjá Lyf og heilsa.

Apótekið. Samheiti lyfjabúða sem upphaflega var komið á legg af Jóhannesi Jónssyni í Bónus árið 1996. Þær runnu svo saman við Hagkaupsapótek 1998. Árið 2010 voru reknar þrjár lyfjabúðir undir nafni Apóteksins í Reykjavík, í Hólagarði, Skeifunni og Spönginni.

Apparat Organ Quartet. Hljómsveit, stofnuð af Jóhanni Jóhannsyni hljóðfæraleikara og tónskáldi árið 1999.

Applebúðir. Ýmsir aðilar hafa farið með Appleumboðið á Íslandi en árið 1990 var opnuð sérstök Applebúð í Skipholti 21, um tíma var hún kölluð Aco Applebúðin. Applebúðin var um nokkurra ára skeið frá 2001 í Skeifunni 17 en hin síðari ár hafa verið tvær Applebúðir, önnur að Laugavegi 182 og hin í Kringlunni.

Arablettir. Um tíu erfðafestulönd á fyrri hluta 20. aldar suðaustan gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar.

Arabær. Mjóstræti 2, upphaflega var þarna torfbær sem hét Hjallakot, reistur um 1800 af Gunnlaugi Narfasyni. Bærinn var síðar kallaður Arabæ eftir Ara Magnússyni sem þar bjó og er núverandi timburhús frá 1902 á lóðinni stundum enn kallað þvi nafni.

Arahús. Steinbær við Lindargötu 27, reistur af Ara B. Antonssyni 1893. Með viðbyggingum varð hann að lokum að tvílyftu steinhúsi.

Arastöðin. Fiskvinnslustöð og fiskreitir við Háteigsveg (þar sem síðar kom Óháða kirkjan). Rekið af útgerðar- og fiskverkunarfélaginu Ara fróða á árunum 1920-1928. Eftir það var stöðin tekin yfir af Kveldúlfi. Húsin voru rifin laust fyrir 1960.

Arctic.

Arentsstál. Vélsmiðja og renniverkstæði, stofnsett 1985. Var fyrst til húsa að Smiðshöfða 21 en lengst af hefur fyrirtækið verið í Eirhöfða 17.

Argentína steikhús. Veitingahús á Barónsstíg 11a. Stofnsett 1989 af Ingþóri Björnssyni, Tryggva Agnarssyni, Jörundi Guðmundssyni og Anton Narvaze.

Argos. Arkitektastofa Grétars Markússonar og Stefáns Arnar Stefánssonar. Hét Teiknistofan Skólavörðustíg 21 1991-2005 en nafninu var breytt við flutning að Eyjaslóð 9.

Argus. Markaðsstofa, áður auglýsingastofa. Stofnuð 1967 af Hilmari Sigurðssyni og Þresti Magnússyni.

Ari í Ögri. Veitingastaður í Ingólfsstræti 3, stofnsettur 1994 af Fjölvu Guðmundsdóttur og Hrönn Hafsteinsdóttur. Rekinn til 2006.

Arionbanki. Áður Kaupþing banki sem stofnaður var við fall eldra Kaupþings banka árið 2008. Nafnabreytingin varð 2009. Höfuðstöðvar Arionbanka eru í Borgartúni 19.

Arkhönn. Arkitektastofa Guðmundar Þórs Pálssonar og Jóns Ólafssonar. Starfaði á árunum 1972 til um 1985 á Óðinsgötu 7.

Arkibúllan. Arkitektastofa sem þær Hrefna Björg Þorsteinsdóttir, Hólmfríður Jónsdóttir og Heba Hertervig stofnuðu. Samstarf þeirra má rekja til ársins 1994 en stofan var gerð að formlegu hlutafélagi 1999. Stofan hefur hin síðari ár verið til húsa á Tómasarhaga 31.

Arkitektafélag Íslands. Árið 1936 var Akademíska arkitektafélagið stofnað af arkitektum sem útskrifast höfðu frá fullgildum arkitektaskólum. Nafni þess var breytt í Húsameistarafélag Íslands árið 1939 en frá 1956 hefur það heitið Arkitektafélag Íslands.

Arkitektastofan. Stofnuð 1967 af Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall. Var fyrst til húsa í Álftamýri 9 en flutti 1974 í Síðumúla 23.

Arkitektúr.is. Ráðgjafafyrirtæki á sviði hönnunar, skipulags, mannvirkjaframkvæmda og umhverfismála. Stofnað um 1999 af Helgu Benediktsdóttur og fleirum. Til húsa á Hverfisgötu 26.

Arkís. Arkitektastofa, stofnsett 1997 í framhaldi af teiknistofunni Túngötu 3 sem starfað hafði frá 1986. Stofnendur voru Aðalsteinn Snorrason, Egill Guðmundsson og Gísli Gíslason. Til húsa í Aðalstræti 6.

Arko. Teiknistofa, stofnsett 1973 af Ásmundi Jóhannssyni, Jóni Kaldal og Jóni Róbert Karlssyni. Til húsa að Langholtsvegi 109.

Arkþing. Ráðgjafafyrirtæki á sviði utan- og innanhússhönnunar.  Stofnendur Guðmundur Kr. Guðmundsson og Ólafur Sigurðsson sem hófu samstarf 1970 en Arkþing kom til sögu 1991. Til húsa í Bolholti 8.

Armur. Bílaréttingar og málun. Fyrirtækið var stofnað 1962 og er til húsa í Skeifunni 5.

Arnarborg. Leikskóli til húsa að Maríubakka 1 í Breiðholti, tók til starfa 1972.

Arnarbæli. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Arnarfell. Bókbandsvinnustofa, stofnsett 1945 af Guðjóni Ó. Guðjónssyni og fleirum. Var upphaflega í Borgartúni 4 en síðan á ýmsum stöðum í Reykjavík og Kópavogi, síðast á Vitastíg 3 fram yfir 1990.

Arnarflug (Eagle Air). Flugfélag stofnað árið 1976 af fyrrverandi starfsmönnum Air Viking sem starfað hafði með hléum frá 1970. Var fyrst í leiguflugi en síðan einnig áætlanaflugi, bæði innanlands og til útlanda. Fyrsti forstjóri félagsins var Magnús Gunnarsson. Fyrstu árin hafði Arnarflug skrifstofu á þremur stöðum, Pósthússtræti 13, þá í Síðumúla 34 og loks að Skeggjagötu 1. Frá 1981 var það í Lágmúla 7. Hætti starfsemi 1990.

Arnarfoss. Sjá Kermóafoss.

Arnarholt. Jörð á Kjalarnesi, skammt norðaustan við Brautarholt. Reykjavíkurbær keypti jörðina 1942 og árið 1946 var þar komið upp vistheimili fyrir fólk sem átti við geðræn vandamál að stríða. Starfseminni, sem tilheyrði þá geðsviði Borgarspítalans í Reykjavík, lauk árið 2005.

Arnarholt.  Torfbær við Smiðjustíg 15, kominn um 1835, í stað hans reis þar steinbær upp úr 1880 og loks var reist samnefnt timburhús á lóðinni 1905.

Arnarhóll. Fyrst getið sem sjálfstæðrar jarðar árið1534. Býlið stóð þar sem nú er Ingólfsstyttan á Arnarhóli, það var lagt af árið 1828. Styttan kom 1931.

Arnarhólsholt. Sjá Skólavörðuholt.

Arnarhólsklettur. Klettur niður af Arnarhóli sem var þar sem nú mætast Kalkofnsvegur og Skúlagata.

Arnarhólskot. Einnig nefnt Litli-Arnarhóll. Kotið stóð niður við vörina niður frá Arnarhóli þar sem nú er Seðlabankinn. Fór í eyði um 1800.

Arnarhólslækur. Sjá Lækurinn.

Arnarhólsmýri. Gamalt nafn á Norðurmýri (sjá) og Breiðumýri (sjá).

Arnarhólstraðir. Alfaraleiðin til Reykjavíkur yfir Arnarhólstún. Einnig nefndar Arnarhólstroðningar. Komið var inn í traðirnar þar sem nú eru gatnamót Hverfisgötu og Traðarkotssunds. Sléttað var yfir traðirnar um eða upp úr 1828.

Arnarhólstroðningar. Sjá Arnarhólstraðir.

Arnarhólstún. Tún bóndans á Arnarhóli sem stiftamtmenn og síðar landshöfðingjar beittu búpeningi sínum. Það sem eftir er af túninu hefur frá því snemma á 20. öld verið nýtt af Reykvíkingum til útivistar og samkomuhalds.

Arnarhvoll. Skifstofuhús fyrir ýmsar stofnanir ríkisins á Lindargötu 1. Einnig nefnt Arnarhváll. Húsið, sem tekið var í notkun 1930, er teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Útidyrahurð á horni hússins er skorin út af Ríkarði Jónssyni. Álman meðfram Lindargötu var reist 1945.

Arnarnýpur. Móbergshólar sem standa á mel fyrir sunnan Fóelluvötn og Vatnaás, Bláfjallavegur liggur í milli þeirra. Stærsta nýpan heitir Arnarsetur. Einnig nefndar Arnarþúfur.

Arnarós. Nýbýli á erfðafestulandinu Bústaðabletti 7, byggt 1932 en síðar stækkað. Stendur það enn og tilheyrir nú Vogalandi 13.

Arnarsetur. Sjá Arnarnýpur.

Arnarvogur. Langur vogur inn af Gelgjutanga, að nokkru myndaður með uppfyllingum.

Arnarþúfur. Sjá Arnarnýpur.

Arnljótsbær. Torfbær sem stóð á Hverfisgötu 45, reistur af Jóni Arnljótssyni 1879, rifinn um 1914. Einnig nefndur Hlíð.

Artemis. Nærfatagerð, saumastofa og um hríð verslun, stofnuð 1945 af Kjartani Magnússyni og Sigríði Guðmundsdóttur. Var fyrstu árin á Hverfisgötu 42 en síðar á ýmsum stöðum, frá 1981 í Skeifunni 9. Rekin til um 1998.

Artfart. Sviðslistahátíð, haldin hvert sumar í Reykjavík síðan 2006. Tilraunvettvangur ungs listafólks til að stuðla að nýsköpun og framúrstefnu í íslenskri sviðslist.

Art form. Gjafavöruverslun á Skólavörðustíg 20, stofnuð um 1997.

Artótek. Listhlaða Borgarbókasafnsins í Grófarhúsinu sem leigir og selur íslenska samtímalist til almennings og fyrirtækja. Opnað 2004.

Artun Camp. Sjá Camp Pershing.

ASB. Sjá Félag afgreiðslustúlkna í brauða- og mjólkursölubúðum.

Asbesthúsið. Stóð við Geirsgötu og Faxagötu, í húsinu var Togaraafgreiðslan lengst af til húsa, einnig Kranaafgreiðslan. Húsið var stundum nefnt Kósangashúsið því að þar geymdi Zimsen kósangaskúta.

Aseta. Fyrirtæki, upphaflega stofnað sem dótturfyrirtæki Ármannsfells 1980. Flytur inn byggingakrana, steypumót, járnvörur og fleira. Var lengst af til húsa í Ármúla 16, síðan um hríð á Tunguhálsi 19 en loks að Gylfaflöt 5.

Ashvale Camp. Braggahverfi sem reis á stríðsárunum þar sem nú er sunnanverð lóð Háskóla Íslands, við Nýja Garð og Íþróttahús Háskólans.

Asiaco. Heildverslun og umboðssala á sviði sjávarútvegs og útflytjandi sjávarafurða. Stofnað 1959 af Kjartani Jóhannssyni og hét þá Asíufélagið. Nafnið breyttist í Asiaco 1979. Höfuðstöðvar félagsins voru til 1961 í Hafnarstræti 11 en eftir það að Vesturgötu 2. Hætti starfsemi 1992.

ASIS. Ljósmyndastofa, stofnuð 1947 af  Jóhönnu Sigurjónsdóttur og Ingibjörgu Sigurðardóttur, rekin til 1979. Var lengi í Austurstræti 5 en flutti um 1960 að Laugavegi 13.

Asía. Veitingahús að Laugavegi 10, stofnsett 1989 af Kára frá Víetnam og Gilbert frá Hong Kong.

Asíufélagið. Sjá Asiaco.

Askar Capital. Alþjóðlegur fjárfestingarbanki, stofnaður 2006, með mikil áform á prjónunum. Milestone var stærsti hluthafinn en fyrsti forstjóri bankans var Tryggvi Þór Herbertsson. Bankinn hafði höfuðstöðvar sínar að Suðurlandsbraut 12 en fór í þrot árið 2010.

Ask arkitektar. Arkitektastofa, stofnsett 2005 en á rætur allt til ársins 1987 þegar Árni Friðriksson, Páll Gunnlaugsson og Valdimar Harðarson hófu samstarf. Er til húsa í Skógarhlíð 18.

Askja. Bílaumboð, stofnað 2004 með umboð fyrir DaimlerChrysler bílaverksmiðjurnar. Var fyrst til húsa að Laugavegi 170 en síðan á Krókhálsi 11. Stjórnarformaður fyrirtækisins er Tryggvi Jónasson.

Askja. Félagsmiðstöð.

Askja. Náttúrufræðihús Háskóla Íslands að Sturlugötu 7 í Vatnsmýri, arkitekt Maggi Júl. Jónsson. Tekið í notkun 2004.

Askja.  Fyrirtæki á sviði pappírsiðnaðar, stofnað 1941 af Gunnari Árnasyni og fleirum. Til húsa í Höfðatúni 12 en hætti starfsemi eftir 1952.

Askja. Sjálfstætt starfandi leikskóli, byggður á Hjallastefnunni. Tók til starfa að Nauthólsvegi 87 árið 2009.

Askur. Einn fyrsti veitingastaðurinn hér á landi sem bauð upp á hamborgara að amerískum sið, stofnsettur 1966 af Magnúsi Björnssyni.Var við Suðurlandsbraut 14 til 1993 en staðurinn Askur Steikhús nr. 4 við sömu götu var opnaður árið 1988 og er enn rekinn. Ennfremur var um tíma Askur við Laugaveg 28.

Askur. Útgerðarfélag, stofnað 1940 af Pétri Magnússyni, Thorsbræðrum og fl. Gerði út togara á stríðsárunum og lengur.

A.Smith. Þvottahús, stofnsett af Adolf Smith árið1946. Hefur frá upphafi verið að Bergstaðastræti 52.

Assesorshús. Einlyft timburhús á Laugavegi 1, reist árið 1848 af Ágúst Thomsen. Þar bjó Jón Pétursson assessor frá 1849 til dauðadags 1896 og var það þá kallað þessu nafni.

Astma- og ofnnæmisfélagið. Stofnað 1974 til að berjast fyrir hagsmunum þeirra sem eru með astma eða ofnæmi. Aðsetur félagsins er í Síðumúla 6.

Astor og co. Umboðs- og heildverslun, stofnsett 1947 af Pétri Gunnarssyni o.fl. Til húsa í Þórufelli 12.

Astro. Veitinga- og skemmtistaður í Austurstræti 22, rekin á árunum 1994-2003.

Athugun. Bifreiðaskoðun, stofnuð af trygginga- og olíufélögum, árið 1995. Hefur frá upphafi verið í Klettagörðum 11.

Athygli. Almenningstengslafyrirtæki, stofnað 1989 fyrir tilstilli GBB auglýsingaþjónustunnar af þeim Ómari Valdimarssyni, Helgu Guðrúnu Johnson og Guðjóni Arngrímssyni.

Atmo. Tísku- og hönnunarhús til húsa að Laugavegi 91. Upphaflega sett á laggnirnar af Eskimo models árið 1999 sem umboðsskrifstofa fyrir ljósmyndara, stílista og förðunarfræðinga.

Antlantic Camp. Braggahverfi á stríðsárunum nálægt því sem úr er Kvisthagi.

Atlantik. Ferðaskrifstofa, stofnsett 1978 af Böðvari Valgeirssyni. Var fyrst til húsa í Iðnaðarmannahúsinu við Hallveigarstíg en hefur síðari árin verið á Grandagarði 14.

Atlas. Umboðs- og heildverslun á sviði vél- og tæknibúnaðar. Stofnsett 1969 af Ásgeiri Valhjálmssyni. Var lengi í Grófinni 1 og síðan Borgartúni 24. Flutti í Hafnarfjörð 2003.

Aton (Atonal Future). Tónlistarhópur sem starfaði á árunum 1998-2007 og sérhæfði sig í að flytja nýja íslenska tónlist. Stundum kallaður Atónal hópurinn. Helsti forsprakki hans var Berglind María Tómasdóttir.

Atóma. Húsgagnaverslun. Stofnsett 1946 og rekin af þeim Halldóri Magnússyni og Jóni Guðmundssyni á Njálsgötu 49. Hætti 1952.

Atómstöðin. Margmiðlunarfyrirtæki sem hóf starfsemi árið 2000. Aðaleigandi Auglýsingastofan Fíton. Hefur verið á ýmsum stöðum, síðast í Túngötu 5.

Atvinnudeild Háskólans. Stofnuð með lögum 1935 til að styðja við atvinnulíf landsmanna með rannsóknum. Tók til starfa í nýju húsi á háskólalóðinni 1937 og var skipti í þrjár deildir, fiskideild, iðnaðardeild og búnaðardeild. Árið 1965 var atvinnudeildinni skipt upp í fimm sjálfstæðar stofnanir í Reykjavík: rannsóknastofnanir byggingariðnaðarins, iðnaðarins, landbúnaðarins og fiskiðnaðarins auk Hafrannsóknastofnunar.

Atvinnumálahópur Reykjavíkurborgar. Skipaður 2009 til að fylgjast með og fjalla um atvinnumál ungs fólks.

Atvinnumálanefnd Reykjavíkur.

Atvinnumiðlun námsmanna. Starfrækt frá 1978 í Félagsstofnun stúdenta.

Atvinnu- og ferðamálaskrifstofa Reykjavíkurborgar. Stofnsett 1995, til húsa í Aðalstræti 6.

Auðhumla. Samvinnufélag mjólkurbænda og móðurfélag Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Hefur aðsetur að Bitruhálsi 1.

Auðkenni. Hlutafélag stofnað árið 2000 til að greiða fyrir auknu öryggi í rafrænum viðskiptum. Til húsa að Engjateigi 3.

Auðlind. Hlutabréfasjóður, stofnaður 1990 sem dótturfyrirtæki Kaupþings (sjá). Var leystur upp 2002 og sameinaður Kaupþing banka.

Auðnar. Hús á erfðafestulandi á Laugarásbletti 12 við Langholtsveg (ath)

Augað. Gleraugnaverslun sem verið hefur í Kringlunni frá upphafi 1987, rekin af Gunnari Þór Benjamínssyni. Um tíma var verslunin einnig rekin í Spönginni.

Augasteinn. Heildverslun fyrir smásjár og rannsóknarvörur. Stofnuð 1990 af Stefáni Gunnarssyni. Til húsa í Súðarvogi 7.

Augljós merking. Skiltagerð, límmiðar, gluggamerkingar og fl. Fyrirtækið var stofnað 1991.

Auglýsingamiðlun. Birtingafyrirtæki á sviði auglýsingaþjónustu, stofnað árið 2001 af þremur auglýsingastofum. Til húsa í Garðastræti 38.

Augnlæknamiðstöðin. Sjá Augnlæknar Reykjavíkur.

Auglýsingastofa Íslands. Fyrsta auglýsingastofa landsins, stofnuð 1923 af Engilbert Hafberg og rekin um árabil.

Auglýsingastofan. Stofnsett 1961 af Gísla B. Björnssyni og rekin undir þessu nafni til 1981. Gerði fyrstu íslensku sjónvarpsauglýsinguna. Var fyrst í Þingholtsstræti 3, frá 1965 í Lindarbæ við Lindargötu en frá 1971 í Lágmúla 5. Árið 1985 hét fyrirtækið GBB auglýsingaþjónusta og var þá í Brautarholti 8. Gísli seldi sinn hlut í stofunni árið 1989 og breyttist nafn hennar árið eftir í Hvíta húsið.

Auglýsingaþjónustan. Stofnsett 1962 af Sverri Kjartanssyni og fleirum. Sameinaðist Auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar 1986. Var lengst af til húsa á Laugavegi 87.

Augnlæknar Reykjavíkur. Læknamiðstöð í Hamrahlíð 17 sem tók til starfa 2004. Tók hún við Augnlæknamiðstöðinni á Öldugötu 17 en hún hófst sem göngudeild augndeildar Landakotsspítala um 1973.

Augnlæknastofan í Mjódd. Hefur verið starfrækt að Álfabakka 14 frá um 1990.

Augnlæknastöðin. Hefur starfað í Kringlunni frá 1999.

Auk. Auglýsingastofa Kristínar Þorkelsdóttir. Byrjaði að láta að sér kveða upp úr 1961 og var í Kópavogi. Síðari áratugina hefur hún verið í Skipholti 50a í Reykjavík.

Aurum. Skartgripafyrirtæki, stofnað 1999 af Guðbjörgu Kristínu Ingvarsdóttur. Verslun fyrirtækisins er í Bankastræti 4.

Austfirðingafélagið. Átthagafélag Ausfirðinga í Reykjavík, stofnað 1904 en lagt niður 2002.

Austur-Bar. Matar- og kaffibar í norðausturenda Austurbæjarbíós, opnaður árið 1957 og var rekinn fram yfir 1970. Innréttaður af Sveini Kjarval. Þar var fyrsti glymskrattinn (djúkboxið) á Íslandi

Austurbakki. Einn af Bakkabæjunum milli Bakkastígs og Brunnstígs, reistur um 1870 af Ingimundi Sigurðssyni. Einnig nefndur Ingimundarbakki. Á lóðinni reis síðar Stálsmiðjan.

Austurbakki. Hafnarkantur í austanverðri gömlu Reykjavíkurhöfn, fyrsti bakkinn var gerður 1918-1921 en 1942 var hann lengdur að Miðbakka. Stundum kallaður Kolabakkinn þvi við hann fór fram kolauppskipun.

Austurbakki. Umboðs- og heildsala á sviði hjúkrunarvara, lyfja, íþróttavara og víns, stofnuð 1967 af Árna Árnasyni. Var fyrstu árin í Suðurveri við Stigahlíð en lengst af í Borgartúni 20 eða frá 1979 til um 1999, eftir það á Köllunarklettsvegi 2. Hvarf þegar fyrirtækið gekk inn í samsteypuna Icepharma hf. árið 2006.

Austurborg. Leikskóli til húsa að Háaleitisbraut 70, tók til starfa 1974.

Austurbrún.  Gata efst og austast í Laugarási. Henni var gefið nafn 1953.

Austurbugt. Sá hluti gömlu Reykjavíkurhafnar sem liggur innan Ingólfsgarðs, fyrir framan tónlistarhúsið Hörpu. Nafngiftin er frá 1982 og voru húsin þar upp af talin til Austurbugtar.

Austurbæjarapótek. Stofnsett 1953 af Karli Lúðvíkssyni. Varð hluti af  Lyf jum og heilsu 1999. Apótekið hefur frá upphafi verið á Hágteigsvegi 1.

Austurbæjarbíó. Tók til starfa 1947. Arkitektar Hörður Bjarnason og Gunnlaugur Pálsson. Eigendi bíósins var hlutafélag en margir hluthafarnir voru tengdir Tónlistarfélagi Reykjavíkur enda voru tónleikar félagsins um langt árabil haldnir í húsinu. Þar fóru einnig fram revíur, miðnætusýningar Leikfélags Reykjavíkur og margs konar skemmtanir auk fundarhalda, svo sem félagsfunda Verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar. Einnig voru fluttir þar söngleikir og frægar erlendar hljómsveitir, svo sem Kinks og Searchers, héldu þar tónleika.  Árið 1987 var bíónu gjörbreytt, bæði utan dyra og innan, og eftir það kallað Bíóborgin. Kvikmyndasýninginum var nætt 2002 og um skeið leit út fyrir að húsið yrði rifið. Svo varð þó ekki og um skeið var rekin þar starfsemi undir nafninu Austurbær. Árið 2009 var húsið opnað sem Austurbæjarbíó, hús unga fólksins, og er rekin þar margvísleg starfsemi.

Austurbæjarskóli. Við Vitastíg. Tók til starfa 1930 og þótti þá einhver fullkomnasti barnaskóli á Norðurlöndum. Arkitekt hússins er Sigurður Guðmundsson en lágmyndir á húsinu eru eftir Ásmund Sveinsson. Fyrsti skólastjórinn var Sigurður Thorlacius.

Austurbær. Sjá Hlíðarhús.

Austurbærinn. Upphaflega sá hluti Reykjavíkur sem var fyrir austan Læk (Lækjargötu).

Austurgarður. Sjá Ingólfsgarður.

Austurheiði. Víðaáttumikið heiðaland austan Grafarholts milli Rauðavatns að sunnan og Reynisvatns að norðan og allt austur að Geithálsi. Heiðin er hæst 125 metrar yfir sjávarmáli. Norðurhlutinn nefnist Reynisvatnsheiði, suðvesturhlutinn Grafarheiði og suðausturhlutinn Hólmsheiði.

Austurhlíð. Býli í Laugardal sem stóð við endann á núverandi Hofteigi. Þar rak Carl Olsen heildsali (Nathan og Olsen) stórbúskap frá árinu 1920 með svína- og kúabúi og gróðurhúsi. Gróðurhúsið var reist 1924 en þá var fátítt að hús væru hituð með jarðvarma. Húsið var byggt yfir heitavatnsleiðslu sem lá frá Þvottalaugunum að Sundlaugunum gömlu. Búskapur í Austurhlíð lagðist niður 1936.

Austurholt. Einlyft timburhús við Framnesveg 64, reist 1904 af Sigurði Hildibrandssyni og Bjarna Guðmundssyni. Áður var á lóðinni steinbær með þessu nafni, líklega frá um 1890 og þar áður torfbæ frá því fyrir 1879. (Voru þetta kannsi Sigurður Hildibrandsson og Björn Guðmundsson – athuga)

Austurhraun. Hraunfláki milli Gráhryggs eystri og vestri í Hólmshrauni norðan Selfjalls.

Austurhöfnin. Sá hluti Gömlu Reykjavíkurhafnar sem er austan Ægisgarðs og var einkum vöruflutningahöfn þar til Sundahöfn tók við því hlutverki.

Austurhöfn TR. Einkahlutaélag, stofnað 2003 af Reykjavíkurborg og ríkinu, til að reisa tónlistarhús við höfnina. Framkvæmdastjóri var ráðinn Stefán Hermannsson.

Austur-Indíafélagið. Indverskt veitingahús á Hverfisgötu 56. Stofnað 1994 af Chandriku Gunnarsson og Gunnari Gunnarssyni. Árið 2003 var stofnað útibú á Hverfisgötu 64a undir nafninu Austurlandahraðlestin og síðar hafa bæst við fleiri veitingastaðir undir því nafni, svo sem í Spönginni 21.

Austurkinn. Bakkar austan í Vesturey Viðeyjar.

Austurkot. Bær við sjóinn í Kaplaskjóli, síðar Faxaskjól 17. Þar reisti Jón Hannesson timburhús á fyrstu árum 20. aldar. Auk þess voru þar tvo pakkhús, fiskverkunarreitir, heyhlaða og hesthús. Þaðan var töluvert útræði auk hefðbundins búskapar. Um árabil annaðist Halldór Halldórsson þar fiskverkun fyrir togarafélagið Alliance. Húsið í Austurkoti mun hafa verið rifið um 1986.

Austurkot. Kot frá því á 19. öld sem stóð suðaustur í túninu á Skildinganesi í Skerjafirði. Síðar var þar hús með sama nafni sem tilheyrði Baugsveg.

Austurlandahraðlestin. Sjá Austur-Indíafélagið.

Austurmörk. Íbúðarhús í Blesugróf, reist árið 1956 af þeim Ingvari Björnssyni og Ingibjörgu Þórðardóttur.

Austurnes.  Timburhús að Baugatanga 5a í Skerjafirði. Upphaflega byggt af Jóni Þorlákssyni forsætisráðherra sem sumarbústaður, líklega um 1929.

Austurpartur. Þriðjungur hinnar fornu jarðar Reykjavíkur var kallaður þessu nafni þegar á 15. öld og virðist þá hafa verið orðinn sjálfstætt býli. Síðar er Austurpartur talinn ein af hjáleigum Reykjavíkur.

Austurpóll. Sjá Pólarnir.

Austurríki. Nafn Reykvíkinga á áfengisútsölu sem rekin var á árunum 1945-1990, fyrst á Hverfisgötu 108 til 1951 en síðan á Snorrabraut 56.

Austurskáli. Pakkhús Eimskipafélagsins sem var á þeim slóðum sem suðurhluti Faxaskála kom síðar. Einnig kallaður USA-skáli vegna þess að Bandaríkjamenn byggðu hann á stríðsárunum.

Austurstræti. Upphaflega stígur bak við húsin í Hafnarstræti, nefndur Tværgaden. Hann var steinlagður um 1820 og var þá kallaður Lange Fortoug, síðar Langastétt.  Gatan fékk núverandi nafn 1848 vegna þess að hún lá í austur frá Aðalstræti í átt að Læknum. Varð ein helsta verslunargata Reykjavíkur langt fram eftir 20. öld.

Austurver. Verslanamiðstöð, upphaflega opnuð 1959 á neðstu hæð hússins Skaftahlíð 24. Sigurður Magnússon var fyrsti framkvæmdastjóri hennar og jafnframt kaupmaður samnefndrar kjörbúðar. Ný og stærri verslun með þessu nafni var svo opnuð á Háaleitisbraut 68 árið 1962  og náði nafnið Austurver brátt yfir verslanamiðstöð sem þarna var.

Austurvigt. Hafnarvigt.

Austurvík.  Vík við austanvert Rauðavatn, nú að mestu þurr.

Austurvöllur. Hús í landi Austurkots í Kaplaskjóli (Faxaskjóli) sem Jón Bergþór Jónsson leikfangasmiður og Elise Jónsson reisti upp úr 1930.

Austurvöllur.  Líklegt er talið að Austurvöllur hafi upphaflega verið tún Reykjavíkurbóndans og fengið nafn sitt af því að það var fyrir austan bæinn. Núverandi völlur er aðeins hluti af upphaflegum Austurvelli. Syðsti hluti hans næst Tjörninni var kallaður Tjarnarvöllur. Á gömlu korti af Reykjavík er Austurvöllur kallaður Köbmandens Eng. Árið 1875 var núverandi völlur sléttaður, girtur og lagðir um hann göngustígar auk þess sem fyrstu styttu bæjarins, Thorvaldsensstyttunni var komið fyrir á honum miðjum.  Árið 1931 var hún flutt í Hljómskálagarðinn og styttan af Jóni Sigurðssyni forseta kom í staðinn. Árið 1937 var járngirðing umhverfis Austurvöll tekin niður, gerðir gegnumgangandi stígar úr öllum hornum hans og að Alþingishúsinu. Blómabeð með hraunhelluköntum voru sett meðfram þeim og umhverfis styttuna. Þar með var Austurvöllur orðinn skrúðgarður. Núverandi skipulag Austurvallar er frá árinu 1962. Austurvöllur hefur alla tíð verið vinsæll útivistarstaður og þar hafa farið fram margvísleg hátíðahöld, íþróttaviðburðir og skemmtanir, einnig mótmælaaðgerðir, svo sem 30. mars 1949 og í Búsáhaldabyltingunni 2009.

Austurvör. Sjá Engeyjarvarir.

Austurvör. Sjá Skildinganesvarir.

Avedabúðin. Sjá Jafnvægi.

Aveda Unique hár og spa. Sjá Jafnvægi.

Avis bílaleigan. Hefur starfað í Reykjavík frá um 1989 þegar Hafsteinn J. Reykjalín, eigandi Ryðvarnarskálans, kom henni á fót. Hafði fyrst höfuðstöðvar í Sigtúni 5 en er nú að Knarrarvogi 2.

A.Wendel. Heildverslun á sviði véla og varahluta, stofnuð 1957 af Adolf F. Wendel. Var til húsa í Sörlaskjóli 26 til 1994, þá í Sóltúni 1 en frá 2007 að Tangarhöfða 1.

Ax. Kvikmyndafélag, stofnað 1992 af Ólafi Rögnvaldssyni.

Axel Ó. Skóverslun. Sett á fót í Reykjavík af Axel Ó. Lárussyni frá Vestmanneyjum eftir gosið þar. Var lengst á Laugavegi 11 og rekin til um 1994.

Axis húsgögn. Fyrirtæki stofnað af Axel Eyjólfssyni á Akranesi 1935. Var í Reykjavík 1947-1973, lengst af í Skipholti 7. Fluttist síðan í Kópavog.

Axminster. Teppagerð og verslun. Stofnsett 1952 af Kjartani Guðmundssyni og var við lýði til 1976. Framan af var fyrirtækið á Laugaveg 45 en frá um 1960 á Grensásvegi 8.

Á. Einarsson & Funk. Byggingarvöruverslun, stofnsett 1919 af Árna Einarssyni og Gustav Funk. Var til húsa í Templarasundi 3 til 1925, flutti þá í Pósthússtræti 9 þar sem hún var til 1933, þá í Tryggvagötu 28 en þar var verslunin til 1958. Þaðan fór hún í Garðastræti 6 en árið 1962 var hún komin í Höfðatún 2 þar sem hún var rekin til um 1967. Frá 1976 til um 1986 var Á. Einarsson & Funk umboðsaðili fyrir Rosenthal-verslunina á Laugavegi 85.

Á mörkum lífs og dauða. Sjá Suðurhlíðar.

Á næstu grösum. Veitingastaður með jurta- og grænmetisfæði, stofnsettur 1978 af Helgu Mogensen og fleirum. Þar hafa einnig verið myndlistarsýningar og fleiri viðburðir. Var fyrst að Laugavegi 42, þá í nokkur ár á Laugavegi 26 en lengst af hefur hann verið á Laugavegi 20B. Var einnig um tíma frá 2004 með útibú á Suðurlandsbraut 52 og í Faxafeni 2006-2007og loks í Kringlunni.

Ábóti. Brimvarnargarður út af Korngarði í Sundahöfn, gerður á árunum 1988-1989. Nafngiftin er frá 1994.

Áburðarverksmiðja ríkisins. Ríkisverksmiðja í Gufunesi sem stofnuð var 1952. Hún var reist fyrir Marshallfé og hófst framleiðsla 1954. Fyrsti forstjóri hennar var Hjálmar Finsson. Reksturinn skiptist í vetnsverksmiðju, köfnunarefnisverksmiðju, ammoníaksverksmiðju, sýruverksmiðju og blöndun. Einnig var verksmiðjan með eigin hafnarmannvirki í Gufunesi. Hún hafði einkaleyfi á innflutningi og sölu áburðar til ársins 1995. Verksmiðjan var seld einkaaðilum 1999, en framleiðslu áburðar var hætt í henni 2002. Áburðarverksmiðjan er enn til sem innflutningsfyrirtæki og er til húsa í Korngörðum 12.

Ábyrgð. Tryggingafélag, stofnsett að tilhlutan Bindindisfélags ökumanna árið 1961. Rann inn í Sjóvá-Almennar árið 1997.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR).  Áfengisverslun ríkisins var stofnuð 1922 og var fyrsti forstjóri hennar P. L. Mogensen. Sameinuð Tóbaksverslun ríkisins árið 1961 og hét eftir það Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR). Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru í Borgartúni 7 en fluttar síðan að Stuðlahálsi 2 árið 1990. Fyrsta vínbúð Áfengisverslunarinnar í Reykjavík var í Hafnarstræti 20 en hún var síðan flutt í Veltusund 1 árið 1926, síðar var hún í Hafnarstræti 5 og loks að Vesturgötu 2 þar sem hún var á stríðsárunum. Pakkhús var í Nýborg (sjá) við Skúlagötu að minnsta kosti frá 1924 og þar var jafnframt áfengisútsala fram til 1965. Eftir að bruggun áfengra drykkja hófst 1935 var bruggunin til húsa í Nýborg til ársins 1970 en þá var hún flutt að Draghálsi 2 en framleiðsludeild fyrirtækisins var seld einkaaðilum 1992. Auk áfengissölu í Nýborg var frá 1945 var vínbúð að Hverfisgötu 108 en hún var flutt að Snorrabraut 56 árið 1951 (Austurríki) og var þar til 1990. Árið 1962 kom svo þriðja áfengisútsalan að Laugarásvegi 1 (Konuríki) og var hún rekin þar til 1988. Árið 1965 kom ný vínbúð á Lindargötu 46 í stað útsölunnar í Nýborg og var þar til 1991. Árið 1987 var opnuð áfengisútsala í Kringlunni og 1988 í Mjódd (frá 2006 að Stekkjarbakka 6). Árið 1989 var opnuð vínbúðin Heiðrún að Stuðlahálsi 2.  Á árunum 1990-2007 var rekin vínbúð í Holtagörðum og frá 2007 í Skeifunni 5.  Árið 1992 var svo opnuð vínbúð í Austurstræti 10 og árið 2008 bættust við tvær nýjar vínbúðir í Reykjavík; í Borgartúni 26 og Skútuvogi 2.

Áfengisvarnanefnd kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði. Frjáls samtök kvenfélaga á svæðinu, stofnuð 1946. Markmið þeirra voru að aðstoða eintaklinga og heimili sem áttu við áfengisvanda að stríða.

Áfengisverslun ríkisins. Sjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Á fitinni. Sjá Norðurkot.

ÁG bifreiðaverkstæði. Upphaflega Bifreiðaverkstæði Árna Gíslasonar sem stofnað var 1954 við Kleppsveg. Árið 1962 flutti það í Dugguvog 23 og þaðan í Tangarhöfða 8-12 árið 1978 og var þar rekið í mörgum deildum, m.a. heildsala og varahlutaverslun. Nafninu var breytt í ÁG bifreiðaverkstæði en hét síðast ÁG bifreiðaverkstæði og mótorsport. Flutti að Kletthálsi 9 árið 2004 en var keypt af fyrirtækinu Toyota á Íslandi árið 2007 og sameinað því.

Ágúst Ármann. Heildverslun, stofnuð um 1940 og rekin til um 2003. Var lengi til húsa á Klapparstíg 38 en frá 1974 í Sundaborg 5.

Ágústarskóli, sjá Gagnfræðaskóli Vesturbæjar.

Ágæti. Sjá Grænmetisverslun landbúnaðarins.

Áhaldahús Reykjavíkur.

Áhaldahús Vegagerðar ríkisins. Löng skúrlaga bygging sem reist var á Klapparstíg 2 á árunum 1907-1908, hýsti áhöld og smiðju Vegagerðarinnar. Þegar Landsmiðjan var stofnuð 1930 fékk hún inni í þessu húsi og hafði það til afnota þar til það var rifið árið 1973.

Áhugalið alþýðu. Leynilegt félag manna sem varð til í átökunum um svokallað Drengsmál 1921. Formaður félagsins var Ólafur Friðriksson og starfaði það í fáein ár.

Áklæði og gluggatjöld. Verslun í Skipholti 17a, stofnuð 1967 af Óla V. Metúsalemssyni. Starfrækt til 2001.

Álafoss. Ullarverksmiðjan. Hún hafði afgreiðslu og verslun í Reykjavík frá 1913, síðustu árin var verslunin kölluð Álafossbúðin. Á árunum 1913-14 var hún á Laugaveg 32, 1914-1917 á Laugaveg 34, 1917-1924 á Laugaveg 30, 1924-1928 í Hafnarstræti 17, 1928-1933 á Laugaveg 44, 1933-1975 í Þingholtsstræti 2, 1975-1994 á Vesturgötu 2 og loks í Pósthússtræti 13 á árunum 1994-1995.

Álfaborg. Sjá Byrgi.

Álfaborg. Verslun með gólfefni, hreinlætistæki o.fl. Stofnsett 1986 af Össuri Stefánssyni og Ásdísi Samúelsdóttur er þau tóku yfir verslunina Nýborg. Var fyrst í Skútuvogi 4 til 1992, þá í Knarrarvogi 4 1992-2002 en eftir það í Skútuvogi 6.

Álfabrekka. Hús á erfðafestulandi á Þvottalaugabletti 27, síðar Suðurlandsbraut 60. Þar var rekin samnefnd veitingastofa og síðan matvöurverslun frá um 1940 til um 1970. Kaupmaðurinn var Guðlaug Björnsdóttir í Álfabrekku.

Álfahvammur. Hús í Selási við Suðurlandsbraut.

Álfheimabakarí. Stofnað um 1959 af Kristni K. Albertssyni að Álheimum 6. Kristinn varð einn af stofnendum Brauðs h.f. árið 1963 sem síðar varð Myllan. Útibú frá Álfheimabakaríi var opnað að Hagamel 67 árið 1980. Álfheimabakarí starfaði eitthvað til um 1995.

Álfheimabúðin. Nýlenduvöruverslun að Álfheimum 4, stofnuð af Sigurði Ragnari Ingimundarsyni árið 1959. Rekin fram yfir 2000 ásamt sjoppu, sem oftast var kölluð Álfheimasjoppan.

Álfheimahjáleiga. Sjá Egilsstaðir.

Álfheimakampur. Braggahverfi hjá fiskverkunarstöðinni Álfheimum, einnig nefnt Camp Harrogate. Var á vestanverðu svæðinu sem nú er milli Sundlaugarvegar, Gullteigs og Hraunteigs. Haustið 1944 bjuggu nær sjötíu Íslendingar þar í 14 bröggum. Síðast var búið í Álfheimakampi árið 1964.

Álfheimasjoppan. Sjá Álfheimabúðin.

Álfheimar. Hús á Kirkjumýrarbletti sem stóð þar sem nú eru gatnamót Gullteigs og Kirkjuteigs. Reist af Mörthu Strand 1915 eða 1917 en rifið 1960 eða 1961. Draupnisfélagið í Vestmannaeyjum, sem gerði út samnefndan togara, keypti húsið og lóðina árið 1921, reisti þar fiskverkunarhús, þar sem nú er skólalóð Laugarnesskóla, og hafði stakkstæði og fiskreiti í kring. Var þessi starfsemi kölluð Álfheimastöðin. Síðar var Ingvar Vilhjálmsson um hríð með fiskverkun þar. Var seld 1937 og var þar um tíma veiðarfæragerð Fylkis hf.

Álfheimar. Sjá Sólvellir.

Álfheimastöðin. Sjá Álfheimar.

Álfhóll. Hóll við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6. Vegna trúar á álfa í hólnum var byggingarstæði hússins flutt til að þyrma honum.

Álfsnes. Jörð og bær á samnefndu nesi á Kjalarnesi sem er sunnarlega í Kollafirði á móts við Þerney. Reykjavíkurborg keypti jörðina 1989 og var þar síðan urðunarstaður sorps Reykvíkinga.

Álftaborg. Leikskóli að Safamýri 30. Tók til starfa 1968, var stækkaður 1989 en ný skólabygging, hönnuð af Arkþing, var tekin í notkun 2007.

Álftamýrarskóli. Einn af grunnskólum Reykjavíkur, staðsettur við Álftamýri 79. Tók til starfa 1964 og var fyrsti skólastjóri hans Ragnar Júlíusson. Arkitekt skólahúsnæðisins er Gísli Halldórsson. Árið 2011 var skólinn sameinaður Hvassaleitisskóla undir nafninu Háaleitisskóli.

Álftnesingavað. Vað á Elliðaám framundan Blesugróf eins og segir í heimild frá 19. öld. Staðsetning þess hefur þó verið nokkuð á reiki.

Ámundaborg. Fjárborg, nú löngu horfin, milli Grensás og Rauðarárholts, mun hafa verið nálægt því sem nú er Kringlumýrarbraut, rétt sunnan Suðurlandsbrautar.

Ánanaust. Upphaflega hjáleiga frá Hlíðarhúsum. Stóð þar sem nú er vesturendi Mýrargötu. Árið 1903 voru tvö timburhús og þrír torfbæir sem tilheyrðu Ánanaustatorfunni. Sá síðasti var rifinn 1940.

Ánanaust. Gata meðfram sjónum milli Mýrargötu og Hringbrautar. Nafngiftin var ákveðin 1948.

Ánanaustaleira. Sandfjara fyrir neðan Ánanaustabæina. Löngu horfin undir uppfyllingar.

Ánanaustavegur. Sjá Bakkastígur.

Ánanaustavör. Fyrir neðan og vestur af Ánanaustabæjunum. Nú undir uppfyllingu þar sem gatan Ánanaust er.

Árbakki. Timburhús, byggt árið 1907, stóð þar sem nú er Grettisgata 89. Var rifið fyrir 1965.

Árbakki. Íbúðarhús við Rafstöðvarveg 27, reist milli 1950 og 1960.

Árborg. Leikskóli til húsa að Hlaðbæ 17 í Árbæjarhverfi. Hefur starfað frá 1969.

Árbæjarapótek. Stofnsett 1972 af Steingrími Kristjánssyni. Til húsa í Hraunbæ 102.

Árbæjarblettir. Lönd leigð út til ræktunar eftir 1930 í landi Árbæjar, urðu um 60 talsins. Þar risu mörg minni háttar hús sem sum voru tekin til heilsársíbúðar. Nú er þar Árbæjarhverfi.

Árbæjarblóm. Blómaverslun í Hraunbæ 102E. Stofnuð 1990 af Elísabet Jónsdóttur.

Árbæjarbreiðan. Heiti á veiðisvæði í norðurkvísl Elliðaáa þar sem hún rennur með fram neðanverðum Blásteinshólma. Niður af götunni Glæsibæ í Árbæjar í Árbæjarhverfi.

Árbæjarbrekka.  Brekkan austur af Elliðaám þar sem Vesturlandsvegur tekur við af Miklubraut.

Árbæjarfljót. Veiðistaður í Elliðaám, beint niður af götunum Heiðarbæ og Fagrabæ í Árbæjarhverfi.

Árbæjarhólmi. Svæðið sem nú er yfirleitt nefnt Víðivellir þar sem Hestamannafélagið Fákur hefur aðsetur. Áður runnu kvíslir frá Elliðaám báðum megin um svæðið en sú eystri er nú horfin.

Árbæjarhverfi. Tekur nafn af Árbæ (sjá). Tók að byggjast samkvæmt skipulagi um 1965. Það afmarkast af höfðabakka, Bæjarhálsi, Suðurlandsvegi og Fylkisvegi. Nöfn gatna þar enda á –bær. Þær eru Brekkubær, Fagribær, Glæsibær, Hábær, Heiðarbær, Hlaðbær, Hraunbær, Melbær, Rofabær, Skólabær, Ystibær, Vorsabær og Þykkvibær. Bæjarbraut liggur frá Bæjarhálsi niður í hverfið.

Árbæjarkirkja.  Við Rofabæ í Árbæjarhverfi. Kirkjan var vígð 1987 og hafði þá verið 14 ár í byggingu. Arkitekt hennar er Manfreð Vilhjálmsson. Safnaðarheimilið var tekið í notkun 1978.

Árbæjarkjör. Fyrsta verslunin í nýju Árbæjarhverfi, stofnsett 1966 af Sigþóri Sigþórssyni. Var í Rofabæ 9 og starfrækt til um 1991.

Árbæjarlaug. Sundlaug við Fylkisveg í Árbæjarhverfi, tekin í notkun 1994. Arkitektastofan Úti og inni teiknaður laugina. Fyrsti forstöðumaður Árbæjarlaugar var Stefán Kjartansson.

Árbæjarlón.  Miðlunarlón í Elliðaám vegna Elliðaárvirkjunar sem myndaðist við gerð Árbæjarstíflu á árunum 1921-1934.

Árbæjarmarkaðurinn. Matvöruverslun, rekin að Rofabæ 39 á árunum 1973-1985.

Árbæjarsafn. Byggðasafn Reykvíkinga, stofnað árið 1957 í landi Árbæjar. Þangað hafa verið flutt fjölmörg gömul hús. Fyrsti borgarminjavörðurinn var Lárus Sigurbjörnsson.

Árbæjarskóli. Einn af grunnskólum Reykjavíkur, til húsa í Rofabær 34. Tók til starfa 1956 og var fyrst í samkomuhúsi á Árbæjarbletti en frá 1967 í eigin húsnæði.

Árbæjarsókn. Mynduð úr Lágafellssókn í Mosfellsprestakalli 1968 en varð prestakall í Reykjavíkurprófastsdæmi 1971. Fyrsti sóknarpresturinn var séra Guðmundur Þorsteinsson.

Árbæjarstífla. Stífla sem gerð var fyrir neðan Árbæ við virkjun Elliðaáa árið 1921 en stíflan var svo hækkuð og lengd á árunum 1929-1934. Á árunum 1969-1995 var stíflan öll endurbyggð ásamt lokubúnaði og göngubrú. Ofan stíflunnar er Árbæjarlón (sjá).

Árbær. Gamalt býli norðan við Elliðaár en sunnan Vesturlandsvegar. Dregur nafn sitt af Elliðaám og er fyrst getið í heimildum 1464. Reykjavíkurbær keypti jörðina 1906. Nú stendur þar gamall burstabær en torfkirkjan var flutt frá Silfrastöðum í Skagafirði árið 1961. Árið 1957 var stofnað byggðasafn í Árbæ og hafa verið flutt þangað fjölmörg gömul hús, einkum úr gömlu Reykjavík.

Árdalur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)(1953)

Árhólmar. Hólmarnir milli Elliðaárkvísla fyrir neðan Ártún og langleiðina upp að Höfðabakkabrú. Einnig kallaðir Elliðaárhólmar. Upp úr 1950 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktarstarf í hólmunum og er þar nú vinsælt útivistarsvæði.

Árhvammur. Íbúðarhús við Rafstöðvarveg 23 (Ártúnsblettur 3), reist af Tryggva Árnasyni og Arndísi Jónsdóttur um 1925.

Árkjaftar. Svæðið þar sem Elliðaár runnu áður út í Elliðaárvog, rétt fyrir neðan brýrnar.

Ármann. Glímufélag stofnað 1906.

Ármannsfell. Verktakafélag, stofnað 1965 af Ármanni Guðmundssyni og Sveini R. Eyjólfssyni. Um tíma stærsta verktakafélag landsins. Rann inn í Íslenska aðalverktaka árið 2000.

Ármót. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Ármót. Sjá Krókahyljir.

Ármúlaskóli. Stofnsettur 1951 og hét í fyrstu Gagnfræðaskóli verknámsins enda lögð áhersla þar á verklegar greinar. Fyrstu árin fór kennsla fram á tveimur stöðum, að Hringbraut 121 og í Austurbæjarbíói. Árið 1956 fékk skólinn húsnæði í Brautarholti 18 og var þar þangað til hann flutti árið 1968 í nýbyggingu í Ármúla 12. Nafninu var þá breytt í Ármúlaskóla. Framhaldsdeild við skólann var rekinn frá 1974 og útskrifaði skólinn fyrstu stúdentanna 1978. Ári seinna var skólinn lagður niður og í stað hans kom Fjölbrautaskólinn við Ármúla (sjá). Skólastjóri Gagnfræðaskóla verknáms og Ármúlaskóla var Magnús Jónsson.

Árnabakarí. Opnað af Árna Guðmundssyni árið 1961 á Fálkagötu 18. Starfaði til 1974.

Árnagarður

Árnabakarí. Rekið á árunum 1961-1975 á Fálkagötu 18, stofnandi þess var Árni Guðmundsson.

Árnabúð. Sjá Verslun Árna Pálssonar.

Árnagarður. Hús Heimspekideildar Háskóla Íslands (Hugvísindaeildar) sem hýsir Stofnun Árna Magnússonar við Sturlugötu 1. Húsið var reist 1969 og er arkitekt hússins Hörður Bjarnason.

Árnahús. Steinbær við Klapparstíg, kenndur við Árna Nikulásson.

Árnahús. Sjá Jónshús.

Árnahús. Timburhús við Sólvallagötu 47, reist árið 1904 af Árna Sigurðssyni og Sigþóru Steinþórsdóttur.

Árnastofnun. Sjá Stofnun Árna Magnússonar.

Árnes. Íbúðarhús Gríms Jónssonar og Sumarlínu Pétursdóttur við Laugarnesveg 68, reist um 1927 en rifið 2004.

Árnes. Nýlenduvöruverslun, stofnuð 1935 af Hróbjarti Bjarnasyni. Var allt til um 1994 á Barónsstíg 59.

Árnes. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Árnesingafélagið

Árni B. Björnsson. Gullsmíða- og skartgripaverslun sem starfaði áratugum saman í Lækjargötu 2.

Árni og Bjarni. Klæðaskeraverkstæði og verslun, stofnsett 1913 af þeim Árna Einarssyni og Bjarna Bjarnasyni. Var að Laugavegi 5 til 1917 en eftir það í Bankastræti 9 til um 1965.

Ársafn. Útibú Borgarbókasafns Reykjavíkur í Hraunbæ 119, stofnað 2004.

Ársel. Frístundamiðstöð við Rofabæ sem þjónar Árbæjarhverfi, Grafarholti og Norðlingaholti. Opnuð 1981 sem Félagsmiðstöðin Ársel. Arkitektar byggingarinnar eru Ormar Þór Guðmundsson og Örnólfur Hall. Fyrsti forstöðumaður Ársels var Valgeir Guðjónsson.

Ársól. Ungbarnaleikskóli að Sólheimum 31-35, tók til starfa 2009.

Ársæll. Björgunarsveit sem varð til 1999 með sameiningu Björgunarsveitarinnar Ingólfs í Reykjavík og Björgunarsveitarinnar Alberts á Seltjarnarnesi. Höfuðstöðvar hennar í Reykjavík hafa frá upphafi verið í Gróubúð á Grandagarði 1.

Ártún. Gamalt býli sunnan Vesturlandsvegar, rétt austan við Elliðaár. Fyrst getið árið 1379 og var þá kallað Árland neðra. Í Ártúni var rekin gisti- og veitingaþjónustu á síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld. Búskapur var í Ártúni til 1967. Núvewrandi timburhús í Ártúni er frá um 1900.

Ártún. Kirkjujörð frá Saurbæ á Kjalarnesi, stendur við mynni Blikdals við Ártúnsá (Blikdalsá).

Ártúnsá. Sjá Blikdalsá.

Ártúnsblettir. Erfðafestulönd innan Ártúns og Rafstöðvar sem byrjað var að útdeila til almennings fyrir 1930. Nú við Rafstöðvarveg.

Ártúnsbrekka.  Hraðbrautarbrekkan sem tilheyrir Vesturlandsvegi austan Elliðaáa.

Ártúnsbrekka. Fyrsta skíðaland Reykvíkinga, skammt frá bænum Ártúni. Fyrst notað 1907 og æ síðan. Stólalyfta var sett upp í brekkuna árið 1993.

Ártúnsbrekka. Íbúðarhús með þessu nafni, reist af Sveinbirni Jónssyni og Þórunni Bergþórsdóttur, á Ártúnsbletti 1 árið 1934. Áður var samnefndur sumarbústaður á lóðinni.

Ártúnsholt. Aflíðandi holt norðan við bæjarhúsin í Ártúnum og Árbæ, sunnan Vesturlandsvegar. Þar er nú hverfi þar sem göturnar enda flestar á –kvísl.

Ártúnshöfði. Gengur út á milli Elliðaárvogs og Grafarvogs. Þar er stórt iðnaðar- og þjónustuhverfi.

Ártúnsskóli. Grunnskóli, starfræktur í 7 bekkjardeildum að Árkvörn 6.Stofnsettur 1987 og var Ellert Borgar Þorvaldsson fyrsti skólastjóri hans.

Ártúnsvað. Vað framundan bæjarhólnum á Ártúni. Fjölfarnasta vaðið á Elliðaám áður en þær voru brúaðar. Líklega hefur nafnið verið notað yfir bæði vöðin, yfir austurkvíslina og vesturkvíslina.

Árvakur. Útgáfufélag Morgunblaðsins, stofnsett 1919.

Ás. Timburhús við Sólvallagötu 23 sem þau Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason og Guðrún Lárusdóttir reistu árið 1906. Húsið er kennt við Neðra-Ás í Hjaltadal þaðan sem Sigurbjörn var. Það er teiknað af Rögnvaldi Óiafssyni. Við húsið er Ásvallagata kennd.

Ás. Hús við Laugaveg 160, stóð fram undir 1980. Þar var var frá árinu 1922 verslunin Ás (sjá). Við húsið er Ásholt kennt.

Ás.  Styrktarfélag.  Hét fram til 2008 Styrktarfélag vangefinna. Sjálfseignarstofnun sem hefur umfangsmikinn rekstur fyrir fatlaða í formi búsetu, dagþjónustu og vinnu. Félagið var stofnað 1958 af foreldrum og áhugafólki og var fyrsti formaður þess Hjálmar Vilhjálmsson. Skrifstrofur félagsins voru frá 1981 í eigin húsnæði á Háteigsvegi 6 en frá 1995 í Skipholti 50C.

Ás. Vinnustofa sem Ás styrktarfélag rekur fyrir þroskahamlaða. Komið á fót árið 1981 og var fyrst til húsa í Stjörnugróf 7 en flutti að Brautarholti 6 árið 1984 og hefur verið þar síðan og einnig í Brautarholti 4 frá 1989.

Ás. Verslunin, stofnsett í samnefndu húsi við Laugaveg 160 árið 1922 af hjónunum Geir Halldórssyni og Helgu Árnadóttur, einkum til að þjóna fólki sem vann á fiskverkunarstöðvum í nágrenninu og ferðamönnum enda var verslunin austasta verslunin í bænum. Þarna var hún til 1964 en árið 1956 var stofnað útibú frá henni á Melhaga 2 og ári seinna við Brekkulæk 1. Ennfremur kom skömmu seinna útibú við Laugarnesveg 100 og í Garðabæ. Verslunin Ás hætti rekstri 1964.

Ásberg. Hús á A-götu 9 við Breiðholtsveg.

Ásbjörn Ólafsson. Heildverslun, einkum á sviði matvara og búsáhalda. Stofnsett 1937. Var lengst af framan af eða til 1967 á Grettisgötu 2, flutti þá í Borgartún 33 en var 1991-2006 í Skútuvogi 11a og frá 2006 á Köllunarklettsvegi 6.

Ásborg. Leikskóli að Dyngjuvegi 18. Hefur starfað í núverandi mynd frá 1995. Upphaflega var hér Vöggustofa Thorvaldsensfélagsins frá 1963. Um 1973 kom hér dagheimilið Dyngjuborg og frá 1988 til 1995 voru þrjár stofnanir í húsinu, dagheimilið Dyngjuborg, dagheimilið Ásborg og skóladagheimilið Langholt.

Ásbrú. Húsgagnaverslun en síðar einkum rammagerð og myndasala, stofnsett 1950 af Magnúsi Kristjánssyni. Var á Grettisgötu 54 til 1964 en eftir það á Njálsgötu 62. Rekin fram undir 1990.

Ásbúð. Hús við Vesturlandsveg.

Ásbyrgi. Nýlendurvöruverslun, stofnuð um 1911 af Hans Pétri Hanssyni á Hverfisgötu 71. Á árabilinu 1918-1921 var verslunin á Grettisgötu 38 en fór svo aftur á Hverfisgötu 71. Um 1930 var hún flutt á Laugaveg 139 og var þar til um 1970.

Ásbyrgi. Hús á erfðafestulandi á Bústaðablettum við Bústaðaveg.

Ásbyrgi. Þrílyft timburhús, reist árið 1898 af Gunnari Einarssyni í Kirkjustræti 4. Nafn sitt dró húsið af samnefndu kaffihúsi sem var þar um 1910. Húsið brann til kaldra kola 1947.

Ásgarðar. Stúdentagarðar á Eggertsgötu 12-34. Fyrsti garðurinn var tekinn í notkun 1993. Þar eru tveir leikskólar, Mánagarður og Leikgarður.

Ásgarður. Hús á erfðafestulandi á Laugamýrarbletti 10 við Laugarásveg

Ásgarður. Smjörlíkisgerð, stofnuð 1923 af Önnu Friðriksdóttur, Friðriki Gunnarssyni og Jóni Ólafssyni útgerðarmanni. Byrjaði á Vesturgötu 20 en flutti 1924 að Nýlendugötu 10 og loks að Vegahúsastíg 5-7 þar sem hún var rekin í samvinnu við Smjörlíkisgerðina. Sameinaðist svo Ljóma og Smjörlíkisgerðinni 1964 og var rekið eftirleiðis undir nafni Smjörlíkis hf.

Ásgeir H. Magnússon. Umboðs- og heildverslun, starfandi í Reykjavík frá upp úr 1960 til 1978.

Ásgeir Sigurðsson heildverslun. Sjá Edinborg.

Ásgeirsbúð. Nýlenduvöruverslun á Langholtsvegi 174. Stofnuð 1962 af Ásgeiri Bjarnasyni og rekin til 1972.

Ásgrímssafn. Til húsa á Bergstaðastræti 74. Þar bjó Ásgrímur Jónsson listmálari á árunum 1929-1958 en hann ánafnaði ríkinu húseign sína og listaverkasafn eftir sinn dag. Húsið var gert að listasafni 1960.

Ásheimar. Hús við Vesturlandsveg.

Áshóll. Nýbýli á erfðafestulandinu Bústaðabletti 19, byggt 1933. Er nú Litlagerði 2.

Áskirkja. Sóknarkirkja Ássöfnuðar að Vesturbrún 30 í Laugarási. Kirkjan var vígð árið 1983 og eru arkitektar hennar þeir Helgi Hjálmarsson, Vilhjálmur Hjálmarsson og Haraldur V. Haraldsson.

Ásmundarbær. Sjá Grjóta.

Ásmundarbær. Sjá Sólheimar.

Ásmundarsalur

Ásmundarsafn. Listasafn Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara við Sigtún.  Árið 1942 hóf hann að byggja þarna ferhyrnt hús með kúlulaga þaki og bætti síðan við áföstum píramídum. Á árunum 1954-59 reisti hann bogaskemmu að baki Kúlunni. Þarna var í senn heimili hans og vinnustaður. Hann ánafnaði Reykjavíkurborg listasafn sitt eftir sinn dag og árið 1983 var Ásmundarsafn formlega opnað sem hluti Listasafns Reykjavíkur.

Ássöfnuður. Stofnaður 1963 og afmarkast hann af Holtavegi, Suðurlandsbraut, Reykjavegi, Sundlaugavegi og Dalbraut. Fyrsti sóknarprestur safnaðarins var séra Grímur Grímsson. Frá 1983 hefur söfnuðirinn haft sína eigin kirkju, Áskirkju.

Ástarhólar. Sjá Gunnarshólar.

Ástráðshús. Myndarlegt timburhús sem enn stendur á Lindargötu 11. Reist árið 1898 af Ástráði Kr. Hannessyni.

Ástubær. Sjá Vegamót.

Ásulundur. Hús við Vesturlandsbraut.

Ásvallagata. Gata í Vesturbænum. Nafn hennar var ákveðið 1926 og mun hafa verið dregið af heiti hússins Áss við Sólvallagötu 23.

Ásvegur. Gata sem fékk þetta nafn 1930 gengur á milli Langholtsvegar og Kambsvegar, heitið mun dregið af Laugarási.

Áttavitaþjónustan. Sjá Konráð Gíslason kompásaþjónusta.

Átthagafélag Blesugrófar. Stofnað 1984.

Áttæringsvör. Sjá Viðeyjarvarir.

Ávaxtabúðin. Lengi rekin á Týsgötu 8.

B. Á. húsgögn. Upphaflega Trésmiðja Birgis Ágústssonar, stofnuð 1959, síðan einnig verslun. Hvort tveggja var til húsa í Brautarholti 6 framan af en trésmiðjan var flutt í Skeifuna 8 um 1965. Starfrækt til um 1973.

B.M. Vallá. Steypustöð í Ártúnshöfða, stofnsett af Benedikt Magnússyni frá Vallá á Kjalarnesi 1956. Áður hafði sami aðili selt efni í steypu á Kjalarnesi frá árinu 1946. Árið 1978 hóf fyrirtækið vikurútflutning og 1983 framleiðslu á hellum, steinum og öðrum einingum. Eftir 2000 voru ýmis fyrirtæki keypt og B.M. Vallá færði út kvíarnar út um landið. Fyrirtækið varð gjaldþrota 2010 en hefur verið endurreist. Steypuframleiðsla og fleira er á Bíldshöfða 7 en múrverslun og fleira að Breiðhöfða 3.

B-gata. Sjá Blesugróf.

Bachmannshús. Lítið steinhlaðið hús á Fálkagötu 16, reist 1924 af Hallgrími Bachmann en rifið 1969.

Baðhúsið. Heilsuræktarstöð fyrir konur, stofnuð af Lindu Pétursdóttur árið 1994. Hefur frá upphafi verið í Brautarholti 20.

Baðhús Reykjavíkur. Stofnað 1907 í nýbyggðu bakhúsi við Kirkjustræti 10b. Þar gat almenningur keypt sér böð. Bæjarsjóður annaðist rekstur hússins 1912-1965. Húsið var rifið 1967.

Baðstofa iðnaðarmanna. Fundar- og samkomusalur í gamla Iðnskólanum við Lækjargötu 14a, prýddur útskurðarmyndum eftir Ríkarð Jónsson. Baðstofan var gerð 1926 en skemmdist illa í eldi 1986. Hún hefur verið endurgerð að einhverju leyti.

Baggalútur. Ónefndir menntaskólapiltar í Reykjavík sem byrjuðu veturinn 2001-2002 að halda uppi gamanmálum, einkum á heimasíðunni baggalutur.is. Síðan hefur hópurinn staðið fyrir bókaútgáfu, útvarpspistlum og útgáfu geisladiska.

Bakarabrekka. Sjá Bankastræti.

Bakarabrunnur. Eitt helsta vatnsból Reykjavíkur fyrir daga vatnsveitu. Var fyrir neðan Bernhöftsbakarí í Bankastræti 2. Einnig nefnt Bakarapóstur eða Bernhöftspóstur.

Bakarabrú. Annað nafn á Bakarabrekkunni, síðar Bankastræti. Var einnig notað um trébrúna yfir Lækinn þar fyrir neðan sem kom um 1835. Sú brú var einnig stundum kölluð Lestamannabrú. Árið 1866 var hlaðinn voldug steinbogabrú á þessum stað og árið 1899 kom fyrsta steinsteypta brúin á landinu þarna en hún hvarf þegar Lækurinn var byrgður 1912. Stundum einnig kölluð Bankabrú.

Bakarabrúin. Vagnvegur sem lá á 19. öld út í austanverða Vatnsmýri að svokölluðum Bakaragröfum þar sem sem Bernhöft bakari tók mó.

Bakaragrafir. Mógrafir sem Bernhöft bakari nýtti í austanverðri Vatnsmýri á 19. öld.

Bakarameistarafélag Reykjavíkur. Stofnsett 1920 að tilhlutan Stefáns Sandholts en forveri þess voru Samtök eigenda brauðgerðarhúsa sem stofnuð voru 1918. Hætti starfsemi þegar landsamband bakarameistara var stofnað 1958.

Bakarameistarinn. Bakarí og konditorí, stofnsett 1977 af þeim Sigurþóri Sigurjónssyni og Jóhannesi Björnssyni. Var fyrstu árin eingöngu í Suðurveri, Stigahlíð 45 en árið 1996 færði Bakarameistarinn út kvíarnir þegar opnað var útibú í Álfabakka 12 í Mjódd og síðan árið 2003 í Glæsibæ og Húsgagnahöllinni við Bíldshöfða.  Fimmta bakaríið var opnað í verslanamiðstöðini Austurbæ árið 2006 en auk þessara er Bakarameistarinn með útibú í Smáralind.

Bakarapóstur. Sjá Bakarabrunnur.

Bakarasveinafélag Íslands. Stofnað 1908 og var fyrsti formaður þess Sigurður Á. Gunnlaugsson. Félagið starfaði til 1996 en sameinaðist þá öðrum félögum í MATVÍS.

Bakarí Gísla og Kristins. Stofnsett 1923 af þeim Gísla ólafssyni og Kristni Magnússyni. Bakaríið var til húsa á Þingholtsstræti 23 og rekið þar til 1939.

Bakarí Sigurðar Á. Gunnlaugssonar. Stofnsett 1905 og var það í Austurstræti 17 til 1908. Þá rak Sigurður ásamt Birni Jónssyni bakarí sitt á Frakkstíg 12 til ársins 1911 en frá þeim tíma einn á Hverfisgötu 41 til 1926.

Bakkaborg. Leikskóli að Blöndubakka 2 í Breiðholti. Tók til starfa 1972.

Bakkabær. Torfbæ við Brunnstíg 9, reistur 1872 af Jóni Guðmundssyni. Síðar var þar hús sem var fjarlægt fyrir eða um 1940.

Bakkabúð.  Torfbær, reistur 1880 af Benedikt Jónssyni, og síðar samnefnt timburhús, reist um 1886 að Lindargötu 45. Síðarnefnda húsið var seinna nefnt Litla Bakkabúð eftir að Þorsteinn Þorsteinsson hafði reist annað stærra timburhús við hliðina (nr. 47). Var stærra húsið nefnt Stóra Bakkabúð. Timburverslunin og útgerðarfyrirtækið Bakkabúð var rekin í þessum húsum á árunum 1906-1910. Húsið Litla Bakkabúð var flutt á Bakkastígs 3 árið 1991 og Stóra Bakkabúð hefur einnig verið fjarlægð.

Bakkakot. Nýbýli sem reist var í landi Hólms árið 1950, norðaustur af bænum, fast við Suðurlandsveg.

Bakkakot. Hús í Blesugróf, stóð í krikanum milli Stekkjarbakka og akreinar sem gengur út á Reykjanesbraut.

Bakkalind. Vatnsból sem var á lóð Bakkabæjar við Brunnstíg og er stígurinn kenndur við það.

Bakkarnir. Hverfi í Neðra-Breiðholti, kennt við bakka. Í því eru göturnar Arnarbakki, Álfabakki, Blöndubakki, Dvergabakki, Eyjabakki, Fálkabakki, Ferjubakki, Grýtubakki, Hjatlabakki, Írabakki, Jöfrabakki, Kóngsbakki, Leirubakki, Maríubakki, Núpabakki, Ósabakki, Prestabakki, Réttarbakki, Staðarbakki, Tungubakki, Urðarbakki, Víkurbakki, Þangbakki, Þarabakki og Þönglabakki.

Bakkasandur. Fjaran fyrir neðan Brunnstíg í Vesturbænum. Kennd við Bakkabæinna sem þar voru.

Bakkaskáli. Vöru- og fiskvinnsluskemma Reykjavíkurhafnar á Grandabakka við Grandagarð 16, tekin í notkun 1967. Einnig nefnd Bakkaskemma.

Bakkaskemma. Sjá Bakkaskáli.

Bakkastígur. Gata í Vesturbænum, tók að myndast um 1866 en fékk nafn sitt 1883. Kennd við Bakkabæina sem stóðu þar við sjóinn. Stundum einnig áður nefndur Garðhúsastígur eða Ánanaustavegur.

Bakkastæði. Stórt bílastæði við Austurbakka í gömlu Reykjavíkurhöfn sem gert var eftir að Austurskáli var rifinn 1987.

Bakkavör. Uppsátur útvegsmanna af Bakkabæjunum niður af Bakkastíg.

Bakki. Torfbær, reistur 1866 af Birni Guðlaugssyni. Við bæinn er Bakkastígur kenndur. Mun hafa staðið nálægt norðausturhorni Bakkastígs og Mýrargötu Einnig nefndur Björnsbær eða Litlu Garðhús.

Bakki. Leikskóli við Blöndubakka í Breiðholti. Tók til starfa 1981.

Bakki. Leikskóli að Bakkastöðum 77 í Grafarvogi. Tók til starfa 2003.

Bakkinn. Félagsmiðstöð sem tók til starfa 2010 í húsnæði Breiðholtsskóla.

Bakkinn. Vöruhótel að Skarfagörðum 2 í Sundahöfn. Rekið af Norvik en undir það félag heyrir Kaupás, Býkó, Elkó og fleira. Tók til starfa 2008.

Balbo Hangar. Sjá Flugskýlið í Vatnagörðum.

Balboflugskýlið. Sjá Flugskýlið í Vatnagörðum.

Balbokampur (Balbo Camp). Braggahverfi ofan við Vatnagarða norðan Kleppsvegar. Einnig nefnt Balbo Camp. Þar bjuggu um 50 Íslendingar í níu bröggum þegar flest var. Síðast var búið í Balbokampi árið 1971.

Baldsvegur. Vegur sem lagður var árið 1881 frá grjótnámum við núverandi norðanverða Óðinsgötu og niður að tjörn. Kenndur við Frederik Bald byggingarmeistara Alþingishússins en eftir veginum var grjóti sem notað var í húsið rennt niður brekkurnar.

Baldur. Matvöruverslun, stofnuð af Ragnari Guðmundssyni árið 1922. Var á Hverfisgötu 56 fyrstu árin en frá 1927 til 1986 að Framnesvegi 29. Júlíus Guðmundsson var lengst af kaupamður í Baldri.

Baldur. Reiðhjólaverkstæði, stofnsett 1931 af Vilberg Jónssyni. Var á Laugavegi 28 fram yfir 1942 en síðan á Klapparstíg 26 til 1945. Þá var það flutt á Vesturgötu 5 og var þar til 1979.

Baldursbrá. Hannyrðaverslun, stofnuð 1922 af þeim Ingibjörgu Eyfells og Kristínu Jónsdóttur. Rekin til 1984 og var alla tíð á Skólavörðustíg 4.

Baldurshagaflatir. Á bökkum Hólmsár neðan Rauðhóla. Þar voru haldnar skemmtisamkomur á 3. áratug 20. aldar, meðal annars á vegum verkalýðsfélaganna.

Baldurshagi. Landspilda skammt sunnan við skógræktargirðinguna í Klapparholti hjá Rauðavatni, sunnan núverandi Suðurlandsvegar þar sem nú er bensístöð. Þar reisti Guðmundur Helgi Sigurðsson timburhús skömmu fyrir 1920, nefnt Baldurshagi, sem varð vinsæll greiðastaður fram undir 1950. Á stríðsárunum gekk staðurinn undir nafninu Café Broadway.

Baldurshagi. Aðstaða til fjársíþrótta innanhúss undir stúku Laugardalsvallar, kennd við Baldur Jónsson vallarstjóra, tekin í notkun 1961. Árið 2007 var Baldurshaga breytt í skylmingaaðstöðu.

Baldursheimar. Hús við Kaplaskjólsveg (Nesveg)

Baldursstöðin. Fiskverkunarstöð sem togarafélagið Hængur rak lengi á sjávarbakkanum vestast við Sörlaskjól, nálægt Austurkoti. Upphaflega var stöðinni komið á fót af H. P. Duus um 1925 en Hængur tók hana yfir um 1928. Rekin af því félagi fram undir 1950 en síðan rak Guðmundur Eiríksson þar fisakverkun undir eigin nafni. Síðast var þar fiskbirgðastöð SÍF sem rekin var til um 1967 en eftir það voru húsin rifin.

Baldvin Einarsson. Söðla- og aktygjaverkstæði. Stofnsett 1905 af Baldvin Einarssyni sem hafði lært í Noregi. Var upphaflega á Laugavegi 17 en síðan á ýmsum stöðum, einkum við Laugaveg, Hverfisgötu og Lindargötu. Frá 1956 hét fyrirtækið Baldvin og Þorvaldur og hefur nú um langt árabil verið rekið á Selfossi.

Bali.  Torfbær við Klapparstíg 9, kominn 1860. Einnig nefndur Friðrikubær eftir Friðriku Guðmundsdóttur sem þar bjó fyrir 1883. Árið 1897 var reist timburhús á lóðinni sem einnig var nefnt Bali.

Bali. Hús við Vatnsstíg

Bali. Hús í Vogahverfi, byggðist úr landi Víkur (Langholtsveg 145). Nú horfið.

Bali. Hjáleiga eða þurrabúðarkot sem var í landi Brautarholts á Kjalarnesi.

Bananar. Innflutnings- og dreifingafyrirtæki á sviði ávaxta og grænmetis. Stofnsett árið 1955 af Kristni Guðjónssyni og Eggert Kristjánssyni. (Hefur verið síðustu árin í Skútuvogi 2e)

Bananasalan. Stofnsett 1952 af nokkrum helstu matvörukaupmönnum Reykjavíkur. Forstjóri hennar var Axel Sigurgeirsson. Fyrirtækið var fyrst til húsa í Austurstræti 17 en fluttist skömmu síðar í Mjölnisholt 12 þar sem hún var til 1985 að hún flutti í Elliðavog 105. Árið 1990 sameinaðist hún Sölufélagi garðyrkjumanna en var þó rekin áfram undir sama nafni til 2000 er hún gekk undir eignarhaldsfélagið Feng.

Bandalag háskólamanna

Bandalag íslenskra farfugla.

Bandalag íslenskra leikfélaga (BÍL). Stofnað í Reykjavík 1950 fyrir frumkvæði Ævars Kvaran sem var fyrsti formaður bandalagsins. Tilgangurinn var að efla og þjónusta áhugaleikfélög víða um land og opnaði það fljótlega skrifstofu í Reykjavík, sem hefur verið á ýmsum stöðum, en fyrsti framkvæmdastjóri þess var Sveinbjörn Jónsson. BÍL rekur þjónustumiðstöð og efnir til árlegra námskeiða auk þess sem það hefur staðið fyrir leiklistarhátíðum.

Bandalag íslenskra listamanna

Bandalag íslenskra skáta

Bandalag kvenna í Reykjavík. Stofnað árið 1917 og áttu kvenfélög bæjarins aðild að því. Fyrsti formaður Bandalagsins var Steinunn Bjarnadóttir. Það hefur beitt sér fyrir ýmsum framfaramálum í Reykjavík æ síðan. Frá 1967 hefure aðsetur þess verið á Hallveigarstöðum.

Bandalag æskulýðsfélaga í Reykjavík (BÆR). Stofnsett 1948 af öllum helstu æskulýðsfélögum að hinum pólitísku undanskildum. Tilgangur bandalagsins var að hrinda í framkvæmd byggingu æskulýðshallar. Fyrsti formaður bandalagsins var Ásmundur Guðmundsson. Starfaði fram yfir 1970.

Bankabrú. Sjá Bakarabrú.

Bankahúsin. Tólf raðhús með burstum sem Landsbanki Íslands gekkst fyrir að reisa árið 1922 við Framnesveg 20-206B að enski fyrirmynd. Arkitekt þeirra var Guðjón Samúelsson. Húsin voru friðuð að ytra byrði árið 2010.

Bankamannaskólinn. Stofnaður af íslensku bönkunum 1959, einkum til námskeiðahalds fyrir starfsmenn bankanna. Fyrsti skólastjórinn var Gunnar H. Blöndal. Skólinn fékk fast húsnæði á Laugavegi 103 árið 1967 en flutti að Snorrabraut 29 árið 1987. Samtök íslenskra bankamanna tóku við skólanum árið 1994 en hann var lagður niður árið 2000.

Bankastræti.  Gata sem gengur upp frá Lækjargötu og endar við gatnamót Laugavegs og Skólavörðustígs. Hét áður Bakarabrekka en eftir að Landsbanki Íslands tók til starfa í húsinu nr. 3 við götuna árið 1886 þótti við hæfi að kalla hana Bankastræti.

Ban Thai. Thailenskur matsölustaður á Laugavegi 130, rekin frá árinu 1991 af Tómasi og Dúnu Boonchang.

Bar Reykjavíkur. Drykkjukrá sem rekin var í Hafnarstræti 15 frá um 1925 til um 1940. Þeir sem þar drukku voru kallaðir barónar og halda sumir að orðið róni sé stytting úr því, samanber Hafnarstrætis-róni.

Barð. Hjáleiga frá Rauðará, skammt fyrir vestan Fúlalæk. Kom til sögunnar eftir miðja 19. öld.

Barðinn. Innflutningafyrirtæki hjólbarða, sala á þeim og dekkjaverkstæði. Hefur allt frá 1950 verið með starfsemi í Reykjavík, þar af frá 1980 í Skútuvogi 2. (athuga)

Barnabrot. Veiðistaður í streng ofan Þrengslafoss (Breiðholtsfoss) í Elliðaám (Dimmu). Talið er að þarna hafi áður fyrr verið vað yfir árnar sem börn gátu vaðið yfir.

Barnadagurinn. Haldinn hátíðlegur á sumardaginn fyrsta af Barnavinafélaginu Sumargjöf.

Barnahælissjóður Reykjavikur. Stofnaður upp úr spænsku veikinni 1918 og rann inn í hann söfnunarfé vegna hennar. Peningarnir voru settir árið 1935 í heimavist fyrir veikluð börn í Laugarnesskóla.

Barnaljósmyndastofan. Stofnsett af Guðrúnu Guðmundsdóttur 1950. Var í Borgartúni 7 til 1963 en eftir það á Grettisgötu 2 til 1967.

Barnamúsíkskóli Reykjavíkur. Sjá Tónmenntaskóli Reykjavíkur.

Barnauppeldisssjóður Thorvaldsensensfélagsins. Stofnaður 1925 í tilefni af 50 ára afmæli félagsins.

Barna- og unglingaskóli Ásgríms Magnússonar. Barnaskóli Ásgríms Magnússonar var stofnaður 1904 að tilhlutan fríkirkjusafnaðarins enda stundum kallaður Fríkirkjuskólinn. Árið 1908 var stofnaður Unglingaskóli sem einnig var kenndur við Ásgrím. Báðir skólarnir voru frá upphafi að Bergstaðastræti 3 og störfiuðu til 1931.

Barnaskóli Hjallastefnunnar í Reykjavík. Einkarekinn grunnskóli. Tók til starfa 2008 og var fyst til húsa í leikskólanum Laufásborg, síðan að Suðurgötu 14 en fluttist í varanlegt húsnæði við Hlíðarfót 7 í Öskjuhlíð haustið 2009.

Barnaskólabrú. Brú yfir Lækinn gegnt Barnaskóla Reykjavíkur (síðar Miðbæjarskóla), gerð 1898. Hvarf þegar Lækurinn var byrgður 1912.

Barnaskóli Reykjavíkur. Fyrsti barnaskólinn í Reykjavík var rekinn á árunum 1830-1848 og var hann til húsa í Aðalstræti 16. Aftur var tekið upp barnaskólahald 1862 og hefur það haldist óslitið síðan. Kennsluhús Barnaskóla Reykjavíkur var í svokölluðu Flensborgarhúsi við Hafnarstræti 1862-1883 en eftir það var flutt í nýtt steinhlaðið hús sem byggt hafði verið fyrir skólann á sama stað (nú Pósthússtræti 3-5) og þar var skólinn til 1898. Þá var flutt í stórt timburhús við Tjörnina og hélst nafnið Barnaskóli Reykjavíkur til 1930 þegar Austurbæjarskóli kom til sögu. Þá fékk húsið við Tjörnina nafnið Miðbæjarskóli.

Barnaspítali Hringsins

Barnauppeldissjóður Thorvaldsensfélagsins

Barnaverndarfélag Íslands.

Barnaverndarfélag Reykjavíkur. Stofnað 1949 að tilhlutan dr. Matthíasar Jónassonar sem var lengst af formaður félagsins en það var lagt niður 1986 eftir að hafa beitt sér fyrir ýmsum velferðarmálum barna.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Stofnuð 1932 samkvæmt nýjum lögum um barnavernd. Hún opnaði sérstaka skrifstofu 1937.

Barnaverndarráð Íslands

Barnaverndin. Hjálparstöð fyrir börn og mæður þeirra sem Hjúkrunarfélagið Líkn setti upp 1927.

Barnavinafélagið Sumargjöf. Stofnað 1924 á vegum Bandalags kvenna í Reykjavík. Fyrsti leikskólinn sem félagið rak var Fröbels-garður í Tjarnargötu 26 á árunum 1932-1935 og sumardagheimilin í Grænuborg frá 1932 og Vesturborg frá 1937. Félagið naut styrks frá Reykjavíkurborg og ríki en aðaltekjur félagsins komu þó inn á sumardaginn fyrsta þegar það hélt Barnadaginn hátíðlegan í Reykjavík með skemmtunum, sölu á merkjum og tímaritinu Sólskini og fleiri ritum. Sumargjöf hætti að reka dagheimili í Reykjavík árið 1978 þegar Reykjavíkurborg tók við rekstri þeirra. Barnavinafélagið starfar þó áfram og úthlutar árlega ýmsum styrkjum sem tengjast börnum.

Barnhóll. Hjáleiga frá Laugarnesbænum, nefnd í manntalinu 1703. Stóð við samnefndan hól sem enn má sjá austan við gamla bæjarhólinn við Héðinsgötu. Hjáleigan lagðist af 1825 en eftir það voru þar fjárhús frá Laugarnesi. Hóllinn er nú friðaður.

Barónsborg. Leikskóli á Njálsgötu 70. Tók til starfa árið 1950 í einu fyrsta húsinu sem sérstaklega var reist sem leikskóli í Reykjavík. Hús skólans teiknaði Þór Sandholt en fyrsta forstöðukona hans var Guðbjörg Magnúsdóttir (1952). Var sameinaður leikskólunum Lindarborg og Njálsborg árið 2011 undir nafninu Miðborg.

Barónsfjós. Fyrsta steinsteypta húsið í Reykjavík, reist árið 1899 af Charles Gouldrée Boilleau barón. Hann hafði búskap á Hvítárvöllum en fjósið var ætlað 50 kúm auk þess sem þar var hlaða sem tók 4000 hesta af heyi. Húsið stendur enn við Barónsstíg 4 og þar er 10-11 verslun.

Barónspóstur. Vatnsból rétt innan við Barónsstíg á túninu Skelli. Árið 1907 var gert nýtt vatnsból við Laugaveg 84 sem einnig var kallað þessu nafni.

Barónsstígur. Upphaflega stígurinn upp að Barónsfjósinu sem Boilleau, baróninn á Hvítárvöllum lét reisa 1899. Barónsstígur byggðist í áföngum allt að Laufásvegi frá um 1900 til um 1940.

Barplanið. Sjá Steinplanið.

Batteríið. Vígi við Arnarhólsklett, þar sem nú stendur Seðlabankinn, upphaflega hlaðið af mönnum Jörundar hundadagskonungs 1809. Stundum nefnt Fort Phelps eftir kaupmanninum sem stjórnaði virkisgerðinni. Þar var stillt upp nokkrum fallbyssum sem verið höfðu á Bessastöðum. Lappað var upp á virkið af dönskum herflokki sem var í Reykjavík 1851. Batteríið var rifið við hafnargerðina 1913-1917.

Batteríisgarður. Sjá Ingólfsgarður.

Bauganes. Gata í Skerjafirði (í landi Skildinganess), hét áður Baugsvegur en nafninu var breytt árið 1968. Kennt við félagið Baug sem Eggert Clessen og fleiri stofnuðu um 1922 til að kaupa megnið af Skildinganesjörðinni.

Baugatangi. Botnlangi út úr Bauganesi í Skerjafirði.

Baugshylur. Veiðistaður í Elliðaám (Dimmu) fyrir neðan Stararhylji. Er þar sem göngustígur kemur niður úr Hólabergi í Breiðholti, neðan lítillar tjarnar sem gerð hefur verið með fyrirstöðu. Einnig kallaður Bræðrungur eða Bugðuhylur. Englendingar sem áttu Elliðaár fyrir 1906 kölluðu veiðistaðinn Two Stone.

Baugsvegur. Sjá Bauganes.

Baugur. Innkaupafyrirtæki, stofnað 1993 til annast vöruinnkaup fyrir Hagkaup, Bónus, 10-11 og fleiri verslanir. Helstu eigendur voru feðgarnir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannersson. Breyttist í Baug Group árið 2002 og varð þá orðið fjárfestingarfélag sem stundaði hlutabréfaviðskipti og eignaumsýslu ásamt því að eiga og reka verslanir og fleiri fyrirtæki víðs vegar um heim. Komst í þrot árið 2009.

Baugur Group. Sjá Baugur.

Baulusker. Eitt af skerjunum í Skerjafirði, út af Skildinganesjörðinni.

Bazar Thorvaldsensfélagsins. Sjá Thorvaldsensbasar.

Bálfarafélag Íslands. Félag, stofnað árið 1934, til að auka þekkingu á líkbrennslu og koma upp bálstofum í Reykjavík og víðar á landinu. Fyrsti formaður félagsins var Gunnlaugur Claessen. Félagið stóð fyrir byggingu fyrstu bálstofunnar við Fossvogskapellu og var hún tekin í notkun 1948.

Báran. Sjómannafélag. Stofnað 1894 en lagðist niður um 1910.

Bárubúð (Báruhús, Báran). Samkomuhús Sjómannafélagsins Bárunnar, reist árið 1899 á uppfyllingu í Tjörnina, þar sem núverandi Ráðhús Reykjavíkur er. Komst um 1910 í einkaeign. KR keypti húsið 1930 og notaði það sem íþróttahús en erlent setulið hafði bækistöð í húsinu á stríðsárunum. Bárubúð var rifin árið 1945.

Bás. Smávik í Grafarvogi, vestan Síldarmannagarðs.

Básar. Snarbrattir sjávarbakkar með Sundum, milli svokallaðrar Viðeyjarlendingar inn í Gunnarshóla. Nú komnir undir Sundahöfn að miklu leyti.

Báta- og fasteignasalan.

Bátanaust. Skipasmíðastöð fremst á norðanverðum Gelgjutanga við Elliðaárvog, stofnuð 1945, og var fyrsti framkvæmdastjóri hennar Hjálmar Árnason. Rekin til 1988.

Bátastöð Jóns Ö. Jónassonar. Stofnsett 1968 í gömlum hermannabragga á norðanverðum Geljutanga við Elliðaárvog og var dráttarbraut niður af. Sérhæfði sig í viðgerðum á tréskipum en einnig var unnið þar að nýsmíði á fiskiskipum. Rekstrinum var hætt 1996.

Beinagil. Örnefni í Stardal, athuga.

Beitarhúshóll. Hóll beint norður af bænum Hólmi nærri Suðurlandsveginum.

Belgjagerðin. Stofnsett 1934 af Jóni Guðmundssyni og Guðrúnu Vigfúsdóttur. Upphaflega voru framleiddir lóða- og netabelgir en síðan færðist framleiðslan á svið skjólfatnaðar, svefnpoka, bakpoka og tjalda og var Skjólklæðagerðin stofnuð 1941 til að annast fataframleiðsluna. Belgjagerðin byrjaði á Spítalastíg 7 en flutti brátt í Sænska frystihúsið við Arnarhól þar sem hún var til 1960 en þá flutti hún í Bolholt 6. Karnabær keypti Belgjagerðina 1978 og síðar Max h.f. Upp úr 1997 runnu þessi fyrirtæki inn í Sjóklæðagerðina (66‘Norður).

Beljusund. Sund sem var milli Austurstrætis 6 og 8 á 19. og fram á 20. öld. Um þetta sund voru kýr Björns Jónssonar í Ísafold reknar.

Beneventum. Örnefni í vestanverðri Öskjuhlíð undir hömrum ofarlega í hlíðinni við skógarjaðar. Nafngiftin, sem er úr latínu, er komin til af því að þar söfnuðust skólapiltar úr Lærða skólanum saman til að ráða ráðum sínum, líklega í sambandi við pereatið 1850.

Bennabúð. Sjá Stórholtsbúðin.

Berg. Torfbær sem Erlendur Runólfsson er talinn hafa reist við Grundarstíg 2 árið1833. Í stað hans var reistur steinbær á lóðinni með þessu nafni 1879 og stóð hann til 1927. Einnig nefndur Zakkaríasbær.

Berg. Hús við Ásveg 7, reist um 1930, erfðafestuland. Þar bjó Gísli Jónsson listmálari

Berg. Steinhús sem stóð rétt fyrir ofan núverandi Laugaveg 174. Upphaflega var þarna timburhús, reist af Sigurði Árnasyni vélstjóra og Þuríði Pétursdóttur, en það brann til kaldra kola 1928. Steinhúsið var þá reist af þeim hjónum en það mun hafa verið rifið fyrir eða um 1970.

Berg. Leikskóli við Kléberg á Kjalarnesi. Tók til starfa 2004.

Berg. Miðbik Efra-Breiðholts, kennt við berg. Þar heita göturnar Austurberg, Gerðuberg, Hamraberg, Háberg, Heiðnaberg, Hraunberg, Hólaberg, Klappberg, Lágaberg, Neðstaberg og Vesturberg.

Berg. Hús við Langholtsveg 30. Þar bjó lengi Gísli Jónsson listmálari.

Berg Contemporary. Listagallerí sem tók til starfa 2016 á Klapparstíg 16 undir stjórn Ingibjargar Jónsdóttur.

Bergdal. Heildsala sem sérhæfði sig í innflutningi og dreifingu á matvörum. Stofnsett 1980 af Sverri Agli Bergmann. Var á Skúlagötu 61 (athuga nánar) en flutti að Skútuvogi 12L árið 1988, þaðan að Vatnagörðum 12 og loks að Köllunarklettsvegi 8 árið 2006 en hætti ári síðar.

Berglind. Barnafataverslun. Stofnuð um 1966 og starfaði til um 1982. Var lengi á Laugavegi 17 en síðustu árin á Klapparstíg 26.

Bergmannsfjós. Sjá Fjós Innréttinganna.

Bergmannsstofa. Sjá Forstjórahús Innréttinganna.

Bergsbær. Steinbær á baklóð við Hverfisgötu 32A, reistur 1894 af Bergi Magnússyni. Var rifinn um 2007.

Bergsbær. Steinbær sem Ástríður Erlendsdóttir reisti árið 1891 á Klapparstíg 16. Löngu horfinn.

Bergshús. Einlyft timburhús að Skólavörðustíg 10, reist 1864 af Alexíusi Árnasyni. Húsið er kennd við Berg Þorleifsson sem bjó þar lengi. Uppi á lofti var Baðstofan sem Þórbergur Þórðarson gerði ódauðlega í ofvitanum. Húsið var flutt í Árbæjarsafn 1989.

Bergskot. Torfbær við Bræðraborgarstíg 37. Stóð til um 1899.

Bergsstaðir. Hús við Þrastargötu

Bergsstaðir. Hús við Víðimel 80. Sjá Runólfshús.

Bergsstaðir. Hús Sigurbergs Einarssonar og Guðrúnar Gamalíelsdóttur við Laugarnesveg 44, reist 1926.

Bergstaðastræti. Liggur frá Laugavegi að Barónsstíg. Oft áður fyrr einnig nefnt Bergstaðastígur. Kennt við torfbæinn Bergstaði. Upphaf götunnar má rekja til um 1860 en hún byggðist að mestu á árunum um 1900 og fram til um 1930. Götunafnið kemur fyrst fyrir 1892.

Bergstaðir. Upphaflega torfbær sem Jón Jónsson reisti 1834 í Arnarhólsholti, þar var síðar Bergstaðastræti 6B. Einnig nefndur Stóru-Bergstaðir. Bærinn var rifinn 1873 og reistur steinbær í staðinn og síðar steinhús. Þarna var rekinn kúabúskapur til 1944.

Bergvellir. Hús við Kleppsveg.

Berkavarnarstöðin. Sjá Líkn.

Berlitzskólinn. Var starfræktur í Reykjavík á árunum 1927-1933. Aftur var skóli með þessu nafni stofnaður í Reykjavík árið 1948 en nafni hans var breytt í Málaskólann Mími árið 1950 (sjá).

Bernburg & Co. Hljómsveit P. O. Bernburg

Bernburgssveitin. Sjá Hljómsveit P. O. Bernburg.

Bernhard Notaðir bílar. Sjá Aðalbílasalan.

Bernhard Petersen. Inn- og útflutningsfyrirtæki, stofnsett 1907. Flutti inn salt og kol og út lýsi og harðfisk. Rak einnig lýsishreinsunarstöð frá 1932, fyrst við Sundskálavík við Þormóðsstaði en frá 1937 á Sólvallagötu 80. Fyrirtækið átti tvílyft timburhús við Tryggvagötu (þar sem síðar komu Hafnarbúðir) en það var  rifið 1942. Var síðan með skrifstofur í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu en flutti 1984 í hús sitt við Ánanaust 15 þar sem lýsisstöðin var. Starfaði til um 2002.

Bernharð Laxdal. Fatabúð, stofnuð 1938.

Bernhöftsbakarí. Stofnsett 1834 af P. C. Knudtzon í nýbyggðum húsum í Bankastræti 2. Fyrsti bakarinn var Tönnies Bernhöft og keypti hann bakaríið árið 1845. Bakaríið var rekið í sömu húsakynnum til 1931 en var þá flutt að Bergstaðastræti 14. Árið 1983 var sölubúðin og kökugerðin flutt að Bergstaðastræti 13 en brauðgerðin var áfram á Bergstaðastræti 14 til 1996 að hún var einnig flutt á nr. 13.

Bernhöftshús. Standa við Bankastræti 2. Eldri húsin sem standa fremst á lóðinni eru frá árinu 1834, reist af P. C. Knudtzon kaupmanni sem bökunarhús og íbúðarhús bakara. Á baklóðinni voru móhús og fleira sem brunnu 1977. Húsin eru kennd við fyrsta bakarann, Tönnies Bernhöft.

Bernhöftspóstur. Sjá Bakarabrunnur.

Bernhöftstorfa. Samheiti á húsum sem standa á reitnum milli Bankastrætis og Amtmannsstígs, ofan Lækjargötu en neðan Skólastrætis. Um hvort rífa ætti húsin stóðu miklar deilur á árunum um og upp úr 1970 sem urðu tilefni stofnunar Torfusamtakanna 1972.

Besti flokkurinn

Betanía. Kristinsboðshús Kristinboðsfélaganna í Reykjavík, stofnað um 1931 á Laufásvegi 13 og var þar til ársins 1988.

Betel. Hús Sjöunda dags aðventista sem reist var í Ingólfsstræti 22 um 1905. Það brann 1910 en nýtt Betel var þá reist á lóðinni. Aðventistar seldu húsið 1917 og komst það síðan í eigu Guðspekifélagsins sem stækkaði það og breytti því mikið.

Betra Breiðholt. Íbúasamtök Breiðholtshverfis, stofnuð 2006. Fyrsti formaður samtakanna var Helgi Kristófersson.

Beygjan. Sveigur á Elliðaám bak við Toppstöðina.

Biblioteksstígur. Sjá Bókhlöðustigur.

Biering. Búsáhaldaverslun. Upphaflega stofnuð árið 1914 og hét þá Johs. Hansens Enke og var stofnandinn Laura Nielsen.  Var í Austurstræti 1 til 1924, þá á Laugaveg 3 til 1942 en síðan á Laugaveg 6 til 1988. Frá 1933 hét verslunin H. Biering.

Bieringsbúð

Bifreiðaeftirlit ríkisins. Á rætur að rekja til laga um notkun bifreiða sem Alþingi setti 1914. Árið 1917 auglýsti lögreglustjórinn í Reykjavík að öllum bifreiðaeigendum bæri að koma með bíl sinn til skoðunar og framkvæmdi M. E. Jessen vélfræðingur skoðunina á Vesturgötu 16B. Síðan var árlega auglýst skoðun og fór hún fram á ýmsum stöðum í Reykjavík. Bifreiðaeftirlit ríkisins varð að fastri stofnun árið 1928 og var fyrsti forstöðumaður þess Jón Ólafsson.  Það var til húsa í Arnarhvoli frá 1930 og fór bifreiðaskoðun þá fram á hafnarbakkanum eða við Arnarhvol. Um 1940 flutti Bifreiðaeftirlitið að Amtmannsstíg 1 og 1947 að Borgartúni 7 og þar var bifreiðaskoðunin framkvæmd til 1977 en þá var flutt í Bíldshöfða 8.  Ökupróf og bifreiðastjóranámskeið voru og í umsjón eftirlitsins. Árið 1988 var Bifreiðaeftirlit ríkisins lagt niður og við tók hlutafélagið Bifreiðaskoðun Íslands.

Bifreiðaeinkasala ríkisins. Stofnsett 1935 og hafði það hlutverk að panta bíla fyrir þá sem höfðu innflutningsleyfi. Var til húsa í Lækjargötu 10B. Rekin í samlögum við Viptækjaverslun ríkisins undir stjórn Sveins Ingvarssonar. Lögð niður 1942.

Bifreiðafélag Reykjavíkur. Hlutafélag um fyrstu bílastöðina á landinu sem stofnuð var 1913. Aðsetur hennar var á svokallaðri Gullóð við Vonarstræti (nú nr. 8-10). Í stjórn félagsins voru lögmennirnir Axel V. Tulinius og Sveinn Björnsson ásamt Pétri Þ. J. Gunnarssyni hótelstjóra en framkvæmdastjóri var ráðinn Sveinn Oddsson. Var með áætlunarferðir til Hafnarfjarðar, Þingvalla og austur yfir Hellisheiði. Félagið var leyst upp 1915 en sama ár var stofnað annað félag með sama nafni og var Hafliði Hjartarson framkvæmdastjóri þess. Virðist það félag hafa starfað til 1917-1918.

Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur.

Bifreiðaskoðun Íslands. Hlutafélag, að hluta í eigu ríkisins, stofnsett 1988. Árið 1989 tók það við hlutverki Bifreiðaskoðunar ríksins um skoðun bifreiða. Fyrsti forstjóri félagsins var Karl Ragnars. Höfuðstöðvar þess í Reykjavík voru á Hesthálsi 6-8. Félagið var lagt niður 1997.

Bifreiðasmiðja Sveins Egilssonar

Bifreiðastöð Íslands. Stofnuð 1933.

Bifreiðastöð Kristins og Gunnars. Leigubílastöð, stofnuð 1928 af þeim Kristni Gunnarssyni og Gunnari Guðnasyni. Var með aðsetur í Hafnarstræti 23. Hætti starfsemi 1933.

Bifreiðastöð Reykjavíkur, sjá BSR.

Bifreiðastöðin Bifröst. Sjá Bifröst.

Bifreiðar og landbúnaðarvélar. Bílainnflutningsfyrirtæki, stofnað af Guðmundi Gíslasyni og fleirum árið 1954, upphaflega til að flytja inn rússneska bíla. Varð eitt af stærstu fyrirtækjum á sínu sviði. Var til húsa á Ægisgötu 10 til 1957, þá í Brautarholti 20 til 1964 og loks á Suðurlandsbraut 14 á árunum 1964-1999. Einnig var það með húsnæði Ármúla 13 1988-1999 en öll starfsemin flutti að Grjóthálsi 1 árið 1999. Tíu árum síðar (2009) flutti það að Sævarhöfða 2 þar sem það hafði sameinast Ingvari Helgasyni hf.

Bifreiðastöð Magnúsar Skaftfjeld. Sjá Bæjarbílastöðin.

Bifreiðaverkstæði Árna Gíslasonar. Stofnsett 1954 og var fyrst til húsa við Kleppsveg. Árið 1962 var flutt í Dugguvog 23 og árið 1978 að Tagnarhöfða 8-12 þar sem verkstæðið var rekið í þremur deildum.

Bifreiðaverkstæði Árna Gíslasonar. Sjá ÁG bifreiðaverkstæði.

Bifröst. Leigubílastöð, stofnuð 1928 af Garðari Gíslasyni og fleirum. Var fyrst í stað í Bankastræti 7 en síðan lengi á Hverfisgötu 4 og loks á Vitatorgi. Hætti starfsemi 1959.

Bikarinn. Íþróttavöruverslun, stofnuð 1977 af Halldóri Einarssyni og var hún fyrst til húsa í Hafnarstræti 16 en frá um 1978 á Skólavörðustíg 14. Hætti 1992.

Billiardstofan Einholti. Billjardstofan var upphaflega til húsa á Vesturgötu 6-8, var komin þangað 1934, en var frá 1954 í Einholti 2. Rekin þar fram yfir 1990. Lengst af Árna Jónssyni og fjölskyldu.

Billiardstofan Klapparstíg 26. Kölluð Billinn í daglegu tali. Stofnsett af Silla & Valda 1947 og rekin í tengslum við einn af Adlon-börunum svokölluðu. Starfrækt til 1993. Eigendur voru lengst af Björn Þórðarson og Þorkell Vilhjálmur Þórðarson.

Billinn. Sjá Billiardstofan Klapparstíg 26.

Bindindisfélag kennara. Stofnsett 1953.

Bindindisfélag ökumanna. Stofnsett 1953.

Bindindishöllin

Bingleykampur (Bingley Camp). Braggahverfi á Grímsstaðaholti, vestan við Smyrilsveg á horni Smyrilsvegar og Hjarðarhaga. Fyrsta braggahverfið sem Íslendingar flutti í á árunum 1941 og 1942. Lagðist af eftir það.

Birgðahús Landssímans. Þrílyft steinhús, reist við Sölvhólsgötu 11 árið 1942. Þar var einnig til húsa Radíóverkstæði Landssímans. Frá 1972 var Póst- og símaskólinn í húsinu. Það var rifið 2004.

Birgisbúð. Stofnsett 1958 af Birgi Guðbrandssyni og rekin til um 1983 á Ránargötu 15.

Birgittubær. Sjá Snikkarabær.

Birkibær. Einbýlishús á erfðafestulandi á Kleppsmýrarbletti 15 við Langholtsveg, reist af Kjartani Ó. Bjarnasyni prentara á árunum 1935-37, nú Eikjuvogur 25.

Birkihlíð. Hús við Reykjaveg.

Birkilundur. Hús við Vatnsveituveg.

Birkines. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Birkiturninn. Sjoppa í skúrbyggingu við horn Birkimels og Hringbrautar. Kominn 1958 og rekinn fram undir árið 2000.

Birtingaholt. Steinbær við Framnesveg 59, reistur 1889 af Guðmundi Þorsteinssyni. Samnefnt timburhús sem nú stendur á lóðinni er frá 1904.

Biskupsfjós. Sjá Fjós Innréttinganna.

Biskupsgata. Eftir að biskupssetur kom í Laugarnes árið 1826 lá alfaraleið með þessu nafni frá vöðunum á Elliðaám út með Elliðaárvogi um Klepp og þaðan eftir fjörunni og meðfram henni í Laugarnes. Þaðan hélt hún áfram með fjörunni inn til Reykjavíkur.

Biskupshús. Sjá Ahrenzhús.

Biskupshúsið. Timburhús í Austurstræti 16, reist 1831 af H. P. Möller. Síðan bjó þar lengi Pétur Pétursson biskup og var það kennt við hann. Brann 1915.

Biskupssef. Gulstarasef við sunnanverðan Tjarnarbakkann sem Þórhallur Bjarnarson biskup í Laufási nýtti til sláttar á árunum eftir 1896.

Biskupsstofa. Húsið Aðalstræti 10 sem enn stendur. Þar bjó Geir Vídalín biskup á árunum 1807-1823 og var húsið þá jafnan nefnt þessu nafni og lengi síðan. Upphaflega var húsið Kontor- og magazinhús Innréttinganna, líklega reist árið 1762. Síðar var það um tíma kallað Petræusarhús eftir þáverandi eiganda, Westy Petræus.

Biskupstún

Bíla- og búvélasalan. Stofnsett 1959 af þeim Sveini Jónassyni og Ólafi Jónssyni sem sölumiðlun notaðra landbúnaðarvéla. Var fyrsta árið til húsa að Baldursgötu 8, þá til 1962 í Ingólfsstræti 11 og loks til um 1972 í Eskihlíð við Miklatorg. Var svo síðar starfrækt á Selfossi.

Bílabúð Benna. Kennd við Benedikt Eyjólfsson framkvæmdastjóra, stofnsett 1975. Verslar með nýja og notaða bíla og er með varahlutaverslun og dekkjaverkstæði. Tíl húsa á Vagnhöfða 23, Tangarhöfða 8-12 og Bíldshöfða 10.

Bílanaust. Bílavarahlutaverslun, stofnsett af Hákoni Kristinssyni og Matthíasi Helgasyni árið 1962. Var fyrst til húsa í Höfðatúni 2 en árið 1969 var verslunin flutt í Bolholt 4 auk þess sem önnur verslun var opnuð í Skeifunni 5. Árið 1975 flutti fyrirtækið í eigið húsnæði í Síðumúla 7-9 og árið 1926 í Borgartún 26. Árið 1992 var stofnað útibú í Skeifunni 5,sem árið 1999 var flutt í Skeifuna 2, og árið 1995 í Bíldshöfða 14 auk þess sem fyrirtækið rak útibú í Hafnarfirði. Á árunum þar á eftir keypti Bílanaust upp fjölmörg fyrirtæki og fyrirtækjahluta og færði mjög út kvíarnar, rak tvær verslanir í Reykjavík, í Borgartúni 26 og Bíldshöfða 14 og var með útibú víða um land. Árið 2005 fór Bílanaust í útrás til Bretlandseyja og flutti sama ár verslunina í Borgartúni í Bíldshöfða 9. Árið 2006 keypti Bílanaust Olíufélagið (Esso) og var sameinað því árið eftir undir heitinu N1.

Bílaréttingar og bílasprautun Sævars. Fyrirtæki stofnað árið 1985 af Sævari Péturssyni. Var lengi í Skeifunni 17 en síðan í Bíldshöfða 5A og loks í Skútuvogi 12E.

Bílasala Guðmundar. Stofnuð í Reykjavík 1954 af Guðmundi Jónatan Guðmundssyni. Var fyrstu árin á Klapparstíg 37 en frá um 1960 á Bergþórugötu 3. Rekin fram yfir 1986.

Bílasmiðafélag Reykjavíkur

Bílastæðasjóður. Sjálfstætt fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar.

Bílaverkstæði Egils Óskarssonar. Komið 1959 og rekið fram til um 1988. Var fyrstu árin í Ármúla 27 en síðar lengst af í Skeifunni 5.

Bíliðnafélagið. Stofnsett 1991 með sameiningu Félags bifvélavirkja (sjá) og Félags bílamálara. Ári síðar gekk Félag bifreiðasmiða í félagið og árið 1998 Félag blikksmiða. Lagt niður 2003 þegar það ásamt fjórum öðrum félögum mynduðu Félag iðn- og tæknigreina (sjá).

Bílrúðan. Fyrirtæki, stofnað 1972 í Garðabæ. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Friðrik Theódórsson. Framleiddi til að byrja með bílrúður en einbeitti sér síðan að innflutningi. Var um tíma til húsa á Skúlagötu 26 en frá um 1984 hefur það verið á Grettisgötu 87.

Bílstjóraklúbburinn. Skemmtiklúbbur sem starfaði á árunum 1927-1928, gekkst fyrir dansleikjum.

Bílson. Bifreiðaverkstæði, stofnað af Bjarka Harðarsyni árið 1984. Var til húsa að Langholtsvegi 115 til ársins 1990 en flutti þá að Ármúla 15. Frá 2012 hefur það verið að Kletthálsi 9.

Bíóborgin. Sjá Austurbæjarbíó.

Bíócamp. Sjá Hafnarbíó.

Bítlavinafélagið. Popphljómsveit sem starfaði á árunum 1985-90 undir forystu Jóns Ólafssonar píanóleikara.

Bjarg. Torfbær, reistur af Jóni Markússyni 1833 þar sem nú er Ingólfstræti 3. Um tíma kallaður Pétursbær því að þá bjó þar Pétur Ottesen. Bærinn var rifinn 1892 og reist steinhlaðið hús sem einnig var kallað Bjarg. Það var rifið 1986.

Bjarg. Hús við Sólvallagötu

Bjarg. Steinbær á Grímsstaðaholti, byggður af Guðjóni Einarssyni upp 1882. Stóð þar sem nú eru lóðamörk Tómasarhaga 32 og 34. Einnig nefndur Guðjónshús. Rifinn milli 1960 og 1970.

Bjarg. Steinbær, reistur 1894 af Guðmundi Stefánssyni á Lindargötu 35. Einnig nefndur Vaktarabær eða Grænibær. Rifinn um 1960.

Bjarg. Hús Páls Erlingssonar sundkennara frá árinu 1921 á erfðafestulandi á Kirkjumýrarbletti 3, nú við Sundlaugaveg 37.

Bjarg. Steinhlaðið hús við Skólavörðustíg 38, reist 1920 eftir teikningu Jakobs Thorarensen skálds og trésmiðs fyrir Jóhannes Bjarnason.

Bjargarbúð. Lítil verslun í kjallara hússins Kirkjubergs á horni Laugarnesvegar og Sundlaugavegar, stofnsett 1927, kennd við Sigurbjörgu Einarsdóttur.

Bjargarstígur. Gata í Þingholtunum, milli Grundarstígs og Óðinsgötu, talin nefnd eftir Sigurbjörgu Sigurðardóttur á Mið-Grund (sjá). Nafnið Bjargarstígur kemur fyrst fyrir um 1900 en einnig kemur fyrir nafnið Mánastræti á þessari götu á árunum 1899-1902.

Bjargarsteinn. Steinbær á horni Bergstaðastrætis og Bjargarstígs sem enn stendur, reistur árið 1884 af Jóhannesi Pálssyni.

Bjarkarás. Hæfingarstöð fyrir fólk með þroskahömlun að Stjörnugróf  9, rekin af Ási styrktarfélagi. Tók til starfa 1971 og var fyrsti forstöðumaður stöðvarinnar Gréta Bachmann. Þar er meðal annars rekin smiðja og gróðurhús.

Bjarkarás. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf).

Bjarkargata. Gata milli Skothúsvegar og Hringbrautar, austan Hljómskálagarðs. Nafnið var samþykkt 1927.

Bjarkarhlíð. Hús á erfðafestulandinu Bústaðabletti 18, byggt 1935. Þar bjó Hákon Guðmundsson hæstaréttarritari og fjölskylda hans. Húsið stendur í stórum skógarlundi austan við Bústaðakirkju.

Bjarkarlundur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)(1949)

Bjarki. Timburhús við Grundarstíg

Bjarmahlíð. Hús á erfðafestulandi á Laugamýrarbletti 14 við Laugarásveg.

Bjarmaland. Tilsniðið norskt timburhús sem norski lifrarbræðslumaðurinn og athafnamaðurinn Emil Rokstad reisti við Laugarnesveg (síðar nr. 78) árið 1912. Stóð þar sem nú eru gatnamót Laugarnesvegar og Laugalækjar.

Bjarnaberg. Hús við Seljalandsveg.

Bjarnaborg. Tvílyft fjölbýlishús úr timbri að Hverfisgötu 83, byggt 1902 af Bjarna Jónssyni snikkara og kennt við hann. Voru upphaflega í húsinu 15 íbúðir og hefur það verið kallað fyrsta fjölbýlishús landsins.  Eftir 1994 var húsið gert upp og því breytt töluvert á vegum Iðnanemasambands Íslands og hafa síðan verið þar félagsíbúðir iðnnema.

Bjarnabær. Bær við Óðinsgötu 8, reistur af Bjarna Símonarsyni árið 1875. Mun hafa verið rifinn 1910.

Bjarnastaðaholt. Mosagróið svæði í Kleppsholti, nú einbýlis- og raðhúsahverfi.

Bjarnastaðir. Lítið hús við Ásveg.

Bjarnarstaðir. Nýbýli á erfðafestulandinu Bústaðabletti 14, byggt 1933. Er nú Skógargerði 2.

Bjarnarstaðir. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Bjarnastaðir. Hús við Súlugötu á Grímsstaðaholti. Var þar sem nú eru lóðamörk Tómasarhaga 34 og 36. Upphaflega var þetta torfbær sem Þórður Guðmundsson reisti 1867 og kallaðist Grímsstaðakot. Árið 1908 var byggt þarna timburhús sem kallaðist Bjarnastaðir eftir þeim sem byggði, Bjarna Grímssyni. Húsið var rifið um 1970.

Bjarni Þ. Halldórsson. Umboðs- og heildverslun, stofnsett 1954 og rekin til um 1997. Var lengst af framan af í Garðastræti 4 en frá um 1980 til um 1990 að Vesturgötu 28. Síðan á ýmsum stöðum.

Bjarni Stefánsson. Sjá Hljómbær.

Björg. Bátafélag. Hagsmunasamtök smábátaeiganda í Reykjavík. Stofnað um 1940 en starfaði stutt. Var endurvakið 1952 undir forystu Gunnars Friðrikssonar og starfaði til 1965.

Björg. Efnlaug, stofnsett um 1949 af Torfa Guðbjörnssyni. Var fyrstu tvö árin í Barmahlíð 4, þá á Sólvallagötu 74 á árunum 1951-1966 auk þess sem útibú var í Barmahlíð 6 á árunum 1951-1977 og um tíma í Álfheimum 6. Höfuðstöðvarnar fluttust  í Miðbæ að Háaleitisbraut 58-60 árið 1965 og hafa verið þar síðan. Árið 1987 var stofnað útibú í Álfabakka 12 í Mjódd, sem enn er starfrækt,  og um tíma var einnig útibú  í Grímsbæ við Bústaðaveg.

Björgun. Stofnsett 1952 af Kristni Guðbrandssyni og fleirum með því markmiði að bjarga strönduðum skipum. Hafði aðsetur í Vatnagörðum frá 1957 en síðan í Sævarhöfða í Ártúnshöfða frá 1976 þar sem það kom sér upp hafnaraðstöðu og öðrum mannvirkjum. Félagið helgaði sig þegar frá leið rekstri sanddæluskipa, dýpkunarframkvæmdum og malarnámi af hafsbotni. Eftir 1990 hafði það frumkvæði að svokölluðum bryggjuhverfum sem risu í Reykjavík, Garðabæ og Kópavogi.  Fyrirtækið Jarðboranir keyptu Björgun árið 2005 og fjárfestingarfélagið Atorka keypti hvort tveggja árið 2007. Frá þeim tíma var Björgun rekið sem sjálfstætt fyrirtæki en árið 2010 leysti Landsbankinn það til sín.

Björgunarstöð Slysavarnarfélags Íslands. Til húsa í stórum skála í Örfirisey í krikanum þar sem Norðurgarður og Grandagarður mætast ásamt rennibraut fram í sjó. Tekin í notkun 1946 og notuð til 1960 en þá var tekið í notkun nýtt hús Slysavarnarfélagsins á Grandagarði 14, teiknað af Gísla Halldórssyni. Voru þar höfuðstöðvar félagsins til 1999. Nýja björgunarstöð reisti félagið á Grandagarði 1 á árunum 1972-1976.

Björgunarsveitin á Kjalarnesi. Komið á fót 1951 og hefur verið starfrækt síðan.

Björk. Húsgagnavinnustofa, stofnsett 1939 af Gottskálk Gíslasyni og Vilhjálmi Jónssyni. Var til um 1951 á Laugaveg 42 en síðan á ýmsum stöðum, meðal annars í Barmahlíð 4 og Barmahlíð 41.

Björk. Tóbaks- og gjafavöruverslun. Stofnsett 1986 af Sölva Óskarssyni. Hefur frá upphafi verið í Bankastræti 6.

Björn og Halldór. Vélaverkstæði (Síðumúla 19 1976, 1978)

Björninn. Ísknattleiksfélag. Hefur höfuðstöðvar sínar í Egilshöll.

Björninn. Smurbrauðsstofa og veitingastofa á Njálsgötu 49. Var komin til sögu 1949 og rekin til 1991.

Björn og Ingvar. Úrsmíðavinnustofa og verslun, stofnuð 1951 af þeim Birni Örvar og Ingvari Benjamínssyni. Var á Vesturgötu 16 til 1959, þá í Austurstræti 8 til 1963, Aðalstræti 8 til 1965 og loks á Laugavegi 25 til 1971.

Björnsbakarí. Stofnsett um árið 1900 af hjónunum Birni Símonarsyni og Kristínu Símonarson og var til húsa í Vallarstræti 4 þar til það var flutt að Klapparstíg 3 árið 1990. Útsala var þó áfram í Vallarstræti 4 til 1993. Ennfremur hefur verið útsala á Hringbraut 35 frá 1942, í Grímsbæ í Efstalandi var útsala opnuð 1972 og var þar í mörg ár. Um og upp úr 1990 komu útsölur á Klapparstíg 3, Austurströnd 14 á Seltjarnarnesi og Fálkagötu 18. Síðast var opnuð útsala á Miklubraut 68. Björnsbakarí á Klapparstíg er í aðskildum rekstri frá hinum bakaríunum.

Björnsbryggja. Kennd við Björn Guðmundsson múrara og kaupmann, var rétt austan við ós Lækjarins. Gekk einnig undir nafninu Frederiksensbryggja eftir norskum timburkaupmanni. Í upphafi var um að ræða eina timburbryggju en síðan var gerð minni steinbryggja austar og var 60 metra langt bólvirki milli bryggjanna. Báðar bryggjurnar voru teknar af  vegna hafnarframkvæmda á árunum 1915-1916. Ný trébryggja var gerð á sama stað og gamla trébryggjan hafði verið 1916 og stóð hún til 1920 en var þá einnig tekin niður.

Björnsbryggja. Staurabryggja úr timbri milli Ingólfsgarðs og Faxagarðs, gerð á árunum 1924-1925 og nefnd eftir bryggjusmiðnum, Birni Jónsson. Var ein helsta togarabryggjan fyrstu árin. Sjómenn kölluðu hana Tittlinginn eftir að Faxagarður kom. Rifin 1953.

Björnsbær. Sjá Bakka.

Björnsbær. Sjá Suðurberg.

Björnsholt. Hús með þessu nafni er á korti frá um 1850, nálægt því sem Melabúðin er núna.

Björnshús. Steinbær við Arnargötu 15 á Grímsstaðaholti, kenndur við Björn Sveinsson skipasmið en reistur af Þórði Halldórssyni árið 1882. Húsið stóð þar sem nú er götustæði Dunhaga. Rifið um 1970.

Blaðadreifing. Sjá Innkaupasamband bóksala.

Blaðaprent

Blaðamannafélagið

Blaðsíðumúli. Uppnefni á götunni Síðumúla þegar öll dagblöðin nema Morgunblaðið og nokkur vikublöð höfðu þar aðsetur á árunum í kringum 1980.

Bláa augað. Uppnefni á veitingastað sem Vigdís S. Waage rak í Austursræti 18 á árunum eftir 1860.

Bláa bandið. Líknarfélag, stofnað 1955 af 25 mönnum úr AA-samtökunum. Sama ár stofnaði félagið hjúkrunarstöð og dvalarheimili fyrir drykkjusjúklinga að Flókagötu 29 sem síðar var einnig á Flókagötu 31. Árið 1963 yfirtók Kleppsspítalinn stöðina og kallaðist hún eftir það Flókadeild. Bláa bandið stofnaði einnig vistheimili fyrir drykkjusjúklinga að Víðinesi á Kjalarnesi árið 1959 og var það rekið til ársins 2010.

Bláa búðin. Kven- og barnafataverslun, stofnsett 1941 af Mekkinó Björnssyni en lengst af rekin af Helgu Thorberg. Var í Aðalstræti 10 til 1955 en eftir það á Laugavegi 11 til um 1990 (?).

Bláa stjarnan. Skemmtifélag, stofnað árið 1948, til að standa fyrir revíusýningum í Sjálfstæðishúsinu. Að því stóðu Alfreð Andrésson, Haraldur Á. Sigurðsson, Indriði Waage og Tómas Guðmundsson. Starfaði til 1952.

Bláfellsútgáfan. Bókaútgáfa á vegum Gísla Ólafssonar og Hafsteins Guðmundssonar, stofnsett um 1958 og rekin til um 1970.

Bláfjallafólkvangur. Fólkvangur á Bláfjallasvæðinu, 9035 hektarar að stærð, friðlýstur árið 1973. Mörk hans eru línur dregnar milli Vífilfells, Hákolls, Kerlingarhnjúks, Litla Kóngsfells, Bollans við Grindaskörð, horns Heiðmerkurgirðingar við Kolhól, síðan með Heiðmerkurgirðingu í punkt þar sem hún sker línu milli Stríps og Stóra Kóngsfells, Sandfells norðvestur af Rjúpnadölum og þaðan aftur í Vífilfell.

Bláfjallaskáli. Reistur á skíðasvæðinu í Bláfjöllum veturinn 1972-1973.

Bláfjallavegur. Lagður frá Suðurlandsvegi að Bláfjallasvæðinu 1972.

Bláfjöll. Fjallaklasi vestan Hellisheiðar, sunnan við Vífilsfell. Þar eru skíðalönd Reykvíkinga sem tekin voru í notkun … .

Blái turninn. Söluturn við Háaleitisbraut 66, settur á stofn um 1960. Brann 2012.

Blásalir. Leikskóli við Brekknaás 4 í Árbæjarhverfi.

Blásarasveit Reykjavíkur. Stofnaður 1981 af leiðandi blásurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, þeim Bernharði Wilkinssyni, Daða Kolbeinssyni, Einari Jóhannessyni, Hafsteini Guðmundssyni og Jósef Ognibene. Árið 1967 starfaði um tíma sveit með sama nafni.

Blásteinn. Veitingahús og sportbar að Hraunbæ 102 í Árbæjarhverfi, stofnsett 1987 af Jóni Þór Einarssyni og Kjartani Daníelssyni.

Blásteinshólmi. Mikill hólmi í Elliðaám á móts við Árbæjarhverfi. Breiður efst á móts við Árbæjarkirkju og Árbæjarskóla en enda í langri totu við Árbæjarstíflu. Var talinn að hálfu í eigu jarðarinnar Breiðholts en að hálfu í eigu Árbæjar.

Blásteinshylur. Veiðistaður í nyrðri kvísl Elliðaá sem rennur um Blásteinshólma, á móts við vesturenda Fylkisvallarins.

Blátún. Hús Jóns Þorleifssonar listmálara á erfðafestulandi við Kaplaskjólsveg (á Sauðagerðisbletti vestri).

Bleikdalur. Sjá Blikdalur.

Blesugróf. Upphaflega lækjargil sunnan við Elliðaár. Nafnið var síðar notað um hvilftir og sandöldur á móts við rafstöðina við Elliðaár að Bústaðahverfi og upp undir núverandi Stekkjarbakka. Þarna reis eftir 1937, á stríðsárunum og eftir stríð samnefnt hverfi smáhýsa utan skipulags og voru það ýmist heilsárshús eða sumarbústaðir. Var hverfið ýmist kallað Blesugróf eða Breiðholtshverfi. Árið 1957 voru húsin um 100 talsins og íbúarnir um 500. Eftir 1970 var stór hluti af húsunum rifinn, meðal annars til að rýma fyrir Reykjanesbraut en allmörg standa enn, einkum vestan Reykjanesbrautar þar sem götur fengu árið 1962 nöfnin Bleikargróf, Blesugróf (áður B-gata), Jöldugróf og Stjörnugróf (áður A-gata). Einnig voru í Blesugrófarhverfinu C-gata og D-gata.

Blesugrófarmelur. Melur við Blesugróf upp af Árhólmum.

Blettir ytri. Hallinn suður af Síldarmannagarði í Grafarvogi, norðan við Jörva, rétt ofan við Ytri Urð.

Blikdalsá. Á sem rennur úr Blikdal í Esju. Þar sem hún kemur niður á láglendið og til sjálvar er hún oft nefnd Ártúnsá eftir býli við mynni dalsins.

Blikdalur.  Grösugur dalur í vesturhluta  Esju, hann liggur frá Gunnlaugsskarði í austri og hallar í vestur að klettabelti við Tíðarskarð en dalsmynnið er skammt austan við það. Eldra nafn er Bleikdalur. Lengstur Esjudala. Suðurhluti Blikdals heyrði undir Brautarholt en sá nyrðri undir Saurbæ.

Blikk og stál. Blikksmiðja, stofnuð 1962 af Valdimar K. Jónssyni, Garðari Erlendssyni og fl. Var fyrst til húsa á Grensásvegi 18 en frá 1970 í Dugguvogi 23 og frá 1974 að Bíldshöfða 12. Hætti starfsemi 1992.

Blikksmiðja Austurbæjar. Stofnsett 1972 af Ingiberg Guðbjartssyni. Var til húsa í Borgartúni 25 til en flutti í Súðarvog 6 árið 2000 og loks í Súðarvog 9.

Blikksmiðja Gylfa. Stofnsett 1972 af Gylfa Konráðssyni. Var fyrstu tvö árin í Ingólfsstræti 21b en frá 1974 að Tangarhöfða 11. Þaðan var flutt að Vagnhöfða 7 árið 1986, Bíldshöfða 18 um 1995 og að Kletthálsi 9 um 2005.

Blikksmiðjan. Stofnsett 1966 af Ólafi Á. Jóhannessyni og fl. Var í Skeifunni 3 til 1979 en flutti þá í Kópavog.

Blikksmiðja Reykjavíkur. Stofnuð 1927 af Einari Einarssyni, Hólmsteini Jónssyni og Helga Vigfússyni á Laugaveg 53A, áður hafði Einar rekið blikksmíðaverkstæði þar í eitt ár. Blikksmiðjan var á Lindargötu 26 á árunum 1944-1987 en hefur síðan verið í Súðarvogi 7.

Blikksmiðja Vilhjálms Húnfjörð. Rekin við Ingólfsstræti 21b á árunum 1944-1972.

Blikksmíðavinnustofa J. B. Péturssonar. Átti rætur sínar í blikksmíðavinnustofu Péturs Jónssonar á Vesturgötu 22 sem stofnuð var 1883. Árið 1903 flutti blikksmiðjan að Nýlendugötu 10 og 1909 á Ægisgötu 4. Síðar var hún á Ægisgötu 7. Stáltunnuframleiðsla var stór hluti af starfsemi fyrirtækisins en þegar hún dróst saman var Járnvöruverslun JBP sett á stofn á Ægisgötu 4 árið 1956. Þar voru m.a. seldar byggingarvörur sem fyrirtækið framleiddi. Járnvöruverslunin hætti fyrir 1990 en Blikksmiðja J.B. Péturssonar hefur síðustu árin verið í Hafnarfirði.

Blindrafélagið. Stofnað 1939 af blindum einstaklingum sem vildu stuðla að því að taka stjórn sinna mála í eigin hendur. Fyrsti formaður félagsins var Benedikt Benónýsson. Frá 1961 hefur Blindrafélagið verið til húsa í eigin húsnæði að Hamrahlíð 17.

Blindraiðn. Burstagerð og vefstofa Blindravinafélags Íslands. Stofnuð 1933 og var hún frá 1939 í eigin húsnæði í Ingólfsstræti 16. Lögð niður 2003.

Blindraskólinn. Stofnaður 1933 og var fyrst í húsnæði Elliheimilsins Grundar við Hringbraut. Ragnheiður Kjartansdóttir var fyrsti forstöðumaðurinn. Á árunum 1935-1938 var skólinn að Laufásvegi 19 en starfaði ekki á árunum 1938-1956. Árið 1956 tók hann aftur til starfa og nú að Bjarkargötu 8. Þar var hann til 1971 að hann flutti í Laugarnesskólann. Árið 1978 hætti Blindraskólinn að starfa sem sérstakur skóli og var eftir það deild í grunnskólum Reykjavíkur.

Blindravinafélag Íslands. Stofnað 1932 til að hlúa að blindum og stofna skóla og vinnustofur fyrir blinda.  Aðalhvatamaður að stofnun þess var Þórsteinn Bjarnason en fyrsti formaður Sigurður P. Sivertsen. Frá 1939 voru höfuðstöðvar félagsins í eigin húsnæði að Ingólfsstræti 16 og þar var einnig Blindraskólinn og Blindraiðn ásamt Körfugerðinni lengi til húsa. Félagið seldi eigur sínar árið 2003 og hætti öllum rekstri. Fyrir andvirðið var stofnaður styrktarsjóður, svokallaður Þórsteinssjóður.

Blóðbankinn.  Stofnsettur 1953 í eigin byggingu á Landspítalalóð við Barónsstíg. Fyrsti forstöðumaður hans var Elías Eyvindsson.

Blóm og ávextir. Blómaverslun, stofnuð 1930 af Ástu Jónsdóttur og Ólafíu Einarsdóttur. Var í Hafnarstræti 5 fram yfir 1950, þá um hríð á Skólavörðustíg 10 og síðan Skólavörðustíg 3. Var svo í Hafnarstræti 3 frá 1960 til 1991, þá í Hafnarstræti 4 til 1995 og loks í Austurveri í fá ár. Blóm og ávextir ráku einnig Alaska við Miklatorg um tíma.

Blóm og grænmeti. Verslun, stofnsett 1950 af Ólafi Helgasyni. Var fyrstu tvö árin í Aðalstræti 3, en frá 1951-1960 á Skólavörðustíg 10. Árið 1960 flutti verslunin á Skólavörðustíg 3A og var þar uns hún hætti 1998.

Blómagallerí. Blómabúð á Hagamel 67, stofnuð 1991 af Hansínu og Jórunni Jóhannesdætrum.

Blómasmiðjan. Stofnsett um 1993. Til húsa í verslunarmiðstöðinni Grímsbæ í Efstalandi 26.

Blómaval. Stofnsett 1970 af Bjarna og Kolbeini Finssonum. Var til húsa í gamalli gróðrarstöð við Sigtún og varð brátt stórmarkaður fyrir blóm, garðyrkjuáhöld og grænmeti. Árið 2000 keypti Húsasmiðjan Blómaval og árið 2005 fluttu höfuðstöðvarnar úr Sigtúni í Skútuvog 16 og einnig var þá opnuð Blómavalsverslun að Vínlandsleið 1 í Grafarholti. Einnig eru nokkrar Blómavalsverslanir úti á landi.

Blómaverslun Lilju Kristjánsdóttur. Sjá Blómsveigaverslunin.

Blómaverslunin Anna Hallgrímsson. Rekin lengi á Túngötu 16.

Blómið. Blómaverslun, stofnuð 1957 af þeim Aðalheiði Knudsen, Margréti Hinriksdóttur og Rögnu Jónsdóttur. Var í Lækjargötu 2 til 1962, þá í Austurstræti 18 til 1973, þá var flutt í Hafnarstræti, fyrst í nr 16 en síðan nr. 15. Frá um 1993 var verslunin á Grensásvegi 16 og loks á Grensásvegi 50 til um 2006.

Blómsturvellir. Einlyft timburhús við Bræðraborgarstíg 31 sem enn stendur, byggt árið 1898 af Margréti Þorleifsdóttur.

Blómsturvellir. Hús á erfðafestulandi á Laugarásbletti 4 við Hólsveg

Blómsveigasjóður Þorbjargar Sveinsdóttur. Stofnaður 1904 í minningu Þorbjargar Sveinsdóttur ljósmóður, ætlaður til styrktar fátækum sængurkonum í Reykjavík.

Blómsveigaverslunin. Einnig nefnd Blómaverslun Lilju Kristjánsdóttur. Stofnuð 1901 og rekin í meir en 40 ár, alltaf  á Laugavegi 37.

Blúsbarinn. Hét upphaflega Blúsbarinn-café þegar hann opnaði á Laugaveg 73 árið 1990. Staður með lifandi tónlist. Starfræktur til 1998.

Blúsfélag Reykjavíkur. Stofnað árið 2003 með það að markmiði að geiða fyrir framgangi blústónlistar á Íslandi. Frá 2004 hefur það gengist fyrir árlegri blúshátíð í Reykjavík.

Blúshátíð í Reykjavík. Hefur verið haldin árlega frá árinu 2004 á vegum Blúsfélags Reykjavíkur.

Blúskompaníið. Hljómsveit, stofnuð í Reykjavík um 1970 og hefur verið kölluð reglulega saman síðan. Mikill fjöldi hljómlistarmanna hefur spilað með Blúskompaníinu en framan af voru nöfn eins og Magnús Eiríksson, Karl Sighvatsson og Pálmi Gunnarsson áberandi.

Blöndahlshús. Hús sem togarafélagið Sleipnir, sem Magnús Th. S. Blöndahl stóð fyrir reisti yfir útgerð sína í Tryggvagötu 22 árið 1923. Frá 1932 var húsið notað af Eimskipafélaginu og 1983 var þar opnaður veitingastaðurinn Gaukur á Stöng.

Blöndahlsslagurinn. Átök milli Sjómannafélags Reykjavíkur og togarafélagsins Sleipnis (Blöndahlsútgerðarinnar) sem urðu í Reykjavíkurhöfn 1923.

Blöndahlsútgerðin. Sjá Sleipnir.

Blöndalsbær. Bær við Óðinsgötu, kenndur við Björn Blöndal sundkennara.

Blönduhlíð. Hús á erfðafestulandi á Norðurmýrarbletti 14 við Reykjanesbraut

Body Shop.  Hluti af alþjólegri snyrtivöruverslanakeðju. Upphaflega var stofnuð Body Shop á Laugavegi 66 árið 1980 en hætti eftir nokkur ár. Oddur Pétursson stofnaði Body Shop að nýju 1991 í Kringlunni þar sem hún hefur verið rekin síðan. Ennfremur var rekin verslun á Laugavegi 51 frá 1992-2003. Þá eru verslanir á Akureyri og í Kópavogi.

Bogasalurinn

Bolagil. Örnefni í Stardal, athuga.

Borg. Kjötbúðin, stofnsett 1931 af Kristjáni Benediktssyni og Þorbirni Jóhannessyni. Rekin til 1992 og alltaf á sama stað, Laugavegi 78. Á vegum versliunarinnar var einnig rekin veislu- og mötuneytisþjónusta.

Borg. Klettur sem Borgvík á Kjalarnesi er kenndur við.

Borg. Sjá Grímsbær.

Borg. Stórbýli sem fyrr á öldum var norðan Brautarholtsborgar á Kjalarnesi.

Borg. Steinsteypt hús frá 1928 í Skeljanesi 2 í Skerjafirði.

Borgarabær. Torfbær í Grjótaþorpi, reistur um 1810 af Guðmundi Þórðarsyni borgara, rifinn um 1862. Stóð syðst í skrúðgarði sem nú er við Fischersund. Við bæinn er kennd Borgarabæjarættin.

Borgarafundir

Borgarapótek. Stofnsett 1968 af Ívari Daníelssyni og rekið til árssins 2003. Alla tíð í Álftamýri 1.

Borgararkitekt.

Borgarar

Borgarbílastöðin. Leigubílastöð, stofnsett 1951 af Ingvari Sigurðssyni. Afgreiðsla hennar var frá upphafi og til 2006 í vesturenda hússins Hafnarstræti 21 en er nú í Skúlatúni 2.

Borgarbókasafn Reykjavíkur. Tók til starfa 1923 og hét þá Alþýðubókasafn Reykjavíkur. Nafnið breyttist í Bæjarbókasafn Reykjavíkur árið 1936 og í núverandi nafn 1962. Frá 1923-1928 var safnið til húsa á Skólavörðustíg 3, þá í Ingólfsstræti 12 á árunum 1928-1954, í Þingholtsstræti 29A frá 1954-2003 og loks frá þeim tíma í Grófarhúsinu við Tryggvagötu 15. Barnalesstofur á vegum safnsins voru snemma starfræktar í barnaskólum bæjarins og árið 1934 kom fyrsta útibúið en þeim fjölgaði smám saman. Safnið byrjaði snemma að þjónusta skip með bókakössum og árið 1969 var keyptur bókabíll sem fór um bæinn. Ennfremur hefur það annast heimsendingarþjónustu fyrir fatlaða og aldraða., Útibú safnsins árið 2010 voru Ársafn, Foldasafn , Gerðubergssafn, Kringlusafn, Seljasafn og Sólheimasafn (sjá þessi).

Borgarbókhald.

Borgardætur. Söngtríó Andreu Gylfadóttur, Ellenar Kristjánsdóttur og Berglindar Bjarkar Jónasdóttur. Hefur starfað síðan 1993.

Borgarfell. Heildverslun og síðan einnig smávöruverslun, stofnuð árið 1950 af Ísleifi Högnasyni, Halldóri Jakobssyni og fleirum. Byggðist framan af einkum á innflutningi og sölu á skrifstofu- og prentvélum frá austanjárntjaldslöndum. Var til húsa á Klapparstíg 26 til 1961, þá á Laugavegi 18 til 1967 en frá þeim tíma á Skólavörðustíg 23. Hætti rekstri 2005.

Borgarfræðasetur

Borgargerði. Gata milli Sogavegar og Rauðagerðis. Hét áður frá 1930 Borgarvegur og mun kennd við fjárborg, svokallaða Bústaðaborg þar suður af. Gatan átti upphaflega að liggja milli Sogavegar og Suðurlandsbrautar.

Borgarholt. Hús á erfðafestulandi á Engjavegi (Þvottalaugarblettur 29)

Borgarholt. Hús á erfðafestulandi í Kaplaskjólsmýri 8

Borgarholt. Holt austur af Skógræktinni við Rauðavatn milli Trippadals og Suðurlandsvegar.

Borgarholtsbrekkur. Brekkur upp af Suðurlandsvegi utan í Borgarholti austan Skógræktarinnar við Rauðavatn.

Borgarholtsskóli. Framhaldsskóli við Mosaveg í Grafarvogi. Tók til starfa 1996 í nýbyggingu eftir arkitektana Finn Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson. Fyrsti skólameistarinn var Eygló Eyjólfsdóttir.

Borgarhverfi. Hverfi í Grafarvogi.

Borgarkjör. Matvöruverslun, stofnuð af Hilmari Ólafssyni um 1962, Var fyrstu árin í Borgargerði 6 en flutti að Grensásvegi 26 árið 1966 og var þar til 1983.

Borgarkringlan. Opnuð árið 1991 sem nokkurs konar “lítil Kringla”, milli Kringlunnar og Borgarleikhússins og hýsti hún meðal annars Kringlubíó og Kringlukrána. Árið 1997 voru Kringlan og Borgarkringlan tengdar saman í eina byggingu með um 4000 fermetra millibyggingu.

Borgarleikhúsið.  Annað helsta leikhús Reykjavíkur við Listabraut 3. Reist af Leikfélagi Reykjavíkur og Reykjavíkurborg, teiknað af Guðmundi Kr. Guðmundssyni, Ólafi Sigurðssyni og Þorsteini Gunnarssyni. Vígt 1989.

Borgarlistamaður

Borgarlögmaður

Borgarmýri. Mýrlendi austan til í Ártúnshöfða, nú er þar iðnaðar- og verslanahverfi og götuheiti þar enda á –háls.

Borgarmýri. Mýri umhverfis Ámundaborg (sjá).

Borgarprent. Prentsmiðja, stofnsett 1946 af Garðari Sigurðssyni og fl. Upphaflega til húsa á Veghúsastíg 9 og Vatnsstíg 3, þá á Suðurlandsbraut 10 og loks í Skipholti 11-13. Sameinaðist Ísafoldarprentsmiðju 1998.

Borgarritari

Borgarskarð. Örnefni í Brautarholtsborg á Kjalarnesi norðanverðri.

Borgarskáli. Mikil vörugeymsluhús sem Eimskipafélag Íslands lét reisa við Borgartún og Sigtún árið 1957. Húsin brunnu árið 1967. Nýr Borgarskáli var reistur en hann var rifinn árið 1993 til að rýma fyrir nýju íbúðahverfi.

Borgarskipulag Reykjavíkur. Stofnun sett á fót 1980 þegar Þróunarstofnun Reykjavíkur frá 1972 og skipulagsdeild borgarverkfræðings, sem stofnuð hafði verið 1957, voru sameinuð. Fyrsti forstöðumaður þess var Guðrún Jónsdóttir. Borgarskipulagið var til húsa í Þverholti 15 til 1985 en eftir það í Borgartúni 3 þar til það var lagt niður 2002 og við tók Svið skipulags- og byggingarmála.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Stofnað 1954, var upphaflega hluti af Minjasafni Reykjavíkur. Gert að sérstöku safni, Skjalasafni Reykjavíkurbæjar, árið 1967 og þá stofnað embætti bæjarskjalavarðar. Nafninu breytt í Borgarskjalasafn Reykjavíkur 1983 og embætti skjalavarðar kallað borgarskjalavörður. Safnið var lengst af í Skúlatúni 2 en frá 1999 í Grófarhúsinu.

Borgarspítalinn.  Stór deildaskiptur spítali sem reistur var á vegum Reykjavíkurborgar í Fossvogi eftir teikningu Einars Sveinssonar.  Fyrsti áfangi hans var tekin í notkun 1967. Hefur verið hluti af Landspítalanum háskólasjúkrahúsi frá árinu 2000.

Borgarstjórahola. Veiðistaður í Elliðaám (Dimmu), rétt fyrir neðan Breiðholtsfoss, sérstaklega merktur með skilti á staur á staðnum. Kenndur við Knud Zimsen borgarstjóra sem undi sér við veiðar á þessum slóðum í ánni.

Borgarstjórinn í Reykjavík. Embættið var stofnað með lögum 22.nóv. 1907. Fyrsti borgarstjórinn Páll Einarsson var kosinn af bæjarstjórn og tók hann við embætti 1. júlí 1908. Annar borgarstjórinn, Knud Zimsen var kosinn í almennri kosningu bæjarbúa  en aðrir borgarstjóra hafa verið kjörnir af bæjarstjórn, síðar borgastjórn. Borgarstjórar hafa verið: Páll Einarsson 1908-1914, Knud Zimsen 1914-1932, Jón Þorláksson 1932-1935, Pétur Halldórsson 1935-1940, Bjarni Benediktsson 1940-1947, Gunnar Thoroddsen 1947-1959, Auður Auðuns 1959-1960, Geir Hallgrímsson 1959-1972, Birgir Ísleifur Gunnarsson 1972-1978, Egill Skúli Ingibergsson 1978-1982, Davíð Oddsson 1982-1991, Markús Örn Antonsson 1991-1994, Árni Sigfússon 1994, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 1994-2003, Þórólfur Árnason 2003-2005, Steinunn Valdís Óskarsdóttir 2005-2006, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson 2006-2007, Dagur B. Eggertsson 2007-2008, Ólafur F. Magnússon 2008, Hanna Birna Kristjánsdóttir 2008-2010 og Jón Gnarr frá 2010.

Borgarstjórn

Borgartún. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Borgarvegur. Sjá Borgargerði.

Borgarverkfræðingurinn í Reykjavík. Embætti í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem varð til árið 1904 þegar Knud Zimsen var ráðinn í stöðu bæjarverkfræðings en svo hét embættið til 1962. Árið 2004 var embættisheitið lagt niður og í stað þess tekið upp nafnið sviðsstjóri á Umhverfis- og tæknisviði. Skrifstofur borgarverkfræðings voru í Slökkvistöðinni við Tjarnargötu frá 1912-1929, Austurstræti 16 frá 1929 til 1949 en voru þá fluttar í Ingólfsstræti 5. Frá 1957 til 2007 voru skrifstofurnar í Skúlatúni 2.

Borgarvirki.

Borgarþvottahúsið. Stofnsett 1953 af Sigurjóni Þórðarsyni. Var rekið í Borgartúni 3 til ársins 1973 en útibú voru einnig um tíma í Hafnarfirði og á Hjarðarhaga 10.

Borgaskóli. Grunnskóli að Vættaborgum 9 í Borgahverfi í Grafarvogi. Stofnaður árið 1998 og var fyrsti skólastjóri hans Hilmar Hilmarsson. Arkitektastofan Gláma/Kím arkitektar hannaði skólahúsið. Skólinn var sameinaður Engjaskóla árið 2011 undir nafninu Vættaskóli.

Borgin. Fjárborg frá árinu 1818 (eða 1878) suðvestan í Borgarholti og um 80 metra fyrir austan skógræktargirðinguna við Rauðavatn. Í henni er steinn með krossmarki yfir ártalinu 1818 (1878?) og þar undir fangamarkið SG.

Borgvík. Vík á Kjalarnesi.

Borgþórshús. Timburhús í Garðastræti 25, reist árið 1894. Kennt við Borgþór Jósepsson bæjargjaldkera sem þar bjó um árabil.

Botnleðja. Rokkhljómsveit sem starfað hefur frá 1995. Stofnendur voru Heiðar Örn Kristjánsson, Ragnar Páll Steinsson og Haraldur Freyr Gíslason.

Bóhem. Upphaflega tónlistarbar, opnaður 1993 á Vitastíg 3 en flutti 1995 að Grensásvegi 7 og var þar nektardansstaður. Starfræktur til 2007.

Bókabúð Austurbæjar B.S.E. Stofnsett árið 1932 af Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar og var allt til ársins 1953 að Laugavegi 34.(athuga betur)

Bókabúð Braga. Stofnuð af Braga Brynjólfssyni 1944, var til 1977 í Hafnarstræti 22. Eftir það um tíma á Laugaveg 26 en lengst í Lækjargötu 2 frá um 1978 fram til um eða yfir 1990 og við Hlemm á svipuðum tíma.

Bókabúð Helgafells. Rekin af hlutafélaginu Bækur og ritföng (sjá) sem Kristján Jónsson (í Kiddabúð) og fleiri stofnuðu.

Bókabúð Ísafoldar. Stofnuð af Birni Jónssyni 1883 og var fyrst til húsa í Bankastræti 3 en frá 1886 í Austurstræti 8. Þaðan var hún flutt í Austurstræti 10A árið 1976. Var starfrækt til um 1995.

Bókabúð Jónasar.  Stofnsett 1967 af Jónasi Eggertssyni. Var í Rofabæ 7 til 1987 en eftir það í Hraunbær 102 uns hún hætti 1991.

Bókabúð KRON. Var í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu frá 1941 og um skeið á Laugavegi 45. Fluttist í Bankastræti 2 árið 1951 og var þar til 1971 eða 1972.

Bókabúð Lárusar Blöndal. Stofnsett 1943. Var lengst af á Skólavörðustíg 2 en einnig var rekin verslun með þessu nafni í nokkur ár í Vesturveri. Síðustu árin var hún við Engjateig 17 en hætti 2005.

Bókabúð Máls og menningar. Stofnsett 1942 af Bókmenntafélaginu Máli og menningu. Var á Laugaveg 19 til 1953 en á árunum 1944-1945 var útibú á Vesturgötu 2.  Á árunum 1953-1961 var verslunin á Skólavörðustíg 21 en frá 1961 í stórhýsi félagsins á Laugaveg 18. Einnig voru verslanir í Síðumúla 7-9 á árunum 1987-2005 og um nokkurra ára skeið í Mjódd og Bankastræti 2.

Bókabúð Æskunnar.  Stofnsett 1939 að undirlagi Jóhanns Ögmundar Oddssonar. Var að Kirkjutorgi 4 til 1973 en frá þeim tíma þar til hún hætti 1998 að Laugavegi 56.

Bókabúð Vesturbæjar. Stofnsett 1961 á Dunhaga 23, þaðan flutti hún á Víðimel 19 árið 1980 og ári síðar á Víðimel 35 þar sem hún var rekin fram yfir 1992. Áður eða frá 1938 til um 1944 var rekin bókabúð með þessu nafni á Vesturgötu 23 og síðar um 1950 um skeið á Ránargötu 50.

Bókagerðin Lilja. Stofnsett 1943 til að gefa út kristileg rit og rekin til um 1990. Var í tenglsum við KFUM og K.

Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda. Hefur verið haldinn nær árlega frá árinu 1954, fyrstu árin í Listamannaskálanum við Austurvöll en síðari ár oftast í Perlunni.

Bókaskemman. Fornbókaverslun sem Halldór Jónasson frá Hrauntúni rak. Var frá 1936-1938 en síðan á Laugaveg 20B 1938-1954, þá í Traðarkotssundi 3 1954-1961 og loks á Hverfisgötu 16 til 1962.

Bókastöð Eimreiðarinnar. Bóksala og bókaútgáfa Sveins Sigurðssonar ritstjóra. Stofnsett um 1930 og var í Aðalstræti 6 til 1952, þá í Lækjargötu 2 til 1959 og loks á Hávallagötu 2 til um 1964.

Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Stofnsett 1928.

Bókaútgáfa Æskunnar. Stofnsett 1930 af Stórstúku Íslands og hefur einkum gefið út barna- og unglingabækur.

Bókaverslun Arinbjarnar Sveinbjarnarsonar. Sjá Bókbandsstofu Arinbjarnar Sveinbjarnarsonar.

Bókaverslun Ísafoldar. Stofnsett 1877 af Birni Jónssyni í tengslum við Ísafoldarprentsmiðju og bókaforlag. Var frá 1886 í Austurstræti 8, flutti í viðbyggingu vestan við húsið 1931 og í Austurstræti 10A árið 1976. Rekin til um 1995.

Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. Sjá Eymundsson.

Bókaverslun Sigurðar Kristjánssonar. Stofnsett 1883. Var lengst af í Bankastræti 3 og rekin til um 1980.

Bókaverslun Snæbjarnar Jónssonar. The English Bookshop. Stofnsett 1927 og var hún fyrsta árið í Bankastræti 7, þá frá 1928-1953 í Austurstræti 4, frá 1953-1984 í Hafnarstræti 9 og frá 1970-1989 í Hafnarstræti 4.

Bókaverslun Þórarins B. Þorlákssonar. Stofnsett 1912. Var í Veltusundi 1 til 1915 en eftir það í Bankastræti 11. Hætti um 1951.

Bókaverslun Þorsteins Gíslasonar. Stofnuð af Þorsteini Gíslasyni ritstjóra 1924 og var hún í Veltusundi 3 til 1926, þá í Þingholtsstræti 1 um eins árs skeið, í Lækjargötu 2 1927-1932 og loks Þingholtsstræti 17 til 1938.

Bókbandsstofa Arinbjarnar Sveinbjarnarsonar. Stofnsett 1889 og var til húsa að Laugavegi 2 en frá 1897 að Laugavegi 41. Þar rak Arinbjörn einnig bókaverslun sem bar nafn hans. Starfaði til 1932.

Bókbandssveinafélag Reykjavíkur. Sjá Bókbindarafélag Íslands.

Bókbandssveinafélag Íslands. Sjá Bókbindarafélag Íslands.

Bókbindarafélag Reykjavíkur. Sjá Bókbindarafélag Íslands.

Bókbindarafélag Íslands. Stofnað 1934 en hét í fyrstu Bókbindarafélag Reykjavíkur. Fyrsti formaður þess var Pétur G. Guðmundsson. Rann inn í Félag bókagerðarmanna árið 1980. Áður höfðu starfað tvö tvö sveinafélag bókbindara ið í Reykjavík. Hið fyrra var Hið íslenska bókbindarafélag, stofnað 1906. Nafninu var breytt í Bókbandssveinafélag Íslands 1908 en það lognaðist út af 1911. Næsta félag var Bókbandssveinafélag Reykjavíkur sem starfaði á árunum 1915-1922.

Bókfell. Bókbandsstofa, stofnsett 1943 af Gísla H. Friðbjarnarsyni og fl. Var fyrst til húsa á Laugavegi 61 en lengst á Hverfisgötu 78. Sameinaðist Félagsbókbandinu 1988 og flutti í Kópavog.

Bókfellsútgáfan. Stofnsett 1943 af Magnúsi Kjaran og fleirum, rekin til 1968.

Bókhlaða Lærða skólans. Sjá Íþaka.

Bókhlaðan. Bóka- og ritfangaverslun sem rekin var í Lækjargötu 2 á árunum 1932-1938. Eigandi hennar var Stefán H. Stefánsson.

Bókhlöðustígur. Lagður árið 1881 og kenndur við Bókhlöðu Lærða skólans (Íþöku). Einnig nefndur Biblioteksstígur í upphafi. Liggur milli Lækjargötu og Þingholtsstrætis.

Bókin. Fornbókaverslun, stofnsett 1962. Var til húsa á Klapparstíg 26 til 1964, eftir það á Skólavörðustíg 6 til 1983 og loks á Laugavegi 1 þar til verslunin hætti 1995. Lengst af ráku þeir Gunnar Valdimarsson og Snær Jóhannesson búðina.

Bóksalafélag Íslands. Sjá Félag íslenskra bókaútgefenda.

Bóksalafélagið í Reykjavík. Sjá Félag íslenskra bókaútgefenda.

Bóksala stúdenta. Stofnuð 1959. Var fyrst til húsa í aðalbyggingu Háskóla Íslands, þá í Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut 1968-2007 og loks á Háskólatorgi.

Bólstaður. Steinhús að Vatnsmýrarvegi 22 (taldist áður til Laufásvegs), reist 1924 af Theódór Arnbjörnssyni ráðunauti og konu hans Ingibjörgu Jakobsdóttur. Um tíma var rekin garðyrkjustöð við húsið. Rifið 2010.

Bólstrarinn. bólstrunarfyrirtæki, stofnað 1944 af Gunnari V. Kristmannssyni.

Bólstrun Ásgríms. Bólstrunar- og húsgagnaverkstæði, stofnað 1940 af Ásgrími P. Lúðvíkssyni. Var á Smiðjustíg 11 fyrstu árin og fleiri stöðum en frá 1952 hefur það verið á Bergstaðastræti 2.

Bólsturgerðin. Sjá Bólsturgerðin I. Jónsson.

Bólsturgerðin I. Jónsson. Stofnsett á Akureyri af Ingimar Jónssyni en flutt til Reykjavíkur 1946 þar sem hún starfaði í litlu húsnæði við Haðarstíg. Um 1953 flutti starfsemin í Brautarholt 22 þar sem auk bólstrunar var rekið trésmíðaverkstæði og verslun. Árið 1958 hafði fyrirtækið reist stórhýsi í Skipholti 19 og flutti starfsemi sína þangað og kallaðist nú Bólsturgerðin. Hætti 1961 en áfram var þó til lítið verkstæði sem nefndist sínu upphaflega nafni.

Bónus. Keðja lágvöruverðsverslana í matvöru. Fyrsta Bónusverslunin var opnuð í Skútuvogi 13 árið 1989 af feðgunum Jóhannesi Jónssyni og Jóni Ássgeiri Jóhannessyni og sama ár bættist við verslun þeirra í Faxafeni 14. Þróunin varð mjög ör og opnaðar voru verslanir í nágrannaveitarfélögum og í Iðufelli árið 1990. Síðan bættust fjölmargar við í Reykjavík og víða um land.

Bónusvídeó.

Bótarbryggja. Bryggja norðan Slysavarnarfélagshússins við Grandagarð, gerð upp úr 1960, framan af nefnd Slysavarnarbryggjan en nafngiftin Bótarbryggja var ákveðin árið 1982. Hún var mikið endurnýjuð á árunum 1990-1992.

Bótin. Hafnarsvæði í Vesturhöfn gömlu Reykjavíkurhafnar, nafngiftin ákveðin árið 1982.

BP á Íslandi

BPW. Kvennaklúbbur sem á upptök sín í Bandaríkjunum (Business and Professional Women).  Íslenskur klúbbur var stofnaður árið 1979 og hét upphaflega Samtök kvenna á framabraut en nafninu var fljótt breytt í BPW. Markmið samtakanna er að vekja konur til vitundar um mikilvægi sitt og hvetja þær til þess að afla sér menntunar og nýta hana í starfi. Fyrsti formaður klúbbsins á Íslandi var Margrét Sölvadóttir.

Brain Police. Rokkhljómsveit sem starfaði í Reykjavik á árunum 1998-2010. Stofnendur voru Jón Björn Ríkharðsson, Hörður Stefánsson og Vagn Leví Sigurðsson.

Brancepeth Camp. Herbraggahverfi á stríðsárunum vestan við flugbrautina sem gengur í sjó fram vestan Nauthólsvíkur.

Brauð. Sjá Myllan-Brauð hf.

Brauðbær.  Smurbrauðsstofa og veitingastaður sem rekin var á Þórsgötu 1 við Óðinstorg á árunum 1965-1984. Stofnandi staðarins var Hlöðver Örn Vilhjálmsson.

Braggahverfi

Brattagata. Gata milli Aðalstrætis og Mjóstrætis í Grjótaþorpi. Var formlega gefið nafnið Brattastræti 1848 en það nafn festist ekki. Var einnig nefnt Rósustígur eftir Rósu Grímsdóttur sem bjó í Rósuhúsi efst við götuna.

Brauða- og kökugerð Jóns Símonarsonar.  Fyrsta bakarí Jóns Símonarsonar sem hann stofnaði í félagi við Ágúst Jóhannesson var í Þingholtsstræti 23 árið 1918. Þar var hann í eitt ár en stofnaði þá eigin bakarí á Laugavegi 5. Árið 1930 reisti Jón ásamt þáverandi félaga sínum, Óskari Th. Jónssyni, fullkomið brauðgerðarhús á Bræðraborgarstíg 16. Brauða- og kökugerð Jóns Sóimonarsonar var rekinn á Bræðraborgarstíg allt til ársins 1975  en auk þess voru lengst af rekin útibú víða um Reykjavík.

Brauðborg. Smurbrauðsstofa, stofnsett af Kristínu Halldórsdóttur og Hilmari Sigurðssyni árið 1958. Var á Frakkastíg 14 til 1968, þá á Njálsgötu 112 til 1983 en síðast á Laugavegi 28 til um 1985.

Brauðgerðarhús Davíðs Ólafssonar. Stofnsett 1912 og var fyrstu tvö árin í Fischersundi 3 en síðan allt til 1953 á Hverfisgötu 72.

Brauðstofa Áslaugar. Smurbrauðsstofa og veisluþjónusta, stofnsett 1986 og rekin af Áslaugu Sæmundsdóttur til 2005, alla tíð í Búðargerði 7.

Brauðstofan. Smurbrauðsstofa sem Tómas Guðmundsson stofnaði 1961 og rak á Vesturgötu 25. Árið 1969 sameinaðist Brauðstofan Mjólkurbarnum og var næstu tvö ár rekin undir heitinu Brauðstofan-Mjólkurbarinn og var til húsa á Laugavegi 162. Hætti 1970.

Brauns verslun Hamborg. Stofnsett 1904 af Richard Braun í Aðalstræti 9. Hét síðar aðeins Braunsverslun og var í Austurstræti 10 frá 1930 til um 1955.

Brautarholt. Steinbær á Bráðræðisholti, síðar Grandavegur 29. Reistur árið 1884 af Ottó Helga Guðlaugssyni. Síðar kallaður Brautarholt eldra. Stóð til 1988. Árið 1907 byggði Guðrún Árnadóttir timburhús fyrir austan steinbæinn (Grandavegur 31) sem kallað var Brautarholt yngra. Rifið 1989.

Brautarholt. Kirkjustaður og höfuðból á Kjalarnesi. Fyrst getið í Landnámabók en kirkju er þar fyrst getið um 1200. Núverandi kirkja er frá 1857, smíðuð af Eyjólfi Þorvarðarsyni.

Brautarholtsborg. Klettahæð sem hæst ber á Kjalarnesi (nesinu).

Brautarholtskirkja.  Reist árið 1857 af Eyjólfi Þorvarðarsyni.

Brautarholtssel. Seljatóttir á eyri sunnan Blikdalsár í Blikdal. Þar var haft í seljum frá Brautarholti.

Brautin. Kvenfélag sem starfaði um skeið um 1915 á Út-Kjalarnesi.

Bráðræði. Hjáleiga frá bænum Seli (sjá), fyrst getið í heimildum 1784. Stóð þar sem nú er Grandavegur 37. Þar var fram á 20. öld rekinn allmikill búskapur. Við bæinn er Bráðræðisholt kennt.

Bráðræðisholt. Holtið þar sem bærinn Bráðræði (Grandavegur 37) stóð. Virðist áður hafa verið hluti af Selsholti. Á Bráðræðisholti reis eftir miðja 19. öld dálítið hverfi torfbæja, síðar steinbæja og timburhúsa sem nefnt var þessu nafni. Nú nefnist hverfið milli Framnesvegar og Eiðsgranda, sunnan Hringbrautar, Bráðræðisholt.

Bráðræðismýri. Mýrin suður af Bráðræði, eiginlega nyrsti hluti Kaplaskjólsmýrar.

Bráðræðisvegur. Sjá Framnesvegur.

Brákarborg. Leikskóli við Brákarsund 1. Tók til starfa 1952 og var stækkaður 1995. Fyrsti forstöðumaður hans var Lára Gunnarsdóttir.

Brákarsund. Göngustígur sem liggur frá Langholtsvegi á móts við Álfheima neiður að leikskólanum Brákarborg.

Breiðablik. Nýlenduvöru- og matvöruverslun, stofnuð af Hjálmtý Sigurðssyni, ýmist rekin í Lækjargötu 10 eða 10B á árunum 1904 til um 1937. Um tíma (1922) var verslunin einnig í Eimskipafélagshúsinu. Fata- og skóverslun með sama nafni var rekin á Laugaveginum frá um 1940 fram yfir 1962. Var fyrst á Laugavegi 58, þá á Laugaveg 74 frá 1941 til um 1957 og loks á Laugaveg 63.

Breiðablik. Sjá Gamla pósthúsið.

Breiðaból, hús á erfðafestulandi á Vatnsmýrarbletti 13

Breiðagerði. Steinbær sem Brynjólfur Eiríksson reisti á Lindargötu 31 árið 1890. Löngu horfinn.

Breiðagerðisskóli. Grunnskóli fyrir 1.-7. bekk að Breiðagerði 20. Tók til starfa 1954 sem útibú frá Laugarnesskóla en frá 1956 sem sjálfstæður skóli. Fyrsti skólastjóri hans var Hjörtur Kristmundsson.

Breiðamýri. Stór mýrarfláki á suðvestanverðu Geldinganesi.

Breiðamýri. Mýrasvæði sem var milli Norðurmýrar og Kringlumýrar, nálægt því sem Hlíðarnar eru nú.

Breiðan. Veiðistaðir neðst í austurkvísl Elliðaáa fyrir neðan gömlu Elliðaárbrúna.

Breiðfirðingabúð. Félagsheimili, skemmti- og dansstaður sem rekinn var af Breiðfirðingafélaginu í gamalli trésmiðju að Skólavörðustíg 6B á árunum 1946-1969. Húsið sjálft var í eigu félagsins til 1982. Nýtt félagsheimili Breiðfirðingafélagsins, einnig kallað Breiðfirðingabúð, var tekið í notkun að Faxafeni 14 1980

Breiðfirðingafélagið í Reykjavík. Stofnað 1938 og voru félagar þess úr Barðastrandar, Dala- og Snæfellsnessýslu. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Jóhannesson og varð það fljótlega einna virkast allra átthagafélaga í Reykjavík. Það gaf út tímaritið Breiðfirðing og ýmis byggðarsöguleg rit um Breiðafjarðarbyggðir, beitti sér fyrir kvikmyndagerð, hafði Breiðfirðingakórinn innan sinna vébanda og rak félagsheimilið Breiðfirðingabúð (sjá) sem varð um árabil einn af helstu skemmtistöðum í Reykjavík.

Breiðfirðingakórinn í Reykjavík. Stofnaður af Breiðfirðingafélaginu í Reykjavík árið 1942 og starfræktur til 1964. Hann var svo endurvakinn árið 1997 og starfar enn.

Breiðfjörðsblikksmiðja. Stofnuð árið 1902 af Guðmundi Breiðfjörð og hét fyrst Breiðfjörðs blikksmiðja og tinhúðun. Var fyrst til húsa í Lækjargötu 10 og síðan í svokölluðu Waageshúsi þar við hliðina en flutti um 1906 að Laufásvegi 4. Frá 1959 og fram til um 1995 var blikksmiðjan í Sigtúni 7, síðan að Vesturgörðum 4 og Köllunarklettsvegi 4 uns hún flutti í Kópavog.

Breiðfjörðsleikhús. Leikhús sem Valgarð Ó. Breiðfjörð reisti sem hluta af húsi sínu árið 1893 í Aðalstræti 8 (sjá Fjalaköttinn). Þar var mikið leikið á næstu árum og hélt annar af aðalleikhópum bæjarins þar til en hinn var í Gúttó. Eftir að Leikfélag Reykjavíkur var stofnað 1897 og farið að leika í Iðnó dró úr leiksýningum í Breiðfjörðsleikhúsi og árið 1906 var það gert að bíóhúsi (sjá Gamla bíó).

Breiðfjörðsskáli. Valgarð Ó. Breiðfjörð reisti býli með þessu nafni á erfðafestulandi vestur á Melum árið 1898. Stóð nálægt því sem nú eru gatnamót Hofsvallagötu og Neshaga. Valgarð ræktaði þarna tún og stundaði búskap en hafði niður að sjónum stakkstæði þar sem hann þurrkaði fisk af seglatogara sínum, Önnu Breiðfjörð.

Breiðfjörðsverslun. Verslun sem Valgarð Ó. Breiðfjörð rak í Fjalakettinum (sjá) á árunum 1885-1904.

Breiðholt. Jarðarinnar Breiðholts er fyrst getið á 14. öld. Þar var kirkjustaður sem aflagður var fyrir 1600. Bærinn stóð þar sem síðar var Gróðrastöðin Alaska við Skógarsel og var volg laug við bæinn. Nú eru þar í námunda húsin Skógarsel 15 og Grjótasel 21. Reykjavíkurbær keypti jörðina 1906 og árið 1923 var hún sett undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Á jörðinni er nú eitt af stærstu íbúðahverfum Reykjavíkur sem nefnist Breiðholt.

Breiðholt. Nýbýli við Laufásveg inn undir Hlíðarenda. Steinhús, rifið 1990.

Breiðholtsapótek. Sjá Lyfjabúð Breiðholts.

Breiðholtsbakarí. Stofnað árið 1973 af Guðmundi H. Guðmundssyni og Vigfúsi Björnssyni ásamt fjölskyldum þeirra. Var til húsa í Völvufelli 13 en sameinaðist fyrirtækinu Gæðabakstri árið 2006 og hefur verið í Lynghálsi 7 frá 2010. Var um tíma eftir 1996 með útibú í Lækjargötu 4.

Breiðholtsblaðið. Hefur komið út síðan 1993, hét Breiðholtstíðindi fram til ársins 2000. Borið í hvert hús í Breiðholti.

Breiðholtsbraut. Árið 1918 var byrjað í atvinnubótavinnu að leggja veg á þessum stað frá Suðurlandsvegi sem kallaður var Hafnarfjarðarvegur en aldrei var lokið við. Vegurinn hlaut nafnið Breiðholtsvegur 1930 en síðar kallaðist hann Breiðholtsbraut. Nú heitir þessi gata Reykjanesbraut en nýrri Breiðholtsbraut liggur upp frá henni og tengir saman Breiðholtshverfin þrjú og heldur síðan áfram yfir Elliðaárnar og Seláshverfið og endar á Suðurlandsvegi.

Breiðholtsdagar. Árleg hátíð síðan 2003 til að auka samheldni, samveru og hverfisvitund Breiðholtsbúa.

Breiðholtsfoss. Foss og veiðistaður í Elliðaám (Dimmu) fyrir neðan Þrengsli áður en áin breiðir úr sér á nýjan leik. Ekki langt fyrir ofan gömlu Vatnsveitubrúna. Einnig nefndur Þrengslafoss.

Breiðholtsgirðingin. Var sett upp 1933 að forgöngu Fjáreigendafélags Reykjavíkur til að girða af beitarland fyrir sauðfé Reykvíkinga. Innan hennar var svæðið þar sem nú eru Stekkir, Bakkar, Hólar, Berg og Fell.

Breiðholtsgrágrýti. Svo er hraunið sem myndarnar hæðirnar sitt hvorum megin við Elliðaárdal, í Seláshverfi og Breiðholti. Það er talið komið úr dyngjugosi á Heiðmerkursvæðinu.

Breiðholtshvarf. Stórgrýtt hlíð sunnan og vestan við Elliðaár. Á brún hennar er byggðin í Efra Breiðholti. Um 1980 hófst trjárækt í hvarfinu og er það nú allt hulið skógi og vinsælt útivistarsvæði.

Breiðholtshverfi. Stórt íbúðarhverfi í austurhluta Reykjavíkur, byggðist einkum á árunum 1966 og fram yfir 1980. Það skiptist í Efra-Breiðholt (Fell, Berg og Hólar), Neðra-Breiðholt (Bakkar, Stekkir og Mjódd) og Seljahverfi. Hverfið markast í vestri af Reykjanesbraut, í norðri og austri af syðri kvísl Elliðaáa og í suðri af mörkum Kópavogs.

Breiðholtskirkja. Sóknarkirkja Breiðholtssóknar. Vígð fullgerð 1988 að Þangbakka 5. Arkitektar hennar eru Ferdinant Alfreðsson, Guðmundur Kr. Kristinsson og Hörður Björnsson.

Breiðholtskjör. Kjörbúð í Arnarbakka 4-6, stofnsett 1968 af Jóni B. Þórðarsyni. Hætti 1998.

Breiðholtskvísl. Sú kvísl Elliðaáa sem rennnur sunnan Blásteinshólma. Einnig nefnd Hólmskvísl.

Breiðholtslaug. Útisundlaug við Austurberg, tekin í notkun 1981. Arkitektar hennar eru Guðmundur Þór Pálsson og Hallur Kristvinsson. Áður, árið 1977, var komin þarna innilaug. Fyrsti forstöðumaður Breiðholtslaugar var Hallgrímur Jónsson. Laugin er hluti af Íþróttamiðstöðinni Austurbergi.

Breiðholtsleikhúsið. Stofnsett 1981 af Geir Rögnvaldssyni, Jakobi S. Jónssyni og Þórunni Pálsdóttur. Fékk inni í Fellaskóla. Starfaði í eitt ár.

Breiðholtslækur. Lækur sem rennur um neðri hluta Seljahverfis í Breiðholti.

Breiðholtsmýri. Mýrafláki sem lá suður og vestur frá túninu á bænum Breiðholti og niður að Blesugróf. Mýrin var ræst fram árin 1931-32.

Breiðholtsrétt. Sett upp 1933 rétt fyrir ofan Blesugróf. Þangað var smalað sauðfé Reykvíkinga til rúnings og haustrétta.

Breiðholtsskóli. Grunnskóli og hverfisskóli í Neðra-Breiðholti. Til húsa að Arnarbakka 1-3. Stofnsettur 1969 og var fyrsti skólastjóri hans Guðmundur Magnússon. Í skólaanum er m.a. starfrækt Nýbúaver, Starfsver og Stuðningsver.

Breiðholtsstrengir. Langur kafli Elliðaáa þar sem þær renna meðfram Blásteinshólma að sunnanverðu niður að Árbæjarstíflu, þarna rennur áin í grýttum farvegi með pollum og lænum.

Breiðholtssöfnuður. Stofnaður 1972. Fyrsti sóknarprestur hans var séra Lárus Halldórsson.

Breiðholtstíðindi. Sjá Breiðholtsblaðið.

Breiðholtsvegur. Sjá Breiðholtsbraut.

Brekka. Torfbær sem Sigurður Björnsson reisti árið 1861 við Brekkustíg 3. Núverandi samnefnt timburhús er frá árinu 1900 (1897?). Við Brekku er Brekkustígur kenndur.

Brekka. Nýbýli á erfðafestulandi á Sogamýrarbletti 29 við norðanverðan Sogaveg, reist af Karli Þórhallssyni 1925. Þar er nú suðvesturslaufa á gatnamótum Skeiðarvogs og Miklubrautar.

Brekka. Nýlenduvöruverslun, stofnsett 1930 af Ríharði Kristmundssyni. Var fyrstu þrjú árin á Brekkustíg 1, síðan á Bergstaðastræti 33 og  Bergstaðastræti 35 fram til um 1938. Frá þeim tíma á Ásvallagötu 1 þar sem hún var rekin til um 2000.

Brekka. Hús í Grafarholti.

Brekkan. Brekka beint í suður frá bæjarhúsunum í Engey, fyrir neðan Suðurtúnið. Einnig nefnd Sólbrekka.

Brekkmannshús. Tvö hús í Veltusundi 1 og Hafnarstræti 4. Hið fyrra var einlyft verslunar- og íbúðarhús, reist 1789 af Páli Brekkmann og mun hafa verið rifið árið 1907. Síðara húsið var reist af Páli 1796 og er húsið, sem nú stendur í Hafnarstræti 4, að grunni til sama húsið. Eftir 1798 voru húsin kölluð Randersku húsin eftir verslunarfélagi frá Randers sem rak verslun í þeim í þeim til 1805.

Brekknaás. Hæðardrag suður af Selási þar sem syðsti hluti Seláshverfis liggur nú.

Brekkuborg. Leikskóli að Hlíðarhúsum 1. Tók til starfa 1992 og var stækkaður 1995.

Brekkubær. Sjá Þóroddsbær.

Brekkubær. Hús við Vesturlandsbraut.

Brekkuholt. Torfbær á lóðinni þar sem nú er Drafnarstígur 5, reistur 1864 af Guðmundi Magnússyni. Árið 1876 byggði Ólafur Jónsson steinbæ á lóðinni og síðan árið 1898 byggði Þórður Magnússon annan steinbæ, áfastan hinum fyrri. Voru þeir kallaðir Suðurbærinn og Norðurbærinn í Brekkuholti og standa enn.

Brekkuhús, hús á erfðafestulandi á Þvottalaugabletti 30 við Langholtsveg

Brekkuskáli. Hús við Vesturlandsbraut.

Brekkustígur. Gata í Vesturbænum, liggur milli Holtsgötu og Framnesvegar/Ránargötu. Nefndur eftir býlinu Brekku (Brekkustíg 3). Árið 1885 var gatan nefnd Garðbæjarstígur.

Brekkuvör. Sjá Viðeyjarvarir.

Brenna. Torfbær á Bergstaðastræti 12, reistur 1836 af Ingimundi Þorbjörnssyni. Í stað hans kom steinbær, reistur 1881 af steinsmiðunum Jónasi og Magnúsi Guðbrandssonum og stendur hann á baklóð. Steinbærinn var friðaður að ytra byrði árið 2011.

Brennuhús. Steinhlaðið hús á Bergstaðastræti 13, reist 1883 af Jónasi og Magnúsi Guðbrandssonum.  Rifið um 1960.

Bréfdúfnafélag Reykjavíkur. Stofnað 1982 fyrir forgöngu Jóns Guðmundssonar.

Bridde. Bakarí á Hverfisgötu 39.

Briemsfjós. 40 kúa fjós ásamt hlöðu sem Eggert Briem í Viðey reisti upp úr 1910 þar sem nú er horn Njarðargötu og Smáragötu. Rifið 1938.

Brimarhólmur. Sjá Hólmurinn.

Brimkló. Popphljómsveit sem starfaði með hléum á árunum 1972 til 1981 og var vinsæl ballhljómsveit. Hún kom svo aftur saman 1996 og enn 2003-2005 og 2011. Stofnendur hljómsveitarinnar voru Arnar Sigurbjörnsson gítarleikari, Björgvin Halldórsson söngvari, Hannes Jón Hannesson gítarleikari og söngvari, Ragnar Sigurjónsson trommuleikari og Sigurjón Sighvatsson bassi.

Brimnes. Hús Aðalsteins Jónssonar verkamanns og Þorgerðar Árnadóttur við Laugarnesveg 48, reist 1926.

Brimrún. Fyrirtæki á sviði siglinga- og fiskileitartækja, stofnað 1992 af Birni Árnasyni og fleirum. Hefur frá upphafi verið á Hólmaslóð 4.

Bringan. Lítill skrúðgarður milli Snorrabrautar og Þorfinnsgötu sem gerður var um 1950.

Bristol. Tóbaks- og gjafavöruverslun. Stofnsett 1928 af Guðjóni Jónssyni og starfrækt til 1986. Var alla tíð í Bankastræti 6.

Bríet Knútsdóttir. Götuvaltari frá 1912 sem fékk nafn sitt af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur bæjarfulltrúa og Knud Zimsen borgarstjóra. Er nú á Árbæjarsafni.

Bríetartún. Gata nefnd í höfuðið á Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, einni af fyrstu konunum sem kosnar voru í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908. Nær frá Snorrabraut að Katrínartúni (áður Höfðatúni). Gatan var áður austasti hluti Skúlagötu.

Brjóstsykursgerðin Nói. Stofnsett 1920 af Eiríki S. Beck og rak hann hana árum saman, lengst á Barónsstíg 2.

Broadway. Stór skemmti- og ballstaður í Álfabakka 8 í Mjóddinni í Breiðholti. Opnaður 1981 af hjónunum Ólafi Laufdal og Kristínu Ketilsdóttur og rekinn til 1989. Þá hafði Ólafur reist Hótel Ísland við Ármúla en þar er skemmti- og veitingastaður, sá stærsti í Reykjavík, sem árið 1998 fékk nafnið Broadway.

Brokey. Siglingafélag Reykjavíkur. Stofnsett 1971. Hafði aðsetur í Nauthólsvík þaðan sem stundaðar voru kjölbáta, kænu- og seglbrettasiglingar auk þess sem róðradeild var starfandi innan félagsins. Árið 1987 kom félagið sér upp flotbryggjum við Ingólfsgarð sem síðar voru auknar og frá 1993 til 2006 hafði það félagsaðstöðu í Austurbugt 3. Uppsátur fyrir báta hefur félagið í Gufunesi.

Brunabótafélag dönsku kaupstaðanna

Brunabótafélag Íslands. Stofnsett 1917 sem fyrsta alinnlenda tryggingafélagið og fékk þá einkarétt til að brunatryggja húseignir utan Reykjavíkur. Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Björnsson. Félagið var til húsa í Austurstræti 7 til 1923, síðan var það í nokkur ár í Veltusundi 1 og Hafnarstræti 10-12. Á árunum 1931-1936 var það í Arnarhvoli, þá í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu til 1958. Síðast var það að Laugavegi 105 en árið 1989 sameinaðist það Samvinnutryggingum undir heitinu Vátryggingafélag Íslands (VÍS).

Brunaliðið. Popphljómsveit og söngveit sem starfaði á árunum 1978-79. Í henni voru margir af helstu poppurum landsins, svo sem Magnús Kjartansson, Pálmi Gunnarsson, Ragnhildur Gísladóttir, Þórður Árnason, Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Magnús Eiríksson og bræðurnir Haraldur og Þórhallur Sigurðssynir (Halli og Laddi).

Brunamálanefnd Reykjavíkur (Eldsvoðanefnd). Sett fyrst á laggirnar 1875.

Brunnholt.  Steinbær við Brekkustíg (síðar við Öldugötu 44), reistur árið 1882. Löngu horfinn. Árið 1897 var byggt timburhús á lóðinni sem einnig ber nafnið Brunnholt.

Brunnhús. Lítið timburhús sem Þorsteinn Bjarnason reisti við Suðurgötu 11 árið 1835. Húsið stóð fram til um 1920.

Brunnstígur. Gata í Vesturbænum sem nú er að mesu horfin. Lá milli Vesturgötu og niður fyrir Mýrargötu, austan Bakkastígs. Gatan byggðist eftir 1866 en fékk nafn sitt 1894, kennd við vatnsbólið Bakkalind.

Bruunsbær. Torfbær sem hýsti beyki Innréttinganna upp úr miðri 18. öld og verkstæði hans. Bærinn var á lóðinni Tjarnargötu 4 og kenndur við Kristínu Bruun sem keypti bæinn 1791 og bjó þar lengi. Hann var rifinn 1834.

Brú. Byggingarfélag, stofnað 1943 af Halldóri Kjartanssyni stórkaupmanni og fl. Hafði lengst af aðsetur í húsakynnum Defensors í Borgartúni 25. Fór í þrot 1967.

Brú. Hús við Skildinganeshóla, austan Suðurgötu.

Brú. Hús við Breiðholtsveg (1963)

Brúarendi. Steinbær frá 1893 á Grímsstaðaholti reistur af Guðmundi Guðmundssyni, stóð rétt norðan við húsið Suðurhlíð við Starhaga sem enn stendur. Í stað steinbæjarins kom timburhús 1921 en það var rifið 1990.

Brúarhylur. Veiðistaður undir og niður af gömlu Vatnsveitubrúnni á Elliðaám.

Brúarkvörn. Veiðistaður neðst í eystri kvísl Elliðaáa, rétt ofan við gömlu Elliðaárbrúna.

Brúarland. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Brúnavegur. Liggur í framhaldi af Sundlaugavegi, kenndur við kennileiti í Laugarási. Nafnið á götunni var ákveðið 1953.

Brúnkolla. Klettur sem stóð austan við Örfirisey, lítið eitt sunnan við miðja eyju, og mátti vaða út í á stórstraumsfjöru. Nú horfinn undir uppfyllingar.

Brúnkollulaut. Grænn bolli eða laut við Elliðaár vestanverðar suður af Grænugróf, beint niður af götunni Keilufelli. Einnig nefnd Búkollulaut.

Brúnstaðir. Hús á erfðafestulandi á Kirkjumýrarbletti 9 við Suðurlandsveg, stóð nálægt gatnamótum Suðurlandsbrautar og Reykjavegar, rétt ofan við Undraland, byggt 1928. Var flutt á Brunnstíg 5 í Vesturbænum árið 1993.

Brydesverslun. Ein af stærstu og nútímalegustu verslununum í Reykjavík á árunum 1881-1914. Eigandi hennar var Daninn J. P. Th. Bryde og var hún til húsa í Hafnarstræti 1-3.

Bryggjuhátíð. Hátið sem haldin er reglulega í Bryggjuhverfinu í Grafgarvogi.

Bryggjuhúsið. Hús við norðurenda Aðalstrætis sem tilheyrir Vesturgötu 2, byggt 1863 af C. P. A. Koch skipaútgerðarmanni. Byggingu hússins fylgdi það skilyrði að opin gangur skyldi ætíð vera í gegnum það svo að hægt væri að komast að bryggjunni sem var sjávarmegin við það. Þetta var ein af helstu bryggjum bæjarins (Fischersbryggja, síðar nefnd Duusbryggja) og var því húsið eins konar borgarhlið Reykjavíkur. Þess vegna var húsið valið sem núllpunktur þegar tekin var upp núverandi númerakerfi á húsum árið 1888. Ef maður snýr baki í húsið er talið frá því og skulu jafnar tölur vera á hægri hönd en oddatölur á vinstri hönd. Fljótlega eftir að bryggjan hvarf við hafnargerðina 1913-1917 var ganginum lokað og eftir 1927 var húsið stækkað að mun.

Bryggjuhverfi

Bryggjuráðið. Íbúasamtök Bryggjuhverfisins.

Brynja. Byggingavöru- og búsáhaldaverslun, stofnuð 1919 af Guðmundi Jónssyni trésmið. Frá 1929 hefur hún verið í sama húsnæðinu á Laugaveg 29. Frá 1943 var rekin glerslípun og speglagerð í tenglsum við verslunina.

Brynjólfsblettur, líklega inn við Elliðaár

Brynjólfshús. Hús við Laugaveg 125, reist af Brynjólfi Jónssyni ökumanni. Einnig nefnt Brynjólfsbær. Rifið um eða eftir 1970.

Brynjólfur H. Bjarnason. Búsáhaldaverslun. Stofnuð 1886 og var starfrækt til 196? í Aðalstræti 7.

Brynkanef í Breiðholti.

Brytinn. Matstofa í Hafnarstræti 17, stofnuð af Ólafi Ólafssyni og rekin frá 1938 til um 1962 (hét um tíma Gullfoss). Einnig rak Ólafur matstofu með sama nafni í Austurstræti 4 frá um 1951-1958.

Bræðingur. Lýsisbræðslufélag, stofnað 1911, með lifrarbræðslu í landi Þormóðsstaða við Skerjafjörð sem rekin var þar á árunum 1912-1927. Einnig var félagið með port á hafnaruppfyllingunni (þar sem Hafnarhúsið er nú). Forstöðumaður bræðslunnar var Norðmaðurinn Jenstofte Olsen. Hún var oft kölluð Brenneríið eða Grútarbræðslan.

Bræðraborg. Steinhlaðið hús á Bræðraborgarstíg 14, reist 1880 af bræðrunum Sigurði og Bjarna Sigurðssonum. Við húsið er Bræðraborgarstígur kenndur. Það var friðað að ytra byrði árið 2012.

Bræðraborg. Kjötbúðin, stofnuð 1951 af Lúðvík Bjarnasyni. Var til húsa á Bræðraborgarstíg 16, starfaði þar til 1969 og var síðan um eins árs skeið á Kleppsvegi 152.

Bræðraborgarstígur. Gata í Vesturbænum. Nafnið, sem kemur fyrst fyrir 1885, er dregið af húsinu Bræðraborg (sjá).

Bræðrabrekka, hús á erfðafestulandi á Þvottalaugabletti 12 við Suðurlandsveg

Bræðrafélag Fríkirkjusafnaðarins. Stofnað 1929.

Bræðrafélagið. Hlutafélag, stofnað 1850, af dönskum kaupmönnum í Reykjavík, einkum í því skyni að koma upp nýju klúbbhúsi fyrir suðurenda Aðalstrætis (Kirkjustræti 2). Það varð gjaldþrota 1855.

Bræðrapartur. Steinbær á Bræðraborgarstíg 27, reistur 1896, síðar kom þar lítið timburhús sem nú er horfið.

Bræðrapartur. Hús, reist 1930, á erfðafestulandi við Engjaveg í Laugardal (Þvottalaugarblettur 9). Frá 1984 hafði Dúfnaræktunarsamband Íslands haft höfuðstöðvar sínar í húsinu.

Bræðrasjóður. Sjóður til styrktar fátækum piltum hins lærða skóla í Reykjavík, stofnaður 1846. Nú til styrktar nemendum Menntaskólans í Reykjavík.

Bræðratunga. Hús á mótum Suðurlandsvegar og Holtavegar. Upphaflega hænsahús, byggt 1929 á vegum Vilhelms Bernhöfts tannlæknis en breytt í íbúðarhús 1931.

Bræðratunga. Hús við Þverveg 34.

Bræðrungur. Sjá Baugshylur.

Bræðurnir Ormsson. Stofnsett 1922 af Eiríki og Jóni Ormssonum og varð fyrsta fyrirtækið sem framkvæmdi viðgerðir á rafmagnstækjum en stóð síðan fyrir rafvæðingu víða um land. Var til til húsa á Baldursgötu 13 og Óðinsgötu 25 en verslun var opnuð í Hafnarstræti 11 árið 1929. Um stuttan tíma var einnig verkstæði á Vesturgötu 33 en árið 1936 flutti öll starfsemin á Vesturgötu 3 og var þar til 1966 að flutt var í Lágmúla 9. Frá 1990 hefur fyrirtækið verið í Lágmúla 8.

Bröttugötusalurinn. Gamli bíósalurinn i Fjalkettinum var kallaður þessu nafni eftir að bíóið hætti þar árið 1927. Voru ýmis félagasamtök með salinn á leigu, svo sem góðtemplarar, Glímufélagið Ármann og Kommúnistaflokkur Íslands.

BSR. Bifreiðastöð Reykjavíkur, leigubílastöð. Stofnsett 1921 og var Egill Vilhjálmsson fyrsti stjórnarformaður hennar. Miðstöð hennar var við Lækjartorg í viðbyggingu austan við Austurstræti 22. Árið 1948 var stöðin færð í Lækjargötu 4B og var bílastæðið á óbyggðri lóð þar bakatil. Um 1990 fluttust höfuðstöðvarnar í Skógarhlíð 18.

BSRB. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, stofnað árið 1942 til að berjast fyrir réttindum og kjörum opinberra starfsmanna. Í upphafi voru 14 aðildarfélög að sambandinu en árið 2011 voru þau 27 með um 20.000 félagsmenn. Fyrsti formaður BSRB var Sigurður Thorlacius. Fram til 1960 hafði félagið aðsetur á ýmsum stöðum svo sem Lindargötu 9A og Laufásvegi 36 en á árunum 1960-1972 voru höfuðstöðvar BSRB á Bræðraborgarstíg 9, síðan á Laugaveg 172 en frá 1978 á Grettisgötu 89.

BT. Verslanakeðja á sviði raftækja og tölvubúnaðar, hét upphaflega Bónus tölvur og var fyrirtækið Tæknival eigandi. Fyrsta verslunin var opnuð á Grensásvegi 3 árið 1995 en hún flutti í Skeifuna 11 árið 1997. Síðan voru opnaðar fjölmargar aðrar verslanir út um land og ein í Kringlunni. Varð gjaldþrota 2008 en enn eru reknar tvær verslanir undir þessu nafni, önnur í Skeifunni 11.

Bugða. Neðri hluti Hólmsár. Rennur meðfram Rauðhólum á þrjá vegu og lýkur leið sinni í Elliðavatni. Áður en vatnsborð þess var hækkað sameinaðist hún ánni Dimmu við hæðina Skyggni.

Bugða. Hús i Neðra-Dalslandi við Suðurlandsbraut.

Bugðuhylur. Sjá Baugshylur.

Bullaugu. Vatnsból í landi Grafarholts nálægt upptökum Grafarlækjar, beint norður af Rauðavatni. Þaðan tók Vatnsveita Reykjavíkur um skeið neysluvatn handa Reykvíkingum.

Bunker Hill Camp. Herbraggahverfi á stríðsárunum, sunnan við Bústaðaveg, nokkurn veginn þar sem Kringlumýrarbraut liggur núna.

Burstagerðin. Stofnuð af Hróbjarti Árnasyni árið 1930 og er enn í eigu afkomenda hans.

Búahellir. Hellir í hömrum Búa, fellsins sem gengur fram úr Esjunni fyrir sunnan Gljúfurdal.

Búi. Fell sem gengur fram úr Esjunni fyrir sunnan Gljúfurdal.

Búðarbrekkan. Brekka þar sem vegurinn lá um þorpið á Sundbakka í Viðey.

Búðarplanið. Í Viðey.

Búðin mín. Kven- og barnafataverslun á Víðimel 35. Rekin frá um 1952 til um 1969.

Búkollulaut. Sjá Brúnkollulaut.

Búland. Nýbýli á erfðafestulandinu Bústaðabletti 16, byggt 1932 en stækkað 1957.  Er nú Tunguvegur 28.

Búnaðarbanki Íslands. Stofnaður 1929

Búnaðarfélag Íslands. Stofnað 1899 upp úr Búnaðarfélagi Suðuramtsins sem stofnað hafði verið 1837. Félagið hefur ávallt haft aðsetur sitt í Reykjavík.

Búnaðarfélag Kjalarneshrepps. Stofnsett 1905 en hét í upphafi Búnaðarfélag Kjalnesinga.  Fyrsti formaður þess var Jón Jónatansson í Brautarholti.

Búnaðarfélag Kjalnesinga. Sjá Búnaðarfélag Kjalarneshrepps.

Búnaðarfélagshúsið. Tvílyft timburhús að Lækjargötu 14B, reist árið 1906 af Búnaðarfélagi Íslands. Þar voru skrifstofur félagsins þangað til þær voru fluttar í Bændahöllina (Hótel Sögu) árið 1962.

Búr. Innkaupa- og birgðahaldsfyrirtæki, stofnsett 1995 af kaupfélögunum, versluninni Nóatúni, Olíufélaginu og fleiri aðilum. Var til húsa í Skútuvogi 10F en frá 2002  að Bæjarflöt 2 í Grafarvogi. Fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Sigurður Á. Sigurðsson.

Búrfell. Sjá Skjaldborg.

Búrfoss. Neðsti fossinn í aðalkvísl suðurár Elliðaáa.

Búrið. Matvöruverslun, stofnsett 1946 af þeim Guðmundi Ingimundarsyni og Guðmundi R. Oddssyni. Var rekin til 1976 og alla tíð á Hjallavegi 15.

Búsáhaldabyltingin

Búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmann. Þorsteinn byrjaði upphaflega með umboðs- og heildverslun á Bárugötu 38 um 1945 en hún þróaðist smám saman yfir í búsáhalda-, raftækja- og gjafavöruverslun. Um eða upp úr 1954 er búsáhaldaverslun hans við Laufásveg 14 komin sem rekin var fram á 9. áratuginn og árið 1965 opnaði hann gjafavöruverslun að Laugavegi 4 sem rekin var fram yfir árið 2000. Um tíma voru útibú á Laugavegi 48, Skipholti 37 og Sólvallagötu 9. Árið 1968 var opnuð búð á Skólavörðustíg 36 sem enn starfar og um 1976 í Hraunbæ 102 sem einnig er enn við lýði.

Bústaðablettir.  Árið 1932 var stórum hluta Bústaðajarðar skipt í erfðafestulönd sem kölluð voru Bústaðablettir. Á þeim risu um 22 nýbýli sem voru báðum megin við Bústaðaveg austan Réttarholtsvegs.

Bústaðaborg. Löngu horfin fjárborg sem var eitt af landamerkjum Laugarnesjarðar. Var í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensás eða þar sem síðar kom nýbýlið Brekka í Sogum.

Bústaðabúðin. Nýlenduvöruverslun, stofnuð 1954 af Óla S. Hallgrímssyni og var alla tíð til húsa í Hólmgarði 34. Oftast kölluð Ólabúð í daglegu tali. Starfrækt til 1985.

Bústaðahlíð. Nær frá efri hluta Fossvogsmýrar upp á Bústaðaholtið. Í hlíðinni eru nú götur sem enda á –land.

Bústaðaholt. Holtið milli Sogamýrar í norðri og Fossvogsmýrar í suðri.

Bústaðahverfi. Nefnt eftir býlinu Bústöðum og er yfirleitt notað um svæðið milli Bústaðavegar, Grensásvegar, Hæðargarðs og Réttarholtsvegar en þar risu um og eftir 1950 íbúðarbyggingar á vegum Reykjavíkurbæjar.  Oft er einnig talið til hverfisins svæðið þar austur af að Tunguvegi.

Bústaðajörfi. Heiti á hæðardragi á vestanverðu Bústaðaholti.

Bústaðakampur. Kanadískt herskálahverfi við Bústaðaveg skammt frá golfvellinum í Litlu-Öskjuhlíð, skammt frá þar sem Veðurstofa Íslands kom seinna eða milli hennar og fjölbýlishúsa við Neðstaleiti. Einnig nefnt Bytown Camp. Þar bjuggu um 150 Íslendingar þegar þeir voru flestir í um 30 húsum sem ekki voru með hinu hefðbundna tunnulagi. Síðast var búið í Bústaðakampi árið 1968.

Bústaðamelur.

Bústaðakirkja. Sóknarkirkja Bústaðasafnaðar að Tunguvegi 25, vígð árið 1971. Arkitekt hennar er Helgi Hjálmarsson.

Bústaðalaug. Volg laug sem var nyrst í svokallaðri Þrætumýri á mótum jarðanna Breiðholts og Bústaða. Mun hafa verið nærri þar sem nú er gatan Bleikargróf.

Bústaðamelar.

Bústaðasöfnuður. Stofnaður árið 1952. Sóknarmörkin eru Grensásvegur – Eyrarland í vestri að Reykjanesbraut og Elliðaá í austri, Miklabraut  í norðri og að bæjarmörkum Kópavogs í suðri. Fyrsti sóknarpresturinn var séra Gunnar Árnason.

Bústaðavegur. Liggur milli Hringbrautar í vestri og Reykjanesbrautar. Vegurinn var upphaflega lagður 1932.

Bústaðir. Félagsmiðstöð fyrir ungt fólk, stofnuð 1976 í kjallara Bústaðakirkju og rekin af Æskulýðsráði Reykjavíkur. Fyrsti forstöðumaður hennar var Hermann Ragnar Stefánsson.

Bústaðir. Gamalt lögbýli sem stóð neðan Bústaðavegar þar sem nú er leiksvæði bak við söluturn við Bústaðaveg 130. Einnig nefndir Bútsstaðir. Jarðarinnar er fyrst getið í heimildum á 14. öld. Bústaðir voru í eigu Viðeyjarklausturs til siðaskipta en síðan í konungseign. Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti jörðina árið 1898. Síðustu bæjarhúsin stóðu fram yfir 1970.

Bútsstaðir. Sjá Bústaðir.

Búvélar. Fyrirtæki, stofnað 1993 til sölu á vélum, tækjum og búnaði til bænda. Framkvæmdastjóri félagsins var Þorgeir Örn Elíasson. Var til húsa að Keilufelli 47 til 1996 en eftir það á Krókhálsi 10. Sameinaðist fyrirtækinu Búvélum á Selfossi árið 1999 og fluttist þangað.

Byggðarendi. Torfbær, reistur 1880 af Sigurði Jónssyni og Þórkötlu Ólafsdóttur við Frakkastíg 2. Rifinn 1896 og sama ár reistur samnefndur steinbær á lóðinni. Hann stóð síðast inn í svonefndu Kveldúlfsporti og var ekki rifinn fyrr en eftir 1967.

Byggðarendavör. Niður af Frakkastíg, nú horfin undir uppfyllingu.

Byggðastofnun. Stofnuð 1985 til að fylgjast með þróun byggðar í landinu og gera áætlanir um byggða- og atvinnuþróun og lána til þeirra. Tók hún við hlutverki framkvæmdastofnunar ríksins og Byggðasjóðs. Fyrsti forstjóri Byggðastofnunar var Guðmundur Malmquist. Stofnun var til húsa á Rauðarárstíg 25 en síðar var hún flutt til Sauðárkróks á árunum 1998-2001.

Byggingarfélag alþýðu. Stofnsett 1930 samkvæmt lögum frá 1929 um verkamannabústaði. Hét Byggingarfélag verkamanna fram til 1935. Fyrsti formaður félagsins var Héðinn Valdimarsson. Reisti Verkamannabústaðina við Hringbraut á árunum 1931-1937, alls 172 íbúðir, og var síðan rekstaraðili þeirra. Nafninu var breytt í Húsfélag alþýðu árið 1981.

Byggingafélag Reykjavíkur. Stofnað sem samvinnufélag 1919 að frumkvæði Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík „í þeim tilgangi að útvega efnalitlu fólki holl, hentug og ódýr íbúðarhús til leigu eða kaups“. Formaður félagsins var Jón Baldvinsson. Félagið lét reisa þrjú timburhús við Bergþórugötu og lengju steinhúsa við sömu götu milli Barónsstígs og Vitastígs. Félagið varð gjaldþrota 1933 og tók þá Reykjavíkurbær við húsunum.

Byggingarfélag verkamanna. Sjá Byggingarfélag alþýðu.

Byggingarfélag verkamanna. Stofnsett 1939 og hófst handa við að reisa verkamannabústaði í Rauðárholti og síðan víðar. Fyrsti formaður félagfsins var Guðmundur Í. Guðmundsson. Verkamannabústaðir félagsins voru við Háteigsveg, Einholt, Meðalholt, Stangarholt, Skipholt, Stórholt, og Bólstaðarhlíð og síðar einnig Stigahlíð og í Fossvogi. Árið 1964 hafði það staðið fyrir byggingu 422 íbúða. Félagið var leyst upp árið 1994.

Byggingarfélagið Goði. Stofnsett 1941 og var aðalstofnandi þess Haraldur B. Bjarnason múrarameistari. Var eitt af helstu byggingarfélögum í Reykjavík um nær þrjá áratugi og reisti það fjölmargar íbúðarblokkir, meðal annars svokallaðar Goðablokkir vestast við Hringbraut auk smærri verkefna sem það tók sér fyrir hendur. Systurfélag Goða var Möl og sandur sem rak hörpunarstöð á Álftanesi. Skrifstofur félaganna voru lengi á Laugavegi 10.

Byggingamiðstöðin.

Byggingarfulltrúi Reykjavíkur. Embættið varð til með samþykkt fyrstu byggingarreglugerðar fyrir Reykjavík árið 1904. Knud Zimsen gegndi embættinu fyrstur manna. Byggingarfulltrúinn var starfsmaður byggingarnefndar borgarinnar og hafði eftirlit með byggingum og breytingum á þeim. Eftir að Skipulags- og byggingarnefnd voru sameinaðar í eina nefnd hefur hann verið framkvæmdastjóri byggingarmála 2002 á Sviði skipulags- og byggingarmála. Byggingarfulltrúinn var til húsa í Slökkvistöðinni við Tjarnargötu á árunum 1912-1929, þá í Austurstræti 16 til 1957, í Skúlatúni 2 frá 1957-1987, Borgartúni 3 frá 1987-2008 en frá þeim tíma í Borgartúni 12-14.

Byggingarnefnd aldraðra.

Byggingarnefnd Reykjavíkur. Upphaflega stofnuð 1833.

Byggingarsamvinnufélag atvinnubílstjóra Reykjavíkur og nágrennis (BSAB). Stofnað 1947. Byggði allmörg fjölbýlishús, svo fjölbýlishúsin Fellsmúla 14-20 (Hreyfilsblokkina), sem reist var á árunum 1966-67, og Kóngsbakka 2-17 sem reist var á árunum 1967-1968 og síðar fjölbýlishús í Engjaseli. Árið 1977 var nafni félagsins breytt í Byggingarsamvinnufélagið Aðalból.

Byggingarsamvinnufélag bankamanna. Stofnað 1945, beitti sér fyrir innflutningi og byggingu á Sænsku húsunum svokölluðu sem reist voru í Kleppsholti.

Byggingarsamvinnufélag barnakennara. Stofnað 1946 og var Steinþór Guðmundsson lengi forystumaður þess. Byggði fjölmargar íbúðir víðs vegar um Reykjavík, m.a. svokallaða Kennarablokk við Hjarðarhaga 24-32 sem reist var 1956.

Byggingarsamvinnufélag iðnverkafólks. Stofnað 1958. Fyrstu verkefni þess voru að reisa fjölbýlishús við Hvassaleiti.

Byggingarsamvinnufélag lögreglumanna. Stofnað 1947 og voru aðalhvatamennirnir Ingibergur Sæmundsson og Jónas Jónasson. Næstu 10 árin voru um 65 íbúðir byggðar á vegum félagsins.

Byggingarsamvinnufélag póstmanna. Reisti blokkina Grettisgötu 90-98 um 1950.

Byggingarsamvinnufélag prentara. Stofnað 1944 og var fyrsti stjórnarformaðurinn Guðbjörn Guðmundsson. Beitti sér fyrir byggingu fjölmargra fjölbýlishúsa. Þau fyrstu voru að Hagamel 14-24 en síðan var reist fjölbýlishús við Neshaga og Hjarðarhaga á vegum félagsins og fleiri hús á Högunum. Stærstu húsin sem félagið lét reisa voru Prentarablokkin á mótum Laugarnesvegar og Kleppsvegar og háhýsið Sólheimar 23.

Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur. Stofnað 1932. Stóð fyrir byggingu svokallaðra Samvinnubústaða vestast við Ásvallagötu og götunum þar í grennd árið 1934. Starfaði fram á 9. áratug 20. aldar og stóð fyrir fjölda bygginga í Reykjavík.

Byggingarsamvinnufélag múrara.

Byggingarsamvinnufélag símamanna. Stofnað 1946. Reisti meðal annars blokkir við Birkimel 8-8b og Dunhaga 7-11.

Byggingarsamvinnufélag starfsmanna Háskóla Íslands. Stofnað 1947 og var helsti forgöngumaður þess Alexander Jóhannesson. Félagið stóð fyrir byggingu 12 svokallaðra prófessorabústaða við Aragötu og Oddagötu á árunum eftir 1947.

Byggingarsamvinnufélag starfsmanna Landsbanka Íslands. Stofnað 1949 og var fyrsti formaður þess Sigurbjörn Sigtryggsson. Reisti allmörg hús í Kleppsholti og á Melunum.

Byggingarsamvinnufélag starfsmanna Reykjavíkurbæjar.

Byggingarsamvinnufélag starfsmanna ríkisstofnana. Stofnað 1945. Reisti m.a. fjölbýlishús við Drápuhlíð og Hjarðarhaga.

Byggingarsamvinnufélag starfsmanna SÍS. Beitti sér fyrir byggingu fjölbýlishúsa í Breiðholti.

Byggingarsamvinnufélag starfsmanna Strætisvagna Reykjavíkur. Stofnað 1945. Beitti sér byggingu fjölmargra húsa við Efstasund og Skipasund á árunum eftir 1946.

Byggingarsamvinnufélag trésmiða. Stofnað 1959

Byggingarsamvinnufélag verkamanna og sjómanna.  Aðalhvatramaðurinn að stofnun félagsins var Guðmundur Guðmundsson. Reisti m.a. fjölbýlishús við Reynimel.

Byggingarsamvinnufélag Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Stofnað 1946 og var fyrsti formaður þess Carl Hemming Sveins. Reisti húsin Melhaga 16-18 sem tilbúin voru 1951.

Byggingarsamvinnufélag vélstjóra. Átti aðild að byggingu fjölbýlishússins Leirubakka 18-20 í Breiðholti árið 1969.

Byggingarsamvinnufélagið Vinnan. Stofnað að tilhlutan Verkamannafélagsins Dagsbrunar. Reisti allmörg hús í Breiðholti.

Byggingavörur. Byggingavöruverslun, stofnsett 1961 af Össuri Aðalsteinssyni o.fl. Var til húsa á Laugavegi 178 til 1973 en eftir það í Ármúla 18. Rann inn í Húsasmiðjuna 1999.

Byggingavöruverslun Ísleifs Jónssonar. Stofnsett 1922 og var fyrst til húsa í Hafnarstræti 15 til 1924, þá á Laugavegi 14 til 1929, Hverfisgötu 59 frá 1929-1930, Aðalstræti 9 frá 1930 og fram yfir 1946. Um tíma var verslunin í skemmu við Sörlaskjól en 1954 var hún komin í Höfðatún 2 þar sem hún var til 1962. Eftir það var hún í Bololti 4 frá 1962-2006 en flutti þá að Draghálsi 14-16

Byggung. Byggingarsamvinnufélags ungs fólks, stofnað 1974. Framkvæmdastjóri félagsins var Þorvaldur Mawby. Beitti sér fyrir byggingu fjölbýlishúsa, svo sem við Hagamel 51-53 og Eiðsgranda.

Byko. Stærsta byggingavöruverslun landsins, stofnuð af Guðmundi H. Jónssyni og Hjalta Bjarnasyni í Kópavogi árið 1962. Árið 1991 færði félagið út kvíarnar til Reykjavíkur þegar það opnaði verslun í Steindórsskálanum vestast við Hringbraut. Sú verslun var flutt að Fiskislóð 15 árið 2008.

Bylgjan. Fyrsta einkarekna útvarpsstöðin eftir að einkaréttur Ríkisútvarpsins var afnuminn 1986. Var í eigu Íslenska útvarpsfélagsins og fyrstu árin til húsa á Snorrabraut 54. Fyrsti útvarpsstjórinn var Einar Sigurðsson. Árið 1990 sameinuðust Stöð 2 og Bylgjan undir Íslenska útvarpsfélaginu og flutti þá Bylgjan að Lynghálsi 5 þar sem hún hefur verið rekin síðan.

BYR. Sjá Sparisjóð vélstjóra.

Byrgi. Klettaborg sem nær í sjó fram í norðauatanverðri Engey. Stundum kallað Álfaborg.

Byrgisholt. Kennileiti í landi Hólms, þetta er holtið norðan við Almannadal og sunnan við Mýrarskyggni.

Bytown Camp. Sjá Bústaðakampur.

Bæjarbílastöðin. Leigubílastöð, stofnuð 1921 af Magnúsi Skaftfjeld. Hét fram til um 1934 Bifreiðastöð Magnúsar Skaftfjelds. Afgreiðsla hennar var í Veltusundi en frá 1939 í Aðalstræti 16 þar til hún hætti um 1955.

Bæjarbókasafnið. Sjá Borgarbókasafnið.

Bæjarbryggjan, sjá Steinbryggjan

Bæjarfógetagarðurinn. Sjá Kirkjugarðurinn við Aðalstræti.

Bæjarfógetinn í Reykjavík. Embættið stofnað árið 1803.

Bæjargjaldkerinn í Reykjavík. Embættið stofnað 1822.

Bæjarins bestu. Elsti og þekktasti pylsuvagn Reykjavíkur. Jón Sveinsson byrjaði með hann 1937 og hefur hann síðan verið í eigu sömu fjölskyldunnar. Frá 1943 á Ellingsensplani við Tryggvagötu.

Bæjarins bestu. Rapphljómsveit sem hefur starfað frá um 2000. Stofnendur voru Daníel Ólafsson (Deluxe) og Halldór Halldórsson (Dóri DNA).

Bæjarleiðir. Leigubílastöð, stofnsett 1955 og var lengst með afgreiðslu á Langholtsvegi 117 og 115, sameinuð Bifreiðastöðinni Hreyfli árið 2001.

Bæjarpósturinn

Bæjarráð. Sjá Borgarráð.

Bæjarsími Reykjavíkur

Bæjarsjóður Reykjavíkur. Sjá Borgarsjóður.

Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR).  Stofnsett 1946 af bæjarstjórn Reykjavíkur og voru fyrstu forstjórar hennar þeir Sveinn Benediktsson og Jón Axel Pétursson. Varð síðan með öflugustu togaraútgerðum landsins. Árið 1950 kom BÚR upp fiskverkunarstöð (sjá) á Eiðsgranda eða öllu heldur Meistaravöllum við Kaplaskjósveg og voru keyptir bandarískir herbraggar og settir þar upp undir starfsemina. Árið 1959 eignaðist BÚR frystihús Fiskiðjuvers ríksins á Grandagarði 8 og voru þar síðan höfuðstöðvar fyrirtækisins. Bæjarútgerðin var lögð niður árið 1985 með því að hún var sameinuð Ísbirnininum í stórfyrirtækinu Granda.

Bæjarvör. Sjá Viðeyjarvarir.

Bæjarþing Reykjavíkur

Bæjarþingstofan. Stofan var á árunum 1820-1873 í austurhluta hússins Austurstræti 22. Þá var hún flutt í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, efri hæð. Í Bæjarþingstofunni fóru fram bæjarstjórnarfundir, kosningar og fleira.

Bæjarþvottahús Reykjavíkur. Stofnað 1942 af Bæjarstjórn Reykjavíkur til að annast þvott fyrir stofnanir borgarinnar og einstaklinga. Var til húsa í Sundhöllinni. Starfrækt fram yfir 1967.

Bækur og ritföng. Bókaverslun sem Ragnar Jónsson í Smára, Kristján Jónsson (í Kiddabúð) og fleiri stofnuðu í Austurstræti 1 árið 1947 og var hún rekin þar til 1960 og einnig á Laugavegi 39 á árunum 1948-1955. Á sömu hendi voru bókabúðir Helgafells (sjá).

Bændahöllin. Stórhýsi við Hagatorg sem hýsir Hótel Sögu og skrifstofur Bændasamtakanna. Húsið var reist af Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda og tekið í notkun 1962 en stækkað mikið síðar. Arkitekt hússins var Halldór H. Jónsson.

Bær. Sjá Syðstagrund.

Bögglapóststofan. Sérstök póststofa sem var fyrir afhendingu og viðtöku böggla og var hún í kjallara Pósthússins í Pósthússtræti 5 frá 1915 til 1957 en flutti þá í Hafnarhvol við Tryggvagötu þar sem hún var til 1984. Eftir það flutti hún í Póstmiðstöðina í Ármúla.

Bökunarhúsið. Lítið hús í Austurstræti 20 sem reist var árið 1818 af Ole P. Chr. Möller sem bökunarhús. Síðar var húsið sameinað húsinu sem stóð fyrir vestan og er nú hluti af Hressingarskálanum.

C-gata. Sjá Blesugróf.

Café 22. Veitingahús á Laugavegi 22. Rekið undir þessu nafni á árunum 2000-2006 en áður hét það „22“ og var rekið undir því nafni á árunum 1983-2000.

Café Amsterdam. Veitinga- og skemmtistaður í Hafnarstræti 5 (Tryggvagötumegin), stofnsettur 1991 af Þóri Gunnarssyni og rekinn til 2013.

Café Bleu. Veitingastaður í Kringlunni, opnaður 1999.

Café Broadway. Sjá Baldurshagi.

Café Central. Veitingastaður í Hafnarstræti 18, rekin frá um 1940 til 1951.

Café Flóra. Kaffihús í miðjum Grasagarðinum í Laugardal. Rekið á hverju sumri af Marentzu Poulsen frá árinu 1997.

Café Flórída. Kaffistofa á Hverfisgötu 69, rekin frá um 1943 til um 1958, sewgja má að verslunin og sjoppan Florida hafi verið arftaki hennar en hún var fyrst á sama stað en síðan á Hverfisgötu 74.

Café Höll. Kaffihús í viðbyggingu austan við Austurstræti 3. Eigandi staðarins sem rekinn var frá 1943-1970, var Brynjólfur J. Brynjólfsson bryti.

Café Mílanó. Kaffihús og veitingastaður að Faxafeni 11, opnaður 1990 af Sverri Þorsteinssyni og Annettu Ásgeirsdóttur. Þar hafa verið myndlistarsýningar.

Café Oliver. Upphaflega var staður með þessu nafni rekinn á Hverfisgötu 12 (Ingólfsstrætismegin) af Andrési Pétri Rúnarssyni og Einari Kristjánssyni á árunum  1995-1997. Árið 2005 var svo opnaður staður með sama nafni á Laugavegi 20A sem var í senn kaffihús, veitingastaður og skemmtistaður. Arnar Þór Gíslason og fleiri ráku þann stað. Starfaði til 2013.

Café Ópera. Veitingastaður sem Valur Magnússon stofnaði í Lækjargötu 2 (efri hæð) árið 1988. Rekinn til 2007 að húsið brann.

Café París. Kaffihús í Austurstræti 14, stofnsett árið 1992 af feðgunum Katli Axelssyni og Axel Ketilssyni.

Café Roma. Kaffihús á Laugavegi 118 (Rauðárstígsmegin). Opnað 2002 af Nönnu Guðbergsdóttur.

Café Rosenberg. Veitingastaður Alfreds Rosenbergs, opnaður í kjallara Nýja bíós 1920. Frá 1924 til 1929 var hann í Austurstræti 16. Árið 1983 var Café Rosenberg opnað aftur í upprunalegum húsakynnum í kjallara Nýja bíós og hét nú Í kvosinni. Café Rosenberg. Þar fóru fram leiksýningar um tíma. Var rekinn fram til um 1992. Um 2004 skaut nafninu Café Rosenberg upp aftur í Lækjargötu 2 og var þar til 2007 en frá 2008 á Klapparstíg 25.

Café Uppsalir. Veitingastaður sem stofnsettur var 1904 af Hólmfríði Rósenkrans og Þórunni Finnsdóttur árið 1904 í húsinu Uppsölum í Aðalstræti 18 og rekin í nokkra áratugi.

Café Victor. Kaffihús og bar í Hafnarstræti 1, starfræktur á árunum 1999-2009.

Camberley Camp. Sjá Tripolikampur.

Camp Alabaster. Herbraggahverfi breska setuliðsins skammt frá rafmagnsstöðinni við Elliðaár. Síðar tók bandaríska herliðið hverfið yfir að hluta og kallaði Camp Pershing.

Camp Anacostia. Herbraggahverfi á stríðsárunum í norðurhlíð Öskjuhlíðar þar sem síðar reis slökkvistöð.

Camp Ártún. Herbraggahverfi á stríðsárunum í Ártúnshöfða.

Camp Baldurshagi. Stórt herbraggahverfi á stríðsárunum með allt að hundrað bröggum á Víðivöllum við Elliðaár, skammt frá norðurenda Skeiðvallarins.

Camp Battle. Herbraggahverfi á stríðsárunum norðan við bæjarhól Ártúns.

Camp Bradford. Herbraggahverfi á stríðsárunum austan við Langholtsveg á horni Holtavegar þar sem Efstasund kom síðar.

Camp Buller. Lítið herbraggahverfi frá stríðsárunum ásamt bryggju við Sandvík sem gengur norðvestur úr Rauðavatni. Þar voru höfuðstöðvar strandvarna-  og/eða loftvarnarstórskotaliðs.

Camp Caledonia. Herbraggahverfi á stríðsárunum ofan við Suðurlandsbraut, rétt vestan við það sem síðar lá Vegmúli.

Camp Casement. Sjá Múlakampur.

Camp Claygate. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Þingholtsstræti, Miðstræti og Skálholtsstíg.

Camp Columbus Dump. Herbraggahverfi á stríðsárunum austan við Baldurshaga skammt sunnan Suðurlandsvegar. Þar var birgðastöð.

Camp Cook. Herbraggahverfi á stríðsárunum í Fossvogi, við enda núverandi Suðurhlíðar. Hét fyrst Fleet Air Base Iceland (FABI) east camp, síðar Marine Camp.

Camp Cook South. Sjá Camp Fossvogur.

Camp Corbett. Herbraggahverfi á stríðsárunum innan við Nauthólsvík.

Camp Corregiedor. Braggahverfi bandaríska hersins á stríðsárunum við Kjalarnesborgir á Kjalarnesi.

Camp Craven. Sjá Camp Liberty.

Camp Curtis. Herbraggahverfi á stríðsárunum sem stóð sem stóð báðum megin núverandi Borgargerðis ofan við Rauðagerði á þeim slóðum sem nú er göngubraut yfir Miklubraut. Þar voru um tíma aðalstöðvar bandaríska hersins eftier að hann tók við hervörnum Íslands. Hét fyrst Camp Pershing og síðan Camp Tadcaster.

Camp Daniel Boone. Sjá Flugvallarkampur.

Camp Defensor. Herbraggahverfi á stríðsárunum við hús Defensorfélagsins, rétt austan við Höfða.

Camp Duluth. Sjá Camp Sheridan.

Camp Edgewater. Herbraggahverfi á stríðsárunum þar sem nú er Skeljatangi í Skerjafirði.

Camp Edwards. Herbraggahverfi á stríðsárunum austan við Grensásveg á horni Bústaðavegar. Hét fyrst Rushmoor Camp.

Camp Farm. Herbraggahverfi á stríðsárunum milli núverandi Skógarhlíðar og Eskihlíðar neðarlega.

Camp Fenton Street. Sjá Elliðaárkampur.

Camp Fossvogur. Herbraggahverfi á stríðsárunum þar sem síðar var Nesti í Fossvogi. Einnig stundum nefnt Camp Cook South.

Camp Gargand. Sjá Sölvhólskampur.

Camp Hagi. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Haga, nú við Hofsvallagötu milli Melhaga og Neshaga.

Camp Handley Ridge. Herbraggahverfi á stríðsárunum þar sem Réttarholtsskóli reis síðar.

Camp Harrogate. Sjá Álfheimakampur.

Camp Hálogaland. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Suðurlandsbraut þar sem síðar voru göturnar Gnoðarvogur og Ferjuvogur.

Camp Herold. Herbraggahverfi á stríðsárunum innst við Grettisgötu norðan við barnaleikvöllin sem var aftan við Austurbæjarbíó.

Camp Hickam. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Ártúnsbrekku, rétt ofan við kartöflugeymslurnar.

Camp Hilton. Herbraggahverfi á stríðsárunum, rétt suður af núverandi Miklatorgi.

Camp Hounslow. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Laugaveg, rétt austan við núverandi Þjóðskjalasafn.

Camp Hull. Herbraggahverfi á stríðsárunum á Innra-Kirkjusandi.

Camp Ingolfs. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Ingólfsstræti og Hallveigarstíg.

Camp King. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Grensásveg, á horni Breiðagerðis. Hét fyrst Redesdale Camp.

Camp Knox. Fjölmennasta braggahverfið í Reykjavík milli Kaplaskjólsvegar og Hofsvallagötu þar sem nú er vestasti hluti Hagamels og Grenimels og þar í grennd. Þar var búið í 133 bröggum árið 1952 og íbúarnir urðu flestir yfir 600 talsins. Síðast var búið í Camp Knox árið 1967.

Camp Kwitcherbellyakin. Sjá Camp Maple Leaf.

Camp Langholt. Herbraggahverfi á stríðsárunum meðfram austanverðum Langholtsvegi milli Álfheima og Skeiðarvogs.

Camp Leynimýri. Herbraggahverfi á stríðsárunum við býlið Leynimýri, rétt vestan við Fossvogskirkjugarð.

Camp Liberty. Herbraggahverfi á stríðsárunum þar sem nú er Hörgshlíð. Nefndist einnig Camp Craven.

Camp Maple Leaf. Stórt herbraggahverfi á stríðsárunum á bökkunum inn af Nauthólsvík. Áður nefnt Fleet Air Base Iceland (FABI). Um tíma hafði hverfið hið óopinbera nafn Camp Kwitcherbellyakin.

Camp Melrose. Sjá Þoroddstaðakampur.

Camp Monmouth. Braggahverfi frá stríðsárunum austan Langholtsvegar. Nokkurn veginn þar sem nú er Eikjuvogur og iðnaðarhverfið við Dugguvog, Kænuvog og syðsta hluta Súðarvogs.

Camp Mounds.  Braggahverfi breska hersins við Lykkju á Kjalarnesi.

Camp National Theatre. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Þjóðleikhúsið.

Camp New Mercur. Herbraggahverfi á stríðsárunum vestan Elliðaáa á móts við Ártún.

Camp Noby. Herbraggahverfi á stríðsárunum fyrir suðvestan Melaskólann. Hverfið hýsti hluta af aðalstöðvum bandaríska flotans.

Camp Olympia. Herbraggahverfi á stríðsárunum, nálægt því sem Aragata liggur nú.

Camp Pershing. Sjá Camp Curtis og Camp Alabaster.

Camp Pershing. Herbraggahverfi á stríðsárunum rétt innan við Elliðaárvirkjun. Hét fyrst Artun camp, einnig Alabaster Camp.

Camp Phinney. Herbraggahverfi í norðanverðri Hólmsheiði á móts við bæinn Hólm. Í einum bragganum var kvikmyndahús en honum var breytt í steinullarverksmiðju árið 1949.

Camp Pimple Hill. Herbraggahverfi á stríðsárunum þar sem síðar var Sporðagrunn og Selvogsgrunn.

Camp Pony Track. Herbraggahverfi á stríðsárunum hjá skeiðvellinum við Elliðaár.

Camp Ripon. Herbraggahverfi á stríðsárunum í Sogamýri, við Tunguveg norðan Sogavegar.

Camp Salmon River Damp. Herbraggahverfi á stríðsárunum vestan við núverandi Stjörnugróf þar sem nú eru lóðirnar Vogaland 2 og 4.

Camp Saurbær. Bækistöðvar breska hersins og fallbyssuhreiður við Dalsmynni á Kjalarnesi.

Camp Sheerwood. Sjá Háteigskampur.

Camp Sheridan. Herbraggahverfi á stríðsárunum sem var milli Seilugranda og Fostaskjóls sem síðar kom. Áður nefnt Camp Duluth.

Camp Stonehenge. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Brú á Grímsstaðaholti, austan Suðurgötu og vestan við þar sem síðar kom Eggertsgata.

Camp Swansea. Herbraggahverfi á stríðsárunum norður af bænum Hólmi milli Hafravatnsvegar og vegarins upp í Mjóadal.

Camp Tadcaster. Sjá Camp Curtis.

Camp Thornhill. Lítið braggahverfi sem reis á stríðsárunum í landi Þormóðsstaða í Skerjafirði, nálægt þar sem nú er Starhagi og suður af honum.

Camp Tower Hill. Sjá Háteigskampur.

Camp Tripoli. Sjá Tripolikampur.

Camp Vulcan. Herbraggahverfi á stríðsárunum í Rauðarárholti vestan við núverandi Þjóðskjalasafn og allt að Þverholti.

Camp Wright. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Reykjavíkurflugvöll þar sem síðar reis vöruafgreiðsla Flugleiða.

Cantabile. Kvennakór sem upphaflega hét Gospelsystur Reykjavíkur og starfaði innan vébanda Kvennakórs Reykjavíkur frá 1997 undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur. Nafninu var breytt 2009.

Caput. Hópur tónlistarmanna sem stofnaður var 1987 í þeim tilgangi að flytja nýja tónlist. Hefur komið fram víða um heim.

Carat – Haukur gullsmiður. Gullsmíðaverkstæði og verslun. Stofnuð 2001 af hjónunum Hauki Valdimarssyni og Brynju Björk Gunnarsdóttur. Var í Smáaralind í Kópavogi fyrstu árin og um tíma á Laugavegi 40. Flutti í Hátún 6A árið 2015.

Carl A. Bergmann. Úrsmíðaverkstæði og verslun. Stofnsett á Njálsgötu 26 árið 1949. Verslunin var flutt að Skólavörðustíg 5 árið 1963 þar sem hún var til 1990 en eftir það á Laugavegi 55.

Carl D. Tulinius & Co. Vátryggingarfélag. Upphaflega Vátryggingarstofa A. V. Tulinius, stofnuð 1911 af Axel V. Tulinius. Starfrækt til 1953.

Carmina. Kammerkórinn.

Casa Christi. Sjá Menntaskólann í Reykjavík.

Casa Nova. Sjá Menntaskólann í Reykjavík.

CCP

Centrum. Sjá Evu.

Charleston-klúbburinn, skemmtiklúbbur á 3. áratug 20. Aldar

Chic. Tískuverslun. Stofnsett 1931 af Ástu Þorsteinsdóttur og Kristjönu Blöndal. Var í Bankastræti 4 til 1951, eftir það á Vesturgötu 2 til ársins 1967.

Ciro. Sjoppa á Bergstaðastræti 54, rekin á árunum 1957-1999.

City hótel

Club Vegas. Sjá Vegas.

Coffins. Sjá Stararhyljir.

Columbus. Umboðs- og heildverslun sem Reinhard Lárusson og fleiri stofnuðu 1941. Var með Renault-bílaumboðið frá 1946. Lengst af fyrstu árin var fyrirtækið til húsa í Sænsk-íslenska frystihúsinu en eftir 1953 í Brautarholti 20. Hætti störfum 1966.

Combó Þórðar Hall. Stofnað af nemendum í Myndlista- og handíðaskólanum og kom fram á árunum 1969-71, ekki síst í Glaumbæ. Í því voru þeir Áskell Másson, Egill Eðvarðsson, Grétar Guðmundsson og Ómar Skúlason.

Companys. Sjá Evu.

Coral. Rokkhljómsveit sem starfað hefur frá árinu 2000. Í henni eru Gunnar Jónsson, Steinar Guðjónsson, Andrés A. Hlynsson og Þorvaldur Kári Ingveldarson.

Corner Pool. Sjá Grófarkvörn og Ullafoss.

CP félagið á Íslandi. Stofnað árið 2001 af foreldrum barna með svokallaða CP (Celebral Palsy) fötlun sem á rætur til skemmda í heila. Fyrsti formaður félagsins var Ómar Örn Jónsson.

Crownhill Camp. Sjá Tripolikamp.

D-gata. Sjá Blesugróf.

Dagblaðið

Dagmálaklettar.  Klettar rétt utan við Vatnagarða. Þar er nú Sundahöfn en leifar þeirra má sjá við Hrafnistu.

Dagsbrún. Verkamannafélagið

Dagskrá

Dagvist barna. Sjá Leikskólar Reykjavíkur.

Dairy Queen. Árið 1954 hófu Þorvarður Árnason og Gylfi Hinriksson framleiðslu á Dairy Queen ís með einkaleyfi frá Bandaríkjunum. Árið eftir opnuðu þeir tvær ísbúðir að Hjarðarhaga 47 og Laugaveg 28 sem yfirleitt voru kallaðar Dairy Queen. Enn ein bættist við á Laugavegi 80 árið 1956. Síðar komu ísbúðir Dairy Queen m.a. í Lækjargötu 2, Álfheimum 6 og Aðalstræti 4.  Upp úr 1980 voru einungis eftir búðirnar við Hjarðarhaga og Aðalstræti en sú síðarnefnda var flutt í nýtt húsnæði á Ingólfstorgi um 1993.

Dalakofinn. Nafn sem oftast var notað um veitingastofuna Ægi sem Kristín Dahlstedt rak á árunum 1937-1947 í Tryggvagötu 14.

Dalbraut. Liggur milli Sundlaugavegar og Kleppsvegar og kennd við Laugardal. Götunafnið var ákveðið 1954.

Dalbær. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf). Stóð beint fyrir neðan Hraunprýði eða fyrir neðan Stekkjarbakka á móts við austustu húsin við Hólastekk.

Dalbær. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Dalhaft. Haftið sem skilur að Neðri- og Efri Almannadal í Hólmsheiði.

Dalshús í Blesugróf.

Dalskóli. Grunnskóli, leikskóli og frístundaheimili sem tók til starfa árið 2010 að Úlfarsbraut 118-120 í Úlfarsárdal. Skólahúsið er teiknað af Arkþing arkitektum en fyrsti skólastjórinn er Hildur Jóhannesdóttir.

Dalsmynni. Hús við Kleppsmýrarveg.

Dalur. Smábýli á erfðafestulandi á Þvottalaugabletti 3 norður af núverandi gatnamótum Múlavegar og Engjavegar, reist árið 1919.

Dalur. Fataverslun að Framnesvegi 2, starfrækt á árunum 1958-1972 af hjónunum Einari Guðmundssyni og Sigríði Þóru Árnadóttur og fjölskyldu.

Dalver. Matvöruverslun á Dalbraut 3. Rekin frá um 1972 til um 1991.

Danfoss. Fyrirtæki sem sérhæfir sig í hitabúnaði, kælibúnaði og fleiru. Stofnsett 1994 en þá undir nafninu Héðinn Verslun og var þá til húsa á Seljavegi 2.  Árið 1999 keypti Danfoss verslunina, breytti nafninu og flutti í Skútuvog 6 þar sem fyrirtækið hefur verið síðan.

Daníelsslippur. Stofnaður 1936 af Daníel Þorsteinssyni og sonum hans. Fyrirtækið hét formlega Skipasmíðastöðin Daníel Þorsteinsson & Co. Slippurinn var frá upphafi í krikanum í Vesturhöfninni fyrir neðan Bakkastíg en var lagður niður 2006 og öll mannvirki þar fjarlægð á næstu árum.

Danól. Upphaflega Heildverslun Daníels Ólafssonar, stofnuð 1932. Var lengi smá í sniðum en varð að stórfyrirtæki um 1980, einkum í matvöruinnflutningi. Var lengi framan af í Tjarnargötu 10, þá í Vonarstræti 4 frá um 1960 og Súðarvogi 20-22 frá um 1970. Frá 1979 voru höfuðstöðvar fyrirtækisins að Vatnagörðum 26-28 en fluttust 1993 að Skútuvogi 3. Fyrirtækið sameinaðist Ölgerðinni Egill Skallagrímsson undir nafni hennar árið 2008.

Danshátíð Reykjavíkur. Sjá Reykjavík Dance Festival.

Danshljómsveit Bjarna Böðvarssonar. Stofnsett 1935 til að leika í beinum útsendingum í útvarpi og hét upphaflega Danshljómsveit FÍH. Ein helsta danshljómsveit Reykjavíkur allt til ársins 1955.

Danska sendiráðið. Hefur frá upphafi verið í sömu byggingunni á Hverfisgötu 29. Hún var upphaflega byggð af Friðriki og Sturlu Jónssyni árið 1914 en þeir seldu dönsku stjórninni árið 1919. Húsið er teiknað af Finni Thorlacius.

Danskavör. Vör norðan til á vesturströnd Örfiriseyjar, nú löngu horfin undir uppfyllingar.

Dansk-íslenska félagið

Danslistarskóli JSB. Sjá Jazzballettskóli Báru.

Daufblindrafélag Íslands. Stofnsett 1994 af nokkrum einstaklingum með alvarlegan sjón- og heyrnarskaða en einnig eru í félaginu styrktarfélagar. Fyrsti formaður félagsins var Friðjón Erlingsson. Félagið hefur aðsetur í Hamrahlíð 17.

Daufdumbraskólinn. Sjá Heyrnleysingjaskólinn.

Davíð Jónsson & Co. Heildverslun

Davíðshús. Einlyft timburhús að Aðalstræti 18, reist árið 1830 af Davíð Helgasyni. Rifið 1902.

Dátar. Popphljómsveit sem starfaði á árunum 1964-1967. Stofnendur voru Hilmar, Jón Pétur Jónsson,  Rúnar Gunnarsson og Stefán Jóhannsson.

Defensor. Togarafélag með fiskvinnsluhús, fiskreiti og verbúð á svokölluðu Félagstúni austan Höfða. Þar var einnig bryggja félagsins. Félagið tók til starfa 1915 og var framkvæmdastjóri þess Magnús Magnússon. Togaraútgerð á vegum félagsins var hætt 1932 en fiskvinnslustöðin Defensor var rekin til um 1940.

Defensorvegur.  Gata sem lá frá Suðurlandsbraut að Defensorstöðinni austan Höfða. Árið 1940 var götunöfnum breytt og kom þá Höfðatún nokkurn veginn þar sem Defensorvegur hafði áður legið.

Dengsi. Fyrirtæki á sviði skiltagerðar og ljósaskreytinga. Stofnað 1985 af Jóhannesi Tryggvasyni. Er til húsa í Dugguvogi 1B.

Dentalía. Innkaupasamband tannlækna, stofnað 1957. Sameinaðist innflutingsfyrirtækinu Fides fyrir nokkrum árum og heitir nú Dentalía og Fides.

Detention Camp.  Herfangelsi á Ytri-Kirkjusandi á stríðsárunum, rétt austan við núverandi hús Íslandsbanka.

Diabolus in musica. Dægurhljómsveit sem spilaði léttdjassað popp og starfaði á árunum 1975-76 og aftur 1981. Stofnendur voru Aagot Óskarsdóttir söngkona og píanóleikari, Guðmundur Thoroddsen pínanó- og klarinettleikari, Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona og flautuleikari, Jón Sigurpálsson bassaleikari, Jóna Dóra Óskarsdóttir söngkona og víóluleikari og Páll Önundarson gítarleikari.

Diesel. Díselstillingaverkstæði sem Magnús G. Marteinsson opnaði 1961 í Garðastræti 9. Flutti fljótlega að Vesturgötu 2 (Tryggvagötumegin) en virðist hafa hætt 1966.

Dillon. Kaffihús og bar á Laugavegi 30. Opnað árið 2000.

Dillonshús. Einlyft timburhús, reist 1835 i Suðurgötu 2 af Arthur Dillon lávarði handa barnsmóður hans Sire Ottesen. Flutt í Árbæjarsafn 1965. Einnig nefnt Ottesenshús og seinna Melsteðshús.

Dimma. Sá kafli Elliðaánna frá því þar sem áin rennur úr Elliðavatni og niður að Grænugróf. Þar er áin lygn og djúp og miklir hyljir í henni.

Dimmalimm.  Gjafavöruverslun, rekin 1962-1969 ef þeim Sigrúnu Gunnlaugsdóttur, Þórunni Egilson og Helgu Egilson. Var fyrsta árið í Aðalstræti 9 en síðan á Skólavörðustíg 4.

Dimmalimm. Barnafataverslun, stofnuð 1989 af þeimLilju Rós Sigurðardóttur og Óla Guðjóni Ólafssyni. Var í Bankastræti 4 til 1995, þá á Skólavörðustíg 10 til 2000 en eftir það á Laugavegi 53.

Dímon. Veiðarfærasala, stofnuð 1994 af Arnóri Stefánssyni. Var fyrstu tvö árin í Skútuvogu 12E, síðan í Austurbugt 5 til um 2005 en eftir það á Tunguhálsi 8.

Dísafell. Fiskiðjuver sem Sigurgeir Sigdórsson rak á Gelgjutanga á árunum 196?-1978. Athuga betur.

Dísafoss. Vefnaðarvöruverslun, stofnsett um 1942 að Grettisgötu 44.  Var síðan á Grettisgötu 45  á árunum 1955-1963, þá á Grettisgötu 57 og loks á Vitastíg 13 til um 1970.

Dísardalur. Dalverpi fast sunnan við Suðurlandsveg austan við Norðlingaholtshverfi á móts við aðveitustöðina og Víðirholt.

Dísardalur. Vestasta íbúðarhúsið í Dísardal, reist árið 1935 en var búið í því til 1987. Horfið.

Dísaver. Fiskverkunarstöð sem starfrækt var í bragga á Gelgjutanga við Kleppsmýrarveg frá um 1964 fram yfir 1970. Nafnið festist við braggann sem síðast var notaður sem geymsla fyrir Olíudreifingu hf. en hann var rifinn 1996.

Djassklúbbur Reykjavíkur

Djúpagil. Stórt gil í Esju í landi Mógilsár. Í botni þess var unnið kalk í Kalkofninn í Reykjavík á árunum 1873-1879 og aftur gerð tilraun til kalkvinnslu þar 1916-1917. Einnig var þar leitað eftir gulli snemma á 20. öld.

Djúpfiskur. Fyrirtæki sem flytur út sjávarafurðir (Er á Fiskislóð 115b um 1990)

Djúpidalur. Djúpur dalur í landi Grafarholts suðurvestur af Grenisás uppi í Austurheiðinni.Hann er lokaður inni en opnast suður að Hvömmum skáhallt að Selbrekkum upp af Rauðavatni.

Djúpið. Lítið gallerí og tónlistarsalur í kjallaranum á Hafnarstræti 15, rekin frá 1979 í tengslum við veitingahúsið Hornið.

Doktorshús. Myndarlegt timburhús, byggt af Jóni Thorstensen landlækni árið 1834 í Hlíðarhúsatúni þar sem síðar var  Ránargata 13. Rifið 1965.

Domus Medica. Hús að Egilsgötu 43 sem Læknafélag Reykjavíkur og Læknafélag Íslands beittu sér fyrir að byggja. Var það tekið í notkun á árunum 1965-1966. Þar hafa verið félagsheimili lækna, skrifstofur, læknastofur og verslanir. Arkitektar hússins voru Gunnar Hansson og Halldór Jónsson.

Domus Vox. Söngskóli sem Margrét J. Pálmadóttir stofnaði árið 2000 og hefur einkum lagt áhersla á kórstarf kvenna og stúlkna.  Skólinn var til húsa á Skúlagötu 30 til 2006 eftir það á Laugavegi 116.

Dómhús Hæstaréttar.  Eftir að Hæstiréttur Íslands var stofnaður 1919 hafði hann aðsetur í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg en árið 1949 flutti hann í eigið hús við Lindargötu 1 sem Guðjón Samúelsson teiknaði. Þar var hann til húsa þar til flutt var í nýtt dómhús við Arnarhól árið 1996. Arkitektar þess eru Margrét Harðardóttir og Steve Christer.

Dómhúsið við Lækjartorg. Tekið í notkun 1992 í hinum gömlu húsakynnum Útvegsbanka Íslands. Þar hefur Héraðsdómur Reykjavíkur aðsetur.

Dómkirkjan. Þegar biskupsstóll var fluttur frá Skálholti til Reykjavíkur var ákveðið að reisa dómkirkju í Reykjavík og var henni valinn staður í suðausturhorni Austurvallar, skammt frá norðurbakka Tjarnarinnar. Kirkjan var vígð 1796 og var upphaflega einlyft steinkirkja í látlausum klassískum stíl. Hún var reist eftir teikningum Andreas Kirkerup. Hún var embættiskirkja biskups Íslands og jafnframt sóknarkirkja Reykvíkinga. Á árunum 1846 til 1847 var ráðist í að stækka kirkjuna mikið og fékk hún þá núverandi byggingarlag. Danski húsameistarinn L. A. Winstrup gerði teikningar að hinni stækkuðu kirkju og má hann heita höfundur hennar. Að utan ber kirkjan merki síðrómans stíls en að innan eru ýmis klassísk einkenni. Kirkjan hefur orðið fyrirmynd margra annarra kirkna hérlendis.

Dómkirkjuhneykslið.

Dómkirkjukórinn

Dómkirkjusöfnuðurinn. Upphaflega var Dómkirkjan sóknarkirkja allra Reykvíkinga en árið 1940 þegar Reykjavíkursókn var skipt upp var Dómkirkjusöfnuðurinn stofnaður. Mörk sóknarinnar eru nú þessi: Um Hringbraut vestan úr sjó (sunnan hennar aðeins gamla Háskólalóðin) austur að Njarðargötu og um hana að Nönnugötu, sem öll tilheyrir Dómkirkjunni ásamt Óðinsgötu, Týsgötu og Klapparstíg í sjó niður við Skúlagötu. Fyrsti dómkirkjupresturinn í Reykjavík var  séra Guðmundur Þorgrímsson.

Dósaverksmiðjan. Stofnsett 1937 til framleiðslu á blikkdósum og brúsum.  Fyrsti forstjóri hennar var Magnús Einarsson. Var fyrst til húsa í Sænska frystihúsinu við Arnarhól en frá um 1944 í Borgartúni 1. Var rekin til um 1975.

Drafnarborg. Leikskóli á Drafnarstíg 4 í Vesturbænum. Tók til starfa 1950 í einu fyrsta húsinu sem reist var sem leikskóli. Það var teiknað af Þór Sandholt en fyrsta forstöðukona leikskólans var Bryndís Zoëga.

Dragavegur. Gata milli Austurbrúnar og Kambsvegar í Laugarási austanverðum. Götunni var gefið þetta nafn 1953.

Dragháls. Austasti hluti Langholts þar sem það lækkar og gatan Álfheimar kemur upp á holtið. Þarna var jarðsprunga þvert yfir holtið sem fyllt var vegna vegagerðar á dögum fyrri heimsstyrjaldar

Drangey. Verslun, stofnsett 1934 á Grettisgötu af Páli Þorleifssyni og var upphaflega matvöruverslun. Flutti árið 1941 á Laugaveg 58 og var þá aðallega verslað með vefnaðarvöru. Síðar var bætt við leðurvörum, plötum og hljóðfærum.  Árið 2004 flutti verslunin endanlega af Laugavegi 58 í Smáralind í Kópavogi.

Draugaklettar. Klettar í Breiðholtshvarfi, skammt fyrir ofan Árbæjarstíflu, ekki háir en dökkir, nú að mestu huldir trjágróðri. Aðrir Draugaklettar eru í Elliðaám undir Höfðabakkabrú.

Draugasteinar.  Örnefni skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.

Draumasmiðjan.  Leikhópur sem Margrét Kr. Pétursdóttir og nokkrir aðrir leikararar stofnuðu 1994. Frá árinu 2000 hefur hann staðið fyrir svokölluðu döff leikhúsi auk venjulegrar leikstarfsemi.

Draupnir. Upphaflega síldveiðafélag, stofnað árið 1904 af Thor Jensen og fleirum til að veita síld í beitu. Þetta mun vera sama félag og keypti togarann Snorra goða árið 1911. Félagið var lagt niður 1915 og sameinað Kveldúlfi.

Dreifing. Innflutnings- og vörudreifingafyrirtæki sem þjónar einkum veitingahúsum og matvælaiðnaði, stofnsett 1966 af Hauki og Jóni Hjaltasonum. Hefur verið í Vatnagörðum 8 frá um 1990 en áður í Skipholti 29 í fáein ár.

Drekinn. Fyrsti staðurinn í Reykjavík með kínverskan mat. Opnaður 1982 á Laugaveg 22 af Birgi Guðmundssyni og rekinn þar til um 1989.

Drekkjarhylur. Djúpur fosshylur neðan við hinn uppþornaða Skötufoss í vesturkvísl Elliðaáa á móts við Ártún. Í honum var dauðadæmdum konum drekkt til forna.

Drengjaborg. Hús KFUM nálægt Þvottalaugunum í Laugardal. Þar var útibú frá Barnaskóla Reykjavíkur 1924-1927. Síðar var húsið flutt þar sem nú eru gatnamót Kirkjuteigs og Reykjavegar og í þvi var rekið æskulýðsstarf á vegum KFUM frá árinu 1942. Hús þetta var flutt í Vatnaskóg þegar ný Drengjaborg var reist á Kirkjuteigi 33 árið 1953.

Drengjakór Reykjavíkur. Stofnaður 1990.

Drengsmálið. Einnig kallað Hvíta stríðið.  Ólafur Friðriksson ritstjóri hafði komið frá Moskvu árið 1921 með rússneskan dreng sem læknar úrskurðuðu að væri með hættulegan og smitandi augnsjúkdóm. Var honum því vísað úr landi. Ólafur sem bjó í Suðurgötu 14 taldi að um pólitískar ofsóknir á hendur sér væri að ræða og bjó um sig í húsinu með fylgismönnum sínum til að varna þess að drengurinn væri tekinn. Sló í bardaga með þeim og lögreglu við húsið sem leiddi svo til mikils viðbúnaðar í bænum sem endaði með að drengurinn var tekinn með valdi.

Drillenborg. Pakkhús sem P. C. Knudtzon reisti um 1834 í Austurstræti 12, skyggði það á verslunarhús á lóðinni fyrir vestan og var talið að Knudtzon hefði reist þetta hús til að spilla fyrir eigenda þess. Fékk það nafn sitt af því. Eftir 1868 var þetta hús hluti af Frönsku húsunum en var rifið 1901.

Drífa. Þvottahús og efnalaug. Stofnað 1931 af Unni Kristjánsdóttur, Kristjönu Einarsdóttur og Jónu og Sigríði Pálmadætrum. Var á Baldursgötu 7 fram til um 1972 en síðan á ýmsum stöðvum, svo sem Borgartúni 4 og Laugaveg 178. Á níunda áratugnum fór það að Hringbraut 119 og hefur verið þar síðan, nú rekið undir nafninu Aðalhreinsir – Drífa.

Drottning. Móbergshryggur austan við Stóra Kóngsfell, rétt við skíðasvæðið í Bláfjöllum.

Drottningargil. Gil milli Eldborgargils og Kóngsgils á skíðasvæðinu í Bláfjöllum.

DV

The Dubliner. Bjórkrá með írsku sniði, starfrækt í Hafnarstræti 4 frá 1995. Stofnendur voru Íri, Norðmaður og Íslendingurinn Bjarni Ómar Guðmundsson.

Dunhagaróló. Róluleikvöllur milli Tómasarhaga, Hjarðarhaga og Dunhaga.

Duusbryggja, sjá Fischersbryggja.

Duushús. Veitinga- og danshús við Fischersund (bakhús við Aðalstræti 4), rekið á árunum 1984-1993.

Duusport. Afgirt port á auðri lóð í Aðalstræti 4 frá um 1904 til 1940.

Duusverslun. Var upphaflega í Keflavík en árið 1904 keypti H. P. Duus, eins og var formlegt heiti verslunarinnar, hús Fischersverslunar sem voru í Aðalsræti 2-4 og á Vesturgötu 2. Þaðan var síðan rekin verslun, umfangsmikil útgerð og fiskverkun. Hætti 1927.

Dúfnaræktunarsamband Íslands. Stofnað 1984 með höfuðstöðvum í húsinu Bræðraparti við Engjaveg í Laugardal.

Dúkaland. Sjá Teppaland.

Dúkskot. Torfbær , reistur um 1800 af  af Jóni Jónssyni frá Dúki í Skagafirði. Stóð þar sem nú eru gatnamót Garðastrætis og Vesturgötu. Bærinn varð frægur  vegna morðmáls sem þar gerðist 1913. Hann var rifinn 1919.

Dúkur. Verksmiðja í fatasaumi, stofnuð 1947 af Bjarna Björnssyni. Starfrækt til 1987. Var í Brautarholti 22 til 1967 en eftir það í Skeifunni 13.

Dúkvefnaðarstofa. Sjá Klæðavefstofa Innréttinganna.

Dún og fiður. Verslun með sængur og sængurverasett, stofnuð 2001 af Ólafi Benediktssyni. Var á Laugaveg 87 til 2009 en eftir það á Laugavegi 86.

Dún- og fiðurhreinsunin.  Fyrirtæki sem Benedikt Ólafsson stofnaði 1959 og var það til 1963 í bílskúr á Kirkjuteigi 29 en síðan á Vatnsstíg 3 þar sem einnig var rekin verslun með sængur.  Hætti starfsemi 2005 en verslunin Dún og fiður tók við hlutverki hennar að hluta.

Dyngja. Saumastofa og verslun. Upphaflega stofnuð 1928 af Sólveigu Björnsdóttur frá Grafarholti með það fyrir augum að sem flestar konur gætu komið sér upp skautbúningi fyrir alþingishátíðina 1930. Verslunin var frá 1940 á Laugavegi 25 og starfaði til 1979.

Dyngjuvegur. Gata sem gengur frá Langholtsvegi og upp á Laugarásinn þar sem Austurbrún og Vesturbrún mætast. Nafngiftin er frá 1945 og er heitið talið dregið af kennileiti í Laugarás.

Dynjandi. Vélsmiðja, stofnuð 1954 af Gunnlaugi P. Steindórssyni og fleirum. Var fyrst til húsa í Skipholti 1 til um 1959, þá í Dugguvogi 13 til 1966 en síðan í Skeifunni 3H. Fyrirtækið breyttist í tímans rás verslunar- og þjónustufyrirtæki á sviði véla, tækja og öryggisbúnaðar, nú verslun og þjónustuverkstæði.

Dýraverndunarfélag Íslands. Stofnað 1914.

Dýridalur. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Dvalarheimili aldraðra sjómanna

Dvergasteinn. Hús við Lágholtsveg á Bráðræðisholti.

Dvergasteinn. Leikskóli við Seljaveg 12.

Dvergur. Fiskverkunarstöð á Bráðræðisholti, stofnuð af Ingimundi Jónssyni og Jóni Magnússyni árið 1923. Stakkstæði félagsins náðu frá Kaplaskjólsvegi og langleiðis niður að sjó við Eiðisgranda. Hætti laust fyrir 1950 og keypti þá Bæjarútgerð Reykjavíkur hús og önnur mannvirki.

Dælur. Sléttlendi austan Hólmsár þar sem hún liggur utan um Norðlingahverfi.

Dögg. Blómabúð. Stofnuð af Jónasi Sigurði Jónssyni árið 1951 og var hún í Álfheimum 6 til 1989. Verslunin er enn til í Hafnarfirði.

Dömudeild London. Kvenfataverslun, stofnsett um 1960 af Katli Axelssyni. Verslunin var alla tíð í Austurstræti 14 uns hún hætti um 1995.

Dömu- og herrabúðin. Starfrækt á Laugavegi 55 frá 1945 til 1999.

Dömutískan. Snyrtivöruverslun, stofnsett 1959 af þeim Valdísi Kristjónsdóttur og Málfríði Jónsdóttur. Rekin til 1974 á Laugavegi 35.

E.J. Skúlason (EJS). Stofnsett 1939 af Einari J. Skúlasyni, upphaflega sem ritvélaverkstæði en breyttist síðan jafnframt í verslun og heildsölu sem sérhæfði si gí skrifstofubúnaði og búðarkössum. Upp úr 1980 sneri fyrirtækið sér að tölvumálum og hefur síðan verið leiðandi á því sviði. Fyrirtækið byrjaði í Veltusundi en flutti sig eftir nokkra mánuði í Bröttugötu 3B þar sem það var til 1963. Eftir það var það á Hverfisgötu 89 til 1984 en síðan hafa höfuðstöðvar þess verið á Grensásvegi 10.

E. Þorkelsson og Gíslason. Heildverslun á sviði raftækja og véla. Var komin 1946 og var enn við lýði 1978. Alla tíð í Hafnarhvoli.

Ebenezarbær. Steinbær við Lindargötu 10, reistur 1889 af Ebenezar Helgasyni. Árið 1913 var reist timburhús á lóðinni í stað bæjarins.

Edda. Heildverslun, einkum á sviði vefnaðarvara, stofnuð 1931 af Karli Þorsteins og Bjarna Guðjónssyni. Var til húsa á Laugavegi 3 til 1948, síðan í Grófinni 1, þá í Sundaborg, árið 2005 í Faxafeni 14 (athuga nánar).

Edda – miðlun og útgáfa. Sjá Edda útgáfa.

Edda útgáfa. Stórfyrirtæki í bókaútgáfu, bóksölu og margs konar miðlun, stofnað árið 2000 með sameiningu bókaforlaganna Máls og menningar og Vöku-Helgafells. Hét upphaflega Edda – miðlun og útgáfa en nafninu var breytt 2003. Undir hatti fyrirtækisins voru einnig Almenna bókafélagið, Forlagið og Iceland Review og fleiri fyrirtæki. Seinna bættist einnig við Bókaútgáfan Iðunn, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Nýja bókafélagið og fleiri fyrirtæki. Rak fjölda bókaverslana og gaf út tímarit og hljómplötur auk bóka. Fyrst í stað var Ólafur Ragnarsson stjórnarformaður en Halldór Guðmundsson var lengst af útgáfustjóri. Árið 2002 eignðist Björgólfur Guðmundsson meirihluta hlutabréfa og varð þá Páll Bragi Kristjónsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Bókabúðirnar voru þá seldar til Pennans-Eymundsson og flest tímaritin til útgáfufélagsins Heims. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru á Suðurlandsbraut 12. Árið 2007 var útgáfuhluti fyrirtækisins og þar með forlögin Vaka-Helgafell, Mál og menning og Iðinn seld til sjálfseignarstofnunarinnar Máls og menningar – Heimskringlu en eftir í Eddu urðu bókaklúbbar og Almenna bókafélagið. Edda er enn rekin og er eigandi hennar Jón Axel Ólafsson.

Edda. Prentsmiðjan. Stofnuð 1936 fyrir forgöngu Framsóknarmanna og var Prentsmiðjan Acta keypt í því skyni og nafni hennar breytt. Fyrsti prentsmiðjustjórinn var Sigurður Jónasson. Var til húsa við Lindargötu 9A (síðar Skuggasundi). Sameinaðist Prentstofu Guðmundar J. Benediktssonar árið 1994 undir nafninu G.Ben – Edda prentstofa.

Eddubær. Hús á bökkunum sunnan við Elliðaár ofan við Árbæjarstíflu á móts við Blásteinshólma, byggt af Elínu Pétursdóttur Blöndal sem bjó þar á árunum 1942-1969 og var með kýr og hænsni. Húsið var síðar rifið en eftir stendur trjálundur.

Edinborg. Verslun og útgerð, stofnuð 1895 af Ásgeiri Sigurðssyni og skoska fyrirtækinu Copland & Berrie í Leith. Meðeigandi frá 1926 var Sigurður B. Sigurðsson. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru í Hafnarstræti 10-12 en það færði brátt út kvíarnar og var með útibú víða um land. Var eitt stærsta fyrirtæki landsins í verslun og útgerð. Rak heildverslun eftir 1919 en síðari áratugina fólst starfsemi þess einkum í að reka glervöru- og vefnaðarvörubúð í Reykjavík. Árið 1964 hafði verslunin selt sitt gamla stórhýsi í Hafnarstræti og byggði nýtt verslunarhús á Laugavegi 91 en verslunin leið undir lok um 1970.

Effersey. Sjá Örfirisey.

Efnablandan. Sjá Amor.

Efnagerð Laugarness. Stofnsett 1951 af Sigurði Þ. Tómassyni, einkum til að framleiða og flytja inn vörur til baksturs og matargerðar. Var lengst af í húsnæði Rúgbrauðsgerðarinnar í Borgartúni 6. Árið 1999 var fyrirtækið sameinað Kötlu.

Efnagerð Reykjavíkur. Stofnsett 1922 af Stefáni Thorarensen og fleirum. Var upphaflega á Laugavegi 18 en frá 1924 til 1971 á Laugavegi 16. Starfrækt fram til um 1975.

Efnalaug Norðurvers. Stofnsett 1971 af Jónatan Kristleifssyni í Hátúni 4a sem síðar varð Nóatún 17. Starfrækt um stuttan tíma.

Efnalaug Reykjavíkur. Stofnsett 1921 af Tómasi Jónssyni, Sigurjóni Jónssyni og Guðsteini Eyjólfssyni. Var frá upphafi til húsa á Laugavegi 32B og rekin þar til 1996.

Efnalaug Vesturbæjar. Stofnsett 1945 af Ólafi Guðmundssyni og var til húsa á Vesturgötu 53 uns hún var lögð niður um 1975.

Efnissala G. E. Jóhannssonar. Stofnsett 1978 af Guðjóni Jóhannssyni. Innflutningsfyrirtæki á sviði miðstöðva og neysluvatnslagna. Til húsa í Klettagörðum 6.

Efra Breiðholt. Efri hluti Breiðholtshverfis fyrir norðan Breiðholtsbraut. Þar enda götuheiti á Fell, Berg og Hólar.

Efra Holt.  Sjá Holt.

Efridalur. Hús i Neðra-Dalslandi við Suðurlandsbraut.

Efri Brekka. Einlyft timburhús á Drafnarstíg 2, byggt árið 1906 af Magnúsi Þorfinnssyn og Sigríði Hermannsdóttur.

Efri Grund. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Efri Kista. Sjá Stararhyljir.

Efri Klöpp. Sjá Litla Klöpp.

Efri Tóttir. Steinbær sem Bjarni Dagsson reisti árið 1879 á Klapparstíg 14. Stóð fram yfir 1950.

Efri Vegamót. Sjá Vegamót.

Efri Þrep. Veiðistaðir í norðurkvísl Elliðaáa, skammt fyrir neðan Höfðabakkabrú. Áin rennur þar í stöllum og myndar marga litla pytti eða hylji.

Efrihlíð, hús á horni Óðinsgötu og Þórsgötu.

Efrihlíð. Hús á erfðafestulandi á Norðurmýrarbletti 35, síðar við Hamrahlíð.

Efsta Hlíð. Hús við Sundlaugaveg.

Efstibær. Torfbær sem Hinrik Árnason reisti að Spítalastíg 5 árið 1835. Einnig kallaður Hinriksbær. Rifinn um 1884. Á lóðinni reis timburhús, einnig kallað Efstibær, árið 1883. Það var flutt í Árbæjarsafn 1967. Einnig kallaður Eiríkshús eftir Eiríki Magnússyni sem byggði það.

Eftirlaunasjóður Reykjavíkurborgar. Sjá Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Eggert feldskeri. Feldskurðarstofa og verslun, stofnað af Eggert Jóhannssyni 1977. Var fyrstu árin í Hafnarstræti 17 og síðan Laugavegi 66 en frá 1986 hefur fyrirtækið verið til húsa að Skólavörðustíg 38.

Eggert Kristjánsson. Umboðs- og heildverslun. Stofnsett 1922 sem sælgætis-og tóbaksverslun sem var til húsa í Aðalstræti 9. Frá 1923 varð fyrirtækið heildverslun, einkum á sviði matvöru og búsáhalda, með aðsetri í Hafnarstræti 15, en síðar í Hafnarstræti 5 til 1970, þá í Sundagörðum 4 og loks frá .. í Skútuvogi 3.

Eggjar ytri. Urðarsvæði sem liggur frá götunum Bitruhálsi að Tunguhálsi.

Eggjavegur. Gata í Smálöndum, líklega kennd við örnefnið Eggjar. Götunafnið var komið 1947 en mun hafa verið aflagt um eða eftir 1991.

Egill Árnason. Upphaflega umboðs- og heildverslun, stofnsett 1934, en síðar einnig smásöluverslun. Hefur sérhæft sig í gólfefnum, klæðningum og öðrum byggingavörum. Fyrirtækið var fyrstu árin rekið í heimahúsum en flutti í Hafnarhúsið við Tryggvagötu upp úr 1940. Árið 1951 fór það svo á Klapparstíg 26, þaðan árið 1962 í Slipphúsið við Mýrargötu 2, þá í Skeifuna 3 árið 1973. Á árunum 1988-2011 var fyrirtækið í Ármúla 8 og einnig í Ármúla 10 frá 1990 en fluttist 2011 að Suðurlandsbraut 20.

Egill Jacobsen. Vefnaðarvöru-  og fataverslun, stofnuð 1906. Var fyrst í Pósthússtræti 4 til 1914 og aftur frá 1915-1921. Í Austurstræti 9 frá 1914-1915 og aftur 1921 þar til hún hætti 1997.

Egill Vilhjálmsson. Bílayfirbyggingarverkstæði, bílamálning, bílaviðgerðarverkstæði og varahlutaverslun, stofnsett 1929 af Agli Vilhjálmssyni. Slagorð fyrirtækisins var Allt á sama stað. Var upphaflega á Grettisgötu 16-18 en flutti að Laugaveg 118 árið 1933 og var þar til 1981 en flutti þá í Kópavog.

Egilshöll. Stærsta íþrótta- og afþreyingarmannvirki á Íslandi, staðsett í Grafarvogshverfi. Í höllini er knattspyrnuvöllur, skautahöll, skotæfingasvæði, skólaíþróttasalur og kvikmyndahús, auk þess eru þar höfuðstöðvar nokkurra íþróttafélaga, svo sem Fjölnis, Skotveiðifélags Reykjavíkur og Ísknattleiksfélagsins Björnsins.

Egilskjör. Matvælaverslun með kjörbúðarsniði sem starfrækt var á árunum 1957 til 1964 að Laugaveg 116. Eigandi verslunarinnar var Egill Vilhjálmsson.

Egilsson. Upphaflega Heildverslun Sigurðar H. Egilssonar sem stofnuð var 1978. Frá 1992 til 2007 í Skútuvogi 1D en eftir það á Köllunarklettsvegi 10.

Egilsstaðir. Lítið hús við Sundlaugaveg í norðurjaðri Álfheimalóðar, reist um 1917. Einnig kallað Álfheimahjáleiga.

Egó. Rokkhljómsveit sem starfaði á árunum 1981-84. Stofnendur voru Bergþór Morthens gítarleikari, Bubbi Morthens söngvari, Jóhann „Motorhead“ trommuleikari og Þorleifur Guðjónsson bassaleikari.

Eiði. Býli sem stóð nálægt þar sem nú er Öldugrandi og Skeljagrandi. Eiði var orðin sjálfstæð jörð 1379 en árið 1903 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina og hún var felld undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur 1923. Í samningum gekk hluti jarðarinnar til Seltjarnarneshrepps árið 1978. Oftast kallað Eiði á Seltjarnarnesi til aðgreiningar frá Eiði við Geldinganes.

Eiði. Smábýli við Geldinganes. Nafnið er dregið af rifinu sem tengir nesið við land. Jarðarinnar er getið á 14. öld en árið 1924 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina. Sjálfstæðisflokkurinn hélt árlegar útiskemmtanir á Eiði á kreppuárunum.

Eiðishólar. Hólar vestast í Austureynni í Viðey.

Eiðsdældir. Örnefni sem á við svæði á mörkum Reykjavíkur og Seltjarnarnes austan og sunnan við býlið Eiði.

Eiðsgrandi. Sjávarkamburinn austur af bænum Eiði á Seltjarnarnesi. Hann skildi á milli sjávar og Eiðstjarnar. Nú liggur samnefnd gata á þessum slóðum og nær frá Hringbraut að mörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness. Sumir hafa nefnt þessa braut Sólarlagsbraut.

Eiðsgrandi. Sjávarkamburinn sem tengir Geldinganes við land.

Eiðssker. Tvö sker sem liggja beint fram undan þar sem býlið Eiði á Seltjarnarnesi stóð. Nær landi er Litla Eiðssker en fjær Stóra Eiðssker.

Eiðsstaðir. Steinbær við Bræðraborgarstíg 23, reistur árið 1902 af Guðjóni Björnssyni. Tveimur árum síðar varf reist samnefnt timburhús á lóðinni sem enn stendur.

Eiðstjörn. Sjávartjörn  austan við Eiði. Þegar Öskuhaugarnir komu á þessar slóðir var hún smám saman fyllt og hvarf.

Eiðsvík. Víkin milli Geldinganess og Gufuness. Þar var á fyrri hluta 20. aldar þekkt skipalægi.

Eiðsvör. Vör fram undan bænum Eiði á Seltjarnarnesi, nú horfin undir uppfyllingar.

Eignasjóður Reykjavíkur. Stofnsettur 2008 og tók hann við hlutverki Skipulagssjóðs Reykjavíkur. Tilgangur sjóðsins er að sjá um kaup og sölu á húseignum og landi borgarinnar.

Eik. Popphljómsveit sem starfaði á árunum 1972-77 og spilaði mikið í Tjarnarbúð fyrstu árin en varð ein vinsælasta hljómsveit landsins síðasta árið sem hún starfaði. Stofnendur voru Gestur Guðnason, Haraldur Þorsteinsson, Lárus Grímsson, Ólafur Sigurðsson og Þorsteinn Magnússon.

Eilífskrókur. Þrætuland á landamerkjum jarðarinnar Arnarhóls og Stöðlakots. Mun hafa verið milli Þingholtsstrætis og Ingólfsstrætis rétt út við Bankastrætið.

Eimir. Þvottahús, stofnsett 1945 af Hans Th. Henry Hansen, Ingimundi Sigurðssyni og Viggó Eggertssyni. Var á Nönnugötu 8 til 1948 en flutti þá í Bröttugötu 3A. Þar var það rekið til 1966 en 1964 var opnað nýtt þvottahús í Síðumúla 4 sem árið 1970 flutti í Síðumúla 12. Þar var það rekið til 1979.

Eimur. Sjá Kolsýruhleðslan. Einnig nefndur Eyleifskrókur.

Eimur. Sjá Vélstjórafélag Íslands.

Eimir. Þvottahúsið. Stofnsett 1945 af þeim Hans Th. Henry Hansen, Ingimar Sigurðssyni og Viggó Eggertssyni. Var til 1948 á Nönnugötu 8 en flutti þá í Bröttugötu 3A þar sem það var til húsa til um 1966. Árið 1964 fluttu höfuðstöðvar þvottahússins í Síðurmúla 4 og þaðan í Síðumúla 12 árið 1970 þar sem það var rekið til um 1980.

Eimskipafélag Reykjavíkur. Stofnsett 1932 til að annast flutning á saltfiski til Miðjarðarhafslanda. Fyrsti stjórnarformaður félagsins var Richard Thors en Harald Faaberg skipamiðlari annaðist rekstur félagsins. Rann inn í Eimskipafélag Íslands 1966 en var rekið undir eigin nafni til um 1980.

Eimskipafélag Íslands. Stofnsett 1914.

Eimskipafélagshúsið.  Stórhýsi sem Eimskipafélag Íslands byggði í Pósthússtræti 2 á árunum 1920-1921. Arkitekt þess var Guðjón Samúelsson. Viðbygging í stíl hússins eftir teikningu Halldórs H. Jónssonar var reist 1979. Í húsinu voru höfuðstöðvar Eimskipafélagsins allt til ársins 2003. Árið 2005 var opnað í húsinu Radisson SAS 1919 hótel.

Einar O. Malmberg. Véla- og verkfæraverslun. Var á Vesturgötu 2 frá 1926 til um 1937. Opnaði aftur á Laufásvegi 41 um 1940 en var síðan á Hverfisgötu 42 frá 1942 til um 1950.

Einar J. Skúlason (EJS). Upphaflega skrifvélaverkstæði, stofnað árið 1939, en síðan einnig innflutningur og sala á skrifstofuvélum og loks um og upp úr 1980 varð Einar J. Skúlason eitt öflugasta hugbúnaðar- og tölvufyrirtæki landsins. Fyrirtækið hóf rekstur sinn í Veltusundi, fluttist síðan á fyrsta ári að Bröttugötu 3B, þaðan á Hverfisgötu 89 árið 1963 og loks á Grensásveg 10 árið 1986. Árið 2012 sameinaðist Einar J. Skúlason átta öðrum fyrirtækjum, m.a. Skýrr, Hugurax og norrænum dótturfyrirtækjum undir nafninu Advania.

Einar & Tryggvi. Flutningafyrirtæki með áherslu á flutningaþjónustu og tækjaleigu á þungaflutningstækjum til íslensku kaupskipaútgerðanna. Stofnsett af Einari Gíslasyni og Tryggva Aðalsteinssyni. Var upphaflega með aðsetur í Garðabæ en fékk lóðina Klettagarðar 11 árið 1989 og Klettagarðar 13 árið 1994.

Einar þveræingur. Ungmennafélag. Stofnað 1908 til að stuðla að stjórnfrelsi. Forseti var Þórður Sveinsson.

Einarsborgarahús. Lítið timburhús sem Einar Jónsson borgari, tengdafaðir Jóns Sigurðssonar forseta, reisti við Aðalstræti 5 um 1820. Þar var síðan verslun og veitingastaður (Sjá Svínastíuna). Rifið 1901.

Einarsbrunnur. Brunnur á mótum Skólastrætis og Amtmannsstígs sem enn má sjá móta fyrir. Brunnurinn var grafinn og hlaðinn upp árið 1882 af Einari Jónssyni snikkara sem bjó í Skólastræti 5 um miðbik 19. aldar.

Einarsgarður. Sjá Gróðrarstöðin.

Einarshöfn. Hús við Holtsgötu

Einarsnes. Gata í Skerjafirði, hét Þvervegur fram til ársins 1968. Kennd við Einar Benediktsson skáld.

Einarsson & Pálsson. Verkfræði- og innflutningsfyrirtæki á sviði hita-, loftræsti-, kæli- og fjarskiptatækni, stofnað 1954 af Pétri Pálssyni og fleirum. Það var til að byrja með á Laufásvegi 2, síðan á ýmsum stöðum, svo sem Skólavörðustíg 3A, Grensásvegi 12 og Laugavegi 168. Starfaði til 1985.

Einarsstaðir. Býli á Grímsstaðaholti sem Einar Zoëga hótelhaldari reisti á síðari hluta 19. aldar. Stóð við Sandvíkurveg og var þar sem nú eru gatnamót Fornhaga og Hjarðarhaga.

Einholt.  Steinbær sem Oddur Tómasson reisti árið 1893. Var á Melunum þar sem nú er Hringbraut 89.

Einleikhúsið. Framsækið tilraunaleikhús sem Sigrún Sól Ólafsdóttir stofnaði árið 1996 og hefur það starfað síðan.

Eir. Hjúkrunarheimili sem opnað var 1993 af Reykjavíkurborg og ýmsum félagasamtökum að Hlíðarhúsum 7 í Grafarvogi. Arkitekt heimilisins er Halldór Guðmundsson en fyrsti framkvæmdastjóri þess var Sigurður Helgi Guðmundsson. Auk heimilsins sjálfs eru rekin um 200 öryggisíbúðir á vegum þess í Eirarhúsum og og Eirborgum í Grafarvogi og Eirhömrum í Mosfellssveit.

Eirarhús. Fjölbýlishús við Hlíðarhús í Grafarvogi með öryggisíbúðum, reknum í tengslum við Hjúkrunarheimilið Eir. Teknar í notkun árið 2000.

Eirborgir. Fjölbýlishús við Fróðengi 1-11 í Grafarvogi. Í þeim eru öryggisíbúðir í tengslum við Hjúkrunarheimilið Eir. Teknar í notkun 2010.

Eiríksbær. Sjá Selkot.

Eiríkshús. Sjá Efstibær.

Eiríkur Hjartarson. Raftækjaverslun á Laugavegi 20B árið 1942.

Eirnýjarbær. Torfbær sem reistur var snemma á 19. öld í Þingholtsstræti 5, kenndur við Eirnýju Erlendsdóttur sem þar bjó. Bærinn var líka stundum kenndur við mann hennar, Magnús Arason, og kallaður Magnúsarbær. Rifinn um 1880. Sjá Þingholtabæirnir.

Ekkjukassinn. Tvílyft timburhús að Skólavörðustíg 5, reist 1881 af Sigurði Jónssyni.

Ekknasjóður Reykjavíkur. Stofnaður 1890 með þeim tilgangi að styrkja ekkjur og eftirlátin hjónabandsbörn sjóðsstyrkjenda.

Elangro Trading Company. Umboðs- og heildverslun, einkum á sviði rafmagnsvara. Stofnuð af Jóhanni Júlíussyni 1946 og starfaði fram til um 1980. Var til húsa í Austurstræti 12.

Eldborgargil. Gil norðarlega á skíðasvæðinu í Bláfjöllum.

Eldhúshylur. Neðsti veiðistaðurinn í Elliðaám þar sem þær runnu áður til sjávar. Einnig nefndur Eldhúsið eða Olnbogahylur. Englendingarnar sem áttu árnar fyrir 1906 nefndu staðinn Kitchen Pool.

Elding. Hvalaskoðunarfyrirtæki, stofnað af Grétari Sveinssyni og fjölskyldu árið 2000. Hefur frá 2002 verið rekið frá Ægisgarði í Reykjavík. Árið 2007 sameinaðist það hvalaskoðunarfyrirtækinu Hvalstöðinni (Hafsúlunni) sem Guðmundur Gestsson og fleiri höfðu rekið við Ægisgarð, sömuleiðs frá 2002 og var nýja fyrirtækið kallað Hvalaskoðun Reykjavík. Elding rekur fræðslumiðstöð sem nefnist Hvalasetrið og stendur fyrir hvalaskoðunarferðum, sjóstangveiðiferðum, lundaskoðun, Viðeyjarferðum og ýmsum sérferðum.

Elding. Vélhjólaklúbbur. Stofnaður 1960 af um 40 skellinöðrueigendum. Fyrsti formaður klúbbsins var Símon Kjærnested. Kom saman í Golfskálanum við Öskjuhlíð en síðar í Tónabæ og á Fríkirkjuvegi 11. Starfaði til um 1974.

Elding Trading Company. Verslunarfyrirtæki sem var um áratugaskeið umsvifamikið í innflutningi á margs konar varningi en á ´siðari árum hefur það sérhæft sig í snyrtivörum. Stofnað 1939 af Halldóri Kjartanssyni og Hannesi Kjartanssyni. Hafði um hríð bæði skrifstofur í Reykjavík og New York.  Hafði lengst af eða frá 1943 fram undir 2000 aðsetur í Hafnarhvoli en á síðari árum er það til húsa á Grenimel 45.

Eldridansaklúbburinn.

Eldsmiðjan. Einn þekktasti pizzustaðurinn frá því að pizzur urðu fyrst vinsælar á Íslandi. Stofnsettur 1986 af Elíasi Hauki Snorrasyni og Lilju B. Karlsdóttur. Hefur frá upphafi verið á Bragagötu 38a en frá 2008 hafa bæst við staðir á Suðurlandsbraut 12 og Laugaveg 81.

Elfur. Kven- og barnafataverslun, stofnsett 1964 af Sigurði E. Haraldssyni. Var rekin á Laugavegi 38 til 1998. Einnig voru útibú frá versluninni að Snorrabraut 38 og Skólavörðustíg 13 fyrir 1970 og um tíma í Þingholtsstræti 3 á áttunda áratug 20. aldar.

Elgur. Verksmiðja í fataiðnaði, stofnuð 1944 af Sveini Björnssyni og fleirum. Var til húsa á Bræðraborgarstíg 34 til um 1965, eftir það á Grensásvegi 12 til 1977, þá í Síðumúla 33. Um langa hríð eina verksmiðjan sem framleiddi karlmannafrakka. Eftir 1981 breyttist verksmiðjan í prjónastofu og var um tíma á Laugavegi 11.

Elísabetarhús. Sjá Menntaskólann í Reykjavík.

Elísarbúð. Sjá Verslun Elísar Jónssonar.

Ellefu. Sjá Laugavegur 11.

Elliðaár. Afrennsli Elliðavatns, renna um Elliðaárdal og til sjávar í Elliðaárvogi. Í Landnámu segir að árnar séu kenndar við skip landnámsmannsins Ketilbjörns gamla, Elliða, sem lagt var í ósa ánna. Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti árnar 1906 vegna fyrirhugaðrar vatnsveitu. Þær voru svo virkjaðar árið 1921 en hafa verið notaðar til laxveiða öldum saman.

Elliðaárbrýr. Fyrstu brýrnar yfir Elliðaár voru tvær trébrýr, gerðar árið 1883. Árin 1919-1920 komu steinsteyptar brýr, einbreiðar, í þeirra stað og standa þær enn. Nýjar brýr, tvíbreiðar, voru gerðar yfir árnar 1941. Fjórðu Elliðaárbrýrnar voru gerðar á árunum 1969-1971 og voru á þeim tvær akreinar í hvora átt. Árið 1996 var bætt við nýrri brú og eru nú fjórar akreinar í hvora átt.

Elliðaárdalur. Dalurinn sem Elliðaár renna um frá Elliðavatni og í Elliðaárvog. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1983 var dalurinn skilgreindur sem útivistarsvæði. Á vegum Rafmagnsveitu Reykjavíkur hófst gróðursetning á trjám í Árhólmum árið 1951 og var síðan gróðursett árlega. Þarna er nú eitt fjölsóttasta útivistarsvæði Reykvíkinga með skóglendi, stígum og fræðsluskiltum og margháttuðum sögulegum minjum.

Elliðaárhólmar. Sjá Árhólmar.

Elliðaárhverfi. Sjá Elliðaárkampur.

Elliðaárkampur. Braggahverfi norðan við Ártúnsbrekku. Einnig nefnt Camp Fenton Street. Eftir stríð voru þar sex braggar með allt að 38 íbúum þegar flest var. Síðast var búið í Elliðaárkampi 1965. Einnig nefnt Elliðaárhverfi.

Elliðaárstöð. Stöðvarhús Elliðaárvirkjunar við Ártún frá 1921, teiknað af Guðmundi Hlíðdal

Elliðaárvirkjun

Elliðaárvogur.  Vogurinn milli Gufuness og Klepps. Í hann renna Elliðaár.

Elliðabrekka. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Elliðanaust. Aðstaða Snarfara, félags sportbátaeigenda, sem félagið kom sér upp við Elliðavog 1976 en fullkomin smábátahöfn var gerð á öðrum stað í voginum árið 1984 og ber hún einnig þetta nafn.

Elliðavatn. Stöðuvatn skammt suðaustan við Vatnsendahæð og byggðina í Breiðholti.  Áður en yfirborð vatnsins hækkaði vegna vatnsmiðlunar og stíflugerðar á árunum 1924-1929 var það tvískipt þar sem Þingnes klauf það nánast í tvennt. Var vestari hlutinn kallaður Vatnsendavatn en sá eystri Elliðavatn. Nú er síðara nafnið yfirleitt notaður um allt vatnið.

Elliðavatn. Býlið Elliðavatn stendur á tanga sem gengur út í vatnið austan megin. Jarðarinnar er getið í Kjalnesingasögu en fyrr á öldum var jörðin og býlið oftast kölluð Vatn. Eftir miðja 18. öld var þar fjárræktarbú á vegum Innréttinganna í Reykjavík og sátu jörðina ýmsir stórbændur. Steinhlaðið hús sem Benedikt Sveinsson alþingismaður og assessor reisti 1861 stendur þar enn. Rafmagnsveita Reykjavíkur eignaðist jörðina á árunum 1923-1928 en frá 1963 hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur haft umsjón með bæjarhúsunum og eru þar miðstöð félagsins og skrifstofur.

Elliðavatnsengi.  Frjósamt engjasvæði norður af Elliðavatni sem nú er að mestu leyti í kafi vegna hækkunar vatnsborðs í vatninu vegna virkjanaframkvæmda á árunum 1924-1929.

Elliðavatnsheiði. Heiðarsvæði í landi Hólms milli Elliðavatns og Hólmshrauns.

Elliðavatnsstífla.  Stífla með flóðgáttum sem gerð var í ánum Dimmu og Bugðu á árunum 1924-1928 sem varð til þess að vatnsborð Elliðavatns hækkaði verulega og nær nú vatnið að stíflunni. Á árunum 1977-1978 var ný stífla gerð á þessum stað.

Elliðavatnsvegur.  Gamli Elliðavatnsvegurinn lá frá Rauðavatni við austurjaðar Seláshverfis að Vatnsendavegi. Nú er þetta nafn notað á veg sem liggur í Kópavogi og Garðabæ en Breiðholtsbraut er komin í stað gamla Elliðavatnsvegarins.

Elliðavogshraun.  Hraunið sem þekur dalbotn Elliðaá. Talið um 5200 ára og á upptök sín í Leitum sem er gígur austan Bláfjalla.

Elliðavogslögin. Setlög sem finnast víða á höfuðborgarsvæðinu og koma vel fram í svokölluðum Háubökkum við Elliðaárvog.

Elliðavogur

Ellistyrktarsjóður Reykjavíkur. Stofnaður með sérstökum skatti 1910 til að styrkja fátækt fólk sem náð hafði 60 ára aldri. Eftir að lög um almannatryggingar voru samþykkt 1936 rann sjóðurinn til Lífeyrissjóðs Íslands.

Ellingsen. Verslun sem stofnuð var 1916 af Othar Ellingsen, hún sérhæfði sig upphaflega í vörum til skipaútgerðar og málningarvörum en síðar var áhersla lögð á vörur tengdar ferðalögum, útivist og veiðum. Var upphaflega til húsa í Austurstræti 17 (Kolasundi), síðan í Hafnarstræti 15 á árunum 1917-1976, þá á Grandagarði 2 til 2006 þegar verslunin flutti í nýtt hús að Fiskislóð 1.

Ellingsensplanið. Sjá Steinplanið.

Elko. Raftækjaverslun sem opnuð var í Kópavogi 1998. Frá 2005 hefur hún einnig verið í Skeifunni 7 í Reykjavík. Heyrir undir fyrirtækið Norvik.

Elm Design. Fyrirtæki á sviði hönnunnar og fataframleiðslu, stofnað 1999 af þeim Ernu Steinu Guðmundsdóttur, Lísbet Sveinsdóttur og Matthildi Halldórsdóttur. Rekur verslun á Laugavegi 1 auk þesss að selja framleiðslu sína í verslunum víðs vegar um heiminn.

Elsumýri. Áður nyrsti hluti Norðurmýrar, svæðið sem nú er austan neðsta hluta Barónsstígs og að Rauðarárstíg. Kennd við Elsu Ottesen sem var mótökukona á þessu svæði á síðari hluta 19. aldar.

Embættismannanefndin í Reykjavík. Kom saman 1839 og aftur 1841 til að ræða og gera tillögur um málefni Íslands.

Endar. Austasti hluti Smáíbúðarhverfis austan Sogavegar. Þar enda götur á –endi og eru nafngiftirnar frá 1954. Þær er Ásendi, Básendi, Byggðarendi og Garðsendi.

Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Stofnsett 1983. Gengst fyrir símenntun fyrir háskólafólk og almenning. Fyrsti forstöðumaður hennar var Msrgrét S. Björnsdóttir. Árið 1998 var tekið í notkun nýtt húsnæði fyrir stofnunina að Dunhaga 7.

Endurskoðunarskrifstofa Björns E. Árnasonar. Stofnsett 1930 og var í Hafnarstræti 5 áratugum saman, síðan í Tjarnargötu 16 en loks að Sætúni 8 frá 1982. Rekin fram undir 2000. (athuga H5 1957, flutti í T 16 1965)

Endurskoðunarskrifstofa Gunnars R. Magnússonar. Sjá GRM Endurskoðun.

Endurskoðunarskrifstofa N. Mancher. Stofnsett í Reykjavík 1922 af Dananum Niels Mancher. Frá 1976 hét stofan Endurskoðunarmiðstöðin hf . N. Mancher og var þá komin í samstarf við Coopers & Lybrand. Þessar stofur sameinuðust svo undir nafninu PricewaterhouseCooper árið 1998. Skrifstofan var lengi til húsa í Borgartúni 21 en frá 1983 í Höfðabakka 9.

Endurvinnslan. Hlutafélag, stofnað 1989 af opinberum aðilum og fyrirtækjum og einkafyrirtækjum til að taka við einnota drykkjarvöruumbúðum og greiða út skilagjald. Höfuðstöðvar fyrirtækisins hafa lengst af verið í Knarrarvogi 4 en móttökustöðvar eru um allt land. Fyrsti framkvæmdastjóri þess var Gunnar Bragason.

Engey. Næststærsta eyjan á Kollafirði, blasir við fyrir utan vesturhluta Reykjavíkur. Engey var sjálfstæð jörð og mun snemma hafa verið stunduð þaðan sjósókn. Þar var tvíbýlt á 19. öld og voru bæirnir kallaðir Austurbær og Vesturbær. Töluverðar herminjar eru í eynni frá stríðsárunum. Síðast var búið í Engey 1950. Engey var sett undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur árið 1978.

Engeyjarboði. Langt sker sem liggur út frá suðurodda eyjarinnar.

Engeyjarkirkja. Kirkja var vígð í Engey 1379 en hún var lögð niður 1765.

Engeyjarkot. Hjáleiga austarlega í túninu í Engey. Einnig nefnd Kotið.

Engeyjarlag. Bátasmiðir í Engey höfðu forgöngu um nýtt og endurbætt lag á opnum bátum sem einkum voru gerðir út til fiskveiða á 19. öld. Þetta nýja lag sem ruddi sér til rúms milli 1860 og 1870 var kallað Engeyjarlag.

Engeyjarrif. Rif sem gengur suðaustur úr Engey.

Engeyjarsund. Sundið milli Engeyjar og Örfiriseyjar.

Engeyjartagl. Sjá Grandi.

Engeyjarvarir. Austurvör og Vesturvör voru heimavarnirnar í Engey. Nokkru austar var Miðvör (Tjarnarvör).

Engeyjarætt. Ætt sem talin var frá Erlendi Þórðarsyni og Guðrúnu Guðmundsdóttur í Engey en þau voru uppi á síðari hluta 17. aldar.  Oft er líka talað um Engeyjarætt yngri sem taln er frá Kristni Guðmundssyni og Guðrúnu Pétursdóttur á 19. öld. Frá þeim er komið margt þekktra stjórnmálamanna og athafnamanna.

Engeyjarviti.  Reistur árið 1902 og endurbyggður 1937.

Engi. Nýbýli úr landi Grafarholts austan Vesturlandsvegar.

Engihlíð. Timburhús við Fálkagötu 13B, byggt 1921 en rifið fyrir 1978.

Engjaborg. Leikskóli að Reyrengi 12. Tók til starfa 1994.

Engjabær. Smábýli á erfðafestulandi vestur af gatnamótum Engjavegar og Holtavegar (Þvottalaugarblettur 11), reist árið 1920.

Engjahverfi. Hverfi í Grafarvogi.

Engjaskóli. Grunnskóli að Vallengi 14 í Grafarvogi, tók til starfa 1995 og var Hildur Hafstað fyrsti skólastjóri hans. Skólahúsið er teiknað af teiknistofunni Úti og inni. Árið 2011 var Engjaskóli sameinaður Borgaskóla undir nafninu Vættaskóli.

Engjavegur. Milli Múlavegar og Holtavegar um Þvottalaugamýri, fékk nafn 1928.

Englaborg. Íbúðarhús með stórri listamannsvinnustofu sem hjónin Jón og Tove Engilberts reistu á Flókagötu 17 á árunum 1942-43. Arkitekt hússins var Gunnlaugur Halldórsson.

Englahár. Hárgreiðslustofa, stofnsett 1994, staðsett í Langarima 21-23 frá 1996 (athuga betur)

Ennemm. Auglýsingastofa. Stofnsett 2002 með sameiningu auglýsingastofanna Nonna og manna og Yddu. Hét Nonni og manni/Ydda fyrstu tvö árin.  Helstu stofnendur voru Hallur A. Baldursson og Jón Sæmundsson. Hefur verið í Brautarholti 10 frá upphafi.

Enska húsið. Timburhús í Tjarnargötu 5, reist af John Parker konsúl árið 1813. Einnig nefnt Konsúlshús. Seinna var það nefnt Petersenshús eftir Jóhanni Péturssyni sem þar bjó. Húsið var rifið 1866.

Enska verslunin. Stofnuð 1892. Forstöðumaður hennar var W. G. Spence Paterson. Var fyrst í Hafnarstræti 8 en síðustu árin í Austurstræti 16. Hætti 1898

Epal. Húsgagnaverslun, stofnsett 1977 af Eyjólfi Pálssyni innanhúsarkitekt. Var upphaflega til húsa að Hrísateigi 47 en hefur nú lengi verið í Skeifunni 6.

Erfðafestulönd

Erla. Hannyrðaverslun, stofnsett af Guðrúnu Skúladóttur árið 1970. Var fyrsta árið til húsa á Njálsgötu 23 en síðan á Snorrabraut 44 til 2005. Eftir það var verslunin á Snorrabraut 38 en rekstrinum var hætt 2016.

Erna, gull- og silfursmiðja. Sjá Guðlaugur A. Magnússon.

Ernst & Young. Endsurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki, hluti af alþjóðlegri samsteypu. Hóf störf í Reykjavík 2002 og voru íslensku stofnendurnir ellefu.

Eros. Kven- og barnafataverslun, stofnsett 1953 af Ragnari Björnssyni og fleirum. Var til húsa í Hafnarstræti 4 og rekin til 1991.

Esja. Kexverksmiðja, stofnuð 1935 af nokkrum mönnum en árið 1939 komst hún í meirihlutaeigu Eggert Kristjánssonar stórkaupmanns. Var alla tíð í Þverholti 13 en rann inn í Kexverksmiðjuna Frón um 1975.

Esja. Kvenfélag á Kjalarnesi, stofnað 1958 og hefur starfað með hléum síðan. Fyrsti formaður þess var Sigríður Gísladóttir. Löngu áður var starfandi í hreppnum Kvenfélag Kjalarneshrepps frá 1909 en nafn þess breyttist í Kvenfélag Lágafellssóknar árið 1912 enda náði sú sókn inn í Kjalarnes.

Esja. Svínabú og kjötvinnsla að Brautarholti á Kjalarnesi og víðar, stofnsett 1999 en á sér forsögu til ársins 1982 þegar Jón Ólafsson í Brautarholti stofnaði þar svínabú.

Esja. Verslun sem um tíma var rekin á Fitjakotshálsi á Kjalarnesi.

Esjan. Stórt fjall norðan Kollafjarðar sem blasir við Reykjavík í norðri. Fjallið komst undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur þegar Kjalarneshreppur sameinaðist borginni árið 1998.

Esjuberg.  Landnámsjörð á Kjalarnesi, sem stendur á skriðuvæng undir rótum Esju. Þar er talið að fyrsta kirkja landsins hafi verið reist. Á Esjubergi var bréfhirðing og símstöð á 20. öld.

Esjubergsflói. Grösugur flói austan og norðan við Þríhnjúka undir Svínaskarði í Esju, skilur að Haukafjöll og Stardalshnjúka.

Esjubergssel. Seljatættur í Esjubergsflóa skammt neðan Svínaskarðs. Þar var haft í seli frá Esjubergi.

Eskihlíð. Nýbýli austan Miklatorgs, stofnað af Magnúsi Benjamínssyni árið 1891. Þar bjó lengst Geir G. Gunnlaugsson, kallaður Geir í Eskihlið, og hafði þar búskap fram til um 1955. Bæjarhús og útihús standa enn.

Eskihlíðarskóli. Starfaði sem barnaskóli í Eskihlíð 19 á árunum 1955 til 1960.

Eurocard á Íslandi. Sjá Kreditkort.

Europris.  Lágvöruverðsverslun í tenslum við samnefnda norska verslanakeðju. Stofnað í Reykjavík árið 2002 af Matthíasi Sigurðssyni og fleirum. Fyrstu verslanirnar í voru á Lynghálsi 4 og Skútuvogi 2 árið 2002. Síðar bættust við verslanir á Fiskislóð 3, Korputorgi og þremur stöðum úti á landi.

Eva. Tískuvöruverslun, stofnsett af Mörtu Bjarnadóttur og Þórarni Ólafssyni árið 1968. Var fyrst á Laugavegi 28B en frá 1977 á Laugavegi 42 og síðar einnig í Kringlunni. Árið 1999 komst verslunin í eigu NTC og var siðan rekin á Laugavegi 91 og Kringlunni og loks Laugavegi 26 frá 2010. Marta og Þórarinn stofnuð einnig tískuverslunirnar Gallerí á Laugavegi 42, Centrum í Kringlunni og Company á Laugavegi 42 sem reknar voru í nokkur ár.

Everest. Ferða- og útivistarverslun, stofnsett 1998 af Seglagerðinni Ægi. Hefur frá upphafi verið í Skeifunni 6.

Everest Trading Company.  Umboðs- og heildsala, stofnuð 1954 af Þorsteini Tómas Þórarinssyni og Inga Þorsteinssyni. Var fyrsta árið í Grófinni 1 síðan að Garðastræti 4 til 1962, þá aftur í Grófinni 1 til 1967. Eftir það var fyrirtækið lengst af á Laugavegi 18 eða þar til það hætti 1971.

Evrópa. Sjá Klúbburinn.

Eyjabúð. Stofnsett um 1940 af Jóni Eðvald Kristjónssyni. Var á Bergstaðastræti 33 fram yfir 1950 en eftir það um hríð í skúr innarlega við Bústaðaveg (Fossvogsbletti 31) fram til um 1954 og síðan í skúrbyggingu í Múlakampi (Háaleitisvegi 108) þar sem nú er Síðumúli 7-9. Búðin eyðilagðist í eldi 1973 en þá var Jón kaupmaður að byggja stórhýsið Síðumúla 8 og þar var Eyjabúðin skamma hríð.

Eyjagarður. Hafnargarður fyrir olíuskip austan úr norðanverðri Örfirisey. Fyrsti áfangi hans var gerður á árunum 1982-1985 en garðurinn var lengdur mikið á árunum 1996-2000 og gátu stór olíuskip lagst við hann eftir það.

Eyjargata. Síðar Eyjarslóð. Sjá Slóðir.

Eyjartagl. Sjá Grandi.

Eyjasund. Áll sem skar áður Örfiriseyjargranda utarlega og mátti fara með skip yfir á flóði.

Eyjólfshús. Bær við Smiðjustíg 7, komin um 1850. Árið 1874 byggði Eyjólfur Þorvarðarson timburhús á lóðinni sem hét þessu nafni. Löngu horfið.

Eyjólfsstaðablettur. Blettur eða lóð á mótum núverandi Lindargötu og Frakkastígs. Franski spítalinn, nú Tónmenntaskólinn, var reistur á Eyjólfsstaðabletti.

Eyjólfsstaðir. Býli sem Eyjólfur Ólafsson reisti árið 1883 þar sem nú er Lindargata 48. Stóð eitthvað fram á 20. öld.

Eyland. Lítið timburhús við Nesveg 80, byggt á kreppuárunum af Eyjólfi Ísakssyni og Sólveigu Hjálmarsdóttur.

Eylífskrókur. Sjá Eilífskrókur.

Eymundsenshús. Upphaflega einlyft timburhús í Lækjargötu 2, reist af P. C. Knudtzon 1852. Árið 1871 keypti Sigfús Eymundsson húsið, byggði ofan á það og átti til dauðadags 1911. Fékk húsið þá þetta nafn. Eftir bruna var bætt hæð ofan á húsið 2010 og er það nú þrílyft.

Eymundsson. Bókaverslun, stofnsett 1872. Hét upphaflega Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. Var til húsa í Lækjargötu 2 frá upphafi til 1919 en flutti þá í Austurstræti 18 þar sem hún hefur verið síðan að undanteknu einu ári 1959-1960 en þá var hún í Morgunblaðshúsinu. Árið 1989 sameinaðust Ritfangaverslunin Penninn og Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar og hét fyrirtækið eftir það Penninn-Eymundsson. Sama ár voru opnaðar bókaverslanir undir nafni Eymundsson í Hallarmúla 2, Álfabakka 14B og Kringlunni norður. Síðar var einnig opnuð verslun í Kringlunni suður og árið 2009 var opnuð verslun að Skólavörðustíg 11. Þá rekur Eymundsson fjölda verslana utan Reykjavíkur.

Eyrarhús. Sjá Örfirisey.

Eyrbekkingafélagið

Eystri Hóll. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Eyvindarbær. Steinbær, reistur af Eyvindi Eyvindssyni árið 1881 við Lindargötu 26. Einnig nefndur Eyvindarholt. Rifinn 1902.

Eyvindarholt. Sjá Eyvindarbær.

Eyvík. Timburhús við Arnargötu 8 á Grímsstaðaholti, reist af Sveini Eiríkssyni 1903. Áður var þarna bær frá 1883.

Eyþórspakkhús. Stóð við Sölvhólsgötu.

Ewos. Fóðurblöndunarverksmiðja í Sundahöfn.

Exeter. Hús við Tryggvagötu.

Exeter. Verslun og saumastofa á Baldursgötu 36, starfaði frá um 1942 til 1980.

Expressókaffi. Aðalstræti 18.

Exton. Upplýsingatæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum fyrir hljóð, ljós og mynd. Stofnsett 1992.

F. A. Thiele. Sjá Týli.

FAAS – félag aðstandenda alzheimersjúklinga. Stofnsett 1985 og var fyrsti formaður þess Gerður Pálmadóttir. Félagið rekur dagþjálfun fyrir alzheimersjúklinga og heilabilaða í þremur húsum, tveimur í Reykjavík, Fríðuhúsi og Maríuhúsi, og einu á Hafnarfirði. Aðsetur félagsins er í Hátúni 10B.

Fabersfjós. Fjós sem var þar sem nú er Mjóstræti 3, kennt við Christopher Faber verslunarstjóra hjá Sunchenberg, fyrsta kaupmanninum í Reykjavík, um 1800. Fjósið var notað til íbúðar um skeið en rifið um 1820.

Faco. Fatagerð og verslun. Upphaflega klæðskeraverkstæði Ara Jónssonar á Laugavegi 47, stofnsett 1940. Um 1950 stofnaði Ari saumastofuna Ari & co á Laugavegi 37 og árið 1956 verslunina Faco á sama stað. Fataverslunin var á Laugavegi 37 þar til á tíunda áratugnum og jafnframt rekin á vegum verslunarinnar umsvifamikil fatagerð í Brautarholti 4 til um 1981. Önnur verslun var á Laugavegi 89 frá 1968 og hljómdeild Faco þar einnig frá 1971. Síðast var sú síðastnefnda, þá nefnd Tækniverslunin Faco, í Faxafeni 12 fram til um 1997.

Fagrabrekka. Örnefi í Gufuneslandi, á við brekkuna  sem hallar upp í Gufuneshöfða, norðantil í Foldahverfi.

Fagrabrekka. Hús á erfðafestulandi á Þvottalaugabletti 25 við Langholtsveg

Fagrabrekka. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Fagrabrekka. Íbúðarhús í Dísardal milli Bugðu og Suðurlandsvegar, reist árið 1935.  Búið var í húsinu til 1971. Horfið.

Fagrihvammur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf), stóð skammt fyrir austan núverandi Reykjanesbraut, rétt við kvísl Elliðaáa, á móts við Jöldugróf.

Fagrahlíð. Nýbýli á erfðafestulandi á Sogamýrarbletti 27, stóð uppi á háholtinu vestan Grensásvegar.

Fagranes. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Fagridalur. Nýbýli á erfðafestulandinu Sogmýrarbletti 5 reist árið 1927. Býlið stóð fram yfir 1980. Þar er nú Sogavegur 69.

Fagurhóll. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Fagurhóll. Hús í Selási við Suðurlandsbraut.

Falur. Fyrsta íslenska bílaleigan, stofnuð 1960 af Hákoni Daníelssyni og Stefáni Gíslasyni. Var fyrsta árið í Skipholti 55 og síðan til 1962 að Tryggvagötu 4. Á árunum 1962 til 1965 hafði Falur aðsetur í Brautarholti 22 en eftir það á Rauðarárstíg 31. Hætti um 1980.

Faneyjarhús. Sjá Jóska húsið.

Faneyska verslunin.  Hófst í Reykjavík 1792 og voru stofnendur Morten Jensen Rødgaard og félagar frá Fanø á Jótlandi. Nefndu þeir félag sitt Det fanøeske Interessentskab. Stóð til 1807 í Jóska húsinu í Hafnarstræti 16.

Fangahjálpin. Stofnsett 1949 að tilhlutan Góðtemplarastúkunnar Andvara. Markmið hennar var að hjálpa dæmdum afbrotamönnum til að verða aftur nýtir samfélagsþegnar. Aðalforgöngumaður og forstöðumaður hjálparinnar var Oscar Clausen og var hún starfrækt fram undir 1980. Lengi til húsa í Bankastræti 12.

Farfugladeild Reykjavíkur

Farmannasamband Íslands

Farsóttarhús Reykjavíkur.  Húsið Þingholtsstræti 25, sem áður var Sjúkrahús Reykjavíkur (sjá), var árið 1920 keypt af Reykjavíkurbæ í þessu skyni og hefur það síðan verið nefnt Farsóttarhúsið eða Farsótt. Það var þó fljótlega notað sem sjúkrahús fyrir berklaveika, síðan taugaveiklaða og lamaða og loks geðveika. Frá 1969 hefur þar verið gistiskýli fyrir heimilislausa.

Fasteigendafélag Reykjavíkur. Sjá Húseigendafélagið.

Fasteignamatsnefnd Reykjavíkur

Fasteignamiðstöðin. Fasteignasala, stofnuð af Sigurði Sigfússsyni árið 1958.  Var í Austurstræti 14 til 1963, Austurstræti 12 til 1973, Hafnarstræti 11 til 1976, Austurstræti 7 til 1982 og Hátúni 2B til 1988. Eftir það í Skipholti 50B uns hún flutti í Kópavog um 2004.

Fasteignanefnd Reykjavíkur. Hafði á hendi umsjón með fasteignum bæjarins, svo sem húsum og jörðum, veiðiafnotum, slægjum, mótaki, grjótnámi o.s.frv.

Fasteignaþjónustan. Fasteignasala, stofnsett 1967 af Ragnari Tómassyni. Var til húsa í Austurstræti 17 til 1991 en flutti þá að Skúlagötu 30 og var þar þangað til hús var lögð niður 2004.

Fasteignastofa Reykjavíkur. Sett á stofn 2002 til að sjá um nýbyggingar, viðhald og umsýslu fasteigna í umsjón Reykjavíkurborgar. Heyrði áður undir byggingardeild borgarverkfræðings en nú umhverfis- og skipulagssvið. Fyrsti forstöðumaður Fasteignastofu var Guðmundur Pálmi Kristinsson og var hún til húsa í Skúlatúni 2.

Fata- og sportvöubúðin. Stofnsett af Adolf Frederiksen árið 1950 og var hún til húsa á Laugavegi 10. Rekin til 1960.

Fatabúð Hjálpræðishersins. Verslun með notuð föt og skó. Hefur verið síðar 1993 í Garðastræti 6.

Fatabúðin. Vefnaðarvöru- og fatnaðarverslun, stofnuð 1916 af Guðríði Árnadóttur Bramm. Var til húsa í Hafnarstræti 18 til 1917 og síðan í Hafnarstræti 16 til 1935. Verslunin var komin með útibú á Skólavörðustíg 21 árið 1920 en þar var síðan byggt stórhýsi á vegum verslunarinnar árið 1935 og hefur verslunin verið þar síðan.

Faxaból. Hesthús í eigu Hestamannafélagsins Fáks á Víðivöllum í Elliðaárdal, þau fyrstu komu um eða eftir 1970.

Faxaból. Reiðskóli sem hefur verið starfræktur í Víðidal við Elliðaár frá árinu 2000.

Faxafen. Sjá Faxakelda.

Faxaflóahafnir

Faxagarður.  Hafnargarður og bryggja í austurhöfn gömlu hafnarinnar, fyrir sunnan Ingólfsgarð, bryggjan vestan megin var gerð árið 1926 en austurhlutinn 1948. Stundum kallaður Langalína í daglegu tali. Var áratugum saman helsta togarabryggja hafnarinnar.

Faxagata. Gata sem lá upp af Faxagarði. Eftir að Tónlistarhúsið Harpa kom heitir aðkeyrslan frá Sætúni að því og Ingólfsgarði þessu nafni.

Faxakelda. Lækjardrag innarlega í Fossvogsdal. Einnig nefnd Faxafen. Það var syðri uppsprettan að Fossvogslæk.

Faxamarkaður. Fiskmarkaður í Reykjavík. Til hans var stofnað 1987 og var hann til húsa í Faxaskála í Austurhöfninni. Fyrsti framkvæmdastjóri hans var Bjarni Thors. Starfaði til 2001 þegar hann var sameinaður Fiskmarkaði Breiðafjarðar undir nafninu Fiskmarkaður Íslands.

Faxamjöl.  Stofnað 1989 við sameiningu Lýsis og Mjöls í Hafnarfirði og Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík. Hafði verksmiðjur í Örfirisey og á Kletti auk Hafnarfjarðar til að byrja með en síðan eingöngu í Örfirisey. Fyrirtækin sem stóðu að stofnun Faxamjöls voru Grandi, Hraðfrystistöðin og Lýsi. Fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson. Árið 2002 sameinaðist Faxamjöl Granda.

Faxaskáli.

Faxaverksmiðjan. Síldarverksmiðja í Örfirisey, reist 1949-50 af félaginu Faxa. Árið 1963 keypti Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan Klettur verksmiðjuna og rak hana næstu áratugi. Verksmiðjan er nú í eigu Granda hf.

Faxi sf. Sameignarfélag Reykjavíkurbæjar og Kveldúlfs, stofnað 1948 til að reisa síldarverksmiðju í Örfirisey. Félaginu var slitið 1962.

Fáfnir. Reiðhjóla- og barnavagnaverkstæði og verksmiðja og síðar einnig verslun sem sérhæfði sig í barnavögnum og leikföngum. Stofnsett 1936 af Alfreð Þórðarsyni. Var á Hverfisgötu 16A til 1940 en síðan á Laugavegi 17B. Verslun var opnuð á Bergstaðastræti 19 árið 1955, þaðan flutti hún á Skólavörðustíg 10 árið 1960 en síðast var hún á Klapparstíg 40 frá 1965 til 1970.

Fáfnisnes. Gata í Skerjafirði, kom fyrst fram á skipulagsuppdrætti 1959, hét Fáfnisvegur fram til 1968.

Fáfnisvegur. Sjá Fáfnisnes.

Fákur. Hestamannafélagið. Stofnað 1922 og var fyrsta hestamannafélag landsins. Fyrsti formaður þess var Daníel Daníelsson. Athafnasvæði félagsins var við neðanverðar Elliðaár til 1971, þá á Víðidal ofar við árnar en árið 2002 var félaginu úthlutað framtíðarathafnasvæði í Almannadal.

Fálkaborg. Leikskóli að Fálkabakka 9 í Breiðholti. Tók til starfa 1981.

Fálkagata. Gata í Grímsstaðaholti sem liggur milli Suðurgötu og Dunhaga. Hún var lögð árið 1919 og fékk þá þetta nafn.

Fálkahús. Timburhús í Hafnarstræti 1, flutt frá Bessastöðum árið 1763. Húsið var nýtt til að hýsa fálka konungs áður en þeir voru fluttir utan til tamningar. Fálkaflutningar lögðust endanlega af 1806 og var húsið eftir það notað til verslunar uns það var rifið 1868. Fálkar á mæni núverandi húss í Hafnarstræti 1-3 eiga að minna á Fálkahúsið.

Fálkhóll. Hæsti hóllinn beint upp af bænum Breiðholti, var rétt fyrir sunnan núverandi Seljabraut ofarlega.

Fálkinn. Verslun og reiðhjólaverkstæði. Stofnsett 1916 af Haraldi Gudberg sem Hjólhestaverksmiðjan Fálkinn og var frá upphafi á Laugavegi 24. Komst í eigu Ólafs Magnússonar árið 1924 en hann hafði áður rekið reiðhjólaverkstæði sem hann stofnsetti á Skólavörðustíg 4 árið 1904 en var frá 1910 á Laugavegi 24B. Var fyrirtækið eftir 1924 nefnt Reiðhjólaverksmiðjan Fálkinn. Það færði snemma út kvíarnar og árið 1925 var stofnuð hljómplötu- og grammófónverslun á vegum þess. Frá 1930 og fram til 1986 var mikið af íslenskri tónlist og skáldskap tekið upp á vegum fyrirtækisins og gefið út á plötum. Það flutti einnig inn saumavélar og bíla um tíma. Árið 1954 var stofnuð véladeild á vegum Fálkans, 1971 heimilistækjadeild og 1993 raftæknideild. Á árunum 1968-1970 flutti Fálkinn alla starfsemi sína af Laugavegi 24 að Suðurlandsbraut 8.

Fálkinn. Vikublað í Reykjavík sem gefið var út sem heimilisblað á árunum 1928-1966. Stofnendur blaðsins og fyrstu ritstjórarnir voru Vilhjálmur Finsen og Skúli Skúlason.

Fátækrafulltrúar.

Fátækranefnd Reykjavíkur. Hafði á hendi alla stjórn fátækramála.

Fegrunarfélag Reykjavíkur. Stofnað 1948 til að beita sér fyrir fegrun borgarinnar, veitti það meðal annars árleg verðlaun fyrir fegurstu garðana og kom af stað fegurðarsamkeppni reykvískra kvenna í Tívolí. Fyrsti formaður félagsins var Gunnar Thoroddsen þáverandi borgarstjóri. Félagið starfaði fram til um 1963.

Fegrunarnefnd Reykjavíkur. Upphaflega stofnuð 1968 og var hún fyrst um sinn skipuð 7 fulltrúum. Formaður var skipaður af borgarstjóra, garðyrkjustjóri borgarinnar sat sjálfkrafa í henni en fimm félagasamtök tilnefndu aðra nefndarmenn.  Síðar komst annað skipulag á tilnefningar. Nefndin beitti sér fyrir fegrun borgarinnar og veitti viðurkenningar fyrir fegurstu garða, vel uppgerð hús og fleira.

Fegurðarsamkeppni Íslands. Haldin nánast árlega síðan 1950. Fyrstu keppnirnar voru haldnar í Tívolí í Vatnsmýri á vegum Fegrunarfélags Reykjavíkur og voru eingöngu meðal reykvískra kvenna. Síðar varð keppnin Fegurðarsamkeppni Íslands og unnu þá sigurvegarar keppninnar sér þátttökurétt í alþjóðlegum fegurðarsamkeppnum, svo sem Miss World, Miss International og Miss Universe. Þrjár íslenskar stúlkur, Guðrún Bjarnadóttir, Hólmfríður Karlsdóttir og Linda Pétursdóttir, hafa unnið slíkar alþjóðlegar keppnir.

Feldur. Verslun og saumastofa, stofnuð 1941 af Arnbirni Óskarssyni og Lárusi G. Lúðvígssyni. Verslað með tískufatnað, vefnaðarvöru og skó. Verslunin var upphaflega í Austurstræti 10 en um 1955 voru þær orðnar fjórar, í Austurstræti 6 og 8, Bankastræti 7 og Laugavegi 116. Lengst var verslunin í Austurstræti 8 eða til um 1965.

Feldur. Saumastofa og síðar verslun sem þær Herdís Björnsdóttir, Sigríður Júlísdóttir og Laufey Sigurbergsdóttir stofnuðu um 1981. Var á Frakkastíg 12 en á Laugavegi 34A frá 1989 til 1991.

Fell. Verslun með fatnað, nýlenduvörur o. fl, stofnsett af Jóni Guðmundssyni árið 1928. Var á Njálsgötu 43 til 1932 en eftir það á Grettisgötu 57 til ársins 1963.

Fell. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Fella- og Hólakirkja. Safnaðarkirkja Fellasafnaðar og Hólabrekkusafnaðar að Hólabergi 88 í Breiðholti. Arkitektar Gylfi Guðjónsson og Ingimundur Sveinsson. Kirkjan var vígð fullgerð 1988.

Fellaborg. Leikskóli að Völvufelli 9 í Breiðholti. Tók til starfa 1973.

Fellahellir. Félagsmiðstöð á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur í kjallara Fellaskóla í Breiðholti. Starfrækt á árunum 1974-1999 en þá tók Félagsmiðstöðin Miðberg við hlutverki hennar. Fyrsti forstöðumaður Fellahellis var Valur St. Þórarinsson.

Fellaskóli. Grunnskóli að Norðurfelli 17-19 í Efra Breiðholti. Tók til starfa 1972 og var fyrsti skólastjórinn Arngrímur Jónsson. Arkitektar skólans voru Örnólfur Hall og Ormar Guðmundsson og var fyrirkomulag skólans í anda svokallaðra „opinna skóla“.  Í honum eru stórir salir þar sem margir hópar nemenda geta unnið saman en hægt er að mynda sérstök rými með léttum skilrúmum.

Fellastígur. Stígur milli blokkanna frá Þórufelli að Kötlufelli í Efra Breiðholti. Stígurinn var endurhannaður og fegraður af arkitektunum Ástríði Magnúsdóttur og Gunnari Sigurðssyni árið 2011.

Fellasöfnuður. Stofnaður 1973 í Fellunum í Breiðholti. Fyrsti prestur safnaðarins var séra Lárus Halldórsson.

Fellin. Hverfi í Efra-Breiðholti , kennt við fell. Þar heita göturnar Asparfell, Drafnarfell, Eddufell, Fannarfell, Gyðufell, Iðufell, Jórufell, Keilufell, Kötlufell, Möðrufell, Norðurfell, Nönnufell, Rjúpufell, Suðurfell, Torfufell, Unufell, Völvufell, Yrsufell, Þórufell og Æsufell.

Feministafélag Íslands. Stofnað í Reykjavík 2003 til að berjast fyrir jafnrétti í víðum skilningi.

Ferdinand. R. Eiríksson. Skósmíðaverkstæði. Stofnsett 1918 og starfaði á Hverfisgötu 43 til ársins 1973 en eftir það á Grettisgötu 19A í fá ár.

Ferðafélag Íslands. Stofnað 1927.

Ferðamannafélagið. Stofnað í Reykjavík 1895 til að stuðla að komum erlendra ferðamanna til Íslands. Formaður félagsins og aðaldrifkraftur þess var Ditlev Thomsen kaupmaður. Félagið hafði samband við erlendar ferðaskrifstofur og blöð auk þess að gefa út efni um Ísland, ætlað ferðamönnum. Starfaði fram yfir 1900.

Ferðamálanefnd Reykjavíkur.

Ferðamiðstöðin. Ferðaskrifstofa, stofnsett 1973 og var í Aðalstræti 9. Fyrsti framkvæmdastjóri hennar var Njáll Símonarson. Sameinaðist öðrum ferðaskrifstofum árið 1989 undir nafninu Ferðamiðstöðin Veröld sem var í Austurstræti 17 en hún hætti 1993.

Ferðaskrifstofa Geirs H. Zoëga. Stofnuð um 1928 og rekin til 1939. Endurvakin 1952 og rekin til 1976 að hún sameinaðist Úrvali. Sérhæfði si gí móttöku erlendra ferðamanna. Var eftir 1952 í Austurstræti 12 en síðar í Hafnarstræti 5

Ferðaskrifstofa Íslands. Stofnsett af þeim Einari Magnússyni og Vigfúsi Guðmundssyni árið 1932 til að greiða fyrir ferðalögum innanlands. Var einkum starfrækt á sumrin. Starfaði til 1937.

Ferðaskrifstofa Íslands. Hlutafélag, stofnað 1988 eftir að Ferðaskrifsrtofa ríksisins var einkavædd. Kjartan Lárusson, sem verið hafði forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins, varð fyrsti forstjóri hinnar nýju ferðaskrifstofu. Flutti hún fljótlega í Skógarhlíð 18. Árið 1999 sameinaðist Ferðaskrifstofa Íslands ferðaskrifstofunni Úrval-Útsýn en hvort tveggja var þá í eigu Flugleiða. Fluttist starfsemin í Lágmúla 4. Ferðaskrifstofan varð eftir þetta móðurfélag Úrvals-Útsýnar, Sumarferða og Plúsferða. Árið 2008 keypti Iceland Express Ferðaskrifstofa Íslands og er hún nú í eigu Pálma Haraldssonar.

Ferðaskrifstofa Reykjavíkur. Stofnsett 1987 af  Ólafi Laufdal og hafði einkum sólarlandaferðir á boðstólum. Var til húsa í Aðalstræti 16 til 1998 en flutti þá í Aðalstræti 9. Hætti 2002.

Ferðaskrifstofa ríksins. Stofnsett 1936 og hafði einkaleyfi til rekstrar ferðaskrifstofu allt til ársins 1964 en starf hennar lá þó niðri á stríðsárunum. Ferðaskrifstofa ríksins sá um skipulag utanlandsferða ríkisstarfsmanna, rekstur hópferða og síðar kynningu ferðum annarra ferðaskrifstofa, rekstur sumarhótela og ráðstefnuhald. Forstjóri hennaqr fyrir stríð var Eggert P. Briem en fyrsti forstjórinn eftir stríð Þórleifur Þórðarsson. Var til húsa í Tryggvagötu 28 á árunum fyrir stríð en í Hafnarstræti 23 á árunum 1946-1956, eftir það í Gimli, Lækjargötu 3, til 1974 og síðan á Reykjanesbraut 6 sem breyttist í Skógarhlíð 6 1984. Árið 1988 var Ferðaskrifstofu ríksins breytt í hlutafélag og 2/3 hlutar hennar seldir starfsmönnum. Ferðaskrifstofa Íslands tók þá við rekstrinum.

Ferðaskrifstofa stúdenta. Tók til starfa 1980.

Ferðaskrifstofa Úlfars Jacobsen. Stofnuð 1959 og hafði skrifstofur í Austurstræti 9. Sérhæfði sig í hálendisferðum. Var rekin til um 1990 en var þá sameinuð Úrvali-Útsýn.

Ferlinefnd Reykjavíkur. Stofnuð 1995 að frumkvæði Borgarráðs Reykjavíkur til að vinna að ferlimálum fatlaðra.

Félag afgreiðslustúlkna í brauða- og mjólkurbúðum. Stofnað 1933.

Félag atvinnurekenda. Sjá Félag Íslenskra stórkaupmanna.

Félag áhugamanna um harmonikkuleik. Sjá Félag harmonikkuunnenda.

Félag bifreiðasmiða. Stofnsett 1938 og var fyrsti formaður þess Tryggvi Árnason. Var lagt niður 1992 þegar það gekk í Bíliðnasambandið.

Félag bifvélavirkja. Stofnað 1935 og var fyrsti formaður þess Eiríkur Gröndal. Lagt niður 1991 þegar það sameinaðist Félagi bílamálara í Bíliðnafélaginu (sjá).

Félag bílamálara í Reykjavík og nágrenni. Stofnað 1956 og var fyrsti formaður þess Hafsteinn Jónsson. Sameinaðist Félagi bifvélavirkja í Bíliðnafélaginu 1991.

Félag blikksmiða. Stofnað 1935. Fyrsti formaður þess var Kristinn Vilhjálmsson. Sameinaðist Bíliðnafélaginu (sjá) árið 1998.

Félag blikksmiðjueigenda. Stofnsett 1937 og hét upphaflega Félag blikksmiðjueigenda í Reykjavík. Nafninu var breytt 1967. Fyrsti formaður félagsins var Jón Bjarni Péturssson.

Félag blómaverslana. Stofnað 1949 og var fyrsti formaður þess Ingimar Sigurðsson. Hét upphaflega Félag blómaverslana í Reykjavík og Hafnarfirði.

Félag blómaverslana í Reykjavík og Hafnarfirði. Sjá Félag blómaverslana.

Félag bókagerðarmanna. Stofnað 1980 með samruna Hins íslenska prentarafélags, Bókbindararfélags Íslands og Grafíska sveinafélagsins. Fyrsti fornmaður félagsins var Magnús Einar Sigurðsson og hefur aðsetur félagsins frá upphafi verið að Hverfisgötu 21.

Félag bókbandsiðnrekenda í Reykjavík. Stofnsett um 1936. Fyrsti formaður þess var Þorleifur Gunnarsson. Félagið var lagt niður 1971 þegar það sameinaðist þremur öðrum félögum í Félagi íslenska prentiðnaðarins.

Félag búsáhalda- og járnvörukaupmanna. Stofnað 1939 og var fyrsti formaður félagsins Hávarður Valdimarsson. Sameinaðist öðrum félögum í Félagi byggingarefna- og húsmunakaupmanna árið 1991.

Félag byggingarefna- og húsmunakaupmanna. Stofnað 1991 þegar Félag íslenskra byggingarefnakaupmanna, Félag búsáhalda-  og járnvörukaupmanna og Félag húsgagnakaupmanna sameinuðust. Fyrsti formaður félagsins var Leifur Ísleifsson. Rann inn í Samtök verslunar og þjónustu árið 1999.

Félag byggingarefnakaupmanna í Reykjavík. Sjá Félag íslenskra byggingarefnakaupmanna.

Félag byltingarsinnaðra rithöfunda. Stofnað 1933 í þeim tilgangi að halda á lofti félagslegu raunsæi í bókmenntum. Helsti forsprakki félagsins var Kristinn E. Andrésson en meðal frægra rithöfunda í því voru Halldór Haxness, Steinn Steinarr og Jóhannes úr Kötlum. Gaf út tímaritið Rauða penna. Stofnaðili að Bókmenntafélaginu Máli og menningu árið 1937. Hætti starfsemi 1943.

Félag dagvöruverslana. Sjá Félag matvöruverslana.

Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara. Stofnsett 1928 og var fyrsti formaður þess Viktor Kr. Helgason. Félagið hét upphaflega Veggfóðrarafélag Reykjavíkur en því nafni var breytt í Meistarafélag veggfóðrara í Reykjavík árið 1932. Núverandi nafn fékk það 2001. Frá 1964 hefur aðsetur félagsins verið í Skipholti 70.

Félag einstæðra foreldra. Stofnsett í Reykjavík 1969 til að berjast fyrir hagsmunum einstæðra foreldra og barna þeirra. Fyrsti formaður félagsins var Jóhanna Kristjónsdóttir.

Félag framreiðslumanna. Sjá Samtök matreiðslu og framreiðslumanna.

Félag frjálslyndra stúdenta. Stofnað 1939 fyrir forgöngu Framsóknarmanna sem stunduðu nám við Háskóla Íslands. Bauð fram til Stúdentaráðs ýmist eitt eða í samfloti með öðrum félögum. Starfaði til 1969 þegar það sameinaðist stúdentafélögum í HÍ á vinstri væng í Verðandi, félagi róttækra stúdenta.

Félag gagnfræðaskólakennara í Reykjavík. Stofnsett 1955 og var Friðbjörn Benónýsson fyrsti formaður félagsins.  Lagt niður 1981 þegar það sameinaðist Stéttarfélagi grunnskólakennara í Reykjavík í Kennarafélagi Reykjavíkur.

Félag garðyrkjumanna. Stofnsett 1943 sem launþegafélag fyrir allt landið. Fyrsti formaður þess var Haukur Kristófersson. Félagið var lagt niður 2003 þegar það sameinaðist nokkrum öðrum félögum í Félagi iðn- og tæknigreina.

Félag garðyrkjuverktaka. Sjá Félag skrúðgarðyrkjumeistara.

Félag gjafa- og listmunaverslana. Stofnað 1980 og var Árni Jónsson fyrsti formaðurinn. Rann inn í Félag sérvöruverslana árið 1991.

Félag harmonikkuunnenda. Stofnsett 1978 í Reykjavík, hét fyrsta árið Félag áhugamanna um harmonikkuleik. Fyrsti formaður þess var Bjarni Marteinsson.

Félag hárgreiðslukvenna í Reykjavík. Sjá Hárgreiðslumeistarafélag Íslands.

Félag hárgreiðslu- og hárskerasveina. Sjá Félag hársnyrtisveina.

Félag hársnyrtisveina. Stofnað 1969, hét fram til 1998 Félag hárgreiðslu- og hárskerasveina.

Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga. Stofnsett 1978 og var fyrsti formaður þess Jóhanna Bernharðsdóttir. Sameinaðist Hjúkrunarfélagi Íslands undir nafninu Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga árið 1994.

Félag háskólamenntaðra kennara. Stofnað 1964 af háskólamenntuðum kennurum á gagnfræðastigi, í Verslunarskólanum, Kennaraskólanum og nokkrum menntaskólakennurum. Fyrsti formaður félagsins var Jón Böðvarsson. Starfaði til 1979 að það sameinaðist Félagi menntaskólakennara í Hinu íslenska kennarafélagi.

Félag heyrnarlausra. Stofnað árið 1960 og var fyrsti formaður félagsins Guðmundur Björnsson. Félagið fékk eigið húsnæði að Skólavörðustíg 21 árið 1977 en keypti stærra húsnæði á Klapparstíg 28 árið 1882. Þaðan var flutt að Laugaveg 26 árið 1992, síðan að Laugavegi 103 árið 2000 og að Suðurlandsbraut 24 árið 2005 en nú er aðsetur félagsins að Gensásvegi 30.

Félag húsgagna- og innréttingaframleiðenda. Stofnað 1931 en hét upphaflega Húsgagnameistarafélag Reykjavíkur.

Félag húsgagnakaupmanna. Stofnað 1961 og var fyrsti formaður félagsins Ásgrímur P. Lúðvíksson. Rann inn í Félag byggingarefna- og húsmunakaupmanna árið 1991.

Félag iðn- og tæknigreina.  Stofnsett 2003 með sameiningu Bíliðnafélagsins, Félags byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði, Félags garðyrkjumanna, Málarafélags Reykjavíkur og Sunniðn. Fyrsti formaður félagsins var Hilmar Harðarson.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna. Stofnsett 1946. Fyrsti formaður félagsins var Jóhannes Snorrason. Félagið flutti fyrst í eigið húsnæði að Háaleitisbraut 68 árið 1968 en frá 2005 hefur það verið til húsa í Kópavogi.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Stofnað 1932 til að standa vörð um hagsmuni bifreiðaeigenda. Fyrsti formaður þess var Einar Pétursson.

Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda. Stofnsett 1916 og var fyrsti formaður þess Thor Jensen. Var lengi eftir 1943 til húsa í Hafnarhvoli. Mun hafa hætt allri starfsemi um 1995.

Félag íslenskra bóka- og ritfangaverslana. Stofnað 1951 af bóksölum um allt land. Hét upphaflega Félag íslenskra bókaverslana. Fyrsti formaður félagsins var Björn Pétursson, eigandi Bókaverslunar Sigfúsar Eymundssonar. Starfaði fram yfir 1990.

Félag íslenskra bókaútgefenda. Stofnað 1889 og hét í fyrstu Bóksalafélagið í Reykjavík, en var síðar nefnt Bóksalafélag Íslands. Fyrsti formaður þess var Sigfús Eymundsson. Voru í því bæði bókaútgefendur og bóksalar. Eftir 1952 einskorðaðist félagið við útgefendur og árið 1975 fékk félagið núverandi nafn.

Félag íslenskra bókaverslana. Sjá Félag íslenskra bóka- og ritfangaverslana.

Félag íslenskra byggingarefnakaupmanna. Stofnsett 1931 með þátttöku helstu helstu byggingavöruverslana í Reykjavík og Hafnarfirði. Fyrsti formaður þess var Jón Þorláksson. Félagið hét upphaflega Félag byggingarefnakaupmanna í Reykjavík. Félagið sameinaðist tveimur öðrum félögum árið 1991 undir nafninu Félag byggingarefna- og húsmunakaupmanna.

Félag íslenskra dægurlagahöfunda. Stofnað 1955 til að kynna íslensk dægurlög og vinna að hagsmunum dægurlagahöfunda. Fyrsti formaður félagsins var Freymóður Jóhannsson. Starfaði til 1967 eða lengur.

Félag íslenskra einsöngvara. Stofnað 1954 og var fyrsti formaður þess Bjarni Bjarnason. Gekkst m.a. fyrir söngskemmtunum. Starfaði til um 1980.

Félag íslenskra flug- og vélamanna. Stofnað 1936 en mun ekki hafa starfað lengi.

Félag íslenskra frístundamálara. Stofnað 1946 og vafr fyrsti formaður þess Helgi S. Jónsson. Félagið gekkst meðal annars fyrir málverkasýningum og fræðslustarfsemi. Um tíma rak félagið myndlistarskóla á Laugavegi 166 (Málaskóla FÍF) sem var undanfari Myndlistarskólans í Reykjavík. Starfaði fram undire 1950.

Félag íslenskra gullsmiða. Stofnað í Reykjavík 1924 og var fyrsti formaður þess Jónatan Jónsson. Starfaði slitrótt fyrstu árin en á síðari árum hefur félagið m.a. gengist fyrir hönnunarsýningum. Um tíma var einnig starfandi Gullsmiðafélag Reykjavíkur.

Félag Íslenskra hjúkrunarfræðinga. Stofnað 1919 og var fyrsti formaður þess H. Kjær. Hét Félag íslenskra hjúkrunarkvenna til 1959 og síðan Hjúkrunarfélag Íslands. Árið 1994 var Hjúkrunarfélagið sameinað Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og fékk þá núverandi nafn.

Félag íslenskra hjúkrunarkvenna. Sjá Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Félg íslenskra hljóðfæraleikara. Sjá Félag íslenskra hljómlistarmanna.

Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH). Hagsmuna- og fagfélag atvinnuhljómlistarmanna. Stofnað 1932. Hét upphaflega Félag íslenskra hljóðfæraleikara en nafninu var breytt 1957. Fyrsti formaður félagsins var Bjarni Böðvarsson.

Félag íslenskra iðnrekenda. Stofnað í Reykjavík árið 1933 og var fyrsti formaður þess Sigurjón Pétursson. Félagið var lagt niður þegar stofnuð voru Samtök iðnaðarins 1994.

Félag íslenskra kjötiðnaðarmanna. Stofnað 1947. Fyrsti formaður þess var Sigurður Hilmar Ólafsson.

Félag íslenskra leikara

Félag íslenskra loftskeytamanna. Stofnað 1923.

Félag íslenskra lyffræðinga.

Félag íslenskra myndlistarmanna

Félag íslenska prentiðnaðarins. Stofnað 1971 með sameiningu fjögurra félaga: Félags íslenskra prentsmiðjueigenda, Félags bókbandsiðnrekenda, Félag offsetprentsmiðjueigenda og Félags prentmyndagerðareigenda. Fyrsti formaður félagsins var Baldur Eyþórsson. Félagið var lagt niður þegar stofnuð voru Samtök iðnaðarins 1994.

Félag íslenskra prentsmiðjueigenda. Félagið var lagt niður þegar það sameinaðist þremur öðrum félögum í Félagi íslenska prentiðnaðarins 1971.

Félag íslenskra rafvirkja. Stofnað 1926, hét upphaflega Rafmagnsvirkjafélag Reykjavíkur og síðar Rafvirkjafélag Reykjavíkur.  Fékk núverandi nafn 1943. Fyrsti formaður félagsins var Hallgrímur Bachmann. Varð aðili að Rafiðnaðarsambandi Íslands við stofnun þess 1970 og starfar nú innan vébanda þess. Frá 1958 var aðsetur Félags íslenskra rafvirkja að Freyjugötu 27, síðan frá 1979 á Háaleitisbraut 68 og loks að Stórhöfða 31 frá árinu 2000.

Félag íslenskra rithöfunda. Sjá Rithöfundafélag Íslands.

Félag íslenskra rithöfunda.  Stofnað 1945 sem klofningsfélag frá Rithöfundafélagi Íslands og var fyrsti formaður þess Guðmundur G. Hagalín. Átti aðild að stofnun Rithöfundasanbandi Íslands hinu eldra 1957 og var einnig stofnaðili að núverandi Rithöfundasambandi Íslands árið 1974.  Félagið var þó áfram við lýði til 1995 eða lengur.

Félag íslenskra símamanna

Félag íslenskra skókaupmanna. Stofnað 1938 og var Björgúlfur Stefánsson fyrsti formaður félagsins.  Nafninu var breytt í Skókaupmannafélagið árið 1946 en aftur horfið til upprunalegs nafns 1986. Var lagt niður 1991 þegar það sameinaðist öðrum félögum í Félagi sérverslana.

Félag íslenskra stórkaupmanna. Stofnað 1928 og var fyrsti formaður félagsins Arent Claessen. Á árunum 1961 til 1982 voru skrifstofur félagsins í Tjarnargötu 14 en eftir það í Húsi verslunarinnar. Nafni félagsins var breytt í Félag atvinnurekenda árið 2010.

Félag íslenskra tónlistarmanna

Félag járniðnaðarmanna. Stofnað 1920 og var fyrsti formaður þess Loftur Bjarnason. Hét Sveinafélag járnsmiða til 1931. Sameinaðist Vélstjórafélagi Íslands árið 2006 í Félagi vélstjóra og málmtæknimanna (VM).

Félag kjötverslana í Reykjavík. Stofnað 1934 og var 21 kjötverslun stofnaðili. Fyrsti formaður félagsins var Skúli Ágústsson. Sameinaðist Félagi matvörukaupmanna og fleiri félögum árið 1992 undir nafninu Félag dagvöruverslana.

Félag kolakaupmanna við Faxaflóa.

Félag kvenna í atvinnurekstri. Stofnað í Reykjavík 1999 til að gæta hagsmuna og efla samstöðu og samstarf kvenna í atvinnurekstri. Fyrsti formaður félagsins var Jónína Bjartmarz.

Félag leikfangaverslana. Stofnað 1951 og starfrækt til 1991. Fyrsti formaður félagsins var Páll Sæmundsson.

Félag lesblindra á Íslandi. Stofnsett 2003 og var fyrsti formaður þess Guðmundur Johnsen. Aðsetur félagsins er í Ármúla 7b.

Félag löggiltra endurskoðenda. Stofnað 1935 og var fyrsti formaður þess Björn E. Árnason. Félagið átti eigin félagsheimili á Hverfisgötu 106A á árunum 1966-1989 en hefur nú aðsetur að Suðurlandsraut 6.

Félag löggiltra rafverktaka í Reykjavík. Stofnað árið 1927 en hét allt til ársins 1967 Félag Löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík. Fyrsti formaður þess var Jón Ormsson. Á árunum 1963 til 1986 var aðsetur félagsins í eigin húseign að Hólatorgi 2. Þá flutti það í Skipholt 29A en hefur frá 2002 verið i Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35.

Félag löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík. Sjá Félag löggiltra rafverktaka.

Félag matsölukvenna í Reykjavík. Starfaði um 1940.

Félag matvörukaupmanna. Stofnað 1928 og hét það fyrst Félag matvörukaupmanna í Reykjavík. Fyrsti formaður félagsins var Tómas Jónsson. Starfaði til 1992 en þá sameinaðist það Félagi kjötverslana undir nafninu Félag dagvöruverslana. Nafni þess félags var breytt í Félag matvöruverslana árið 1996. Rann inn í Samtök verslunar- og þjónustu árið 1999.

Félag matvörukaupmanna í Reykjavík. Sjá Félag Matvörukaupmanna.

Félag matvöruverslana. Sjá Félag matvörukaupmanna.

Félag menntaskólakennara. Stofnað 1937 að frumkvæði Pálma Hannessonar og Sigurðar Guðmundssonar og var sá síðarnefndi fyrsti formaður þess. Var lagt niður 1979 er það sameinaðist Félagi háskólamenntaðra kennara í Hinu Ísldenska kennarafélagi.

Félag nýrnasjúkra. Stofnsett árið 1986 til þess að gæta hagsmuna nýrnasjúkra og aðstandenda þeirra. Fyrsti formaður félagsins var Dagfríður Halldórsdóttir. Það hefur aðsetur í Hátúni 10b.

Félag offsetprentsmiðjueigenda. Félagið var lagt niður þegar það sameinaðist þremur öðrum félögum í Félagi íslenska prentiðnaðarins 1971.

Félag pípulagningameistara í Reykjavík

Félag prentmyndagerðareigenda. Félagið var lagt niður þegar það sameinaðist þremur öðrum félögum í Félagi íslenska prentiðnaðarins 1971.

Félag raftækjasala. Stofnað 1965 og var Gísli J. Sigurðsson fyrsti formaður félagsins.

Félag róttækra stúdenta. Stofnsett 1929 af jafnaðarmönnum, kommúnistum og vinstrisinnuðum Framsóknarmönnum í Háskóla Íslands.

Félag sérvöruverslana. Stofnað 1991 með samruna Félags gjafa- og listmunaverslana, Félags íslenskra skókaupmanna, Félags snyrtivöruverslana, Félags sportvörukaupmanna og Félags vefnaðarvörukaupmanna. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Kjartansson. Rann inn í Samtök verslunar og þjónustu árið 1999.

Félag skrúðgarðyrkjumeistara. Stofnað 1968 og tók við af Félagi garðyrkjuverktaka sem stofnað hafði verið fáeinum árum áður. Fyrsti formaður félagsins var Björn Kristófersson.

Félag slökkviliðsmanna í Reykjavík. Stofnað 1938.

Félag smábátaeigenda í Reykjavík. Stofnað 1981 og var fyrsti formaður þess Jón Ármann Héðinsson. Ætlað fyrir þá sem fara með ábyrgð á trillum 12 brúttólestum eða minni.

Félag Snæfellinga og Hnappdæla. Oft einnig nefnt Snæfellingafélagið. Það var stofnað í Reykjavík 1939 og var formaður þess fyrsta aldarfjórðunginn Ásgeir Ásgeirssson frá Fróðá. Félagið stofnaði m.a. Hótel Búðir 1947 og rak hótelið fram yfir 1970.

Félag snyrtivöruverslana.  Stofnað 1973 og var fyrsti formaðurinn Jóhann Guðjónsson. Rann inn í Félag sérvöruverslana árið 1991.

Félag sportvörukaupmanna. Stofnað 1968 og var fyrsti formaður þess Jón Aðalsteinn Jónasson. Rann inn í Félag sérvöruverslana árið 1991.

Félag starfsfólks í húsgagnaiðnaði. Sjá Sveinafélag húsgagnasmiða.

Félag starfsmanna Landsbanka Íslands

Félag starfsmanna Útvegsbanka Íslands

Félag söluturnaeigenda. Stofnað 1956 og starfaði það til 1996.

Félag tóbaks- og sælgætisverslana. Stofnað 1926 og virðist Þorsteinn J. Sigurðsson kaupmaður í Bristol hafi verið fyrsti formaðurinn.  Starfsemin var slitrótt og lagðist félagið niður árið 1985.

Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík

Félag ungra jafnaðarmanna. Stofnað 1928

Félag vefnaðarvörukaupmanna.

Félag vefnaðarvörukaupmanna í Reykjavík. Stofnsett 1932. Fyrsti formaður félagsins var Jón Björnsson. Félagið sameinaðist öðrum kaupmannafélögum í Félagi sérvöruverslana árið 1991.

Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM). Stofnað árið 2006 þegar Vélstjórafélag Íslands og Félag járniðnaðarmanna sameinuðust. Fyrsti formaður hins sameinaða félags var Helgi Laxdal.

Félag viðskiptafræðinga. Stofnað 1946. Fyrsti formaður þess var Sveinn Þórðarson. Félagið var lagt niður 1959 þegar það sameinaðist Hagfræðingafélagi Íslands í Hagfræðafélagi Íslands.

Félag viðskipta- og hagfræðinga. Stofnað 1959 með sameiningu Hagfræðingafélags Íslands og Félags viðskiptafræðinga. Nafn þess var Hagfræðafélag Íslands til 1972. Fyrsti formaður þess var Jónas H. Haralz.

Félag vörubílstjóra.  Stofnað 1928 af eigendum vörubíla.

Félag þjóðernissinnaðra stúdenta. Stofnsett árið 1934 við Háskóla Íslands. Fyrsti formaður þess var Jón N. Sigurðsson. Sameinaðist Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta árið 1938.

Félagasamband smásöluverslana. Stofnsett 1939 til að vera málsvara kaupmannastéttarinnar innan Verslunarráðs Íslands. Fyrsti formaður þess var Sigurliði Kristjánsson. Starfaði til 1951.

Félagsbakaríið. Stofnað 1895 sem hlutafélag í Reykjavík og var Carl Frederiksen forstöðumaur. Bakaríið var á Vesturgötu 14 til 1901 en flutti þá í eigin stórhýsi á Amtmannsstíg 2A. Í húsinu voru vandaðri bakaraofnar en áður höfðu þekkst  og allar vélar gufuknúnar, svo sem mylla, hnoðunarvélar, mótunarvélar og deigskurðarvélar. Hús þetta brann til kaldra kola árið 1905.  Flutti þá bakaríið aftur á Vesturgötu 14 þar sem Frederiksen keypti það og rak til 1910.

Félagsbókbandið. Stofnsett 1907 af Guðmundi Gamalíelssyni og fleirum. Var til húsa í Lækjargötu 6A til 1916, þá í Ingólfsstræti 20 til 1938, í Ingólfsstræti 9 1938-1965 en fluttist þá í Síðumúla 10. Sameinaðist Bókfelli 1988 og flutti úr borginni.

Félagsbústaðir. Stofnað 1996 til að halda utan um eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum Reykjavíkurborgar.

Félagsgarðstún. Tún sem Egill Jónsson og Torfi Steinsson hófu að rækta árið 1848 þar sem nú er Einarsgarður við Laufásveg. Á túninu reis Gróðrarstöðin eftir 1899.

Félagsgarður. Bær við Laufásveg 74, reistur af Magnúsi Guðmundssyni fyrir 1870. Rifinn eftir 1930. Skammt þar frá á sömu lóð var Hallsbær (sjá) sem einnig var stundum kallaður Félagsgarður.

Félagsgarður. Byggingasamvinnufélag sem reisti sumarið 1936 16 tvíbýlishús og tvö einbýlishús við Hávallagötu og Túngötu. Arkitekt félagsins var Gunnlaugur Halldórsson.

Félagsheimili Fóstbræðra. Vígt 1972, er til húsa að Langholtsveg 109.

Félagsheimili starfsmanna Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Reist árið 1960 við Elliðaár, drjúgan spölkorn austan við Elliðaárstöðina, við svokallaða Fögrubrekku. Stækkað verulega 1977 og hefur það verið notað til margs konar samkomuhalds.

Félagshúsið. Húsið að Vesturgötu 57 sem er að stofni til steinbær, reistur af Jónasi Ólafssyni árið 1882.

Félagsmálaráð Reykjavíkur. Nefnd á vegum borgarinnar, komið á laggirnar 1968 en undir það heyrðu öll félags- og fjölskyldumál. Var lögð niður 2005 en eftir það annaðist Velferðarráð þessa málaflokka.

Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Stofnuð með samþykkt borgarstjórnar 1967. Fór með framfærslumál, barnavernd, húsnæðismál, málefni aldraðra og unglinga, heimilishjálp, áfengisvarnir og fleira. Helstu deildir hennar voru Fjármála- og rekstrardeild, Fjölskyldudeild og Öldrunarþjónustudeild. Fyrsti félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar var Sveinn Ragnarsson. Félagsmálastofnun starfaði til 1998 en þá var nafni hennar breytt í Félagsþjónustan í Reykjavík. Árið 2005 var svo stofnað Velferðarsvið Reykjavíkur (sjá) sem tók við hlutverki Félagsþjónustunnar. Aðalskrifstofa Félagsmálastofnunar var í Pósthússtræti 9 til 1970, flutti þá í Vonarstræti 4 þar sem hún var til 1990. Eftir það var hún til húsa í Síðumúla 39.

Félagsprentsmiðjan. Stofnuð 1890 af þeim Halldóri Þórðarsyni, sem varð fysti forstjórinn, Torfa Þorgrímssyni, Valdimar Ásmundssyni og Þorleifi Jónssyni. Var til húsa á Laugaveg 2 til 1917 en flutti þá í Ingólfsstræti. Þar var hún til 1963 að hún flutti á Spítalastíg 10 þar sem hún var til 1996. Síðustu árin var hún á Hverfisgötu 103 en rekstrinum var hætt 1999.

Félagsstofnun stúdenta. Sjálfseignarstofnun, tók til starfa árið 1968 og flutti 1971 í eigin nýbyggðt húsnæði við Hringbraut. Öll starfsemi Félagsstofnunarinnar flutti á Háskólatorg árið 2007.

Félagsþjónustan í Reykjavík. Sjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur.

Félagstún

Fiðurhreinsun Íslands. Stofnsett 1932 í Aðalstræti 9B. Hét Fiðurhreinsun KRON eftir 1946. Var flutt að Hverfisgötu 52 árið 1948 og rekið þar til 1958.

Fiðurhreinsun KRON. Sjá Fiðurhreinsun Íslands.

Filmur og vélar. Fyrirtæki stofnsett 1961 af þeim Gunnari J. Eyland og Jóhanni V. Sigurjónssyni. Annaðist viðgerðir á kvikmynda- og ljósmyndavélum, var með verslun því tengdu og leigði út kvikmyndir. Var á Freyjugötu 15 til 1964 en eftir það á Skólavörðustíg 41 til um 1987.

Filtertækni. Fyrirtæki sem sérhæfði sig í síum og hreinsitækni, stofnsett 1987 af Hinrik Morthens. Var í Sundaborg 7-9 til 1990, þá í Sundaborg 1 til 1994, í Vatnagörðum 26 til 1996 og þá í Vatnagörðum 28. Fyrirtækið flutti síðar í Kópavog.

Fimleikaráð Reykjavíkur

Finnbogabær. Torfbær, reistur 1799 af Finnboga Björnssyni þar sem nú er Grjótagata 10. Rifinn 1866 eða 1867.

Finnbogahús. Steinhús, byggt árið 1902, á erfðafestulandi á Arabletti við Kringlumýrarveg, taldist framan af til Laugavegs. Kennt við Finnboga Árnason.

Fischersbryggja. Upphaflega reist af C. P. A. Koch árið 1858 og var þá stærsta bryggjan í Reykjavík. Stækkuð mikið árið 1895 og var þá eina bryggja sem lítil gufuskip gátu lagst að. Lá beint niður undan Bryggjuhúsinu (sjá) á Vesturgötu 2. Lá gangur í gegnum húsið frá bryggjunni og upp í Aðalstræti. Bryggjan komst um 1860 í eigu Valdimars Fischer kaupmanns sem átti hana til 1904. Þá keypti fyrirtækið H. P. Duus verslunina og bryggjuna sem eftir það var kölluð Duusbryggja. Hún hvarf við hafnargerðina árið 1915.

Fischerssund. Gata í Grjótaþorpi milli Aðalstrætis og Garðastrætis, var áður hluti af Götuhúsastíg (sjá). Kennt við Waldemar Fischer (1822-1888) og er eina gatan í Reykjavík sem kennd er við danskan kaupmann.

Fischersverslun. Stofnsett 1859 af danska kaupmanninum Waldemar Fischer í Aðalstræti 2 og nálægum húsum. Rekin til 1904.

Fiskanaust. Er á Eyjarslóð 5 um 1990)

Fiskbúð Hafliða. Stofnsett 1917. Var nefnd Fiskverslun Hafliða Baldvinssonar fram til um 1980.  Var rekin á Bergþórugötu 43 frá um 1921 til 1928 en síðan á Hverfisgötu 123 til 2005. Samhliða var Saltfiskbúðin á Hverfisgötu 62 rekin á árunum 1930-1950  og nokkur útibú annars staðar. Einnig rak Hafliði frystihúsið Snæfell í Flosaporti á Klapparstíg 8 á kreppuárunum. Eftir 1980 hóf fyrirtækið fiskverkun og heildsölu á fiski og var til húsa eftir 1986 í verbúð á Grandagarði en eftir 1992 í eigin húsnæði á Fiskislóð 30 (áður 98). Fiskbúð Hafliða hætti rekstri undir  því nafni árið 2006.

Fiskhöllin. Fiskbúð og dreifingarmiðstöð á fiski sem rekja mátti til samstarfs fisksalanna Jóns Guðnasonar og Steingríms Magnússonar sem ófst á þriðja áratug 20. aldar.  Árið 1939 keyptu þeir tvílyft steinhús á horni Tryggvagötu og Norðurstíg og gáfu því þetta nafn. Þar var fiskhöllin rekin til 1973 og hafði einnig nokkur útibú um bæinn.

Fiskiðjuver ríkisins. Fullkomið frystihús og niðursuðuverksmiðja á Grandagarði 8, reist á árunum 1946-1947. Bæjarútgerð Reykjavíkur tók við húsunum 1959 og starfrækti þar frystihús til 1985.

Fiskiðn. Fagfélag fiskiðnaðarins.

Fiskifélag Íslands. Stofnað 1911 að frumkvæði áhuga- og forystumanna í sjávarútvegi. Fyrsti forseti félagsins var Hannes Hafliðason. Varð fljótlega ígildi opinberrar stofnunar enda ráðgjafaraðili stjórnvalda um sjávarútveg, sá um afurðaskýrslur, rak rannsóknastofu, hafði erindreka og ráðunauta í þjónustu sinni, stóð fyrir námskeiðum og gaf út tímaritið Ægir. Var á ýmsum stöðum þar til það reisti eigið hús, Fiskifélagshúsið við Ingólfsstræti 1, árið 1933. Þar var aðsetur þess til 2006.

Fiskifélagshúsið. Reist árið 1933 í Ingólfsstræti 1 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Þar hafði Fiskifélag Íslands aðsetur til 2006 og einnig Fiskistofa frá 1992. Viðbygging kom við húsið 1971 og það var hækkað um fimm hæðir 2007. Sama ár var Hótel Arnarhvoll opnað í húsinu.

Fiskimannasjóður Kjalarnesþings. Stofnaður 1830 handa ekkjum og börnum drukknaðra fiskimanna frá Reykjavík og Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Fiskimjöl. Fiskimjölsverksmiðja stofnuð í Laugarnesi (Kletti) árið 1929 af Einari Péturssyni og fleirum. Rekin til 1947 þegar Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan tók starfsemina yfir.

Fiskistofa. Opinber stofnun, sett á laggirnar 1992 til að hafa eftirlit með kvótakerfi og veiðum og afla upplýsinga um afla og meðferð sjávarafurða. Fyrsti forstöðumaður hennar var Þórður Ásgeirsson. Fiskistofa var í Ingólfsstræti 1 til 2006 en var þá flutt til Hafnarfjarðar.

Fiskkaup. Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, stofnað 1982 af Jóni Ásbjörnssyni og fjölskyldu. Áður hafði Jón Ásbjörnsson rekið fiskverkun undir eigin nafni. Frá upphafi keypti fyrirtækið fisk og selti hann saltaðan eða ferskan í gámum til útlanda. Félagið hóf útgerð eigin báta 1994 og er nú með útibú víða um land. Framan af var fyrirtækið til húsa í Grandaskála við Grandagarð, en frá 1993 til 2009 í skemmu sem byggð var fyrir Ríkisskip á Grófarbryggju. Frá 2009 er það að Eyjarslóð 34.

Fiskmarkaður Íslands. Stofnaður 2001 þegar Faxamarkaður og Fiskmarkaður Breiðafjarðar  sameinuðust. Fyrsti framkvæmdastjóri hans var Tryggvi Leifur Óttarsson. Í Reykjavík var markaðurinn til húsa í Faxaskála til 2006 en flutti þá í Bakkaskemmu í Vesturhöfninni.

Fiskmiðstöðin. Stofnuð árið 1956 af um 20 fisksölum í Reykjavík og var fyrsti stjórnarformaðurinn Ari Magnússon. Fyrirtækið annaðist heildsölu á ferskum og unnum fiski og hafði bátaútgerð á sínum snærum. Var fyrst til húsa á Grandagarði 43 en flutti 1964 í nýbyggingu í Örfirisey (Hólmgötu 4). Lagði upp laupana 1967.

Fisksala alþýðufélaganna. Stofnuð 1921 að frumkvæði Fulltrúaráðs verkalýsðfélaganna í Reykjavík . Framkvæmdastjórar hennar voru Eggert Brandsson og Jón Guðnason. Eignaðist vélbátinn Stakk sem gerður var út um tíma. Hætti 1925.

Fisksölutorgið. Fiskmarkaður, upphaflega rekinn af Hásetafélagi Reykjavíkur frá um 1916. Markaðurinn var fyrst rekin á opnu svæði þar sem Eimskipafélaghúsið reis síðar en á árunum 1919-1920 var markaðurinn á Ellingensplaninu. Árið 1920 lét hafnarnefnd Reykjavíkur reisa allmarga fisksölubása við sunnanverða Tryggvagötu og leigði þá einstökum fisksölum. Þar var Fisksölutorgið til um 1940.

Fiskveiðasjóður Íslands

Fiskverkunarstöð BÚR.  Komið á fót 1950 á Meistaravöllum við Kaplaskjólsveg með því að keyptir voru bandarískir herbraggar og settir þar upp. Þarna fór fram saltfisk- og skreiðarverkun auk síldarvinnslu og þjónusta við togara. Árið 1985 komst stöðin í eigu Granda hf en húsin voru rifin 1988 og reistar íbúðarblokkir á svæðinu. Á árunum 1987-1988 var ein skemman nýtt sem leikhús á vegum Leikfélags Reykjavíkur. Kallaðist það Listaskemma LR á Meistaravöllum.

Fiskverkunarstöð Halldórs Snorrasonar. Rekin á Gelgjutanga frá 1964 og fram yfir 1980.

Fífa. Verslun sem sérhæfir sig í vörum fyrir börn, stofnuð 1978. Var til 2003 að Klapparstíg 27 en eftir það á Bíldshöfða 20.

Fífuborg. Leikskóli að Fífurima 13 í Grafarvogi. Tók til starfa 1993 og stækkaður 1997.

Fíladelfía. Hvítasunnukirkjan að Hátúni 2a, vígð 1969.

Fíladelfíukirkjan. Sjá Hvítasunnukirkjan Fíladelfía.

Fínpússing. Fyrirtæki sem sérhæfir sig í hvers konar múrvöru. Stofnsett 1949 af Hannesi Ágústssyni og var til húsa í Dugguvogi 6 til ársins 2000 þegar það flutti í hafnarfjörð.

Fjalakötturinn. Mikið húsbákn í Aðalstræti 8. Upphaflega húsið á þessum stað var eitt af pakkhúsum Innréttinganna, reist 1765. Árið 1822 eignaðist Einar Hákonarson hattari húsið og var þá nefnt Hákonsenshús. Tengdasonur hans var Valgarð Ó. Breiðfjörð og byrjaði hann eftir 1874 að stækka húsið í áföngum. Síðasti áfangi árið 1893 var leikhús sem kallaðist Breiðfjörðsleikhús (sjá). En andstæðingum Valgarðs þótti byggingin glæfraleg og kölluðu hana Fjalaköttinn sem er annað orð fyrir músagildru. Festist það við allt húsið sem var rifið á árunum 1984-1985 eftrir mikil mótmæli. Sjá ennfremur Reykjavíkur Biograftheater.

Fjalakötturinn. Kvikmyndaklúbbur, stofnaður 1975 af Félagsstofnun stúdenta, Stúdentaráði HÍ og skólafélögum MH, MR og MT og starfaði til 1992. Sýningar voru í Tjarnarbíói. Árið 2007 var Fjalakötturinn endurvakinn í Tjarnarbíói en nú af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.

Fjall. Hús við Ásveg 16, erfðafestuland (sama húsið og er talið Kambsvegur 20 árið 1957?)

Fjallafari. Ferðaþjónustufyrirtæki, stofnsett 1995 af Ólafi B. Schram. Hefur sérhæft sig í ferðum um hálendi Íslands. (Var á Eyjarslóð 3 og með skrifstofu á Vesturgötu 52 árið 2010)

Fjallkonan, blað. Gefið út á árunum 1885-.

Fjallkonan. Kaffi og matsöluhús sem Kristín Jónsdóttir Dahlstedt stofnaði árið 1910 og var það næstu áratugi rekið á ýmsum stöðum í Reykjavík. Áður hafði hún rekið kaffihúsið Phönix á Laugavegi 68 á árunum 1906-1907. Upphaflega var Fjallkonan á Laugaveg 23 til 1917, þá á Laugaveg 20B frá 1917 til 1921, Laugaveg 49 frá 1922, Laugavegi 11 frá 1922 til 1928, eftir það á Skólavörðustíg 12 til 1931, Mjóstræti 6 frá 1932-1933 og  loks rak Kristín veitingastofu í Tryggvagötu 6 frá 1933 til 1947 en kallaði hana ekki Fjallkonuna heldur matstofuna Ægi sem oftast var þó nefnd Dalakofinn. Ennfremur var hún með veitingarekstur um skeið í Baldurshaga og á skeiðvellinum við Elliðaár.

Fjallkonuvegur. Vegur sem liggur um Foldahverfi í Grafarvogi. Nafngiftin, sem er frá 1983, er tekin úr kvæðinu Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen skáld en hann bjó í Gufunesi.

Fjarkinn. Veitingastaður í Austurstræti 4, rekinn 1970-1985.

Fjarsímastöð Landsíma Íslands. Reist í landi Gufunes árið 1935.

Fjárborg. Fjárhúsbyggð Reykvíkinga, var fyrst við Breiðholtsveg í svokallaðri Breiðholtsgirðingu frá 1953 til 1967 en síðar neðarlega í Hólmsheiði milli Almannadals og Mjóadals á móts við Rauðhóla.

Fjárhagsnefnd Reykjavíkur

Fjárhúshylir. Veiðistaðir í nyrðri kvísl Elliðaáa þar sem þær renna um Blásteinhólma. Hylirnir eru þar sem áin sveigir og hólminn mjókkar. Neðri hylurinn er beint niður af götunni Hlaðbæ í Árbæjarhverfi.

Fjáreigendafélag Reykjavíkur. Stofnað 1927 og var fyrsti formaðurinn Maggi Júl. Júlíusson. Hefur starfað síðan.

Fjárfestingafélag Íslands. Stofnsett 1971 af Iðnaðarbankanum, Verslunarbankanum, Samvinnubankanum, Framkvæmdasjóði, lífeyrissjóðum og fl. Annaðist fjármögnun og kaupleigu og stofnaði til verðbréfamarkaðar. Stofnaði einnig Frjálsa lífeyrissjóðinn 1978. Var í fyrstu í húsakynnum Iðnaðarbanka og SPRON en frá 1985 í Hafnarstræti 7. Starfaði til 1994.

Fjármála- og hagsýsludeild Reykjavíkur.

Fjóla. Konfektgerðin, stofnuð 1928 af Svanhildi Gissurardóttur. Framleiddi margs konar sælgæti og einnig var rekin veitingastofu á hennar vegum  á Vesturgötu 29 til um 1963. Var allra síðast á Bræðraborgarstíg 5.

Fjósaklettar. Klettar eða sker undan Akrinum í Gufunesi, beint í norður frá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi.

Fjósið. Sjá Menntaskólann í Reykjavík.

Fjós Innréttinganna. Reist um miðja 18. öld. Fékk síðar nafn af eigendum sínum, svo sem Bergmannsfjós, Petræusfjós og Biskupsfjós. Stóð í Aðalstræti 7, síðast notað sem íbúðarhús að hluta. Rifið 1846.

Fjöðrin. Bílavörubúð og framleiðsla á púströrum, stofnsett 1955 af Sigurbergi Pálssyni. Verslunin var á Hverfisgötu 58 til 1958, þá á Laugavegi 172 til 1972 en eftir það í Skeifunni 2. Verkstæðið var frá 1964 á Grensásvegi 5. Verslunin hætti 1998 en pústverkstæðið var áfram rekið og er nú í Dugguvogi 21.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Stofnaður 1975 og er til húsa í Austurbergi 5. Húsið er teiknað af Guðmundi Þór Pálssyni og Jóni Ólafssyni. Fyrsti skólameistarinn var Guðmundur Sveinsson.

Fjölbrautaskólinn við Ármúla. Stofnaður 1979 þegar Ármúlaskóli, sem var grunnskóli, var lagður niður. Hefur frá upphafi verið í Ármúla 12. Fyrsti skólameistari hans var Hafsteinn Stefánsson.

Fjölmennt. Fullorðinsfræðsla fatlaðra, símenntunar og þekkingarmiðstöð sem býður upp á fjölbreytt námskeið. Tók til starfa 2002 og er til húsa að Vínlandsleið 14.

Fjölnir. Ungmennafélag í Grafarvogi. Stofnað 1988 og hét fyrst Ungmenna- og íþróttafélagið Fjölnir. Fyrsti formaður þess var Guðmundur G. Kristinsson. Á vegum félagsins eru æfðar fjölmargar íþróttagreinar, ekki síst knattspyrna.

Fjölritunarstofa Daníels Halldórssonar.  Stofnsett 1927 og var í Hafnarstræti 15 til ársins 1961 en flutti þá á Ránargötu 19. Árið 1985 flutti fyrirtækið í Skeifuna 6 og annaðist þá alhliða prent- og fjölritunarþjónustu. Rann inn í Prentmet árið 2002.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn.  Húsdýragarðurinn í Laugardal tók til starfa 1990 og var lögð áhersla á að sýna þar íslensku húsdýrin en einnig villt dýr þegar frá leið. Í framhaldi var ákveðið að koma upp Fjölskyldugarði og sameina þessa tvo garða. Í Fjölskyldugarðinum var lögð áhersla á umhverfismál í leiktækjum og ævintýralandi. Hann var opnaður 1993. Meðal þess sem síðar hefur verið komið upp í garðinum er sjávardýrasafn og vísindaveröld.

Fjölvi. Bókaútgáfa.

Fjörgyn. Gata milli Hverafoldar og Logafoldar í Grafarvogi. Nafngiftin, sem er frá 1983, er tekin úr kvæðinu Veturinn eftir Bjarna Thorarensen skáld en hann bjó í Gufunesi.

FL Group. Sjá Flugleiðir.

Flassi. Hjáleiga eða þurrabúðarkot sem var í landi Brautarholts á Kjalarnesi.

Flágil. Örnefni í Stardal, athuga

Fleet Air Base Iceland (FABI) east camp. Sjá Camp Cook.

Fleet Air Base Iceland (FABI) west camp. Sjá Camp Maple Leaf.

Flekkudalur

Flensborgarhús. Reist árið 1793 í Hafnarstræti 14 af Det Flensborgske Interessentskab undir forystu Hans Thielsen skipherra. Í húsinu var rekin svokölluð Flensborgarverslun allt til ársins 1857. Húsið var gefið undir Barnaskóla Reykjavíkur og var hann þar frá 1864-1883 en húsið var þá rifið til að rýma fyrir nýju skólahúsi.

Flensborgarverslun. Ein af helstu verslunum í Reykjavík á árunum 1793-1857, til húsa í Hafnarstræti 14. Upphaflega stofnuð af Hans Thielsen skipherra frá Flensborg.

Flesjar. Sker suður af vestureynni í Viðey.

Fljótið. Sjá Krókahyljir.

Florida. Verslun og sjoppa sem rekin var á árabilinu um 1958 til 1983, fyrst á Hverfisgötu 69 en frá um 1963 á Hverfisgötu 74. Athuga betur, virtðist vera enn 1994.

Flosaport. Sjá Rúllu- og hleragerð Reykjavíkur.

Flowers. Ein af vinsælustu popphljómsveitum landsins sem starfaði á árunum 1967-69 og dró nafn sitt af blómabyltingunni (hippum). Stofnendur voru Arnar Sigurbjörnsson, Jónas R. Jónsson, Karl Sighvatsson, Rafn Haraldsson og Sigurjón Sighvatsson.

Flóðará. Sjá Gljúfurá.

Flóra. Blómabúð, stofnsett 1932 af systkininum Rögnu og Ingimar Sigurðarbörnum. Var fyrst á Vesturgötu 17 en síðan á þremur stöðum við Austurstræti, nr. 1 til 1936,nr. 7 frá 1936-1943 og loks í Austurstræti 8 frá 1943. Árið 1963 flutti Flóra í Aðalstræti 8 þar sem hún var til um 1975, eftir það var hún í Hafnarstræti 16 fram til 1984 en síðast á Langholtsvegi 89 frá 1984 til um 1986.

Flugbarinn. Kaffitería, rekin í húsakynnum Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli frá 1952.

Flugfélag Íslands. Hið elsta með þessu nafni, stofnað 1919. Starfaði til 1921 og hafði flugvöll og skýli í Vatnsmýri.

Flugfélag Íslands. Annað félagið með þessu nafni, starfaði á árunum 1928-1931. Framkvæmdastjóri félagsins var Alexander Jóhannesson. Það byggði flugskýli í Vatnagörðum og rak eingöngu sjóflugvélar.

Flugfélag Íslands. Hið þriðja með þessu nafni. Var upphaflega stofnað 1937 sem Flugfélag Akureyrar en því nafni var breytt 1940 þegar félagið flutti til Reykjavíkur. Fyrsti forstjóri félagsins var Agnar Kofoed-Hansen. Félagið byggði flugskýli í Shellvík við Skerjafjörð árið 1938 og rak sjóflugvélar til að byrja með. Félagið annaðist frá 1941 áætlunarflug innanlands og frá 1952 var það eitt um hituna í innanlandsfluginu með miðstöð á Reykjavíkurflugvelli. Frá 1945 rak það einnig millilandaflug. Félagið sameinaðist Loftleiðum 1973 og hét hið sameinaða félag Flugleiðir.

Flugfélag Íslands. Hið fjórða með þessu nafni. Stofnað 1997 eftir sameiningu innanlandsdeildar Flugleiða og Flugfélags Norðurlands. Fyrsti forstjóri félagsins var Páll Halldórsson. Fyrirtækið varð rekstrareining innan FL Group frá 2005 en er nú hluti af Icelandair Group. Höfuðstöðvar félagsins eru á Reykjavíkurflugvelli og annast það innanlandsflug auk Færeyja- og Grænlandsflugs.

Flügger. Sjá Harpa.

Flugleiðir.  Stærsta flugfélag Íslands sem varð til með sameiningu Flugfélags Íslands og Loftleiða árið 1973. Kallað Icelandair á alþjóðavettvangi. Fyrsti forstjóri félagsins var Örn Johnsson. Nafni félagsins var breytt í FL Group árið 2005 sem varð eignarhaldsfélag en eitt af dótturfélögum var Icelandic Group sem hafði með höndum flugrekstur og fl. Það varð að sjálfstæðu félagi árið 2006 en undir það heyra m.a. Flugfélag Íslands, ferðaþjónusta og hótelrekstur.

Flugmálafélag Íslands. Stofnað í Reykjavík 1936 til að vekja áhuga á flugmálum og nauðsyn flugsamgangna. Fyrsti formaður félagsins var Agnar Kofoed-Hansen. Félagið hefur starfað æ síðan og regnhlífasamtök félaga og klúbba sem tengjast flugi á Íslandi. Það hefur aðsetur í gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli.

Flugmálastjórn Íslands.  Sett á laggirnar 1945 með lögum um flugvelli og stjórn flugmála. Flugumferðarstjórn varð síðan hluti af verkefnum hennar. Fyrsti flugmálastjórinn var Erling Ellingsen. Höfuðstöðvar Flugmálastjórnar voru fyrst í stað í Garðastræti 2 en síðan í gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli og bragga undir Öskjuhlíð. Árið 1963 flutti flugmálastjórn í nýja flugturninn og árið 1994 bættist ný bygging við á flugvellinum, oft kölluð Nýja flugstjórnarmiðstöðin. Árið 2007 færðist hluti af verksviði Flugmálastjórnar til félagsins Flugstoða.

Flugskálavegur. Lá frá Kleppsvegi vestan við Vatnagarða, þar sem nú er Sundahöfn. Nafn götunnar var ákveðið 1930.

Flugskýlið í Vatnagörðum. Stórt flugskýli sem reist var í Vatnagörðum (sjá) árið 1930 fyrir tilstuðlan Flugfélags Íslands nr. 2 með því nafni og Reykjavíkurhafnar. Félagið fór á hausinn árið eftir og var flugskýlið á næstu árum lítið notað nema af erlendum flugmönnum sem flugu um Ísland á leið yfir Atlantshafið. Flugsveit Balbos flugmálaráðherra Ítalíu sem kom til Reykjavíkur með flugsveit sína sumarið 1933 fékk t.d. flugskýlið til afnota og var það oft kallað Balboflugskýlið eftir það. Árið 1940 tók breska hernámsliðið skýlið og kallaðist það þá Balbo Hangar. Flugfélagið Loftleiðir hóf starfsemi sína í skýlinu 1944 en fyrsta flugvél þess var sjóflugvél. Eftir stríð voru í skýlinu fyrirtæki á borð við Húsasmiðjuna (sjá) og Björgun (sjá). Flugskýlið var rifið 1974 vegna framkvæmda við Sundahöfn en endurreist síðar á Hnjóti í Örlygshöfn á Patreksfirði þar sem það hýsir flugminjasafn.

Flugstoðir.  Sjá Ísavía.

Flugturninn. Gamli flugturninn á Reykjavíkurflugvelli var reistur af breskum hemrálayfirvöldum haustið 1940 og gengdi miklu hlutverki í orustunni um Atlantshaf. Eftir stríð var hann ásamt flugvellinu afhentur Íslendingum og gegndi mikilvægu hlutverki fyrir flugstjórn. Í turninum var meðal annars fyrsta slökkviliðsstöð Reykjavíkurflugvallar. Árið 1963 var svo nýr flugturn reistur þar skammt frá og tók hann við hlutverki hins gamla.

Flugvallarbraut. Gata sem lögð var á stríðsárunum frá gatnamótum Hringbrautar og Snorrabrautar (Miklatorgi) að Flugturninum og öðrum mannvirkjum við austanverðan Reykjavíkurflugvöll. Einnig nefnd Flugvallarvegur. Gatan var að mestu aflögð eftir 1965.

Flugvallarkampur. Braggahverfi við Flugvallarveg, vestan Valsvallarins að Hlíðarenda. Einnig nefnt Camp Daniel Boone. Þar voru 11 braggar með 52 íbúum árið 1952. Síðast var búið þar 1966.

Flugvallarvegur. Gata sem liggur frá Skógarhlíð að Nauthólsveg.

Flutningamiðlunin. Stofnsett 1980 í samstarfi við hollenskt fyrirtæki og gerðist brautryðjandi í alþjóðlegri flutningamiðlun á Íslandi. Stofnandi fyrirtækisins var Steinn Sveinsson. Sameinaðist Jónum árið 1995 undir nafninu Flutningamiðlunin Jónar.

Flúðir. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Flytjandi. Dótturfélag Eimskipafélags Íslands sem sér um landflutninga. Stofnsett 2000 en var undir Vöruflutningamiðstöðinni til 2002. Hefur frá upphafi haft aðsetur í Klettagörðum 15-17.

Flöskubúðin. Rekin á Bergstaðastræti 10 frá um 1938 til um 1958. Keypti notaðar flöskur.

Flöt. Hús við Sundlaugaveg.

Foldaborg. Leikskóli að Frostafold 33. Tók til starfa 1986.

Foldahverfi. Hverfi í Grafarvogi upp af sjálfum Grafarvoginum norðanverðum. Heiti gatna þarna voru ákveðin 1983 og flest sótt í kvæði Bjarna Thorarensen eða hugmyndaheim hans en Bjarni bjó um árabil í Gufunesi. Þetta á við um götuheitin Gullinbrú, Fjallkonuveg, Fjörgyn og Vetrarbraut en einnig að nokkru um götur sem enda á –fold. Þær eru Austurfold, Fannafold, Frostafold, Funafold, Hverafold, Jöklafold, Logafold, Reykjafold og Vesturfold.

Foldakot. Leikskóli að Logafold 18 í Grafarvogi. Tók til starfa 1992.

Foldasafn. Útibú Borgarbókasafns Reykjavíkur í Grafarvogskirkju, stofnað 1996.

Foldaskóli. Grunnskóli að Logafold 1, tók til starfa 1985. Fyrsti skólastjóri hans var Arnfinnur Jónsson.

Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra. Stofnað í Reykjavík 1966 og var fyrsti formaður þess Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Foreldrahúsið. Hús sem foreldrasamtökin Vímulaus æska hafa rekið frá árinu 2000, fyrst í Vonarstræti 4B en frá 2008 í Borgartúni 6.

Foreldrasamtök misþroska barna. Sjá ADHD samtökin.

Forlagið. Bókaútgáfa, stofnuð af Jóhanni Páli Valdimarssyni árið 1984. Var til húsa á Frakkastíg 6A til 1988 en flutti þá á Ægisgötu 10. Mál og menning keypti fyrirtækið 1990 og var það síðan á Laugavegi 18 en eftir 2000 undir Eddu útgáfu á Suðurlandsbraut 12. Árið 2007 sameinuðust JPV-útgáfa, Mál og menning, Vaka-Helgafell og Iðunn undir nafni Forlagsins og varð þá Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi þess á ný en Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri. Hið sameinaða fyrirtæki hefur síðan verið til húsa á Bræðaraborgarstíg 7.

Formax.  Iðnaðarfyrirtæki sem sérhæfði sig í framleiðslu á búnaði fyrir sjávarútveg og matvælafyrirtæki. Stofnsett 1987 af þeim Birgi Bjarnasyni og Ólafi Sigmundssyni. Var á Mýrargötu 2 frá 1990 og síðan í Faxaskála frá 1996. Mun hafa hætt um 2003. (athuga betur)

Formprent.  Prentsmiðja, stofnuð um 1962. Hefur frá 1979 verið á Hverfisgötu 78. (athuga)

Forngripasafnið. Sjá Þjóðminjasafn Íslands.

Forni. Bókaútgáfa, stofnuð af Sigurði Arnalds 1943, fyrst einkum til að gefa út fornsögur en síðan aðrar bækur. Starfaði til um 1976.

Forsetahola. Veiðistaður í Elliðaám neðst í Beygjunni bak við Toppstöðina, kennd við Ásgeir Ásgeirsson forseta Íslands.

Forstjórahús Innréttinganna. Myndarlegt timburhús með háu risi í Aðalstræti 9, reist 1756-1757. Síðar var þetta hús kallað Bergmannstofa og enn síðar Landsprentsmiðjan en hún var þar til húsa eftir 1844. Húsið var rifið 1902.

Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar.

Fort Phelps. Sjá Batteríið.

Forvarna- og framfarasjóður Reykjavíkurborgar

Foss. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Foss. Verslunin. Opnuð á Laugaveg 12 árið 1927 af Kristjáni Jónssyni. Rekin þar og síðan frá 1931 á Laugaveg 12 til um 1938. Upp úr 1960 kom svo verslun með þessu nafni í Stórholti 1, síðar í Bankastræti 2 og var rekin þar til um 1979.

Fossagata. Gata í Litla Skerjafirði, tengist áformum fossafélagsins Titan um virkjun Þjórsár en félagið hugðist reisa áburðarverksmiðju í Skerjafirði.

Fossaleynisfossar. Fossar í Úlfarsá (Korpúlfssaðaá) undir Keldnaholti.

Fossberg. Vélaverslun, stofnsett 1927 af Gunnlaugi Fossberg og hét þá G. J. Fossberg. Var fyrstu áratugina til húsa í Vesturgötu 3 en flutti að Skúlagötu 63 árið 1965 og var þar til ársins 1999. Var síðan á Suðurlandsbraut 14 uns það flutti í núverandi húsnæði í Dugguvogi 6 árið 2004.

Fossbrún. Veiðistaður í Elliðaám, rétt ofan Sjávarfoss.

Fossgil. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf).

Fossholt. Holt vestan Hafravatns og sunnan Úlfarsár

Fossinn. Örnefni þar sem lækur rennur fram klettastalla í Vallárgili í Esju.

Fosskvörn. Veiðistaður í eystri kvísl Elliðaáa, nú undir Elliðaárbrúm.

Fossnes. Nes sem áin Bugða (Hólmsá) lykjast um við Suðurlandsveg, skammt austan við mynni Almannadals. Þar voru landamerki Grafarholts og Hólms. Tvo sumarhús voru í Fossnesi.

Fossvallarétt. Rétt ofan við Lækjarbotna. Réttin var gerð árið 1957 sem sundurdráttarrétt fyrir sauðfé Reykvíkinga, Seltirninga og Kópavogsbúa. Eftir 1986 einnig notuð til rúnings og fleira.

Fossvogsbakkar. Svæðið við ströndina norðan Fossvogs frá Nauthólsvík og inn í botn vogsins.

Fossvogsblettir. Um 55 erfðafestulönd á fyrri hluta 20. aldar sem lágu niður í Fossvogsdal sunnan Bústaðavegar milli Hafnarfjarðarvegar og Réttarholtsvegar.

Fossvogsdalur. Dalurinn sem gengur upp af Fossvogi, milli Bústaðaháls og Kópavogsháls.

Fossvogshverfi. Hverfi sem skipulagt var um 1964 af arkitektunum Gunnlaugi Halldórssyni, Guðmundi Kr. Kristinssyni og Manfred Vilhjálmssyni.  Hverfið byggðist á árunum eftir 1966 og er neðst í norðurhlíð Fossvogsdals. Það afmarkast af Háaleitisbraut, Sléttuveg, Bústaðaveg, Blesugróf og Fossvogslæk og er nú hluti af Háaleitis- og Bústaðahverfi. Nöfn gatna í hverfinu enda á –land. Þær eru Aðalland, Akraland, Áland, Álfaland, Álftaland, Ánaland, Árland, Bjarmaland, Brautarland, Brúnaland, Búland, Dalaland, Efstaland, Eyrarland, Gautland, Geitland, Giljaland, Goðaland, Grundarland, Haðaland, Helluland, Hjallaland, Hulduland, Hörðaland, Hörgsland, Kelduland, Kjalarland, Kúrland, Kvistaland, Láland, Ljósaland, Logaland, Markland, Ósland, Seljaland, Snæland, Sævarland, Traðarland, Urðarland og Vogaland.

Fossvogskirkja. Útfararkirkja við Fossvogskirkjugarð, teiknuð af Sigurði Guðmundssyni og vígð 1948.  Kirkjan er í eigu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis. Kapella við norðausturhorn kirkjunnar var vígð 1983 en einnig eru líkhús, bálstofa og bænhús fyrir kistulagningar og fámennar athafnir í tengslum við kirkjuna.

Fossvogskirkjugarður. Garðurinn er við norðanverðan Fossvog austan í Öskjuhlíð og er alls 28 hektarar að stærð. Sérstakur duftgarður er hluti af garðinum. Fyrst var grafið í Fossvogskirkjugarði 1932 og var hann aðalkirkjugarður Reykvíkinga þar til Gufuneskirkjugarður var tekinn í notkun árið 1980.

Fossvogslögin. Setlög sem þekja berggrunnin inn með Fossvogi og koma fram í húsgrunnum kring um Reykjavíkurflugvöll og víða um Vesturbæinn.

Fossvogslækur. Lítill lækur sem kemur úr lækjardrögum sem áttu upptök sín í Faxakeldu og Lómatjörn í Fossvogsmýri og einnig Borgarmýri sunnan Grensáss. Lækurinn rennur í Fossvog og er nokkurn veginn á landamerkum Reykjavíkur og Kópavogs.

Fossvogsmýri.  Mýrasvæði sem var vestan við Faxakeldu innarlega í Fossvogsdal.

Fossvogsskóli. Grunnskóli (svokallaður opinn skóli) að Haðalandi 26 og Neðstalandi, stofnaður 1971. Skólinn var teiknaður af Gunnari Hanssyni en síðari viðbyggingu teiknaði Helga Gunnarsdóttir. Fyrsti skólastjóri Fossvogsskóla var Kári Arnórsson.

Fossvogsstöðin.  Einnig kölluð Skógræktarstöðin í Fossvogi. Árið 1932 hóf Skógræktarfélag Íslands plöntu- og skógrækt í landi sem Reykjavíkurbær úthlutaði félaginu neðst í Fossvogi, beint fyrir neðan þar sem Borgarspítalinn reis síðar. Árið 1946 tók Skógræktarfélag Reykjavíkur stöðina yfir og var þar síðan aðalstarfsemi þess, ræktun og plöntusala, og var svæðið orðið 13 hektarar árið 1968. Árið 1994 var Fossvogsstöðin skilin frá Skógræktarfélaginu af samkeppnisástæðum og árið 2000 keypti Reykjavíkurborg stöðina og gerði hana að ræktunarstöð sinni. Á reitnum (nú Fossvogsvegi 2) stendur vinnuskáli frá 1951 sem árið 1963 var stækkaður og breytt í skrifstofuhús. Á næsta bletti við Skógræktarfélagið (Fossvogsbletti 2) hóf Hermann Jónasson ráðherra trjárækt á sama tíma og þar stendur enn sumarbústaður hans frá 1934 (Fossvogsblettur 2A).

Fossvogsvegur. Liggur neðarlega í Fossvogsdal í hverfinu neðan við Borgarspítalann. Gengur til vesturs frá Eyrarlandi. Fossvogavegur var upphaflega lagður árið 1935 og lá þá frá Hafnarfjarðarvegi og inn eftir dalnum.

Fossvogur.  Gengur norðan megin inn úr Skerjafirði milli Öskjuhlíðar og Digraness.

Fóðurblandan. Stofnsett 1960 í þeim tilgangi að kaupa, blanda og selja kjarnfóður fyrir búfé. Var til húsa á Grandavegi 42 til 1986 en flutti þá að Korngörðum 12 þar sem reist var fóðurblöndunarstöð og hveitimylla.

Fóður- og áburðarverksmiðjan.

Fógetinn. Krá og matsölustaður í Aðalstræti 10, stofnaður 1984 af Einari Óskarssyni. Vinsæll tónaleikastaður. Rekin til 2001.

Fókus. Félagsmiðstöð við Kirkjustétt í Grafarholti. Opnuð 2003.

Fólkvangur. Félagsheimili Kjalnesinga, byggt eftir teikningu Skarphéðins Jóhannssonar og tekið formlega í notkun 1967.

Fóstbræður. Karlakór. Hér upphaflega Karlakór KFUM og má rekja upphaf hans til ársins 1911 þegar sönghópur innan KFUM tók til starfa. Formlega tók hann þó til starfa með tilkomu Jóns Halldórssonar söngstjóra árið 1916.  Árið 1936 breyttist nafnið og varð Karlakórinn Fóstbræður. Félagsheimili Fóstbræðra að Langholtsvegi 109 var tekið í notkun 1972.

Fóstruskóli Sumargjafar. Sjá Fósturskóli Íslands.

Fósturskóli Íslands. Stofnaður 1946 og hét upphaflega Uppeldisskóli Sumargjafar, síðar Fóstruskóli Sumargjafar. Fyrsti skólastjórinn var Valborg Sigurðardóttir. Árið 1974 var skólinn gerður að ríkisskóla og hét eftir það Fósturskóli Íslands. Hann var lagður niður 1998 þegar hann varð hluti Kennaraháskólans. Framan af var Fósturskólinn í Grænuborg við Hringbraut, þá á Fríkirkjuvegi 11 frá 1964-1969, í Lækjargötu 14B frá 1969-1975, Skipholti 37 frá 1975-1979 en eftir það við Leirulæk (áður húsnæði Laugalækjarskóla).

Frakkastígur. Gata sem liggur frá Skúlagötu og upp á Skólavörðuholtið,  gatan var lögð árið 1903 og síðan nefnd eftir Franska spítalanum sem byggður var 1904 neðst við götuna.

Frakkland. Lítill almenningsgarður með bekkjum og gróðri, efst við Frakkastíg, skammt frá Hallgrímskirkju,

Fram, knattspyrnufélag

Fram, stjórnmálafélag heimastjórnarmanna, stofnað 1905.

Fram. Verksmiðjan, stofnuð 1940 af Magnúsi Víglundssyni og fleirum. Framleiddi skyrtur, nærfatnað og fleira. Var fyrst til húsa í Austurstræti 10 til 1948, þá að Laugavegi 118 (116) til 1954 og loks að Bræðraborgarstig 7 frá 1954 til um 1965.

Framfarafélag Breiðholts III. Íbúasamtök Fella- og Hólahverfa. Stofnuð 1973 til að vinna að menningar- og framfaramálum en lítið hefur borið á þeim eftir 1986.

Framfarafélag Breiðholtshverfis. Stofnað 1953 til að vinna að menningar- og framfaramálum hverfisins en þá var byggðin einungis í Blesugróf. Fyrsti formaður félagsins var Adolf J. E. Petersen. Starfaði í nokkur ár.

Framfarafélagið í Mjódd. Félag rekstraraðila.

Framfarafélag Reykjavíkur. Stofnað 1889 til að auka áhuga á sjávar- og landvinnu og ýmsu öðru sem miðar til hagsmuna jafnt fyrir einstaklinginn sem þjóðfélagið í heild sinni. Starfaði í nokkra áratugi og var um skeið fjölemnnasta félag bæjarins, einkum þegar það var undir stjórn Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Samkomuhús þess var Framfarafélagshúsið (sjá) á Vesturgötu 53B.

Framfarafélag Selás- og Árbæjarhverfa. Stofnað 1954 og hét upphaflega Framfarafélag Selás- og Árbæjarbletta. Beitti sér fyrir margs konar umbótum, svo sem vatnslögn, skólahaldi, leikvelli, síma, strætisvagnaferðum, auk þess sem það stóð fyrir skemmtunum og öðru félagslífi í eigin félagsheimili, Framfarafélagshúsinu. Lítið hefur borið á félaginu eftir 1992.

Framfarafélag Vogahverfis.

Framfarafélagshúsið. Lítið hús sem Framfarafélag Reykjavíkur lét reisa árið 18?? að Vesturgötu 53B. Stendur þar enn.

Framfarafélagshúsið.  Samkomuhús Framfarafélags Selás- og Árbæjarhverfa á Árbæjarbletti, stóð nálægt gatnamótum Hlaðbæjar og Rofabæjar. Í húsinu var Árbæjarskóli til húsa á árunum 1955-1966.

Framfara- og menningarfélagið Laugaholt. Stofnað sem samtök íbúa í Kleppsholti 1947 og var Jón Pálsson formaður. Mun ekki hafa starfað í mörg ár.

Framfarasjóður B.H.Bjarnason. Stofnaður 1935 til styrktar stúdentum, verslunarmönnum og iðnaðarmönnum erlendis.

Framfærslunefnd Reykjavíkur. Varð til árið 1936 og haðfi það hlutverk að annast framfærslumál sem Fátækranefnd hafði áður annast. Framfærslunefnd var lögð niður árið 1968 og tók þá Félagsmálaráð Reykjavíkur við hlutverki hennar.

Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar. Stofnsett 2008 og tók þá við hlutverki Framkvæmdasviðs og Skipulagssjóðs Reykjavíkur. Lagt niður 2012 þegar stafsemi þess var annars vegar ært undir Umhverfis- og skipulagssvið og hins vegar undir skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar.

Framkvæmdastofnun ríkisins. Stofnuð 1971 til að vera ríkisstjórninni til aðstoðar við stefnumótun í atvinnu- og efnahagsmálum. Jafnframt sá hún um Byggðasjóð sem stofnaður var sama ár. Þriggja manna framkvæmdaráð stjórnaði stofnunni og voru þeir fyrstu í því Bergur Sigurbjörnsson, Guðmundur Vigfússon og Tómas Árnason. Árið 1981 flutti Framkvæmdastofnun í nýtt og glæsilegt hús sem hún hafði látið byggja á Rauðarárstíg 25. Stofnunin var lögð niður 1985 þegar Byggðastofnun var komið á fót.

Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar. Varð til árið 2005 þegar nafni Umhverfis- og tæknisviðs var breytt. Fyrsti forstöðumaður þess var Hrólfur Jónsson. Nafninu var breytt í Framkvæmda- og eignasvið árið 2008.

Frami. Stéttarfélag leigubílstjóra í Reykjavík, stofnsett 1934, Hét Bifreiðastjórafélagið Hreyfill til 1959. Fyrsti formaður félagsins var Bjarni Bjarnason. Frá 1957 var félagið í eigin húsnæði að Freyjugötu 26 en flutti að Fellsmúla 26 upp  úr 1980.

Framnes, Hús við Framnesveg 7. Upphaflega var hér steinbær með þessu nafni, reistur 1891 af Snæbirni Jakobssyni (athuga) en í stað hans var reist samnefnt núverandi hús árið 1897.

Framnesvegur. Liggur frá Vesturgötu og upp á Bráðræðisholt. Kallaður Bráðræðisvegur um 1880 en 1888 var farið að kalla hann Framnesveg sem merkir vegurinn fram á nes. Seltjarnarnes var á þeim tíma kallað Framnes og þeir sem þar bjuggu Framnesingar.

Framnesvöllurinn. Knattspyrnuvöllur á milli Sólvallagötu, Framnesvegar og Hringbrautar þar sem nú er hús Vesturbæjarskólans. Þar voru um áratugaskeið einhver helsti æfingavettvangur upprennandi knattspyrnustjarna í KR. Völlurinn vék fyrir skólanum 1986.

Framsókn. Verkakvennafélag, stofnsett fyrir forgöngu Kvenréttindafélags Íslands árið 1914. Fyrsti formaður félagsins var Jónína Jónatansdóttir. Framsókn var lögð niður árið 1999 þegar Efling varð til.

Framsókn og flugvallarvinir. Stjórnmálasamtök innan Framsóknarflokksins sem buðu fram undir þessu heiti fyrir borgarstjórnarkosningar 2014 og náðu tveimur kjörnum fulltrúum.

Framsóknarfélag Reykjavíkur.  Stofnað 1924 og hefur starfað síðan. Fyrsti formaður þess var Hallgrímur Hallgrímsson bókavörður.

Framsóknarhúsið. Skrifstofur og félagsheimili Framsóknarmanna sem opnaðar var að Fríkirkjuvegi 7 (Íshúsinu Herðubreið) árið 1958. Sjá Glaumbær.

Framtalsnefnd Reykjavíkurborgar

Framtíðin. Málfundafélag Menntaskólans í Reykjavík, stofnað 1883. Fyrsti formaður félagsins var Valtýr Guðmundsson.

Framtíðin. Ullarverksmiðja og samnefnd ullarvöruverslun. Stofnsett 1925 af Boga A. J. Þórðarsyni. Starfrækt til 1974 og var alla tíð til húsa á Frakkastíg 8 nema verslunin var flutt á Laugaveg 45 árið 1953 og var rekin þar til um 1986.

Framvöllurinn. Fyrsti knattspyrnuvöllurinn sem Knattspyrnufélagið Fram eignaðist var í gamalli grjótnámu norðan Sjómannaskólans. Var hann í notkun á árunum 1945-1972. Frá 1972 hefur Framvöllurinn verið í Safamýri.

Franch Michelsen. Úraverslun og verkstæði, stofnuð árið 1940 og var til húsa að Laugavegi 39 en flutti að Laugavegi 15 árið 1993.

Franski spítalinn. Reistur 1904 við Lindargötu 51 af frönsku góðgerðarfélagi í Dunkerque, ætlaður frönskum sjómönnum að veiðum við Ísland. Spítalinn var rekinn með hléum til 1927, síðustu árin af bæjarstjórn Reykjavíkur. Síðan hefur lengst af verið skólahald í húsinu. Þar var Gagnfræðaskólinn í Reykjavík, Gagnfræðaskólinn við Lindargötu og loks Tónmenntaskóli Reykjavíkur. Frakkastígur dregur nafn af spítalanum.

Frederikssensbryggja. Sjá Björnsbryggja.

Frederiksens timburverslun. Sjá Timbur- og kolaverslunin Reykjavík.

Freyja. Sælgætis- og efnagerð, stofnsett 1918 af Magnúsi Þorsteinssyni og fleirum. Var til húsa að Vesturgötu 20 til um 1921 en flutti þá á Túngötu 2 þar sem fyrirtækið var til um 1934. Þá flutti það að Lindargötu 14 og árið 1943 í nýbyggingu að Lindargötu 12 þar sem það var til 1981 að það flutti í Kópavog.

Freyja. Þvottakvennafélagið. Stofnað 1932.

Freyjugötuleikvöllurinn

Friðarsúlan í Viðey. Listaverk eftir Yoko Ono, tileinkað minningu John Lennon. Vígt á afmælisdegi hans 9. október 2007.  Friðarsúlan (Imagine Peace Tower) er leisergeisli sem ávallt er tendruð á afmælisdegi Lennons hvert ár og látið loga á henni fram í desember.

Friðheimar. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf).

Friðrik Magnússon & Co.  Umboðs- og heildverslun, stofnuð 1916 af þeim Friðriki K. Magnússyni, Friðriki Gunnarssyni og fleirum. Sérhæfði sig í vélum og bátaútbúnaði. Var í Austurstrtæti 7 fyrstu árin, þá í Pósthússtræti 17 en frá um 1930 til um 1940 á Grundarstíg 11. Eftir það á Vesturgötu 33 þar til fyrirtækið hætti eftir 1980.

Friðrikshús. Sjá Smiðjan.

Friðrikskapella. Minningarkapella séra Friðriks Friðrikssonar að Hlíðarenda undir Öskjuhlíð. Í eigu KFUM, KFUK, Knattspyrnufélagsins Vals og Skátasambands Reykjavíkur. Vígð árið 1993.

Friðrikubær. Sjá Bali.

Friðsteinshús. Sjá Skálholt.

Frigg. Útgerðarfélag, stofnað 2002 af Gunnari I. Hafsteinssyni en áður hafði Gunnar stundað útgerð á togurum og bátum í Reykjavík frá árinu 1971. Var með skrifstofu í Hafnarhvoli 2002.

Fríðuhús. Árið 1997 gaf Pétur Símonarson hús sitt að Austurbrún 31 til FAAS – félags aðstandenda alzheimersjúklinga.  Húsið var gefið í minningu Fríðu Ólafsdóttur, eiginkonu Péturs. Frá 2001 hefur  FAAS rekið dagþjálfun í húsinu fyrir Alzheimersjúklinga og kallar það Fríðuhús. Fyrsti forstöðumaður hússins var Hildur Reynisdóttir.

Fríkirkjan í Reykjavík. Kirkja við Fríkirkjuveg, vígð 1903 og var hún teiknuð af Sigvalda Bjarnasyni en Rögnvaldur Ólafsson teiknaði viðbyggingu frá 1905.  Kórinn aftan við kirkjuna var svo teiknaður af Einari Erlendssyni 1924.

Fríkirkjuvegur. Gatan meðfram austurbakka Tjarnarinnar, dregur nafn sitt af Fríkirkjunni sem reist var 1903.

Fríkirkjusöfnuðurinn. Lútherskur söfnuður utan þjóðkirkjunnar, stofnaður 1899 í þeim tilgangi að efla og útbreiða frjálsan kristindóm. Hann eignaðist sína eigin kirkju, Fríkirkjuna, árið 1903. Fyrsti prestur safnaðarins var séra Lárus Halldórsson.

Frímerkjamiðstöðin. Sérverslun með safnaraefni, spil o.fl. Stofnuð 1964 af Magna R. Magnússyni og fleirum. Var til 1968 á Týsgötu 1, en eftir 1968 lengst af á Skólavörðustíg 21A. Hætti um 2003.

Frímúrarahreyfingin

Frímúrarahúsið.

Frístundaheimili ÍTR. Rekin við alla grunnskóla Reykjavíkur til að bjóða upp á fjölbreytt frístundastarf þegar skóladegi lýkur. Hið fyrsta, Bakkasel, tók til starfa við Breiðholtsskóla  árið 2001.

Frístundamiðstöðin Miðberg.

Frístælkeppnin. Íslandsmeistarakeppni unglinga í frjálsum dansi.

Frjálslyndi söfnuðurinn í Reykjavík. Stofnaður 1941.

Frjálst framtak. Útgáfufyrirtæki, stofnað af Jóhanni Briem árið 1967. Fyrstu árin gaf fyrirtækið út tímaritið Frjálsa verslun en síðar fleiri tímarit. Magnús Hreggviðsson keypti fyrirtækið árið 1982. Árið 1989 tók Fróði við útgáfgustarfsemi Frjáls framtaks sem sinnti eftir það um fá ár fasteignaumsvifum og byggingarstarfsemi.

Frostaskjól. Félagsmiðstöð sem opnuð var við KR-heimilið árið 1986 á vegum KR og Reykjavíkurborgar.

Frostastaðalind. Eitt af vatnsbólum Reykvíkinga, var í landi Frostastaða þar sem nú er Lindargata 63.

Frostastaðavör. Niður undan Vitastíg, einnig nefnd Helgastaðavör. Löngu horfin undir uppfyllingar.

Frostastaðir. Steinbær sem Þórarinn Þórarinsson reisti árið 1884 þar sem nú er Lindargata 63. Stóð fram á 20.öld.

Fróði. Bókaútgáfan, stofnsett 1951 af Þorvaldi Sigurðssyni.

Fróði. Blaða- og bókaútgáfa.

Frón. Kexverksmiðja, stofnsett 1926 af Eggert Kristjánssyni, Jóni Laxdal, Ágústi Jóhannessyni og Hirti Ingþórssyni. Var til húsa á Njálsgötu 10 allra fyrst en síðan á Laufásvegi 13 (Betaníu) til 1931. Árið 1932 flutti hún að Grettisgötu 16-18. Verksmiðjan flutti í eigið húsnæði við Skúlagötu 28 árið 1936 og þar var hún til 2007. Frá þeim tíma hefur hún verið að Tunguhálsi 11 .

Frum. Fyrirtæki, stofnað 1976, til að þjónusta aðila í heildsölumiðstöðinni Sundaborg en fór síðan út í alhliða þjónstu á sviði tölvu-, skrifstofu, banka- og tollaviðskipta auk þess að reka ráðningarþjónustu. Starfaði í Sundaborg til 1991.

Frú Emelía. Sjálfstætt starfandi leikhús í Reykjavík sem starfað hefur með hléum frá 1986. Meðal helstu forsprakka þess hefur verið Hafliði Arngrímsson.

Fræðslumálaskrifstofan. Stofnuð með fræðslulögunum 1907 og heyrðu öll fræðslumál landsins undir hana. Fyrsti fræðslumálastjórinn var Jón Þórarinsson. Skrifstofan var lögð niður 1973 og starfsemi hennar lögð undir menntamálaráðuneytið. Framan af var Fræðslumálaskrifstofan yfirleitt á heimili fræðslumálastjóra en þegar frá leið í Arnarhvoli og frá 1962 í Borgartúni 7.

Fræðslumyndasafn ríkisins. Stofnað með lögum 1961 en áður var rekið fræðslumyndasafn á vegum fræðsluyfirvalda frá um 1955 sem Guðjón Guðjónsson fyrrverandi skólastjóri sá um. Var til húsa í Borgartúni 7. Hlutverk þess var að útvega skólum, kvikmyndir, litskyggnur og hljómbönd en einnig beitti það sér fyrir gerð fræðslukvikmynda. Lagt niður 1979 þegar það sameinaðist Ríkisútgáfu námsbóka í Námsgagnastofnun.

Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Stofnuð 1996 með sameiningu Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis og Skólaskrifstofu Reykjavíkur. Var til húsa í gamla Miðbæjarskólanum að Fríkirkjuvegi 1. Forstöðumaður hennar var Gerður G. Óskarsdóttir. Nafn stofnunarinnar breyttist í Menntasvið Reykjavíkurborgar árið 2005.

Fræðsluráð Reykjavíkur

Fræðsluskrifstofa Reykjavíkurumdæmis.

Frækornaprentsmiðjan. Sjá Aldarprentsmiðjan.

Frændahúsið. Tvílyft timburhús í Aðalstræti 7, reist 1881 af frændunum Jóni Vídalín og Páli Eggerz. Stendur enn.

Fröken Júlía. Kvenfataverslun í Mjódd (komin 2002). Um tíma einnig á Laugavegi 44. Athuga nánar.

Frönsku húsin. Tvö svört pakkhús í Austurstræti 12, annað upphaflega reist af Knudtzon kaupmanni um 1834 en keypt af frönsku stjórninni 1868 sem bætti öðru húsi við. Í þeim voru sjóbúðir og birgðastöð fyrir franska sjómenn við Íslandsstrendur. Rifin 1901.

Fuglavinafélagið Fönix. Drengjafélag stofnað 1934 til að glæða fuglalíf á Tjörninni og í kringum Reykjavík. Leiðtogi hópsins var Jón Pálsson bankagjaldkeri.

Fuglavinafélagið Svanur. Stofnað 1934.

Fullsæla. Vatnsuppspretta sem var á engjunum rétt norðan bæjarins í Breiðholti, nálægt þvi þar sem nú eru gatnamót Breiðholtsbrautar og Reykjanesbrautar.

Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík

Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík

Funaborg. Leikskóli að Funafold 42. Tók til starfa 1994.

Furuborg. Leikskóli í Álandi. Tók til starfa 1986, var fyrst rekin af Borgarspítalanum en frá 1999 af Leikskólum Reykjavíkur.

Fúlutjarnarlækur. Rann úr Kringlumýri og til sjávar nokkurn veginn þar sem nú er Kringlumýrarbraut. Hann var settur í ræsi um 1957.

Fúlutjarnarmýri.

Fúlutjarnarvör. Niður undan bænum Fúlutjörn, horfin undir uppfyllingar.

Fúlatjörn. Lítil tjörn eða sjávarlón rétt fyrir ofan þar sem Fúlilækur rann til sjávar. Tjörnin mun hafa verið austast við núverandi Borgartún, fyrir sunnan götuna, en var horfin um 1960.

Fúlatjörn. Sjá Lækjarbakki.

Fylkir. Togaraútgerð, stofnuð í Reykjavík árið 1925 af þeim Aðalsteini Pálssyni, Páli Ólafssyni og Þórði Ólafssyni. Starfrækt til 1965. Ennfremur hafði félagið fiskverkunarstöð á Gelgjutanga frá 1953.

Fylkir. Íþróttafélag sem stofnað var í Árbæjar- og Seláshverfi 1967. Hét fyrstu þrjú árin Knattspyrnufélag Seláss og Árbæjar. Theódór Óskarsson íþróttaeriundreki Framfarafélags Árbæjar og Seláss vann einkum að stofnun þess. Félagssvæði Fylkis er við bakka Elliðaáa á mörkum Árbæjarhverfis og Seláss, á móts við austanverðan Blásteinshólma. Fyrsti malarvöllurinn var gerður þar 1973, félagsheimili tekið í notkun 1976 og stórt íþróttahús, Fylkishöllin, árið 1995. Á vegum félagsins er árið 2013 stunduð knattspyrna, handknattleikur, blak, fimleikar og karate.

Fylkishöllin. Sjá Fylkir.

Fylkisvegur. Gata sem liggur frá Rofabæ í Árbæjarhverfi að íþróttasvæði Fylkis. Nafnið var ákveðið 1983.

Fæðingarheimili Guðrúnar Halldórsdóttur. Rekið á Rauðarárstíg 40 á árunum 1940 til 1973.

Fæðingarheimili Guðrúnar Valdimarsdóttur. Rekið fyrst í Barmahlíð 23 en lengst í Stórholti 39 á árunum 1947 til 1961.

Fæðingarheimili Reykjavíkur. Stofnsett 1960 á Eiríksgötu 37 að undirlagi Bandalags kvenna. Fyrsta forstöðukona heimilisins var Hulda Jensdóttir. Starfaði til 1997.

Fæðingarstofnun Helgu Níelsdóttur. Rekin á Eiríksgötu 33 á árunum 1933-1943.

Færeyingaheimilið. Við Skúlagötu, fjarlægt 1994.

Fönix. Upphaflega verksmiðja sem framleiddi axlabönd, sokkabönd og ermabönd, stofnuð 1935 af  O. Kornerup-Hansen. Samhliða þessu rak hann heildverslun sem flutti inn margs konar heimilistæki. Verksmiðjan hætti fljótlega en innflutningur og verslun með rafmagnstæki tók við. Starfsemin var til húsa í Suðurgötu 10 til 1973 en fyrirtækið flutti þá í Hátún 6A og hefur verið þar síðan.

Fönn. Þvottahús, stofnsett 1960 af Guðmundi Arasyni.  Var til húsa á Fjólugöu 19B til 1967 en flutti þá á Langholtsveg 113. Árið 1982 flutti fyrirtækið í Skeifuna 11 þar sem það er enn til húsa.

Föt.  Fataverksmiðja, stofnuð 1942 af Helga Eyjólfssyni og fleirum. Var rekin í tengslum við klæðaverslunina Andersen og Lauth frá 1944. Til húsa að Hverfisgötu 56. Þar voru m.a. framleidd Aristo-föt. Hætti 1978.

G. Albertsson. Fyrirtæki á sviði útflutnings og vörumiðlunar, stofnað af Guðmundi Albertssyni og Árna E. Guðmundssyni árið 1950. Til húsa meðal annars í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og Garðastræti 38 en síðast í Meðalholti 10. Starfrækt til 2004.

G.Á.-húsgögn. Stofnsett 1975. Er í Ármúla 19 árið 2013.

G. Bjarnason & Fjeldsted. Klæðskeraverstæði og klæðaverslun, stofnsett 1919 af klæðskerunum Guðmundi Bjarnasyni og Jóni Fjelsted. Var í Aðalstræti 6 til 1951 en eftir það í Veltusundi 1 til um 1976.

G. B. Silfurbúðin. Sjá Silfurbúðin.

G. Gíslason & Hay. Umboðs- og heildverslun. Flutti frá Skotlandi til Reykjavíkur 1909.

G. Ólafsson & Sandholt. Sjá Sandholtsbakarí.

G. Þorsteinsson & Johnson. Innflutnings- og útflutningsfyrirtæki, stofnað 1941 af þeim Garðari Þorsteinssyni og Pétri O. Johnson. Flutti einkum inn vélar og pappírsvörur. Var til húsa í Grjótagötu 7 en frá árinu 1967 var það í eigin stórhýsi í Ármúla 1. Starfaði til um 1988.

GA smíðajárn. Járninnflutningsfyrirtæki, stofnsett af Guðmundi Arasyni. (Skútuvogi 4 2006)

Gagarín. Margmiðlunarfyrirtæki, stofnsett árið 1994.

Gagnaeyðing. Fyrirtæki sem stofnað var 1991 af Rúnari Má og Sæmundi Hólm Sverrissonum, sérhæfir sig í eyðingu trúnaðarskjala og annarra gagna. Var fyrsta árið í Ármúla en frá 1992 til 2007 í Skútuvogi 13, síðan á Bæjarflöt 4.

Gagnfræðaskóli Austurbæjar. Upphaflega stofnaður 1928 og hét þá Gagnfræðaskólinn í Reykjavík, var hann fyrst til húsa í Stýrimannaskólanum við Öldugötu, þá í Kennaraskólanum til 1935 en eftir það á Lindargötu 51 (Franska spítalanum). Skólinn var í daglegu tali kallaður Ingimarsskólinn eftir skólastjóranum, Ingimar Jónssyni. Árið 1949 flutti skólinn í nýtt húsnæði við Barónsstíg í Skólavöruholti og fékk þá nafnið Gagnfræðaskóli Austurbæjar. Því nafni var breytt í Vörðuskóla árið 1974 og var sá gagnfræðaskóli rekinn til um 1990.

Gagnfræðaskólinn í Reykjavík. Sjá Gagnfræðaskóli Austurbæjar

Gagnfræðaskóli Reykvíkinga. Sjá Gagnfræðaskóli Vesturbæjar

Gagnfræðaskóli verknáms. Sjá Ármúlaskóli.

Gagnfræðaskóli Vesturbæjar. Árið 1928 var stofnaður Gagnfræðaskóli Reykvíkinga, oft nefndur Ágústarskóli eftir skólastjóranum, Ágústi H. Bjarnarsyni. Var hann til húsa í Iðnskólanum við Lækjargötu 14. Árið 1945 flutti hann í Stýrimannaskólann við Öldugötu og hét eftir það Gagnfræðaskóli Vesturbæjar. Þaðan flutti hann í JL-húið við Hringbraut 121 árið 1958 og var þar til 1964 en flutti þá aftur í Iðnskólahúsið við Lækjargötu og var þar til 1969 að hann lagðist af.

Gagnfræðaskólinn við Hringbraut. Sjá Hagaskóli.

Gagnfræðaskólinn við Laugalæk. Sjá Laugalækjarskóli.

Gagnfræðaskólinn við Lindargötu. Stofnaður 1949 og var til húsa á Lindargötu 51 (Franska spítalanum). Fyrsti skólastjóri hans var Jón Á. Gissurarson. Starfaði til 1977.

Gagnfræðaskólinn við Vonarstræti. Var rekinn í Iðnskólahúsinu við Lækjargötu 14 frá 1955- 1964 og var eingöngu fyrir þá sem vildi þreyta landspróf. Skólastjóri hans var Ástráður Sigursteindórsson.

Gallerí. Sjá Evu.

Gallerí Borg. Sýningarsalur, listmunasala og uppboðsfyrirtæki. Stofnað 1984 en fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Úlfar Þormóðsson. Var til húsa í Pósthússtræti til 1987, eftir það í Austurstræti 10 til 1990, þá í Austurstræti 3 og Síðumúla 32. Sama ár fór það í Pósthússtræti 9 og 1994 var það komið með antíkdeild í Faxafeni 5. Árið 1996 flutti það í Aðalstræti 8 og 1998 í Síðumúla 34 en hætti 1999. Endurvakið í Skipholti 35 árið 2007.

Gallerí Hoffmann.

Gallerí Langbrók

Gallerí List. Stofnsett 1987.

Gallerí Sólon Íslandus. Starfrækt af nokkrum listamönnum í Aðalstræti 8 á árunum 1976-1978. Fyrsta sölugalleríið í borginni.

Gallerí SÚM. Sýningarsalur og listagellerí sem SÚM (sjá) opnaði að Vatnsstíg 3 árið 1969 og var rekið til um 1979.

Gallerí Suðurgata 7. Rekið í Suðurgötu 7 á árunum 1977-1981. Þar voru myndlistarsýningar innlendra og erlendra listamanna og jafnframt aðsetur tímaritsins Svart á hvítu. Meðal helstu aðstandenda voru Bjarni H. Þórarinsson, Friðrik Þór Friðriksson, Margrét Jónsdóttir og Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson.

Gallerý fiskur. Veitingastaður og veitingaþjónusta í Gerðubergi.

Galtafell. Steinhús að Laufásvegi 46, reist árið 1916 af Pétri J. Thorsteinssyni frá Bíldudal.

Gamalmennahælissjóður Reykjavíkur. Stofnaður af bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1919 og var Elliheimilið Grund meðal annars byggt fyrir lán frá sjóðnum.

Gamla bíó. Fyrsta kvikmyndahús landsins, sett á laggirnar 1906 undir nafninu Reykjavíkur Biograftheater. Breiðfjörðsleikhúsið eða Fjalakötturinn við Bröttugötu var tekinn fyrir sýningarnar. Eigandi kvikmyndahússins var danski stórkaupmaðurinn Warburg. Eftir að Nýja bíó kom til sögunnar 1912 var nafni Reykjavíkur Biograftheater breytt í Gamla bíó. Árið 1927 fluttist bíóið í nýtt og glæsilegt hús sem Einar Erlendsson hafði teiknað við Ingólfsstræti. Þar var bíóið rekið til 1981 þegar Íslenska óperan tók húsið yfir.

Gamlahús. Hús á Fossvogsbletti við Reykjanesbraut

Gamla kompaníið. Trésmiðja og húsgagnagerð, upphaflega stofnað 1905 undir nafninu Jón Halldórsson & Co. Nafnið breyttist í Gamla kompaníið árið 1944. Var til húsa að Skólavörðustíg 6B til 1945 en fluttist þá að Snorrabraut 56 þar sem það var til 1959. Þaðan fór það að Síðumúla 23 og loks á Bíldshöfða 18 árið 1975. Fyrirtækið rann saman við Kristján Siggeirsson hf. árið 1990 og hét eftir það GKS (sjá).

Gamla pósthúsið. Reist árið 1847 af Hallgrími Scheving. Með tilskipun 1872 var póstmálum landsins skipað í fast form og tveimur árum síðar var þetta hús, sem síðar tilheyrði Pósthússtræti 11, gert að pósthúsi. Eftir því er Pósthússtræti nefnt. Húsið var flutt 1928 að mótum Reykjavíkurvegar og Þvervegar (nú Einarsness) í Skerjafirði en varð að víkja fyrir flugvellinum 1941 og var þá flutt að Brúnavegi 8 þar sem það stendur enn. Var það fyrst í stað kallað þar Breiðablik við Sundlaugaveg.

Gamla Yfirréttarhúsið. Reist árið 1800 á lóðunum Austurstræti 4 og Veltusundi 3. Þar var Landsyfirréttur til húsa á árunum 1807-1819 og fékk húsið nafn sitt af honum. Áður hafði það verið nefnt Klúbbhúsið því þar hafði húsbyggjandinn Jón J. Laxdal rekið veitingasölu um hríð. Húsið var rifið 1887.

Gamli Garður. Fyrsti stúdentagarðurinn á Háskólasvæðinu, reistur 1934 eftir teikningu Sigurðar Guðmundssonar. Á stríðsárunum var gamli Garður tekinn herskildi af breska hernum og var þar rekið hersjúkrahúsð 50th Hospital. Eftir stríð var hótelrekstur í húsinu á sumrin en í kjallarnum var mötuneyti þar sem dansleikir voru haldnir.  Þar var síðar Stúdentakjallarinn (sjá).

Gamli klúbburinn. Sjá Klúbbinn.

Gapastokkur. Settur upp 1804 við horn Aðalstrætis og Hafnarstrætis. Í hann voru menn settur til að refsa þeim fyrir óspektir, strákskap og drykkjulæti. Var notaður í fáein ár og var síðasti gapastokkur á Íslandi.

Garðaborg. Leikskóli að Bústaðavegi 81.

Garðaholtsblettir. Á Grímsstaðaholti.

Garðar. Torfbær austast við Ægissíðu, upphaflega reistur 1860 af Kristjáni Gíslasyni en steinhlaðna húsið sem nú stendur og heitir þessu nafni er frá 1882. Í Görðunum rak Sigurður Jónsson fiskverkun um árabil. Fiskverkunarhús hans standa enn við sjóinn.

Garðarsbúð. Nýlendu- og matvöruverslun, rekin á Grenimel 12 á árunum 1969-1999 af hjónunum Garðari Sigfússyni og Helgu Helgadóttur.

Garðastræti. Gata frá Vesturgötu að Hólatorgi. Fyrst nefnd um 1896, fékk nafn sitt af túngörðum sem afmörkuðu Geirstún og fleiri tún vestan götunnar.

Garðavegur. Vegur sem áður lá frá Fálkagötu, þar sem nú eru gatnamót við Tómasarhaga, niður að Görðum við Ægissíðu.

Garðavör. Bátavör við Skerjafjörð, fram undan Görðunum við Ægissíðu.

Garðbæjarstígur. Sjá Brekkustígur.

Garðbær. Steinbær á Bráðræðisholti

Garðbær. Steinbær á baklóð við Brekkustíg 5, reistur árið 1880 af Guðmundi Jónssyni og Guðrúnu Jónsdóttur. Seinna nefndur Litli-Garðbær. Bærinn var friðaður að ytra byrði árið 2012.

Garðbær. Torfbær á 19. öld. Stóð í götustæði á mótum núverandi  Skálholtsstígs og Grundarstígs.

Garðheimar. Gróður- og garðyrkuvöruverslun. Stofnsett í Kópavogi 1991 af þeim Gísla Sigurðssyni og Jónínu Gísladóttur. Hefur frá 1999 verið að Stekkjarbakka 6 í Mjódd.

Garðhús. Torfbær við Bakkastíg 9, reistur af Bjarna Oddssyni 1868. Í stað hans var árið 1884 reistur samnefndur steinbær sem enn stendur og var friðaður árið 2012. Hann tilheyrir nú Lagargötu 2.

Garðhúsastígur. Sjá Bakkastígur.

Garðhúsavör. Beint niður undan Garðhúsum við Bakkastíg en löngu horfin undir uppfyllingar.

Garðsapótek. Stofnsett 1956 af Mogens Andreas Mogensen. Var við Hólmgarð 34 til um 1965 en eftir það á Sogavegi 108.

Garðshorn. Torfbær frá því snemma á 19. öld,  stóð á lóðinni Bankastræti 7a, rifinn 1868.

Garðshorn. Steinhús að Bergstaðastræti 47, reist 1914 af Jóni Ólafssyni ritstjóra.

Garðstunga. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Garður hins himneska friðar. Sjá Hábær.

Garðyrkjudeild Reykjavíkur.

Garðyrkjufélag Íslands. Stofnað 1885 og hefur starfað með hléum síðan.

Garri. Fyrirtæki sem sérhæfir sig í innflutningi og sölu á matvöru og martvælaumbúðum, stofnað 1973 af Magnúsi R. Jónssyni. Var framan af í Kópavogi en flutti að Skútuvogi 12G árið 1988 og síðan Lynghálsi 2 árið 2000.

Gasstöð Reykjavíkur. Reist árin 1909-11 ásamt gasgeymi og íbúðarhúsi gasstöðvarstjóra. Var þar sem nú er Lögreglustöð Reykjavíkur við Hlemm. Fyrsti gasstöðvarstjórinn var Brynjólfur Sigurðsson. Frá Gasstöðinni voru lagðar gaspípur, alla sum 40 kílómetrar, um bæinn og gasið notað bæði til eldunar og lýsingar. Eftir 1937 tók að draga úr gasnotkun og var gasframleiðslu að lokum hætt 1956. Tveimur árum síðar voru mannvirki Gasstöðvarinnar rifin að undanskildu íbúðarhúsi gasstöðvarstjóra (Hverfisgata 115) sem enn stendur.

Gata.  Sjá Smiðjan.

Gatnamálastofa Reykjavíkur. Stofnuð 2002 og sá hún um rekstur varðandi viðhald gatna og holræsakerfis, hreinsun gatna og gönguleiða, umhirðu og viðhald opinna svæða, snjómokstur, hálkueyðingu og fleira. Heyrði undir Skipulags- og tæknisvið. Rak hverfismiðstöðvar auk þjónustumiðstöðvar á Stórhöfða og skrifstofu að Skúlatúni 2. Fyrsti yfirmaður hennar var Sigurður I. Skarphéðinsson gatnamálastjóri.

Gaukur á Stöng. Einhver fyrsta ölstofan í Reykjavík á seinni tímum. Opnuð í svokölluðu Blöndahlshúsi í Tryggvagötu 22 árið 1983. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Guðvarður Gíslason. Þar var á boðstólum svokallað bjórlíki þar til sala á bjór var leyfð á Íslandi árið 1989. Kráin var rekin til ársins 2008.

GBB auglýsingaþjónusta. Sjá Auglýsingastofan.

Gámaþjónustan. Stofnsett 1983 af Benóný Ólafssyni og fleirum með það fyrir augum að leigja út ruslagáma, flytja þá og losa.Einnig hefur fyrirtækið rekið jarðgerðarbúnað og frá 2006 þróað svokallaða endurvinnslutunnu. Höfuðstöðvar félagsins voru upphaflega í Kópavogi en fluttu í Vatnagarða 12 árið 1985 þar sem þær voru til 1994 en eftir það hafa þær verið í Súðarvogi 2. Félagið rekur sex dótturfélög víða um landið og er stórt í sniðpum.

Geðhjálp. Félag sem stofnað var í Reykjavík 1979 af aðstandendum og velunnurum geðsjúkra. Fyrsti formaður þess var Sigríður Þorsteinsdóttir. Félagið hefur sinnt fræðslu og sjálfshjálparstarfsemi.  Frá 1982 hefur félagið rekið félagsmiðstöð fyrir geðfatlaða. Var hún fyrst til húsa á Bárugötu 11 til 1984, eftir það í Veltusundi 3B til 1991. Þá var flutt að Öldugötu 15 þar sem félagsheimilið var til 1996, þá að Tryggvagötu 9 en frá 1999 hefur það verið að Túngötu 7.

Geðverndarfélag Íslands. Stofnað 1950 að tilhlutan Læknafélags Reykjavíkur. Fyrsti formaður félagsins var Helgi Tómasson. Það hefur einkum unnið að bætttu geðheilbrigði með forvörnum, fræðslu og endurhæfingu. Félagið hefur átt aðild að endurhæfingardeildum spítala og vernduðum vinnustöðum og frá 1985 hefur það sjálft rekið endurhæfingastöð við Álfaland 15 í Reykjavík.

Geir & Th. Thorsteinsson. Togaraútgerðarfélag sem feðgarnir Th. Thorsteinsson og Geir Thorsteinsson stofnuðu árið 1919. Meðal togara þess félags voru Karlsefni og Bragi. Fiskverkunarstöð hafði félagið á Ytri Kirkjusandi. Síðar breyttist nafn togarafélagsins í Karlefni hf. og var það rekið til 1987, síðast af Ragnari Thorsteinssyni.

Geirsbrekka. Brekkan neðarlega í Vesturgötu var oft kölluð þessu nafni því báðum megin við hana voru hús Geirs Zoëga útgerðarmanns um og eftir 1880.

Geirsbryggja. Bátabryggja kennd við Geir Zoëga kaupmann, var niður af verslunarhúsum hans á Vesturgötu 6-10. Hvarf við hafnargerðina 1913-1917.

Geirsbær. Sjá Richdalsbær.

Geirsgata. Gata meðfram gömlu höfninni, nær frá mótum Tryggvagötu og Mýrargötu að Kalkofnsveg. Fékk nafn sitt 1919 og er nefnd eftir Geir Zoëga útgerðarmanni og kaupmanni.

Geirsnef. Uppfylling út í Elliðaárvog við ósa Elliðaár, kennt við Geir Hallgrímsson sem var borgarstjóri þegar hafist var handa um uppfyllinguna. Geirsnef hefur einstaka sinnum verið notað til hátíðahalda en er einkum notað sem hundasvæði. Það er eina svæðið í Reykjavík þar sem má vera með lausa hunda.

Geirstún. Geir Zoëga útgerðarmaður keypti Götuhús (Túngötu 20) ásamt Götuhúsatúni árið 1863 og ræktaði þar síðan mjög aukið tún sem kallaðist eftir það þessu nafni. Túnið var þar sem nú eru austurhlutar Öldugötu, Bárugötu og Ránargötu.

Geislabaugur. Leikskóli að Kristnibraut 26 í Grafarholti. Tók til starfa 2004 en áður var í húsinu einkarekinn leikskóli.

Geislahitun. Fyrirtæki á sviði vatns- og hitalagna, stofnsett 1950 af Axel Smith og Jóhanni Pálssyni. Einnig rekin verslun á vegum fyrirtækisins um árabil. Var lengst af til húsa í Brautarholti 4 en síðustu árin til 1977 í Blönduhlíð 27.

Geislaplast. Fyrirtæki, stofnsett 1964 af Sigurði Antonssyni. Framleiddi einkum ljósaskilti en einnig ýmsar byggingavörur úr plasti. Var fyrst til húsa á Hringbraut 121 en frá um 1967 í húsi við Miklatorg. Þaðan flutti það í Ármúla 23 árið 1973 og var starfrækt til um 1978.

Geislinn. Matvörubúð, stofnuð af Sigurði Jónssyni árið 1954. Var rekinn á Brekkustíg 1 til 1969 en flutti þá á Holtsgötu 1 en varð skammlíf þar.

Geithálstangi. Tangi í Hólmsá beint neðan Geitháls.

Geldinganes. Stórt nes sem gengur út í Kollafjörð og er tengt landi með eiði frá Gufuneslandi. Reykjavíkurbær eignaðist nesið 1924 og þar hefur farið fram mikið grjótnám.

Geldinganesviti

Gelgjutangi. Smánes sem skagar út í Elliðaárvog í Kleppslandi á móts við Grafarvog.

Genealogia Islandorum (gen.is). Fyrirtæki, stofnað árið 2000 til að koma upp öflugum ættfræðigrunni í þjónustu líftækniiðnaðar og stunda bókaútgáfu. Helstu hluthafar voru Burðarás, Sjóvá-Almennar, baugur, UVD og Tryggvi Péturssonog var það til húsa að Lynghálsi 10. Undir fyrirtækið heyrðu Sögusteinn, Íslenska myndasafnið og JPV-forlag sem stofnað var sem dótturfyrirtæki þess. Framkvæmdastjóri félagsins var Jóhann Páll Valdimarsson. Hann hvarf úr fyrirtækinu árið 2001 og stofnaði JPV útgáfu. Genealogia var tekið til gjaldþrotaskipta síðar á því ári.

Genís. Líftæknifyrirtæki, stofnað 1989 af lyfjafyrirtækjunum Pharmaco og Delta ásamt Háskóla Íslands og Iðntæknistofnun. Frumkvöðull að stofnun félagsins var Jakob K. Kristjánsson. Var upphaflega til húsa á Keldnaholti. Árið 2000 sameinaðist það Kítin á Siglufirði en starfaði einnig um hríð á Hólmaslóð 2 í Reykjavík. Árið 2005 var Genís endurvakið og starfar í Vatnagörðum 18.

Gerði. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf).

Gerðin. Hverfi sem afmarkast af Háaleitisbraut, Miklubraut, Reykjanesbraut og Bústaðahverfi. Götunöfnin sem enda öll á –gerði voru flest ákveðin á árunum 1951-1952. Þau síðustu á mótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegs komu þó árið 1972. Gerðin eru Akurgerði, Álmgerði, Bakkagerði, Borgargerði, Brekkugerði, Búðargerði, Espigerði, Furugerði, Grundargerði, Hamarsgerði, Háagerði, Heiðargerði, Hlíðargerði, Hlyngerði, Hvammsgerði, Langagerði, Litlagerði, Melgerði, Mosgerði, Rauðagerði, Seljugerði, Skálagerði, Skógargerði, Smáagerði, Steinagerði, Stóragerði, Teigagerði, Viðjugerði,

Gerðuberg. Opnað 1983 í Breiðholti sem alhliða menningarmiðstöð rekin af Reykjavíkurborg. Auk sjálfrar menningarmiðstöðvarinnar er þar útibú frá Borgarbókasafninu, félagsstarf og veitingastaðurinn Gallerý fiskur.

Gerðubergskórinn. Varð til upp úr kórstarfi fyrir eldri borgara sem hófst í Gerðubergi 1986. Aðalstofandi kórsins og kórstjóri var Kári Friðriksson.

Gerðubergssafn. Útibú frá Borgarbókasafni Reykjavíkur að Gerðubergi 3-5, stofnað 1986.

Germania. Félag Þjóðverja í Reykjavík og Íslendinga sem hafa áhuga á þýskum

Gevafoto.

Geysir. Veiðarfæraverslunin ásamt seglasaumaverkstæði, stofnuð 1919 og varð Kristinn Magnússon framkvæmdastjóri hennar. Var fyrst í Hafnarstræti 1 en frá 1927 í Aðalstræti 2, fyrst í gömlu pakkhúsum frá Duus-verslun Vesturgötumegin en síðan frá 1954 einnig í framhúsinu. Voru þessi hús eftir þetta oft kölluð Geysishúsin. Verslaði með veiðarfæri og fatnað. Verslunin hætti 1992.

Geysir. Timburhús sem Páll Þorkelsson reisti árið 1875 að Skólavörðustíg 12. Húsið var notað til veitingareksturs og dansleikjahalds. Síðast var þar veitingahúsið Fjallkonan til 1930 en skömmu síðar var húsið rifið.

Geysir. Leigubílastöð sem starfaði á árunum 1937 til 1943. Hafði aðsetur við Arnarhólstún þar sem Hreyfill var síðar.

Geysir. Klúbburinn. Sjálfseignarfélag, stofnsett árið 1999 af þeim eiga eða hafa átt við geðræn vandamál að stríða. Fyrsti formaður Klúbbsins var Anna S. Valdimarsdóttir. Hann starfar eftir hugmyndafræði Fountain House sem byggir á markvissri uppbyggingu á hæfileikum og getu einstaklingsins, meðal annars með vinnumiðlun. Klúbburinn var allra fyrst í Hátúni 10 en flutti árið 2000 að Ægisgötu 7. Árið 2002 komst hann svo í eigið húsnæði í Skipholti 29.

Geysishúsin. Sjá Geysir.

GG Lagnir. Fyrirtæki á sviði almennra pípulagninga, stofnsett 1988 af Gísla Hafsteini Gunnlaugssyni. Er til húsa í Dugguvogi 1B (athuga nánar)

Gibraltar-camp. Fjarskipastöð Breta við býlið Strönd við Elliðaárvog, nokkrun veginn þar sem nú er Dugguvogur 9-11.

Gigtarfélag Íslands. Stofnsett í Reykjavík 1976 og var fyrsti formaður þess Guðjón Hólm. Frá 1984 hefur félagið rekið gigtlækningastöð að Ármúla 5 ásamt iðjuþjálfun og fleira (Gigtarmiðstöðin).

Gigtarmiðstöðin. Sjá Gigtarfélag Íslands.

Gildaskálinn. Veitingastaður í Aðalstræti 9, stofnaður af Ragnari Þórðarsyni árið 1941. Hætti þegar húsið brann 1967.

Gilhagi. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)(1949)

Gilsbakki. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf), húsin standa enn skammt norðaustur af og fyrir neðan Stekkjarbakka.

Gimli. Húsið Lækjargata 3 sem Knud Zimsen reisti árið 1906 úr steyptum steinum frá verksmiðjunni Mjölni. Er nú talið hluti af Bernhöftstorfu.

Gimli. Vefnaðarvöruverslun, stofnsett 1944 af þeim Huldu og Svövu Ingvarsdætrum. Var til húsa á Laugavegi 1 allt til um 1972.

Gissurargarður. Sjá Litlibær.

Gissurarstekkur. Sjá Stekkjarholt.

Gígja. Lúðrafélag, stofnað 1915 upp úr lúðraflokki „Goodtemplara“ sem nefndist Svanir og starfaði um hríð. Stjórnandi var Hallgrímur Þorsteinsson og síðast Þjóðverjinn Otto Böttcher. Starfaði til 1922 að félagið sameinaðist Lúðrafélaginu Hörpu undir nafninu Lúðrasveit Reykjavíkur.

Gíslabakarí. Stofnsett 1939 af Gísla Ólafssyni og var til húsa að Bergstaðastræti 48. Rekið þar til 1964.

Gíslabær. Bær við Bræðraborgarstíg

Gíslaholt við Ránargötu, fyrst var þar torfbær og síðan risu tvö timburhús á lóðinni sem kölluð voru Gíslaholt eystra og vestra.

Gíslahús. Einlyft timburhús að Laugavegi 171, kennt við Gísla Gíslason silfursmið. Rifið 1986.

Gíslavör. Smávör sem var áður fyrr fyrir vestan Bakkasand, kennd við Gísla Björnsson á Vestur-Bakka. Ingimundarklettur aðskildi hana og Bakkasand.

Gjafa- og snyrtivörubúðin. Stofnuð 1961 af Láru og Sigríði Biering. Var fyrsta árið á Klapparstíg 27, síðan í Bankastræti 8 til um 1975. Frá 1972 og fram yfir 2000 einnig í Suðurveri, Sigahlíð 45-47.

G. J. Fossberg. Sjá Fossberg.

Gjaldheimtan í Reykjavík. Innheimtustofnun opinberra gjalda. Varð til árið 1962 í samvinnu ríkis, borgar og Sjúkrasamlags Reykjavíkur. Fyrsti forstjóri hennar var Guðmundur Vignir Jósefsson. Gjaldheimtan, sem var til húsa í Tryggvagötu 28, var lögð niður 1998 þegar innheimta á hennar vegum var flutt til embættis tollstjórans í Reykjavík.

Gjáhólmar. Sjá Hólmurinn.

Gjávaðshylur. Veiðistaður í efsta hluta Elliðaáa, rétt neðan Elliðavatnsstíflu og laxastiga. Einnig kallaður Höfuðhylur.

Gjörningaklúbburinn

Gjörvi. Vélaverkstæði, stofnað um 1986 af þeim Helga Eiríkssyni og Vilhjálmi Óskarssyni á grundvelli vélaverkstæðis Hafskips sem verið hafði í Grandaskála að Grandagarði 18. Hefur verið þar síðan.

GKS. Trésmiðja og húsgagnagerð. Hét fyrst GKS Bíró en síðan Trésmiðjan GKS.Varð til með samruna Gamla kompanísins (sjá) og Kristjáns Siggeirssonar hf. (sjá) árið 1989. Síðan runnu fleiri fyrirtæki undir þetta nafn, svo sem Steinar stálhúsgagnagerð (sjá) og Trésmiðjan Eldhús og bað. Var til húsa að Bíldshöfða 18 og Hesthálsi 2-4 til 1993, flutti þá í Kópavog, en frá 2003 hefur fyrirtækið verið staðsett að Funahöfða 19.

Glasgow. Stórhýsi að Vesturgötu 5A, reist árið 1862 af skoska fyrirtækinu Henderson, Anderson & Co árið 1862. Mun það þá hafa verið stærsta hús landsins. Þar var Glasgoverslunin svokallaða en í húsinu var stór salur, sem gat tekið 200 manns í sæti. Í honum voru haldnar margs komar samkomur, fyrirlestrar og sjónleikar fluttir. Um tíma var rætt um að gera húsið að Alþingishúsi. Það brann til kaldra kola árið 1903.

Glasgowverslunin. Rekin að Vesturgötu 5A frá 1862-1868 en eigendur hennar voru Henderson, Anderson & Co.

Glaumbær. Tvílyft timburhús á Sundabakka í Viðey, reist 1907, Verbúð og samkomuhús Viðeyinga. Brann 1931.

Glaumbær. Árið 1960 opnuðu þeir Magnús Hannesson og Þorsteinn Viggósson skemmtistaðinn Storkklúbbinn í Framsóknarhúsinu Fríkirkjuvegi 7. Hann entist í eitt ár en þá var opnaður af Ragnari Þórðarsyni á sama stað skemmtistaðurinn Glaumbær sem varð mjög vinsæll. Sögu Glaumbæjar lauk 1971 þegar húsið brann til kaldra kola.

Gleðileikjafélagið. Leikfélag sem starfaði í húsinu Glasgow á 9. áratug 19. aldar.

Gleraugnabúðin. Stofnsett 1928 af Kaj Bruun, var rekin til um 1956, ávallt á Laugavegi 2.

Gleraugnabúðin. Stofnsett 1965 af Helmout Kreidler, var á Laugavegi 46 til 1981 en síðan á Laugavegi 36 til um 2009.

Gleraugnasalan 65. Verslun, stofnsett 1961 af Walter Lentz. Var á Laugavegi 12 til 1973 en síðan á Laugavegi 65.

Gleraugnasmiðjan. Var í Borgarkringlunni 1991-1997 og síðan í Kringlunni. Einnig um tíma á Laugavegi 36 (Athuga nánar)

Glit

Glitnir. Fjármögnunarfyrirtæki, stofnsett 1985 af Iðnaðarbanka Íslands, Nevi í Noregi og Sleipner U.K. Ltd í Bretlandi.  Var til húsa í Ármúla 7 frá 1986-1995 en eftir það á Kirkjusandi. Starfaði til 2006 en þá var það sameinað Íslandsbanka og fleiri fyrirtækjum undir nafninu Glitnir.

Glitnir. Sjá Íslandsbanki.

Glímufélag Reykjavíkur. Fyrsta glímufélag á Íslandi, stofnað 1873 að frumkvæði Sverris Runólfssonar sem var fyrsti formaður þess. Glímuvöll hafði félagið suður á Melum. Félagið hafði lagst niður árið 1880.

Gljúfurá. Á sem rennur úr Esjunni úr Gljúfurdal skemmt austan Esjubergs og til sjávar. Neðar heitir hún ýmist Flóðará eða Grundará.

Gljúfurdalur. Dalur með gljúfrum í Esjunni upp frá bænum Esjubergi.

Glóbus. Innflutningsfyrirtæki, fyrst á sviði hjúkrunar- og snyrtivara en síðan bú- og iðnaðarvéla og bíla. Stofnað árið 1947 og var fyrsti framkvæmdastjóri þess Einar Egilsson. Síðar komst það í eigu heildverslunarinnar Heklu en árið 1956 keypti það Árni Gestsson sem gerði það að stórveldi. Það ár og til 1959 var fyrirtækið til húsa á Hverfisgötu 50. Flutti árið 1959 að Vatnsstíg 3 og loks árið 1966 í Lágmúla 5-7. Fyrirtækinu var skipt upp í tvö fyrirtæki árið 1994, Glóbus-Vélaver, sem árið 1999 breyttist í Vélaver (sjá), og Glóbus hf. sem þróaðist einkum yfir í snyrtivöru- og víninnflutningsfyrirtæki og hefur verið til húsa í Skútuvogi 1F.

Glófaxi. Blikksmiðja, stofnuð 1950 af Benedikt Ólafssyni og Björgvin Ingvarssyni. Hét fyrsta árið Faxi. Var á Hraunteig 14 til 1955 en síðan í Ármúla 42. Eftir 1980 hefur fyrirtækið sérhæft sig í framleiðslu og innflutningi á stál- og álhurðum.

Glóra. Bær á Kjalarnesi, skammt fyrir austan Álfsnes. Fór í eyði 1896.

Glæsibær

Glæsir. Efnalaugin, stofnsett 1935 af þeim Ingimundi Jónssyni og Magnúsi Magnússyni. Til húsa í Hafnarstræti 5 til 1974, einnig var útibú að Laufásvegi 17-19 frá um 1950 til 1987. Um hríð var efnalaugin að Hyrjarhöfða 4 eftir 1981 ásamt því að vera í Hafnarfirði og síðar frá um 1996 í Hverafold 1-3 en flutti sig alfarið í Hafnarfjörð eftir 2000.

Gnitanes. Gata í Skerjafirði. Kom fyrst fram á skipulagsuppdrætti 1959,  hét Gnitavegur fram til 1968.

Gnitavegur. Sjá Gnitanes.

Goddi. Heildverslun, stofnsett 1961 af Haraldi ?. Var fyrst einkum á sviði leikfanga og gjafavara en síðan áklæða og fleira. Var fyrst í Garðastræti 8, síðan í Ármúla 7 frá 1964-1967, þá í Skeifunni 3 til um 1975 en eftir það í Fellsmúla 24. Flutti í Kópavog um 1989.

Goðaborg. Verslun, upphaflega vefnaðarvöruverslun, stofnsett 1946. Breyttist síðan um 1953 í verslun með skotfæri og sportvörur. Lengst af var verslunin á Freyjugötu 1 eða fram til 1976 en einnig var um tíma eftir 1958 rekið útibú á Laugavegi 27, Vatnsstíg 3 um 1962 og í Glæsibæ Álfheimum 74 um hríð. Árið 1976 flutti verslunin á Grensásveg 22 og þaðan á Óðinstorg 1978 þar sem verslunin var til um 1981.

Goðahverfið.

Godthaab. Verslun Thors Jensen í Austurstræti 16, stofnuð 1901 og rekin til 1908.

Goðablokkir. Íbúðarblokkir við Hringbraut og Framnesveg 55-57. Reistar árin 1941-1944 af Byggingafélaginu Goða. Arkitekt þeirra var Þórir Baldvinsson.

Goðaborg.

Goðafoss. Snyrtivöru- og smávöruverslun að Laugavegi 5, stofnsett 1916 af Kristínu Meinholt hárgreiðslukonu. Rekin til 1968.

Goðahverfi.  Götur í Þingholtum og sunnanverðu Skólavörðuholti sem kennd eru við hin fornu goð. Stundum kallað Heiðna hverfið. Elstu götuheitin, Óðinsgata og Óðinstorg, eru frá 1906 en næst kom Baldursgata 1912. Önnur eru frá árabilinu 1919-1929. Þau eru Bragagata, Fjölnisvegur, Freeyjugata, Haðarstígur Lokastígur, Mímisvegur, Njarðargata, Nönnugata, Sjafnargata, Týsgata, Urðarstígur, Válastígur og Þórsgata. Einnig er torgið á mótum Baldursgötu, Óðinsgötu og Nönnugötu stundum kallað Baldurstorg.

Goðaland. Hús við Sogaveg.

Goðinn. Björgunarfélag. Var með aðstöðu í verbúð í Austurhöfn 1986.

Golfklúbbur Íslands. Sjá Golfklúbbur Reykjavíkur.

Golfklúbbur Reykjavíkur. Stofnaður 1934, hét Golfklúbbur Íslands en nafninu var breytt 1947. Sumarbústaður Johns Fenger nálægt þar sem nú er heilsuræktin World Class í Laugardal varð fyrsti golfskáli félagsins og fyrsti golfvöllurinn á Olsenstúni þar. Árið 1938 var svo vígður nýr golfvöllur á Bústaðahálsi og Litluhlíð. Þar var og reistur Golfskálinn (sjá). Árið 1963 tók klúbburinn i notkun nýjan golfvöll í Grafarholti og reisti þar byggingar yfir félagsstarfsemina. Nýr golfvöllur á vegum félagsins var vígður á Korpúlfsstöðum 1997 en Grafarkotsvöllur í Grafarholti var tekinn í notkun 2006.

Golfsamband Íslands

Golfskálahæð. Sjá Litlahlíð.

Golfskálinn.  Félagsmiðstöð Golfklúbbs Reykjavíkur í Litluhlíð (Litlu Öskjuhlíð) sem einnig var notaður sem veitingastaður og til almenns samkomuhalds. Skálinn var tekin í notkun fullbúinn 1942. Eftir að Golfklúbburinn flutti í Grafarholt fengu skátar gamla Golfskálann til afnota á árunum 1970-1975 en skömmu síðar var hann rifinn.

Gorvík. Áberandi vík milli Geldinganeseiðis og Blikastaðakrór þar sem Úlfarsá fellur til sjávar. Í henni er fjara með auðugu lífríki.

Goshóll. Hóll fyrir norðan túngarðinn á Rauðará, ekki langt þar frá sem nú stendur húsið Höfði. Undir honum var vatnsbólið Gvendarbrunnur.

Gosi. Veitingastofa og sælgætisverslun sem stofnuð var af Steinari Guðmundssyni 1947 í viðbyggingu Bergstaðastrætismegin á Skólavörðustíg 10. Rak hann verslunina ásamt konu sinni Jósíönu Sigríði Magnúsdóttur fram til um 1985.

Gospelsystur Reykjavíkur. Sjá Cantabile.

Góði hirðirinn. Nytjamarkaður þar sem seld eru notuð föt og munir, komið á fót á vegum Sorpu og líknarfélaga.  Varð til árið 1993 en fékk nafn sitt 1999. Var fyrst í Hátúni 12 en frá árinu 2004 hefur hann verið í Fellsmúla 28.

Góðtemplarahreyfingin. Fyrstu stúkurnar í Reykjavík, Einingin og Verðandi, voru stofnaður 1885.

Góðtemplarahúsið. Samkomuhús Góðtemplarahreyfingarinnar, oftast nefnt Gúttó. Reist á uppfyllingu við Tjörnina 1887 en taldist síðar til Vonarstrætis. Eitt helsta samkomuhús Reykvíkinga um langt skeið og þar voru haldnir bæjarstjórnarfundir á árunum 1903-1932. Húsið var rifið 1968.

Góðtemplarahöllin.

Gólfefnaval. Fyrirtæki, komið 2001.

Grafará. Stutt á sem rennur um Grafardal í Esjunni og niður í Leirvogsá.

Grafardalur. Dalur sem gengur upp í Esjuna vestan Háatinds.

Grafarheiði. Suðvesturhluti Austurheiðar, norður og upp af Rauðavatni.

Grafarholt. Býli fyrir botni Grafarvogs. Hét Gröf en nafninu var breytt árið 1907. Jarðarinnar er getið á 14. öld en árið 1943 var hún lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Seláshverfi og Grafarholtshverfi eru byggð í landi jarðarinnar.

Grafarholtshverfi

Grafarkot. Kotbýli í landi Grafarholts (Grafar), stóð þar sem golfvöllurinn Grafarkotsvöllur í Grafarholti er nú.

Grafarkotsvöllur. Sjá Golfklúbbur Reykjavíkur.

Grafarlækur. Lækur sem á upptök sín í Grafarheiði og rennur í Grafarvog.

Grafarmýri. Mýrlendi fyrir ofan Þrætuengi og Kermóa, var nokkurn veginn þar sem Stekkjarbakki og Álftabakki koma á Reykjanesbraut.

Grafarsel. Seltættur efst í Selbrekkum upp af Rauðavatni. Þar var haft í seli frá Gröf (Grafarholti).

Grafarvað. Vað á Korpu við Tjarnengi norðan við bæinn Grafarholt. Vaðið var á landamerkjum Grafarholts, Keldna, Korpúlfsstaða og Lambhaga.

Grafarvogsdagar. Hátíð sem félagasamtök og fyrirtæki í Grafarvogi ásamt þjónustumiðstöð og Hverfisráði hafa haldið einu sinni á ári frá árinu 1998.

Grafarvogskirkja. Sóknarkirkja Grafarvogssafnaðar við Fjörgyn í Grafarvogi, vígð árið 2000. Arkitektar hennar eru Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson.

Grafarvogshverfi

Grafarvogslaug. Sundlaug við Dalhús 2, opnuð 1998. Arkitektar hennar voru Vilhjálmur Hjálmarsson og Guðmundur Þór Pálsson. Fyrsti forstöðumaður hennar var Hafliði Halldórsson. Laugin er hluti af Íþróttamiðstöð Grafarvogs.

Grafarvogssöfnuður. Stofnaður 1989. Fyrsti sóknarprestur hans var séra Vigfús Þór Árnason.

Grafavogur. Vogur sem gengur inn úr Elliðaárvogi milliu Ártúnshöfða og Gufunes. Dregur nafn sitt af bænum Gröf sem var inn af vognum.

Grafíska sveinafélagið. Stofnað 1973 þegar Félag Offsetprentara og Prentmyndasmiðafélag Íslands sameinuðust. Fyrsti formaður félagsins var Jóhann F. Ásgeirsson. Rann inn í Félag bókagerðarmanna árið 1980.

Grammið. Hljómplötuútgáfa, starfrækt 1981-1989.

Grand Rokk. Veitingastaður með lifandi tónlist, einnig þekktur fyrir skákmenningu. Var stofnaður 1993 af veitingamanninum Þórði Ægi Jónssyni og var til húsa á Klapparstíg 30 en eftir 1999 á Smiðjustíg 6. Starfræktur til 2010.

Grandabakki. Hafnarbakki suðvestan Grandabryggju við Grandagarð, gerður á uppfyllingu um 1963.

Grandaborg. Leikskóli að Boðagranda 9 í Vesturbænum. Tók til starfa 1985 og var Jóhanna Gestsdóttir fyrsti forstöðumaður hans.

Grandabót. Krikinn austan við Örfiriseyjargranda í landi Hlíðarhúsa

Grandabót. Kriki milli Bráðræðisholts og Eiðsgranda. Þar var uppsátur útvegsmanna á Bráðræðisholti. Horfin undir uppfyllingar.

Grandabryggja. Stór togarabryggja norðarlega út frá Grandagarði,  gerð á árunum 1955-1959 en síðar stækkuð mikið. Var upphaflega kölluð Togarabryggjan.

Grandagarður. Upphaflega mjör hafnargarður sem kom á svokölluðum Örfiriseyjargranda með hafnargerðinni í Reykjavík 1913-1917. Unnið var að breikkun garðsins á árunum 1945-1950 og er nú breið gata og hús báðum megin á honum.

Grandahaus. Lítil þúst þar sem Örfiriseyjargrandi og Vesturgrandi mættust. Markaði landamerki Örfiriseyjar. Einnig nefndur Grandahöfuð.

Grandahólmar. Sjá Hólmurinn.

Grandahólmi. Sjá Hólmurinn.

Grandahöfuð. Sjá Grandahaus.

Grandakaffi. Veitingastaður í húsinu Grandagarði 101 þar sem áður voru Hafnarböðin. Tók til starfa 1989. Áður höfðu verið kaffiveitingar frá 1983 í sambandi við Hafnarböðin.

Grandasafn. Útibú Borgarbókasafns Reykjavíkur að Grandavegi 47, opnað þar 1993 og tók við af Hofsvallasafni (sjá). Rekið til 2000.

Grandaskáli. Vöru- og fiskvinnsluskemma Reykjavíkurhafnar á Grandabryggju (Grandagarður 18), teiknuð af Einari Eiríkssyni og tekin í notkun 1964.

Grandaskóli

Grandavegur. Gata á Bráðræðisholti sem nær milli Eiðsgranda og Kaplakjólsvegar. Getið er fyrst um Grandaveg um 1912 og var hann kenndur við Eiðsgrandann.

Grandaver. Fyrirtæki, upphaflega stofnað af Óla Barðdal árið 1958 til viðgerða á gúmmíbátum og var jafnframt viðgerðarverkstæði. Var til húsa í verbúð við Grandaveg. Það breyttist síðan í heildsölufyrirtæki og starfaði fram yfir 1990, lengst af í Örfirisey.

Grandavigt. Hafnarvigt Reykjavíkurhafnar við Grandagarð 12 ásamt vigtarhúsi sem tekið var í notkun 1959. Árið 1988 var upprunalega hafnarvogin tekin niður og komið fyrir nýrri tölvustýrðri vog.

„Grandhótel“.  Grasi vaxinn hóll og nótabátur á hvolfi á óbyggðri lóð á Skúlagötu 4 þar sem síðar kom hús Hafrannsóknarstofnunar, skammt frá Áfengisútsölunni í Nýborg.  Gárungarnir kölluðu staðinn þessu nafni því þarna héldu rónar bæjarins til og sváfu úr sér undir bátnum. Báturinn var fjarlægður 1951 og þá fluttu margir rónarnir sig til og sváfu undir bárujárnsgirðingunni sem lá þvert yfir Arnarhól og fluttist nafnið þangað. Girðingin var fjarlægð eftir að byggingarframkvæmdir hófust við Seðlabankann eftir 1980.

Grandi. Austasti tangi Engeyjar. Einnig kallaður Engeyjartagl, Eyjartagl eða Taglið.

Grandi . Útgerðar- og fiskvinnlusfyrirtæki, stofnað 1985 með sameiningu Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ísbjarnarins. Rekur frystihús á Grandagarði.

Grandinn. Grandi sem áður tengdi Örfirisey við land en yfir hann flæddi á flóði. Við hafnargerðina 1913-1917 var Grandagarður (sjá) gerður eftir honum endilöngum.

Gras- og kögglaverksmiðjan í Brautarholti.

Grasagarður Reykjavíkur. Lifandi safn íslenskra og erlendra plantna í Laugardal. Garðurinn, sem stofnaður var 1961, er á sama svæði og Laugardalsgarðurinn og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn.

Grashólmar. Sjá Hólmurinn.

Grái kötturinn. Kaffihús að Hverfisgötu 16a , stofnsett 1997 af myndlistarmönnunum Huldu Hákon og Jóni Óskari.

Grátholt. Örnefni norðan Reynisvatnsáss, sunnan Úlfarsáss.

Grátholtslækur. Rennur um Grátholtsmýri.

Grátholtsmýri.  Mýrarsvæði í landi Reynisvatns vestan við Grátholt nærri Úlfarsá.

Grenið. Fyrsta aðstaða ÍR, búningsaðstaða, skrifstofa og sjoppa, í Breiðholti. Malarvöllurinn þar hjá var við hliðina á Breiðholtskjöri.

Grensás. Hæðin austan við Kringlumýri og vestan Sogamýrar.

Grensásbakarí. Stofnsett 1956 af þeim Hauki Friðrikssyni og Kristínu Jónu Benediktsdóttur. Var á Grensásveg 26 til um 1980 að það flutti í Garðabæ.

Grensáskirkja. Reist 1996 á Háaleitisbraut 66. Arkitektar kirkjunnar voru Jósef Reynis og Gísli Halldórsson.

Grensáskjör. Matvöruverslun, stofnsett 1960 af þeim Þorvaldi Friðrikssyni og Guðrúnu Þórðardóttur. Var fyrstu tvö árin á Grensásveg 26 en eftir það á Grensásveg 46. Hætti 1991.

Grensásdeild

Grensásvegur. Fékk nafn sitt 1930 en lá upphaflega einungis milli Suðurlandsbrautar og Sogavegar en síðar var hann lagður áfram yfir Bústaðaháls að Bústaðavegi.

Grettir. Blikksmiðja, stofnuð af Ingibergi Stefánssyni árið 1929 og var hún fyrst til húsa á Grettisgötu 34, síðan á Grettisgötu 18 1936-1945, Brautarholti 24 1945-1975, Ármúla 19 1975 til um 2005 en síðan í Funahöfða 5.

Grettir. Sundskáli, reistur við Skerjafjörð af Ungmennafélagi Reykjavíkur árið 1909. Var notaður í nokkur ár og heitir Sundskálavík fyrir neðan þar sem hann stóð.

Grettir. Nýlenduvöruverslun á Grettisgötu 45, sett á stofn 1917 af Sigurði Hallsyni en síðar kom Þorlákur Jónsson að rekstrinum. Rekin til 1934.

Grettir vatnskassar. Viðgerðir og sala á vatnskössum, stofnað út úr Blikksmiðjunni Gretti árið 1998 af Ingibergi Ingibergssyni. Til húsa á Vagnhöfða 6.

Grettisgata.

Grettisgötuleikvöllurinn

Grillhús Guðmundar. Sjá Grillhúsið.

Grillhúsið. Veitingastaður í Tryggvagötu 20 með hamborgara sem sérgrein. Opnaður 1991 af þeim Guðmundi Þórssyni og Tómasi A. Tómassyni. Hét Grillhús Guðmundar fyrstu árin. Frá 1997 hefur Grillhúsið einnig verið rekið á Sprengisandi, við gömlu Fákshúsin og einnig í Kringlunni frá um 2011.

Gripið og greitt. Birgðaverslun og vörudreifing, stofnuð 1988 fyrir frumkvæði Sláturfélags Suðurlands en komst svo í eigu fjölmargra innflutningsfyrirtækja í matvöru. Fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Ólafur Magnússon. Hafði höfuðstöðvar í Skútuvogi 4 en varð gjaldþrota 2006. Ný verslun með sama nafni var opnuð að Brúarvogi 3 árið 2009.

Gríma. Leikhópur, stofnaður 1961, til að starfrækja tilraunaleikhús. Fram til 1971 flutti hann mörg framúrstefnuleikverk, erlend og íslensk, í Tjarnarbíói. Stofnendur Grímu voru þau Erlingur Gíslason, Guðmundur Steinsson, Kristbjörg Kjeld, Magnús Pálsson, Vigdís Finnbogadóttir og Þorvarður Helgason.

Grímsbýr.  Þrjú einlyft parhús sem reist voru á Grímsstaðaholti 1925 sem bráðabirgðahús handa fólki í húsnæðisvandræðum.  Eitt taldist til Smyrilsvegs 29-29F en tvö til Þrastargötu. Þau síðarnefndu voru rifin 1986 en hitt fyrr.

Grímsbær. Torfbær sem stóð þar sem síðar var Ingólfsstræti 9, reistur um 1840 af Grími Bjarnasyni Melby. Einnig kallaður Melbysbær. Rifinn 1879 eða fyrr.

Grímsbær. Steinbær sem Grímur Grímsson reisti að Bergstaðastræti 48 árið 1898. Einnig nefndur Borg. Nokkru síðar komst bærinn í eigu Þorláks Oddssonar og var þá yfirleitt kallaður Lákabær. Rifinn eftir 1930.

Grímsbær. Hús eða bær sem stóð þar sem nú er Vesturgata 50a.

Grímsstaðablettir

Grímsstaðaholt. Svæðið sunnan Mela og Haga og vestan Vatnsmýrar og Skerjafjarðar. Kennt við býlið Grímsstaði við Skerjafjörð sem reist var 1842. Holtið hét áður Móholt.

Grímsstaðaholtsblettir

Grímsstaðakot. Sjá Bjarnastaðir.

Grímsstaðavör. Kennd við bæinn Grímsstaði á Grímsstaðaholti. Þar var síðast róið á rauðmaga við Ægissíðu.

Grímsstaðir. Bær sem Grímsstaðaholt er kennt við, reistur árið 1842 af Grími Egilssyni. Stóð þar sem nú er Ægissíða 62.

Grjótabrekka. Brekka vestur af Aðalstræti.

Grjótagata. Gata sem liggur frá Aðalstræti að Garðastræti, kennd við bæinn Grjóta sem stóð ofarlega við götuna (nr. 14). Nafnið var lögfest árið 1848 en í upphafi sem Grjótastræti. Breyttist í Grjótagötu upp úr 1860.

Grjótastræti. Sjá Grjótagata.

Grjótaþorp. Bæjarhluti sem afmarkast af Aðalstræti, Túngötu, Garðastræti og Vesturgötu. Kenndur við torfbæinn Grjóta sem var hjáleiga frá Reykjavík og stóð þar sem nú er Grjótagata 14.

Grjótfélagið í Reykjavík. Stofnsett 1899 af kaupmönnum í Reykjavík til að afla seglfestugrjóts (ballestar) fyrir skip. Fékk að hafa grjótbirgðir sínar í vestanverðri Rauðarárvík.

Grjótgarður. Nafn á atvinnudeildarhúsi Háskóla Íslands (frá 1937) meðan jarðfræðideild skólans var í húsinu.

Grjótheimar. Nýbýli á erfðafestulandi á Laugarásbletti 5 við Hólsveg

Grjóthús. Torfbær við Vatnsstíg 9, byggður fyrir 1875 en rifinn 1903.

Grjóti. Ein af hjáleigum Reykjavíkur í manntalinu 1703. Stóð þar sem nú er Grjótagata 14. Síðar komu fleiri torfbæir á torfuna sem kallaðir voru einu nafni Grjótabæirnir (Grjótagata 12 og 14 og Garðastræti 25).  Gamli bærinn í Grjóta gekk undir fleiri nöfnum á 19. öld, svo sem Ásmundarbær og Þorkelsbær. Rifinn fyrir 1896. Við Grjóta er Grjótaþorp kennt.

Grjótlág. Örnefni þar sem Nesjavallaleið hefst eftir að beygt er frá Suðurlandsvegi.

Grjótnám Reykjavíkurborgar

GRM Endurskoðun. Stofnsett 1962 af Gunnari Reyni Magnússyni, hét upphaflega Endurskoðunarskrifstofa Gunnars R. Magnússonar. Var til húsa í Hafnarstræti 15 til 1965 en eftir það í Ármúla 6 til um 2000. Frá þeim tíma á Flókagötu 65.

Gróðrarstöðin. Árið 1899 hóf Búnaðarfélag Íslands að koma upp Gróðrarstöð fyrir sunnan Reykjavík og  fékk til umráða Hallsbæ (Laufásveg 74) ásamt landi í Vatnsmýri. Þar var Gróðrarstöðin síðan rekin til 1932 og var fyrsti forstöðumaður hennar Einar Helgason. Hann hætti 1920 og rak eftir það sjálfur eigin gróðrarstöð á svipuðum slóðum og síðan fjölskylda hans um árabil eftir að hann dó 1935. Þar er nú Einarsgarður (sjá)

Grófarbakki. Hafnarkantur niður af Grófinni, áður hét þar Grófarbryggja. Við gerð hennar árið 1931 sprakk stálþilið fram þegar verið var að dæla sandi úr hafnarbotninum inn fyrir þilið. Þetta varð til þess að nafnið Sprengisandur var lengi notað um Grófarbryggju í almennu tali. Á árunum 1972-1977 kom mikil uppfylling vestan Grófarbryggju og árið 1982 fékk hún ásamt gömlu Grófarbryggjunni nafnið Grófarbakki.

Grófarbryggja. Sjá Grófarbakki.

Grófarhjalli. Nes í landi Skildinganes vestan við Kýrhamar. Þar gengur nú flugbraut út í Skerjafjörð.

Grófarhús

Grófarkvörn. Veiðistaður í Elliðaám (Dimmu) þar sem hún breytir um stefnu frá vestri til norðurs, beint niður af Grænugróf, skammt neðan Snókhólma. Englendingar sem veiddu í ánni um 1900 kölluðu staðinn Corner Pool.

Grófarstrengur. Veiðistaður í Elliðaám (Dimmu) á stuttum kafla þar sem áin rennur til norðurs frá Grófarkvörn.

Grófartunga. Veiðistaður í Elliðaám (Dimmu) þar sem hún breiðir lítillega úr sér ofan Snókhólma, beint niður af Grænugróf.

Grófin. Kriki inn í gömlu fjöruna sem var fram undan Miðbænum, nú svæðið milli Vesturgötu 2 og 4. Í Grófinni var uppsátur báta Reykjavíkurbóndans og síðar einnig Hlíðarhúsamanna og þeirra sem bjuggu í Grjótaþorpi. Stutt gata milli Vesturgötu og Geirsgötu heitir nú Grófin.

Grófir. Örnefni í landi Skildinganess, vestan Grófarhjalla þar sem flugbraut gengur nú út í Skerjafjörð.

Gróubúð. Aðsetur Björgunarsveitarinnar Ársæls á Grandagarði 1, kennd við forystukonuna Gróu Pétursdóttur.

Gróubær. Torfbær sem stóð þar sem nú eru mót Garðastrætis og Vesturgötu, hét upphaflega Hjalli, reistur af Magnúsi Halldórssyni 1837, en fékk síðan nafn af Gróu Ingimundardóttur sem bjó þar lengi. Bærinn var rifinn 1920.

Grund. Elli- og hjúkrunarheimilið. Var upphaflega stofnað í húsinu Grund við Kaplaskjólsveg árið 1922 og var fyrsti forstöðumaður heimilisins Haraldur Sigurðsson. Árið 1930 var tekið í notkun nýtt stórhýsi við Hringbaut 50, teiknað af Sigurði Guðmundssyni. Það hefur síðan verið stækkað margsinnis í tímans rás.

Grund. Nýbýli á erfðafestulandinu Sogamýrarbletti 1, byggt 1929 af Þorkeli Helgasyni. Var síðar Grensásvegur 1a. Einnig nefnt Litla-Grund. Horfið.

Grund. Hús við Kaplaskjólsveg. Þar var barnaheimilið Vesturborg frá 1937.

Grund. Hús á erfðafestulandi á Laugarásbletti 3 við Langholtsveg

Grund. Hús á Norðurmýrarbletti 23 við Reykjanesbraut

Grund. Hús við Súlugötu á Grímsstaðaholti, stóð þar sem nú er Hjarðarhagi 36-42.

Grund. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Grund. Hús við Bauganes 7 í Skerjafirði, byggt árið 1928.

Grundará. Sjá Gljúfurá.

Grundargerðisgarður. Skrúðgarður við Grundargerði í Smáíbúðarhverfi. Garðurinn var  hannaður af Hafliða Jónssyni garðyrkjustjóra og opnaður 1973.

Grundarhús. Timburhús, reist 1883 af Sigurði Hanssyni við Grundarstíg 5A og stendur það enn.

Grundarstígur. Liggur milli Spítalastígs og Hellusunds. Gatan er Grundarbæina á þessum slóðum en sá fyrsti þeirra, Grund, var reistur 1849. Nafnið Grundarstígur fékk gatan ekki formlega fyrr en undir aldamótin 1900.

Grundtvigshús. Sjá Skraddarahús.

Grundtvigshús. Sjá Anikuhús.

Grunn. Hverfi í vestanverðum Laugarási þar sem götur enda á –grunn. Götunöfnin Selvogsgrunn og Sporðagrunn voru ákveðin 1954 en síðar bættist Jökulgrunn við.

Grýlurnar. Fyrsta íslenskar kvennarokkhljómsveitin. Starfaði á árunum 1981-83. Aðalstofnandi hennar var Ragnhildur Gísladóttir en með henni voru frá upphafi voru Herdís Hallvarðsdóttir, Inga Rún Pálmadóttir og Linda Björk Hreiðarsdóttir.

Grýta. Þvottahús. Stofnsett 1931 af Franz Håkansson, var á Laufásvegi 19 til ársins 1935 en flutti sig síðan að Laufásvegi 9 þar sem það var til fram yfir 1971. Um tíma var þvottahúsið á Laugavegi 162 en frá 1977-1987 í Nóatúni 17. Þá flutti það í Borgartún 27 og var þar til um 1999. Frá 1998 var það einnig að Keilugranda 1 og nefndist þá Grýta-Hraðhreinsun. Fyrirtækið mun hafa hætt um 2002.

Græna húsið. Lítið timburhús að Fálkagötu 23a, reist 1919 en rifið 1971.

Grænaborg. Torfbær sem reistur var árið 1834 af Gísla Gíslasyni og Sigríði Hinriksdóttur suðvestan við þar sem nú er elsta bygging Landspítalans við Hringbraut. Þar var áður stekkur frá Skálholtskoti. Síðar kom þar steinbær. Mun hafa staðið fram undir 1930.

Grænaborg. Barnaheimili við Hringbraut fyrir neðan Landspítalann, rekið af Barnavinafélaginu Sumargjöf frá 1931. Um tíma var Skóli Ísaks Jónssonar í húsinu og einnig Æfingadeild Kennaraskólans. Rifið 1981. Nýr leikskóli með þessu nafni var reistur 1983 við Eiríksgötu 2.

Grænagróf.  Grösugar og langar brekkur skammt austan við götunar Suðurfell og Keilufell í Breiðholti, beint niður af Fella- og Hólakirkju. Gott skíða- og sleðaland. Liggja brekkurnar alveg niður að Elliðaám þar sem áin myndar sveig, rétt neðan við Snókhólma.

Grænahlíð. Gróðrarstöð sem starfrækt var á árunum 1944-2002 í Furugerði 23, rétt við Bústaðaveg.

Grænahlíð. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Grænalaut. Örnefni í hlíðinni vestur af Grænugróf á móts við Víðdal.

Grænibær. Torfbær sem reistur var árið 1794 á lóðinni Austurstræti 5. Rifinn árið 1848.

Grænibær. Sjá Bjarg.

Grænidalur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Grænistekkur. Hóll við Mjóadal í Breiðholti (athuga nánar)

Grænlandsleið. Gata sem gengur upp frá Þúsöld í Grafarholti. Nafn sitt fékk gatan 1999 og á hún að minna á landafundi Íslendinga til forna.

Grænmetisskálinn. Einlyft hús sem Grænmetisverslun ríksins lét byggja á horni Ingólfsstrætis og Sölvhólsgötu árið 1937. Þar voru skrifstofur og geymslur fyrir kartöflur og annað grænmeti.

Grænmetisverslun landbúnaðarins. Stofnsett 1956 samkvæmt lögum frá Alþingi. Framleiðsluráð landbúnaðarins fór með stjórn hennar en fyrsti forstjóri hennar var Jóhann Jónasson. Grænmetisverslunin fékk einkarétt á að selja kartöflur og annað grænmeti frá bændum . Hafði jarðhúsin í Ártúnshöfða til umráða en höfuðstöðvar fyrirtækisins frá 1967 voru í Síðumúla 34. Lögð niður 1985 og tók þá Ágæti, Sölusamtök íslenskra matjurtaframleiðenda, við rekstrinum um nokkurra ára bil .

Grænmetisverslun ríksins. Einkasala á kartöflum og grænmeti, stofnuð 1935. Fyrsti framkvæmdastjóri hennar var Árni G. Eylands. Reisti árið 1937 svokallaðan Grænmetisskála á horni Ingólfsstrætis og Sölvhólsgötu. Árið 1948 tók Grænmetisverslunin Jarðhúsin á Ártúnshöfða á leigu. Var rekin til 1956 þegar Grænmetisverslun landbúnaðarins tók við hlutverki hennar.

Grænn kostur. Heilsuskyndibitastaður, opnaður 1995 af þeim Hjördísi Gísladóttur og Sólveigu Eiríksdóttur. Hefur frá upphafi verið á Skólavörðustíg 8. Sameinaðist heilsufyrirtækjunum Manni lifandi, Himneskri hollustu og Bíó vörur árið 2008.

Gröf. Sjá Grafarholt.

Gröf. Sjá Norðurgröf.

Gröndalsbær.  Hús eða bær sem Benedikt Gröndal eldri skáld lét reisa um 1812 í Grjótagötu 4. Rifið um 1896 til að rýma fyrir núverandi húsi.

Gröndalshús. Timburhús sem reist var af Sigurði Jónssyni á Vesturgötu 16B árið 1882. Á árunum 1888-1907 var Benedikt Gröndal skáld eigandi hússins og er það nefnt eftir honum. Húsið var flutt af grunni sínum til geymslu á Grandagarði árið 2010 en fenginn nýr staður við Fichersund í Grjótaþorpi árið 2015.

Guðbrandsbær. Torfbær í Stöðlakotstorfunni við Bókhlöðustíg, kenndur við Guðbrand Eiríksson.

Guðjohnsenshús. Timburhús, reist af Oddi Guðjónssyni upp úr torfbænum Teitsbæ á Tjarnargötu 6 árið 1854. Síðar bjó þar lengi Pétur Guðjohnsen bróðir hans. Rifið um 1930.

Guðjón Ó.  1. Bókaútgáfa, stofnsett 1921 (formlega 1933) af Guðjóni Ó. Guðjónssyni prentara. Var lengst til húsa á Hallveigarstíg 6a og rekin til 1981. 2. Prentsmiðja, stofnsett 1955 og til að byrja með rekin á Hallveigarstíg en síðan í Þverholti 13 á árunum 1976-1992. Á grunni hennar var svo stofnuð Prentsmiðjan Hjá GuðjónÓ (sjá) á sama stað.

Guðjónshús. Sjá Bjarg.

Guðjónshús. Timburhús við Norðurstíg 3B, kennt við Guðjón S. Jónsson sem þar bjó um langan aldur. Áður var torfbær á lóðinni, nefndur Hábær. Ekki er ljóst hvenær það var byggt en það var líklega rifið 1937.

Guðlaugur A. Magnússon. Verkstæði og verslun sem hefur einkum sérhæft sig í silfurborðbúnaði og silfurskarti og er þekkt fyrir jólaskeiðar sínar. Stofnsett 1924 á Ísafirði en fluttist 1927 til Reykjavíkur þar sem fyrirtækið hóf starfsemi á Hverfisgötu 40. Var síðan á ýmsum stöðum en 1939 var það komið að Laugavegi 11 þar sem það var til 1952. Fluttist þá að Laugavegi 22A þar sem starfsemin var til 2007. Síðan þá á Skólavörðustíg 10. Einnig hefur fyrirtækið gengið undir nafninu Gull- og silfursmiðjan Erna.

Guðmundarbúð. Sjá Verslun Guðmundar Albertssonar.

Guðmundarbær. Sjá Suðurbær.

Guðmundarhús. Sjá Miðholt.

Guðnabær. Torfbær reistur af Guðna Einarssyni árið 1851 þar sem nú er Bergstaðastræti 8. Einnig nefndur Miðholt. Rifinn um 1896.

Guðnahús við Framnesveg.

Guðni Jónsson & Co. Umboðs- og heildsala, einkum á sviði vélbúnaðar. Stofnsett um 1945 og rekin fram yfir 1990. Var til húsa í Sænska frystihúsinu við Arnarhól til um 1960 en eftir það lengst í Bolholti 6. Einnig rak fyrirtækið gasstöð (propangas) við Kleppsvík.

Guðríðarkirkja.

Guðríðarstígur. Gata sem gengur upp frá Vínlandsleið vestast í Grafarholti. Kennd við Guðríði Þorbjarnardóttur eiginkonu Þorfinns karlsefnis. Nafngiftin er frá 1999.

Guðrún. Tískuverslun á Rauðarárstíg 1, stofnuð 1955 af Guðrúnu Stefánsdóttur, starfrækt til 2008.

Guðrúnarbúð. Kvenfataverslun, stofnuð 1961 af Guðrúnu Stefánsdóttur og rekin til um 1976 á Klapparstíg 27.

Guðrúnarkot. Sjá Albertsbær.

Guðrúnartún. Gata milli Katrínartúns og Borgartúns, kennd við Guðrúnu Björnsdóttur, eina af fyrstu konunum sem kosnar voru í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908. Nafngiftin er frá 2010 en áður hét gatan Sætún.

Guðspekifélag Íslands. Stofnað 1920 af sjö guðspekistúkum sem þá störfuðu á landinu, þar af tveimur í Reykjavík, Reykjavíkurstúkunni og Septímu. Fyrsti forseti félagsins var Jakob Kristinsson. Aðsetur félagsins frá upphafi hefur verið í eigin húsnæði að Ingólfsstræti 22.

Guðsteinn herrafataverslun. Stofnsett 1918 af Guðsteini Eyjólfssyni klæðskerameistara og var upphaflega einungis klæðskeraverkstæði. Var allra fyrst á Grettisgötu 58A en flutti síðan á Laugaveg 32 og þaðan á Laugaveg 34 árið 1922. Á þeirri lóð byggði Guðsteinn stórhýsi, teiknað af Þorleifi Eyjólfssyni, árið 1929 og þar hefur verslunin verið síðan auk þess sem hann rak um árabil skyrtugerð og prjónastofu í húsinu.

Gufubaðstofa Jónasar Halldórssonar. Stofnsett 1959 á Kvisthaga 29. Rekin til 1984, síðustu árin á Seltjarnarnesi.

Gufunes. Nes og samnefnd jörð austur af Viðeyjarsundi, suðvestan Eiðsvíkur. Bærinn stendur á flatlendu nesi milli Geldinganess og Gufuneshöfða. Þar var komin kirkja um 1150 en hún var lögð af 1886. Reykjavíkurbær keypti jörðina 1924 og nú stendur verulegur hluti Grafarvogshverfis á jörðinni.

Gufunesás. Holt á mörkum Gufuness og Korpúlfsstaða, þar mætast nú Rimar og Borgir.

Gufunesgrandi. Grandi fyrir neðan Gufunesbæinn, er nú horfinn vegna sorpuppfyllinga.

Gufuneshöfði. Höfðinn austur og suður af Gufunesbænum, á honum er Hamrarnir í Grafarvogshverfi.

Gufuneskirkjugarður. Tekinn í notkun 1980 og hefur síðan verið aðalkirkjugarður Reykvíkinga.

Gufunesmelar. Melar norðaustan við Gufunes. Þar er nú Rimahverfi.

Gufunesstöðin. Fjarskiptastöð á Gufunesmelum (síðar Sóleyjarrimi 6), tekin í notkun 1935 þegar verið var að koma á talsímasambandi við Ísland. Rekin af Landsíma Íslands. Einnig nefnd Gufunes Radio. Gegndi miklu hlutverki á stríðsárunum. Eftir stríð var þar Radíóflugþjónustan og frá 2002-2004 Vaktstöð siglinga. Árið 2004 keypti fyrirtækið Flugfjarskipti ehf Gufunesstöðina og hefur rekið hana síðan.

Gufunessund. Svæðið austur af Gufunesbænum yfir núverandi Rimahverfi og þar sem Kirkjugarðurinn í Gufunesi er nú.

Gufunestangi. Tanginn sem Áburðarverksmiðjan í Gufunesi stendur á.

Gufunesvegur. Vegurinn milli gamla Gufunesbæjarins og Áburðarverksmiðjunnar og niður að Geldinganeseiði.

Gufunesvogur. Vogur við bæinn Gufunes, nú fylltur vegna sorphauga sem þar voru.

Gufuvélagæslumannafélag Reykjavíkur. Sjá Vélstjórafélag Íslands.

Gull og demantar. Sjá Gullsmíðaverkstæði Kjartans Ásmundssonar.

Gull og silfur. Gullsmíðaverkstæði og verslun, stofnsett 1971 af Steinþóri Sæmundssyni og fjölskyldu. Var á Laugavegi 35 til 2005 en eftir það á Laugavegi 52.

Gullaugað. Nafn sem festist við hús Grænmetisverslunar landbúnaðarins í Síðumúla 34.

Gullborg. Leikskóli við Rekagranda 14 í Vesturbænum. Tók til starfa 1990.

Gullborinn. Keyptur til landsins 1922 til að bora eftir gulli í Vatnsmýri en var síðan notaður við boranir eftir heitu vatni. Er nú í Árbæjarsafni.

Gullfoss. Kvenfata- og kjólaverslun og saumastofa. Stofnsett 1915 af Guðrúnu Benediktsdóttur og Kristjönu Blöndal. Var fyrst til húsa í Hafnarstræti 15 og síðan á fjölmörgum stöðum í Miðbænum en frá 1942 var verslunin lengst af í Aðalstræti 9.  Gekkst stundum fyrir tískusýningum. Hætti 1999.

Gullhóll. Hús byggt árið 1928 að Reykjavíkurvegi 3 í Skerjafirði af Hjörleifi Ólafssyni og Halldóru Narfadóttur. Flutt að Hrísateigi 7 árið 1942 og stendur þar enn.

Gullinbrú. Gata ásamt brú sem tengir Ártúnshöfða við Grafarvogshverfi. Nafngiftin, sem er frá 1983, er tekin úr kvæðinu Veturinn eftir Bjarna Thorarensen skáld en hann bjó í Gufunesi.

Gullkista. Drangur í Gullkistuvík vestast á Kjalarnesi (nesinu sjálfu).

Gullkistuhöfði. Klettur sunnan við Gullkistuvík á vestanverðu Kjalarnesi.

Gullkistumýri. Mýrin upp af Gullkistuvík í vestanverðu Kjalarnesi.

Gullkistuvík. Vík sem skerst inn í vestanvert Kjalarnes (nesið).

Gulllóðin. Lóð á uppfyllingu við norðurenda Tjarnarinnar, síðar Vonarstræti 10-12. Nafngiftin tilkomin vegna þess hve miklu var til kostað við uppfyllinguna. Fyrstu mannvirkin á lóðinu voru bílskúrar Bifreiðafélags Reykjavíkur árið 1913.

Gulllóðin. Lóðin Austurstræti 14 sem Einar Benediktsson skáld keypti 1907 fyrir 15 þúsund krónur og þótti það svo hátt verð að hún var aldrei kölluð annað en þessu nafni.

Gullni haninn. Veitingahús að Laugavegi 128. Stofnsett af Birgi Jónssyni. Hét Halti haninn 1972-1983 en Gullni haninn 1983-1996.

Gullrennan. Djúp skólprenna sem gerð var 1890 og lá eftir norðanverðu Austurstræti og út í Lækinn. Nafn sitt dregur hún af því hversu framkvæmd hennar var dýr. Rennunni var lokað 1907.

Gullsmiðafélag Reykjavíkur. Sjá Félag íslenskra gullsmiða.

Gullsmiðir Bjarni og Þórarinn. Gullsmíðaverkstæði og verslun, stofnað 1955 af þeim Bjarna Þ. Bjarnasyni og Þórarni Stefánsi Gunnarssyni. Var til húsa á Bergstaðastræti 3 fyrstu  15 árin, síðan um skeið á Laugaveg 28 en frá um 1974 á Hverfisgötu 49. Árið 2001 flutti fyrirtækið í Kópavog.

Gull- og silfursmíðaverslun Guðmundar Þorsteinssonar. Stofnsett 1928 og rekin í sömu húsakynnum til 1993. Hét síðast Úra- og skartgripaverslun Bankastræti 12.

Gullsmíða- og skartgripaverslun Óskars Gíslasonar. Stofnsett 1931 og rekin til 1963, fyrst á Laugaveg 4 fram yfir 1940 en eftir það á Skólavörðustíg 5.

Gullsmíðaverkstæði Kjartans Ásmundssonar. Stofnsett 1924 í Pósthússtræti 11, frá 1935 í Fjalakettinum Aðalstræti 8, frá 1984 í Aðalstræti 7 og hét þá Gull og demantar. Frá 1994 á Skólavörðustíg 2.

Gullströndin. Fjaran þar sem  Öskuhaugar Reykjavíkur voru á árabilinu 1924-1958 en þar er nú gatan Eiðisgrandi. Pétur Hoffmann Salómonsson nefndi fjöruna þessu nafni enda sótti hann þangað margan dýrgrip. Árið 1983 héldu um 120 listamenn mikla listahátíð í húsinu Hringbraut 119 þar rétt hjá og kölluðu hana Gullströndin andar. Um tíma hélt Reykjavíkurakademían í JL-húsinu á Hringbraut 121 úti útvarpsþætti sem hét Gullströndin.

Gull-úrið. Úra- og skartgripaverslun í Álfabakka 16. Opnuð 1993 af Axel Eiríkssyni.  Hann rak áður Úra- og skartgripaverslun Guðmundar Þorsteinssonar í Bankastræti 12.

Gullöldin. Veitingahús og hverfiskrá að Hverafold 5 í Grafarvogshverfi. Stofnsett 1995 af Kristínu Anný Jónsdóttur og Valgeiri Inga Ólafssyni.

Gummó. Sjá Verslun Guðmundar Albertssonar.

Gunnar Ásgeirsson. Innflutningsfyrirtæki og verslun. Stofnsett 1959 og var frá fyrstu tíð á Suðurlandsbraut 16 uns það flutti 1991 í Borgartún 24. Það hætti rekstri árið 1993.

Gunnar Eggertsson. Umboðs- og heildverslun, einkum á sviði prentiðnaðar en einnig efna- og martvælaiðnaðar o.fl. Stofnsett 1974. Hefur frá upphafi verið í Sundagörðum 6.

Gunnar Guðjónsson skipamiðlun. Fyrirtæki stofnað 1932.

Gunnarsfell. Hús í Selási.

Gunnarsholt. Steinbær við Holtsgötu 2 (síðar 6), reistur 1883 af Þorláki Runólfssyni. Rifinn 1965.

Gunnarshólar.  Blágrýtishólar sem voru rétt við Vatnagarða, nú horfnir vegna framkvæmda við Sundahöfn. Voru stundum nefndir Ástarhólar því þar áttu elskendur stundum fundi en einnig Gunnuhólar, Stúdentahólar eða Skólapiltahólar.

Gunnarshólmi. Nýlenduvöruverslun, stofnsett 1928 af Jóhanni Karlssyni. Til húsa á Hverfisgötu 64. Stóð stutt.

Gunnarshús. Stórt einbýlishús að Dyngjuvegi 8. Byggt á árunum 1950-1952 af Gunnari og Franzisku Gunnarsson og var þetta síðasta heimili skáldsins. Arkitekt hússins var Hannes Kr. Davíðsson og þótti það tímamótaverk í íslenskri byggingalist. Það var friðað að ytra byrði árið 2008. Frá 1997 hefur húsið verið aðsetur Rithöfundasambands Íslands.

Gunnarshús. Timburhús að Grettisgötu 31, byggt 1902 af Gunnari Gunnarssyni snikkara. Húsið var flutt innar á lóð árið 1927.

Gunnlaugsbúð. Sjá Verslun Gunnlaugs Jónssonar.

Gunnlaugsensbrú. Trébrú yfir Lækinn þar sem Amtmannsstígur kemur niður á Lækjargötu, sett þar 1839 en var tekin af þegar Lækurinn var byrgður 1912. Einnig seinna nefnd Amtmannsbrú.

Gunnlaugsenshús. Húsið Amtmannsstígur 1, sem Stefán Gunnlaugsson land- og bæjarfógeti reisti upphaflega 1838. Hluti af Bernhöftstorfu. Síðar átti húsið Martin Smith kaupmaður og var það þá oft kallað Smithshús. Enn síðar keypti það Guðmundur Björnsson landlæknir og hét það eftir það Landlæknishús. Hann reisti turninn við húsið árið 1905. Frá 1981 hafa verið veitingastaðir í húsinu, síðast Humarhúsið.

Gunnlaugsskarð. Skarð í hlíðum Esju, beint upp af Mógilsá, vestan Kistufells.

Gunnuhólar. Sjá Gunnarshólar.

GusGus. Hópur fjöllistafólks sem kom saman 1995 og varð einkum þekktur fyrir rafræna tónlist. Upphaflegir þátttakendur voru tólf en Birgir Þórarinsson og Stefán Stephensen hafa verið með frá upphafi.

Gutenberg. Prentsmiðja, stofnuð af hlutafélagi prentara árið 1905. Var til húsa í Þingholtsstræti 6. Ríkið keypti prentsmiðjuna árið 1929 og var hún eftir það kölluð Ríkisprentsmiðjan Gutenberg. Prentsmiðjan flutti úr sínum gömlu húsakynnum í Síðumúla 16-18 árið 1974. Hún var einkavædd 1992 og seld Steindórsprenti. Hét eftir það Steindórsprent-Gutenberg. Prentsmiðjan Oddi keypti svo fyrirtækið árið 2000 og var það rekið áfram sem sjálfstæð eining í Síðumúla til 2006.

Gúmmíbarðinn. Hjólbarðaverkstæði, stofnað 1946 af Sigurði Jóhannssyni og fl. Var til 1955 í Sjávarborg við Skúlagötu, neðan Barónsstígs. Flutti síðan í Brautarholt 8 og loks í Brautarholt 10 þar sem það var starfrækt til um 1978. Var síðustu árin kallað Gúmbarðinn.

Gúmmibátaþjónustan. Stofnsett 1965 af Ásgeiri Þ. Óskarssyni og var til húsa á Grandagarði 13 til 1979 en eftir það á Eyjargötu (síðar Eyjarslóð) nr. 9. Starfaði til 2002.

Gúmmískógerðin. Stofnsett af Kristjáni Fr. Guðmundssyni árið 1932 og var fyrsta iðnfyrirtækið í þeirri grein hér á landi. Var fyrstu árin staðsett á Austurlandi en flutti til Reykjavíkur árið 1936 og rekin þar til um 1948. Var fyrst á Laugaveg 47 til 1938 en síðan á Laugaveg 68.

Gúmmívinnustofa Reykjavíkur. Sjá Gúmmívinnustofan.

Gúmmívinnustofan. Stofnuð af Þórarni Kjartanssyni árið 1918 og var hún fyrst til húsa í Ingólfsstræti 23 en frá 1921 að Laugavegi 76. Hét fyrst Gúmmívinnustofa Reykjavíkur. Upphaflega var einkum um gúmmískógerð og gúmmísvuntugerð að ræða en einnig annaðist Þórarinn dekkjaviðgerðir og var líklega sá fyrsti hér á landi sem það lagði fyrir sig en síðar urðu bíldekkjaviðgerðir aðalviðfangsefni stofunnar. Upp úr 1940 fluttist Gúmmívinnustofan að Laugavegi 77 og þaðan árið 1945 að Grettisgötu 18 þar sem hún var til 1960 en þá var flutt í Skipholt 35. Árið 1983 færði fyrirtækið út kvíarnar og hóf starfsemi sólningarverksmiðju, hjólbarðaverkstæði, innflutning og aðra þjónustu að Réttarhálsi 2. Var það rekið til 2005 þegar Bílanaust tók þá starfsemi yfir. Gúmmívinnustofan að Skipholti 35 heitir frá 2005 Gúmmívinnustofan SP dekk.

Gúmmívinnustofan SP dekk. Sjá Gúmmívinnustofan.

Gúttó. Sjá Góðtemplarahúsið.

Gúttóslagur

Gyllti salurinn

Gvendarbrunnar. Uppsprettulindir í landi Hólms sem koma undan Hólmshrauni skammt frá Helluvatni austan Elliðavatnsheiðar. Frá 1909 var neysluvatn Reykvíkinga tekið úr Gvendarbrunnum en síðar hafa borholur á Heiðmerkursvæðinu tekið við því hlutverki að mestu.

Gvendarbrunnur. Vatnsból skammt frá sjónum á leið inn í Laugarnes, nálægt því sem Höfði stendur nú. Stóð undir svokölluðum Goshól. Við hann var grjóthrúga sem vegfarendur gerðu sér skylt að kasta steinum í.

Gvuný Möllershús. Einlyft timburhús að Austurstræti 14, reist árið 1834 og kennt við Guðnýju Möller sem lengi hafði matsölu í húsinu. Rifið 1907.

Gömlubotnar. Örnefni þar sem skátaskálar í Lækjarbotnum hafa verið.

Götuhús. Hjáleiga frá Kleppi, nefnd í manntalinu 1703.

Götuhús. Gömul hjáleiga frá Reykjavík, þar bjó ein fjölskylda 1703.  Stóð nokkurn veginn þar sem nú er Túngata 20. Síðustu bæjarhúsin voru rifin um 1863.

Götuhús. Steinbær við Vesturgötu 50, byggður 1895 af Pétri Jónssyni og stendur enn.

Götuhúsastígur. Stígur sem lá úr Miðbænum upp að Götuhúsum við Túngötu. Hann lá þar sem nú er Fischersund, beygði inn þar sem nú er Mjóstræti og síðan eru leifar hans sundið (Skáldastígur) sem liggur þaðan upp með Unuhúsi.

Götuhúsatún. Túnið sem tilheyrði Götuhúsum við Túngötu 20, það var lagt til Innréttinganna upp úr 1750. Síðar varð það hluti að Geirstúni.

H. A. Tulinius & Co. Heildverslun, stofnuð 1941 af Hallgrími A. Tulinius og fleirum. Var upphaflega í Vonarstræti 4, lengi síðan í Austurstræti 14 en loks í Austurstræti 20 þar til hún hætti um 1992.

H. Andersen & Sön. Klæðskeraverkstæði og verslun, stofnsett 1887 af sænska klæðskeranum Hans Andersen. Var fyrst til húsa í Skólastræti 1 en frá 1889 í Aðalstræti 16. Þar var það rekið allt til ársins 1966.

H. Benediktsson. Heildverslun, einkum á sviði nýlendu- og matvara, pappírs og prentvara, byggingavara, véla og olíuvara. Stofnsett 1911 af Hallgrími Benediktssyni. Skrifstofur fyrirtækisins voru upphaflega á Hótel Íslandi í Austurstræti 2 en frá 1916 til 1943 í Thorvaldsensstræti 2. Það ár var flutt í Hafnarhvol, Tryggvagötu , þar sem fyrirtækið var til húsa fram til 1961. Eftir það var það á Suðurlandsbraut 4 en árið 1993 tók Nói-Síríus yfir allan innflutning þess jafnframt því sem flutt var í Hestháls 2-4 og varð H. Benediktsson eftir það einungis eignarhaldsfélag.

H. Ólafsson og Bernhöft. Heildverslun, stofnuð af Ólafi Hauki Ólafssyni og Guido Bernhöft árið 1929. Starfsemin byrjaði í Austurstræti 14 en fluttist 1930 í Hafnarstræti 10-12 og var þar fram yfir 1961 en síðan á ýmsum stöðum í Miðbænum þar til árið 1983 að flutt var í Vatnagarða 18.

Habitat. Húsgagna- og búshaldaverslun, opnuð árið 1983 í samvinnu Hjalta Geirs Kristjánssonar og Habitat-fyrirtækisins í Bretlandi. Verslunin var á Laugavegi 13 til 1997 en árið 1996 var opnuð Habitat-verslun í Kringlunni og þar var hún til 2001 þegar hún var flutt í Kópavog.

Hadda. Hattaverslun, stofnsett af Halldóru Pétursdóttur árið 1928. Var á Skólavörðustíg 2 til 1933, flutti þá á Laugaveg 4 þar sem verslunin var til um 1940. Eftir það var hún á Hverfisgötu 35 allt til ársins 1999.

Haflax. Fiskeldisfyrirtæki, stofnsett 1985 af Guðmundi H. Jónssyni í Byko og fleirum. Var með sjókvíaeldi í Eiðsvík í fáein ár.

Hafnamálastofnun ríkisins. Sjá Vita- og hafnamálaskrifstofan.

Hafnarbíó. Herbraggi þar sem nú er Skúlagata 40, reistur af breska hernum sem samkomuhús og officeraklúbur. Kallaður Bíócamp. Eftir stríð voru um tíma kvikmyndasýningar í húsinu á vegum Nýja bíós en árið 1948 var það gert að almennu kvikmyndahúsi sem kallaðist Hafnarbíó. Stóðu að því Stefán A. Pálsson og fleiri. Kvikmyndahúsið var rekið til 1981 en eftir það fékk Alþýðuleikhúsið inni í Hafnarbíó þar til það var rifið í árslok 1983.

Hafnarbúðir. Tvílyft steinhús á Geirsgötu 9 (var talið við Tryggvagötu til 1998) við gömlu Reykjavíkurhöfn, sem sem reist var af Reykjavíkurborg árið 1962 og átti að leysa af hólmi gamla Verkamannaskýlið. Í Hafnarbúðum var einnig gisti- og baðaðstaða. Arkitektar hússins voru þeir Einar Sveinsson og Aðalsteinn Richter. Húsið gegndi hlutverki verkamannaskýlis til ársins 1970 auk þess sem þar var gistirými og baðaðstaða og aðsetur Ráðningastofu Reykjavíkur. Fyrsti forstöðumaður Hafnarbúða var Haraldur Hjálmarsson. Eftir 1972 fór fram ýmis konar starfsemi í húsinu. Þar var miðstöð hjálparstarfs við flóttamenn vegna Heimaeyjargossins 1973 og síðar um nokkurra ára skeið eftir 1977 hjúkrunarheimili fyrir langlegusjúklinga. Frá 1998 hafa verið veitingastaðir og fleira í húsinu.

Hafnarböðin. Hús byggt við norðurenda verbúðalengjunnar á Grandagarði árið 1967. Þar var boðið upp á sturtu- og hreinlætisaðstöðu fyrir sjómenn og þá sem unnu við höfnina. Starfrækt til 1980 en nýir rekstaraðilar buðu upp á sturtuaðstöðu í húsinu til 1989.

Hafnardagur Reykjavíkurhafnar. Sjá Hátíð hafsins.

Hafnarfjarðarvegur.  Lá í framhaldi af Skólavörðustíg og áleiðis milli Öskjuhlíðar og litlu Öskjuhlíðar þar sem nú er Skógarhlíð. Fyrst nefndur í heimildum um 1895. Vegurinn var rofinn í Skólavörðuholti árið 1916 (uppgröftur vegna hafnargerðar) og var eftir það farið um Laufásveg sem tengdist Hafnarfjarðarvegi nálægt Öskuhlíð.

Hafnarhúsið. Mikil vörugeymslu- og skrifstofubygging á hafnaruppfyllingu fram af Miðbænum, reist á vegum Hafnarstjórnar Reykjavíkur á árunum 1932-1939. Síðan hefur húsið verið aukið nokkuð. Það var upphaflega teiknað af Sigurði Guðmundssyni arkitekt og Þórarni Kristjánssyni hafnarstjóra. Auk Hafnarskrifstofa voru í húsinu vörugeymslur sem Eimskipafélagið, Skipaútgerð ríkisins og ýmsir innflytjendur leigðu og fjölmargar skrifstofur. Hluti Hafnarhússins hýsir nú Listasafn Reykjavíkur.

Hafnarhvoll. Stórhýsi að Tryggvagötu 11, byggt 1942, upphaflega sem kornmylla fyrir Mjólkurfélag Reykjavíkur og skrifstofuhús. Arkitekt hússins var Hörður Bjarnason.

Hafnarkaffi. Kaffistaður ofan við Steinbryggjuna í Reykjavik sem Daníel Daníelsson opnaði 1923. Aðeins rekinn í hálft annað ár.

Hafnarnefnd Reykjavíkur. Sjá Hafnarstjórn Reykjavíkur.

Hafnarsjóður Reykjavíkur

Hafnarskrifstofan. Tók til starfa í ársbyrjun 1918 undir stjórn Þórarins Kristjánssonar hafnarstjóra. Var til húsa í Hafnarstræti 15 til 1920 og aftur 1921-1925, en í Grófinni 1 frá 192O-1921. Á árunum 1925-1929 var hún í Hafnarstræti 10-12 en eftir það í Hafnarstræti 11 til 1934 að hún flutti í eigin húsnæði í Hafnarhúsinu.

Hafnarsmiðjan. Bygging sem reist var í tengslum við hafnargerð Reykjavíkur og stóð austur undir Öskuhlíð (nálægt Miklatorgi sem síðar varð) og taldist til Hafnarfjarðarvegar. Var rifin 1945 og fluttist smiðjan þá í tvo herbragga sem stóðu á svipuðum slóðum. Þar var hún uns flutt var í nýja Hafnarsmiðju að Hólmaslóð 12 í Örfirisey árið 1969.

Hafnarstjórn Reykjavíkur. Sérstök hafnarnefnd var sett á laggirnar í Reykjavík 1856 jafnframt því sem samin var gjaldskrá fyrir höfnina. Fyrsti formaður hennar var Vilhjálmur Finsen. Stóð nefndin fyrir ýmsum endurbótum við höfnina og gerð svokallaðrar Bæjarbryggju (Steinbryggjunnar). Eftir að Reykjavíkurhöfn var gerð á árunum 1913-1917 jukust mjög umsvif hafnarnefndar. Með nýjum hafnarlögum fyrir Reykjavík árið 1932 breyttist nafn hennar í Hafnarstjórn Reykjavíkur.  Lögð niður árið 2005 við sameiningu hafna á Faxaflóasvæðinu en í stað hennar kom Stjórn Faxaflóahafna.

Hafnarstræti. Upphaflega götuslóði meðfram fjörunni frá Læknum og vestur í Gróf. Var kallaður Reipslagarabraut eftir 1750 þegar þarna var kaðlarabraut en Strandgata eftir að kaupmannshús risu við fjöruborðið. Formlega var gata skírð Hafnarstræti árið 1848.

Hafnarstrætisróni

Hafnarvigtin

Hafnarvitinn. Sjá Reykjavíkurviti.

Hafnsögusjóður Reykjavíkur. Stofnaður 1841 til að launa mætti hafnsögumönnum. Var í umsjón hafnarstjórnar Reykjavíkur eftir 1921.

Hafrafell. Íbúðarhús Malínar Hjartardóttur á erfðafestulandi á Engjavegi (Þvottalaugarbletti 8), þar rak hún prjónastofuna Malín. Nú er þarna Hafrannsóknarstofnun. Sett á laggirnar 1965 sem rannsóknastofnun á sviði haf- og fiskirannsókna. Fyrsti forstjóri hennar var Jón Jónsson. Höfuðstöðvar hennar hafa frá upphafi verið til húsa á Skúlagötu 4.

Hafskip. Skipafélag með aðsetri í Reykjavík, stofnað árið 1958 fyrir atbeina Verslanasambandsins og var fyrsti framkvæmdastjóri félagsins Sigurður Njálsson. Skrifstofur félagsins voru lengst af í Hafnarhúsinu en framan af voru vöruafgreiðslur einkum í Grandaskála og á Tívolísvæðinu í Vatnsmýri. Frá 1981 var athafnasvæði félagsins í austurhöfn gömlu Reykjavíkurhafnar, í Faxaskála og Tollstöðinni. Félagið hætti starfsemi í sögulegu gjaldþroti árið 1985 og átti þá fjögur skip.

Hafver. Fisksala- og fiskdreifingarfyrirtæki á Grandagarði um 1970 (ath)

Hagabakarí. Stofnsett um 1960 á Hagamel 67, hét Bakarí Gunnars Jóhennessonar frá 1962 til 1986, þá Brauðberg til 2007 en heitir nú á nýjan leik Hagabakarí.  Bakarí Gunnars Jóhannessonar var einnig í Hólagarði, Lóuhólum 2-6, frá 1975 en nafnið breyttist síðan í Brauðberg. Nýtt bakarí Brauðbergs var opnað að Hraunbergi 4 árið 1986 en það heitir nú frá 2007 einnig Hagabakarí.

Hagaborg. Leikskóli við Fornhaga 8, teiknaður af Eiríki Einarssyni og Sigurði Guðmundssyni. Tók til starfa 1960 og var fyrsti forstöðumaður hans Þórunn Einarsdóttir. Á efri hæð var fyrstu árin skrifstofur Sumargjafar og síðar Dagvistar barna og þar var einnig ljósastofa á vegum Hvíta bandsins. Síðar var þar skóladagheimilið Hagakot og enn síðar skólasel Melaskóla.

Hagabúðin. Matvöruverslun, stofnsett 1971 af Hreini Bjarnasyni og rekin til 1998 á Hjarðarhaga 47.

Hagahverfi.

Hagaskóli. Grunnskóli fyrir 8., 9. og 10. bekk. Tekur við nemendum úr Grandaskóla, Melaskóla og Vesturbæjarskóla. Tók til starfa 1958 og tók þá við hlutverki Gagnfræðaskólans við Hringbraut sem starfrækur hafði verið frá 1949 á Hringbraut 121. Fyrsti skólastjóri Hagaskóla var Árni Þórðarson en hann hafði áður verið skólastjóri Gagnfræðaskólans við Hringbraut frá upphafi.

Hagfræðafélag Íslands. Sjá Félag viðskipta- og hagfræðinga.

Hagfræðingafélag Íslands. Stofnað 1938. Fyrsti formaður var Þorsteinn Þorsteinsson. Félagið var lagt niður 1959 þegar það sameinaðist Félagi viðskiptafræðinga í Hagfræðafélagi Íslands.

Hagi. Timburhús að Fálkagötu 7, reist 1919 af Stefáni Árnasyni.

Hagi.  Býli sem reist var af Júlíusi Schou við svokallaðan Sandvíkurveg um 1890. Húsið stóð þar sem nú eru gatnamót Hofsvallagötu og Melhaga og er Haga-hverfið kennt við það. Á árunum 1921-23 risu þarna mikil fiskþurrkunarhús Blöndahlsútgerðarinnar (Sleipnis) og voru fiskreitir í kring en eftir 1931 tók Kveldúlfur stöðina á leigu og síðan Ingvar Vilhjálmsson og höfðu þar fiskverkun. Frá 1942 til 1974 hafði Vífilfell (Coca Cola) höfuðstöðvar sínar í Haga.

Hagi. Forn hjáleiga í Engey, stóð vestur undir túngarði austur af bænum.

Hagkaup. Upphaflega póstverslun og afsláttarbúð með margs konar vöru sem Pálmi Jónsson stofnaði árið 1961 að bandarískri fyrirmynd. Fyrsta verslunin var í gömlu gripahúsi og hlöðu í Eskihlíð við Miklatorg og var sú verslun starfrækt til 1970. Þar hófst matvörusala árið 1967. Árið 1964 opnaði svo fyrirtækið verslun í Lækjargötu 4, sem var þar til 1975, og færði síðan smám saman út kvíarnar, meðal annars úti á landi. Árið 1970 opnaði Hagkaup stórverslun í Skeifunni 15 sem verið hefur þar síðan og árið 1975 aðra í Kjörgarði við Laugaveg sem rekin var til 1999. Stórt stökk var tekið þegar Pálmi Jónsson beitti sér fyrir byggingu Kringlunnar og var þar opnuð stór Hagkaupsbúð árið 1987 og var þá Hagkaup orðin langumsvifamesta verslun landsins. Árið 1988 opnaði Hagkaup nýja verslun í Lóuhólum 2-6 í Breiðholti sem rekin var til 1999. Árið 2000 var svo opnuð ný Hagkaupsbúð í Spönginni í Grafarvogi og árið 2007 önnur í Holtagörðum.  Stórar verslanir eru einnig í nágrannasveitarfélögum. Árið 1998 sameinuðust Hagkaup, Bónus og fleiri fyrirtæki undir merki Baugs en Baugur komst í þrot 2009. Hagkaupsverslanir eru þó áfram reknar af fullum krafti.

Hagskil. Endurskoðunarskrifstofa, stofnuð 1985 af Gunnari Erni Kristjánsssyni og fleirum. Til húsa í Furugerði 5. Sameinaðist Endurskoðun Björns E. Árnasonar 1996.

Hagstofa Íslands. Miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar. Var stofnuð árið 1914 og var fyrsti hagstofustjórinn Þorsteinn Þorsteinsson. Fram til 2007 hafði hún stöðu ráðuneytis en er nú sjálfstæð stofnun. Var til húsa á Hverfisgötu 29 til 1919, síðan á Skólavörðustíg 5 frá 1919-1923, Austurstræti 11frá 1923-1948, Arnarhvoli 1948-1965. Frá 1965 til 1971 var Hagstofan í Lindarbæ við Lindargötu, þar á eftir að Hverfisgötu 8-10 til ársins 1990. Þaðan flutti hún í Skuggasund 3 og loks árið 2003 í Borgartún 21a.

Hagvangur. Ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtæki á sviði þjóðhagfræði og rekstrarhagfræði og síðar einnig ráðningarþjónusta. Fyrirtækið var stofnað 1971 og var fyrsti framkvæmdastjóri þess Sigurður R. Helgason. Það var framan af til húsa að Klapparstíg 26 en frá 1977-1992 á Grensásvegi 13 og frá 1992-1998 í Skeifunni 19. Sameinaðist Cooper & Lybrand árið 1998 undir nafninu PricewaterhouseCooper en var aftur selt út úr því fyrirtæki 2002 og hefur síðan starfað sem ráðningafyrirtæki með aðsetri í Skógarhlíð 12.

Hagþenkir. Félag höfunda fræðirita og kennslugagna, stofnað 1983 og var fyrsti formaður félagsins Hörður Bergmann. Félagið hefur aðsetur í Reykjavíkurakademíunni, Hringbraut 121.

Halakot. Sjá Hali.

Halaleikhópurinn. Áhugaleikhópur fatlaðra, stofsettur 1992 og hefur starfað æ síðan. Fyrstu sýningar fóru fram í félagsmiðstöðinni Árseli en æfingaaðstöðu hafði hópurinn í Hátúni 12.

Hali. Upphaflega torfbær sem stóð nálægt núverandi gatnamótum Bræðraborgarstígs og Ránargötu. Kallaður Halakot árið 1787. Árið 1882 var reistur steinbær í stað torfbæjarins en hann er löngu horfinn. Upp úr aldamótum 1900 voru byggð tvö timburhús á lóðinni sem kölluð voru Litli-Hali (Bræðraborgarstígur 3) og Stóri-Hali sem stóð í götustæði Ránargötu en var síðar flutt á Ránargötu 36 þar sem það enn stendur.

Hallar. Örnefni suðvestan undir Úlfarsfelli, nærri Vesturlandsvegi austan megin.

Hallargarður. Opinber skrúðgarður við Fríkirkjuveg. Megingarðurinn var áður skúðgarður Thors Jensen við hús hans, Fríkirkjuveg 11 og garður fyrir framan Kvennaskólann, einnig tekur hann yfir lóð Listasafns Íslands og allt suður að Skothúsvegi. Nafn sitt dregur hann af því að þegar hann var gerður á árunum 1953-1953 áttu góðtemplarar húsið Fríkirkjuveg 11 og var það þá kallað Templarahöllin. Jón H. Björnsson landslagsarkitekt hannaði garðinn og er hann talinn einkennast af amerískum módernisma.

Halldórsbær. Sjá Litlibær.

Halldórsbær. Sjá Syðstagrund.

Hallgerðarleiði. Sagnir um að leiði Hallgerðar langbrókar sem dó í Laugarnesi hafi verið þar sem nú er svokölluð Prentarablokk við Laugnarnesveg.  Fornleifarannsókn sem fram fór 1921 leiddi þó ekki til neinnar niðurstöðu um það.

Hallgrímskirkja. Kirkja á Skólavörðuholti, teiknuð af Guðjóni Samúlessyni. Framkvæmdir hófust 1946 og var kjallari undir kór kirkjunnar vígður sem guðshús 1948.  Síðar voru guðsþjónustur fluttar í kapellu í suðurálmu turnsins. Sjálf kirkjan var fullgerð 1986 og vígð sama ár.

Hallgrímskirkjusöfnuður. Stofnaður 1940. Fyrstu prestar hans voru þeir sr. Jakob Jónsson og Sigurbjörn Einarsson.

Hallgrímur Benediktsson & Co. Sjá H. Benediktsson.

Halli Þórarins. Nýlenduvöruverslun, stofnsett 1933 af Halldóri Þórarinssyni, hét Halli Þór til 1938. Var í upphafi á Vesturgötu 17 og þar var rekin verslun með þessu nafni til um 1972. Ennfremur voru útibú víðs vegar um bæinn, lengst á Hverfisgötu 39 frá um 1938 til um 1990. Árið 1968 reisti Halli Þórarins hf verslunarmiðstöðina að Hraunbæ 102 og rak þar eigin verslun til 1975.

Hallinn. Söluturn eða sjoppa á Laufásvegi 2 (gengið inn frá Bókhlöðustíg). Mun hafa verið opnuð um 1945 og hét lengi einfaldlega Söluturninn Laufásvegi 2 en upp úr 1990 fékk hún nafnið Hallinn. Mikið notuð af nemendum MR og eins þeim sem voru að bíða eftir Hafnarfjarðarstrætó. Sjoppan var lengi rekin af Margréti Magnúsdóttur sem hætti rekstrinum árið 2006.

Hallsbær. Torfbær þar sem síðar kom Laufásvegur 74 (Gróðrarstöðin), reistur af Oddi Halldórssyni fyrir 1870. Einnig nefndur Hallskot eða Félagsgarður. Síðar kom þarna steinbær og enn síðar steinsteypt hús.

Hallsholt. Urðarrani sem gengur fram milli hólsins Keldnaskyggnis á Keldnaholti og Keldnasunda.

Hallsteinsgarður. Höggmyndagarður nyrst í Gufuneslandi, kenndur við Hallstein Sigurðsson myndhöggvara. Hann setti árið 1988 niður 25 höggmyndir á svæðinu en garðurinn er nú í umsjón og eigu Reykjavíkurborgar.

Hallveigarstaðir. Tvílyft hús við Túngötu 14, kennt við Hallveigu Fróðadóttur landnámskonu. Húsið var teiknað af Sigvalda Thordarson og tekið í notkun 1967. Það er í eigu Kvenfélagasambands Íslands, Bandalags kvenna í Reykjavík og Kvenréttindafélags Íslands.

Hallærisplanið.  Eftir að Hótel Ísland í Austurstræti 2 brann árið 1944 var lóðin sem afmarkaðist af Austurstræti, Aðalstræti, Vallarstræti og Veltusundi, tekin undir bílastæði. Var hún framan af kölluð Hótel-Íslandsplanið en eftir 1960 festist nafnið Hallærisplan við hana vegna ungmenna sem þar héldu til á síðkvöldum. Voru þar oft hópmyndanir og drykkja. Árið 1993 varð Hallærisplanið hluti af Ingólfstorgi.

Halti haninn. Sjá Gullni haninn.

Hamar. Vélsmiðja, stofnuð 1918 af nokkrum athafnamönnum í Reykjavík og var fyrsta nútímalega stóra vélsmiðjan á landinu. Var henni ætlað að þjónusta vaxandi skipaflota. Rann Vélsmiðja Gísla Finnssonar á Norðurstíg 9 (sem síðar varð Tryggvagata 8) og Járnsteypa Reykjavíkur inn í hið nýja fyrirtæki. Fyrsti forstjóri Hamars var Otto Malmberg. Í samvinnu við Slippfélagið í Reykjavík beittu eigendur Hamars sér fyrir því á árunum 1932-1933 að gerð var mikil dráttarbraut þar sem taka mátti á land allt að 800 smálesta skip. Sömu fyrirtæki stofnuðu Stálsmiðjuna 1933. Höfuðstöðvar Hamars voru í Tryggvagötu 8 og auk þess hafði fyrirtækið útibú í Hafnarfirði. Á árunum 1940-1943 reisti félagið stórhýsi á lóð sinni við Tryggvagötu 4-6 og unnu þá að staðaldri 100-140 manns hjá fyrirtækinu auk þeirra sem störfuðu í Stálsmiðjunni. Eftir stríð varð innflutningur á vélum og varahlutum æ umfangsmeiri í starfsemi þess. Mikið verkstæðishús Hamars var síðar reist við Borgartún. Árið 1986 sameinaðist Hamar Stálsmiðjunni og hluta Slippfélagsins í Reykjavík og hvarf úr sögunni sem sjálfstætt fyrirtæki.

Hamar. Hús við Laugaveg innarlega.

Hamar. Hús við Baugsveg í Skerjafirði (1963).

Hamarsgerði. Torfbær við Brekkustíg 15, reistur 1889 af Jóni Jónssyni. Síðar var reistur steinbær í stað torfbæjarins en hann var rifinn 1932 til að rýma fyrir nýju húsi sem einnig ber þetta nafn.

Hamarshúsið. Stórhýsi Vélsmiðjunnar Hamars í Tryggvagötu 4-6, reist á árunum 1940-1943 eftir teikningu Sigurðar Guðmundssonar. Húsinu var breytt árið 1984 í íbúðarhúsnæði með veitingareksti á neðstu hæð.

Hamborg. Búsáhaldaverslunin, stofnsett um 1929 af Sigurði Jónssyni. Var til húsa á ýmsum stöðum, svo sem Laugavegi 45, Laugavegi 44, Hafnarstræti 1, Bankastræti 11, Vesturveri og síðast á Laugavegi 22, Klapparstigsmegin. Hætti árið 2000.

Hamborg. Hús við Karfavog 32.

Hamborgarabúlla Tómasar

Hampiðjan. Stofnsett 1934 af Guðmundi Guðmundssyni og fleirum til að vinna garn í botnvörpur en síðan varð framleiðslan fjölbreyttari á sviði veiðarfæra, einkum trollneta, kaðla og garns. Útflutningur á vörum fyrirtækisins hófst á áttunda áratug 20. aldar og varp brátt meiri en það sem framleitt var á innanlandsmarkað. Í upphafi var reist stórhýsi undir verksmiðjuna í Stakkholti 3 sem stöðugt var siðan stækkað eftir því sem fyrirtækið varð öflugra. Verksmiðja Hampiðjunnar flutti í Bíldshöfða 9 um og eftir 1981. Árið 2004 var framleiðsla á netum og köðlum flutt til Lithauen en þá var Hampiðjan orðin alþjóðleg keðja veiðarfæragerða og starfaði í fjölmörgum löndum. Áfram var söludeild og netaverkstæði á Íslandi og var sú starfsemi í Hafnarfirði í nokkur ár auk þess sem uppsetning flottrolla var í Bakkaskemmu við Grandagarð. Öll starfsemi Hampiðjunnar á Íslandi sameinaðist undir einu þaki að Skarfagörðum 4 árið 2008.

Hamraborg. Leikskóli í Grænuhlíð 24 í Hlíðunum. Tók til starfa 1964.

Hamraborg

Hamraflatir. Örnefni við norðanverðan Gufuneshöfða, vestur af bæjarhúsunum í Gufunesi.

Hamragarðar. Húsið Hávallagata 24, teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Byggt af Sambandi íslenskra samvinnufélaga árið 1941. Heimili Jónasar Jónssonar frá Hriflu til dauðadags hans 1968. Eftir það félagsheimili samvinnumanna um árabil og síðar skrifstofur Búseta.

Hamrahlíðalönd. Áformað byggingasvæði vestur undir Úlfarsfelli.

Hamrahlíðarkórinn.  Kór brautskráðra nemenda úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Stofnaður 1981 af Þorerði Ingólfsdóttur sem jafnframt var stjórnandi kórsins.

Hamrahverfi. Hverfi í Grafarvogi, vestan Gullinbrúar við Elliðavog, dregur nafn sitt af örnefninu Hamraflötum sem er í norðanverðum Gufuneshöfða. Götuheitin voru ákveðin 1985 en þau eru Bláhamrar, Dyrhamrar, Dverghamrar, Geithamrar, Gerðhamrar, Hesthamrar, Hlaðhamrar, Lokinhamrar, Krosshamrar, Leiðhamrar, Neshmarar, Rauðhamrar, Salthamrar, Sporhamrar, Svarthamrar, Stekkhamrar og Vegghamrar.

Hamrar. Hús við Suðurlandsveg

Hamrar. Leikskóli við Hamravík 12. Tók til starfa 2001.

Hamraskóli. Grunnskóli að Dyrhömrum 9, tekin í notkun 1991. Fyrsti skólastjóri hans var Valur Óskarsson.

Handíða- og myndlistarskólinn. Sjá Myndlista- og handíðaskóli Íslands.

Handíðaskólinn. Sjá Myndlista- og handíðaskóli Íslands.

Handritastofnun Íslands. Sjá Stofnun Árna Magnússonar.

Hangahamar. Hamar nálægt Nauthólsvík, markaði landamerki jarðarinnar Skildinganess að austanverðu.

Hangandi. Lítill foss þar sem Fossvogslækur féll fram af kletti innst í Fossvogi. Við þennan foss var Fossvogur kenndur. Kletturinn er einnig oft kallaður Hangandi.

Hannesarbæjarhola. Vatnsból sem var á mótum núverandi Fríkirkjuvegar og Skothúsvegar. Lagðist af með tilkomu vatnsveitu 1909.

Hannyrðaverslun Jóhönnu Anderson. Stofnsett um 1922 og í tengslum við hana var einnig teiknistofa og kennsla í hannyrðum. Var til húsa í Þingholtsstræti 24 til 1926 en flutti þá á Laugaveg 2 þar sem verslunin var til 1956 en þá flutti hún aftur í Þingholtsstræti 24. Var rekin til um 1974.

Hannyrðaverslun Þuríðar Sigurjónsdóttur. Stofnsett 1926 að Skólavörðustig 16. Var síðan í Bankastræti 6 frá 1929-1963 og loks í Aðalstræti 12 til um 1974.

Hansbær. Bær þar sem síðar var Bakkastígur 7, reistur 1882 af Hans G. Jónssyni. Árið 1901 reis samnefnt timburhús á lóðinni en það var rifið upp úr 1970.

Hans Petersen. Ljósmyndavöruverslun. Upphaflega stofnuð sem matvöru- og nýlendurvörubúð 1907 en um 1920 fór verslunin að hafa ljósmyndavörur og framköllun með höndum. Síðar einnig stofnuð heildsala og tölvutækniverslun. Verslunin og framköllunarstofa var til húsa í Bankastræti 4 frá 1907-2009. Árið 1969 var þó ljósmyndastofan og skrifstofur fluttar í Skipholt 17 og í Lyngháls 1 árið 1982 þar sem þær voru til 1998.  Frá 2003 voru þær í Skeljanesi 1. Verslanir í Reykjavík voru einnig í Glæsibæ frá 1971 til um 2000, Austurveri 1977-2006, að Laugavegi 178 árin 1987-2009, í Kringlunni 1987-2008 og loks um tíma í Spönginni. Tölvutæknideild Hans Petersen var stofnuð 1986 og rekin til 1992. Árið 1988 var opnuð sérstök tölvubúð á vegum fyrirtækisins að Grensásvegi 16. Halla fór undan fæti hjá Hans Petersen  eftir aldamótin 2000 og urðu þá tíð eigendaskipti. Árið 2008 urðu eigendur gjaldþrota en fyrirtækið lifði áfram í samvinnu við Íslandspóst. Það rekur frá árinu 2010 verslun í Ármúla 38.

Hansa, húsgagnagerð

Hansbær, steinbær við Bakkastíg

Hanshús. Timburhús sem Hans Hannesson póstur reisti árið 1905 þar sem nú er Leifsgata 25. Húsið var fjarlægt 1933.

Hanskabúðin.  Stofnsett 1915 af Hendrikku Finsen í Austurstræti 5. Flutti í Austurstræti 6 um 1925. Rekin til 1932.

Hanskagerðin. Stofnuð af Guðrúnu Eiríksdóttur árið 1933. Var fyrst í Austurstræti 14, þá á Þórsgötu 22 til 1935, þá í Austurstræti 5 til 1945, flutti eftir það að Tjarnargötu 5 þar sem hún var til 1951 en síðast var Hanskagerðin á Bergstaðastræti 1 og starfaði til um 1980.

Harald Faaber. Skipamiðlun. Stofnsett 1924 og var starfrækt fram til um 1970. Var frá 1940 til húsa í Hafnarstræti 5.

Haraldarbúð. Stofnsett í Austurstræti 22 árið 1915 af Haraldi Árnasyni. Ein helsta karlmannafatabúð bæjarins, rekin til 1960.

The Harbours and Piers Association. Sjá Port Reykjavík.

Hard Rock Café

Harðangur. Íbúðarhús Þorvalds Einarssonar bakara og Kristínar Guðmundsdóttur við Laugarnesveg 56, reist 1927.

Harðfisksala Reykjavíkur. Stofnsett 1934 af þeim Einari Jósefssyni og Páli Hallbjörnssyni. Oftast kölluð Harðfisksalan. Byrjaði við Smiðjustíg en flutti í eigin verksmiðjuhús í Þverholti 11 árið 1940 þar sem hún var fram til 1955 en fluttist þá í Skipholt 1. Seld til Keflavíkur 1958.

Harðviðarval. Verslun sem sérhæfir sig í gólfefnum, málningu, hreinlætistækjum, hurðum o.fl. Stofnsett 1978 af Gottskálki Þorsteini Eggertssyni og fjölskyldu. Var fyrstu árin í Kópavogi en frá 1985 hefur hún verið að Krókhálsi 4.

Harley Street. Nafnið sem bandaríski herinn gaf Háaleitisbraut á stríðsárunum.

Harley Street Camp. Herbraggahverfi á stríðsárunum fyrir ofan Suðurlandsbraut (milli Ármúla 24-30 og Síðumúla 11-13).

Harpa. Lúðrafélagið, stofnað 1910. Fyrsti stjórnandi þess var Hallgrímur Þorsteinsson en árið 1922 rann félagið inn í Lúðrasveit Reykjavíkur.

Harpa. Málningarverksmiðja, stofnsett 1936 af Pétri Guðmundssyni, Trausta Ólafssyni og fl. Starfsemin var á Skúlagötu 42 til ársins 1988 en flutti þá að Stórhöfða 44. Einnig var um árabil starfsemi í Einholti 8 og víðar. Árið 2001 sameinaðist Harpa Málningarverksmiðjunni Sjöfn á Akureyri og hét eftir það Harpa-Sjöfn. Árið 2007 sameinaðist Harpa-Sjöfn danska fyrirtækinu Flügger og heitir fyrirtækið nú því nafni. Árið 1999 hóf Málningarverksmiðjan Harpa rekstur þriggja málningarbúða og voru tvær í Reykjavík, að Stórhöfða 44 og Skeifunni 4. Þessar verslanir eru frá 2007 reknar undir nafni Flügger ásamt verslun á Snorrabraut 56 og nokkrum verslunum út um landið.

Harpa. Nærfatagerð

Harpa. Tónlistar- og ráðstefnuhús við Austurhöfnina í Reykjavík, reist í samvinnu Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins. Aðsetur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar. Teiknistofa Hennings Larsen í Kaupmannahöfn í samvinnu við Batteríið í Reykjavík teiknaði húsið. Listamaðurinn Ólafur Elíasson hannaði glerhjúpinn. Bygging hússins hófst 2007 og var lokið árið 2011.

Harpan, söngfélag, stofnað í Reykjavík 1862 og var það fyrsta formlega söngfélagið á landinu. Stjórnandi þess var Jónas Helgason. Starfaði til 1893.

Harpa-Sjöfn. Sjá Harpa.

Harrastaðir. Hús við Fáfnisnes 4 í Skerjafirði, byggt árið 1932.

Hattabúðin. Stofnsett af Önnu Ásmundsdóttur 1917, var upphaflega á Laufásvegi 5, en í Kolasundi 1 frá um 1920 til 1928 og eftir það í Austurstræti 14 til 1940.

Hattamakarahús. Sjá Snæbjarnarhús.

Hatta- og skermabúðin. Stofnsett 1929 af Ingibjörgu Bjarnadóttur. Var í Austurstræti 6 fyrstu tvö árin og svo aftur 1939-1951. Í millitíðinni var hún lengst af í Austurstræti 8. Árið 1952 flutti verslunin í Bankastræti 14 og var þar þangað til hún hætti um 1968.

Hattarahús. Sjá Hjallurinn.

Hattaverslun Margrétar Leví. Rekin á árunum 1923-1939, lengst af í Ingólfshvoli við Hafnarstræti.

Haukafjöll. Hamraborgir framan af Skálafelli og norðvestur af Stardal.

Haukaland. Býli á erfðafestulandi á Vatnsmýrarbletti 18, reist árið 1918 af Erlingi Filippussyni. Stóð undir Öskjuhlíðartagli, nálægt því sem Hótel Loftleiðir komu síðar. Húsið var rifið um 1940 til að rýma fyrir flugvellinum.

Hauksbryggja. Bryggja, byggð árið 1916 vestan við Slippinn og kennd við togarafélagið Hauk. Árið 1919 var bryggjan stækkuð mikið og var þá komin með haus þannig að hún var T-laga. Mátti sjá leifar af þessari bryggju alveg til um 2000.

Haukshúsið. Tvílyft steinsteypt hús við Reykjavíkurhöfn sem stóð við Mýrargötu 10-12, milli Slippsins og Stálsmiðjunnar. Reist af togarafélaginu Hauki sem fiskverkunarhús 1916, rifið árið 2008.

Haukur. Togarafélag, stofnað af Pétri J. Thorsteinssyni frá Bíldudal og fleirum árið 1912. Aðsetur þess frá 1916 var í Haukshúsinu, rétt fyrir vestan Slippinn og á steyptum fiskverkunarplönum og Hauksbryggjunni þar framundan. Félagið var leyst upp árið 1922.

Haukur og Ólafur. Upphaflega Raftækjavinnustofa Hauks og Ólafs, stofnuð 1949 af þeim Hauki Þorsteinssyni og Ólafi K. Sveinssyni. Síðar rafverktakafyrirtæki og innflutnings- og smásöluverslun. Var til 1953 á Hverfisgötu 75, þá í Mjölnisholti 14 til 1956, flutti þá í Ármúla 14, síðar Ármúla 32 og var þar til húsa fram undir 1990. Loks raftækjavinnustofa á Bíldshöfða 18 til um 1993.

Hausthús. Torfbær við Bakkastíg 8, reistur 1866 af Þórði Gíslasyni. Árið 1902 var byggt samnefnt timburhús á lóðinni í stað bæjarins.  Húsið var fjarlægt 1972.

Havsteensbúð. Verslun í Hafnarstræti 1-3, rekin á árunum 1849-1881 af N. Chr. Havsteen.

Háagerðisskóli. Barnaskóli milli Háagerðis og Mosgerðis í Smáíbúðarhverfi fyrir 7-9 ára börn. Skólinn var stofnsettur 1954 og rekinn undir þessu nafni til um 1965 en hafði þá í raun sameinast Breiðagerðisskóla.

Háaleiti. Suðurhluti Grensás. Við þetta örnefni er Háaleitishverfi og Háaleitisbraut kennt.

Háaleiti. Hús að Framnesvegi 3 (áður 1B), upphaflega steinbær frá 1882 með þessu nafni, reistur af Gunnlaugi Péturssyni og Margréti Jónsdóttur, þau reistu svo timburhús á lóðinni en hvort tveggja er horfið.

Háaleitisapótek. Stofnsett 1968 að Háaleitisbraut 68 (Austurveri) af Andrési Guðmundssyni. Sameinaðist Lyfjum og heilsu 1999.

Háaleitisbraut. Gata sem liggur frá Skipholt/Bólstaðarhlíð og alla leið niður í botn Fossvogs. Kennd við örnefnið Háaleiti (sjá). Nafn götunnar var ákveðið 1958 en áður var á svipuðum slóðum gata sem hét Háaleitisvegur. Hún náði frá Múla við Suðurlandsbraut að Bústaðavegi.

Háaleitishverfi. Hverfi sem afmarkast annars vegar af Kringlumýrarbraut og Háaleitisbraut norðan Miklubrautar en hins vegar Kringlu, Háaleitisbrautar og Bústaðarvegar sunnan Miklubrautar. Byggðist að mestu milli 1960 og 1970 nema syðsti hluti þess sem byggðist eftir 1980. Norðan Miklubrautar eru göturnar Álftamýri, Safamýri og Starmýri en sunnan Miklubrautar Efstaleiti, Hvassaleiti, Miðleiti, Neðstaleiti og Ofanleiti.

Háaleitisskóli. Varð til árið 2011 þegar Álftamýrarskóli og Hvassaleitisskóli voru sameinaðir og starfar hann á tveimur stöðum í Stóragerði og að Álftamýri 79.

Háaleitisvegur. Sjá Háaleitisbraut.

Háanef. Hæðin sem olíugeymirinn á Sundabakka í Viðey stendur.

Háborg íslenskrar menningar. Skipulagshugmyndur um efsta hluta Skólavörðuholts sem Guðjón Samúelsson kynnti árið 1924. Þar átti að vera aðaltorg borgarinnar, svokallað Skólavörðutorg með kirkju í miðju en háskólabyggingar og ýmsar opinberar byggingar voru allt um kring.

Hábunga. Hæsti hluti Esjunnar, 914 metrar yfir sjálvarmáli.

Hábær. Torfbær á Norðurstíg 3B, þar stóð síðar Guðjónshús.

Hábær. Steinbær við Bræðraborgarstíg 7, reistur 1897 af  Guðmundi Jónssyni og Kristínu Guðmundsdóttur.  Löngu horfinn.

Hábær. Steinbær við Grettisgötu 2, reistur 1867 af Jóni Vigfússyni, fluttur í Árbæjarsafn 1966. Einnig stundum nefndur Þórðarbær.

Hábær. Veitingastaður að Skólavörðustíg 45, stofnaður af Kristjáni Sigurðssyni árið 1962. Árið 1965 var staðurinn gerður að kínverskum restaurant og um 1970 var útbúinn yfirbyggður garður norðan við húsið sem kallaður var Garður hins himneska friðar. Hætti 1974.

Hádegisás. Ásinn á landamerkjum Eiðis og Korpúlfsstaða, norðaustan við Gufunesás. Þar er nú Borgahverfi.

Hádegisbrekkur. Brekkurnar norðan Rauðavatns og vestan Hádegishæðar.

Hádegishæð. Hæðin norðan við Rauðavatn.

Hádegishæð. Klapparholt sem ber hátt beint í suður frá bænum Reynisvatni en í suðaustur frá vatninu.

Hádegismóar. Örnefni norðvestur af Rauðavatni. Árið 2000 var skipulagt iðnaðarhverfi í móunum og er þar samnefnd gata.

Háholt. Steinbær við Lágholtsveg á Bráðræðisholti, reistur 1893 af Einari Einarssyni. Löngu horfinn.

Hákollur. Hæsti tindur Bláfjalla á mörkum Reykjavíkur og Árnessýslu.

Hákonarbær. Torbær í Grjótaþorpi þar sem nú er Mjóstræti 10, reistur 1799 af Hákoni Oddssyni. Núverandi timburhús á lóðinni, reist 1898, ber einnig sama nafn.

Hákonsenshús. Sjá Fjalakötturinn.

Hákot. Torfbær í Grjótaþorpi, þar sem síðar var Garðastræti 11A. Reistur skömmu eftir aldamótin 1800 af Þórði Gíslasyni. Árið 1893 var reist samnefnt steinhlaðið hús í stað bæjarins og var það friðað að ytra byrði árið 1999.

Hálfdanarbúð. Nýlenduvöruverslun í Nökkvavogi 13.

Hálogaland. Hús á erfðafestulandi á Engjavegi (Þvottalaugarblettur 31). Stóð milli blokkanna Sólheima 25 og 27.

Hálogaland. Einnig nefnt Hálogalandsbragginn. Íþróttahús í stórum bragga sem stóð við Suðurlandsbraut, nokkurn veginn þar sem nú eru gatnamót Gnoðarvogs og Skeiðarvogs. Upphaflega íþróttahús, bíó og samkomuhús bandaríska hersins frá árinu 1943 og kallaðist þá Andrews Memorial Field House. Þar söng meðal annarra Marlene Dietrich í september 1944. Árið 1944 keypti Íþróttabandalag Reykjavíkur húsið og það varð vettvangur allra helstu innanhússkappleikja þar til Laugardalshöllin kom. Síðast var það íþróttasalur Vogaskóla og fleiri skóla en var rifið árið 1970.

Hálogalandsholt. Sjá Vogaholt.

Hálsaborg. Leikskóli að Hálsaseli 26 í Breiðholti. Tók til starfa 1981.

Hálsinn. Veiðistaður í nyrðri kvísl Elliðaáa þar sem hún rennur með Blásteinshólma. Niðúr af götunum Vorsabæ og Þykkvabæ í Árbæjarhverfi.

Hárgreiðslumeistarafélag Íslands. Stofnsett 1931, hét upphaflega Félag hárgreiðslukvenna.

Hárgreiðslustofa Vesturbæjar. Stofnsett 1946 af Guðfinnu Ingvarsdóttur og Stefaníu Ólafsson. Var til húsa á Grenimel 9 og rekin til 1975.

Hárhornið. Hársnyrtistofa á Hringbraut 117, stofnuð 1985 af Jörundi Guðmundssyni. Áður voru rakarar, meðal annarra Helgi Jóhannsson, á sama stað frá 1962.

Hárlausnir. Rakara- og hársnyrtistofa, stofnsett af Stefáni Rósar Esjarsyni árið 2001. Var á Miklubraut 68 til 2007 en síðan á Háteigsvegi 2.

Hársnyrtistofa miðbæjarins. Stofnsett 1931 og hét fyrstu áratugina Rakarastofa Runólfs Eiríkssonar. Var í Lækjargötu 2 til 1957, flutti þá í Hafnarstræti 8 þar sem hún var til 1986 en frá þeim tíma hefur hún verið í Tryggvagötu 24.

Hásetafélag Reykjavíkur, sjá Sjómannafélag Reykjavíkur

Háskólabíó. Kvikmyndahús við Hagatorg, reist af Háskóla Íslands árið 1961. Arkitektar þess voru þeir Guðmundur Kr. Kristinsson og Gunnlaugur Halldórsson. Hýsti auk kvikmyndasýninga Sinfóníuhljómsveit Íslands fram til ársins 2011 og hefur verið eitt helsta tónlistar- og samkomuhús Reykvíkinga. Árið 1990 var bíóið stækkað og voru eftir það fimm bíósalir í húsinu í stað eins og fer í þeim jafnframt fram kennsla á vegum Háskóla Íslands.

Háskólabókasafn. Stofnað 1940 og var til húsa í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Það sameinaðist Landsbókasafni Íslands árið 1994 þegar bæði söfnin fluttu í Þjóðarbókhlöðuna.

Háskólahverfið. Afmarkast í grófum dráttum af Hringbraut, Njarðargötu, Eggertsgötu (einnig svæði sunnan hennar), Suðurgötu, Hjarðarhaga, Dunhaga, Hagatorgi og Birkimel. Innan svæðisins eru flestar byggingar Háskóla Íslands, Þjóðarbókhlaðan, Þjóðminjasafn, stúdentagarðar og prófessorahverfið en einnig nokkrar óskyldar byggingar. Nöfn gatna eru dregin af íslenskum lærdómsmönnum fyrri alda. Aragata er nefnd eftir Ara fróða Þorgilssyni, Arngrímsgata er eftir Arngrími lærða Jónssyni, Brynjólfsgata eftir Brynjólfi biskupi Sveinssyni, Eggertsgata eftir Eggert Ólafssyni, Guðbrandsgata eftir Guðbrandi biskupi Þorlákssyni, Oddagata eftir Stjörnu-Odda Helgasyni, Sturlugata eftir Sturlu Þórðarsyni og Sæmundargata eftir Sæmundi fróða Jónssyni.

Háskólatorg.

Háskóli Íslands. Stofnsettur í Reykjavík 17. júní 1911. Fyrsti rektor skólans var Björn M. Olsen. Kennsla fór fram í Alþingishúsinu við Austurvöll þar til flutt var í nýja byggingu á Melunum haustið 1940 sem Guðjón Samúelsson hafði teiknað. Þar í grennd myndaðist síðan Háskólahverfi (sjá).

Háskólinn í Reykjavík

Hásteinakrókur. Vik sunnan í Hásteinum í Örfirisey.

Hásteinar. Stuttur klettarani sem áður gekk norðaustur úr Örfirisey í átt að Engey.

Háteigshverfi

Háteigskampur. Tvískipt braggahverfi rétt austan við þar sem nú er Háteigskirkja og á austurhorni Stakkahlíðar á móti Vatnsgeyminum. Síðarnefnda hverfið nefndist Tower Hill Engineer Camp á stríðsárunum. Á vesturhorni Stakkahlíðar var svo Camp Sheerwood. Í Háteigshverfi voru 23 braggar þegar þeir voru flestir og bjó þar allt að 121 einstaklingur. Síðast var búið þar 1964.

Háteigskirkja. Sóknarkirkja við Háteigsveg, byggð eftir teikningu Halldórs Jónssonar, vígð 1965.

Háteigskjör. Nýlenduvöruverslun á Háteigsvegi 1, stofnsett 1973 af Þorvarði Björnssyni og rekin af honum til 2012.

Háteigssöfnuður. Stofnaður 1952. Fyrsti sóknarprestur hans var sr. Jón Þorvarðsson.

Háteigsvegur. Liggur frá Rauðarárstíg upp Rauðarárholt að Bólstaðarhlíð, kenndur við býlið Háteig enda var hann upprunalega vegurinn upp að því. Árið 1940 var ákveðið í bæjarstjórn að kalla götuna Brattholt en gamla nafnið varð yfirsterkara.

Háteigur. Býli við Háteigsveg 36.

Hátindur. Austasta horn Esjunnar og eitt það hæsta (909 metrar).

Hátíð hafsins. Fjölskylduhátíð sem haldin hefur verið árlega á vegum Reykjavíkurhafnar frá árinu 1999. Stofnað var til hennar með sameiningu Hafnardags Reykjavíkurhafnar, sem haldin hafði verið hátíðlegur frá 1992, og Sjómannadagshátíðarhaldana.

Hátækni.  Innflutningsfyrirtæki, upphaflega stofnað 1985 af Pétri Pálssyni, Þórði Guðmundssyni og fleirum. Sérhæfði sig meðal annars í fjarskiptabúnaði, loftræsti-, brunavarnakerfum. Þróaðist síðan yfir í þjónstu á fjarskiptatækjum, flatskjám, heimabíókerfum og ýmsum raftækjum. Hefur frá upphafi haft aðsetur í Ármúla 26.

Háubakkar. Setlagabakkar við Elliðaárvog, neðan Súðavogs. Friðlýstir frá 1983. Þar sjást svokölluð Elliðavogslög sem eru undir grágrýtislögum.

Háuklettar. Klettar á landamerkjum Reykjavíkur og Skildinganess við Öskjuhlíð. Hafa verið sprengdir í burtu að verulegu leyti.

Háusteinar. Klettar norðaustan í Örfirisey á móts við Engey.

Hegningarhúsið. Tvílyft steinhlaðið hús sem byggt var eftir teikningu Klentz árið 1873. Á neðri hæð hússins hefur verið fangelsi frá upphafi en á efri hæð var Landsyfirréttur til húsa og síðan Hæstiréttur Íslands allt til 1947. Þar var líka svokallaður Borgarasalur en í honum voru haldnir bæjarstjórnarfundir til 1903 og þar var einnig Bæjarþing Reykjavíkur. Einnig fóru fram kosningar í salnum um árabil.

Hegrinn. Sjá Kolakraninn.

Heiðarborg. Leikskóli við Selásbraut 56 í Seláshverfi. Tók til starfa 1990.

Heiðarbær. Íbúðarhús i Dísardal við Suðurlandsveg á norðurbakka Bugðu. Reist árið 1930 og var búið í því til 1990. Horfið.

Heiðarhvammur. Hús við Breiðholtsveg (1963).

Heiðarsel. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Heiðarvöllur. Íbúðarhús Sveins Einarssonar múrara og Arnheiðar Björnsdóttur við Laugarnesveg 62, reist 1927.

Heiði. Hús á erfðafestulandi á Laugamýrarbletti 26 við Kleppsveg, merkt á kortið 1947. Stóð framan við Kleppsveg 40 árið 1961, á horninu við Dalbraut.

Heiði. Hús við Breiðholtsveg (1963).

Heiðmörk. Friðland Reykjavíkur sunnan og austan Elliðavatns og nær yfir svæði úr löndum Hólms, Elliðavatns, Vatnsenda, Garðatorfu og Vífilsstaða. Landið var friðað árið 1950 og hefur þar síðan farið fram stórfelld skógrækt. Tvisvar sinnum hefur friðlandið í Heiðmörk verið stækkað, fyrst 1956 þegar hluti úr landi Vífilsstaða og Garðakirkju bættist við hana og aftur 1961 þegar Rauðhólar og heimaland Elliðavatns bættist við.

Heiðmörk. Hús við Sogaveg.

Heiðmörk. Hús Nordmandslaget i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Heiðmörk. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Heiðna hverfið. Sjá Goðahverfi.

Heiðrún. Stærsta vínbúðin í Reykjavík, opnuð árið 1989 að Stuðlahálsi 2.

Heilagsandastræti. Sjá Lækjargötu.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Fyrsti vísir að heilbrigðiseftirliti í Reykjavík kom árið 1905 þegar sérstakur heilbrigðisfulltrúi bæjarins var skipaður. Frá 1948 heyrði heilbrigðiseftirlit undir embætti borgarlæknis og var það til húsa í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg frá 1954. Árið 1966 var skipaður sérstakur framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins og var það Þórhallur Halldórsson. Heilbrigðiseftirlitið fluttist að Drápuhlíð 14 árið 1986 þar sem það var til 1999. Eftir það var það á Suðurlandsbraut 14. Árið 2002 var heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fellt undir nýja stofnun borgarinnar, Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

Heilbrigðisfulltrúinn í Reykjavík

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar.

Heild.

Heildsölulagerinn. Stofnsettur 1992 af Jóni Högna Ísleifssyni. Auk heildsölu var rekin verslun í Ármúla 42 á árunum 1994-2004 á vegum fyrirtækisins.

Heildverslun Árna Jónssonar. Stofnsett um 1940 og rekin til um 1970. Var fyrst í Hafnarstræti 5 en frá 1945 í Aðalstræti 7.

Heildverslun Egils Kristjánssonar. Stofnsett 1943 og rekin til 1981.

Heildverslun Eiríks Ketilssonar. Stofnsett um 1948 og rekin til 1999. Var á ýmsum stöðum en lengst síðustu áratugina á Vatnsstíg 3.

Heildverslun Halldórs Jónssonar (Halldór Jónsson hf). Innflutningsfyrirtæki, stofnað árið 1955 af Ögnu og Halldóri Jónssyni. Einbeitti sér einkum að innflutningi á fatnaði og snyrtivörum. Var til húsa í Hafnarstræti 18 en flutti 1973 í Elliðavog 117, síðar Dugguvog 8-10. Árið 1980 var heildverslunin sameinuð Vogafelli í eigu sömu aðila og hét eftir það Halldór Jónsson/Vogafell en eftir 1993 einungis Halldór Jónsson.  Frá 1988 hefur fyrirtækið verið í Skútuvogi 11.

Heildverslun Kristins Bergþórssonar. Stofnuð um 1961 og flutti einkum inn vefnaðarvörur. Var til húsa á Grettisgötu 3 til 1977 en eftir það á Bjarmalandi 1 til 1983. Var rekin fram yfir 1990.

Heildverslun Magnúsar Haraldssonar. Stofnuð 1946 og rekin fram yfir 1980. Var fyrst til húsa á Þórsgötu 1 en síðan á ýmsum stöðum í Reykjavík.

Heildverslun Marínós Péturssonar. Stofnuð um 1958 og rekin til um 1992. Var í mörg ár framan af í Hafnarstræti 8, síðan í Sundaborg og loks í Skútuvogi 12a frá 1987.

Heildverslun Sigurðar H. Egilssonar. Sjá Egilsson.

Heildverslun Þórodds E. Jónssonar. Innflutnings- og útflutningsverslun, stofnuð 1930. Einkum var Þóroddur kunnur sem brautryðjandi í skreiðarútflutningi. Heildverslunin var frá upphafi til húsa í Hafnarstræti 15 og starfaði til 1976.

Heilmannsbær. Steinbær á horni Óðinsgötu og Bjargarstígs, kenndur við Dórotheu og Johan Heilmann bakara sem byggðu hann um eða upp úr 1880. Bærinn var friðaður að ytra byrði árið 2011.

Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Stór bygging á mótum Barónsstígs og Egilsgötu, teiknuð af Einari Sveinssyni arkitekt. Hún var tekin í notkun í áföngum á árunum 1953-1957 og var sameign Reykjavíkurborgar og ríkisins. Þar voru hinir ýmsu þættir heilsugæslunnar í Reykjavík, aðsetur borgarlæknis og slysavarðstofa á árunum 1954-1968. Síðar var þar Heilsugæslustöð Miðbæjar. Húsið var selt einkaaðilum 2005 og þar var um tíma rekið einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Byggingin hefur verið aðsetur Landlæknisembættisins frá 2011.

Heimabær. Sjá Örfirisey.

Heimahvammur.  Hús upp með Elliðaám fyrir innan Blesugróf, standa enn beint norður af Stekkjarbakka. Upphaflega sumarbústaður en gerður að heilsársbústað 1943 af Ingva Péturssyni Hraunfjörð og Guðrúnu Hallfríði Pétursdóttur.

Heimahverfi. Hverfi sem byggðist á árunum í kringum 1960 og afmarkast af Suðurlandsbraut, Skeiðarvogi, Langholtsvegi og austanverðum Laugardal. Göturnar í hverfinu eru Álfheimar, Glaðheimar, Goðheimar, Ljósheimar og Sólheimar. Nafngiftir gatnanna voru ákveðnar 1956.

Heimakjör. Kjöt- og nýlenduvörubúð að Sólheimum 33 (síðar 29), stofsett 1960 af þeim Jóni Bjarna Þórðarsyni og Jóhanni Gunnlaugssyni. Rekin til 1981.

Heimatrúboð leikmanna

Heimdallur. Félag ungra Sjálfstæðismanna. Stofnað 1927. Hét upphaflega Félag ungra íhaldsmanna. Fyrsti formaður þess var Pétur Hafstein.

Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Stofnað 1913.

Heimilistæki. Innflutningsfyrirtæki og verslun á sviði rafmagns- og heimilistækja, myndað upp úr raftækjadeild Ó. Johnson & Kaaber 1962 og var til húsa í Hafnarstræti 1-3 allt til ársins 1989 en jafnframt var opnuð tækni- og tölvudeild í Sætúni 8 um 1979. Þar var síðan aðalverslunin eftir 1989 en jafnframt var önnur verslun í Kringlunni um fáein ár. Árið 2007 flutti fyrirtækið að Suðurlandsbraut 26. Fyrsti forstjóri þess var Rafn F. Johnson.

Heimskringla. Bókaútgáfa stofnuð 1934 af þeim Kristni E. Anréssyni og Ragnari Jónssyni í Smára í þeim tilgangi að gefa út Heimsljós Halldórs Kiljans Laxness. Stóð með Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda að stofnun Bókmenntafélaginu Mál og menning 1937. Gaf út fjölda bóka en Ragnar tók útgáfuna einn yfir árið 1940.

Heiti lækurinn.  Var opið affall frá hitaveitugeymunum á Öskjuhlíð sem rann út í Nauthólsvík. Reykvíkingar fundu upp á að baða sig í þessum læk um 1974 og varð hann brátt einn vinsælasti baðstaðurinn í borginni og notaður jafnt að nótt sem degi. Var hann nokkuð lagaður til. Þarna var hægt að liggja í hylum eða pottum og fara undir bunur. Læknum var endanlega lokað um 1992.

Heitt og kalt. Matsölustaður í Hafnarstræti 4 (Veltusundi 1) sem Elísabet Sigurðardóttir stofnaði 1931. Var rekin þar til 1953.

Hekla. Bílastöð með leigubíla og langferðabíla, rekin á árunum 1931-1947. Aðsetur hennar var lengst af í Lækjargötu 4 en síðustu árin í Hafnarstræti 21.

Hekla. Heildverslun, einkum bílaumboð og raftækjaverslun. Stofnað 1933 af Sigfúsi Bjarnasyni og fleirum. Upphaflega einbeitti fyrirtækið sér að innflutningi á ávöxtum, vefnaðarvöru og fleira en á stríðsárunum og eftir stríð urðu vélar og bílar aðalviðfangsefnið. Rekin var sérstök raftækjaverslun Heklu á árunum 1945-2005. Aðsetur Heklu var á ýmsum stöðum í Miðbænum en 1963 flutti fyrirtækið í eigið stórhýsi á Laugaveg 172-174.

Helgabær. Stór torfbær sem stóð þar sem nú er Túngata 12, reistur 1847 af Helga Eyjólfssyni. Rifinn um 1905.

Helgadalur. Hús á erfðafestulandi á Kringlumýrarbletti 7 við Kringlumýrarveg. Íbúðarhús sem stóð enn 1961 við Skipholt og Kringlumýrarbraut.

Helgafell. Bókaútgáfa Ragnars Jónssonar í Smára, stofnuð 1942. Til húsa í Garðastræti 17 til 1949 en eftir það á Veghúsastíg 7. Sameinaðist Bókaforlaginu Vöku 1985 og hét eftir það Vaka-Helgafell (sjá).

Helgafell. Bókaverslanir, reknar af Ragnari Jónssyni í Smára o.fl. Sú fyrsta var í Aðalstræti 18 á árunum 1943-1951, önnur á Laugavegi 38 1944-1951, sú þriðja á Laugavegi 100 á árunum 1945-1987 og sú fjórða á Njálsgötu 64 á árunum 1946 til um 1985. Bókaverslanir undir heitinu Bækur og ritföng (sjá) voru reknar af sömu aðilum.

Helgafell. Nýlenduvöruverslun sem rekin var á árabilinu um 1932-1958, fyrstu árin á Bergstaðastræti 55 en frá um 1940 á Bergstaðastræti 54.

Helgafell. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)(1963)

Helgakot. Bær við Vesturgötu

Helgastaðaviti. Viti úr timbri, um 10-12 metrar á hæð, sem reistur var árið 1897 í landi Helgastaða í Skuggahverfi. Einnig nefndur Reykjavíkurviti. Vitaljósin voru flutt á vatnsgeyminn í Rauðarárholti árið 1929 og vitinn lagður niður. Vitahúsið stóð þó áfram í allmörg ár og var búið í því.

Helgastaðavör. Sjá Frostastaðavör.

Helgastaðir. Torfbær sem Ívar Jónsson reisti, þar sem síðar var Vitatorg (Lindargata 65), árið 1850.  Fljótlega varð þar tvíbýli og voru bæirnir á Helgastöðum kallaðir Norðurbær og Suðurbær. Amk annar þeirra var síðast steinbær. Bæirnir hurfu þegar Vitastígur var lagður 1907.

Helgastaðir. Hús við Þverveg 38.

Helgi Magnússon & Co (HEMCO). Fyrsta járnvöruverslun landsins, stofnuð 1907. Varð eitt helsta stórfyrirtæki landsins um skeið. Hún var til húsa í Bankastræti 6 til 1926 en eftir það í Hafnarstræti 19 til 1967.

Helgi Sigurðsson úrsmiður. Verslun og vinnustofa. Stofnsett 1958 og var fyrst til húsa í Vesturveri, Aðalstræti 6. Flutti árið 1960 að Vesturgötu 3 en frá 1966 hefur hann verið á Skólavörðustíg 3.

Helguhjáleiga. Sjá Helgustekkur.

Helguhóll. Hóll nyrðst og vestast á Geldinganesi niður við sjó. Einnig nefndur Helguklettur.

Helguhólsmýri. Mýrarsvæði sunnan og austan við Helguhól á Geldinganesi.

Helguklettur. Sjá Helguhóll.

Helgusker. Örnefni í innanverðum Kollafirði.

Helgustekkur. Tótt vestan við Keldnaholt þar sem kallast Höfði. Einnig nefnt Helguhjáleiga eða Helgutótt.

Helgutótt. Sjá Helgustekk.

Hella. Nýbýli frá um 1950 í landi Hólms norðan Hólmsár, skammt frá Suðurlandsvegi beint andspænis Nesjavallaleið.

Hella. Málmsmiðja. Stofnuð 1949 í gamalli hlöðu við Haga í Vesturbænum í Reykjavík. Stofnendur voru Leifur Halldórsson og Robert Færgeman. Málsmiðjan flutti í Síðurmúla 8 (síðar 17) árið 1957 og þar var hún til 1983 að hún flutti til Hafnarfjarðar. Heitir nú Málmsteypan Hella.

Hellur. Svæðið norðan við Hrauntúnstjörn í landi Hólms, milli Suðurár og Bugðu.

Hellusund. Gata í gamla Austurbænum sem liggur milli Bergstaðastrætis og gatnamóta Þingholtsstrætis og Laufásvegar. Talið bera nafn af grjóthellu sem varð til trafala við lagningu götunnar.

Helluvað. Gamalt vað á norðurkvísl Elliðaáa, ofan Stórafoss, rétt ofan við Félagsheimili Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Helluvaðspyttur. Veiðistaður í Neðri Þrepum í norðurkvísl Elliðaáa. Ofan neðsta þrepsins, ekki langt við Félagsheimili Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Helluvatn. Lítið stöðuvatn austan við Elliðavatn og er tengt því.

Herbertsprent. Prentsmiðja, stofnsett 1929 af Herbert Sigmundssyni. Var starfrækt í bakhúsi við Bankastræti 3 fram til um 1975.

Herco. Efnagerð, stofnuð 1948 af Guðmundi Jónssyni. Rekin fram yfir 1960.

Herðubreið. Íshús sem samnefnt hlutafélag reisti við Fríkirkjuveg 7 (nú Listasafn Íslands) á árunum 1916-17. Arkitekt hússins var Guðjón Samúelsson. Íshúsið Herðubreið var rekið til um 1953.

Herðubreið. Kjötbúð. Kjötverslunin Herðubreið var opnuð í íshúsinu að Fríkirkjuvegi 7 árið 1922 en eftir að Kaupfélag Borgfirðinga tók hana yfir 1925 var hún kölluð Kjötbúðin Herðubreið. Hún var svo flutt í Hafnarstræti 18 árð 1933 og loks í Hafnarstræti 4 1938 þar sem hún var rekin til 1942.

Herjólfur. Matvöru- og nýlenduvöruverslun. Stofnuð af Theodór Jónssyni og Böðvari Jónssyni árið 1943. Var árið 1945 á Ránargötu 15 en frá 1946 til 1969 á Grenimel 12. Um 1965 var hún um tíma einnig í Austurveri við Skaftahlíð. Árið 1966 opnaði Herjólfur nýja verslun í Skipholti 70 og var þar til 1999.

Herkastalinn. Egar Hjálpræðisherinn settist að í Reykjavík árið 1895 eignaðist hann tvílyft hús fyrir suðurenda Aðalstrætis (Kirkjustræti 2). Kallaði hann þessar höfuðstöðvar sínar Herkastalann. Húsið var rifið 1916 og nýtt og glæsilegt hús í kastalastíl eftir teikningum Einars Erlendssonar reist í staðinn. Þar hafa síðan verið miðstöð og gistihús Hjálpræðishersins.

Herkúles. Saumastofa og síðar nærfataverksmiðja, stofnuð um 1940 af Sigfúsi Bjarnasyni, Magnúsi Víglundssyni og fleirum. Var fyrst í Hafnarstræti 10-12, þá á Ægisgötu 7 um árabil frá 1942 og loks á Bræðraborgarstíg 7 til 1966.

Hermes. Café & Conditori. Hið fyrsta sinnar tegundar í Reykjavík, stofnsett 1886 af Kristínu Bjarnadóttur í Lækjargötu 4. Rekið fram til um 1900.

Herrabúðin. Stofnsett 1943. Var á Skólavörðustíg 2 til 1962 og einnig í Vesturveri frá 1955 og Austurstræti 22 frá 1960. Verslunin var rekin fram undir 1980.

Herradeild P&Ó. Stofnsett 1959 af Ólafi Maríussyni og Pétri Sigurðssyni. Var til húsa í Austurstræti 14 til 1990. Ennfremur voru P&Ó verslanir starfræktar á Laugavegi 95 frá 1963-1970, Laugavegi 66 frá 1970-1975 og í Borgarkringlunni 1988-1990.

Herragarðurinn. Stofnsett 1972 af Garðari Siggeirssyni. Var í Aðalstræti 9 til 1997 og ennfremur í Kringlunni frá opnun hennar. Einnig verslun á Laugavegi 13 1997-2004.

Herrahúsið. Stofnsett 1965 af Þorvarði Árnasyni og Sportveri. Var til húsa í Aðalstræti 4  til um 1986 og einnig var rekin verslun undir þessu nafni í Bankastræti 7 á árunum 1978-1988 og að Skúlagötu 26 um árabil. Frá 1988 sameinaðist Herrahúsið og Tískuverslunin Adam undir nafninu Herrahúsið Adam á Laugavegi 47.

Herranótt. Sjónleikahald skólapilta, tekið upp í Hólavallaskóla 1791 eins og tíðkast hafði áður í Skálholti. Var haldin til 1799 en tekin upp aftur í í Lærða skólanum, þegar hann var fluttur á ný til Reykjavíkur 1846, og hafa nú um langt skeið verið nær árviss atburður í Menntaskólanum í Reykjavík.

Herraríki.  Karlmannafataverslun, stofnsett af iðnaðardeild SÍS árið 1976 í samvinnu við Ftaverksmiðjuna Gefjunni á Akureyri. Var á Snorrabraut 56 til um 1992, eftir það um hríð á Rauðarárstíg 14 og loks í Kringlunni. Hætti um 1996. Útibú var rekið í Glæsibæ á árunum 1981-1987 og víðar um land.

Herskólakampur (Herskóla Camp). Braggahverfi frá stríðsárunum við Suðurlandsbraut, rétt austan við þar sem síðar var Vegmúli. Í kampnum ráku Bretar herskóla sem mun hafa verið sá fyrsti í síðari heimsstyrjöldinni sem kenndi vetrarhernað. Þar voru 52 braggar árið 1952 og bjuggu í þeim 220 Íslendingar þegar flestir voru. Síðust var búið í Herskólakamp árið 1975.

Hertex. Nytjamarkaður Hjálpræðishersins á Eyjarslóð 7, opnaður 2007.

Hestabrekkuhæð. Kennileiti á Hólmsheiði, suðvestran við Skyggnisdal.

Hestabrekkur. Sunnan í Hestabrekkuhæð á Hólmsheiði.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Miðstöð þekkingar í heyrnar- og talmeinum á Íslandi. Tók til starfa 1980 samkvæmt nýsettum lögum en áður hafði verið starfrækt Heyrnarstöðin í húsakynnum Heilsuverndarstöðvarinnar frá 1962 undir stjórn Erlings Þorsteinssonar. Fyrsti yfirlæknir nýju stöðvarinnar var Einar Sindrason og hefur hún verið til húsa á Háaleitisbraut 1 frá upphafi.

Heyrnarhjálp. Félag heyrnarskertra á Íslandi, stofnað 1937, einkum til að afla heyrnarlitlu fólki heyrnartækja og annarra hjálpartækja. Fyrsti formaður félagsins var Pétur Gunnarsson. Með tilkomu Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands hefur hlutverk félagsins breyst og rekur það nú alhliða þjónustu- og fræðslumiðstöð. Félagið var lengi eða frá 1939 til húsa í Ingólfsstræti 16 en flutti að Bergstaðastræti 9 árið 1974 það sem það var til 1982. Þá flutti það að Klapparstíg 28 og var í þeim húsakynnum til 1996. Eftir það var það á Snorrabraut 29 en flutti árið 2007 á Langholtsveg 111.

Heyrnarstöðin. Sjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Heyrnleysingjaskólinn. Fluttur frá Stóra Hrauni á Eyrarbakka til Reykjavíkur 1907 og var þá ýmist kallaður Daufdumbraskólinn eða Málleysingjaskólinn. Það var fyrst um 1960 að farið var að kalla hann Heyrnleysingaskólann, síðar Skóla heyrnarlausra. Árið 1995 var nafninu breytt í Vesturhlíðarskóli en hann sameinaðist svo Hlíðarskóla árið 2003 undir nafni þess síðarnefnda. Heyrnleysingjaskólinn var fyrsta árið í Reykjavík til húsa í Iðnskólanum í Lækjargötu 14, síðan á Laugaveg 17 til 1914 og eftir það til 1919 á Spítalastíg 9. Þá eignaðist hann húsið Sólheima sem tilheyrði Laugavegi 108 en varð seinna Stakkholt 3. Í því húsi og síðan nýbyggingum á sömu lóð var skólinn til 1971. Þá flutti hann í Leynimýri við Öskuhlíð, sem síðar kallaðist Vesturhlíð 3. Þar var hann uns hann sameinaðist Hlíðarskóla.

Heyvað. Gamalt vað yfir Elliðár (Dimmu), rétt fyrir ofan flúðir sem kallaðar eru Litli foss. Þar við er nú göngu- og reiðbrú yfir, skammt neðan Breiðholtsbrautar.

Heyvaðshylur. Veiðistaður í Elliðaám (Dimmu), skammt neðan Heyvaðs.

Héðinn. Vélsmiðja, stofnsett árið 1922 af  Bjarna Þorsteinssyni vélfræðingi og Markúsi Ívarssyni járnsmið. Þeir keyptu járnsmiðju Bjarnhéðins Jónssonar í Aðalstræti 6B og kenndu vélsmiðju sína við hann. Hún var til húsa í Aðalstræti  fyrstu áratuginu en 1941 hófst uppbygging 13 þúsund fermetra húsnæðis við Seljaveg 2 (Héðinshúsið) og unnu þar að jafnaði 200 manns. Árið 1989 flutti öll starfsemi vélsmiðjunnar í Garðabæ.

Héðinsgata. Liggur nú frá Klettagörðum í Laugarnesi í sveig í áttina að Sæbraut. Gatan er kennd við Héðinn Valdimarsson sem var forstjóri Ólíuverslunar Íslands sem hafði athafnasvæði sitt á þessum slóðum. Nafn götunnar var ákveðið 1950.

Héðinshúsið. Sjá Héðinn.

Héðinshöfði, sjá Höfði.

Héðinsleikvöllur. Róluleikvöllur við Verkamannabústaðina við Hofsvallagötu og Hringbraut. Kenndur við Héðin Valdimarsson alþingismann en stytta af honum er við leikvöllinn.

Héraðsdómur Reykjavíkur. Tók til starfa 1992 þegar Borgardómur Reykjavíkur, Sakadómur Reykjavíkur, Sakadómur í ávana- og fikniefnamálum og Borgarfógetaembættið voru sameinuð. Hefur frá upphafi haft aðsetur í Dómhúsinu við Lækjartorg.

Héraðslæknirinn í Reykjavík

Hið íslenska biblíufélag. Stofnað 1815 að tilhlutan Ebenezer Henderson. Markmið þess var að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun biblíunnar. Aðsetur félagsins, sem er elsta starfandi félag á landinu, hefur frá upphafi verið í Reykjavík og er nú í Guðbrandsstofu í Hallgrímskirkju.

Hið íslenska bókbindarafélag. Sjá Bókbindarafélag Íslands.

Hið íslenska bókmenntafélag. Stofnað í Kaupmannahöfn árið 1816 að tilhlutan Rasmus Christian Rask. Skipist það í Hafnardeild og Reykjavíkurdeild og var séra Árni Helgason fyrsti forseti þeirrar síðarnefndu. Deildirnar tvær voru sameinaðar árið 1911 og starfaði félagið eftir það eingöngu í Reykjavík. Frá upphafi gekkst félagið fyrir stórfelldu fræðastarfi og bókaútgáfu og hefur gefið út tímarit, lengst af Skírni. Reykjavíkurdeildin og síðan sameinað félag hafði geymslur fyrir bækur sínar og handrit á lofti Dómkirkjunnar í Reykjavík allt til ársins 1963. Félagið opnaði í fyrsta sinn eigin afgreiðslu árið 1972 í Vonarstræti 12 þar sem það var árum saman. Núverandi húsnæði félagsins er í Skeifunni 3b.

Hið íslenska fornleifafélag. Stofnað 1879 í þeim tilgangi að vernda fornleifar vorar, leiða þær í ljós og auka þekkingu á hinum fornu sögum og siðum feðra vorra. Fyrsti forseti þess var Árni Thorsteinsson. Félagið hefur gefið út Árbók frá árinu 1881.

Hið íslenska fornritafélag. Stofnað árið 1928 til að gefa út íslensk fornrit í vönduðum fræðilegum útgáfum. Fyrsti forseti félagsins var Jón Ásbjörnsson. Félagið hafði árið 2013 gefið út alls 25 rit.

Hið íslenska kennarafélag. Stofnað í Reykjavík 1889 og var tilgangur þess að efla menntun og vinna að hagsmunamálum kennara. Fyrsti formaður félagsins var Björn M. Ólsen. Starfaði til 1922 að Samband íslenskra barnakennara var stofnað.

Hið íslenska kennarafélag. Síðara félagið með þessu nafni. Stofnað 1979 með sameiningu Félags menntaskólakennara og Félags háskólamenntaðra kennara. Fyrsti formaður félagsins var Jón Hnefill Aðalsteinsson. Félagið var lagt niður 1999 er það sameinaðist í Kennarasambandi Íslands árið 1999.

Hið íslenska kvenfélag. Stofnað 1894 í þeim tilgangi að efla réttindi og menntun kvenna á Íslandi með samtökum og félagsskap.

Hið íslenska náttúrufræðifélag. Stofnað 1889.

Hið íslenska prentarafélag. Stofnað 1897. Rann inn í Félag bókagerðarmanna 1980.

Hið íslenska steinolíuhlutafélag. Stofnað 1913 sem íslenskt dótturfélag Det Danske Petroleum Selskab (DDPA) sem hafði haft einokun á olíuinnflutningi til landsins en varð að hætta vegna breyttrar löggjafar. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Holger Debell sem áður hafði verið framkvæmdastjóri DDPA á Íslandi og voru skrifstofur félagsins í Tjarnargötu 33. Olíustöð félagsins var í Viðey en í Reykjavík hafði félagið olíuport á Amtmannsstíg 2A og vestur á Melum við Sandvíkurveg. Rekstur félagsins stöðvaðist að mestu 1923 þegar Landsverslun fékk einkarétt á mestöllum olíuinnflutningi en var aftur tekinn upp um 1928. Skrifstofur félagsins voru um þetta leyti í Hafnarstræti 23. Árið 1946 var það keypt af Olíufélaginu h.f. og var eftir það dótturfélag þess. Félagið var lagt niður 1963 og rekstur þess sameinaður Olíufélaginu.

Hið íslenska stúdentafélag, sjá Stúdentafélag Reykjavíkur

Hið íslenska þjóðvinafélag

Hið sunnlenska síldarveiðifélag. Stofnað í Reykjavík 1882.

Hildibrandshús. Timburhús í Garðastræti 13. Upphaflega reist 1901 af Hildibrandi Kolbeinssyni og Guðjóni Jónssyni en stækkað til vesturs árið 1906.

Hildur. Bókaútgáfa, stofnsett 1959 af Gunnari S. Þorleifssyni og rekin fram til um 1992, síðast í Kópavogi.

Hinn almenni menntaskóli í Reykjavík. Sjá Menntaskólinn í Reykjavík.

Hinriksbær. Sjá Efstibær.

Hinsegin bíódagar.

Hitaveita Reykjavíkur. Fyrirtækið má rekja til svokallaðrar Þvottalaugaveitu árið 1930 en þá var lögð hitaveita í fáein hús á Skólavörðuholti. Árið 1939 voru svo sett lög um Hitaveitu Reykjavíkur. Það ár hófust framkvæmdir við Reykjaveitu en frá henni var lagt heitt vatn um meginhluta eldri hverfa Reykjavíkur. Fyrsti hitaveitustjórinn frá 1943 var Helgi Sigurðsson. Auk hitaveitu í öll hverfi Reykjavíkur lagði Hitaveitan heitt vatn í Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð. Fjölmargar dælustöðvar voru byggðar en höfuðstöðvar hitaveitunnar voru fyrst í Austurstræti 16 til um 1953, þá í Skúlatúni 2 til 1959. Eftir það var Hitaveita Reykjavíkur í eigin húsnæði í Drápuhlíð 14 til 1984 en flutti þá að Grensásvegi 1. Orkuveita Reykjavíkur tók yfir starfsemi Hitaveitunnar 1999.

Hitaveitutorg. Eitt helsta miðsvæði óskipulagðrar byggðar í Smálöndum í landi Grafarholts. Upphaflega var þarna herbraggahverfi fyrir kanadíska hermenn og birgðaskemma. Um þetta svæði lá hitaveitustokkurinn frá Reykjum í Mosfellssveit og tók hitaveitan yfir birgðaskemmuna en Íslendingar fluttu í braggana. Reis síðan þarna smáhúsabyggð sem taldist til Hitaveitutorgs.

Hitaveiturvegur. Gata í svoköllðum Smálöndum sem lá meðfram hitaveitustokknum frá Reykjum í Mosfellssveit.

Hitt húsið. Menningar- og upplýsingamiðstöð ungs fólks í Reykjavík, stofnsett af Reykjavíkurborg (ÍTR) 1991 og var fyrst til húsa í Brautarholti 20 (Þórskaffi). Fyrsti forstöðumaður hússins var Logi Sigurfinnsson. Árið 1995 fluttist Hitt húsið í Geysishúsin í Aðalstræti 2 en frá 2002 hefur það verið í Pósthússtræti 3 og síðar einnig í Pósthússtræti 5.

HIV-Ísland. Sjá Alnæmissamtökin á Íslandi.

Hjallakot. Sjá Arabær.

Hjallaland. Steinhús á erfðafestulandi við Kaplaskjólsveg (Nesveg)

Hjallar. Kennileiti í Laugarási, við þá er Hjallavegur kenndur.

Hjallavegur. Gata í Laugarási sem liggur milli Kleppsvegs og Dyngjuvegar. Kennd við Hjalla, örnefni í Laugarási. Nafn götunnar var ákveðið 1943.

Hjallhús.  Bær í Grjótaþorpi, stóð þar sem síðar var Garðastræti 9. Bæinn lét Helga Ingimundardóttir Norðfjörð byggja upp úr hjalli um 1848. Hann var rifinn 1897 og Guðmundur Olsen lét byggja timburhús á lóðinni sem ýmist var nefnt Hjallhús eða Olsenshús. Það hús var flutt í Grjótagötu 6 og 8 árið 1984.

Hjalli. Lítið hús við Réttarholtsveg, beint á móti Réttarholti. Þar bjó Helga Larsen.

Hjalli. Sjá Gróubær.

Hjallurinn. Lítill timburkofi, upphaflega útihús frá Finnbogabæ, sem stóð þar sem nú er Grjótagata 6 og búið var í að ofanverðri 19. öld. Einnig nefndur Hattarahús.

Hjaltahús. Timburhús á Bræðraborgarstíg 8, byggt 1898 af Jafet Ólafssyni. Síðar bjó þar lengi Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) og er húsið kennt við hann.

Hjaltalín.Hljómsveit

Hjaltesteðshús. Sjá Teitshús.

Hjarðarholt. Hús á erfðafestulandi á Norðurmýrarbletti 19 við Reykjanesbraut.

Hjarðarholt. Lítið timburhús við Langholtsveg 168.

Hjarðarnes. Kirkjujörð, byggð út frá Saurbæ á Kjalarnesi, stendur á sjávarbakka norðaustur frá Saurbæ rétt innan við Tíðarskarð.

Hjartað í Vatnsmýrinni. Samtök sem urðu til árið 2013 til að berjast fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram á sínum gamla stað í Vatnsmýrinni. Helsti talsmaður samtakanna hefur verið Friðrik Pálsson hótelstjóri.

Hjartagarður. Almenningsgarður sem útbúinn var árið 2009 á svokölluðum Hljómalindarreit milli Laugavegs 17-21 og Hverfisgötu. Í honum voru ýmsir viðburðir, svo sem markaðir, tónleikar og listviðburðir. Garðurinn var aflagður 2014 þegar byggingarframkvæmdir hófust á reitnum.

Hjartavernd. Stofnuð sem landssamtök hjarta- og æðasjúkdómavarnarfélaga árið 1964. Fyrsti formaður félagsins var Sigurður Samúelsson. Árið 1967 var opnuð Rannsóknastofa hjartaverndar í Lágmúla 9 og þar var hún til 2002 að hún flutti í Kópavog.

Hjá Báru. Kvenfataverslun, stofnuð af Báru Sigurjónsdóttur. Hún tók yfir Hattaverslun Ísafoldar í Austurstræti 14 um 1950 en breytti nafninu um 1957. Rekin til ársins 2000, fyrst í Austurstræti 14 til 1976 en eftir það á Hverfisgötu 50.

Hjá GuðjónÓ. Prentsmiðja, stofnuð árið 1992, sem framhald Prentsmiðjunnar GuðjónÓ (sjá). Hefur alla tíð verið í Þverholti 13. Stofnendur hinnar nýju prentsmiðju voru Ólafur Stolzenwald, Sigurður Þorláksson og Þórleifur V. Friðriksson.

Hjálmarshús. Steinhús á Frakkastíg 25 sem Hjálmar Þorsteinsson og Margrét Egilsdóttir reistu árið 1910.

Hjálp. Efnalaugin, stofnsett 1955 og rekin á Bergstaðastræti 28A til um 1983. Einnig var í mörg ár fatamóttaka á vegum Hjálpar á Grenimel 12 og síðar á Hagamel 23.

Hjálparstöð fyrir berklaveika. Sjá Líkn.

Hjálparsveit skáta. Stofnuð 1932.

Hjálpræðisherinn. Kom til Reykjavíkur 1895.

Hjá Magna. Sérverslun með frímerki, mynt, spil o.fl, stofnuð 1980 af þeim Magna R. Magnússyni og Steinunni Guðlaugsdóttur. Starfrækt til 2005, alla tíð á Laugavegi 15.

Hjólbarðaviðgerð Vesturbæjar. Stofnuð 1962 af Þorsteini Þorsteinssyni. Til húsa við Nesveg (síðar Ægissíðu 104).

Hjólbrettafélag Reykjavíkur. Stofnað 1995.

Hjónagarðar. Stúdentagarðar við Eggertsgötu 2-4, teknir í notkun 1976.

Hjúkrunarfélagið. Sjá Sængurkvennafélagið

Hjúkrunarfélagið Líkn

Hjúkrunarfélag Íslands. Sjá Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Hjúkrunarfélag Reykjavíkur. Stofnað 1903 til að hjúkra einkum fátækum sjúklingum sem ekki þiggja af sveit.

Hjúkrunarheimilið Eir. Sjálfseignarstofnun sem Reykjavíkurborg og ýmis félög og félagasamtök stofnuðu. Tók til starfa 1993 að Hlíðarhúsum 7 í Grafarvogi og rekur auk hjúkrunarheimilisins um 200 öryggisíbúðir fyrir aldraða. Fyrsti hjúkrunarforstjóri heimilisins var Birna Svavarsdóttir.

Hjúkrunarheimilið Skjól

Hjúkrunarheimilið Skógarbær

Hjúkrunarkvennaskóli Íslands. Sjá Hjúkrunarskóli Íslands.

Hjúkrunarskóli Íslands. Stofnaður 1931 og var fyrsti forstöðumaður hans Kristín Thoroddsen. Skólinn var til húsa í Landspítalanum frá upphafi en fékk eigið húsnæði á Landspítalalóðinni að Eiríksgötu 34 árið 1957. Skólinn hét Hjúkrunarkvennaskóli Íslands til ársins 1962. Síðustu nemendurnir brautskráðust frá skólanum 1986 en eftir það var hjúkrunarnám eingöngu á háskólastigi.

Hlaðbúð. Bókaútgáfan, stofnuð 1944 af Ragnari Jónssyni hæstaréttarlögmanni. Valdimar Jóhannsson í Iðunni tók fyrirtækið yfir um 1964 og voru um árabil gefnar áfram út bækur í nafni Hlaðbúðar, einkum kennslubækur.

Hlaðhamar.

Hlaðvarpinn. Menningarmiðstöð og félagsheimili kvenna sem stofnað var árið 1985 í þremur húsum á Vesturgötu 5 sem konur höfðu safnað peningum til að kaupa. Meðal annars fóru um árabil fram leiksýningar í Hlaðvarpanum. Vegna rekstrarerfiðleika voru húsin seld um 2005 og fyrir andvirði þeirra stofnaður sjóðurinn Hlaðvarpinn sem veitir styrki til menningarstarfemi kvenna.

Hlaupasamtök lýðveldisins. Hópur fólks sem hlaupið hefur frá Vesturbæjarsundlaug frá árinu 1985.

Hleinartagl. Kafli í Elliðaám fyrir neðan Hólmahlein, á móts við byggðina við Rafstöðvarveg.

Hlemmur. Torg á mótum Rauðarárstígs, Hverfisgötu og Laugavegar. Þarna rann Rauðará áður til sjávar og var brú yfir hana eða hlemmur og er þaðan nafngiftin komin en hún var ákveðin 1919. Þarna var líka vatnsþró fyrir hesta en seinna miðstöð leigubíla og strætisvagna. Um 1970 varð Hlemmur miðstöð Strætisvagna Reykjavíkur í stað Lækjartorgs og árið 1978 var núverandi áningastöð reist á torginu.

Hleragerðin. Stofnsett 1972 sem hliðarfyrirtæki Ögurvíkur hf. Var fyrst á Klapparstíg 8 og þannig eins konar arftaki Rúllu- og hleragerðar Reykjavíkur sem þar var árum saman, þá á Kirkjusandi við Laugarnesveg og loks á Fiskislóð 49-51 í Örfirisey.

Hléskógar. Hús við Vatnsveituveg.

Hlíð. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Hlíð. Sjá Arnljótsbær.

Hlíð. Hús við Vesturlandsbraut.

Hlíðaborg

Hlíðaborg. Leikskóli við Eskihlíð 19. Tók til starfa 1960.

Hlíðabúðin.  Stofnuð 1952 í Blönduhlíð 35 af Eyjólfi Jónssyni. Rekin til 1955.

Hlíðabær. Hjúkrunarheimili með dagþjálfun fyrir alzheimersjúklinga sem rekið hefur verið á Flókagötu 63 frá1986. Fyrsti forstöðumaður heimilisins var Kolbrún Ágústsdóttir.

Hlíðahverfi. Afmarkast af Miklubraut, Miklatúni, Flókagötu, Háteigsvegi, Kringlumýrarbraut, Suðurhlíð og Bústaðavegi. Göturnar í hverfinu eru Barmahlíð, Beykihlíð, Birkihlíð, Blönduhlíð, Bogahlíð, Bólstaðarhlíð, Drápuhlíð, Engihlíð, Eskihlíð, Grænahlíð, Hamrahlíð, Háahlíð, Hörgshlíð, Langahlíð, Lerkihlíð, Mávahlíð, Mjóahlíð, Reykjahlíð, Reynihlíð, Skógarhlíð, Stakkahlíð, Skaftahlíð, Stigahlíð, Suðurhlíð, Úthlíð, Vesturhlíð og Víðihlíð.

Hlíðakjör. Kjöt- og nýlenduvöruverslun að Eskihlíð 10. Stofnsett 1959 af Viggó M. Sigurðssyni. Starfrækt til til 2005.

Hlíðarendi. Fyrsta nýbýlið í Vatnsmýri, reist á erfðafestulandi og var norðaustast í mýrinni undir Öskjuhlíð, byggt af Jóni Kristjánssyni árið 1916. Þar er nú athafnasvæði Knattspyrnufélagsins Vals sem ber enn nafn býlisins.

Hlíðarendi. Hús á erfðafestulandi á Laugarásbletti 10, síðar Laugarávegur 77, upphaflega sumarbústaður en frá 1935 heilsárshús Sigurðar Kristinssonar forstjóra SÍS. Í húsinu var frá 1949 vöggustofa á vegum Reykjavíkurborgar en frá 1963 leikskólinn Hlíðarendi.

Hlíðarendi. Leikskóli við Laugarásveg 77, starfræktur í gömlu íbúðarhúsi.

Hlíðargerði. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Hlíðarhorn. Hús við Vesturlandsbraut.

Hlíðarhús. Býli þar sem nú er Vesturgata 24-28, líklega upphaflega fjárhús frá Reykjavík en voru orðin sjálfstæð jörð um 1600 með hjáleigu í Ánanaustum. Fyrst árið 1835 varð Hlíðarhúsajörðin færð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og árið 1858 eignaðist bærinn jörðina. Torfbæjaþyrping var í Hlíðarhúsum á seinni hluta 19. aldar og hét hver bær sínu nafni, svo sem Austurbær (Vesturgata 24), Jónsbær (Vesturgata 26A), Skáli (Vesturgata 26B), Sund (Vesturgata 26B), Miðbær (Vesturgata 26C), Vesturbær (Vesturgata 28) og Norðurbær (Ægisgata 5). Síðasti torfbærinn, Vesturbær, var rifinn 1927, en Norðurbær stendur enn sem steinbær sem byggður var 1898.

Hlíðarhúsabrunnur. Vatnsból fyrir allmörg hús, var á lóð hússins Nýlendugötu 12.

Hlíðarhúsamýri. Mýrin vestan við Hlíðarhús neðan Vesturgötu. Við hana er Mýrargata kennd.

Hlíðarhúsasandur. Fyrir neðan Hlíðarhúsabæina á Vesturgötu 24-28. Þaðan reru Hlíðarhúsabændur. Einnig nefndur Kríusandur.

Hlíðarhúsastígur. Sjá Vesturgata.

Hlíðarhúsatún

Hlíðarhúsavör. Vör á Hlíðarhúsasandi (sjá).

Hlíðarhvammur. Nýbýli á erfðafestulandinu Sogamýrarbletti 3, reist af Bjarna Sigmundssyni og Guðrúnu Snorradóttur 1925. Húsið stóð þar sem nú er suðurendi Grensásvegar 9.

Hlíðarkjör. Matvöruverslun, stofnuð í Eskihlíð 10 af Viggó M. Sigurðssyni og fleirum árið 1959. Verslun með þessu nafni var síðan rekin í Eskihlíð 10 fram yfir 2005.

Hlíðarvegur. Gata sem árið 1930 var ákveðin sem þvergata milli Borgarvegs (nú Borgargerðis) og Tunguvegs.

Hlíðaskóli

Hljóðfærahús Reykjavíkur. Stofnað 1916 af Önnu Friðriksson og var á ýmsum stöðum í bænum fyrstu árin, fyrst í Templarasundi 3 til 1919 en lengst á því tímabili í Austurstræti 1 1924-1931. Á árunum 1932-1962 var Hljóðfærahúsið í Bankastræti 7 en síðan í Hafnarstræti 1 frá 1962-1967. Þá fluttist verslunin að Laugavegi 96 þar sem hún var til 1995. Eftir það var hún á Grensásveg 8 til 2000, Laugaveg 176 til 2007 og í Síðumúla 20 frá þeim tíma. Frá 2008 heitir verslunin Hljóðfærahúsið – Tónabúðin. Hljóðfærahús Reykjavíkur gaf út hljómplötur um skeið.

Hljóðfæraverslun Katrínar Viðar. Stofnsett í Lækjargötu 2 árið 1925 og rekin til 1938.

Hljóðfæraverslun Pálmars Árna. Stofnsett 1973 af Pálmari Árna Sigurbergssyni en áður hafði hann rekið hljóðfæraverkstæði frá 1967.  Var fyrst til húsa í Síðumúla 18, síðan um tíma í Skipasundi 51 en fluttist í Borgartún 29 árið 1975, síðan að Grensásvegi 12 árið 1979 og í Ármúla 38 árið 1983. Um nokkurra ára skeið rak Pálmar einnig orgelskóla. Síðari ár hefur fyrirtækið verið í Rangárseli 6 (athuga betur)

Hljóðfæraverslun Poul Bernburg

Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur. Stofnsett 1938 og tók þá við af Hljóðfæraverslun Katrínar Viðar. Var fyrst í Lækjargötu 2 en síðan í Vesturveri í Morgunblaðshúsinu frá 1955-1977. Var lengi ein helsta hljómplötuverslun Reykjavíkur auk þess sem hljómplötuútgáfa var á vegum verslunarinnar á árunum 1949-1970.

Hljómalind. Upphaflega stofnað af Kristni Sæmundssyni sem hljómplötumarkaður árið 1990, var fyrst í Hlaðvarpanum og Kolaportinu en frá 1991 í Austurstræti 8. Fluttist á Laugaveg 39 árið 1997 og skömmu síðar að Laugavegi 21 og loks Laugavegi 23 árið 2008 þar sem það var starfrækt til 2009. Auk þess að selja framsækna tónlist stóð fyrirtækið fyrir tónlistarviðburðum, plötuútgáfu og bóksölu. Frá 2005 rak Hljómalind lífrænt kaffihús og um skeið nuddstofu.

Hljómalindarreitur. Sjá Hjartagarður.

Hljómbær. Fyrirtæki með innflutning og verslun á hljómflutningstækjum og brautryðjandi í innflutningi á gervihnattadiskum, stofnsett 1982 af Bjarna Stefánssyni og Pétri Björnssyni. Áður hafði Bjarni rekið innflutningsverslun undir eigin nafni frá 1963. Dótturfyrirtæki Hljómbæjar voru Skrifbær, stofnsett 1986, og Verkbær, stofnsett 1988. Var frá upphafi á Hverfisgötu 103 en árið 1996 var fyrirtækið lagt niður. Áður hafði verið rekin samnefnd hljómflutningstækjaverslun á Hverfisgötu 108 frá 1975-1980.

Hljómeyki. Stofnað 1974 af hópi söngfólks og hljóðfæraleikara sem kom saman undir stjórn Ruth Magnússon. Starfsemin lá niðri eftir 1982 en var endurvakin 1986 sem sönghópur sem flytur einkum nýja íslenska tónlist og hefur starfað óslitið síðan

Hljómskálagarður. Skrúðgarðurinn sunnan við Tjörnina, norðan Hringbrautar. Fyrstu drög að garðinum komu með trjárækt (austan Bjarkargötu) árið 1914 en síðan var smám saman unnið að stækkun garðsins. Svokölluð Þorfinnstjörn var gerð árið 1927 en fyrsta styttan kom í garðinn árið 1931 (Thorvaldsensstyttan). Skömmu fyrir 1940 var plantað mikið af trjám úr Bæjarstaðaskógi í garðinn sem síðan hefur verið uppistaðan að trjágróðri þar. Núverandi form fékk hann á sjötta áratug 20.aldar. Nafn sitt dregur hann af Hljómskálanum sem byggður var 1922.

Hljómskálinn. Fyrsta húsið sem sérstaklega var byggt yfir tónlist á Íslandi. Reistur fyrir frumkvæði Lúðrasveitar Reykjavíkur árið 1922 og hefur Hljómskálinn verið aðsetur hennar síðan auk þess sem í honum var rekinn fyrsti tónlistarskólinn í Reykjavík á árunum 1922-1937. Húsið er teiknað af Guðmundi Þorlákssyni.

Hljómsveit Aage Lorange. Ein helsta danshljómsveit Reykjavíkur á árabilinu frá um 1930 til um 1970. Lék á öllum helstu dansstöðunum, svo sem Iðnó, Hótel Borg, Sjálfstæðishúsinu og loks á Hótel Sögu. Kom síðast saman á 60 ára afmæli Hótel Borgar árið 1990 en hún hafði leikið þegar hótelið var opnað 1930.

(Hljómsveit Árna Elfar nær ekki aldri)

Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar. Danshljómsveit sem lék á ýmsum skemmtistöðum í Reykjavík, meðal annars Tjarnarcafé og Þórskaffi, á árunum 1946-1962.

Hljómsveit Bjarna Böðvarsssonar. Sjá Danshljómsveit Bjarna Böðvarssonar.

Hljómsveit Björns R. Einarssonar.  Vinsæl dans- og djasshljómsveit í Reykjavík á árunum 1945-1970. Upphaflega voru í sveitinni auk Björns þeir Árni Ísleifsson, Axel Kristjánsson, Guðmundur Einarsson, Gunnar Egilsson og Haraldur Guðmundsson. Lék mikið dixieland og swingtónlist.  Hljómsveitin kom af og til saman fram yfir 1990.

Hljómsveit Carl Billich. Stofnuð 1936 og tók við af Vínartríóinu sem lék á Hótel Íslandi. Starfaði til 1940 en þá var Billich tekinn sem stríðsfangi af Bretum, kom aftur 1947 og endurvakti hljómsveit sína sem lék á ýmsum stöðum, meðal annars á Naustinu í 16 ár. Var virk fram til 1981.

Hljómsveit F.Í.H.

Hljómsveit Hauks Morthens.

Hljómsveit Jónatans Ólafssonar. Danshljómsveit sem starfaði á árunum frá 1947 og fram yfir 1960, spilaði mikið í Þórscafé. Meðal þeirra sem voru í hljómsvekitinni voru Axel Kristjánsson, Garðar Jóhannesson, Guðmundur R. Einarsson, Guðmundur Vilbergsson, Gunnar Jónsson, Jóhann Eggertsson, Skafti Ólafsson, Þorsteinn Eiríksson og Þórir Jónsson.

Hljómsveit Karls Jónatanssonar. Danshljómsveit, stofnuð um 1946 og lék á kaffihúsum og fyrir dansi á skemmtistöðum fram til um 1997, framan af mikið á Vetrargarðinum en síðar einkum þar sem gömlu dansarnir voru.

Hljómsveit Karls Lilliendahls. Danshljómsveit, stofnsett 1962. Í henni voru auk Karls þau Hjördís Geirsdóttir, Árni Elfar, Björn Haukdal og Sveinn Óli Jónsson. Lék aðallega í Klúbbnum fyrstu árin en var húshljómsveit Hótels Loftleiða frá 1966-1972.

Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar. Vinsæl danshljómsveit í Reykjavík sem spilaði á árunum 1958-1972. Var um árabil föst húshljómsveit á veitinga- og dansstaðnum Röðli.

Hljómsveit Oscars Johansen. Fyrsta hljómsveit á Íslandi með strengjum og fjölbreyttari hljóðfæraskipan, starfrækt í Reykjavík á árunum 1910-12 undir stjórn sænsks fiðluleikara.

Hljómsveit Óskars Cortes. Starfandi danshljómsveit í Reykjavík á árunum 1943-1965 og spilaði hún mikið í Iðnó og Ingólfscafé.

Hljómsveit P. O. Bernburg. Fiðuleikarinn Poul O. Bernburg kom til Reykjavíkur 1905 og stofnaði fljótlega hljómsveit, einhverja hina fyrstu hérlendis sem spilaði á kaffihúsum og skemmtunum. Ýmsir hljóðfæraleikarar voru með honum í sveitinni sem einnig var kölluð Bernburgssveitin, Bernburg & Co eða P.O.Bernburg með flokk. Starfaði með hléum og ýmsum tilbrigðum til 1935.

Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar.

Hljómsveit Reykjavíkur. Sett á laggirnar 1925 og var fyrstu árin undir stjórn Sigfúsar Einarssonar.

Hljómsveit Svavars Gests. Danshljómsveit með þessu nafni kom fyrst fram 1949 og voru með Svavari í henni þeir Árni Ísleifs, Garðar Jóhannesson og Þórir Jónsson en saga hennar var rykkjótt þar til 1957 að hún kom fram með nýjum mönnum. Starfaði hún eftir það til 1965 og lék á öllum helstu veitingastöðum Reykjavíkur. Meðal söngvara með henni voru Ragnar Bjarnason, Sigurdór Sigurdórsson og Helena Eyjólfsdóttir.

Hlutaveltubraggi. Braggi frá stríðsárunum,nálægt Hafnarhvoli við Geirsgötu. Í honum var Skipaútgerð ríkisins með aðsetur um árabil eftir stríð.

H.M.S. Baldur. Sjá Royal Navy Camp.

Hnitbjörg. Sjá Listasafn Einars Jónssonar.

Hnjótur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)(1961,1963)

Hof. Timburhús á Sólvallagötu 25, byggt árið 1906 af Kirstínu Katrínu Pétursdóttur og Lárusi Halldórssyni Fríkirkjupresti sem var frá Hofi í Vopnafirði og nefndi hann húsið eftir fæðingarstað sínum. Við húsið er Hofsvallagata kennd. Húsið er teiknað af Rögnvaldi Ólafssyni.

Hof. Leikskóli við Gullteig 19, teiknaður af Albinu Thordarsen. Tók til starfa 1996 og var Sigrún Sigurðardóttir fyrsti leikskólastjórinn.

Hof. Hús við Baugsveg í Skerjafirði (1963)

Hof. Landnámsjörð á Kjalarnesi, austur af Brautarholti og skammt vestan við Grundahverfi.

Hof. Smámunaverslun, einkum með prjónavörur og hannyrðir, stofnuð 1941 af þeim Wilhelm Norðfjörð og Friðrik P. Dungal. Var á Laugavegi 4 til 1967 en flutti þá í Hafnarstræti 7 og þaðan ári síðar í Þingholtsstræti 1. Þar var verslunin til 1977 en flutti þá í Ingólfsstræti 1. Þaðan flutti hún að Skólavörðustíg 5 árið 1994 en mun hafa hætt fljótlega eftir það.

Hofssel gömlu. Í Blikdal í Esju. Þar var haft í seljum frá Hofi.

Hofsbakkar. Örnefni í landi Hofs á Kjalarnesi. Þar var um eða eftir 1900 byggt fundarhús á vegum hreppsins og Lestrarfélags Kjalnesinga.

Hofstangi. Tangi í landi Hofs á Kjalarnesi. Þar var bátabryggja sem enn sér fyrir.

Hofsvallabúðin. Kjötbúð, stofnsett af Ludvig Pedersen árið 1948. Var fyrst til húsa á Ásvallagötu 27 en síðan frá um um 1950 á Sólvallagötu 27. Hætti rekstri árið 1960.

Hofsvallagata. Gatan liggur frá Túngötu og suður að Ægissíðu. Nafnið var ákveðið 1926 og er líklega dregið af nafni hússins Hofs á Sólvallagötu 25.

Hofsvallasafn. Útibú Borgarbókasafns Íslands í verkamannabústöðunum að Hofsvallagötu 16. Það var sett á laggir þar 1936 og var í því húsnæði allt til ársins 1993.  Þá var útibúið flutt að Grandavegi 47 og var þá kallað Grandasafn (sjá).

Hofsvík. Breið vík milli Kjalarness og Brimness á Kjalarnesi.

Holan. Veiðistaður neðst í austurkvísl Elliðaáa fyrir neðan gömlu Elliðaárbrúna. Um er að ræða skál undir vesturbakkanum neðan Breiðunnar.

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi. Reistur 1898 sem gjöf frá dönskum Oddfellowum. Var starfræktur til 1940 en þá mátti heita að holdsveiki væri útrýmt. Húsið brann til kaldra kola 1943 en þá hafði breska setuliðið þar afsetur.

Hollenska myllan.  Kornmylla, reist af Knudtzon kaupmanni árið 1846 við Bakarabrekkuna í Þingholtum (nú Bankastræti 10), vængirnir voru teknir af myllunni 1892 og hún var um skeið notuð til geymslu og íbúðar. Myllan var rifin 1902.

Hollt og gott. Fyrirtæki, stofnsett 1995 af Sláturfélagi Suðurlands og Ágæti, sem sérhæft hefur sig í framleiðslu á fullunnu grænmeti og ávöxtum.

Hollywood. Hárgreiðslustofa, stofnsett 1928 af Solveigu P. Straumland. Síðar rekin lengi af Kristínu Guðmundsdóttur. Var til húsa að Laugavegi 3.

Hollywood. Vinsæll skemmti- og veitingastaður ásamt diskóteki sem rekin var í Ármúla 5 á árunum 1978-1990. Eigendur hans voru Ólafur Laufdal og Kristín Ketilsdóttir til 1987. Áður hafði í fáein ár verið rekinn staðurinn Cesar í sömu húsakynnum.

Hollywoodblokkin. Blokk á Fálkagötu 21 sem fékk þetta nafn vegna þess að þar áttu frægir listamenn íbúðir, þeirra á meðal voru Halldór Laxness, Gunnar Eyjólfsson og Nína Tryggvadóttir.

Holt. Torfbær sem stóð þar sem nú er Ingólfsstræti 21, reistur 1833 af Magnúsi Pálssyni. Síðar nefndur Pálsbær. Brann 1894.

Holt. Torfbær sem reistur var af Jóni Sigfússyni þar sem nú er Skólavörðustíg 22 á árunum um 1850, fyrst kallaður Efra-Holt en síðar einungis Holt. Um 1868 voru í stað torfbæjarins reist þar bæjarhús úr timbri og enn síðar steinhús í stað þeirra.

Holt. Hverfi í Rauðarárholti, afmarkast í grófum dráttum af Laugaveg, Kringlumýrarbraut eða Bólstaðarhlíð, Háteigsvegi og Rauðarárstíg. Ákveðið var árið 1940 að nýjar götur í hverfinu enduðu á –holt og komu þá götunöfnin Einholt, Meðalholt og Stórholt. Lagt var til að Háteigsvegur fengi nafnið Brattholt en af því varð ekki. Götunöfnin Mjölnisholt og Stakkholt komu 1942, Skipholt, Brautarholt og Stúfholt 1943, Stangarholt 1946, Bolholt 1954, Vatnsholt og Hjálmholt 1962 og Ásholt 1989. Ennfremur er Traðarholt.

Holtabakki. Viðlegukantur í Kleppsvík við Elliðárvog niður af Holtavegi, tilheyrandi Sundahöfn og einkum ætlaður skipum Skipadeildar SÍS, síðar Samskipa. Var fyrst tekinn í notkun 1980-1981 en fullgerður 1990. Þá var Vogabakki kominn til sögu fyrir innan Holtabakka og gekk hann framar í sjó en Holtabakki. Á næstu árum var Vogabakki framlengdur fram fyrir Holtabakka þannig að sá síðarnefndi hvarf að lokum endanlega á árunum 2006-2009.

Holtaborg. Leikskóli við Sólheima 21. Tók til starfa í húsnæði KFUM og K við Holtaveg 1964 en flutti í núverandi húsnæði 1969 en það var teiknað af þeim Guðmundi Kr. Guðmundssyni og Skarphéðni Jóhannssyni. Fyrsta forstöðukona Holtaborgar var Jóhanna Bjarnadóttir. Árið 2011 var leikskólinn sameinaður Sunnuborg undir nafninu Langholt.

Holtaborg

Holtastaðir. Torfbær við Bræðraborgarstíg 24, reistur af Pálma Pálmasyni árið 1883. Einnig nefndur Pálmabær. Rifinn 1906.

Holtastaðir. Torfbær við Bergstaðastræti

Holtavegur. Milli Suðurlandsbrautar og Langholtsvegar um Þvottalaugamýri, fékk nafn 1928 og dregur líklega nafn af Langholtinu.

Holtsapótek. Stofnsett 1950 af Baldvini Kristjáni Sveinbjörnssyni. Var á Langholtsveg 84 til 1995 en eftir það í Glæsibæ til ársins 1999 þegar það rann inn í lyfsölukeðjuna Lyf og heilsu.

Holtsgata. Gata í Vesturbænum sem liggur milli Bræðaborgarstígs og Ánanausta.  Kennd við Selsholt enda kölluð Selsholtsvegur fyrst.  Nafnið var ákveðið 1896.

Holtskjör. Matvöruverslun. Var á Langholtsvegi 89 til 1983, þá um eins árs skeið í Efstasundi 99 en frá 1983 að Langholtsvegi 113. Hætti 1989.

Holusel. Sel sem eitt sinn var innarlega í Blikdal í Esju, norðan ár.

Horn. Hús við Suðurgötu.

Hornið efra. Sjá Krókahyljir.

Hornið neðra. Veiðistaður í neðsta hluta Elliðaáa, skammt fyrir ofan veiðihúsið. Þar gengur lítið vik inn í bakka árinnar. Einnig nefnt Kistubrot.

Hovedgaden. Sjá Aðalstræti.

Howitzer Hill. Herbraggahverfi á stríðsárunum vestan við hitaveitugeymana á Öskjuhlíð.

Hólaborg. Leikskóli í Suðurhólum 21. Tók til starfa 1977 og var fyrsta forstöðukona hans Lilja Torp.

Hólabrekka. Torfbær á Grímsstaðaholti, reistur um 1885 af Þórði Markússyni. Árið 1906 var reist nýtt timburhús á lóðinni sem enn stendur og er Grímshagi 2.

Hólabrekkuskóli.  Grunnskóli að Suðurhólum 10 í Breiðholti. Tók til starfa 1974. Fyrstu þrír áfangar skólans, sem teiknaðir voru af Gunnari Hanssyni, voru reistir á árunum 1974-1984 en sá fjórði var teiknaður af Gylfa Guðjónssyni og tekinn í notkun 2002. Fyrsti skólastjóri Hólabrekkuskóla var Sigurjón Fjeldsted.

Hólabrekkusöfnuður. Stofnaður 1987 og tilheyra honum götur sem enda á –hólar og –berg í Breiðholti. Fyrsti prestur safnaðarins var séra Guðmundur Karl Ágústsson.

Hólafjall. Hólar í Esjunni upp af bænum Skrauthólum á Kjalarnesi.

Hólagarður. Kjörbúð í samnefndri verslanamiðstöð í Lóuhólum 2-6 í Breiðholti, opnuð 1975 af Gunnari Snorrasyni. Nafni verslunarinnar var breytt í Sparkaup árið 1988 en 1990 tók Hagkaup verslunina yfir.

Hólakot. Ein af hjáleigum Reykjavíkur frá fornu fari. Bæjarhúsin stóðu ofarlega í Tjarnarbrekkunni þar sem nú eru húsin Suðurgata 16 og Garðastræti 41. Þau munu hafa verið rifin upp úr 1900.

Hólakot. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Hólar. Hús á erfðafestulandi á Laugarnesbletti 2 við Kleppsveg, byggt 1932 eða 1933 af Jens Bjarnasyni rétt við Barnhól, taldist síðast til Héðinsgötu. Rifið árið 2000.

Hólar. Prentsmiðja, stofnuð 1942. Fyrsti forstjóri hennar var Hafsteinn Guðmundsson. Var á Óðinsgötu 13 en flutti í Þingholtsstræti 27 árið 1947 og var þar til 1973. Eftir það var hún starfrækt á Seltjarnarnesi þar til hún hætti 1986.

Hólar. Hús við Reykjavíkurveg.

Hólarnir. Hverfi í Efra-Breiðholti, kennt við hóla. Þar heita göturnar Arahólar, Álftahólar, Blikahólar, Depluhólar, Dúfnahólar, Erluhólar, Fýlshólar, Gaukshólar, Haukshólar, Kríuhólar, Krummahólar, Lóuhólar, Máshólar, Norðurhólar, Orrahólar, Rituhólar, Smyrilshólar, Spóahólar, Starrahólar, Stelkshólar, Suðurhólar, Súluhólar, Trönuhólar, Ugluhólar, Valshólar, Vesturhólar og Þrastarhólar.

Hólatorg. Lítil gata milli Kirkjugarðsstígs og Sólvallagötu meðfram norðurvegg gamla kirkjugarðsins við Suðurgötu. Nafnið var samþykkt árið 1919 og tengist nafni Hólavallar.

Hólavallakirkjugarður. Annar elsti kirkjugarður Reykjavíkur, afmarkast af Kirkjugarðsstíg, Hólatorgi, Ljósvallagötu, Hringbraut og Suðurgötu. Einnig kallaður Kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Tekinn í notkun 1838 og var aðalkirkjugarður Reykvíkinga þar til Fossvogskirkjugarður kom til sögu árið 1932.

Hólavallarmylla.  Hollensk mylla sem P. C. Knudtzon kaupmaður lét reisa á Hólavelli árið 1930, nú er þar götustæði Garðastrætis, fyrir framan húsið nr. 41. Í myllunni var malað korn uns hún var rifin um eða upp úr 1880.

Hólavallaskóli. Árið 1786 var hinn lærði skóli í Skálholti fluttur til Reykjavíkur og byggt yfir hann allstórt timburhús á Hólavelli þar sem nú er Suðurgata 20. Hólavallaskóli starfaði til 1804 en þá var skólahald flutt til Bessastaða. Skólahúsið rifið 1807 enda illa byggt í upphafi.

Hólavöllur.  Tún suðaustan í Landakotshæðinni milli Hólakots (Suðurgötu 16) og Melshúsa sem stóðu þar sem nú er nyrsti hluti Hólavallakirkjugarðs.

Hólavöllur.  Timburhús við Suðurgötu 20, reist af Jóni Þorkelssyni árið 1903.

Hóll.  Torfbær á 19. öld, austastur Grjótabæjanna, þar sem nú er Grjótagata 12. Einnig stundum nefndur Kófið. Rifinn 1895. Núverandi timburhús á lóðinni, reist 1890, er einnig nefnt Hóll.

Hóll. Hús við Ingólfsstræti

Hóll. Torfbær og síðar steinbær við Nesveg 55.

Hóll. Hæð eða hóll sem var mitt á milli býlisins Eiðis og Eiðstjarnar.

Hóll. Tvílyft timburhús sem Guðjón Ólafsson og Björn Jónsson reistu árið 1898 á Bræðraborgarstíg 21A. Fékk nafn sitt af því að þar bjó lengi Jón Jónsson frá Hól.

Hólmahlein. Veiðistaðir í Elliðaám fyrir neðan göngubrúna úti í Elliðaárhólma, skemmt neðan við Félagsheimili Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Svæðið er einnig nefnt Rottuholur en Englendingar sem áttu árnar fyrir 1906 kölluðu staðinn Ratholes.

Hólmakvísl. Sá hluti Elliðaáa (Dimmu) sem rennur austur fyrir hólmann við hólinn Skyggni í efsta hluta árinnar.

Hólmakvísl. Rann áður um Elliðaárhólmann en er nú þurr. Sést móta fyrir faqrvegi hennar.

Hólmar. Sker norðan við Löngusker á Skerjafirði, einnig kallaðir Skildinganeshólmar.

Hólmasel. Félagsmiðstöð fyrir börn í Hólmaseli 4-6, hefur verið starfrækt frá 1992.

Hólmasund. Sundið milli Akureyjar og Hólmsins (Grandahólma).

Hólmatagl. Veiðistaður í efsta hluta Elliðaáa rétt neðan við hólmann við hólinn Skyggni.

Hólmsá. Upptök hennar eru í Selvatni og að hluta í Nátthagavatni og rennur hún í Elliðavatn. Síðasta spölin heitir hún Bugða.

Hólmsborg. Fjárborg í Heiðmörk, hlaðin árið 1918.

Hólmsengjar

Hólmsgata. Síðar Hólmsslóð. Sjá Slóðir.

Hólmsheiði. Heiðin austan við Almannadal og norðan við Hólmsá. Í landi Hólms.

Hólmshraun. Hraun í landi Hólms, sunnan við Hrauntúnstjörn og Suðurá.

Hólmskaupstaður

Hólmskvísl. Sjá Breiðholtskvísl.

Hólmstá. Mjór rani milli Elliðárkvísla, rétt neðan Höfðabakkabrúar.

Hólmur. Efsta býlið í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Stendur við Hólmsá í jaðri Hólmshrauns, sunnan Suðurlandsvegar. Elsta heimild um jörðina er frá 1397.

Hólmurinn. Smáeyja eða sker vestur af Örfirisey og sunnan Akureyjar. Manngengt er í Hólminn á fjöru. Einnig kallaður Grandahólmi eða Grandahólmar en stundum Akureyjarhólmi. Til forna virðist hann nefndur Gjáhólmar eða Grashólmar en hann hefur mjög eyðst vegna landsigs og landbrots. Nú heitir suðurhæð skersins Suðurhólmi en norðurhæðin Norðurhólmi. Þar var áður lón á milli sem hét Péturslón. Í Hólminum er talinn hafa verið elsti verslunarstaðurinn við Reykjavík og er hans fyrst getið 1521. Í gömlum heimildum er hann stundum kallaður Brimarhólmur því að þar versluðu kaupmenn frá Brimum á 16. öld. Á 17.öld, óvíst hvenær, er talið að verslunarstaðurinn hafi verið fluttur í Örfirisey vegna landbrots í Hólminum en sá verslunarstaður var áfram kallaður Hólmurinn allt til 1780 þegar verslunarhúsin voru flutt inn til Reykjavíkur.

Hólmurinn. Landflæmi austur af bænum Hólmi milli Hólmsár og Suðurár.

Hólshús. Sjá Örfirisey.

Hólshús. Sjá Snússu.

Hólshylur. Sjá Stararhyljir.

Hólsstrengur. Sjá Stararhyljir.

Hólsvegur. Gata milli Austurbrúnar og Skipasunds, mun draga nafn sitt af kennileiti í Laugarási. Fékk nafn 1930.

Hópferðamiðstöðin. Ferðaskrifstofa, stofnsett 1977 af 40 langferðabílstjórum og var fyrsti framkvæmdastjóri hennar Skarphéðinn D. Eyþórsson. Var til húsa á Suðurlandsbraut 6 fyrstu árin en síðan um tíma í Skeifunni 8. Flutti í eigin húsnæði að Bíldshöfða 2a árið 1985 og síðan að Hesthálsi 10 árið 1996. Sameinaðist Vestfjarðarleið árið 2002 undir nafninu Hópferðamiðstöðin-Vestfjarðarleið en hefur frá 2006 heitað Trex hópferðamiðstöðin.

Hótel Alexandra. Hótel og samkomuhús í Hafnarstræti 16, stofnað af Martiniusi Smith kaupmanni 1880 og rekið til um 1892.

Hótel Arnarhvoll. Hótel í endurbyggðu gamla Fiskifélagshúsinu að Ingólfsstræti 1, opnað 2007.

Hótel Borg

Hótel Esja. Sjá Nordica Hotel.

Hótel Frón. Stofnsett 1998 á Klapparstíg 35a en smástækkaði og hefur nú heimilisfangið Laugavegur 22a.

Hótel Hekla. Stofnsett árið 1925 af Guðmundi Kr. Guðmundssyni í Hafnarstræti 20, hinu gamla húsi Thomsensverslunar við Lækjartorg. Auk gistingar voru þar haldnir dansleikir og aðrar samkomur. Hótelið var rekið til 1943 en nafnið festist við húsið sem var svo rifið 1961

Hótel Holt. Sett á stofn að Bergstaðastræti 37 árið 1965 af Þorvaldi Guðmundssyni í Síld og fisk og stækkað mikið á næstu árum.

Hótel Ísland. Upphaf þess var að Niels Jörgensen hóf veitingarekstur í litlu húsi í Austurstræti 2 árið 1857. Árið 1880 var reist hótelbygging, sem kölluð var Hótel Ísland, og hún síðan stækkað mikið 1901. Var þá stærsta hótelið í Reykjavík. Byggingin brann til kaldra kola 1944.

Hótel Íslands-planið. Sjá Hallærisplanið.

Hótel Klöpp. Opnað 2001 á Klapparstíg 26, stofnsett af Kristófer Oliverssyni og Svanfríði Jónsdóttur.

Hótel Leifur Eiríksson. Hefur verið starfrækt að Skólavörðustíg 45 frá 1991.

Hótel Loftleiðir. Reist á árunum 1965-66 og stækkað 1970. Reist af Loftleiðum hf  við austanverðan Reykjavíkurflugvöll í framhaldi af skrifstofubyggingu sem félagið hafði látið reisa á árunum 1962-64. Í hótelinu eru nokkrir veitingasalir.

Hótel- og veitingaskóli Íslands. Stofnaður 1955 en hét upphaflega Matsveina- og veitingaþjónaskóli Íslands. Nafninu var breytt 1971. Fyrsti skólastjórinn var Tryggvi Þorfinnsson. Skólinn var til húsa í Sjómannaskólanum við Háteigsveg til 1981 en flutti þá að Suðurlandsbraut 2. Árið 1996 hætti hann sem sjálfstæður skóli en var settur undir Menntaskólann í Kópavogi.

Hótel Óðinsvé.  Sett á laggirnar á Þórsgötu 1-3 og Týsgötu 7 árið 1984. Stofnandi hótelsins var Bjarni I. Árnason, kenndur við Brauðbæ. Hefur verið rekið þar síðan.

Hótel Plaza. Opnað 2003 í Aðalstræti 4, stofnendur Stefán Örn Þórisson og fleiri. Er síðan einnig á Vesturgötu 5 og í Aðalstræti 6.

Hótel Reykjavík. Stofnsett 1876 af Nikulási Jafetssyni og var til húsa á Vesturgötu 17. Þaðan var það flutt í Kirkjustræti 2 árið 1888, en síðan aftur á Vesturgötu 17 árið 1896. Nýtt stórhýsi úr timbri var reist yfir hótelið í Austurstræti 12 1905 en það brann til kaldra kola 1915.

Hótel Reykjavík. Stofnsett 1992 á Rauðarárstíg 37 af Ólafi Torfasyni.

Hótel Reykjavík Centrum

Hótel Saga. Hótel við Hagatorg í Vesturbænum sem reist var af bændasamtökunum og tók til starfa 1962, þá glæsilegasta hótel landsins.  Fyrsti hótelstjórinn var Þorvaldur Guðmundsson. Árið 1987 var gistirými hótelsins tvöfaldað með viðbyggingu og voru herbergin þá 218. Í hótelinu eru fundarsalir, veitingasalir og barir auk annarrar þjónustu. Frá 1999 varð hótelið hluti af Radisson SAS hótelkeðjunni og hét eftir það Radisson SAS Hótel Saga en breyttist í Radisson Blue Hótel Saga árið 2010.

Hótel Skjaldbreið. Upphaflega veitingastaður og konditori sem hjónin Sigríður Sigurðardóttir og Ludvig Bruun opnuðu undir nafninu Skjaldbreið í Kirkjustræti 8B árið 1908. Árið 1919 mun svo húsið allt hafa verið tekið undir gistihús sem kallaðist Hótel Skjaldbreið. Var það rekið auk veitingastofu allt til ársins 1968.

Hótel Skjaldbreið. Opnað 2001 á Laugavegi 16, stofnsett af Kristófer Oliverssyni og Svanfríði Jónsdóttur. Var síðan hluti af Miðbæjarhótelum (Center hotels).

Hótel Vík. Stofnsett 1935 af Theodór Johnsson. Til húsa í Vallarstræti 4. Hætti rekstri 1973.

Hótel Þingholt. Opnað 2006, stofnsett af Kristófer Oliverssyni og Svanfríði Jónsdóttur. Til húsa í Þingholtsstræti 3-5.

Hótel- og veitingaskóli Íslands. Stofnaður 1955 en hét til ársins 1971 Matsveina- og veitingaþjónaskólinn. Fyrsti skólastjóri hans var Tryggvi Þorfinnsson. Var lengi framan af til húsa í Sjómannaskólanum en jafnframt frá 1972 í Hótel Esju við Suðurlandsbraut 2. Fluttist í Kópavog 1996 þar sem hann var rekinn í tengslum við menntaskólann þar.

HP húsgögn. Húsgagnaframleiðslufyrirtæki og verslun, stofnsett 1956 og hét upphaflega Bólstrun Harðar Péturssonar. Var til húsa á Laugavegi 58. Árið 1971 var opnuð verslunin HP húsgögn að Grensásvegi 12 og þar varð bólstrunin einnig fljótlega til húsa. Hvort tveggja flutti að Ármúla 44 þar sem það var til ársins 2004. Við eigendaskipti það ár var breytt um nafn á versluninni sem hét eftirleiðis Líf og list.

Hraðfrystimiðstöðin

Hraðfrystistöðin í Reykjavík. Stofnsett af Einari Sigurðssyni árið 1941. Hafði aðsetur í stórhýsi við Mýrargötu 26 sem reist var í mörgum áföngum allt til ársins 1971. Hraðfrystistöðin sameinaðist Granda árið 1990 og árið 2006 var stórhýsi hennar við Mýrargötu rifið.

Hraði. Fatahreinsun að Ægissíðu 115, stofnsett 1966.

Hrafnhólar. Bær norðan við Leirvogsá undir Haukafjöllum, á móts við Skeggjastaði í Mosfellsbæ.

Hrafnhólar. Hólar í Blesugróf, skammt austan Reykjanesbrautar. Ofan þeirra er húsið Skálará.

Hrafnista. Dvalarheimili aldraðra sjómanna (DAS) í Laugarási. Byggt fyrir forgöngu Sjómannadagsráðs Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Heimilið var opnað 1957 ásamt bíóhúsinu Laugárásbíói. Lóðin afmarkast af Brúnavegi, Jökulgrunni, Kleppsvegi og Norðurbrún og hefur verið byggt mikið á henni síðar af viðbótarhúsnæði fyrir aldraða.

Hraun. Blómaverslun í Bankastræti 4. Starfaði frá 1955 til um 1986.

Hraun. Hús á erfðafestulandi á Laugarásbletti 6 við Hólsveg

Hraun. Hús á Rauðarárholti

Hraunborg. Einbýlishús á erfðafestulandi á Þvottalaugarbletti 35, reist af Valdimar Sveinbjörnssyni leikfimikennara 1937. Nú Karfavogur 32.

Hraunborg. Leikskóli í Hraunbergi 12 í Breiðholti. Tók til starfa 1984.

Hraunhorn. Veiðistaður við austurbakkann á Elliðaám (Dimmu), rétt fyrir neðan Nautavað og á móts þar sem göngustígur kemur niður úr Suðurhólum í Breiðholti.

Hraunið. Einn af bestu veiðistöðum Elliðaáa (Dimmu). Upp af bakkanum er lítil tjörn neðan Suðurhóla í Breiðholti.

Hraunprýði. Hús innarlega við Hverfisgötu

Hraunprýði. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf), stóð fyrir neðan Stekkjarbakka, á móts við austustu húsin við Hólastekk. Þar bjuggu hjónin Hugi Pétursson Hraunfjörð og Lilja Zóphaníasdóttir.

Hraunsel. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Hraunteigur. Hús sem enn standa við gamla Vatnsveituveginn rétt austan við Höfðabakka, skammt frá Elliðaám.

Hrauntún. Jörð til forna sem sögð er hafa legið milli Elliðavatns og Hólms.

Hrauntún. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Hrauntúnstjörn. Lítil tjörn suðaustan við Helluvatn og Rauðhóla. Í hana rennur Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli.

Hreiðarsstaðir. Íbúðarhús Helga Vigfússonar málara og Ingveldar Hróbjartsdóttur við Laugarnesveg 60, reist 1927.

Hreiður. Hús við Breiðholtsveg, erfðafestuland á Bústaðabletti 7 (eða 8).(1949)

Hreinn. Efnalaug og þvottahús, stofnsett 1975 og hefur frá upphafi verið í Hólagarði, Lóuhólum 2-6. Eigandi er Óskar Frímannsson.

Hreinn. Sápugerð

Hressingarskálagarðurinn. Trjágarður að baki Hressingarskálans í Austurstræti 20.  Upphaflega var garðurinn ræktaður upp af Árna Thorsteinssyni land- og bæjarfógeta eftir 1860. Var þá kallaður Landfógetagarður. Eftir að Hressingarskálinn kom í húsið 1932 var garðurinn notaður til útiveitinga og skemmtanahalds.

Hressingarskálinn. Stofnsettur 1932 í Austurstræti 20 af Birni Björnssyni.  Húsnæði hans er að stofni til frá 1805 og var í upphafi kallað Sænska húsið vegna þess að húsið var flutt tilhöggvið frá Svíðþjóð. Hressingarkálinn hefur alltaf verið á þessum sama stað. Einnig kallaður Hressó.

Hressó. Sjá Hressingarskálinn.

Hreyfill. Bifreiðastjórafélagið. Sjá Frami.

Hreyfill. Leigubílastöð, stofnsett 1943 af samvinnufélagi 130 atvinnubílstjóra jafnhliða yfirtöku á Bifreiðastöðinni Geysi. Höfuðstöðvar Hreyfils voru við Arnarhólstún til 1951, flutti þá að Hlemmi og loks í Fellsmúla 24 (26) um 1965. Fyrirtækið sameinaðist Bæjarleiðum árið 2001 og heitir síðan Hreyfill-Bæjarleiðir.

Hreyfill-Bæjarleiðir. Sjá Hreyfill.

Hreyfilsblokkin. Fjölbýlishús að Fellsmúla 14-22, byggð á árunum 1966-1967 af Byggingarsamvinnufélagi atvinnubifreiðastjóra í Reykjavik og nágrenni.

Hringbraut. Gata sem upphaflega átti að ná hringinn í kringum Reykjavík. Núverandi Þorfinnsgata eru leifar af þessum hring og Snorrabraut og Ánanaust voru áður hluti Hringbrautar en fengu þau nöfn 1948. Byrjað var að tala um Hringbrautina þegar 1918 og var lega hennar ákveðin 1924.

Hringjarabærinn. Sjá Melshús.

Hringrás. Fyrirtæki um endurvinnslu brotajárns og eyðingu spilliefna, stofnað 1989 af Ásgeiri Einarsyni og fjölskyldu og tók þá við starfsemi sem Sindrastál hafði haft með höndum á þessu sviði. Hefur frá upphafi haft aðalaðsetur að Klettagörðum 9 en starfar einnig víða um landið.

Hringsjá. Íbúðarhús Páls Erlingssonar sundkennara á erfðafestulandi á Laugamýrarbletti 11 við Sundlaugaveg, reist um 1922.

Hringsjá. Skóli fyrir fólk, 18 ára og eldra sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa endurhæfingu til geta stundað nám eða vinnu. Stofnaður árið 1987 og rekinn af Velferðarráðuneytinu og Öryrkjabandalagi Íslands. Hét Starfsþjálfun fatlaðra til 1995 og var fyrsti forstöðumaðurinn Guðrún Hannesdóttir. Hefur frá upphafi verið til húsa í Hátúni 10.

Hringurinn. Kvenfélag, stofnað 1906.

Hrímnir. Matarverslun og frystihús, stofnað 1927 af Bjarna Eggertssyni og Sigurbirni Ármann. Þeir voru brautryðjendur í að flytja út ísaðan kassafisk til Englands.Staðsett á horninu á Klapparstíg og Njálsgötu en fluttist á Laufásveg 13 árið 1930. (Stóð of stutt)

Hrísakot. Torfbær í Skjólunum, reistur af Pétri Jónssyni frá Hrísakoti í Brynjudal. Þar er nú samnefnt timburhús og tilheyrir Nesvegi 65.

Hrogn og lýsi. Fyrirtæki stofnað af Óskari Halldórssyni og fleirum árið 1921o g starfaði til 1931. Var með skrifstofur í Hafnarstræti 16 en lifrarbræðslu og hrognasöltun í Skildinganesi.

Hrossamýri. Mýri sem liggur niður við ána Dimmu, spolkorn fyrir ofan Snókshólma, austur af Fellahverfi í Breiðholti, nálægt Breiðholtsbraut.

Hrói höttur. Veitingahús við Hringbraut 119, stofnsett 1991.

Hruni. Steinsteypt hús að Fálkagötu 6. Reist 1923 en rifið 1970.

Hrönn. Togarafélag, stofnað 1924. Fyrsti framkvæmdastjóri þess var Þorgeir Pálsson og hafði félagið fiskverkun á Ytra Kirkjusandi. Félagið starfaði í Reykjavík fram yfir 1950.

Hugleikur. Áhugamannaleikhús, stofnað 1984.

Hulduhamar. Hús á Selásbletti við Suðurlandsveg.

Hulduheimar. Leikskóli í Vættaborgum 11, teiknaður af Ingimundi Sveinssyni. Tók til starfa 1997 og var fyrsti leikskólastjórinn Bryndís Magnúsdóttir.

Hulduherinn. Svo var nánasti stuðningsmannahópur Alberts Guðmundssonar kallaður í átökum innan Sjálfstæðisflokksins, einkum á árunum 1980-1990.

Hulduvör. Sjá Viðeyjarvarir.

Humall.  Heildsala og fiskréttaframleiðsla. Kom á Mýrargötu 26 árið 1979 og er þar enn 1997

Humarhúsið. Veitingastaður að Amtmannsstíg 1, stofnaður 1995 af Önnu Jóhannsdóttur og fleirum. Hætti 2014.

Hundasteinar. Veiðistaður í Elliðaám, rétt neðan við gömlu Vatnsveitubrúna.

Hundrað&ellefu. Félagsmiðstöð í Gerðubergi 1 í Breiðholti, stofnuð 2009 og tók við hlutverki Félagsmiðstöðvarinnar Miðbergs sem varð eingöngu frístundamiðstöð.

Húnabúð. Félagsheimili Húnvetningafélagsins í Skeifunni 17, tekið í notkun 1983.

Húnvetningafélagið í Reykjavík. Stofnsett 1938 og voru aðalhvatamenn að stofnun félagsins þeir Arinbjörn Árnason og Gísli Bjarnason.  Hafði lengi félagsheimili á Laufásvegi 25 en frá 1983 hefur það verið í Húnabúð (sjá).

Hús atvinnulífsins. Hús í Borgartúni 35 þar sem Samtök atvinnulífsins og ýmis sérgreinasambönd atvinnurekenda hafa aðsetur.

Hús Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Við Dunhaga. Arkitektar Skarphéðinn Jóhansson og Sigvaldi Thordarson. Tekið í notkun 1966.

Hús verslunarinnar. Þrettán hæða háhýsi á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Húsið, sem teiknað var af arkitektunum Einari Þorsteini Ásgeirssyni og Ingimundi Sveinssyni, var fullbúið á árunum 1982-1983. Aðilarnar sem byggðu húsið voru Bílgreinasambandið, Félag íslenskra stórkaupmanna, Kaupmannasamtökin, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Verslunarbankinn, Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Verslunarráð Íslands.

Húsafell. Hús á erfðafestulandi á Kringlumýrarbletti 25 (Sogamýrarbletti 25) við Háaleitisveg.

Húsafell. Fasteignasala, stofnuð af Lúðvík Halldórssyni og Pétri Guðmundssyni árið 1976. Var í Ármúla 42 til 1977, síðan að Langholtsvegi 115 til 1994, Tryggvagötu 4 frá 1995-1996, Klapparstíg 26 frá 1996-1997 og loks á Vitastíg 13 til 1999.

Húsahverfi. Hverfi með götum sem enda á –hús, austast í Grafarvogshverfi upp af Keldum og vestan Keldnaholts. Byggðist um og upp úr 1988. Göturnar í hverfinu eru Baughús, Brekkuhús, Dalhús, Garðhús, Grundarhús, Hlíðarhús, Miðhús, Suðurhús, Sveighús, Vallarhús, Veghús, Vesturhús og Völundarhús.

Húsaleigunefnd

Húsameistarafélag Íslands. Sjá Arkitektafélag Íslands.

Húsameistari Reykjavíkur. Embætti stofnað af hálfu Reykjavíkurbæjar árið 1934 til að annast skipulagsmál og teikna byggingar á vegum bæjarins. Fyrsti húsameistarinn var Einar Sveinsson. Hann var til húsa í Austurstræti 16. Embættið var lagt niður 1957 þegar skipulagsdeild bæjararverkfræðings tók við hlutverki þess.

Húsameistari ríkisins. Vísir að embætti opinbers húsameistara kom þegar þegar fé var veitt á fjárlögum 1906 til sérstaks byggingarfræðings sem átti að vera til leiðbeiningar við opinberar byggingar. Var Rögnvaldur Ólafsson ráðinn í það starf. Embætti húsameistara ríkisins var svo formlega stofnað 1919 og var Guðjón Samúelsson ráðinn í starfið. Hafði hann teiknistofu embættisins á heimili sínu á Skólavörðustíg 35. Síðar var hún í Arnarhvoli en flutti 1954 í Borgartún 7 þar sem hún var til loka en embætti húsameistara ríkisins var lagt niður í árslok 1996.

Húsaskóli. Grunnskóli að Dalhúsum 41, hóf störf 1991 en skólabyggingin var reist á árunum 1992-1994. Hún er hönnuð af Arkitektaþjónustunni. Fyrsti skólastjóri Húsaskóla var Valgerður Selma Guðnadóttir.

Húsasmiðjan. Upphaflega Húsasmiðja Snorra Halldórssonar sem stofnuð var 1947 og var fyrstu árin til húsa í flugskýlinu í Vatnagörðum. Árið 1957 flutti starfsemin í Súðavog 3 og skömmu síðar einnig í Súðarvog 5. Helstu verkefnin voru smíði einingarhúsa. Árið 1982 var stofnað hlutafélagið Húsasmiðjan sem opnaði byggingavöruverslun á lóð félagsins í Súðavogi. Árið 1988 var onuð ný og stór verslun í Skútuvogi 16. Næstu ár varð Húsasmiðjan eitt af stærstu fyrirtækjum landsins sem yfirtók mörg önnur fyrirtæki og rak árið 2012 16 verslanir víðs vegar um landið auk þess sem starfsemi var erlendis. Í Reykjavík var ný verslun opnuð í Fossaleyni 2 1998 sem rekin var þar til 2005, önnur í Ármúla 18 árið 1999 sem rekin var í nokkur ár, þriðja að Fiskislóð 2 árið 2001 sem einnig var rekin í nokkur ár. Þungavörulager var opnaður við Kjalarvog árið 2001 og ný verslun að Vínlandsleið 1 árið 2005 sem mjög var aukin 2009.

Húsbreiða. Veiðistaður í neðsta hluta Elliðaáa, á móts við veiðihúsið.

Húsdýragarðurinn í Laugardal.

Húseigendafélagið.  Hagsmunasamtök íbúða- og húseigenda um allt land. Upphaflega hét Félagið Fasteigendafélag Reykjavíkur og var stofnað 1923. Fyrsti formaður þess var Guðmundur Kr. Guðmundsson. Nafninu var breytt í Húseigendafélag Reykjavíkur árið 1957 og hélt það til 1985 þegar það var gert að landssamtökum.

Húseigendafélag Reykjavíkur. Sjá Húseigendafélagið.

Húsfellsbruni. Hraunsvæðið austan við Heiðmörk , nær allt að Rauðuhnjúkum.

Húsfélag alþýðu. Sjá Byggingarfélag alþýðu.

Húsfélag iðnaðarmanna. Sjá iðnaðarmannahúsið.

Húsfyrningasjóður Reykjavíkur. Sjá Skipulagssjóður Reykjavíkur.

Húsgagnabólstrun Þorkels Þorleifssonar. Var á ýmsum stöðum í bænum, svo sem Tjarnargötu 3  (1932-33), Vesturgötu 2 (1946), Mjóstræti 1 (1952) og Laufásvegi 19 (1953-4)

Húsgagnahöllin. Húsgagna- og gjafavöruverslun, stofnuð af feðgunum Hirti Jónssyni og Jóni Hjartarsyni árið 1964 og var framan af til húsa á Laugavegi 26 en árið 1980 flutti hún í stórhýsi að Bíldshöfða 20 þar sem hún hefur verið síðan.

Húsgagnameistarafélag Reykjavíkur. Sjá Félag húsgagna- og innréttingaframleiðenda.

Húsgagnaverslun Ágústs Jónssonar. Upphaflega vinnustofa Ágústs Jónssonar húsgagnabólstrara í Mjóstræti 10 (Hákonarbæ) sem tók til starfa 1916. Hann var síðan með húsgagnaverslun í Bröttugötu 3 um 1924-1927 og aftur um 1934-1937. Í millitíðinni var hún á Vesturgötu 3. Um 1937 flutti Ágúst sig aftur í Mjóstræti 10 og rak þar vinnustofu sína til dauðadags 1969.

Húsgagnaverslun Austurbæjar

Húsgagnaverslun Kristjáns Siggeirssonar. Sjá GKS.

Húsgagnaverslun Reykjavíkur. Stonfsett 1930 af þeim Guðmundi Helga Guðmundssyni og Jóni Magnússyni. Var í senn verslun, húsgagnavinnustofa og bólstrun. Var á Vatnsstíg 3 til 1959 en eftir það í Brautarholti 2 til um 1980.

Húsgagnavinnustofa Ágúst Jónssonar. Sjá Húsgagnaverslun Ágústs Jónssonar.

Húsgagnavinnustofa Bergs Sturlaugssonar. Var á Rauðarárstíg 19 fyrir 1950 síðan um hríð í Breiðfirðingabúð á Skólavörustíg 6B og á Laugavegi 73. Var frá 1954-1968 á Skólavörðustíg 26 en eftir það í Drápuhlíð 3.

Húsgagnavinnustofa Friðriks Þorsteinssonar. Verkstæði og verslun. Stofnsett um 1928, var til húsa á Laugavegi 1 til 1932 en eftir það á Skólavörðustíg 12 til 1968.

Húsgagnavinnustofa Hjálmars Þorsteinssonar. Stofnsett 1918 og var fyrst til húsa á Skólavörðustíg 4 en frá 1929 á Klapparstíg 28. Rekin fram til um 1980.

Húsgagnavinnustofa Þorsteins Sigurðssonar. Stofnsett 1918 og rekin til 1972. Til húsa á Grettisgötu 13.

Húsmæðrafélag Reykjavíkur.  Stofnað 1935 af um 450 konum sem voru óánægðar með mjólkusölumál í Reykjavík. Helgaði sig síðan einkum málum heimilisins og fjölskyldunnar. Frá 1973 voru höfuðstöðvar félagsins í eigin húsnæði á Baldursgötu 9. Lagt niður 2005

Húsmæðrakennaraskóli Íslands. Stofnaður 1942 og var fyrst til húsa í kjallara Háskóla Íslands en frá 1958 í Háuhlíð 9. Fyrsti skólastjórinn var Helga Sigurðardóttir. Var sameinaður Kennaraháskólanum 1977 en hafði þá tveimur árum áður skipt um nafn og hét Hússtjórnarkennaraskóli Íslands.

Húsmæðraskóli Reykjavíkur. Sjá Hússtjórnarskóli Reykjavíkur.

Húsnæðisnefnd Reykjavíkur. Fyrst skipuð af bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1918 til að rannsaka og ráða fram úr húsnæðisvandamálum fólks. Starfaði fram yfir 1930 en var endurvakin eftir hernámið 1940 og starfaði í fáein ár. Húsnæðisnefnd Reykjavíkur, samkvæmt nýjum lögum, var kosin 1990 en var lögð niður 1999.

Húss- og bústjórnarfélag fyrir Suðuramtið. Stofnað í Reykjavík 1837. Var undanfari Búnaðarfélags Íslands.

Hússtjórnarkennaraskóli Íslands. Sjá Húsmæðrakennaraskóli Íslands.

Hússtjórnarskóli Reykjavíkur. Stofnsettur 1941 og hét fram til 1975 Húsmæðraskóli Reykjavíkur. Fyrsti skólastjórinn var Hulda Á. Stefánsdóttir. Þegar nafni skólans var breytt 1975  varð hann að ríkisskóla. Frá 1998 hefur skólinn verið sjálfseignarstofnun. Hann hefur frá upphafi verið að Sólvallagötu 12.

Hússtjórnarskólinn í Reykjavík. Stofnaður 1897.

Hústjörn. Tilbúin tjörn við Norræna húsið, gerð árið 1968.

Húsverndarsjóður Reykjavíkur. Sjóður á vegum Reykjavíkurborgar sem starfað hefur síðan 1987. Tilgangur hans er að veita lán til viðgerða og endurgerðar í húsnæði í Reykjavík sem sérstakt varðveislugildi hefur af sögulegum eða byggingasögulegum ástæðum.

Hús verslunarinnar. Stórhýsi sem Verslunarráð Íslands og fleiri samtök, tengd verslun, reistu í Kringlumýri (Kringlunni 7) á árunum 1975-1981. Arkitektar voru Einar Þ. Ásgeirsson og Ingimundur Sveinsson.

Hydrol. Efnafyrirtæki, stofnað 1958 til herslu og hreinsunar á lýsi og annarri feiti, meðal annars með það fyrir augum að framleiða efni fyrir snyrtivöruiðnað. Stofnendur voru Lýsi h.f. og Afgreiðsla smjörlíkisgerðanna. Pétur Pétursson var fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Verksmiðja fyrirtækisins var við Köllunarklettsveg en hún var rifin 1997. Lýsi og Hydrol sameinuðust 1989 undir nafni Lýsis.

Hygea. Snyrtivöruverslun. Stofnsett 1953 í Austurstræti 16 (Reykjavíkurapóteki). Var þar til 1999. Ennfremur á Laugavegi 35 frá 1989-1996, Kringlunni frá 1991 og Laugavegi 23 frá 1997-2005.

Hvalasetrið. Sjá Eldingu.

Hvalaskoðun Reykjavík. Sjá Eldingu.

Hvalfjarðargöng. Opnuð 11.júlí 1998 eftir að undirbúningur hafði staðið í 10 ár. Það var eignarhaldsfélagið Spölur sem stóð fyrir framkvæmdum en stærsti hluthafi þess eru Faxaflóahafnir.

Hvalstöðin. Sjá Eldingu.

Hvalur. Hlutafélag, stofnsett 1947 til að stunda hvalveiðar. Forstjóri var Loftur Bjarnason og síðar Kristján Loftsson. Hvalveiðum var að mestu hætt í árslok 1985 en hófust á nýjan leik árið 2006.

Hvalurinn. Fræðslu- og útivistartorg austast á Miðbakka í Gömlu höfninni, útbúið 1997 undir umsjón Björns G. Björnssonar leikmyndateiknara, Halldórs Guðmundssonar arkitekts og Vignis Albertssonar deildarstjóra. Hvammkotshólar. Sjá Urðarhólar.

Hvammkotslækur. Afrennsli Breiðholtsmýrar. Einnig nefndur Digraneslækur, Kópavogslækur eða Fífuhvammslækur.

Hvammur. Hús á erfðafestulandi á Sogabletti 15 við Hlíðarveg

Hvammur. Hús við Suðurlandsveg (líklega inn við Elliðaár)

Hvammur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Hvammur. Íbúðarhús Júlíusar Hafstein Svanbergs og Guðrúnar Gunnarsdóttur við Laugarnesveg 54, reist 1930.

Hvammur. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Hvammur. Hús við Vesturlandsveg.

Hvannbergsbræður. Skóverslun, stofnsett 1916 af bræðrunum Erlendi og Jónasi Hvannberg. Var fyrst til húsa að Laugavegi 46 en frá 1918-1921 í Hafnarstræti 15. Þá flutti verslunin í Eimskipafélagshúsið og var þar allt til ársins 1971. Eftir það var hún á Laugavegi 24 til 1983 og síðan á Laugavegi 71 þar til hún hætti 1997.

Hvarfshólar. Tveir hólar sem voru efst uppi á Breiðholtshvarfi þar sem nú er Hólahverfi.

Hvarfsmýri. Mýri undir Breiðholtshvarfi, skammt ofan við stífluna í Elliðaám.

Hvassafell. Hús á erfðafestulandi á Fossvogsblettum við Bústaðaveg.

Hvassaleitisskóli. Grunnskóli við Stóragerði, stofnaður 1965 og var fyrsti skólastjóri hans Kristján Sigtryggsson. Arkitekt skólans að fyrsta og öðrum áfanga var Skarphéðinn Jóhannsson, þá Guðmundur Kr. Guðmundsson og Ólafur Sigurðsson að þriðja áfanga og Ögmundur Skarphéðinsson að fjórða áfanga. Árið 2011 var hann sameinaður Álftamýrarskóla undir nafninu Háaleitisskóli.

Hverfisbúðin. Verslun rekin á Hverfisgötu 117 frá 1969-1983.

Hverfisgata. Gata milli Lækjargötu/Kalkofnsvegs og Hlemms, kennd við Skuggahverfi. Fékk formlega nafn sitt 1898 en var upphaflega aðeins stuttur götuspotti milli Vatnsstígs og Vitastígs. Á árunum 1904-1906 var gatan lögð alla leið frá Rauðará og niður á Kalkofnsveg.

Hverfisgötubrú. Steinsteypt brú yfir Lækinn niður af Hverfisgötu, var gerð 1904 en hvarf þegar Lækurinn var byrgður árið 1912.

Hverfisráð Reykjavíkurborgar

Hverfisráð Vesturbæjar.

Hvíld. Hús á bökkum Elliðaár sunnan megin, neðan Árbæjarstíflu, rétt fyrir ofan Eddubæ.

Hvíta búðin. Karlmannafataverslun sem rekin var af Thomsens Magasíni í Hafnarstræti 18 frá 1902 ril 1911. Í tengslum við búðina var rekið klæðskeraverkstæði.

Hvíta húsið. Auglýsingastofa sem varð til árið 1990 sem beint framhald af GBB auglýsingaþjónustu. Eigendur voru Halldór Guðmundsson, Gunnar Steinn Pálsson, Sverrir Björnsson og Magnús Loftsson. Hefur starfað síðan í Brautarholti 8.

Hvíta stríðið. Sjá Drengsmálið.

Hvítabandið. Kvenfélag, stofnað 1895 með það að markmiði að útrýma nautn áfengra drykkja. Fyrsti formaður þess var Ólafía Jóhannsdóttir. Hefur síðar einkum sinnt líknarmálum, meðal annars rekstri eigin sjúkrahúss á árunum 1934-1942.

Hvítasunnukirkjan Fíladelfía. Söfnuðurinn var stofnaður 1936 og var fyrsti forstöðumaður hans Eric Ericson. Höfuðstöðvar hans frá 1937 voru að Hverfisgötu 44. Árið 1962 hófust guðsþjónustur í nýrri kirkjubyggingu að Hátúni 2A en kirkjan var þó ekki fullgerð og vígð fyrr en 1969.

Hvítlist. Heildsala sem sérhæfði sig í innflutningi á prentpappír, stofnuð 1986 af Guðjóni Sigurðssyni og Fritz Bethien. Var upphaflega á Seltjarnarnesi en flutti árið 2000 að Krókhálsi 3 þar sem það hefur einnig sinnt leðurverslun.

Hvoll. Matstofa í Hafnarstræti 15, stofnuð 1940 af Einari Eiríkssyni, rekin til 1962.

Hvöt. Félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavik, stofnað 1937 og hefur starfað æ síðan innan vébanda Sjálfstæðisflokksins. Fyrsti formaður félagsins var Guðrún Jónasson.

Hæðarendi. Hús við Kaplaskjólsveg (Nesveg)

Hængur. Togara- og fiskvinnslufélag sem gerði út togarann Hæng (athuga)

Hæstiréttur. Timburhús í Grjótagötu 7, reist af Magnúsi Ólafssyni 1881-1882. Fékk nafn af því hve hátt það stóð. Rifið 1972.

Höfðabakkabrú. Brú yfir Elliðaár milli Neðra-Breiðholts og Árbæjarhverfis, gerð árið 1981.

Höfðabakki. Gata sem tengir Bakkahverfi í Breiðholti við byggðina í Ártúnshöfða. Af því dregur hún nafn sitt.

Höfðaborg. Bráðabirgðahús úr timbri, 16 talsins með 104 leiguíbúðum sem reist voru 1942 fyrir húsnæðislaust fólk. Þau voru sunnan Borgartúns, andspænis Höfða. Síðustu húsin í Höfðaborg voru rifin um 1975.

Höfðar. Iðnaðarhverfi í Ártúnshöfða sem varð til á árunum eftir 1963. Görunöfnin Bíldshöfði, Breiðhöfði, Dvergshöfði, Funahöfði, Hamarshöfði, Hyrjarhöfði, Melshöfði, Smiðshöfði, Stórhöfði, Tanagarhöfði, Vagnhöfði og Þórðarhöfði voru ákveðin árið 1966.

Höfðaskóli. Grunnskóli fyrir þroskahömluð börn, starfaði á árunum 1962-1975 í Ármannsheimilinu við Sigtún. Skólastjóri var Magnús Magnússon.

Höfðavík. Netagerð við Sætún, stofnuð árið 1940 af ýmsum aðilum, meðal annars Versluninni Edinborg. Um tíma stærsta netagerð landsins. Hús hennar brunnu illa 1948 og aftur 1953. Starfrækt fram yfir 1980.

Höfði. Móttökuhús Reykjavíkurborgar við Borgartún. Húsið var reist 1909 af franska konsúlnum Brilloun og var kallað Konsúlshús fyrstu árin. Árið 1914 eignaðist Einar Benediktsson skáld húsið og kallaði það Héðinshöfða eftir Héðinshöfða á Tjörnesi þar sem hann hafði alist upp. Nafnið var síðar stytt í Höfða. Frá 1967 hefur það verið móttökuhús Reykjavíkurborgar og jafnframt vettvangur heimssögulegra atburða, svo sem leiðtogafundar Reagans Bandaríkjaforseta og Gorbatsjovs Sovétleiðtoga árið 1986.

Höfði. Nýlenduvöruverslun, stofnuð af Árna Pálssyni og Þórarni Kjartanssyni árið 1941. Var til húsa á laugavegi 76 til 1952 en eftir það á Laugavegi 81 til 1957.

Höfði. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Höfði. Smáhæð eða holt vestan við Keldnaholt.

Höfði. Malbikunarstöð sem varð til 1996 með samruna Malbikunarstöðvar Reykjavíkurborgar og Grjótnáms Reykjavíkur. Fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem er í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar, var Valur Guðmundsson. Höfuðstöðvar þess eru í Sævarhöfða 6-10.

Höfn. Hús á erfðafestulandi á Kringlumýrarbletti 8 við Kringlumýrarveg

Höfn. Steinbær á Arnarhóli þar sem nú eru gatnamót Skúlagötu og Ingólfsstrætis, reistur 1885 af Benedikt Jónssyni. Rifinn árið 1933.

Höfn. Nýlenduvöruverslun sem Dagbjartur Sigurðsson opnaði að Vesturgötu 45 árið 1929. Rekin þar til 1937 en síðan á Vesturgötu 42 um tíma. Útibú rekið á Framnesvegi 19 1932 til um 1941 og Ránargötu 15 frá 1937 til um 1939. Ný verslun með þessu nafni var opnuð að Vesturgötu 12 árið 1940, nú orðin sængufata- og vefnaðarvöruverslun. Rekin þar til 1980 en síðan um eins árs skeið á Laugavegi 69.

Höfn. Sjá Port Reykjavík.

Höfuðborgarstofa.  Stofnun á vegum Reykjavíkurborgar sem sinnir ferða- og kynningarmálum. Hún rekur Upplýsingastofnun ferðamanna og sér um hátíðahöld og viðburði, svo sem menningarnótt.  Höfuðborgarstofa hefur aðsetur í Aðalstræti 2 og hefur framkvæmdastjóri hennar frá upphafi verið Svanhildur Konráðsdóttir.

Höfuðhylur. Sjá Gjávaðshylur.

Höfuðleðurshóll. Örnefni skammt frá Silungapolli í landi Hólms.

Högni. Hlutafélag um steinsmíði, stofnað árið 1904 og starfaði til um 1908. Tilgangur félagsins var að höggva grjót til húsbygginga og annarra mannvirkja. Var með námu í Rauðarárholti. Í stjórn félagsins voru Gísli Þorkelsson, Páll Ólafsson og Stefán Egilsson.

Höllin í Skuggahverfi. Tvílyft verslunar- og íbúðarhúsa að Hverfisgötu 50, byggt 1904 af Sveini Sigfússyni. Það þótti svo bera af öðrum húsum í Skuggahverfi að það fékk þetta nafn.

Höltersbær. Sjá Þorfinnsbær.

Höltersbær. Torfbær við Hverfisgötu 41, kominn 1848, taldist þá til Kasthúsa (sjá). Eftir 1860 bjó lengi í bænum Vilhelm Hölter og fékk hann nafn sitt af honum. Bærinn stóð til um 1915.

Hönnun. Stór verkfræðistofa, stofnuð 1963 af nokkrum verkfræðingum. Rann inn í verkfræðistofuna Mannvit árið 2008.

Hönnunar- og listamiðstöðin Ártúnsbrekku. Sjá Jarðhýsin í Ártúnsbrekku.

Hörputorg. Torgið austan og framan við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, tekið í notkun 2011.

I.Brynjólfsson & Kvaran. Umboðs- og heildverslun, stofnsett 1922 af Ingimar Brynjólfssyni og Gunnar E. Kvaran. Starfaði fram yfir 1980, lengst af í Hafnarstræti 9 en síðari árin í Hafnarhúsinu.

I. Pálmason. Umboðs- og heildsala. Stofnuð 1962 af Ingvari Pálmasyni. Flutti fyrst í stað einkum inn tæki til sjávarútvegs (kraftblakkir) en síðar eldvarnarútbúnað. Var í Austurstræti 12 til 1967, þá á Vesturgötu 3 til 1976 þegar fyrirtækið flutti í Dugguvog 23. Síðast var það í Ármúla 36 frá 1982-1986.

IB-blaðadreifing. Sjá Innkaupasamband bóksala.

IBM á Íslandi. (International Business Machines). Stofnað 1949 og var fyrsti forstjóri félagsins Ottó A. Michelsen sem jafnframt rak Skrifstofuvélar. Höfðu fyrirtækin sömu skrifstofur til 1961 en þá fór IBM að Klapparstíg 25-27 og þaðan í Skaftahlíð 24 árið 1978. Þar var það þangað til 1992 að það sameinaðist Skrifstofuvélum-Sundi undir nafninu Nýherji.

Isaachsens-verslunin. Var í Hafnarstræti 21, og rekin af Norðmanninum Daniel Isaachsen frá 1792 fram yfir 1800. Zimsenshús sem nýlega var flutt í Grófina er líklega að einhverju leyti hús Isaachsens frá 1792.

Iceland Airwaves. Alþjóðleg tónlistarhátíð í Reykjavík, hefur verið haldin í október ár hvert frá 1999, upphaflega á vegum Flugleiða en frá 2001 með stuðningi Reykjavíkurborgar.

Icelandair. Sjá Flugleiðir.

Icelandair Group. Eignarhaldsfélag, stofnað 2005, með 12 dótturfyrirtækjum á sviði flugrekstrar- og ferðamálaþjónustu. Á Íslandi starfa m.a. undirfélögin Icelandair, Icelandair Ground service (IGS), Icelandair Cargo, Flugfélag Íslands og Icelandair Hotels. Hinn þáttur Icelandair Group snýr að alþjóðlegri leiguflugstarfsemi. Fyrsti forstjóri félagsins var Jón Karl Ólafsson.

Icelandic Group. Hét Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna fram til 2005. Var upphaflega stofnað 1942 af eigendum hraðfrystihúsa (nema SÍS) til að efla frystihúsin og leita markaða. Fór síðar út í verksmiðjurekstur í bandaríkjunum, Bretlandi og víðar. Þegar nafninu var breytt í Icelandic Group var fyrirtækið orðið alþjóðleg samsteypa fjölmargra fyrirtækja. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru lengi í Aðalstræti 6, síðan í Aðalstræti 8 og loks í Borgartúni 27.

Iða. Bókaverslun.

Iðja. Félag verksmiðjufólks

Iðnaðarbankinn

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. Stofnað 1867 með þeim tilgangi að efla félagslíf meðal iðnaðarmanna, auka menntun þeirra og styðja gagnleg fyrirtæki.

Iðnó.

Iðnaðarmannahúsið. Árið 1946 var stofnað Húsfélag iðnaðarmanna til að beita sér fyrir byggingu Iðnaðarmannahúss í Reykjavík. Að því stóðu Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, Trésmiðafélag Reykjavíkur og Sveinasamband byggingarmanna. Reisti félagið stórhýsi á lóðum við Bergstaðastræti, Ingólfsstræti og Hallveigarstíg. Var það fullgert um 1974.

Iðnfræðingafélag Íslands. Stofnað 1951 og var fyrsti formaður þess Gunnar Þ. Þorsteinsson. Var lagt niður 1960 þegar það sameinaðist félaginu Tækni í Tæknifræðingafélagi Íslands.

Iðngarðar. Hlutafélag um byggingu iðngarða í Reykjavík sem stofnað var að frumkvæði Félags íslenskra iðnrekenda og Landsambands iðnaðarmanna árið 1962. Formaður félagsins var Sveinn B. Valfells. Ráðist var á næstu árum í stórfelldar byggingaframkvæmdir í Skeifunni. Þó að húsin væru upphaflega reist með iðnað í huga urðu þau þó flest verslunarhúsnæði þegar frá leið.

Iðnnemasamband Íslands. Stofnsett 1944 og var fysti formaður þess Óskar Hallgrímsson. Þau félag sem stóðu að stofnun þess voru Félag rafvirkjanema, Félag Járnsmíðanema, Prentnemafélagið og Félag píðulagninganema en síðar bættist við Félag bifvélaverkjanema.

Iðnráðið í Reykjavík

Iðnskólinn í Reykjavík. Stofnaður 1904 og var fyrstu tvö árin í Vinaminni í Mjóstræti 3 en frá 1906 var hann í nýbyggðu húsi sínu í Lækjargötu 14a. Nýtt húsnæði fékk svo Iðnskólinn á Skólavörðuholti árið 1955 en frá 2003 hefur hann heitið Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins.

Iðnsýningar.

Iðntæknistofnun

Iðu-húsið.

Iðunn. Bókaforlag, stofnað af Valdimar Jóhannssyni 1945. Lengi eitt stærsta bókaforlag landsins. Framan af til húsa á Skeggjagötu 1 en frá um 1975 lengst af á Bræðraborgarstíg 16. Árið 2000 sameinaðist Iðunn útgáfufyrirtækinu Fróða og flutti í Héðinshúsið við Seljaveg 2 en árið 2003 seldi Fróði það til Eddu útgáfu á Suðurlandsbraut 12. Árið 2007 sameinaðist Iðunn fleiri bókaútgáfum undir merkjum Forlagsins og var eftir það til húsa á Bræðraborgarstíg 7.

Iðunn. Klæðaverksmiðja með gufuknúnum vélum. Stofnuð 1903 af nokkrum málsmetandi mönnum í Reykjavík. Brann til kaldra kola árið 1906 en var endurreist á sama stað (Skúlagötu 42) og rekin þar til 1915. Eftir það var ýmis starfsemi í húsinu, um skeið var þar fiskverkunin Iðunn en lengst eða um áratugaskeið Málningarverksmiðjan Harpa. Húsið var brotið niður 1988-1989.

Iðunn. Kvæðamannafélag, stofnað í Reykjavík 1929. Tilgangur félagsins er að glæða áhuga á rímnakveðskap og varðveita frá gleymsku gömul rímnalög.

Iðunn. Ungmennafélag. Stofnað 1908 af ungum stúlkum í Reykjavík og starfaði það á svipuðum grundvelli og Ungmennafélag Reykjavíkur eitthvað fram yfir 1917.

Iðunnarvör. Vör rudd fyrir neðan gömlu Iðunnarhúsin við Skúlagötu árið 1927.  Þaðan reru um 10 bátar. Um það leyti var fiskverkunin Iðunn rekin í gamla Iðunnarhúsinu (klæðaverksmiðjunni).

IKEA. Stofnsett á Íslandi árið 1981 af Pálma Jónssyni, kenndum við Hagkaup. Fyrst til húsa í Skeifunni, síðan í Húsi verslunarinnar og l

Illaklif. Hátt klif í Breiðholtslandi, beint upp af Blesugróf, þar um lá Vatnsendavegur.

Illatjörn. Tjörn austarlega á Engey að sunnanverðu.

Impuni. Sjá Innflytjendasambandið.

Indókína. Víetnamskt veitingahús, stofsett af Ara Huyng, var fyrst í Kringlunni frá 1987, í Borgarkringlunni 1989-1994 og þá að Laugavegi 19 á árunum 1994-2008.

Ingaskýli. Sjoppa í skúr á mótum Óslands og Bústaðavegar þar sem áður var býlið Bústaðir.

Ingibjargarhús. Timburhús á Bræðraborgarstíg 12, byggt 1901 af Jóni Björnssyni og Ingibjörgu Sigurðardóttur sem hafði brauðsölu í húsinu.

Ingileifarhús. Timburhús, reist á Bakkastíg 4 árið 1903 af þeim Einari Guðmundssyni og Ingileif Símonardóttur. Húsið hefur síðar verið stækkað mikið.

Ingimarsskóli, sjá Gagnfræðaskóli Austurbæjar.

Ingimundarbakki. Sjá Austurbakki.

Ingimundarhús. Timburhús á Sólvallagötu 45, reist 1909 af Ingimundi Péturssyni og Jórunni Magnúsdóttur.

Ingimundarklettur. Klettur vestast á Bakkasandi í Vesturbænum, nú löngu horfinn, kenndur við Ingimund Sigurðsson á Austurbakka.

Ingimundur. Útgerðarfélag og fiskverkun, stofnað 1947 af Ármanni Friðrikssyni og Sveini Benediktssyni. Gerði út báta sem allir hétu Helga. Félagið rak fiskverkunarhús í Súðarvogi 6 frá um 1960 þar sem var saltfisk- og skreiðarverkun, síldarsöltun og rækjuvinnsla. Var um nokkurra ára skeið eftir 1990 með mestalla starfsemi sína á Siglufirði en var ennfremur með rekstur á Fiskislóð 137a frá 1992.

Ingólfsapótek. Stofnsett 1928 af P. L. Mogensen lyfjafræðingi. Var í Aðalstræti 2 til 1954, síðan í Fischersundi til 1976, þá í Hafnarstræti 5 og loks í Kringlunni frá 1988 til1999 þegar það rann inn í lyfjaverslunarkeðjuna Lyf og heilsu.

Ingólfsbrekka.  Brekkan fyrir ofan Lækjargötu frá Bankastræti að Bókhlöðustíg. Nafnið kemur fyrst fyrir árið 1834 en var formlega ákveðið sem götunafn 1848 og töldust öll hús fyrir ofan Lækjargötu að Þingholtsstræti til Ingólfsbrekku. Þegar kom fram um 1900 var nafnið ekki lengur notað.

Ingólfsbrunnur. Elsta og helsta vatnsból Reykjavíkur, sennilega allt frá landnámsöld en heimildir um þetta nafn eru frá 18.öld. Í gömlum heimildum er það einnig kallað Víkurbrunnur en eftir 1844 var það yfirleitt kallað Prentsmiðjupósturinn þar sem Landsprentsmiðjan var í húsinu við brunninn og prentsmiðjustjórinn hafði umsjón með honum. Þegar vatnsveitan kom 1909 var þetta vatnsból sem önnur lagt af. Enn má þó sjá brunninn, sem er djúpur og upphlaðinn, í gangstéttinni við Aðalstræti 9 og er gamall póstur (vatnsdæla) þar einnig til sýnis.

Ingólfsbrunnur. Veitingastaður í Aðalstræti 9, stofnsettur 1972 af Kristínu Þorsteinsdóttur og Kjartani Halldórssyni, rekin til um 2000.

Ingólfsbryggja. Bryggjan meðfram Ingólfsgarði í gömlu höfninni, var komin árið 1917.

Ingólfs Café. Veitingastaður í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu, opnaður 1937 og rekinn til 1980. Þar var almenn matsala á daginn en á kvöldin voru þar dansleikir. Á stríðsárunum voru böll í Ingólfs Café vinsæl af hermönnum en síðar voru þar gömlu dansarnir áberandi. Einnig var staðurinn kallaður Alþýðuhúskjallarinn.

Ingólfsgarður. Hafnargarður austast í gömlu höfninni, hét upphaflega Batteríisgarður, síðan Austurgarður og loks þessu nafni. Hann var hann fullgerður 1917.

Ingólfshús. Timburhús við Bergstaðastræti 70, svo nefnt vegna þess að það var vinningur í happrætti sem Iðnaðarmannafélagið efndi til vegna fjáröflunar til þess að koma upp styttunni af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Húsið var reist 1907 en brann árið 1948.

Ingólfshvoll.  Veglegt steinhús með járnbentum útveggjum, reist af Guðjóni Sigurðssyni árið 1904 í Hafnarstræti 14. Þar var aðsetur Íslandsbanka fyrst eftir stofnun hans og heimili Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherrans, til 1907.  Húsið var rifið 1969.

Ingólfsnaust. Tóttir af gömlu skipanausti sem talið er að hafi staðið í Aðalstræti 2 til ársins 1780. Elstu heimildir um þetta eru þó aðeins frá um 1860. Árið

Ingólfsprent. Prentsmiðja, stofnuð 1947 af þeim Ólafi P. Stefánssyni og Magnúsi Stefánssyni. Var til húsa á ýmsum stöðum, svo á Hverfisgötu 78, Borgartúni 8, Skúlatúni 2 og Skipholti 70. Flutti um 1985 í Kópavog.

Ingólfsstræti. Nafnið var ákveðið 1880 og átti þá við um götuna milli Bankastrætis og Spítalastígs, kennd við Ingólf Arnarson landnámsmann. Árið 1915 var gatan framlengd að Hverfisgötu og síðar alveg að Skúlagötu.

Ingólfsstyttan

Ingólfstorg.  Opnum svæðum við austanvert Aðalstræti (Steindórsplani og Hallærisplani) hafði lítið verið sinnt um árabil þegar ákveðið var að gera reglulegt og samfellt torg á svæðinu. Það var tekið í notkun 1993 og hlaut nafnið Ingólfstorg. Arkitektarnir Elín Kjartansdóttir, Helga Benediktsdóttir og Harald Örn Jónsson hönnuðu torgið. Tröppur og skábrautir tengja það við nærliggjandi götur. Skábrautirnar urðu til þess að Ingólfstorg varð eftirlætisstaður hjólbrettakrakka. Ingólfstorg hefur mikið verið notað til hljómleikahalds og fundahalda.

Ingólfur. Hlutafélag stofnað 1908 til að halda uppi ferðum um Faxaflóa með gufuskipinu Ingólfi.

Ingólfur. Félag. Stofnað 1935. Gaf út ársritið Landnám Ingólfs.

Ingólfur. Nýlenduvöruverslun, stofnuð 1943 af Þorvaldi Friðrikssyni og Guðrúnu Þórðardóttur. Var fyrst á Hringbraut 38 (síðar Snorrabraut), þá á Grettisgötu 74 1947-1951 og eftir það á Grettisgötu 86 til 1963.

Ingólfur. Netagerð, dótturfélag Ísfélags Vestmannaeyja, hætti starfsemi í Rvík 1997/98 (athuga betur)

Ingólfur. Björgunarsveit, stofnuð 1944 innan Slysavarnarfélags Íslands með aðsetur í Reykjavík. Sameinaðist Björgunarsveitinni Albert á Seltjarnarnesi 1999 undir nafninu Ársæll.

Ingunnarskóli. Grunnskóli að Maríubaug 1-3 í Grafarholti, kenndur við Ingunni fræðikonu sem uppi var á 11. öld. Tók til starfa 2001 en flutti í nýtt húsnæði 2005, hannað af Bandaríkjamanninum Bruce A. Jilk ásamt VA arkitektum með ákveðna skólastefnu í huga sem miðast við einstaklingsmiðað nám. Fyrsti skólastjórinn var Guðlaug Sturlaugsdóttir.

Ingunnarstaðir. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Ingvar & Ari. Sjóvinnustofa með vírasplæsingar sem sérgrein, stofnuð 1967 af Ara Jónssyni og Ingvari Ingvarssyni. Var til 1976 að Grandagarði 5, síðan í Hólmsgötu 8A (nú Hólmaslóð) til 1991, þá að Boðagranda 2 og árið 1999 aftur á Grandagarð. Hefur frá 1992 verið hluti af Ellingsen.

Ingvar Helgason. Innflutningsfyrirtæki, stofnað árið 1956 af hjónunum Ingvari Helgasyni og Sigríði Guðmundsdóttur, flutti inn leikföng og gjafavörur fyrstu árin og var þá til húsa að Hávallagötu 44. Árið 1962 hófst bílainnflutningur á vegum fyrirtækisins og varð það brátt eitt af þeim stærstu á því sviði. Var í Tryggvagötu 4 og síðan nr. 8 til 1969 en eftir það í Vonarlandi, Sogavegi 6. Árið 1980 fluttist bíladeild fyrirtækisins í Rauðagerði 27 en heildsalan var áfram í Vonarlandi. Árið 1989 flutti svo allt fyrirtækið að Sævarhöfða 89, keypti véla- og bíladeild Jötuns árið 1993 og árið 2009 komust Bifreiðar og landbúnaðarvélar á sömu hendi og Ingvar Helgason.

Innflytjendasambandið. Stofnað af 15 heildsölum árið 1939 til að standa fyrir sameiginlegum innkaupum og auðvelda gjaldeyrisviðskipti. Kallað Impuni. Fyrsti framkvæmdastjóri sambandsins var Magnús Kjaran. Var áratugum saman til húsa í Hafnarstræti 5. Starfsemi þess var orðin lítil sem engin um 1990.

Innkauparáð Reykjavíkurborgar

Innkaupasamband bóksala. Stofnað 1956 til að annast sameiginleg innkaup á erlendum bókum, blöðum og tímaritum fyrir bókaverslanir. Var til húsa á ýmsum stöðum í bænum, svo sem Brautarholti 16, Skipholti 7 og siðast Sundaborg 9. Hætti starfsemi 1990 en við tók nýtt fyrirtæki IB-blaðadreifing sem eftir árið 2000 kallaðist Blaðadreifing og var í eigu Pennans.

Innkaupastofnun Reykjavíkur. Stofnsett 1959.

Innkaupastofnun ríkisins. Stofnsett með lögum 1947.

Innréttingabúðin. Sjá Teppaland.

Innréttingarnar. Hlutafélag, einnig nefnt Íslands hlutafélag, sem helstu embættismenn landsins stofnuðu á Þingvöllum árið 1751 til viðreisnar íslensku atvinnulífi. Félagið reisti á næstu árum fjölda húsa við Aðalstræti í Reykjavík og var það upphafið að þéttbýli þar. Í þeim fór fram tau- og klæðavefnaður, sútun, kaðlagerð og fleira. Blómaskeið Innréttinganna var á árunum 1759-1764 en eftir það dró úr starfsemi þeirra. Rekstrinum lauk þó ekki fyrr en veturinn 1802-1803.

Innri Kirkjusandur. Sjá Kirkjusandur.

Innri Tindstaður. Sjá Tindstaðir.

Innri urð. Urð sem gengur í sjó fram í Grafarvogi sunnanverðum, fyrir innan Höfðabakka.

Intersport. Hluti af alþjóðlegri keðju á sviði íþróttavara, útvistarvara og sportfatnaðar. Verslun að Bíldshöfða 20 opnuð árið 1998 af hjónunum Herdísi Jónsdóttur og Sverri Þorsteinssyni. Er nú í eigu Norvíkur.

IOGT-kórinn,. Stofnaður 1932.

Isachsenshús. Reist árið 1792 á lóðinni Hafnarstræti 23, nefnt eftir eigandanum Daniel Isachsen frá Kristjánssandi í Noregi. Húsið var rifið 1840 eða nýtt hús reist úr viðum þess.

Íbúasamtök Grafarvogs.

Íbúasamtök Grjótaþorps. Stofnuð 1975 til að stuðla að varðveislu og uppbyggingu hverfisins. Hafa starfað með hléum síðan.

Íbúasamtök Vesturbæjar. Stofnuð 1977 til að standa vörð um umhverfi gamla Vesturbæjarins og bæta félagsleg og menningarleg lífsskilyrði íbúanna. Hafa starfað með hléum síðan og gáfu m.a. um skeið út blaðið Vesturbær.

Íbúasamtök Þingholta. Stofnuð 1978 og var markmið þeirra að skapa manneskjulegt umhverfi og standa vörð um menningarleg verðmæti hverfisins. Hafa lítið starfað eftir 1987.

Ímynd. Ljósmyndastofa, stofnsett 1972 af Guðmundi Ingólfssyni.

ÍR (Íþróttafélag Reykjavíkur). Stofnað 1907 til að iðka leikfimi og íþróttir.

ÍR-húsið

Íris. Verksmiðja, framleiddi nærföt. Stofnuð 1950 af Magnúsi Víglundssyni og starfrækt að Bræðraborgarstíg 7 til 1966.

Ísafold. Eimskipafélag, stofnað 1933 til að flytja saltfisk til Miðjarðarhafslanda. Fyrsti stjórnarformaður þess var Thor Thors. Rann inn í Eimskipafélag Íslands árið 1941.

Ísafold. Vikublað, stofnað 1874 af Birni Jónssyni. Varð öflugasta blað landsins um skeið og kom þá út tvisvar í viku. Ritstjórnarskrifstofurnar voru lengst af í Austurstræti 8. Lauk ferli sínum 1929. Þá sameinað blaðinu Verði og hét eftir það Ísafold og Vörður sem var landsmálablað Morgunblaðsins. Kom út með þvi heiti til 1968.

Ísafold. Kammersveit, stofnuð 2003 í þeim tilgangi að flytja fjölbreytt úrval nútímatónlistar. Í sveitinni, sem er undir stjórn Daníels Bjarnasonar, voru í upphafi 18 hljóðfæraleikarar (sinfonietta).

Ísafoldarhúsið. Tvílyft timburhús í Austurstræti 8, reist af Birni Jónssyni, ritstjóra Ísafoldar, árið 1885. Húsið var flutt í Aðalstræti 12 og endurgert þar árið 2000.

Ísafoldarprentsmiðja. Stofnuð af Birni Jónssyni árið 1877 og var fyrst til húsa í Doktorshúsinu (síðar Ránargötu 13) en frá 1886 var prentsmiðjan í eigin húsnæði í Austurstræti 8 og einhver sú öflugasta á landinu. Í tengslum við hana voru rekin bókband, bókaforlag og bókaverslun. Eftir að Morgunblaðið kom til sögu 1913 var það prentað í Ísafoldarprentsmiðju allt til ársins 1956. Ísafoldarprentsmiðja flutti í nýtt húsnæði í Þingholtsstræti 5 árið 1943. Árið 1994 flutti prentsmiðjan í Þverholt 9 og 2001 í Garðabæ. Í henni er nú Fréttablaðið prentað.

Ísaga. Fyrirtæki sem stofnað var 1919 að forgöngu Thorvalds Krabbe vitamálastjóra til að framleiða gas fyrir vita landsins. Fyrst í stað var fyrirtækið að meirihluta í eigu sænska fyrirtækisins AGA en frá 1974 var það að fullu í eigu Íslendinga. Það komst aftur í meirihlutaeigu AGA 1991.  Auk framleiðslu á gasi var framleitt bæði súrefni og köfnunarefni í verksmiðjunni þegar fram leiðu stundir auk þess sem fyrirtækið stóð fyrir dreifingu á kolsýru. Verksmiðjan vaer til húsa á Rauðarárstíg 29 til 1963 en brann þá eftir mikla sprengingu. Eftir það var byggð ný verksmiðja á Breiðhöfða 11 þar sem hún hefur verið síðan.

Ísaksskóli. Sjá Skóli Ísaks Jónssonar.

Ísarn. Bílaumboð fyrir Scania Vabis og fleira, verkstæði og varahlutaþjónusta, stofnsett af Ágústi Hafberg árið 1954. Náin tengls vrou milli fyrirtækisins og langferðabílafyrirtækjanna Landleiða og Norðurleiða. Var með höfðuðstöðvar í bragga á Grímsstaðaholti sem brann 1969, fluttist eftir það á Reykjanesbraut 12, sem síðar varð Skógarhlíð 10. Starfaði til 1994.

Ísavía. Opinbert hlutafélag, stofnað 2010 og er hlutverk þess að annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi. Einnig annast félagið flugleiðsöguþjónustu sem Ísland veitir fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug. Annar forveri félagsins var Flugstoðir sem starfaði á árunum 2007-2010 og hafði með höndum sama hlutverk að undanteknum Keflavíkurflugvelli. Forstjóri Flugstoða var Þorgeir Pálsson og hafði það aðsetur á Reykjavíkurflugvelli. Fyrsti forstjóri Ísavía var Björn Óli Hauksson og starfar það jöfnum höndum á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli.

Ísbjörninn. Íshús sem reist var 1905 á vegum Thors Jensen í krikanum milli Skothúsvegar og Tjarnargötu við Tjörnina. Íshúsið var rekið til 1930 en síðan var í því frystihús til 1947. Húsið var rifið 1957.

Ísbjörninn. Fiskvinnslufyrirtæki Ingvars Vilhjálmssonar, stofnað 1944 á Seltjarnarnesi. Á árunum 1976-1978 reisti það nýtt og glæsilegt frystihús í Örfirisey á Norðurgarði 1, teiknað af Garðari Halldórssyni og Ingimundi Sveinssyni. Ísbjörninn rak það til 1985 en þá var fyrirtækið sameinað BÚR í nýju fyrirtæki, Granda hf.

Ísborg. Kaffi-, ís- og snarlbar í Austurstræti 12. Stofnsettur 1956 af Pálma Jónssyni og Steingrími Hermannssyni. Rekinn til 1969. Einnig um tíma samnefnd ísgerð í Eskihlíð.

Ísbryggjan. Lítil steinbryggja sem gengur út í Tjörnina þar sem Lækjargata og Fríkirkjuvegur mætast. Bryggjan var gerð meðan Tjörnin var notuð til ístöku í íshúsin. Hún er talin vera frá því um 1900.

Ísbúð Vesturbæjar. Stofnsett 1971 af Aðalsteini Bjarnfreðssyni og hefur hún verið rekin síðan að Hagamel 67.

Ísbúðin. Á Laugalæk 6.

Íscargó

Ísdekk. Innflutnings- og sölufyrirtæki á sviði hjólbarða, stofnað 1981 af þremur stórum hjólbarðaverkstæðum. Fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Ísleifur Sigurðsson. Fyrstu árin var það í Kópavogi en flutti síðan að Vagnhöfða 6. Árið 1999 fluttist fyrirtækið að Tunguhálsi 8 og loks í Bíldshöfða 9 árið 2005. Gekk inn í fyrirtækið N1 árið 2007.

Ísfell. Innflutnings- og útflutningsfyrirtæki í sjávarútvegi. Stofnað 1992 af bræðrunum Hólmsteini og Ragnar Björnssonum og Páli Gestssyni. Varð fljótt mjög stórt í sniðum, m.a. með uppkaupum og sameiningu annarra fyrirtækja. Var fyrst til húsa á Fiskislóð 131a (nú 75) en síðar á Fiskislóð 14. Flutti höfðuðstöðvarnar til Hafnarfjarðar 2006 en starfar einnig víðar um landið.

Ísfélagið við Faxaflóa. Stofnað 1894 með það fyrir augum að safna ís og geyma hann til varðveislu matvæla og beitu. Reisti íshús við Kalkofnsveg, oftast nefnt Nordalsíshús eftir framkvæmdastjóra þess Jóhannes Nordal. Í húsinu var fyrsta kjötverslun Reykjavíkur. Íshúsið starfaði til 1945 en sama ár var það rifið að verulegu leyti. Ísfélagið reisti einnig íshús við Tjarnargötu árið 1913 en í því húsi var síðar rekið Tjarnarbíó.

Ísfilm

Ísheimar. Frystigeymsla Samskipa í Kjalarvogi 17 og 19, sú stærsta á landinu, upphaflega byggð 1998 en stækkuð mikið árið 2003.

Íshúsfélagið við Faxaflóa

Íshöllin. Samnefni á ísbúðum sem reknar voru frá 1984 og fram til um 2005. Sú fyrsta var á Hjarðarhaga 45 og síðan komu búðir undir þessu heiti í Glæsibæ, á Hallæriplani, Melhaga 2, Kringlunni og Gerðubergi 1.

Ísland. Fiskveiðahlutafélag, stofnsett 1907 og var fyrsti framkvæmdastjóri þess Jes Zimsen. Á þess vegum var rekin umtalsverð togaraútgerð og fiskverkun sem var staðsett á Innra Kirkjusandi. Félagið var rekið fram til 1931.

Íslandsbanki. Einkabanki með dönsku og norsku hlutafé sem hafði heimild til eigin seðlaútgáfu. Tók til starfa árið 1904 og var fyrstu tvö árin í Ingólfshvoli við Hafnarstræti en frá 1906 í eigin húsnæði við Lækjartorg. Fyrsti bankastjórinn var Emil Schou. Bankinn fór í þrot árið 1930.

Íslandsbanki.

Íslandsfélagið. Togarafélag

Íslandsflug hf. Flugfélag stofnað 1991 af Gunnari Þorvaldssyni og Ómari Benediktssyni. Mest í innanlandsflugi. Gekk inn í Avion Group 2004.

Íslandspóstur. Póstmeistaraembætti var stofnað í Reykjavík 1872 en árið 1935 varð það sameinað Landsíma Íslands og úr varð Póstur og sími. Pósturinn var einkavæddur árið 1998 og þá varð til fyrirtækið Íslandspóstur sem hefur höfuðstöðvar sínar að Stórhöfða 29. Fyrsti forstjóri Íslandspósts var Einar Þorsteinsson.

Íslendingasagnagötur. Götur kenndar við persónur úr Íslendingasögum (Grettissögu, Njálu, Laxdælu og Egilssögu) í norðan- og austanverðu Skólavörðuholti og Norðurmýri. Elsta gatan er Grettisgata en nafn hennar var ákveðið 1898. Næst kom Njálsgata 1902 og Kárastígur 1906. Árið 1919 kom Bergþórugata og 1928 Bjarnarstígur. Önnur götuheiti í þessum flokki eru frá árunum 1932-1937. Þau eru Auðarstræti, Bollagata, Egilsgata, Guðrúnargata, Gunnarsbraut, Hrefnugata, Kjartansgata og Skarphéðinsgata.

Íslendingasagnaútgáfan. Stofnuð 1945 til að gefa út fornsögur alþýðlega og ódýrt í útgáfu Guðna Jónssonar. Alls komu út 42 bindi.

Íslensk ameríska félagið

Íslensk ameríska verslunarfélagið. Stofnsett 1964 af Bert Hanson og Ragnheiði Jónasdóttur. Var fyrstu árin í Aðalstræti 9, síðan í Kirkjuhvoli við Kirkjutorg, þá á Suðurlandsbraut 10 1969-1975 og loks að Tunguhálsi 11. Fyrirtækið var einkum heildsala fyrstu áratugina en frá árinu 2000 hefur það eignast ýmis önnur fyrirtæki, svo sem brauð- og kökugerðina Mylluna, niðursuðuverksmiðjuna Ora, kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna.

Íslensk erlenda verslunarfélagið. Heildsölufyrirtæki, stofnað 1942 af Friðrik Sigurbjörnssyni. Var fyrst til húsa í Garðastræti 2 en flutti 1960 í Tjarnargötu 18 og 1989 að Hverfisgötu 103. Árið 1992 rann fyrirtækið inn í Daníel Ólafsson hf (Danól).

Íslensk fjarskipti.  Innflutningsfyrirtæki á sviði fjarskiptabúnaðar, stofnað 1994 af fyrirtækjunum Nýherja, Hátækni og Radíómiðlun. Flutti inn fyrstu gsm-símana. Var til húsa á Grandagarði 7. Sameinaðist fyrirtækinu Hátækni árið 2004.

Íslensk getspá (lottó). Stofnuð að frumkvæði Öryrkjabandalags Íslands árið 1986. Tekjur af starfseminni skiptast milli þess, Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands.

Íslensk málstöð.

Íslensk rússneska verslunarfélagið. Sjá Nafta.

Íslensk tónverkamiðstöð. Stofnsett 1968 sem upplýsingaskrifstofa um tónlist sem annast útgáfu og dreifingu á íslenskri tónlist og nótum. Til húsa að Laufásvegi 40 til 1979, þá á Freyjugötu 1 fram yfir 1990. Eftir það var tónverkamiðstöðin í Síðumúla 34 til 2009 en er nú í Skúlatúni 2.

Íslensk ull. Ullarvinnustöð og sölumiðstöð að Suðurgötu 22. Rekin af Önnu Ásmundsdóttur og Laufeyju Vilhjálmsdóttur frá 1939 fram yfir 1950.

Íslenska bókaútgáfan. Sjá Örn og Örlygur.

Íslenska óperan

Íslenska dýrasafnið. Safn uppstoppaðra dýra, stofnsett af Kristjáni S. Jósefssyni árið 1969. Var fyrst í Lækjargötu 14, þá í Miðbæjarskólanum en frá 1970-1982 í Breiðfirðingabúð á Skólavörðustig 6B.

Íslenska gámafélagið. Félag sem sérhæfir sig í sorpþjónustu, stofnsett 1999 og var fyrsti framkvæmdastjóri þess Jón Þórir Frantzson. Höfuðstöðvar félagsins hafa frá upphafi verið í gömlu Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi.

Íslenska hreyfiþróunarsamsteypan. Sjálfstætt starfandi danshópur, stofnaður 2005 með það að markmiði að gera tilraunir með dansformið og láta reyna á mörk þess.  Stofnendur voru Ásgerður S. Gunnarsdóttir, Katrín Gunnarsdóttir, Melkorka S. Magnúsdóttir, Ragnheiður S. Bjarnarson og Vigdís Eva Guðmundsdóttir. Hópurinn hefur sett upp sýningar, meðal annars í samvinnu við Þjóðleikhúsið.

Íslenska Kristskirkjan. Lúthersk fríkirkja, stofnuð 1997 og hefur hún aðsetur í Grafavogi. Söfnuðurinn á bakgrunn sinn í samtökunum Ungt fólk með hlutverk.

Íslenska umboðssalan. Stofnuð 1970 af Bjarna V. Magnússyn og hefur höfuðmarkmið hennar frá upphafi verið sala og útflutningur á sjávarafurðum auk innflutnings á vörum tengdum útvegi og fiskvinnsku. Var fyrstu fjögur árin í Austurstræti 17, flutti þá á Klapparstíg 29 þar sem það var til 1990. Eftir það var fyrirtækið lengst af á Seljavegi 2 en er nú til húsa á Krókhálsi 5B.

Íslenskar sjávarafurðir.

Íslenskar ævintýraferðir. Sjá Addís.

Íslenski dansflokkurinn. Stofnaður árið 1973 og var í samstarfi við Listdansskóla Þjóðleikhússins til 1990 en eftir það í samstarfi við Listdansskóla Íslands. Fyrsti listræni stjórnandihans var Alan Carter. Frá 1997 hefur Íslenski dansflokkurinn starfað sjálfstætt og hefur aðsetur í Borgarleikhúsinu.

Íslenski sjávarklasinn.  Miðstöð fyrirtækja sem tengjast íslenskum sjávarútvegi, formlega sett á laggir undir forystu Þórs Sigfússonar árið 2012. Til húsa í Bakkaskemmu við Grandagarð 16.

Íslenskir aðalverktakar

Íslenskir tónar. Hljómplötuútgáfa sem rekin var af Tage Ammendrup á Laugaveg 58 á árunum 1947 til 1963. Stóð einnig fyrir tónlistarskemmtunum.

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Ísmar. Fyrirtæki sem sérhæft hefur sig í fjarskiptatækjum og öðrum hátæknibúnaði. Stofnsett 1982 af Reyni Guðjónssyni og fleirum sem dótturfyrirtæki Scanmar í Noregi. Sameinaðist Radíómiðun árið 2003 og hét í nokkur ár Radíómiðun-Ísmar en frá 2006 er það rekið undir sínu gamla nafni. Var upphaflega og til 1987 í Borgartúni 29, þá í Síðumúla 37 til 2003, að Grandagarði 7-9 til 2006 en síðan í Síðumúla 28.

Ísold. Fyrirtæki sem sérhæfir sig í hillukerfum og verlsunarinnréttingum. Stofnsett 1992 af Kristjáni Gestssyni og Sigurði T. Sigurðssyni. Hefur verið í Nethyl 3 frá 1999.

Ísól.  Umboðs- og heildverslun á sviði byggingarvara. Stofnuð 1959 af Magnúsi Guðmundssyni, Sophusi J. Nielsen og fl. Var lengst af fyrstu árin í Brautarholti 20 en flutti í Skipholt 17 um 1967. Frá árinu 1987 hefur fyrirtækið verið í Ármúla 17.

Ístak

Ítalía. Veitingahús á Laugavegi 11. Stofnsett 1988 af Vali Magnússyni.

Ívarssel. Lítið timburhús sem stóð að Vesturgötu 66B, reist árið 1869 af Ívari Jónatanssyni. Árið 2005 var húsið flutt í Árbæjarsafn.

Íþaka. Bókhlaða Menntaskólans í Reykjavík, reist árið 1866 fyrir erfðafé frá Englendingnum Charles Kelsall. Húsið var því oft nefnt Kelsallsgjöf. Arkitekt hússins var Klentz. Árið 1880 stofnuðu skólapiltar lestrarfélag fyrir hvatningu Williard Fiske, prófessors í norrænum fræðum við Cornellháskóla í bænum Ithaca í New York-ríki í Bandaríkjunum. Styrkti hann félagið með bókagjöfum og tímaritum. Kölluðu skólapiltar safnið Íþöku til heiðurs Fiske og var það geymt í Bókhlöðu skólans. Fékk húsið í tímans rás nafn af lestrarfélaginu og er jafnan kallað Íþaka. Við húsið er Bókhlöðustígur kenndur.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur. Sjá Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur.

Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar. Hét Íþrótta- og tómstundaráð til 2005. Upphaflega stofnað 1986 þegar Æskulýðsráð Reykjavíkur og Íþróttaráð Reykjavíkur sameinuðust.

Íþróttabandalag Reykjavíkur. Stofnsett 1944 sem samband íþróttafélaga í Reykjavík og til að vera tengiliður íþróttafélaga við borgaryfirvöld. Fyrsti formaður þess var Gunnar Þorsteinsson. Bandalagið hafði lengst af aðsetur að Hólatorgi 2 þar til það flutti í Íþróttamiðstöðina  að Engjavegi 6 í Laugardal árið 1964.

Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík. Stofnað 1974 og var hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Fyrsti formaður félagsins var Arnór Pétursson. Árið 1994 tók félagið í notkun eigið íþróttahús að Hátúni 14.

Íþróttafélag kvenna. Stofnað í Reykjavík 1934 af um 30 stúlkum. Fyrsti formaður félagsins var Unnur Jónsdóttir. Félagið stundaði framan af leikfimi, útivist, handbolta og badminton en þó einkum og sér í lagi skíðaíþróttina. Það eignaðist sinn eigin skíðaskála í Skálafelli árið 1938. Félagið var enn starfandi árið 2010.

Íþróttafélag stúdenta. Stofnað í Reykjavík 1934 og var fyrsti formaður þess Þorgrímur Sigurðsson. Lá niðri um hríð á stríðsárunum en var endurvakið 1946. Lét einkum að sér kveða í körfuknattleik og blaki og varð Íslandsmeistari í þessum greinum.

Íþróttafélag templara. Stofnað 1940 í Reykjavík og var formaður þess Árni Kristjánsson. Virðist aðeins hafa starfað í eitt ár.

Íþróttahús háskólans. Við Suðurgötu, tekið í notkun 1948. Arkitektar þess eru Gísli Halldórsson og Sigvaldi Thordarson.

Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar. Reist árið 1935 að Lindargötu 7 eftir teikningu Einars Sveinssonar og Sigmundar Halldórssonar og var þá í því stærsti íþróttasalur landsins. Glímufélagið Ármann hafði lengi aðalaðsetur sitt í húsinu. Frá 1987 hefur Þjóðleikhúsið haft húsið til afnota og er þar Litla sviðið sem svo er nefnt. Húsið var friðað að ytra byrði árið 2011.

Íþróttahús Kennaraháskóla Íslands. Við Háteigsveg, reist árið 1975 en arkitektar þess voru Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir. Rekið af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur.

Íþróttahús Seljaskóla. Sjá Íþróttamiðstöðin í Seljahverfi.

Íþróttamiðstöðin Austurbergi. Íþróttahús að Austurbergi 3 ásamt Breiðholtslaug, rekin af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og er miðstöðin sameiginleg fyrir nokkra skóla í Breiðholti. Íþróttahúsið var teiknað af Guðmundi Þór Pálssyni og tekið í notkun 1991.

Íþróttamiðstöðin í Grafarvogi. Íþróttahús að Dalhúsi 2 ásamt Grafarvogslaug, rekin af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur. Miðstöðin er sameiginleg fyrir nokkra skóla í Grafarvogi. Íþróttahúsið var teiknað af Guðmundi Þór Pálssyni og var byggt á árunum 1992-1993.

Íþróttamiðstöðin í Seljahverfi. Sameiginlegt íþróttahús fyrir skólana að Kleifarseli 28 í Seljahverfi, reist árið 1983 og rekið af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur. Upphaflega Íþróttahús Seljaskóla. Arkitekt hússins er Guðmundur Þór Pálsson.

Íþróttamiðstöðin Kléberg. Íþróttahús ásamt sundlaug að Kollagrund 2 á Kjalarnesi, rekin af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur.

Íþróttaráð Reykjavíkur. Stofnað 1932 sem sérsamband innan Íþróttasambands Íslands. Það mun þó hafa gegnt litlu hlutverki eftir 1947. Árið 1961 var svo stofnað nýtt Íþróttaráð Reykjavíkur af hálfu Reykjavíkurborgar til að sjá um íþróttamál borgarinnar. Fyrsti framkvæmdastjóri þess var Jónas B. Jónsson. Ráðið var lagt niður 1986 þegar það sameinaðist Æskulýðsráði Reykjavíkur og til var Íþrótta- og tómstundaráð.

Íþróttasamband Reykjavíkur. Stofnað 1910 til að koma upp íþróttavelli fyrir höfuðstaðinn. Stóð það síðan fyrir gerð Melavallarins.

Íþróttasamband Íslands. Stofnað 1912.

Íþróttaskólinn. Sjá Mullersskólinn.

J. B. Pétursson. Blikksmíðavinnustofa, stáltunnugerð og verslun á Ægisgötu 4 og 7.

J. Hinriksson. Vélaverkstæði, stofnsett af Jósafat Hinrikssyni árið 1963. Var fyrstu árin í bílskúr að Hrísateig 29 en flutti í Skúlatún 6 árið 1969. Starfsemin var flutt í Súðarvog 4 árið 1978og varð stór í sniðum, einkum í smíði togbúnaðar og annarra tækja fyrir sjávarútveg. Árið 1989 opnaði Jósafat eigið sjóminja- og smiðjumunasafn í húsakynnum sínum í Súðarvogi. Hamiðjan keypti vélaverkstæðið árið 1999 og sjóminjasafnið var gefið til Neskaupstaðar ári seinna.

J. Þorláksson & Norðmann. Byggingavöruverslun, stofnuð af Jóni Þorlákssyni og Óskari Norðmann árið 1923 en áður hafði Jón einn rekið slika verslun frá 1917. Var til húsa í Bankastræti 11 allt til ársins 1976. Frá 1939 var verslunin með vörugeymslu og fyrirtækið Steinsteypuna á Skúlagötu 30 og þar var einnig rekin verslun. Öll verslunin var þar frá 1976. Frá 1980 var hún að Ármúla 40, frá 1986 að Réttarhálsi 2 og loks á Suðurlandsbraut 20 frá 1989. Fyrirtækið sameinaðist öðru fyrirtæki árið 1992 undir nafninu K. Auðunsson og Norðmann en varð ekki langlíft.

Jack Black Joe. Hljómsveit stofnuð 1992.

Jacobæusverslun. Starfrækt í Hafnarstræti 18 á árunum 1795-1837. Sá sem kom henni á legg var Christian Adolph Jacobæus kaupmaður í Keflavík sem var í félagi við Just Ludvigsen stórkaupmann í Kaupmannahöfn.  Hús Jacobæusar standa enn að stofni til í Hafnarstræti 18.

Jaðar. Torfbær í Skjólunum.

Jaðar. Sjá Skakkakot.

Jaðar. Hús á mótum Sundlaugavegar og Laugarásvegar, merkt á kortið 1947.

Jaðar. Tvílyft steinhús sem Góðtemplarar reistu í hraunjaðri í landi Hólms árið 1946. Var þar rekin sumargististaður um skeið en á árunum 1946-1973 rak Reykjavíkurbær heimavistarskóla fyrir drengi á veturna í húsinu.

Jaðar. Hús við Sundlaugaveg (Brúnaveg).

Jaðar. Ströndin við suðaustanvert Rauðavatn milli Suðurvíkur og Austurvíkur.

Jafetshús. Lítið timburhús við Bræðraborgarstíg 29, reist 1898 af Ingiríði Jónsdóttur. Kennt síðar við Jafet Sigurðsson. Í húsinu var brauð- og kökusala og síðar sjoppa. Húsið var rifið 1992.

Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur. Stofnað 1917, einkum af menntamönnum og embættismönnum, og var þá eina félagið í Alþýðusambandi Íslands sem ekki var verkalýðsfélag. Félagið var helsta vígi Héðins Valdimarssonar og var bæði félaginu og honum vikið úr Alþýðuflokknum 1938. Þaðstarfaði síðan í fáein ár.

Jafnréttisnefnd Reykjavíkur.

Jafnvægi. Heildsala, stofnuð 1996. Á hennar vegum er Avedabúðin í Kringlunni og Aveda Unique hár og spa í Borgartúni 29.

Jakaból. Æfingarstöð lyftingarmanna í hinu gamla þvottalaugarhúsi  við Þvottalaugarnar í Reykjavík. Tekið í notkun í þessu skyni 1976 og starfrækt til 1984 en þá var húsið rifið.

Jaki. Rafknúinn stór gámakrani á sporbrautum sem settur var upp á Kleppsbakka í Sundahöfn árið 1984. Eign Eimskipafélags Íslands.

Jakobshús. Sjá Strýtan.

James Bönd. Myndbandaleiga, hefur verið starfrækt í Skipholti 9 frá 1999.

Japansk-íslenska verslunarfélagið. Sjá Japis.

Japis. Japansk-íslenska verslunarfélagið, stofnað 1978 af Björgólfi Guðmundssyni og Kenichi Takefusa. Stóð einum fyrir sölu og innflutningi raftækja, svo sem hljómtækja, sjónvarpa og myndbandstækja en síðar varð sala á tónlist fyrirferðarmikil í starfseminni . Verslunin var fyrst til húsa í Lækjargötu 2 en flutti að Brautarholti 2 árið 1980. Önnur verslun var opnuð í Kringlunni 1987 og sú þriðja á Laugavegi 13 árið 1997. Fyrirtækið varð gjaldþrota 2002.

Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna. Stofnaður 1979 og starfræktur sameiginlega af íslenska ríkinu og Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Fyrsti skólastjóri hans var Ingvar Birgir Friðleifsson. Skólinn hefur frá upphafi verið til húsa á Grensásvegi 9 og rekinn þar í samvinnu við Orkustofnun.

Jarðhúsin í Ártúnsbrekku. Mikil geymsluhús, alla sjö talsins, fyrir kartöflur og aðra jarðávexti sem tekin voru í notkun í Ártúnsbrekku, sunnan við þjóðveginn, árið 1946 að frumkvæði Jóhannesar Helgasonar. Húsin höfðu verið flutt úr Hvalfirði þar sem þau höfðu þjónað sem sprengiefnageymslur fyrir bandaríska herinn á stríðsárunum. Þarna gátu einstaklingar fengið leigupláss undir jarðávexti en reksturinn komst fljótt í hendurnar á Grænmetisverslun ríkisins, síðar Grænmetisverslun landbúnaðarins og loks Ágætis h.f. Félagið Desform undir forystu Kristins Brynjólfssonar innanhússarkitekts keypti Jarðhýsin 1996 og kom þar upp sýningarsölum auk þess að leigja þau áfram út að hluta til kartöflugeymslna.  Árið 2004 hófust framkvæmdir og nýbyggingar við Jarðhúsin og stóð Kristinn fyrir þeim undir nafni Hönnunar- og listamiðstöðvarinnar Ártúnsbrekku. Var ætlunin að koma þar upp mörgum sýningarsölum, vinnustofum listamanna og hönnuða auk veitingahúss. Þar voru og settar upp leiksýningar árið 2007.

Jarðræktarfélag Mosfells- og Kjalarneshrepps. Stofnsett 1874 til að efla grasrækt og garðyrkju í hreppunum tveimur. Fyrsti félagsstjórinn var séra Þorkell Bjarnason. Félagið var lagt niður 1905.

Jarðræktarfélag Reykjavíkur. Stofnað 1891 og var fyrsti formaður þess Halldór Kr. Friðriksson. Félagið starfaði fram á níunda áratug 20. aldar.

Jarðýtan. Jarðvinnslu- og vélaleigufyrirtæki, stofnað eftir 1950 af Bárði Óla Pálssyni. Lengst af til húsa í Ármúla 40. Starfrækt til um 1983.

Jason & Co. Sjá Kjartansbúð.

Jazz-klúbburinn. Skemmtiklúbbur á 3. áratug 20. aldar

Jazzklúbbur Íslands. Stofnaður 1949 og voru á hans vegum haldin djasskvöld og djammsessjónir, einkum í Breiðfirðingabúð og samkomusal Mjólkurstöðvarinnar. Fyrsti formaður klúbbsins var Hilmar Skagfield. Starfaði til um 1953.

Jazzballetskóli Báru. Stofnaður 1965 af Báru Magnúsdóttur. Nafni skólans var breytt í Danslistarskóla JSB árið 2007.

Jazztríó Kristjáns Magnússonar. Sjá Tríó Kristjáns Magnússonar.

Jazzvakning. Klúbbur, stofnaður í Hafnarfirði 1975 en flutti sig ári síðar um set til Reykjavíkur. Fyrsti formaður hans var Jónatan Garðarsson. Hefur æ síðan staðið fyrir tónleikum og útgáfustarfsemi.

Járnbrautarvagninn. Sjá Langibar.

Járnbraut. Gata milli Eyjaslóðar og Hólmaslóðar í Örfirisey. Nafn sitt, sem gefið var 1982,  dregur hún af járnbrautinni sem notuð var hafnargerðina í Reykjavík 1913-17.

Járnbrautin.  Í tilefni af hafnargerðinni í Reykjavík á árunum 1913-1917 var lögð járnbraut til aðflutninga á grjóti og möl. Voru keyptir tveir eimvagnar sem drógu fjölda vagna á eftir sér. Malarnámið fór fram í Skólavörðuholti en grjótnámið í norðanverðri Öskjuhlíð. Tvær línur voru lagðar. Vesturbrautin lá frá Örfiriseyjargranda meðfram  sjónum, fram hjá Stóra Seli (Holtsgötu 41B) og síðan í stórum sveig norðvestan við Bráðræðisholt, yfir Melana og Suðurgötu nálægt því sem Hjónagarðar eru nú og þaðan yfir Vatnsmýrina að Öskjuhlíð. Austurbrautin lá frá Öskjuhlíð norður með þar sem Skógahlíðin er núna en beygði nálægt nálægt núverandi Snorrabraut, þaðan fór hún um Norðurmýri og yfir Laugaveg og Hverfisgötu vestan núverandi Lögreglustöðvar og svo áfram með ströndinni (Skúlagötu) að gatnamótum Ingólfsstrætis. Þar skiptist sporið, annað lá út á Ingólfsgarð en hitt meðfram ströndinni og endaði við Hamarshúsið. Hliðarlínur voru lagðar að malanámum í Skólavörðuholti og sunnan Kringlumýrar. Járnbrautin var notuð við hafnarframkvæmdir fram undir 1930.

Járnsmiðafélag Reykjavíkur.  Eldra félag með þessu nafni var stofnað 1899 og starfaði það til 1905.

Járnsmiðja Gísla Finnssonar.  Stofnsett á Vesturgötu 53 árið 1886. Þaðan flutti járnsmiðjan á Vesturgötu 38 árið 1898 og var þá fyrsta vélvædda járnsmiðjan á landinu. Árið 1907 flutti Gísli vélsmiðju sína í nýtt hús á Norðurstíg 9 (nú Tryggvagata 8) en árið 1918 varð til Vélsmiðjan Hamar upp úr vélsmiðju Gísla.

Járnsmiðja Þorsteins Tómassonar.  10A Stofnsett um 1876 og var fyrst í Pósthússtræti 15 en frá 1878-1898 í kjallaranum á Lækjargötu 10 en síðan í Lækjargötu 10a til 1935.

Járnsteypa Reykjavíkur. Stofnsett 1905 af Sigurgeiri Finnssyni og fleirum, fyrsta járnsteypa landsins. Yfir hana var reist hús neðst við Ægisgötu sem síðar var rifið. Rann inn í Vélsmiðjuna Hamar árið 1918.

Járnsteypan.

Járnvöruverslun Jes Zimsen. Árið 1894 keypti Christian Zimsen (Ziemen) sem verið hafði verslunarstjóri í Hafnarfirði húsið Hafnarstræti 23 (Siemsenshús) og hóf þar verslun, m.a. með matvörur. Sonur hans Jes Zimsen tók verslunina yfir árið 1903 og hafði ein deildin á boðstólum byggingarvörur. Fékk hún nafnið Járnvöruverslun Jes Zimsen. Var í norðurenda hússins Hafnarstræti 21 frá 1914 til 1998. Ennfremur á Suðurlandsbraut 32 1965-1975 og Ármúla 42 á árunum 1975 til um 1998.

Jenshús. Sjá Skugga.

Jenskot. Sjá Skugga.

Jeppaklúbbur Reykjavíkur. Stofnaður 1988, einkum til að gangast fyrir keppni í torfæru og öðrum aksturgreinum.

JL-húsið. Reist af Vikurfélagsinu undir forystu Jóns Loftssonar á árunum 1945-1948 að Hringbraut 121. Var þá kallað stærsta verksmiðjuhús á Íslandi. Síðan hefur margs konar starfsemi farið fram í húsinu, iðnfyrirtæki, verslanir, skólar og stofnanir.

Johan Rönning. Stórfyrirtæki, upphaflega stofnað 1933 af Norðmanninnum Johan Rönning sem raftækjavinnustofa. Var lengst af framan af í Sænska frystihúsinu (þar sem nú er Seðlabankinn). Fyrirtækinu var breytt í hlutafélag 1941 og varð fljótt stórt rafverktakafyrirtæki. Það var til húsa að Sjávarbraut 2 við Ingólfsgarð á árunum 1955-1966. Árið 1961 var fyrirtækinu breytt í umboðs- og heildverslun og var meginstarfsemin eftir það til húsa í Skipholti 15-17 til ársins 1973 en síðan í Sundaborg 15 til 2007. Árið 1987 var stofnuð heimilistækjaverslun á vegum félagsins og var hún í Kringlunni til 1993 en síðan í Borgartúni 24. Frá 2007 er öll starfsemi fyrirtækisins í stórhýsi að Klettagörðum 12 auk þess sem rekin eru útibú á fjórum stöðum úti á landi.

Johs. Hansens Enke. Sjá Biering.

Jordemoderhus. Sjá Nærkonuhúsið.

Jófríðarstaðir. Hús á erfðafestulandi í Kaplaskjólsmýri 3, reist um 1920 af bræðrunum Haraldi og Viggó Jóhannessonum. Húsið stóð þar nálægt því sem nú er norðausturhorn blokkarinnar Meistaravellir 31-35. Það var rifið 1965.

Jóhann Karlsson & Co. Heildverslun á sviði sjávarútvegs og véla. Stofnuð 1937 af þeim Jóhanni og Pétri Halldórssyni. Var til húsa í Þingholtsstræti 23 til 1949, flutti þá í Samtún 8 en var komin í Þingholtsstræti 11 árið 1954. Síðar var hún í Aðalstræti 9C en flutti að Laugavegi 89 árið 1964 þar sem hún var í nokkur ár en árið 1968 var hún komin á Nönnugötu 16. Mun hafa hætt upp úr því.

Jóhann Ólafsson & Co. Heildverslun, stofnuð 1916 af Jóhanni Ólafssyni og Sigfúsi Blöndahl. Var framan af mest í bílainnflutningi (General Motors) og rak bílaverkstæði en síðan flutti það inn varahluti í bíla, rafmagnsvörur, búsáhöld, prentvörur, matvæli o.fl en eftir 2009 einkum ljósaperur. Varð fyrst íslenskra fyrirtækja til að hefja viðskipti við Japan. Það var fyrst til húsa í Lækjargötu 6B, síðan í Þingholtsstræti 1 og Bankastræti 10. Frá 1930-1974 var fyrirtækið til húsa að Hverfisgötu 18 en eftir það í Sundaborg 13 og 9-11 til 2009 að flutt var í Krókháls 3.

Jóhannesarhús. Timburhús á Bræðraborgarstíg 15, reist af Jóhannesi Magnússyni og Dórótheu Þórarinsdóttur árið 1904. Löngu horfið.

Jólatréð á Austurvelli.

Jómfrúin. Smurbrauðsveitingastaður í dönskum stíl, opnaður 1995 af Jakobi Jakobssyni „smørbrødsjomfru“ í Lækjargötu 4.

Jón Ásbjörnsson. Heildverslun, stofnuð árið 1977,einkum til innflutnings á sjávarútvegsvörum en útflutnings á hrognum en síðar einnig saltfiski og fleiri sjávarafurðum. Sjá Fiskkaup.

Jón Halldórsson & Co. Sjá Gamla kompaníið.

Jónar. Flutningamiðlun.

Jónassenhús. Einlyft og síðar tvílyft timburhús í Aðalstræti 6, reist 1825 af Johanne Sophie Vigfússon. Í húsinu bjó lengi Þórður Jónassen dómstjóri og fjölskylda hans og var það jafn nefnt Jónassenshús. Húsið var flutt í Efstasund 99 árið 1951.

Jónassenshús. Einlyft timburhús í Lækjargötu 8, reist af Jónasi og Þórunni Jónassen árið 1870. Stendur enn.

Jónatan Þorsteinsson. Húsgagnavinnustofa og verslun á Laugavegi 31.

Jón Björnsson & co. Vefnaðarvöruverslun, stofnsett 1913. Var til húsa í Bankastræti 8 til 1927 en eftir það í Bankastræti 7A til 1949.

Jón & Óskar. Skartgripa-, úra og gjafavöruverslun. Stofnsett 1971 af Jóni Sigurjónssyni og Óskari Óskarssyni. Verslunin var til húsa á Laugavegi 70 til 1994 en var þá flutt á Laugaveg 61. Útibú eru í Kringlunni og Smáralind.

Jón Halldórsson & co. Sjá Gamla kompaníið.

Jón Jóhannesson & Co.Umboðs- og heildverslun, stofnsett 1942 af Jóni Jóhannessyni og Skafta Ólafssyni. Var til húsa í Hafnarstræti 22 til 1946, þá í Austurstræti 1 til um 1962, þá á Skólavörðustíg 1A til 1972 en eftir það í Hafnarhúsinu. Var starfrækt til um 1990.

Jón Hjartarson & Co. Nýlenduvöruverslun og skipaverslun, starfrækt á árunum 1915 til 1934 í Hafnarstræti 4.

Jón Loftsson hf. Stofnsett árið 1942 og voru lengi á vegum þess byggingarefnaverslun í JL-húsinu við Hringbraut 121 en einnig Vikurfélagið (sjá) og bílaumboðið Vökull (sjá). Árið 1972 voru opnaðar fjölmargar nýjar verslunardeildir á vegum félagsins í JL-húsinu. Þar má nefna raftækjadeild, teppa- og húsgagnadeild, búsáhaldadeild og áfram var rekin þar byggingavöruverslun,  Árið 1981 bættist við matvörumarkaður en árið 1982 var byggingavörudeildin skilin frá félaginu og rekin sjálfstætt undir nafninu JL-byggingavörur og fluttist hún í Steindórsskálann á Hringbraut 120.  Jón Loftsson hf varð gjaldþrota 1988 og hætti þá öll starfsemi á vegum fyrirtæksins.

Jónsbakki. Sjá Litli Bakki.

Jóns borgarahús. Lítið timburhús á horni Aðalstrætis og Austurstrætis að norðanverðu, áfast Stýrimannshúsinu (sjá). Húsið sem kennt var við Jón Gíslason borgara var komið 1801 en rifið árið 1870.

Jónsbúð. Sjá Jónsval.

Jónsbær. Sjá Hlíðarhús.

Jónsbær. Sjá Jónskot.

Jónshola. Veiðistaður neðst í austurkvísl Elliðaáa fyrir neðan gömlu Elliðaárbrúna. Hylurinn er við austurbakkann í svokallaðri Breiðu.

Jónshús. Steinbær, byggður árið 1880 af Jóni Erlendssyni. Stóð þar sem nú er Tómasarhagi 32. Rifinn 1966.

Jónshús við Grundarstíg, kennt við Jón Illugason.

Jónshús. Timburhús við Skólavörðustíg 3, reist af Jóni Jónssyni 1868. Síðar bjó lengi í því Árni Gíslason og var það þá nefnt Árnahús. Rifið um 1947.

Jónskot. Torfbær við Holtsgötu 3, byggður 1857 af Jóni Ingmundarsyni. Síðar reis steinbær á lóðinni sem löngu er horfinn. Einnig nefndur Jónsbær eða Selsholt.

Jónsval. Matvörubúð í Blönduhlíð 2, stofnuð 1949 af Jóni Eyjólfssyni. Hét Jónsbúð til 1964. Rekin til 1983.

Jórunnarsel. Lítið timburhús við Vesturgötu 61, reist árið 1881 af Magnúsi Pálssyni. Kennt við Jórunni Eiríksdóttur ekkju.

Jósefssystur. Kaþólskar nunnur sem komu til Reykjavíkur 1896 og settust að í Landakoti. Þær störfuðu við Skt. Jósefsspítala í Landakoti.

Jóska húsið. Reist 1792 í Hafnarstræti 16, fyrst einlyft en síðar stækkað. Einnig kallað Faneyjarhús, síðar Möllershús og enn síðar Hótel Alexandra (sjá). Stendur enn.

JPV forlag. Sjá Genealogia Islandorum.

JPV útgáfa. Bókaforlag, stofnað af Jóhanni Páli Valdimarssyni og Sigríði Harðardóttur árið 2001. Árið 2007 sameinaðist JPV útgáfa Máli og menningu, Vöku-Helgafelli og Iðunni undir nafni Forlagsins. Egill Jóhannsson var framkvæmdastjóri hins sameinaða félags en Jóhann Páll útgáfustjóri. JPV útgáfa var frá fyrsta ári til húsa á Bræðraborgarstíg 7.

Júdófélag Reykjavíkur.

Júpíter og Marz. Togaraútgerðarfélag, upphaflega Júpíter hf frá 1929 og Marz hf frá 1939, stofnuð af Tryggva Ófeigssyni og fleirum. Flutti frá Hafnarfirði til Reykjavíkur 1948 og rak hraðfrystihús ásamt saltfisk- og skreiðarverkun á Innra-Kirkjusandi á árunum 1950-1973.

Jöfur. Bílaumboð.

Jöklaborg. Leikskóli í Jöklaseli 4 í Breiðholti. Tók til starf a 1988.

Jöklar. Skipafélag, stofnað 1945 að aðilum innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Átti um skeið þrjú frystiskip en mjög dró úr rekstri þess eftir 1965. Var þó til sem dótturfélag SH allt til 1999 og hafði aðsetur í Aðalstræti 6. Skemmur félagins voru við Héðinsgötu.

Jörfi. Leikskóli við Hæðagarð 27a. Tók til starfa 1997.

Jörgensbær. Torfbær sem reistur var af Jöregn Þorgeirssyni við Lindargötu 22 árið 1868. Samnefndur steinbær kom á lóðina 1892 í stað gamla bæjarins en var rifinn 1977.

Jörvamelur. Svæðið þar sem Vesturlandsvegur liggur sunnan Grafarvogs.

Jörvi. Hryggurinn milli Ártúnshöfða og Eggja ytri. Um Jörvann var áður farið á leiðinni frá Reykjavík í Mosfellssveit.

Jötunn. Upphaflega vélsmiðja við Hringbaut 119, stofnuð af Gísla Halldórssyni og fleirum árið1942. Samband íslenskra samvinnufélaga keypti fyrirtækið 1947 og breyttist það brátt í rafvélaverksmiðju og innflutningsfyrirtæki sem flutti inn jarðvinnuvélar og vélar sem tengdust landbúnaði. Flutti að Höfðabakka 9 árið 1974 en sameinaðist Búvörudeild SÍS og Bílvangi árið 1990. Fyrirtækið hætti starfsemi og var leyst upp árið 1993.

K. Einarsson & Björnsson. Heildverslun sem þeir Kristinn Einarsson og Hjalti Björnsson stofnuðu 1919. Var hún rekin til 1924 en þá opnaði Kristinn búsáhalda- og leikfangaverslun undir sama nafni í Bankastræti 11. K. Einarsson & Björnsson flutti á Laugaveg 25 árið 1947 þar sem verslunin var fram undir 1990. Þá var jafnframt opnuð verslun með þessu nafni í Kringlunni 1988 en nafni hennar var breytt í Vedes um 1990 og var hún rekin þar undir þvi nafni fram yfir 2002.

Kaðlarabraut. Sjá Reipslagarabraut.

Kaðlarahús. Sjá Reipslagarahús.

Kaðlaspunahús. Sjá Reipslagarahús.

Kaffi Austurstræti. Staður rekinn í Austurstræti 6 á árunum 1995-2005. Þar voru stundum all skrautlegir viðskiptavinir.

Kaffi Reykjavík. Bar, mat- og skemmtistaður sem Valur Magnússon opnaði að Vesturgötu 2 árið 1994.  Staðurinn var rekinn til 2009 undir þessu nafni.

Kaffibarinn. Til húsa á Bergstaðastræti 1. Stofnaður 1993 af Andrési Magnússyni, Dýrleifu Ýr Örlygsdóttur og Friðrik Weishappel.

Kaffibrennslan. Kaffihús og bar að Pósthússtræti 9, opnað 1996 af Tómasi A. Tómassyni og rekið til 2008.

Kaffibrennsla O. Johnson & Kaaber. Stofnsett 1924 og rekin til ársins 2000 að hún sameinaðist Kaffibrennslu Akureyrar undir nafninu Nýja kaffibrennslan. Kaffibrennslan var til húsa í Hafnarstræti 1 til 1943, flutti þá í Höfðatún en var í Sætúni 8 frá 1952 til 1967 og eftir það að Tunguhálsi 3.

Kaffibrennsla Reykjavíkur.

Kaffibætisverksmiðja O. Johnson & Kaaber. Stofnsett 1932 og framleiddi Ludvig David kaffibæti (export) til um 1973. Var til húsa í Fischersundi 1 til 1952 en flutti þá í Sætún 8 og loks að Tunguhálsi 3 árið 1967.

Kaffihúsið 22

Kaffihúsið Vöggur. Laugavegi

Kaffileikhúsið.  Stofnað og starfrækt í Hlaðvarpanum, húsi kvenna, að Vesturgötu 3 á árunum 1994-2003. Fyrsti framkvæmdastjóri þess var Ása Richardsdóttir.

Kaffi List. Kaffibar á Klapparstíg 26 þar sem boðið var upp á spænska rétti og tónlist. Stofnaður 1992 af hjónunum Þórdísi Guðjónsdóttur og Augustin navarro Cortes. Rekinn til 2004.

Kaffisalan. Veitingastaður í Hafnarstræti 16.

Kaffistofan Skeifan.

Kaffitár. Kaffistofa í Bankastræti 8, sett á stofn 1997, síðan einnig á Höfðatorgi og í Þjóðmenningarhúsinu.

Kaffivagninn. Á rætur að rekja til vörubíls með yfirbyggðum palli sem danskur maður, Niels Juel, kom fyrir á Ellingsensplani árið 1932. Úr honum  seldi hann molakaffi.  Um 1936 eignaðist Bjarni Kristjánsson vagninn, rak hann áfram á sama stað og endurnýjaði 1947. Var hann þá í formi lítils hús á steinhjólum. Árið 1950 keypti Guðrún Ingólfsdóttir Kaffivagninn og flutti hann á Grandagarð 10. Hefur hann verið á sama stað síðan. Um 1960 var hús byggt í stað Kaffivagnsins en hélt sama nafninu. Á árunum 1975-1976 var hús Kaffivagnsins stækkað eftir teikningu Leifs Blumenstein og  fékk núverandi mynd sína.

Kajakklúbburinn. Hefur aðstöðu í Nauthólsvík 2002.

Kalkofninn. Árið 1873 var reistur kalkofn á vegum Egils Egilssonar við Rauðará. Þar voru gerðar tilraunir með að brenna kalk sem fundist hafði í Esjunni. Þremur árum síðar eða 1876 var reistur fullkominn kalkbrennsluofn, neðst við Arnarhól, skammt vestan við Lækjarósinn. Stóðu þeir Egill og Martinus Smith fyrir fyrirtækinu. Þar var unnið kalk úr Esjunni en starfseminni var hætt árið 1879. Við Kalkofninn er Kalkofnsvegur kenndur.

Kalkofnsvegur. Upphaflega götuspotti meðfram Læknum frá Hafnarstræti að Kalkofninum. Núverandi Kalkofnsvegur, sem fyrst er nefndur 1903,  tekur við af Lækjargötu og liggur að Skúlagötu.

Kambsgarðar. Örnefni í brekkunum upp af Vatnagörðum. Nú er þar Sundaborg.

Kambsvegur. Gata sem liggur milli Kleppsvegar og Dyngjuvegar. Mun draga nafn sitt af kennileiti í Laugarási. Götuheitið var ákveðið 1943.

Kammermúsíkklúbburinn. Stofnaður 1957 af Guðmundi W. Vilhjálmssyni, Hauki Gröndal, Ingólfi Ásmundssyni, Magnúsi Magnússyni og Ragnari Jónssyni í Smára. Hefur haldið reglulega tónleika í Reykjavík síðan. Á árunum 1945-1949 starfaði klúbbur með sama nafni og hélt tónleika.

Kammersveitin Carmina.

Kammersveit Reykjavíkur. Stofnuð 1974 þegar Barokkkvintett Helgu Ingólfsdóttur og Blásarakvintett Tónlistarskólans í Reykjavík saminuðust. Fyrsti formaður sveitarinnar var Rut Ingólfsdóttir.

Kabarett. Veitingastaður í Austurstræti 4, rekinn 1985 til um 1995.

Kaplaskjól. Mómýri sem var í Vesturbænum þar sem nú er athafnasvæði KR og þar í kring. Einnig nefnt Kaplaskjólsmýri. Var eitt helsta mótekjuland Reykvíkinga meðan mór var nýttur til eldsneytis. Kapall merkir hross og er talið að nafn sitt dragi mýrin af görðum sem hlaðnir voru til að veita útigangshestum skjól.

Kaplaskjólsblettir

Kaplaskjólsmýri. Sjá Kaplaskjól.

Kaplasjólsvegur. Virðist hafa verið lagður 1893 í beinu framhaldi af Bræðraborgarstíg suður í Kaplaskjól og þurfti yfir fen að fara. Nú endar Kaplaskjólsvegur við Nesveg.

Kapteinsnef. Lítið nes við Skerjafjörð milli Lambhóls og Sundskálavíkur.

Karatefélag Reykjavíkur

Kardimömmubærinn. Óskipulagt hesthúsahverfi sem myndaðist á Vatnsendahólma í Elliðaárdal eftir 1964.

Karitas. Barnahæli, tók til starfa árið 1906 undir forystu Ragnheiðar Hafstein ráðherrafrúar og starfaði í nokkur ár. Barnahælið var fyrir börn fátækra mæðra á aldrinum 3 til 18 mánaða. Þar áttu þau kost á að vera meðan mæðurnar stunduðu vinnu.

Karl K. Karlsson. Heildverslun, stofnuð 1946. Einn helsti innflytjandi dag- og drykkjarvöru. Var fyrst til húsa í Tjarnargötu 10, síðan á ýmsum stöðum en frá 1998 í Skútuvogi 5.

Karlakór iðnaðarmanna. Stofnaður 1932 og átti rót sína að rekja til söngstarfs í Iðnskólanum í Reykjavík. Fyrsti formaður kórsins var Guðmundur Jóhannsson blikksmiður en fyrsti söngstjórinn var Páll Halldórsson. Starfaði til um 1948.

Karlakór KFUM. Sjá Fóstbræður.

Karlakór Reykjavíkur. Stofnaður 1926 og var aðalhvatamaður að stofnun hans Sigurður Þórðarson söngstjóri. Hefur starfað síðan og farið í fjölmargar söngferðir víða um heim. Félagsheimili Karlakórsins var á Freytjugötu 14 frá 1964 til 1998, þá í Ými í Skógarhlíð 20 til 2006 en síðan að Grensásvegi 13.

Karlakórinn Fóstbræður. Sjá Fóstbræður.

Karlakórinn Kátir félagar. Sjá Kátir félagar

Karlinn á kassanum

Karlmannahattabúðin. Stofnsett af Ragnhildi Runólfsdóttur um 1925, var rekin fram um 1960, lengst af í Hafnarstræti 18, í sundinu milli Lækjartorgs og Hafnarstrætis.

Karlsskáli. Hús við Kaplaskjólsveg

Karlsstaðir. Lítið hús við Sundlaugaveg, nálægt gömlu Sundlaugunum. Kennt við Karl Alfred Pettersen, danskan sjómann.

Karnabær. Tískuverslun fyrir ungt fólk, nefnt eftir Carneby Street í London, stofnuð 1966 af Guðlaugi Bergmann, Jóni Baldurssyni og Birni Péturssyni. Var til húsa í Týsgötu 1 til 1972. Snyrtivörudeild og skódeild var opnuð á Klapparstíg 37 árið 1967 og rekin þar í nokkur ár. Fataframleiðsla hófst 1968 og einnig var stofnuð hljómdeild Karnabæjar.  Stórt verksmiðjuhús var reist á Fosshálsi árið 1979. Karnabæjarverslunum fjölgaði fljótlega, bæði í Reykjavík og úti á landi. Langlífustu verslanirnar í Reykjavík voru á Laugaveg 66 frá 1970, Austurstræti 22 frá 1976 og Glæsibæ frá 1977. Allar voru þessar verslanir reknar fram til um 1990. Síðasta Karnabæjarverslunin var í Borgarkringlunni og var henni lokað 1994.

Karphúsið. Gæluorð sem myndaðist árið 1980 um húsakynni Ríkissáttasemjara þar sem langir og strangir samningafundir fóru fram milli aðila vinnumarkaðarins. Karphúsið var í Borgartúni 22 til ársins 2000 en þá var það flutt í Borgartún 21.

Kassagerð Reykjavíkur. Stofnsett 1932 af þeim Kristjáni Jóh. Kristjánssyni og Vilhjálmi Bjarnasyni. Smíðaði einkum trékassa fyrstu árin en sneri sér svo að framleiðslu bylgjupappa, pappakössum og öskjum. Frá 1942 rak Kassagerðin einnig prentsmiðju. Upphaflega var Kassagerðin á Ellingsensplaninu við Tryggvagötu en flutti 1935 á lóðir við Skúlagötu og Vitastíg. Frá 1960 var fyrirtækið á Kleppsvegi 33 (nú Köllunarklettsvegi 1). Árið 2008 tók Oddi fyrirtækið yfir og hefur það síðan verið rekið undir Oddasamsteypunni.

Kastalinn. Sjá Skaftafell.

Kastarahola. Sjá Kerið.

Kasthús. Hverfi torfbæja sem stóðu við Laugaveg og Hverfisgötu skammt austan við Klapparstíg. Fyrstu bæirnir í Kasthúsatorfunni voru reistir milli 1840 og 1850, annar þar sem nú er Hverfisgata 41, hann var síðar kallaður Höltersbær (sjá), hinn var á Hverfisgötu 40, síðar kallaður Regínubær (sjá). Um 1875 bættust við tveir bæir sem töldust til Kasthúsa, annað á Hverfisgötu 37 og hinn á Laugaveg 25B. Núverandi lóðaskipan á Laugaveg 27 ásamt bakhúsum þar eru leifar af Kasthúsatorfunni.

Katla. Verslun með gjafavörur, myndir og fleira, stofnuð 1915 af Ólafi S. Magnússyni. Hét upphaflega Myndabúðin en frá árinu 1922, þegar hún flutti að Laugavegi 27, Katla. Þar var hún til 1941 en loks eftir það í eitt ár að Laugavegi 68.

Katla. Pökkunarverksmiðja og heildsala. Stofnuð 1954 af Kristjáni Jóh. Kristjánssyni og fl. Var til húsa í Höfðatúni 6 til 1959, þá á Laugaveg 178 til 1980. Fyrirtækið flutti þá að Vatnagörðum 14 og árið 1988 á Eirhöfða 18. Loksins flutti fyrirtækið að Kletthálsi 3 árið 2005.

Katrínartún. Gata milli Laugavegar og Sæbrautar, kennd við Katrínu Magnússon, eina af fyrstu konunum sem kosnar voru í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908. Nafngiftin er frá 2010 en áður hét gatan Höfðatún.

Kattarnef. Örnefni á mörkum Keldnalands og Gufunes, er við norðursporð Gullinbrúar.

Kattavinafélag íslands. Stofnað 1976. Fyrsti formaður þess var Svanlaug Löve.

Kattholt. Dýraspítali og athvarf fyrir ketti að Stangarhyl 2, rekið af Kattavinafélaginu og tekið í notkun 1991.

Kaupangur. Timburhús, byggt 1903 af Sveini Sigfússyni á Lindargötu 61.

Kaupás. Hlutafélag sem níu kaupfélög stofnuðu árið 1993 við gjaldþrot Miklagarðs. Rak það 11-11 verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Árið 1999 gengu Nóatúnsverslanir og Kaupfélag Árnesinga inn í Kaupás. Með samruna við fleiri fyrirtæki árið 2003 komst Kaupás undir Norvik en þessi félög hafa aðsetur í Bíldshöfða 20.

Kaupfélag Kjalarnesþings. Stofnað um 1950. Var fyrst til húsa í Fitjakoti á Kjalarnesi en flutti síðan í Mosfellssveit (Mosfellsbæ)

Kaupfélag Reykjavíkur. Sjá KRON.

Kaupfélag Reykvíkinga. Stofnsett 1915 og starfaði til 1929. Hét Kaupfélag verkamanna til 1920. Yfirtók Kaupfélag Reykjavíkur árið 1922 en það hafði þá starfað í tvö ár. Var upphaflega í bakhúsi í Lækjargötu 6A en síðan á ýmsum stöðum, síðast Vesturgötu 17.

Kaupfélag verkamanna. Sjá Kaupfélag Reykvíkinga.

Kauphöllin. Fyrirtæki á sviði verðbréfamiðlunar og fjármálaráðgjafar, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Stofnað 1934 af Aroni Guðbrandssyni, Einari Kristjánssyni og Stefáni Bjarnasyni. Var rekið til 1981.

Kaupmannafélag Reykjavíkur. Stofnað 1899 og var fyrsti formaður þess Christen Zimsen. Á vegum þess starfaði Kaupmannaráðið í Reykjavík sem síðar fékk nafnið Kaupmannaráð íslands. Ráðið var málsvari kaupmannastéttarinnar. Árið 1917 tók Verslunarráð Íslands yfir verkefni Kaupmannaráðsins. Kaupmannafélag Reykjavíkur starfaði fram yfir 1922.

Kaupmannaráðið í Reykjavík. Sjá Kaupmannafélag Reykjavíkur.

Kaupmannaráð Íslands. Sjá Kaupmannafélag Reykjavíkur.

Kaupmannasamtök Íslands. Heildarsamtök smásölukaupmanna, stofnsett 1950 en hétu til 1959 Samband smásöluverslana. Áður eða frá 1939 var til Félagasamband smásöluverslana. Fyrsti formaður Kaupmannasamtakanna var Jón Helgason. Frá 1964 voru skrifstofur Kaupmannasamtakana í eigin húsnæði að Marargötu 2. Var svo fram til 1983 að flutt var í Hús verslunarinnar.  Árið 1999 tóku Samtök verslunar og þjónustu við hlutverki Kaupmannasamtakanna en þau voru þó áfram til, einkum sem eignarhaldsfélag.

Kaupmannavörður. Örnefni, rétt fyrir ofan klettinn Hanganda, innst í Fossvogi.

Kaupmannstún. Tún sem Sturla Jónsson kaupmaður ræktaði eftir 1890 í landi Lækjarbakka við Fúlalæk. Síðar var það í eigu The British North-Western Syndicate, eins af félögum Einars Benediktssonar skálds. Nú er þarna austasti hluti Borgartúns og Sóltún.

Kaupstaður í Mjódd. Sjá Mikligarður.

Kaupþing. Fjármálafyrirtæki sem átta einstaklingar stofnuðu árið 1982. Félaginu var ætlað að stunda eignastýringu, fjármálaráðgjöf og fasteigna- og verðbréfasölu. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Ingimundur Einarsson. Árið 1986 komst fyrirtækið í meirihlutaeigu Péturs H. Blöndals og árið 1990 eignaðist Búnaðarbankinn meirihluta í því. Kaupþing var í Húsi verslunarinnar til 1989, þá í Kringlunni 5 til 1996 og loks í Ármúla 13. Árið 2002 fékk fyrirtækið bankaleyfi og ári seinna sameinaðist það Búnaðarbankanum undir nafninu Kaupþing Búnaðarbanki. Sjá Kaupþing banki.

Kaupþingssalurinn. Salur á efstu hæð Eimskipafélagshússins sem notaður var eftir 1921 til margs konar samkomuhalds.

Kaþólska trúboðið

Kálfakot. Sjá Pólarnir.

Kálfhylur. Veiðistaður í Elliðaám skammt ofan Rafstöðvarinnar.

Kárafélagið.Ú tgerðar- og fiskverkunarfélag, stofnað 1919. Fyrsti framkvæmdastjóri þess var Páll Ólafsson. Hafði höfuðstöðvar í Viðey og gerði þaðan út þrjá togara. Hætti starfsemi 1931.

Káravík. Dálítil vík sem var rétt við Eiðsvör vestast í Vesturbænum.

Kári.  Íþróttafélag, stofnað 1911 af nemendum Menntaskólans og Háskólans, aðallega til að stunda glímur og lyftingar.

Kátakot. Fyrsti leikskólinn á Kjalarnesi, tók til starfa 1985.

Kátir félagar. Karlakór. Stofnaður 1933 til að þjálfa unga söngmenn sem síðar kæmu í Karlakórinn Fóstbræður. Starfaði til 1943. Söngstjóri var Hallur Þorleifsson.

Keilir. Vélsmiðja, stofnuð 1939. Einn af stofnendum hennar og fyrsti framkvæmdastjóri hennar var Guðfinnur Þorbjörnsson. Vélsmiðjan var fyrstu árin á Nýlendugötu 15 en flutti 1943 í nýbyggingu á norðanverðum Gelgjutanga við Elliðaárvog þar sem hún var rekin fram til um 1982.

Keiluhöllin. Opnuð í Öskjuhlíð 1985.

Keisarinn. Krá á Laugavegi 116, rekin á árunum 1989-1999, mikið sótt af drykkjumönnum og utangarðsfólki.

Keldnaholt. Hæðin upp af Keldum við Grafarvog. Þar í austanverðri hæðinni risu byggingar sem tilheyra rannsóknasviði Landbúnaðarháskólans (áður Rannsóknastofnun landbúnaðarins) og Nýsköpunarmiðstöð Íslands (áður Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun).

Keldnakot. Hjáleiga í vestanverðu Keldnaholti, vestan við Keldur. Þar var búið fram á seinni hluta 19. aldar.

Keldnaskyggnir. Hóll í vestanverðu Keldnaholti.

Keldnasund. Sá hluti mýrarinnar Gufunessunda sem eru innan landamerkja Keldna.

Keldur. Býli norðaustan við Grafarvog, jarðarinnar er getið þegar á 14. öld. Árið 1948 tók þar til starfa Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum.

Kelduskóli. Grunnskóli sem varð til 2011 þegar Korpuskóli að Bakkastöðum 2 (Korpa) og Víkurskóli við Hamravík 10 (Vík) voru sameinaðir.

Kelsallsgjöf. Sjá Íþaka.

Kemikalía. Umboðs- og heildverslun á sviði kemískra vara og hjúkrunarvara. Stofnuð 1941 af Sigurði Guðmundssyni og fleirum. Var lengi til húsa í Austurstræti 14 og síðan Dugguvogi 21. Pharmaco keypti fyrirtækið upp úr 1960 en rak það áfram sem sjálfstætt fyrirtæki fram um 2003.

Kennarablokkin. Fjölbýlishús við Hjarðarhaga 24-32 sem Byggingarsamvinnufélag barnakennara reisti 1956.

Kennarafélag Reykjavíkur. Hið eldra. Sjá Stéttarfélag barnakennara í Reykjavík.

Kennarafélag Reykjavíkur. Stofnsett 1981 þegar Stéttarfélag grunnskólakennara í Reykjavík og Félag gangfræðaskólakennara í Reykjavik sameinuðust. Fyrsti formaður félagsins var Ragna Ólafsdóttir.

Kennaraháskóli Íslands. Stofnsettur með lögum árið 1971 og tók þá einnig við hlutverki Kennaraskóla Íslands. Var til húsa við Stakkahlíð. Fyrsti rektor skólans var Broddi Jóhannesson. Skólinn var lagður niður árið 2008 þegar hann varð Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Kennarasamband Íslands. Stofnað 1980 með sameiningu Sambands grunnskólakennara og Landsambands grunnskóla- og framhaldsskólakennara. Síðar bættust fleiri félög inn í sambandið. Fyrsti formaður Kennarasambandsins var Valgeir Gestsson.

Kennaraskóli Íslands. Tók til starfa í nýbyggðu húsi við Laufásveg 81 árið 1908 og var fyrsti skólastjórinn Magnús Helgason. Árið 1962 var tekin í notkun nýtt skólahús við Stakkahlíð en árið 1971 var skólanum breytt í Kennaraháskóla Íslands (sjá).

Kentucky fried chicken. Kjúklingastaður, hluti af alþjóðlegri keðju en fyrsti staðurinn var opnaður á Íslandi árið 1980 af Helga Vilhjálmssyni. Hann var fyrstu árin í Hafnarfirði en fyrsti staðurinn í Reykjavík var opnaður árið 1989 í Faxafeni 2 en síðan hafa bæst við staðir á Þjóðhildarbraut 1 og Sundabraut 2B auk staða víðar um landið.

Ker. Vatnsfyllt sprunga eða gjá í Kermóum niður af Stekkahverfi í Breiðholti, nálægt Elliðaám.

Ker. Sjá Olíufélagið.

Kerhólakambur. Suðvesturendinn á háfjalli Esju.

Kerið. Veiðihylur í Elliðaám skammt ofan Rafstöðvarinnar. Hefur einnig fengið viðurnefnið Kastarahola því lögun þess minnir helst á skaftpott. Englendingar sem áttu árnar fyrir 1906 kölluðu staðinn Sauce Pan.

Kerlingargil. Gil sem gengur sunnan í  Tindstaðahnúk og skiptir landamerkjum milli Kjalarnes og Kjós.

Kerlingarflúðir. Flúðir í vesturkvísl Elliðaá. Byrja neðan Árbæjarstíflu og ná undir Höfðabakkabrú niður að Selfossi.

Kerlingarfoss. Foss í eystri kvísl Elliðaáa rétt fyrir neðan Árbæjarstíflu. Einnig nefndur Svuntufoss. Englendingar sem áttu árnar fyrir 1906 kölluðu fossinn Skypilot.

Kerlingarhólmar. Hólmar í Elliðaám neðan Árbæjarstíflu, liggja undir Höfðabakkabrúna.

Kermóafoss. Foss neðarlega í vestari ánni í Elliðaám milli Blesugrófar og Löngugrófar. Einnig nefndur Arnarfoss. Fossin er oftast vatnslítill.

Kermóar. Þýft valllendi niður af Stekkahverfi í Breiðholti, næst Elliðaám. Nær það frá Kermóafossi upp eftir á móts við Skorarhyl.

Ketilhylur. Hylur í Leirvogsá íTröllagljúfrum skammt neðan Tröllafoss.

KFUK. Kristilegt félag ungra kvenna, stofnað 1906 og hefur síðan starfað í nánum tengslum við KFUM (sjá).

KFUM. Kristilegt félag ungra manna, stofnað 1899 af séra Friðrik Friðrikssyni. Á árunum 1901 til 1904 fór félagsstarfið fram í eigin húsi, Melsteðshúsi við Lækjartorg en frá og með 1907 voru höfuðstöðvarnar að Amtmannsstíg 2B þar sem reist hafði verið nýtt hús sem stækkað var að mun 1937. Þessi hús voru seld árið 1990 og frá þeim tíma hafa höfuðstöðvar félagsins verið á Holtavegi 28.  Auk þess hafa KFUM og KFUK rekið félagsheimili á nokkrum stöðum í borginni, svo sem Drengjaborg (sjá) í Laugarnesi og síðar við Kirkjuteig 33 frá 1942 til um 1976, við Holtaveg 28 frá 1962, við Maríubakka á árunum eftir 1972 og í Suðurhólum 35 frá 1989 til um 2000.

Kiddabúð. Nýlenduvöruverslun, stofnsett 1933 af Kristjáni Jónssyni. Var fyrst á Þórsgötu 14 og þar var verslun með þessu nafni rekin til um 1945. Önnur Kiddabúð var opnuð að Bergstaðastræti 61 árið 1935 en flutt árið 1938 að  Bergstaðastræti 48 þar sem hún var fram undir 1970.  Tvær Kiddabúðir til viðbótar voru opnaðar á árunum 1937-38. Önnur var í Garðastræti 17 og var rekin þar til um 1976 og hin að Njálsgötu 64 og  var hún rekin fram til um 1970.

Kinnarhólar. Örnefni norðan við Brautarholtsborg á Kjalarnesi (nesinu sjálfu).

Kirkja af síðari daga heilögum (mormónar)

Kirkja Óháða safnaðarins. Vígð 1959 á Háteigsvegi 56. Arkitekt kirkjunnar var Gunnar Hansson.

Kirkjuberg. Hús Guðmundar I. Guðmundssonar við Laugarnesveg 50, reist árið 1927. Þar var frá upphafi lítil verslun í kjallaranum sem hét Bjargarbúð.

Kirkjuból. Sjá Lækjarkot.

Kirkjuból. Lítill bær vestan við Laugarnesveg, skammt upp af Innra-Kirkjusandi. Reistur af Halldóri Kr. Friðrikssyni árið 1898.

Kirkjubrú. Sjá Kirkjustræti.

Kirkjubyggingarsjóður Reykjavíkurborgar

Kirkjubær. Íbúðarhús Kristjáns Þorgrímssonar við Laugarnesveg 58, reist 1927. Í húsinuvar útibú frá Barnaskóla Reykjavíkur 1927-1929.

Kirkjugarðarnir í Reykjavík

Kirkjugarðsstígur.  Sjá Suðurgötu. Eftir 1900 var heitið flutt yfir á litla götu sem liggur frá Suðurgötu að Hólatorgi, meðfram norðurhlið kirkjugarðsins.

Kirkjugarðsstræti.  Sjá Suðurgötu.

„Kirkjugarðurinn“. Heiti sem um tíma gekk um svæði vestast í gömlu Reykjavíkurhöfn við Örfirisey. Þar var nokkru fyrir 1960 byrjað leggja gömlum og aflóga skipum. Frægast þeirra var togarinn Síríus sem drykkjumenn lögðu undir sig um 1968 og kölluðu Hótel Síríus.

Kirkjugarðurinn við Aðalstræti. Elsti kirkjugarður Reykjavíkur, nú almenningsgarður, kallaður Víkurgarður (Bæjarfógetagarður). Að mestu var hætt að nota hann 1838 þegar nýr kirkjugarður var tekin í notkun á Melunum. Enn má sjá nokkra legsteina í garðinum. Georg Schierbeck landlæknir fékk að taka garðinn til ræktunar eftir 1882 og er elsta tré Reykjavíkur, silfurreynir, sem í garðinum stendur frá þeim tíma. Seinna var garðurinn ræktaður af Önnu og Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta og var hann þá kallaður Bæjarfógetagarður. Nú er farið að kalla hann Víkurgarð. Í honum er stytta af Skúla Magnússyni fógeta eftir Guðmund frá Miðdal og ennfremur tveir minnisvarðar, annar um kristnitökuna 1000 eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli og hin um Schierbeck landlækni sem Garðyrkjufélag Íslands reisti honum.

Kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Sjá Hólavallakirkjugarður.

Kirkjuhóll. Bæjarhóllinn sem Brautarholt á Kjalarnesi stendur á.

Kirkjuhólmatjörn. Lítið tjörn suðaustan við Helluvatn austur af Elliðavatni.

Kirkjuhúsið. Verslun og þjónustumiðstöð á vegum þjóðkirkjunnar, stofnuð 1982, var fyrst á Klapparstíg 27 en einnig á Kirkjutorgi 4 eftir 1990. Frá 1994 hefur Kirkjuhúsið verið að Laugavegi 31.

Kirkjuhvammur. Íbúðarhús við Laugarnesveg 36, reist 1928.

Kirkjuhvoll. Þrílyft timburhús við Kirkjutorg 4, rést árið 1900 af Jóni Sveinssyni.

Kirkjuhvoll. Íbúðarhús við Laugarnesveg 40, reist 1928.

Kirkjuhvoll. Íbúðarhús í Fossvogi.

Kirkjuland. Lítill steinbær frá 1912, nú Hrísateigur 6. Þar var síðar rekin garðyrkjustöð.

Kirkjulistarhátíð.  Árleg listahátíð í Hallgrímskirkju, var haldin í fyrsta sinn á vígsluári kirkjunnar 1987.

Kirkjumýrarblettir. Um 15 erfðafestulönd á fyrri hluta 20. aldar sem voru í Kirkjumýri norðan Suðurlandsbrautar.

Kirkjumýri. Mýri þar sem nú eru Túnin. Afrennsli hennar var Fúlutjarnarlækur.

Kirkjusandur. Strandlengjan frá Rauðarárvík að Laugarnesi. Greint var á milli Ytri-Kirkjusands (sjá) og Innri-Kirkjusands og voru mörkin nálægt því sem Kringlumýrarbraut gengur nú til sjávar. Mikil fiskverkun var á Kirkjusandi á fyrri hluta 20. aldar.

Kirkjustræti. Upphaflega stígurinn sem lá frá Aðalstræti að Dómkirkjunni eftir að hún var reist 1794. Núverandi lega götunnar var ákveðin 1853 og var hún nefnd Kirkjubrú fram yfir 1880 en eftir það Kirkjustræti.

Kirkjutorg. Árið 1921 var ákveðið að opið svæði fyrir sunnan Dómkirkjuna héti þessu nafni.

Kirsuberjatréð. Gallerí sem hefur á boðstólum íslenska hönnun, stofnað 1993 af þeim Margréti Guðnadóttur og Sigrúnu Kristjánsdóttur. Hefur frá upphafi verið til húsa að Vesturgötu 4.

Kistubrot. Sjá Hornið neðra.

Kistufell. Sá hluti Esjunnar sem gengur lengst í suður, hamragnúpur beint upp af Kollafirði.

Kistufell. Vélaverkstæði og varahlutaverslun. Stofnað 1952 af Guðmundi og Jónasi Jónassonum. Var fyrstu tvö árin í Brautarholti 22 en frá 1954 í Brautarholti 16. Árið 1993 var Kistufelli skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki, Vélkaverkstæðið Kistufell sem flutti 1995 að Tangarhöfða 13 og varahlutaverslunina Kistufell sem áfram var í Brautarholti 16.

Kitchen Pool. Sjá Eldhúshylur.

Kínahúsið. Kínverskur matsölustaður, opnaður 1988 í Lækjargötu 8 og rekin þar til um 2009(?).

Kjaftaklöpp. Samkomustaður á suðvesturhorni Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis þar sem fólk úr nágrenninu kom saman á 19. öld til að ræða daginn og veginn og gá til skipa.

Kjalarnes.

Kjalarnesborgir.

Kjalarneshreppur. Náði frá fornu fari frá Leirvogsá sem skildi hann að frá Mosfellssveit og að Kerlingargili og Mýdalsá (Kiðafellsá) sem skildi hann að frá Kjós. Sameinaðist Reykjavík árið 1998.

Kjalarnesþing. Prestakallið á Kjalarnesi en undir það heyrðu kirkjurnar í Brautarholti og Saurbæ.  Kjalarnesþing voru lögð niður með lögum 1880 og kirkjurnar settar undir önnur prestaköll.

Kjalfell. Nýlenduvöruverslun í Gnoðarvogi 78. Komin 1963, er enn við lýði 1998. Eigandi 1979 Hólmfríður Einarsdóttir.

Kjallaraleikhúsið. Stofnað af Helgu Bachmann árið 1985 og var það starfrækt til 1986 að Vesturgötu 3. Það var endurvakið 1996 og sýndi þá í Tjarnarbíó.

Kjallarinn. Verslun með notuð föt og fleira. Opnuð að Vesturgötu 3 árið 1979 og rekin til 1984. Eigendur voru Oddur Pétursson, Svala Ólafsdóttir og Ásta Ólafsdóttir.

Kjaran. Umboðs- heildverslun, stofnsett 1930 og hét þá Heildverslun Magnúsar Kjaran, síðan Magnús Kjaran hf og loks einungis Kjaran ehf. Var lengst af framan af eða allt til 1971 í Hafnarstræti 5, þá í Tryggvagötu 8 til 1980 að hún flutti sig í Ármúla 22.  Síðustu árin hefur hún verið til húsa í Síðumúla 12-14.

Kjartansbúð. Kjöt- og nýlenduvöruverslun, upphaflega stofnuð af þeim Jason Sigurðssyni og Kjartani Magnússyni í Efstasundi 27 árið 1947 og hét þá Jason & Co. Nafnið breyttist í Kjartansbúð árið 1959 og var hún rekin undir því nafni til 1984.

Kjarvalsstaðir. Sýninga- og safnhús sem Reykjavíkurborg lét reisa á Klambratúni til heiðurs Jóhannesi Kjarval listmálara. Tekið í notkun 1973. Arkitekt hússins er Hannes Kr. Davíðsson.

Kjóllinn. Tískuverslun, stofnuð af Kristínu Bogadóttur og Soffíu Þórðardóttir árið 1939. Var í Veltusundi 1 til 1943 en eftir að í Þingholtsstræti 3 til 1969. Það ár lést Soffía en eftir það rak Kristín verslunina í Bankastræti 11 til 1975.

Kjörborgarar. Tveir menn kosnir til að vera bæjarfógeta til ráðuneytis um meðferð bæjarmála. Fyrirkomulagið komst á 1828 og var fyrsti vísirinn að bæjarstjórn sem síðan var stofnuð 1836.

Kjörbúð Hraunbæjar. Stofnuð um 1983 af Símoni Sigurpálssyni.

Kjörbúð Laugarness. Stofnsett 1956 af þeim Sigurði Ármann Magnússyni og Ingimar Guðmundssyni. Rekin á Dalbraut 3 til um 1968.

Kjörgarður. Verslunarmiðstöð, reist að Laugavegi 57 og 59 að frumkvæði þeirra Sveins Valfells og Kristjáns Friðrikssonar árið 1959 og var einhver sú fyrsta sinnar tegundar. Voru 14 verslanir þar til að byrja með en urðu 25 þegar flestar urðu. Húsið var teiknað af Halldóri H. Jónssyni.

Kjörlundur. Húsið Bauganes 34 í Skerjafirði.

Kjöt- og fiskmetisgerðin. Sjá Reykhúsið.

Kjöt og fiskur. Matvöruverslun sem Hálfdán Eiríksson stofnaði árið 1925. Var hún til húsa á Laugaveg 48 til 1934 en Hálfdan opnaði nýja verslun með þessu nafni á Þórsgötu 17 árið 1929 og þar var hún rekin til 1974 en þá flutti hún að Seljabraut 54 og var þar til 1987. Á árunum upp úr 1960 voru rekin nokkur útibú svo sem á Laugarásvegi 1, á Grandagarði og Bergstaðastræti 37.

Kjöt og grænmeti. Kjötverslun sem Hreggviður Magnússon og fleiri opnuðu að Snorrabraut 56 árið 1947. Árið 1953 voru opnuð útibú á Nesvegi 33 og Melhaga 2 sem störfuðu í örfá ár. SÍS eignaðist verslunin 1954 og KRON 1969. Var hún rekin undir nafninu Kjöt og grænmeti til um 1973.

Kjötborg. Matvöruverslun, stofnuð 1956 af Jónasi Gunnarssyni. Var í Búðargerði 10 frá upphafi til 1981 en síðan á Ásvallagötu 19. Einnig var útibú á Háaleitisveg 108 á árunum 1957-1962.

Kjötbúð Tómasar Jónssonar. Stofnsett 1909 og hét fyrstu áratugina Matarverslun Tómasar Jónssonar. Var fyrst til húsa í Bankastræti 10 en frá um 1917 í kjallaranum á Laugavegi 2 allt þar til hún hætti 1983. Einnig var útibú á Laugaveg 33 á árunum 1926-1962, Bræðraborgarstíg 16 frá 1930-1951 og um tíma upp úr 1961 í Ásgarði 22 og á Grensásvegi 48.

Kjöthöllin. Stofnuð 1944 af Christian H. Christensen. Fyrstu árin var verslunin og kjötvinnslan á Klömbrum á Klambratúni. Einnig var opnuð árið 1944 verslun á Háteigsvegi 2 sem enn starfar. Þangað var kjötvinnslan flutt 1953 en þaðan árið 1966 að Skipholti 70 þar sem opnuð var önnur verslun. Árið 1982 var svo opnuð þriðja Kjöthöllin að Háaleitisbraut 58-60.
Kjötmiðstöðin. Kjötbúð, starfrækt í Lækjarveri við Laugalæk frá 1959 og fram yfir 1990.

Kjötsmiðjan. Kjötvinnslufyrirtæki, stofnsett 1990 af Sigurði Valdimar Gunnarssyni. Var framan af í Kópavogi en frá um 1996 að Fosshálsi 27-29.

Kjötbúðin Týsgötu. Starfrækt undir stjórn Lárusar Lýðssonar á Týsgötu 1 á árunum 1927-1940.

Kjötver. Kjötvinnslufyrirtæki, stofnað af sex kjötkaupmönnum árið 1961. Var fyrsta árið til húsa á Laugavegi 32 en eftir það í Dugguvogi 3. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Viggó M. Sigurðsson. Var yfirtekið af Meistaranum um 1988.

Kjötverslanir Hjalta Lýðssonar. Sjá Reykhúsið.

KK-sextettinn. Helsta dægurlagahljómsveitin í Reykjavík eftir miðja 20. öld, starfaði á árabilinu 1947-62 og lék djass, dægurlög og rokk. Sveitin var kennd við hljómsveitarstjórann Kristján Kristjánsson saxófónleikara en með honum voru lengst af Árni Scheving víbrafónleikari, Eyþór Þorláksson gítarleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Jón Sigurðsson bassaleikari, Kristján Magnússon píanóleikari og Ólafur Gaukur gítarleikari. Meðal söngvara voru Ellý Vilhjálms, Harald G. Haralds, Haukur Morthens, Óðinn Valdimarsson, Ragnar Bjarnason og Sigrún Jónsdóttir.

Klakksvík.  Sundið milli Klakksins og Hólmsins þar sem áður mun hafa verið skipalega.

Klakkur. Klettur eða sker vestan Hólmsins (Grandahólma). Sagnir frá 19. öld herma að þar hafi verið festarhringur fyrir kaupskip sem voru svínbundin milli Hólmsins, meðan þar var kaupstaður, og Klakksins.

Klambrar. Leikskóli á jarðhæð stúdentagarða að Háteigsvegi 33. Tók til starfa 2002.

Klambratún. Almenningsgarður sem afmarkast af Flókagötu, Lönguhlíð, Miklubraut og Rauðarárstíg. Áður voru þarna mýrar, tún frá Sunnuhvoli og Háteigi ásamt erfðafestubýlinu Klömbrum. Í daglegu tali var svæðið kallað Klambratún. Upp úr 1964 var svæðið gert að almenningsgarði, sem Reynir Vilhjálmsson hannaði og honum gefið nafnið Miklatún. Nafninu var breytt aftur árið 2010 og tekið að nýju upp nafnið Klambratún.

Klapparhjallur. Sker framan við Skildinganesbæinn (Reynistað), landfast á fjöru.

Klapparholt. Holtið suðaustan Rauðavatns þar sem Norðlingaholtshverfi er nú og þar norður af upp í skógarreitinn við Rauðavatn.

Klapparholt. Steinbær við Klapparstíg 18, reistur 1891 af Ástríði Erlendsdóttur.  Mun hafa verið rifinn 1937 til að rýma fyrir húsi fyrirtæksiins Speglagerð og glerslípun hf.

Klapparholt. Hús við Óðinsgötu

Klapparholt. Lítill torfbær á Grímsstaðaholti, reistur 1883 af Sveini Eiríkssyni. Mun hafa verið rifinn um 1910. Stóð á lóðinni Arnargötu 4.

Klapparholtsmóar. Móar vestur af Klapparholti þar sem nú er vesturhluti Norðlingaholtshverfis.

Klapparhús. Sjá Klöpp.

Klapparhús. Timburhús sem Jónas Jónasson reisti við Klapparstíg 13 árið 1883. Árið 1894 var einnig kominn samnefndur steinbær á lóðina sem rifinn var 1910.

Klapparland. Hús við Baldurshaga.

Klapparnef. Klettur í fjörunni niður undan Vitastíg, löngu horfinn undir uppfyllingar.

Klapparnef. Lítill tangi fyrir neðan bæinn Eiði, rétt vestan megin við Eiðsgranda sem liggur út í Geldinganes.

Klapparstígur. Liggur frá Skólavörðustíg niður á Skúlagötu, kenndur við býlið Klöpp sem var niður af honum við sjóinn. Vegurinn var lagður 1879 og fyrst í stað kallaður Skuggahverfisvegur en árið 1883 er hann fyrst kallaður Klapparstígur.

Klapparvör. Fjaran frá bænum Klöpp fram undan Klapparstíg og austur á móts við Kolbeinshaus, hún er nú horfin undir uppfyllingar.

Klapparvör. Vör í Eiðsvík vestan grandans sem liggur út í Geldinganes.

Klassíski listdansskólinn. Stofnsettur 1993 af Guðbjörgu Astrid Skúladóttur og hefur verið rekinn síðan í Álfabakka 14a í Mjódd. Einnig hefur síðari árin verið starfsstöðp á vegum skólans að Grensásvegi 14.

Kleifar. Örnefni þar sem fjallið Esja gengur í sjó utan við Mógilsá.

Kleifarvegur. Gata sem liggur suður úr Brúnavegi en átti upphaflega að liggja milli Vesturbrúnar og Laugarásvegar þegar henni var gefið nafn 1953. Líklega nefnd eftir kennileiti í Laugarás.

Klein. Kjötverslun, stofnuð 1927 af Johannes Carl Klein. Var fyrsta árið á Frakkastíg 16 en fluttist þá að Baldursgötu 14 þar sem hún var óslitið til um 1982. Ennfremur voru rekin útibú frá versluninni á Laugarnesveg 51 á árunum 1937-1947, Leifsgötu 32 frá 1939-1966 og Hrísateig 14 frá 1947-1965.

Klepphóll. Hjáleiga frá Kleppi, nefnd í manntali 1825.

Kleppsbakki. Viðlegukantur í Sundahöfn, norður af Kleppsspítala. Fyrsti áfangi han var tekinn í notkun 1980 en hann var fullgerður 1990.

Kleppsborg. Örnefni skammt ofan við Gelgjutanga við Elliðaárvog. Þar voru beitarhús frá Kleppi.

Kleppsholt. Nafn á hverfi vestan og sunnanvið Klepp sem farið var að nota eftir 1940. Sjá Langholt.

Kleppsmýrarblettir. Tæplega 20 erfðafestulönd á fyrri hluta 20. aldar sem voru austan Langsholtsvegar og niður að Elliðaárvogi.

Kleppsmýrarvegur.  Gata sem fékk nafn sitt árið 1930 og liggur frá Langholtsvegi niður undir Gelgjutanga.

Kleppsmýri. Stór mýrarfláki sem var vestur og suður af Kleppstúni.

Kleppsskaft. Berghöfði sem sjúkrahúsið Kleppur stendur á. Einnig kallaður Skaft. Vestan til í höfðanum er nú Kleppsbakki sem er hluti af Sundahöfn.

Kleppsspítali.

Kleppsvegur. Upphaflega vegurinn frá Laugarnesi að býlinu Kleppi, liggur nú frá Laugarnesvegi og langleiðina að Holtavegi.

Kleppsvík. Upphaflega nafn á víkinni norðan undir Kleppsskafti sem síðar var farið að kalla Vatnagarða. Nú yfirleitt notað um ströndina við Elliðaárvog milli Klepps og Gelgjutanga. Þar eru nú hafnarbakkarnir Holtabakki og Vogabakki.

Kleppur

Klettaborg. Leikskóli að Dyrhömrum 5. Tók til starfa

Klettagarðar. Götuheiti frá 1968. Upphaflega notuð um götuna sem nú heitir Sundaborg. Núverandi gata, sem fékk þetta heiti 1984, liggur í stórum sveig frá Sæbraut skammt austan við tóttir Laugarnesbæjarins og í áttina að Sundahöfn. Nafn götunnar minnir á kletta í og við sundið, til dæmis Köllunarklett og Skarfakletta en einnig Fiskimjölsverksmiðjuna Klett sem hér var áður.

Klettasvæði. Uppfylling vestast í Sundahöfn, ofan Skarfabakka og neðan Klettagarða.

Klettavör. Manngerð vík í Sundahöfn vestan Korngarða þar sem Viðeyjarferja hefur aðsetur. Nafngiftin er frá 1988.

Klettur. Fiskimjölsverksmiðja við Köllunarklettsveg 6-8. Upphaflega stofnuð af Fiskimjöli hf árið 1929 en yfirtekin af Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunni hf 1947. Um 1960 var þar reistur gríðarlegur skorsteinn til að koma í veg fyrir mengun í nágrenninu. Faxamjöl tók verksmiðjuna yfir 1989 en bræðslu þar var hætt 1993. Skorsteinninn var felldur árið 1998 og húsin fjarlægð.

Kléberg

Klébergslaug. Sundlaug í Grundarhverfi á Kjalarnesi, gerð árið 1995.

Klébergslækur. Rennur úr hlíðum Esju austan bæjarins Klébergs og Grundarhverfis.

Klébergsskóli. Grunnskóli við Kollagrund 2 á Kjalarnesi, stofnsettur 1929 sem heimavistarskóli. Gamla skólahúsið frá því ári var teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Fyrsti skólastjórinn var Sigurður Helgason. Viðbygging sem stækkaði skólann um helming, hönnuð af arkitektastofunni Arkitektur.is, var tekin í notkun 2005.

Klif. Innflutningsfyrirtæki, stofnsett 1966 af Alfreð Júlíussyni og Svavari Davíðssyni. Hefur sérhæft sig í vélum og búnaði á sviði málmiðnaðar. Til húsa á Grandavegi 13 frá 1979.

Klifkista. Klettanabbi í Selfjalli í landi Hólms, blasir við frá þjóðveginum.

Klifvegur. Gata í Fossvogi sem upphaflega var lögð árið 1935. Hún lá frá gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisvegar (nú Háaleitisbrautar) og Mjóumýrarvegar suður að Fossvogsvegi. Gatan hvarf að miklu leyti þegar Borgarspítalinn var gerður en syðsti hluti hennar er þó enn til með sama nafni.

Kling klang-kvintettinn. Söngflokkur, stofnaður 1936 í Reykjavík. Söng á skemmtunum um allt land. Flokkinn skipuðu Björgúlfur Baldursson, Gísli Pálsson, Guðmundur Sigurðsson, Jón Guðbjartsson og Ólafur Beinteinsson. Hætti 1945.

Kling & Bang

Klofasteinn. Stór klofinn steinn við Faxakeldu innst í Fossvogsdal. Við hann voru miðuð landamerki Laugarness og Bústaða.

Klofningar.  Svæðið milli Faxakeldu innst í Fossvogsdal og Bústaðahlíðar þar sem eru götur sem enda á –land.

Klofningur. Slakki eða dalverpi milli Grafarholts og Keldnaholts. Um hann lágu landamerki milli jarðanna Keldna og Gufuness.

Klubgaden. Sjá Aðalstræti.

Klumburinn. Sjá Skaftafell.

Klúbbgata. Sjá Aðalstræti.

Klúbbhúsið. Sjá Gamla Yfirréttarhúsið.

Klúbburinn. Lítið timburhús sem Henrik Scheel lét reisa í Kirkjustræti 2 um 1800 og hafði í því veitingarekstur og einnig var hægt að fá þar gistingu. Húsið var upphaflega nefnt Scheelshús en eftir að klúbbur var stofnaður í húsinu árið 1803 var það yfirleitt kallað þessu nafni. Þar komu heldri borgarar bæjarins saman til samdrykkju og beittu sér einnig fyrir ýmsum framfaramálum. Klúbburinn var lagður niður 1843 en árið 1850 reis nýtt tvílyft timburhús, Scandinavia,  fyrir framan gamla klúbbhúsið sem notað var til veitingareksturs. Var þá farið að kalla eldra húsið Gamla klúbbinn. Það var rifið 1867.

Klúbburinn. Árið 1960 hófst veitingarekstur í vélsmiðjuhús sem reist hafði verið við Lækjarteig 2, við hornið á Borgartúni. Kallaðist staðurinn Klúbburinn og var í eigu Ragnars Þórðarsonar o.fl. fyrstu árin. Staðurinn varð einn af vinsælustu skemmtistöðum Reykvíkinga og kallaðist jafnan Klúbburinn þó að hann héti formlega öðrum nöfnum, svo sem Veitingahúsið Lækjarteig 2 og um 1985 var ataðurinn nefndur Evrópa um skeið. Síðast var í húsinu Sportklúbburinn en það brann illa 1992 og var rifið í kjölfarið.

Klæðavefstofa Innréttinganna. Timburhús, reist 1751-1755 þar sem nú er Aðalstræti 12, rifið 1810. Einnig nefnd Dúkvefnaðarstofa.

Klæðskerameistarafélag Reykjavíkur

Klæðskerasveinafélag Reykjavíkur. Sjá Skjaldborg.

Klömbur. Erfðafestubýli í Rauðarármýri sem Maggi Júl. Magnús reisti um 1925 og kallaði Klömbur eftir fæðingarstað sínum í Húnavatnssýslu. Ræktaði hann tún sem kallað var Klambratún.  Bæjarhúsin voru rifin 1965 en almenningsgarðurinn, sem þar er, ber nú nafnið Klambratún.

Klöpp. Býli sem reist var árið 1838 af Eyjólfi Þorkelssyni á tanga við sjóinn vestan við bæinn Skugga (fram undan Klapparstíg). Var það ýmist kallað Skuggi II eða Klöpp en síðara nafnið festist þó við það. Síðasta húsið í Klöpp, svonefnt Klapparhús, var rifið 1931 þar sem það stóð í götustæði Skúlagötu. Árið 1928 hóf Olíuverslun Íslands að reisa olíutanka á klöppunum þar sem gamli bærinn hafði staðið, norðan Skúlagötu. Þar var síðan birgðastöð félagsins, kölluð Klöpp,  en frá 1954 var þar fyrst og fremst bensínstöð og smurstöð. Þetta var allt rifið árið 1988 vegna lagningar Sæbrautar og sér nú engin merki Klappar.

Klöpp. Torfbær við Brekkustíg 14B, reistur 1883 af Eiríki Guðmundssyni. Rifinn þegar einlyft timburhús var reist á lóðinni 1905 sem einnig var kallað Klöpp. Það brann árið 1981.

Klöpp. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)(1963)

Klöpp. Hús við Suðurgötu.

Knarrarnes. Hús við Baugsveg í Skerjafirði (1963).

Knattspyrnudómarafélag Reykjavíkur

Knattspyrnufélag Selássog Árbæjar. Sjá Fylkir.

Knattspyrnuráð Reykjavíkur

Knattpyrnusamband Íslands

Knudtzonsbryggja. Bátabryggja kennd við P. C. Knudtzon kaupmann og lá hún niður af verslunarhúsum hans í Hafnarstræti 10 og 12. Hvarf undir hafnargerðina 1913-1917.

Knudtzonsverslun.  Ein helsta verslunin í Reykjavík á 19. öld. Hún byrjaði árið 1814 þegar Peter Christian Knudtzon, tengdasonur síðasta eiganda Nordborgarverslunar, tók við þeirri verslun í Hafnarstræti 10-12 ásamt tveimur mágum sínum. Verslunin var rekin til 1895.

Knútskot. Gömul hjáleiga frá Gufunesi. Fyrst er getið um hana um 1800 en talið er að Núpskot sem getið er í eldri heimildum sé sama nafnið. Knútskot stóð í brekkunni austan við veginn sem liggur til Áburðarverksmiðjunnar, á þeim slóðum þar sem vestasti hluti götunnar Viðarrima er nú. Síðar var það flutt ofar í brekkuna.

Kofi Tómasar frænda. Kaffihús á Laugaveg 2, stofnað 1994 af bræðrunum Lárusi og Degi Sigurðssonum.

Kogga. Keramik gallerí sem Kolbrún Björgólfsdóttir opnaði að Vesturgötu 5 árið 1985 og hefur verið þar síðan.

Kokka. Búsáhaldaverslun, stofnsett 2001 af Guðrúnu Jóhannesdóttur og fjölskyldu hennar. Var fyrsta árið í Ingólfsstræti 8 en síðan á Laugavegi 47. Einnig heildverslun og árið 2007 tók fyrirtækið yfir verslunina Dúka í Kringlunni.

Kol og salt. Stofnað 1915 og voru stofnendur nokkur helstu togarafélagin í Reykjavík.  Tóku yfir Kolaverslun Björns Guðmundssonar sem hafði verið stærst í kolainnflutningi frá 1909. Félagið varð langumsvifamest í kola- og saltinnflutningi landsins næstu áratugi og reistu meðal annars svokallaðan Kolakrana í austurhöfn gömlu Reykjavíkurhafnar og stórt salthús. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Ólafur Briem. Eftir seinni heimsstyrjöld dró mjög úr innflutningi á kolum og salti og var félagið leyst upp um 1972.

Kolabakkinn. Sjá Austurbakki.

Kolabryggjan. Trébryggja, rétt innan við Ingólfsgarð, gerð árið 1915.

Kolakraninn. Mikill löndunarkrani sem fyrirtækið Kol & salt reisti í Austurhöfninni í gömlu Reykjavíkurhöfn árið 1925. Fékk hann opinberlega nafnið Hegrinn en var ávallt kallaður Kolakraninn. Setti hann mikinn svip á höfnina uns hann var rifinn árið 1968.

Kolaportið. Markaðstorg í miðbæ Reykjavíkur sem starfað hefur frá 1989.  Upphafsmaður þess var Helga Mogensen í samstarfi við Miðbæjarsamtökin. Var í bílakjallara Seðlabankans til 1994 en flutti þá Tollbygginguna við Geirsgötu og hefur verið þar síðan.

Kolasalan .  Stofnuð 1923 af Þórði Ólafssyni útgerðarmanni og fleirum. Hét upphaflega Kolaverslun Þórðar Ólafssonar. Hafði á boðstólum, kol, salt og útgerðarvörur og var með þeim stærstu á sínu sviði. Aðsetur hennar var við Faxagötu í Austurhöfninni. Rekstrinum var hætt 1949.

Kolasund.  Lítil gata milli Austurstrætis og Hafnarstrætis, hlaut nafn sitt af því að helsti kolakaupmaður bæjarins Martinius Smith hafði aðsetur í Hafnarstræti 18 og voru kol hans borin upp þetta sund í kolabyrgi sem þar var. Sundið lokaðist þegar núverandi hús í Austurstræti 17 var reist.

Kolaverslun Guðna Einarssonar & Einars. Stofnuð 1928 þegar þeir Guðni og Einar Tómasson tóku við koladeild H. P. Duus. Var í neðanverðum Arnarhóli við Kalkofnsveg og rekin til 1958.

Kolaverslun Ólafs Ólafssonar. Rekin í Varðarhúsinu við Kalkofnsveg á árunum 1927-1944 og fylgdi stórt kolaport, beint austur af Verkamannaskýlinu.

Kolaverslun Sigurðar Ólafssonar. Stofnuð 1932 og rekin til 1960. Aðsetur hennar var á norðurhorni Sölvhólsgötu og Kalkofnsvegar þar sem nú er lóð Seðlabankans og einnig milli Geirsgötu og Kalkofnsvegar.

Kolaverslun Suðurlands.

Kolbeinshaus

Kollafjarðará. Á sem kemur úr hlíðum Kistufells í Esjunni og rennur í Kollafjörð.

Kollafjarðarrétt. Sauðfjárrétt Kjalnesinga.

Kollafjörður

Kolsýruhleðslan. Fyrirtæki, stofnað 1948 af Steinari Gíslasyni, sérhæfir sig í hleðslu kolsýrutækja og eldvarnarbúnaði. Í tengslum við fyrirtækið var stofniuð Efnaverksmiðjan Eimur árið 1966 sem framleiðir kolsýru, kalk og fleiri efni. Kolsýsuhleðslan var til húsa í Tryggvagötu 10 til 1953 en eftir það á Seljavegi 12 ásamt Eimi eftir að hann var stofnaður. Hvort tveggja flutti til Þorlákshafnar um 1985 og verksmiðjuhús, tankar og turnar við Seljaveg rifið árið 1988.

Kommakaffi. Sjá Miðgarður

Konráð Gíslason kompásaþjónusta. Stofnsett 1928 og var fyrst til húsa á Hverfisgötu 99, síðan í Hafnarstræti 19, þá í Verbúð 1 og loks við Tryggvagötu í Dalakofanum. (athuga nánar). Árið 1988 breyttist nafn fyrirtækisins í Áttavitaþjónustuna sem sameinaðist svo rafeindaþjónustunni Örfirisey árið 1998 í Raför.

Konuríki. Áfengisútsala við Laugarásveg.

Konsúlshús. Sjá Enska húsið.

Konsúlshús. Sjá Höfði

Kontor- og Magzinshús Innréttinganna. Sjá Biskupsstofa.

Kontórhúsið. Sjá Ólafshús.

Kornax. Fyrirtæki á sviði kornmölunar, stofnað árið 1987. Reisti sama ár hveitimyllu á Korngarði í Sundahöfn. Fyrsti framkvæmdastjóri þess var Garðar Jóhannsson.

Kornelíus. Sjá úra- og skartgripaverslun Kornelíusar Jónssonar.

Korngarður. Annar af tveimur fyrstu hafnargörðunum í Sundahöfn, gerður á árunum 1966-1968. Á honum voru reistar kornhlöður og fóðurblöndunarstöðvar og varð hann því miðstöð korninnflutnings.

Kornhlaðan. Sameiginlegt fyrirtæki Mjólkurfélags Reykjavíkur, Fóðurblöndunnar og SÍS sem reisti stóra kornhlöðu á Korngarði í Sundahöfn árið 1971.

Kornmarkaðurinn. Verslun við Skólavörðustíg.

Korpa. Sjá Úlfarsá.

Korpuskóli. Grunnskóli, staðsettur að Bakkastöðum 2 í Staðahverfi í Grafarvogi. Var stofnaur 1999 og var staðsettur að Korpúlfssöðum til 2005 að flutt var í núverandi húsnæði sem hannað var af teiknistofunni Arkís. Fyrsti skólastjórinn var Svanhildur María Ólafsdóttir. Skólinn var sameinaður Víkurskóla árið 2011 undir nafninu Kelduskóli.

Korputorg. Gríðarstór verslunarmiðstöð (48 þús fm) að Blikastaðavegi 2-8, rétt neðan við Vesturlandsveg, opnuð haustið 2008. Rekstraraðili hennar var félagið Stekkjarbrekkur, framkvæmdastjóri Arnar Hallsson.

Korpúlfar. Samtök eldri borgara í Grafarvogi sem stofnuð voru 1998. Hafa aðstöðu á Korpúlfsstöðum og beita sér fyrir margs konar starfsemi og útivist. Fyrsti formaður samtakanna var Ingvi Hjörleifsson.

Korpúlfsstaðaá. Sjá Úlfarsá.

Korpúlfsstaðir. Býli sem stendur á sléttum melum vestan við Korpúlfsstaðaá. Fyrst getið í Kjalnesingasögu en voru orðnir sjálfstæð jörð árið 1234.  Á jörðinni reisti Thor Jensen stærsta og tæknikvæddasta kúabú landsins árið…. Jörðin komust í eigu Reykjavíkurborgar árið 1942.

Kot. Sjá Örfirisey.

Kotasker. Eitt af skerjunum í Skerjafirði, út af Skildinganesjörðinni.

Kotið. Sjá Engeyjarkot.

Kotmýri. Mýrlendi upp af bænum Keldum, suðvestan í Keldnaholti.

Kófið. Sjá Hóll.

Kókakólaróló. Sjá Melhagaróló.

Kólus. Sælgætisgerðin. Stofnuð fyrir 1962. Var þá á Bergstaðastræti 28b, síðar á Tunguhálsi 5. Ath.

Kóngsgarður. Sjá Stjórnarráðshúsið.

Kóngsgil. Gil milli Drottingargils og Suðurgils í skíðasvæðinu í Bláfjöllum.

Kór Langholtskirkju

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Stofnsettur 1967. Stofnandi kórsins og stjórnandi frá upphafi var Þorgerður Ingólfsdóttir. Kórinn hefur gert víðreist um lönd og hlotið margvíslegar viðurkenningar.

KR

Kr. Þorvaldsson. Heildverslun, einkum á sviði tilbúins fatnaðar. Stofnsett 1954 af Kristjáni Þorvaldssyni. Var fyrst til húsa í Þingholtsstræti 11 en frá 1961 til 1991 að Grettisgötu 6. Flutti þá í Sundaborg 9 og var rekið til 2010 þegar það gekk inn í fyrirtækið Northwear.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur. Stofnað 1949 að frumkvæði Alfreðs Gíslasonar en fyrsti formaður félagsins var Níels Dungal. Félagið átti síðan frumkvæði að stofnun Krabbameinsfélags Íslands 1951 og hefur síðan starfað náið með því.

Krabbameinsfélag Íslands. Stofnað árið 1951 og var fyrsti formaður þess Níels Dungal. Tilgangur þess var að styðja og beita sér fyrir baráttunni gegn krabbameini. Frá 1957 rak félagið leitarstöð en hefur jafnframt staðið fyrir rannsóknum, aðhlynningu og margs konar fræsðlustarfi. Leitarstöðin var í Heilsuverndarstöðinni til 1962 en skrifstofur í Blóðbankanum við Barónsstíg. Árið 1962 keypti félagið ásamt Krabbameinsfélagi Reykjavíkur húsnæði að Suðurgötu 22 og þar voru höfuðstöðvar þessara félaga til 1984. Frá þeim tíma hafa félögin verið í Skógarhlíð 8.

Kraum

Kreditkort. Stofnsett 1980 af Gunnari R. Bæringssyni og nokkrum öðrum einstaklingum. Varð fyrst til þess á Íslandi 1982 að gefa út alþjóðleg kreditkort (Eurocard). Hét Eurocard á Íslandi – Kreditkort til 1998, þá Europay Island – Kreditkort til 2003, þá Mastercard – Kreditkort. Árið 2007 var rekstrinum skipt í tvö félög. Færsluhirðingarhlutinn fékk nafnið Borgun en útgáfuhlutinn hélt nafninu Kreditkort. Hefur frá upphafi haft aðsetur í Ármúla 28-30.

KR-heimilið

Kriegers Minde. Sjá Skólavarðan.

Kringlan. Stór verslunarmiðstöð í Kringlumýri sem reist var af frumkvæði Pálma Jónssonar í Hagkaup 1987. Elsti hluti hennar er teiknaður af Hrafnkeli Thorlacius og Hilmari Ólafssyni en nýrri hlutar af Halldóri Guðmundssyni og Kristni Ragnarssyni. Þegar Kringlan var opnuð voru þar 76 verslanir og þjónustuaðilar á þremur hæðum.  Á 20 ára afmæli hennar árið 2007 voru þar 112 verslanir, 38 þjónustufyrirtæki, 18 veitingastaðir og 4 afþreyingarstaðir, þar á meðal taldist Borgarleikhúsið sem var tengt henni með millibyggingu.

Kringlubíó.

Kringlukráin. Skemmtistaður með ensku kráarsniði, hefur verið rekinn í Kringlunni frá 1989. Guðbjörn Gunnarsson og fleiri stofnuðu til staðarins.

Kringlumýrarblettir. Um 30 erfðafestusvæði sem úthlutað var undir grasbýli eftir 1930 við Kringlumýri austan í Rauðarárholti og að syðsta hluta Háaleitisbrautar.

Kringlumýrarvegur. Fékk nafn sitt árið 1930

Kringlumýri. Svæðið suðaustan Rauðarárholts og vestan Grensás. Upphaflega beitarland og mótekjuland, síðan garðlönd en eftir 1975 reis þar „nýr miðbær“.

Kringlusafn. Útibú Borgarbókasafns Reykjavíkur að Listabraut 3, opnað 2001.  Rætur á það allt til ásins 1934 þegar fyrsta útibú Borgarbóksafnssins var opnað í Austurbæjarskólanum, það flutti síðan í Hólmgarð 34 árið 1957 og var þar til 1973 að það flutti í kjallara Bústaðakirkju. Þar var það til 2001.

Kristilega sjómannastarfið. Til þess var stofnað af Friðrik Schram og nokkrum einstaklingum. Opnuðu þeir sjómannastofu að Vesturgötu 19 árið 1973.

Kristján Ó. Skagfjörð

Kristján Siggeirsson (Káess).  Húsgagnaverslun og síðar trésmiðja, stofnuð 1919. Var frá byrjun til húsa á Laugavegi 13 og við Smiðjustíg. Trésmiðja var í Lágmúla 7 frá árinu 1963 en í Hesthálsi 2-4 frá 1985. Sameinaðist Gamla kompaníinu og fleiri fyrirtækjum undir nafninu GKS Bíró árið 1989, síðar GKS (sjá).

Kristilegt stúdentafélag

Kristinboðsfélag kvenna

Kristinboðsfélagið í Reykjavík

Kristinshús. Timburhús við Bræðraborgarstíg 24, reist 1906 af Kristni Einarssyni og Guðrúnu Oddsdóttur.

Kristjánshús. Timburhús í Fischersundi 1, talið byggt 1812 af Kristjáni Péturssyni en mun þó að mestu leyti hafa verið frá 1870 eða 1878. Rifið 1992. Stóð bak við Morgunblaðshúsið.

Kristmundarbryggja. Sjá Síldarbryggjan.

Kristskirkja í Landakoti

Kríusandur. Sjá Hlíðarhúsasand.

Kríusandur. Örnefni í Viðey.

Kríusteinn. Allmikill klettur í Hlíðarhúsasandi, rétt við Skipasmíðastöð Reykjavíkur og fyrir vestan Slippinn sem nú er. Kletturinn var sprengdur burtu 1915 til að koma fyrir bátabraut.

KRON. Samvinnufélagið Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, stofnað 1937 með sameiningu nokkurra kaupfélaga og voru helst þeirra Kaupfélag Reykjavíkur sem starfað hafði frá 1931 og Pöntunarfélag verkamanna sem starfað hafði frá 1934. Fyrsti framkvæmdastjóri KRON var Jens Figved. Félagið rak fjölda verslana í Reykjavík. Matvöruverslanir rak það á Skólavörðustíg 12 frá 1937-1975, Vesturgötu 33 frá 1937-1942, Vesturgötu 16 í fáein ár eftir 1937, Grettisgötu 46 frá 1937-1970, Bræðraborgarstíg 47 frá 1938 til m 1970, Hverfisgötu 52 um stuttan tíma eftir 1939, Þvervegi 2 í Skerjafirði frá 1942-1966, Vesturgötu 15 frá 1942-1962 (þar var fyrsta kjörbúðin á landinu) Langholtsvegi 24 frá 1945 til um 1963, Hrísateigi 19 frá 1945 til um 1968, Þórsgötu 1 frá 1946 til um 1948, Nesvegi 31 frá 1947 til um 1963, Barmahlíð 4 frá 1947-1966, Grettisgötu 2 um 1948, Fálkagötu 18 frá 1952-1959, Langholtsvegi 130 frá 1958 til um 1985, Dunhaga 18-20 frá 1959-1989, Tunguvegi 19 frá 1959-1988, Ægisgötu 10 frá 1962 til um 1967, Stakkahlíð 17 frá 1966-1989, Þvervegi 36 frá 1967 til um 1969, Snorrabraut 56 frá 1969 til um 1985 og Eddufelli 8 frá 1972-1989. Þá rak KRON Glervöru- og búsáhaldadeild í Bankastræti 2  frá 1937 til 1955 og að Skólavörðustíg 23 frá 1955-1963. Árið 1963 keypti KRON Búsáhalda- gjafavöru- og leikfangabúð Liverpool að Laugavegi 18A og rak í allmörg ár.  Vefnaðarvörudeild- og skóverslun rak KRON í Alþýðuhúsinu frá 1937 til 1941 en eftir það á Skólavörðustíg 12 til 1963. Þaðan var hún flutt að Skólavörðustíg 23 þar sem sú verslun var rekin frá 1963-1967.  Saumastofu og klæðaverslun rak KRON að Grettisgötu 3 1941-1943 og fatapressun á sama stað frá 1941 til 1950 og eftir það á Hverfisgötu 78 til 1955. Byggingavörudeild KRON var á Hverfisgötu 52 frá um 1940 til 1981. Þá var Bóka- og ritfangaverslun KRON í Alþýðuhúsinu frá 1941 til 1951 en eftir það í Bankastræti 2 til um 1972. Ennfremur rak KRON fiðurhreinun um árabil, fyrst í Aðalstræti 9B og síðan Hverfisgötu 52 til um 1958. Listmunaverslun KRON var í Garðastræti 2 frá 1945-1951. Þá rak félagið Efnagerðina Record frá 1938, fyrst á Hverfisgötu 52 til 1947 en eftir það í Brautarholti 28 til 1978 en þá var hún flutt í Kópavog.  KRON var auk þess sem hér hefur verið upp talið með verslanir í Hafnarfirði, Kópavogi og víðar. Árið 1970 opnaði KRON Vöruhúsið Domus að Laugavegi 91 og  rak það til um 1988. Árið 1983 gekk KRON til samstarfs við SÍS um rekstur stórvörumarkaðarins Miklagarðs og árið 1986 opnaði KRON verslunina Kaupstað í Mjódd að Þönglabakka 1. Árið 1989 var nafni þeirra KRON-verslana sem eftir voru breytt í Kaupstað en árið 1993 leið þetta mikla stórveldi í verslun í Reykjavík og víðar undir lok.

Kross. Hjáleiga í Engey, stóð norður af bæjarhúsunum á svokölluðum Krossflötum.

Krossamýrarblettir

Krossamýri. Heiti á mýrlendi vestan til í Ártúnshöfða þar sem nú er iðnaðar- og þjónustuhverfi.

Krossflatir. Flatir norðan við Austurtúnið og austan við Norðurtúnið í Engey.

Krossholt. Timburhús við Grettisgötu 27, byggt 1898 af Benedikt Jónssyni en síðar stækkað mikið.

Krosshóll. Örnefni í landi Brautarholts á Kjalarnesi.

Króarfoss. Foss í Korpúlfsstaðaá þar sem hún fellur til sjávar í Blikastaðakró.

Krókahyljir. Veiðistaðir í efsta hluta Elliðaáa þar sem áin rennur í sveig frá hinum gömlu ármótum Bugðu og Dimmu efst á Víðivöllum og að brúnni yfir Breiðholtsbraut. Ármót hét efst en síðan Hornið eða Hornið efra þar sem áin beygir til vesturs og loks Fljótið á kaflanum að brúnni sem er lygn breiða. Englendingar sem áttu Elliðaár fyrir 1906 kölluðu veiðistaðina hér Top Pool og Top Flat.

Krókur. Torfbær sem Jón Árnason reisti 1876 þar sem nú er Unnarstígur 8. Árið 1896 kom samnefndur steinbær í stað torfbæjarins en núverandi timburhús er frá 1906.

Krókur.  Steinbær sem Runólfur Einarsson reisti árið 1887 á Klapparstíg 11. Síðar kallaður Magnúsarbær. Rifinn 1907.

Krónan. Nýlenduvöruverslun á Vesturgötu 35A, stofnuð 1930 af Kristjáni Guðmundssyni. Hætti 1983. Aðra verslun með þessu nafni stofnaði Kristján og fjölskylda hans að Mávahlíð 25 árið 1949 og var hún rekin til 1983.

Krónan. Keðja lágvöruverðsverslana sem hlutafélagið Kaupás hratt af stað árið 2000. Tíu árum síðar voru reknar fjórar verslanir í Reykjavík undir þessu nafni auk verslana annars staðar á landinu. Þær voru í Rofabæ 39, Bíldshöfða 20, Jafnaseli 2 og á Fiskislóð 15-21.

Krummaskuð. Sjá Sölvhólsvör.

KR-völlurinn

Kröggólfsstaðir. Steinbær við Framnesveg 5, reistur af Guðmundi Guðmundssyni árið 1883. Hann var rifinn 1925 og í staðinn reist núverandi samnefnt steinhús á lóðinni.

Kukl. Nýbylgjurokkhljómsveit (anarkó-pönk) sem starfaði á árunum 1983-86. Í sveitinni voru upphaflega Birgir Mogensen, Björk Guðmundsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Einar Melax, Guðlaugur Óttarsson og Sigtryggur Baldursson.

Kúavað. Vað og veiðistaður í Elliðaám fyrir neðan Hleinatagl en ofan Kersins. Spölkorn ofan Rafstöðvarinnar.

Kúlissusjóður

Kúlulegasalan. Stofnsett 1945 af Jóni J. Fannberg, hét áður SKG umboðið sem hafði starfað í Reykjavík frá 1921. Verslunin var lengi í Garðastræti 2 en flutti 1972 að Suðurlandsbraut 20. Rann inn í fyrirtækið Bílanaust 2006.

  1. Knattspyrnufélag Vesturbæjar, stofnað 2004. Hefur heimavöll í Fostaskjóli. Auk knattspyrnu hefur félagið körfubolta- og borðtennisdeild.

Kvarnaborg. Leikskóli við Árkvörn í Ártúnsholti.Tók til starfa 1987 en var sameinaður Ártúnsskóla undir síðarnefnda nafninu árið 2011.

Kveldúlfsbryggja. Bryggja niður undan Vatnsstíg sem Jón Þórðarson kaupmaður setti upp árið 1899. Bryggjan var stækkuð mikið af Kveldúlfi árið 1914 og eftir það kölluð Kveldúlfsbryggja. Leifar af bryggjunni sáust fram yfir 1960

Kveldúlfshúsin. Höfuðstöðvar útgerðarfélagsins Kveldúlfs á Skúlagötu 12. Formlegt nafn þeirra var Kveldúlfshöfði en það náði ekki að festast. Þetta voru gríðarlega mikil steinhús með fiskvinnslusölum, geymslum og skrifstofum. Náðu þau langleiðina upp að Lindargötu. Byggingarframkvæmdir hófust 1913 og stóðu yfir til 1916. Finnur Ó. Thorlacius teiknaði húsin. Eimskipafélag Íslands keypti Kveldúlfshúsin 1953 og voru þau notuð sem pakkhús til 1982, oft þá nefnd Skúlaskáli.  Þau voru rifin 1989.

Kveldúlfshöfði. Sjá Kveldúlfshúsin.

Kveldúlfur. Togaraútgerðarfélag sem Thor Jensen og synir hans (Thorsbræður) stofnuðu árið 1912. Varð félagið stærsta útgerðarfélag landsins allt fram yfir seinni heimsstyrjöld og hafði umsvif víða um land. Í Reykjavík hafði félagið þegar frá leið höfuðstöðvar á svokölluðum Kveldúlfshöfða (sjá) á Skúlagötu 12 þar sem reist voru mikil hús og hafðir fiskreitir í nágrenninu. Einnig hafði það salthús við Ingólfsgarð en fiskreitir félagsins voru á Rauðarárholti og Seltjarnarnesi og einnig um tíma við Haga og á Eiðsgranda. Kveldúlfur var formlega lagður niður 1977 en hafði þá ekki haft neina starfsemi um árabil

Kvenfélag Alþýðuflokksins. Stofnað 1937

Kvenfélag Fríkirkjusafnaðarins. Stofnað 1906.

Kvenfélag Hallgrímssóknar

Kvenfélag Kjalarneshrepps. Sjá Esju, kvenfélag.

Kvenfélag Laugarnesprestakalls. Stofnað 1941

Kvenfélag Neskirkju. Stofnað 1941

Kvenfélagasamband Íslands. Stofnað 1930 til að sameina kvenfélög í landinu í eina heild. Hefur ekki síst stuðlað að bættri hússtjórnarfræðslu. Fyrsti forseti sambandsins var Ragnhildur Pétursdóttir. Aðsetur kvenfélagasambandsins frá 1967 hefur verið á Hallveigarstöðum.

Kvenhattarafélag Reykjavíkur

Kvennagarður. Sameiginleg aðstaða ýmissa kvennahópa, svo sem Kvennakirkjunnar, og einstakra kvenna á Laugavegi 59. Hefur verið starfrækt frá 2003.

Kvennakirkjan. Stofnuð 1993 af hópi kvenna sem byggja starf sitt á kvennaguðfræði. Prestur Kvennakirkjunnar frá upphafi hefur verið séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Aðsetur kirkjunnar frá 2003 hefur verið í Kvennagarði að Laugavegi 59 en er nú í Þingholtsstræti 17.

Kvennakór Reykjavíkur. Stofnaður 1993 að frumkvæði Margrétar J. Pálmadóttur sem var jafnframt fyrsti stjórnandi kórsins. Hefur komið fram víða heima og erlendis. Innan vébanda kórsins tóku fljótlega einnig til starfa þrír sönghópar: Léttsveit Kvennakórsins, Gospelsystur og Senjorítur. Tveir fyrrnefndu kórarnir urðu síðan sjálfstæðir sem Léttsveit Reykjavíkur (sjá) og Cantabile (sjá).

Kvennaskólinn í Reykjavík. Stofnaður 1874 að frumkvæði Þóru og Páls Melsteð og var hún skólastjórinn. Fyrsti kvennaskóli landsins. Hann var til húsa við Austurvöll (Thorvaldsensstræti 2) til 1909 en flutti þá í nýja byggingu við Tjörnina (Fríkirkjuvegi 9) þar sem hann hefur verið síðan auk þess sem kennt var víðar í nágrenninu þegar fram liðu stundir. Piltar fengu fyrst aðganga að skólanum 1977 og tveimur árum síðar var hann gerður að framhaldsskóla.

Kvennaskólinn í Vinaminni. Sjá Vinaminni.

Kvennasögusafn Íslands. Stofnsett 1975 og var Anna Sigurðardóttir aðalstofnandi þess og fyrsti forstöðumaður. Árið 1996 varð safnið að sérstakri deild innan Landsbókasafns-Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðunni.

Kvenréttindafélag Íslands. Stofnað 1907 til þess að bæta réttindi kvenna, þar á mepal full stjórnmála- og atvinnuréttindi á við karlmenn. Fyrsti formaður félagsins var Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Félagið starfaði einkum í Reykjavík en var gert að landsfélagi 1944. Aðsetur þess var í Þingholtsstræti 18 allt til 1948, síðan á Skálholtsstíg 7 til um 1960 og á Laufásvegi 3 frá þeim tíma til 1967. Eftir 1967 hefur Kvenréttindafélagið verið til húsa á Hallveigarstöðum.

Kvenskátafélag Reykjavíkur. Stofnað 1922. Stofnandi þess og fyrsti formaður var Jakobína Magnúsdóttir. Starfaði til 1969.

Kvikk. Fyrirtæki sem sérhæfði sig í þróun og hönnun fiskvinnsluvéla. Stofnsett 1980 af Svani Þór Vilhjálmssyni og fleirum. Starfaði til um 1995.

Kvikk þjónustan. Pústþjónusta, stofnsett 1992. Var í Sóltúni 3 til 2006 en síðan í Bíldshöfða 18.

Kvikmyndafélag Íslands

Kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn

Kvistaborg. Leikskóli í Kvistalandi 26. Tók til starfa 1972.

Kvisthagaróló. Róluleikvöllur fyrir aftan Kvisthaga 7.

Kvistur. Trésmiðja. Stofnuð 1953 af Óskari Þorvarðarsyni, Halldóri Magnússyni og fleirum. Var í nokkur ár í Álfheimum 4 en frá 1967 í Súðarvogi 42. Rekin til um 1986.

Kvíar. Grjótnámur við norðanverða Óðinsgötu. Úr þeim var grjótið í Alþingishúsið tekið árið 1881.

Kvosin

Kvöldfélagið. Stofnað 1861 sem leynifélag reykvískra menntamanna. Hét upphaflega Leikfélag andans. Starfaði til 1873. Formaður félagsins var Helgi E. Helgesen skólastjóri og guðfræðingur.

Kvöldroðinn. Timburhús á Grímsstaðaholti, reist af Eyjólfi Þorsteinssyni 1896. Stóð þar sem nú er Fálkagata 7. Var flutt að Neistastöðum í Flóa 1966.

Kynnisferðir

Kýrhamar. Móbergsklettur við sjóinn suðvestur af Nauthólsvík.

Kæling. Fyrirtæki sem annast uppsetningu og viðgerðir á frystikerfum og kælitækjum. Stofnað 1968 af Brynjólfi Guðmundssyni, Jóni Torfasyni og fjölskyldum.Var fyrsta árið til húsa í Ármúla 12, síðan frá 1969 í Ármúla 7, þá frá 1973 að Langholtsvegi 109 og frá 1987 að Réttarhálsi 2. Flutti árið 2000 til Hafnarfjarðar og var þá orðið dótturfyrirtæki Brunna.

Kæmnergade. Sjá Vallarstræti.

Kærlighedsstig. Sjá Suðurgata.

Köbmandens Eng. Nafn á Austurvelli frá 18. öld.

Köfunarskólinn. Stofnaður 1993 til að sinna kennslu í sportköfun en tók svo einnig að sinna verslun með köfunarbúnað og ferðaþjónustu. Var á Grandagarði 14 frá 2001(enn þar 2007).

Köfunarstöðin. Verktakafyrirtæki með áherslu á hafnargerð og neðansjávarvinnu. Kristbjörn Þórarinsson. Björn R. Alfreðsson.

Köllunarklettsvegur. Vegur í Laugarnesi sem lá frá Kleppsvegi í átt að gömlu Viðeyjarlendingunni. Nafnið ákveðið 1930. Nú er gata með þessu heiti á sömu slóðum en liggur frá Héðinsgötu að Sundagörðum.

Köllunarklettur. Klettur sem skagaði fram í fjöruborðið við Sundin gegnt Viðey, nú horfinn undir Sundahöfn. Nafn sitt fékk kletturinn af því að af honum kölluðu menn á ferju frá Viðey yfir sundið.

Körfugerðin. Stofnuð 1925 af Þórsteini Bjarnasyni. Var til húsa á Hverfisgötu 18 fyrstu árin en flutti að Skólavörðustíg 3 árið 1928 og síðan að Bankastræti 10 árið 1932 þar sem hún var til 1951. Eftir það flutti körfugerðin að Laugavegi 166. Árið 1957 gaf Þórsteinn Blindravinafélaginu fyrirtæki sitt og flutti Körfugerðin fljótlega eftir það að Ingólfsstræti 16 og varð þar hluti af vinnustofum blindra. Var þar til ársins 2003 að hún var lögð niður.

L.H.Müller. Karlmannafata- og sportvöruverslun, stofnuð af Norðmanninum Lorentz H. Müller, árið 1917. Var til húsa í Austurstræti 7 í byrjun en flutti 1920 í Austurstræti 17 þar sem verslunin var rekin til 1963. Eftir það var rekin fatagerð undir nafninu L. H. Müller til um 1975, fyrst á Langholtsvegi 82 til um 1970 og síðan í Ármúla 5.

LA-Café. Kaffihús, stofnsett 1989 á Laugaveg 49 en lengst af var það á Laugavegi 45, rekið til um 2005(?)

Lady. Nærfata- og lífstykkjaverksmiðja. Stofnuð 1937 af Þorleif Sigurðardóttur. Var fyrst til húsa á Laugaveg 30, síðan á Leifsgötu 13 frá 1939, Barmahlíð 56 frá um 1950 og Laugaveg 26 frá 1961. Starfaði til um 1987.

Lagaskólinn. Stofnaður 1908 undir forystu Lárusar H. Bjarnasonar. Hann varð síðan að lagadeild Háskóla Íslands 1911. Skólinn var til húsa í Þingholtsstræti 28.

Lagnafélag Íslands. Stofnað 1986 til að stuðla að þróun lagnatækni og vinna að gagnkvæmum skilningi þeirra sem að lagnamálum vinna. Fyrsti formaður félagsins var Kristján Ottósson.

Lambastaðasel. Sel frá Lambastöðum á Seltjarnarnesi, staðsett undir Selfjalli, skammt frá eða við Lækjarbotna.

Lambhagi. Fornt býli suðvestur undir rótum Hamrahlíðar austan við Korpúlfsstaðaá þar sem hún fellur í bug og fer að renna í norður. Reykjavíkurborg keypti jörðina 1942.

Lambhóll. Býli við sjóinn á Grímsstaðaholti, skammt fyrir neðan Garða, síðar talið við Þormóðsstaðaveg. Það var reist árið 1870 af Magnúsi Magnússyni og Sigurbjörgu Jóhannesdóttur. Síðast var þar steinbær sem rifinn var 1922. Nú stendur fjölbýlishúsið Lambhóll á staðnum og telst til Ægissíðu, reist í tveimur áföngum 1922 og 1952.

Lambhólsvör. Vör beint niður undan Lambhól við Ægissíðu.

Lambstekkur. Lítið fjárhús frá Breiðholtsbænum upp með Vatnsendavegi norðan hans.

Landafundagötur. Götur í austanverðu Skólavörðuholti, kenndar við landafundamenn í Ameríku. Þetta eru Eiríksgata, kennd við Eirík rauða, Leifsgata, kennd við Leif heppna, báðar frá 1932, og Þorfinnsgata, kennd við Þorfinn karlsefni en hún fékk nafn sitt 1948.

Landakot

Landakotsbrunnur. Grafinn í tengslum við byggingu Skt. Jósefsspítala árið 1902, var þar sem nú er mið Ægisgata. Vatn úr brunninum gerði lagningu fyrsta holræsis í Reykjavík mögulega en það var lagt frá spítalanum til sjávar.

Landakotsskóli. Grunnskóli á Landakotshæð, stofnaður 1896 af fjórum kaþólskum nunnum af St. Jósefsreglu en frá 1910-1968 var skólinn rekinn af Montfortreglunni. Kennt var í gamla íbúðarhúsinu í Landakoti en árið 1909 var reist sérstök skólabygging eftir danska arkitektinn Johannes Magdahl-Nielsen. Ný álma við skólann var reist 1941 og enn var bætt við húsi árið 1993 eftir teikningu Knúts Jeppesen.

Landakotsspítali. Stór tvílyft timburbygging á Landakotshæðinni. Oftast nefnd Landakotsspítali eða Landakot en hét formlega St. Jósefsspítali. Reist 1902 af St. Jósefssystrum sem áður höfðu rekið sjúkraskýli í Landakoti frá 1897. Landakotsspítali var helsta sjúkrahús landsins þar til Landspítalinn var tekinn í notkun 1930.  Árið 1935 var reist ný spítalabygging til vesturs við hlið hinnar eldri eftir teikningum Sigurðar Guðmundssonar og á árunum 1957-1959 var enn ný álma reist eftir teikningum Einars Sveinssonar og Gunnars Ólafssonar. Hafði þá húsið frá 1902 verið rifið. Nunnurnar ráku spítalann til 1976 en þá keypti Ríkissjóður hann. Var hann rekinn sem sjálfseignarstofnun um hríð en sameinaðist 1996 Borgarspítalanum undir nafninu Sjúkrahús Reykjavíkur og fór þar einkum fram ölrunarþjónusta og augnlækningaþjónusta, en fyrsta augndeildin við sjúkrahús hérlendis hafði verið stofnuð í Landakotsspítala 1969.  Árið 2000 sameinuðust Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítali undir nafninu Landspítali – háskólasjúkrahús en í Landakotsspítala fer einkum fram öldrunarþjónusta sjúkrahússins.

Landakotsstígur. Sjá Túngata.

Landakotstún. Upphaflega allvíðáttumikið tún sem tilheyrði jörðinni Landakoti. Náði það að Garðastræti í austri, Ásvallagötu í suðri og Unnarstíg í vestri. Eftir 1920 voru byggð hús á stórum hluta túnsins og var þá nafnið einungis notað um túnblett austan og sunnan Landakotskirkju sem afmarkaðist af Túngötu, Hólavallagötu og Hávallagötu. Á árunum 1985-1986 var túnbletturinn gerður að skrúðgarði.

Landflutningar. Vöruflutningafyrirtæki, stofnað 1966. Samskip keyptu það árið 1996 og hét það eftirleiðis Landflutningar-Samskip.

Landfógetaembættið. Flutt frá Viðey til Reykjavíkur 1795.

Landfógetahúsið. Sjá Lóskurðarstofa Innréttinganna.

Landfógetagarðurinn. Sjá Hressingarskálagarðurinn.

Landhelgisgæsla Íslands. Stofnuð árið 1952 sem sjálfstæð stofnun. Fyrsti forstjóri hennar var Pétur Sigurðsson. Hún var til húsa á Seljavegi 32 þar til 2005 að höfuðstöðvar hennar voru fluttar í Skógarhlíð 14.

Landleiðir. Farþegaflutningafyrirtæki, stofnað 1950 af Ágúst Hafberg og fleirum og varð Ágúst fyrsti forstjóri félagsins. Fékk sama ár sérleyfi á áætlunarferðum (strætisvagnaferðum) milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og síðar einnig fleiri leiðum. Var með aðstöðu í bragga í Grímsstaðaholti sem brann 1969, eftir það lengstum á Reykjanesbraut 12 (Skógarhlíð 10). Sameinaðist Norðurleið 1990 undir nafninu Norðurleið-Landleiðir (sjá). Hætti Hafnarfjarðarakstri 1992.

Landlæknisembættið. Flutt frá Nesi við Seltjörn til Reykjavíkur árið 1833 og hefur verið þar síðan.

Landlæknishús. Sjá Gunnlaugsenshús.

Landnám, félag

Landnámsgötur. Götur í gamla Austurbænum og Norðurmýri sem kenndar eru við landnámsfólkið á höfuðborgarsvæðinu. Elst er Ingólfsstræti frá um 1880 en Hallveigarstígur kom 1925. Aðrar komu flestar 1937. Þær eru Karlagata og Vífilsgata, kenndar við þræla Ingólfs, Mánagata, kennd við Þorkel mána, sonarson Ingólfs og Hallveigar, og Skeggjagata, kennd við Þórð skeggja, landnámsmann á Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Í þessum flokki er einnig Flókagata, kennd við Hrafna-Flóka.

Landsamband bakarameistara. Stofnað í Reykjavík 1958 og var fyrsti formaður þess Sigurður Bergsson.

Landsamband grunnskólakennara.

Landsamband iðnaðarmanna. Félagið var lagt niður þegar stofnuð voru Samtök iðnaðarins 1994.

Landsamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ). Hagsmunasamband útvegsmanna á Íslandi, stofnað árið 1939 af um 50 útgerðarmönnum. Fyrsti stjórnarformaður félagsins var Kjartan Thors en fyrsti framkvæmdastjórinn Jakob Hafstein. Skrifstofur voru lengst af í Hafnarhvoli við Tryggvagötu en þær voru fluttar árið 2002 í Borgartún 35. LÍÚ rak sérstaka innkaupadeild á árunum 1945-1993 og hafði hún aðsetur í Austurhöfninni í gömlu Reykjavíkurhöfn.

Landsbanki Íslands

Landsbjörg. Landssamband björgunarsveita, stofnað 1991 með sameiningu Landssambands Hjálparsveita skáta og Landssambands flugbjörgunarsveita. Sambandið var lagt niður 1999 þegar það sameinaðist Slysavarnafélaginu undir nafninu Slysavarnarfélagið Landsbjörg. Formaður Landsbjargar, landssambands björgunarsveita, var Ólafur Proppé. Landsbjörg hafði aðsetur í Stangarhyl 1 frá 1992.

Landsbjörg. Slysavarnarfélagið, stofnað 1999 en þá sameinuðust Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg, landssamband björgunarsveita. Félagið hafði aðsetur að Stangarhyl 1 til 2003 en eftir það í Skógarhlíð 14.

Landsbókasafn. Upphaflega stofnað 1818 af C. C. Rafn í Kaupmannahöfn, þá kallað Stiftsbókasafn. Var fyrst til húsa á lofti Dómirkjunnar, síðan í alþingishúsinu frá 1881 og Safnahúsinu við Hverfisgötu frá 1908 og loks Þjóðarbókhlöðunni frá…

Landshöfðingjahúsið. Sjá Stjórnarráðshúsið.

Landshöfðingjahúsið. Sjá Næpan.

Landskjalasafnið, sjá Þjóðskjalasafnið

Landsmálafélagið Vörður. Stofnað 1926 og var það síðan helsta stjórnmálafélag fyrst Íhaldsflokksins og síðan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Fyrsti formaður þess var Magnús Jónsson. Á árunum 1928-1941 rak það eigin félagsheimili við Kalkofnsveg sem það nefndi Varðarhúsið.

Landspítalinn. Tók til starfa 1930.

Landsprentsmiðjan.  Árið 1831 var eina prentsmiðja landsins, Viðeyjarprent, tekin eignarnámi og sett undir landstjórnina. Hún var síðan flutt inn til Reykjavíkur 1844 og kallaðist þá Landsprentsmiðjan. Var hún til húsa í Aðalstræti 9. Árið 1876 var hún einkavædd og seld Einari Þórðarsyni prentsmiðjustjóra.

Landssambands flugbjörgunarsveita.  Stofnað 1974 en sameinaðist Landssambandi Hjálparsveita skáta árið 1991 undir nafninu Landsbjörg.

Landssamband Hjálparsveita skáta. Stofnað 1971 en sameinaðist Landssambandi flugbjörgunarsveita árið 1991 undir nafninu Landsbjörg.

Landssamband íslenskra sjálfseignarvörubílstjóra. Sjá Landssamband vörubifreiðaeigenda.

Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ). Stofnsett 1939 af rúmlega 50 útgerðarmönnum fiskiskipa. Fyrsti framkvæmdastjóri sambandsins var Kjartan Thors. Skrifstofur þess voru lengst af eftir stríð í Hafnarhvoli við Tryggvagötu eða allt til ársins 2002 en hafa síðan verið í Borgartúni 35.

Landssamband vörubifreiðaeigenda. Stofnað 1953 af þeim sem reka vörubifreiðar, vélar og tæki. Hét upphaflega Landssamband íslenskra sjálfseignarvörubílstjóra en siðan Landssamband vörubifreiðastjóra til 1997.

Landssamband vörubifreiðastjóra. Sjá Landssamband vörubifreiðaeigenda.

Landssambandið gegn áfengisbölinu. Stofnað 1955 að frumkvæði Áfengisvarnaráðs.

Landsskjalasafnið. Sjá Þjóðskjalasafn Íslands.

Landssímahúsið. Stórhýsi sem reist var á árunum 1930-1932 í Thorvaldsensstræti 4 við Austurvöll. Auk Landsímans og Bæjarsímans í Reykjavík var Veðurstofan þar til húsa til 1945 og Ríkisútvarpið til 1959. Viðbygging til vesturs var reist árið 1952 og til suðurs á árunum 1966-67. Árið 2001 fluttu höfuðstöðvar Pósts og síma úr húsinu.

Landssími Íslands. Tók til starfa 1906.

Landssmiðjan. Stofnuð árið 1930 sem ríkisfyrirtæki  í vélsmíði. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Ásgeir Sigurðsson. Smiðjan var fyrst til húsa í húsakynnum Vegagerðar ríkisins á Klapparstíg 2 en árið 1941 var byggt stórt hús yfir smiðjuna á Sölvhólsgötu 13 eftir teikningu Einars Erlendssonar. Landssmiðjan var einkavædd 1984 og árið 1991 komst hún í eigu Sindrastáls. Var rekstrinum þá skipt upp en Landssmiðjan þó rekin áfram undir því nafni fram til um 2002. Árið 1997 flutti hún endanlega úr húsakynnum sínum við Sölvhólsgötu í Garðabæ.

Landstjarnan. Sælgætis- og tóbaksbúð, stofnuð af Pétri Þ. J. Gunnarssyni. Var fyrst í húsakynnum Hótels Íslands í Austurstræti 2 frá 1912 til 1918 en síðan í Aðalstræti 9, Austurstræti 4 og víðar. Breyttist í heildverslun á 4. áratug 20. aldar og rekin þannig fram til um 1964, lengst af í Mjóstræti 6. Nafn fyrirtækisins var endurvakið 2007 á Seltjarnarnesi.

Landsverslun. Stofnuð 1917 til að annast innflutning á margs konar vörum á vegum ríkisins, svo sem kolum, salti, kornvöru, steinolíu og tóbaki. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru í Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu og starfaði það í tveimur deildum til að byrja með, Matvælahagstofu sem Héðinn Valdimarsson stjórnaði og Verslunarskrifstofu sem Olgeir Friðriksson var yfir. Pakkhús félagsins var í Nýborg við Skúlagötu. Smám saman dró úr umsvifum Landsverslunar eftir 1920 og var hún endanlega lögð niður 1927.

Landsyfirréttur. Stofnaður 1800 og var æðsti innlendi dómstóll landsins þar til Hæstiréttur var stofnaður 1919. Landsyfirréttur var jafnan til húsa í Reykjavík, fyrst í Hólavallaskóla (Suðurgötu 20) til 1807, þá í Austurstræti 4 til 1820, Austurstræti 22 frá 1820-1873 og loks í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.

Landsýn. Ferðaskrifstofa sem stofnuð var af nokkrum félögum í Æskulýðsfylkingunni árið 1961. Sérhæfði sig einkum í ferðum til Austanjárntjaldslanda. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Guðmundur Magnússon en árið 1963 keypti Kjartan Helgason ferðaskrifstofuna og rak hana eftirleiðis uns hún sameinaðist Samvinnuferðum árið 1978. Var fyrst til húsa á Þórsgötu 1 en síðan á ýmsum stöðum, lengst á Laugavegi 54 og Skólavörðustíg 16.

Landvörn. Stjórnmálafélag þeirra róttækustu í sjálfstæðisbaráttunni, stofnað 1902.

Langagróf. Gamall lækjarfarvegur eða hvilft milli Blesugrófar og Breiðholtshvarfs, sunnan við Elliðaár.

Langalína. Sjá Faxagarður.

Langastétt.  Sjá Austurstræti.

Langavatn. Langt og mjótt vatn sunnan Hafravatns og heyrir vestasti hluti þess undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Langavatnsheiði. Heiðin norðan við Langavatn. Vestasti hluti hennar tilheyrir jörðinni Reynisvatni.

Langavitleysa. Sjá Verbúðirnar við Grandagarð.

Lange Fortoug. Sjá Austurstræti.

Langholt. Lágur hæðarhryggur sem liggur vestan við Elliðaárvog, frá Laugarási austanverðum og suður undir austasta hluta Sogamýrar. Nafnið Laugarholt virðist einnig hafa verið notað um þennan hæðarhrygg ásamt Laugarási.

Langholt.  Torfbær á erfðafestulandi á Þvottalaugabletti 17 við Holtaveg, reistur árið 1918 af Haraldi Jónssyni. Stóð þar sem síðar kom húsið Lyngholt.

Langholt. Leikskóli sem var til árið 2011 þegar leikskólarnir Holtaborg í Sólheimum 21 og Sunnuborg í Sólheimum 19 sameinuðust.

Langholtshverfi.  Hverfið í kringum norðanverðan Langholtsveg, við Sundin og í austanverðum Laugarási.

Langholtskirkja. Kirkja Langholtssafnaðar í Sólheimum 11 og 13. Messað var fyrst í safnaðarheimili kirkjunnar eftir að það var risið 1960 en árið 1984 var kirkjan vígð. Arkitekt kirkjunnar er Hörður Bjarnason.

Langholtskjör. Matvöruverslun. Stofnuð 1989 og rekin til 2000 á Langholtsvegi 174, eftir það á Langholtsvegi 176.

Langholtsskóli

Langholtssöfnuður. Stofnaður 1952 og afmarkast sóknin af Holtaveg, Grensásveg og Miklubraut. Fyrsti sóknarpresturinn var séra Árelíus Níelsson.

Langholtsval. Kjöt- og nýlendurvöruverslun að Langholtsvegi 174. Stofnuð 1972 og rekin til 1989.

Langholtsvegur. Byrjað var að leggja þennan veg frá Kleppsvegi í atvinnubótavinnu á stríðsárunum fyrri.  Lagður alla leið að Suðurlandsvegi á þriðja áratug 20. aldar. Fékk nafn sitt 1928.

Langhylur. Veiðistaður í Elliðaám (Dimmu), rétt fyrir ofan Snókhólma. Meðan Englendingar áttu Elliðaárnar fyrir 1906 kallaðist þessi veiðistaður ásamt Mjóddum ofar í ánni Long Pool.

Langi Seli og skuggarnir. Rokkabilly-hljómsveit með rokk og pönkívafi, stofnuð 1986 og hefur starfað með hléum síðan. Undanfari hennar var hljómsveitin og listframleiðslufyrirtækið Oxsmá.  Stofnendur hennar voru Axel Jóhannesson (Seli), Jón Steinþórsson, Steingrímur Guðmundsson og Kormákur Geirharðsson.

Langibar. Adlonbar (sjá) og veitingastaður í viðbyggingu við Aðalstræti 8. Settur á stofn af Siulla og Valda um 1946 og hét upphaflega Adlon Soda Fountain en síðar jafnan nefndur Langibar. Stundum einnig kallaður Járnbrautarvagninn eða Ormurinn langi. Varð samkomustaður stælgæja og drykkjumanna. Rekstrinum var hætt 1960.

Langitangi. Tangi við sjóinn suðaustan við Kaplaskjól, nærri Ægissíðu.

Langmói/Kermói

La Primavera. Ítalskur veitingastaður í Austurstræti 9, opnaður 1993.

Las Vegas. Skemmtistaður og diskótek sem rekið var á Grensásvegi 12 á árunum 1965-1971. Stofnað að tilhlutan Rolfs Johansen, Jóns H. Magnússar og Ásgeirs H. Magnússonar.

Latínuskólinn. Sjá Menntaskólinn í Reykjavík.

Lauf. Félag flogaveikra, stofnsett 1984. Í félaginu er fólk með flogaveiki, fjölskyldur þess, vinir og heilbrigðisstarfsmenn. Hefur aðsetur í Hátúni 10b.

Laufás. Timburhús á horni Laufásvegar og Bragagötu, reist af Þórhalli Bjarnarsyni og Valgerði Jónsdóttur árið 1896. Nefnt eftir Laufási við Eyjafjörð. Framan af var mikill búskapur stundaður í Laufási. Áður var á þessum stað lítið kot sem hét Móhús. Laufásvegur er kenndur við húsið.

Laufás. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf), húsið stendur enn fyrir neðan Stekkjarbakka, skammt fyrir austan Gilsbakka.

Laufásborg. Leikskóli á Laufásveg 53 og 55. Upphaflega eitt af barnaheimilum Barnavinafélagsins Sumargjafar, tekið í notkun 1952. Fyrsta forstöðukona þess var Þórhildur Ólafsdóttir.

Laufásvegur. Nær frá Bókhlöðustíg í norðri suður að Barónsstíg en áður fyrr náði hann alveg suður undir Öskjuhlíð. Upphaflega var lögð gata um 1870 suður að Skálholtskoti (Skálholtsstíg) sem kölluð var Skálholtsvegur eða Skálholtsgata. Eftir að býlið Laufás kom 1896 var gatan lengd þangað og kölluð Laufásvegur.

Laufholt. Hús við Ásveg 17, erfðafestuland.

Laufskálar. Húsið Álfheimar 35, byggt árið 1939 af þeim Vilhjálmi Bjarnasyni og Elínu Kristjánsdóttur.

Laufskálar. Leikskóli við Laufrima 9 í Grafarvogi, teiknaður af Albinu Thordarsen. Tekin í notkun 1996 og var Lilja Björk Ólafsdóttir fyrsti leikskólastjórinn.

Lauftún. Hús við Grandaveg.

Laug. Þvottahúsið. Stofnsett 1946 af Guðjóni Ólafssyni, Ingólfi Árnasyni og fleirum. Var til húsa á Laugavegi 84 til 1954 en eftir það á Laugavegi 48B til um 1970.

Laug. Tvílyft timburhús við Reykjavíkurveg 31 í Skerjafirði, byggt árið 1930.

Lauga-ás. Veitingahús á Laugárásvegi 1. Opnað 1979 af þeim Ragnari Guðmundssyni og Gunnlaugi Heiðarssyni.

Laugaborg

Laugaból. Býli á erfðafestulandi á Þvottalaugabletti 5a við Þvottalaugaveg, rétt austur af Þvottalaugunum. Þar var stundaður búskapur til ársins 1987.

Laugabrekka. Hús á erfðafestulandi á Þvottalaugabletti 2 við Suðurlandsveg. Reist árið 1917 af Grímúlfi H. Ólafssyni. Stóð við Suðurlandsbraut, beint fyrir ofan Laugardalshöllina. Búskapur var þar til ársins 1965 en húsið var rifið 1977.

Laugafell. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Laugaholt. Hús við Laugarásveg neðanverðan, rifið 1986.

Laugahúsið

Laugahóll. Hóll við Þvottalaugarnar í Laugardal.

Laugahvarf. Hús á erfðafestulandi á Kleppsmýrarbletti 2, tilheyrði síðar Langholtsvegi 91

Laugahvoll. Hús á erfðafestulandi á Laugamýrarbletti 13 við Laugarásveg

Laugaland.  Hús sem Jón Guðnason og Ólafur Jónsson reistu rétt austan við Þvottalaugarnar í Laugardal árið 1892. Þar var búskapur allt til um 1980.

Laugalækjarskóli. Stofnaður 1960 sem grunnskóli við Laugalæk 2. Eftir 1969 hét hann Gagnfræðaskólinn við Laugalæk í nokkur ár. Frá 1975 voru framhaldsdeildir við skólann og  útskrifaðir stúdentar frá skólanum 1979. Eftir það varð hann á ný grunnskóli á gagnfræðastigi.

Laugalækur. Íbúðarhús Ágústs Jónssonar, reist á þriðja áratug 20. aldar á erfðafestulandi á Vatnagarðabletti 3, tilheyrði síðar Kleppsvegi.

Laugalækur. Lækur sem rann úr Þvottalaugunum um Laugamýri og til sjávar á Kirkjusandi. Settur í stokk 1949 en samnefnd gata fékk nafn sitt árið 1954.

Laugamýrarblettir. Yfir 30 erfðafestulönd á fyrri hluta 20. aldar á svæði sem afmarkaðist af Laugarnesi í norðri en voru báðum megin Laugarásvegar og niður í Laugardalinn allt að Langholtsvegi í austri.

Laugamýri. Sjá Laugardalur.

Laugar. Heilsu- og sundmiðstöð á vegum World Class á Sundlaugaveg 30a. Opnuð af Birni Kr. Leifssyni og fjölskyldu árið 2003. Þar er auk heilsuræktar spa, snyrti- og nuddstofa, veitingastaður, hárgeiðslustofa og sjúkraþjálfun. Ennfremur samstarf við Reykjavíkurborg um úti- og innisundlaug.

Laugarás. Upphaflega heiti á stórum hól á norðurenda Langholts. Nú yfirleitt notað um ásinn upp og austur af Laugardal sem áður var ýmist kallaður Laugarholt eða var talinn hluti Langholts.

Laugarás. Smábýli við horn Múlavegar og Laugarásvegar. Reist árið 1918

Laugarás. Kjörbúð að Laugásvegi 1, stofnuð 1959 af Hreini Sumaliðasyni og Sigþóri J. Sigþórssyni og rekin til 1969. Ný verslun með þessu nafni var svo opnuð að Norðurbrún 2 árið 1967 og rekin til 1991.

Laugarásbíó. Byggt í tengslum við Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna, í Laugarási og opnað 1957. Bíóið er í eigu dvalarheimilisins og ágóðinn rennur til þess.

Laugarásblettir. Um 20 erfðafestulönd á fyrri hluta 20. aldar sem voru efst í Laugarási.

Laugarásvegur. Liggur sunnan og vestn við Laugarás milli Langholtsvegar og Sundlaugavegar. Nafn götunnar var ákveðið 1930.

Laugarásvídeó. Myndbandaleiga, stofnsett 1986 af Gunnari Jósefssyni.Til húsa á Dalbraut 1.

Laugardalsgarður. Skrúðgarður í norðaustanverðum Laugardal sem upphaflega var einkagarður, ræktaður af Eiríki Hjartarsyni sem reisti hafði sér húsið Laugardal árið 1929 á landskika við Engjaveg. Árið 1961 hafði Reykjavíkurborg keypt garðinn en það ár var hann gerður að almenningsgarði sem Reynir Vilhjálmsson hannaði.

Laugardalshöll. Íþrótta- og sýningarhús í Laugardal sem einnig hefur verið notað fyrir margvíslega atburði svo sem tónleika og heimsmeistaraeinvígið í skák árið 1972. Húsið, sem teiknað var af Gísla Halldórssyni, var tekið í notkun 1965 en stækkað mikið 2005. Fyrir byggingunni stóðu Reykjavíkurborg og Íþróttabandalag Reykjavíkur.

Laugardalslaug. Stór sundlaug með yfirbyggðri stúku við Sundlaugaveg 30. Teiknuð af Einari Sveinssyni, Bjarna Konráðssyni og Jes Einari Þorsteinssyni og tekin í notkun 1968. Síðar komu innilaug og fleiri mannvirki. Fyrsti forstöðumaður Laugardalslaugar var Ragnar Steingrímsson.

Laugardalsvöllur. Íþróttaleikvangur sem markaði upphaf núverandi íþróttamannvirkja í Laugardal og varð þjóðarleikvangur Íslands. Knattspyrnuvöllurinn var tekinn í notkun 1957 en völlurinn formlega vígður 1959. Fyrsti vallarstjórinn var Baldur Jónsson. Síðan hafa bæst við mikil mannvirki, stúkur með sætum og fleira. Völlurinn tekur nú 10 þúsund manns í sæti en 15 þúsund manns alls.

Laugardalur. Íbúðarhús Eiríks Hjartarsonar rafvirkja og Valgerðar Halldórsdóttur á erfðafestulandi á Engjavegi (Þvottalaugarblettur 15), reist árið 1929 og stendur enn. Þau hjónin hófu mikla skógrækt á lóðinni og þar er nú Grasagarður Reykjavíkur.

Laugardalur. Hvilftin milli Kleppsholts, Laugarás og Grensás þar sem nú er íþrótta- og útivistarsvæði Reykvíkinga. Hét áður Laugamýri en nafnið Laugardalur kemur fyrst fyrir um 1910.

Laugargnípa. Örnefni upp af bænum Esjubergi á Kjalarnesi.

Laugarholt. Sjá Laugarás og Langholt.

Laugarmýrarblettir

Laugarmýri. Var rétt niður af gömlu Sundlaugunum, niður með Laugalæknum.

Laugarnes. Nesið milli Kirkjusands og Viðeyjarsunds. Þar var samnefndur bær frá landnámstíð og kirkjustaður snemma. Biskupssetur var í Laugarnesi 1825-1856.  Reykjavíkurbær keypti jörðina Laugarnes 1885 og árið 1894 var hún lögð undir lögsagnarumdæmið. Síðustu bæjarhúsin í Laugarnesi voru rifin 1987 en bæjarhóllinn stendur enn og má ennfremur sjá móta þar hjá fyrir kirkjugarði.

Laugarnesapótek. Stofnsett 1964 af Christian Zimsen. Alla tíð á Kirkjuteigi 21.

Laugarnesblettir. Örfá erfðafestulönd á fyrri hluta 20. aldar í Laugarnesi, norðan Kleppsvegar.

Laugarnesbúðin. Nýlenduvöruverslun að Laugarnesvegi 52, starfrækt frá um 1955 til 1975.

Laugarneshverfi. Byggðist á löngum tíma frá um 1925 til um 1980. Fyrsti byggðarkjarninn myndaðist við Laugarnesveg en síðan kom Kleppsvegur, Teigar og Lækir sem hluti hverfisins. Hverfið var svo skipulagt 1954.

Laugarneskampur. (Laugarnes Camp) Braggahverfi frá stríðsárunum á Laugarnestanga. Þar voru 75 braggar árið 1952 og bjuggu 318 Íslendingar í þeim þegar flestir voru. Búið var í leifum af kampnum fram yfir 1980.

Laugarneskirkja. Kirkja við bæinn í Laugarnesi, fyrst getið um 1200. Lögð niður 1794 en enn má sjá móta fyrir rúst torfkirkjunnar sem síðast var þar. Síðar var samnefnd kirkja reist við Kirkjuteig og var hún vígð 1949. Arkitekt hennar var Guðjón Samúelsson.

Laugarneskirkjugarður. Forn kirkjugarður sunnan í gamla bæjarhólnum á Laugarnesi. Hann er ferhyrndur og sést enn móta fyrir sáluhliði á vesturvegg hans. Hann er friðlýstur sem fornminjar.

Laugarneskjör. Matvöruverslun í Prentarablokkinni að Laugarnesvegi 116. Rekin frá 1967 til 1999.

Laugarneslaugar. Sjá Þvottalaugar.

Laugarnesskóli. Grunnskóli við Kirkjuteig 24, reistur á árunum 1934-1945 og var arkitekt hans Einar Sveinsson. Fyrsti skólastjórinn var Jón Sigurðsson.

Laugarnesspítali. Sjá Holdsveikraspítalinn í Laugnarnesi.

Laugarnesstofa. Embættisbústaður biskupsins yfir Íslandi, reistur árið 1825, rétt þar hjá sem nú er Sigurjónssafn. Þar sátu biskuparnir Steingrímur Jónsson og síðan Helgi Thordersen um tíma. Eftir 1860 drabbaðist húsið niður og árið 1882 var það rifið að miklu leyti og 1898 var rústin endanlega jöfnuð við jörðu.

Laugarnessöfnuður. Stofnaður 1940. Fyrsti sóknarprestur hans var séra Garðar Svavarsson. Helstu mörk Laugarnessóknar eru Nóatún, Suðurlandsbraut og Dalbraut.

Laugarnesvegur. Upphaflega lagður frá Laugavegi niður að Holdsveikraspítala á Laugarnesi árið 1898, hét til að byrja með Spítalavegur. Laugarnesvegur nær nú frá Kleppsvegi og suður undir Kringlumýrarbraut þar sem hann endar í botnlanga.

Laugarnestangar. Tangarnir sem skaga í sjó fram yst á Laugarnesi.

Laugatunga, hús á erfðafestulandi á Engjavegi (Þvottalaugarblettur 13), merkt á kortið 1947.

Laugavegsapótek. Stofnsett 1919 af Stefáni Thorarensen og starfrækt til ársins 2000. Fyrstu árin á Laugaveg 18 en frá 1924 á Laugavegi 16.

Laugavegssamtökin. Hagsmunaamtök kaupmanna og eigenda annarra atvinnufyrirtækja við Laugaveg og nágrenni, stofnuð árið 1974. Gengu í Miðborgarsamtök Reykjavíkur árið 1997 og voru eftir það undirdeild í þeim.

Laugavegur. Nær frá mótum Bankastrætis og Skólavörðustígs að Kringlumýrarbraut. Lega götunnar var ákveðin 1885 en áður náði götuspotti frá Bankastræti að núverandi Vegamótastíg sem kallaður var Vegamótastígur eða Vegamótabrú. Laugavegur var svo lagður alla leið inn að Þvottalaugum (í Laugardal) á árunum 1885-1890 og dregur hann nafn sitt af þeim. Varð þegar tímar liðu ein mesta umferðar-, íbúa og verslunargata Reykjavíkur.

Laugavegur 11. Adlon-bar (sjá) og veitingastaður sem kaupmennirnir Silli og Valdi settu á stofn á Laugavegi 11 um 1950. Oft kallaður einungis Ellefu. Staðurinn varð einkum frægur fyrir að þar héldu til langtímum saman bóhemar og listamenn. Rekstrinum var hætt 1960.

Laundromat Café. Barnvænt kaffihús og þvottahús í senn. Friðrik Weisshappel opnaði slíka staði í Kaupmannahöfn sem voru nýjung og gengu vel. Frá 2011 hefur hann einnig rekið slíkan stað í Austurstræti 9.

Laxalón. Fiskeldisstöð í landi Grafarholts við Vesturlandsveg, síðar við Krókháls. Stofnuð af Skúla Pálssyni árið 1950 og rekin til 1990. Þar var ræktaður regnbogasilungur og lax.

Lág. Hús við Baldurshaga.

Lágholt. Bær á Bráðræðisholti, reistur af Guðmundi Ingimundarsyni. Við hann er Lágholtsvegur kenndur. Árið 1907 var reist samnefnt timburhús á lóðinni.

Lágholt. Holtið vestur upp af Ölduselsskóla í Breiðholti.

Lágholtstangi. Tangi út í sjóinn við Bráðræðisholt, nú horfinn undir uppfyllingar.

Lágholtsvegur. Lítil gata á Bráðræðisholti sem gengur í vestur frá Framnesvegi, upphaflega lá hún að tómthúsbýlinu Lágholti og er nefnd svo þegar um 1903.

Lákabær. Sjá Grímsbær.

Lárus G. Lúðvígsson. Skóverslun og skóvinnustofa. Upphaflega stofnað sem skóvinnuverkstæði 1877 en Lárus hóf síðan innflutning á skóm og verslun hans varð einhver sú öflugasta á sínu sviði í Reykjavík. Verslunin var fyrst til húsa á Laugavegi 5 en flutti skömmu síðar á Skólavörðustíg 5. Árið 1892 flutti Lárus starfsemi sína í nýbyggt hús við Ingólfsstræti 3 og enn árið 1908 í nýbyggt hús við Þingholtsstræti 2. Þar var verslunin til 1929 en flutti þá í nýtt og glæsilegt húsnæði í Bankastræti 5.Verslunin hætti 1964.

Lárusarhús. Sjá Snússa.

Leðurgerðin. Hanska- og kventöskugerð, stofnuð 1937 af Arnbirni Óskarssyni. Var til húsa á Hverfisgötu 4 en flutti í Borgartún 3 um 1942. Sameinaðist Skóverksmiðjunni Þór árið 1948 og flutti sameinað fyrirtæki á Laugaveg 105. Var síðustu árin í Skipholti 27 en hætti 1964.

Leðurverslun Jóns Brynjólfssonar. Stofnsett 1903 í Austurstræti 3 og var þar til húsa allt til ársins 1979. Flutti síðan í Bolholt 1 og var þar (?) starfrækt til 1990.

Leðurverslun Magnúsar Víglundssonar. Heildsala og smásala. Stofnuð um 1942 og rekin til um 1966. Var til húsa í Garðastræti 37.

Leiðhamrar. Í landi Mógilsár í Kollafirði.

Leiðtjörn. Í landi Mógilsár í Kollafirði.

Leiðvöllur. Í landi Mógilsár í Kollafirði, nú að mestu horfinn vegna malartekju og síðan vegargerðar. Þar er talið að þing hafi staðið til forna.

Leifsstaðir. Hús við Kaplaskjólsveg

Leifsstaðir. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Leifsstyttan

Leiftur. Prentsmiðja og bókaútgáfa. Bókaútgáfan var stofnuð 1940(?) og rekin til um 1981 en prentsmiðjan á árunum 1946-1987.

Leigjendasamtökin. Stofnsett 1978 af hópi leigjenda og var fyrsti formaður samtakanna Jón frá Pálmholti. Aðsetur þeirra var fyrst á Bókhlöðustíg 7 og síðan í Kvennahúsinu við Vallarstræti. Lögðust niður um hríð en voru endurreist 1989 undir forystu Jóns frá Pálmholti. Fengu þau ári síðar skrifstofu að Hafnarstræti 15 en fluttu 1991 í Alþýðuhúsið við Hverfisgötu 8-10 þar sem þau voru til 2001 en fluttu þá í Þverholt 15 og ári síðar að Hverfisgötu 105. Hættu að mestu starfsemi 2004-2005.

Leikfangahúsið. Upphaflega fataverslunin Bergshús, stofnuð um 1965 af Steinari Guðmundssyni og Jósíönu Sigríði Magnúsdóttur, en þróaðist fljótt yfir í leikfangaverslunina Leikfangahúsið. Var frá upphafi og lengst af á Skólavörðustíg 10 en síðustu tvö árin á Skólavörðustíg 8. Einnig um tíma í Iðnaðarmannahúsinu við Ingólfsstræti og Bankastræti 12. Hætti 1991.

Leikfélag andans. Sjá Kvöldfélagið.

Leikfélag Reykjavíkur. Stofnað 1897.

Leikgarður. Sjá Ásgarðar.

Leiklistarskóli Íslands. Stofnaður 1975 og var fyrsti skólastjóri hans Pétur Einarsson. Starfsemin hófst í Búnaðarfélagshúsinu í Lækjargötu 14B ásamt því sem skólinn hafði hluta gamla Miðbæjarskólans til afnota til ársins 1983. Árið 1986 fékk Leiklistarskólinn inni í gömlu Landsmiðjunni við Sölvhólsgötu 13. Skólinn starfaði til 1998 en gekk þá inn í nýstofnaðan Listaháskóla Íslands.

Leiklistarskóli Lárusar Pálssonar.

Leiklistarskóli leikhúsanna.

Leiklistarskóli Ævars Kvaran.

Leiklistarskóli Sambands áhugamanna um leiklist (SÁL). Starfaði á árunum 1972-1975 sem eins konar undanfari Leiklistarskóla Íslands.

Leikminjasafn íslands

Leiknir, íþróttafélag

Leikskólar Reykjavíkur. Sérstök deild innan Félagsmálastofnunar Reykjavíkur varð til 1978 þegar Reykjavíkurborg tók við rekstri leikskóla í Reykjavík af Barnavinafélaginu Sumargjöf. Kallaðist hún Dagvist barna. Fyrsti forstöðumaður deildarinnar var Bergur Felixson. Nafninu var breytt í Leikskóla Reykjavíkur árið 1999 og varð þá sérstök borgarstofnun. Árið 2005 voru Leikskólarnir sameinaðir Fræðslumiðstöð Reykjavíkur undir nafninu Menntasvið Reykjavíkurborgar.

Leikskólasvið Reykjavíkurborgar

Leikskóli Lárusar Pálssonar

Leikskóli Soffíu Guðlaugsdóttur

Leiksport. Íþróttavöruverslun sem auk þess er með ritföng og leikföng á boðstólum. Stofnsett af  Braga Björnssyni árið 1990 og hefur frá upphafi verið til húsa í Hólagarði, Lóuhólum 2-6.  Sérhæfir sig í vörum fyrir íþróttafélögin ÍR og Leikni.

Leirdalur.  Dalverpi suðvestur af Reynisvatni, rétt neðan götunnar Þorláksgeisla í Grafarholti.

Leirtjörn. Lítið vatn sunnan Úlfarsfells.

Leirvogsá. Á sem rennur úr Leirvogsvatni og afmarkaði Kjalarneshrepp (nú Reykjavík) frá Mosfellsbæ að sunnanverðu. Áin rennur í Leirvog.

Leirvogsvatn. Allstórt stöðuvatn, rétt við veginn til Þingvalla á móts við Stardal. Þar eru mót Kjalarneshrepps (nú Reykjavíkur) og Mosfellsbæjar.

Leirvogur. Vogur sem gengur inn í landið austur af Geldinganesi. Í hann rennur Leirvogsá sem skilur að Kjalarnes og Mosfellsbæ.

Leitahraun. Rann fyrir um 4500 árum úr eldgígnum Leitum. Hraunið rann niður á Sandskeið og þaðan kmeð farvegum Hólsár og síðan Elliðaá allt fram í sjó í Elliðavogi. Í eldgosinu mynduðust Rauðhólar þegar hraunið rann yfir votlendi.

Leiti. Eldgígur suðaustur undir Bláfjöllum. Úr honum rann Leitahraun.

Leonardo. Gjafavöruverslun með úr, skartgripi og fleira. Stofnsett af Sævari Jónssyni 1991 og var fyrst í Borgarkringlunni en síðan í Kringlunni. Frá 2011 hefur einnig verið verslun að Lækjargötu 2. Einnig eru Leonardo-verslanir í Kópavogi og á Keflavíkurflugvelli.

Leshús. Forlag sem Þorgeir Þorgeirson rithöfundur stofnaði 1988 og rak til dauðadags 2003. Endurvakið af ekkju hans Vilborgu Dagbjartsdóttur um hríð eftir 2007. Til húsa á Bókhlöðustíg 6B, bakhúsi.

Lestamannabrú. Sjá Bakarabrú.

Lestarróló. Róluleikvöllur við Bakkasel og Akrasel í Breiðholti.

Lestrarfélag Kjalnesinga. Komið til sögu árið 1900 og var enn starfandi 1916. Endurvakið eftir 1929 (athuga)

Lestrarfélag kvenna. Stofnað 1911 af konum í Kvenréttindafélagi Íslands og var það síðan með lesstofu fyrir konur á ýmsum stöðum í Reykjavík á næstu áratugum auk þess sem það rak lesstofu barna frá 1912-1937. Gekkst fyrir skemmtunum og gaf úr félagsblaðið Mánaðarritið um tveggja áratuga skeið. Laufey Vilhjálmsdóttir var formaður félagsins frá upphafi til dauðadags 1960 en félagið var lagt niður 1961.

Lestrarfélag Reykjavíkur. Stofnað 1869 til kaupa á erlendum bókum fyrir félagsmenn sína. Aðalstofnendur félagsins voru Preben Hoskjær stiftamtmannsfulltrúi, Helgi E. Helgesen barnaskólastjóri og Jónas Jónassen læknir.  Félagið starfaði til 1915.

Leynimýrarblettir. Fáein erfðafestulönd á fyrri hluta 20. Aldar í suðaustanverðri Öskjulhlíð vestan hafnarfjarðarvegar.

Leynimýri.  Mýri í suðaustanverðri Öskjuhlíð, norðan við Fossvogskirkjugarð. Jónatan Þorsteinsson byggði býli á erfðafestulandi í mýrinni 1911 og kallaðist það Leynimýri. Var þar rekinn búskapur til um 1950.

Léttsveit Reykjavíkur. Kvennakór sem upphaflega var stofnaður 1995 sem Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur. Varð sjálfstæð söngsveit 2000 og hefur starfað síðan undir stjórn Jóhönnu V. Þórhallsdóttur

Light Nights. Sumarleikhús og ferðaleikhús fyrir erlenda ferðamenn, sett á stofn af Kristínu Magnús Guðbjartsdóttur og fleirum sumarið 1970. Sýnt var í Glaumbæ fyrstu tvö árin, síðan á Hótel Loftleiðum til 1979, þá á Fríkirkjuveg 11 1980-1982, Tjarnarbíói 1983-2001, Hlaðvarpanum  2002 en frá 2003 í Iðnó.

Liljubúð. Vefnaðarvöruverslun að Bergstaðastræti 55. Stofnuð af Guðfríði Lilju Benediktsdóttur og rekin á árunum 1951-1983.

Lindarás. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Lindarborg. Leikskóli, sem tók til starfa árið 1994 í tveimur gömlum húsum, blikksmiðju að Lindargötu 26 og svokölluðu Smárahúsi á Veghúsastíg 5. Frá upphafi var lögð mikil áhersla á aðlögun nýbúabarna í leikskólanum. Fyrsti forstöðumaður skólans var Ragnheiður Halldórsdóttir. Árið 2011 var hann sameinaður Barónsborg og Njálsborg undir nafninu Miðborg.

Lindarbrekka. Bær við Vesturvallagötu 6, reistur af Halldóri Halldórssyni 1883. Núverandi timburhús á lóðinni með þessu nafni er frá árunum 1898-1905.

Lindarbrekka. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Lindarbrú. Brú yfir Lækinn gegnt Vonarstræti, kennd við Skálholtskotslind sem var þar austan við. Hvarf þegar Lækurinn var byrgður árið 1912.

Lindarbær. Steinbær við Lindargötu 39, reistur árið 1897 af Sigurði Jónssyni. Löngu horfinn. Samnefnt timburhús á lóðinni var reist 1898.

Lindarbær. Torfbær við Vatnsstíg 16, reistur 1875 af Jóni Jónssyni. Rifinn fyrir aldamótin 1900.

Lindarbær.  Húsið Lindargata 9 fékk þetta nafn eftir að Verkamannafélagið Dagsbrún og Sjómannafélag Reykjavíkur eignuðust það og tóku í notkun eftir miklar breytingar árið 1964. Í húsinu var einnig samnefndur samkomu- og leikhússalur þar sem árum saman var rekið Nemendaleikhúsið auk ýmis konar skemmtanahalds. Ennfremur hafði Alþýðuleikhúsið þar leiksýningar um árabil. Salurinn var tekinn til annarra þarfa árið 1999.

Lindargata. Liggur í Skuggahverfi milli Ingólfsstrætis og Vitastígs. Gatan var lögð árið 1895 og kennd við eitt helsta vatnsbólið í Skuggahverfi, Móakotslind, sem var nálægt gatnamótum Vatnsstígs.

Lindargötuskóli. Sjá Gagnfræðaskólinn við Lindargötu.

Lindarhús. Hús við Vesturvallagötu 4. Reist árið 1900 af hjónum Eiríki Eiríkssyni og Sesselja Guðmundsdóttur og stækkað af þeim árið 1917.

Lindsay. Heildsala, stofnuð af Skotanum John Lindsay árið 1926. Sérhæfir sig í innflutningi matvæla og lyfja. Var til húsa í Austurstræti 14 allt til 1966. Síðan á ýmsum stöðum þar til flutt var í Skipholt 33 árið 1972. Þar var fyrirtækið til 2009 að flutt var að Klettagörðum 23.

Linsan. Gleraugnaverslun, stofnuð af Bergsteini Stefánssyni. Hefur verið starfrækt frá 1972-2014 í Aðalstræti 9.

Lionsklúbbur Reykjavíkur. Fyrsti lionsklúbburinn á Íslandi, stofnaður 1951 fyrir forgöngu Magnúsar Kjaran stórkaupmanns sem var fyrsti formaður klúbbsins. Síðan hafa fjölmargir lionsklúbbar verið stofnaðir í Reykjavík og víða um land. Byggist á alþjóðahreyfingu sem hóf göngu sína í Bandaríkjunum árið 1917 og byggir á vináttu, félagskap og að láta gott af sér leiða í mannúðar- og félagsmálum og öðrum þjóðþrifamálum. Heimili lionsmanna í Reykjavík er í Sóltúni 20.

Listabraut. Gata  milli Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar sem dregur nafn sitt af því að Borgarleikhúsið stendur við hana. Hét áður Háaleiti en fékk þetta nafn um 1985.

Listaháskóli Íslands. Hóf starfsemi 1999 og tók við hlutverki skóla á borð við Myndlista- og handíðaskólann og Leiklistarskóla Íslands. Fyrsti skólameistari var Hjálmar H. Ragnarsson. Kennsla í Listaháskólanum fer fram á þremur stöðum. Í Þverholti 11 fer fram nám í hönnun og arkitektúr, að Laugarnesvegi 91 í myndlist og listkennslu og að Sölvhólsgötu 13 í sviðslistum og tónlist.

Listahátíð í Reykjavík. Sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt samningi milli Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Aðalhvatamaður hátíðarinnar í upphafi var Vladimir Askenazy og varð hún til í samvinnu Bandalags íslenskra listamanna, borgar og ríkis. Fyrsta hátíðin var haldin 1970 en síðan á tveggja ára fresti til 2004 en síðan þá á hverju ári.

Listamannaklúbburinn. Stofnaður 1955 að frumkvæði Bandalags íslenskra listamanna og undir forystu Jóns Leifs. Samkomustaður hans var fyrsta árið í Þjóðleikhúskjallaranum en síðan í Naustinu. Hætti starfsemi um 1960.

Listamannaskálinn.  Stór sýningarskáli úr timbri, reistur að frumkvæði Félags íslenskra myndlistarmanna við vesturhlið Alþingishússins og tekinn í notkun 1944. Var næstu áratugi eitt helst sýningarhúsnæði í Reykjavík. Auk myndlistarsýninga fóru þar fram hlutaveltur, vörusýningar, skákmót, dansleikir, bókamarkaðir og margt fleira. Rifinn árið 1968.

Listasafn ASÍ. Stofnað 1961 þegar Ragnar Jónsson í Smára gaf Alþýðusambandi Íslands listaverkasafn sitt. Fyrstu húsakynni safnsins voru að Laugavegi 18 en árið 1971 flutti það að Laugavegi 31. Á árunum 1980-1996 var safnið í eigin húsakynnum að Grensásvegi 16 en síðan í Ásmundarsal við Freyjugötu 41.

Listasafn Ásmundar Sveinssonar. Sjá Ásmundarsafn.

Listasafn Einars Jónssonar. Bygging þess á Skólavörðuholti hófst árið 1915 en það var fyrst opnað almenningi 1923. Listasafnið var jafnframt heimili myndhöggvarans meðan hann lifði. Ennig nefnt Hnitbjörg. Í garðinum er höggmyndagarður sem er opinn almenningi.

Listasafn Íslands. Stofnað í Kaupmannahöfn árið 1884 af Birni Bjarnarsyni. Stofn safnsins voru gjafir listamanna, einkum danskra. Listasafnið var sjálfstæð stofnun til 1916 en þá var það gert að deild í Þjóðminjasafninu og var svo til 1961 að það var aftur gert sjálfstætt. Myndir Listasafnsins voru til sýnis í Alþingishúsinu til 1950 en þá fengi þær rými í nýbyggingu Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Árið 1887 flutti Listasafn Íslands í eigið húsnæði að Fríkirkjuvegi 7. Stofn þess hús er íshús, teiknað af Guðjóni Samúelssyni 1916 en nýbyggingu við safnhúsið teiknaði Garðar Halldórsson.

Listasafn Reykjavíkur. Reykjavíkurborg opnaði eigin myndlistarhús á Kjarvalsstöðum árið 1973 og var þar með kominn vísir að Listasafni Reykjavíkur sem varð að samheiti yfir listaverkaeign borgarinnar. Undir það heyrðu m.a. útlistaverk og síðar Ásmundarsafn á Laugarnestanga og Errósafnið. Kjarvalsstaðir breyttust úr listaskála í listasafn með margvíslegri starfsemi. Þáttaskil urðu árið 1998 þegar hluti Hafnarhússins í Reykjavík var tekinn undir Listasafn Reykjavíkur. Breytingar á húsinu sem þessu fylgdu voru gerðar af Margréti Harðardóttur og Steve Christer. Listasafn Reykjavíkur er nú stærsta listasafn landsins.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Stofnsett 1984 af Birgittu Spur, ekkju Sigurjóns á Laugarnestanga 70 þar sem heimili þeirra og vinnustofa hans hafði staðið allt frá árinu 1945.

Listaskemma LR á Meistaravöllum. Sjá Fiskverkunarstöð BÚR.

Listdansskóli Íslands. Stofnaður 1952 undir nafninu Listdansskóli Þjóðleikhússins sem hann bar allt til ársins 1990. Fyrsti skólastjórinn var Guðlaugur Rósenkranz en fyrsti ballettmeistarinn Erik Bidsted. Eftir 1990 varð skólinn óháður Þjóðleikhúsinu og flutti þá að Engjateig 1 þar sem hann hefur verið síðan. Fram til 2006 var hann ríkisrekinn en frá þeim tíma hefur hann verið rekinn af einkafyrirtækinu Dansmennt.

Listfélag Langholtskirkju.

Listhúsið. Raðhús að Engjavegi 17-19, byggt að frumkvæði Tryggva Árnasonar myndlistarmanns árið 1987 og var upphaflega áætlun að skapa húsnæði fyrir myndlistarmenn með íbúðum, vinnustofum og sýningaraðstöðu. Auk sýningarsala hafa þar verið kaffihús, rammaverkstæði og fleira.

Listhús og gullsmiðja Ófeigs. Starfrækt á Skólavörðustíg 5 frá 1992 undir stjórn Ófeigs Ófeigssonar gullsmiðs og Hildar Bolladóttur kjólameistara.

Listmunahúsið. Myndlistargallerí , stofnað 1979 af Knúti Bruun og var til húsa í Lækjargötu 2 til 1986. Það var endurvakið í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17 á árunum 1992-1994 og um skeið árið 2004 var Listmunahúsið í Síðumúla 34.

Listmunauppboð Sigurðar Benediktssonar. Hófust árið 1953 og voru hin fyrstu sinnar tegundar á Íslandi. Sarfrækt til um 1997.

Listverslun Kristínar Þorvaldsdóttir.  Fyrsta verslun sinnar tegundar á landinu, rekin á árunum 1908-1936. Lengst af var verslunin í Kirkjustræti 4.

Listvinafélag Íslands. Stofnað árið 1916 af ýmsum áhugamönnum til að styrkja listamenn, fræða almenning og halda sýningar. Hélt árlega myndlistarsýningar, eftir 1922 í eigin húsi, Listvinahúsinu. Félagið hætti starfsemi 1927.

Listvinahúsið.  Sýningarhús, reist af Listvinafélaginu árið 1922, og var í því fyrsti myndlistarsalur landsins. Stóð á Skólavörðuholti þar sem nú er viðbygging Iðnskólans. Frá 1927 var í húsinu Leirmunagerð Guðmundar Einarssonar frá Miðdal. Eftir að húsið var rifið árið 1964 fluttist Leirmunagerðin að Skólavörðustíg 43 þar sem hún er enn rekin undir nafni Listvinahússins.

Litir og lökk. Málningarverksmiðja, stofnsett af nokkrum málarameisturum og kaupmönnum árið 1936. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Pétur Ó. Johnson. Var til húsa í Einholti 8. Sameinaðist Hörpu árið 1948 en var þó áfram rekið sem systurfélag næstu áratugi.

Litla Bakkabúð. Sjá Bakkabúð.

Litla bílastöðin. Leigubílastöð, stofnuð af þeim Þorsteini Þorsteinssyni og Gils Sigurðssyni árið 1927. Oft kölluð Litlibíll. Var fyrst í litlum timburskúr hjá Hótel Heklu við Lækjartorg en síðan í nýbbyggingu á baklóð Hafnarstrætis 22. Starfsemin var flutt í nýbyggingu á Hlemmtorgi 1945 en stöðin hætti starfsemi 1951 þegar húseignin var seld Hreyfli.

Litla Bjarg. Hús við Nesveg.

Litla blikksmiðjan. Stofnsett 1942 af þeim Vilhelm Davíðssyni og Ragnari Guðlaugssyni. Var fyrsta árið til húsa á Bræðraborgarstíg 14 en flutti síðan á Nýlendugötu 23 um skeið en síðan á Nýlendugötu 21A þar sem hún var til 1962. Síðustu árin var hún rekin á Laugarnesvegi 69 en hætti 1967.

Litla blómabúðin. Stofnsett 1932 af Jóhönnu Zoëga. Var fyrsta árið á Laugaveg 8, síðan á Skólavörðustíg 2 frá 1933-1938 og loks í Bankastræti 14 frá 1938-1971.

Litla Brekka. Torfbær á Grímsstaðaholti, stóð út í Suðurgötu, nálægt þar sem hjónagarðar eru nú, reistur árið 1918. Þar fæddist og bjó nær alla sína tíð Eðvarð Sigurðsson formaður Verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar og alþingismaður. Bærinn var rifinn 1981 og var síðasti torfbærinn í Reykjavík sem búið var í. Áður var eldri torfbær með sama nafni á lóðinni frá árinu 1886.

Litla Brekka. Smábýli í sunnanverðri Þvottalaugamýri í Laugardal, reist árið 1919.

Litla brú. Steinbær, reistur árið 1885 af Jens Jóhannessyni. Tilheyrði Kasthúsatorfunni að Laugavegi 26. Rifinn um 1959.

Litla búðin. Tóbaks- og sælgætisverslun í Þingholtsstræti 1, stofnuð um 1915 af Þorsteini J. Sigurðssyni, síðar kaupmanni í Bristol. Rekin þar til 1919 en eftir það í Austurstræti 17 til um 1928.

Litla Eiðssker. Sjá Eiðssker.

Litla Glasgow

Litla Grund. Torfbær á Bergstaðastræti 16, reistur 1856 af Ólafi Einarssyni. Í stað hans kom steinbær árið 1889 sem stóð til 1957.

Litla Grund. Sjá Grund.

Litla kaffistofan. Stofnsett upp úr 1920 af Hannesi Kristinssyni. Var fyrstu árin á Laugavegi 6 en fluttist að Bergstaðastræti 1 árið 1924. Árið 1928 var Hannes kominn með kaffistofu sína að Laugavegi 24c og eftir 1930 að Laugavegi 42 (Frakkstígsmegin). Var hún þá einungis kölluð Kaffi- og billiardstofan.

Litla Klöpp. Steinbær á Klapparstíg 35, reistur af Magnúsi Pálssyni 1882. Einnig nefndur Efri Klöpp. Hann mun síðar hafa verið Grettisgata 1A. Löngu horfinn.

Litla leikhúsið. Starfaði í 4 ár um 1930 og sýndi barnaleikrit.

Litla Selsvör. Sjá Selsvarir.

Litla Skildinganes. Hjáleiga frá jörðinni Skildinganes, getið í manntali 1703. Kann að hafa verið sama kot og síðar var kallað Margrétarkot, rétt fyrir neðan Reynistað.

Litla Skipholt. Timburhús að Framnesvegi 68, að stofni til frá 1902, þá reist af Birni Kristjánssyni. (athuga)

Litla Steinsholt. Torfbær reistur 1879 af Hermanni Guðmundssyni þar sem nú er Holtsgata 23. Hann reif bæinn og reisti steinbæ í staðinn 1894 og stóð hann til 1956.

Litla Sölvasker. Sjá Sölvasker.

Litla vörubílastöðin. Stofnsett 1929 af Kristjáni Þorgrímssyni og fleirum. Hafði aðsetur í Hafnarstræti 23, Kalkofnsvegsmegin. Starfrækt til 1931.

Litla Öskjuhlíð. Sjá Litlahlíð.

Litlaberg. Sjá Suðurberg.

Litlabíó

Litlafell. Hús við Reykjanesbraut.

Litlagerði. Steinbær að Lindargötu 44, reistur fyrir 1888. Einnig nefndur síðar Tobíasarbær og Pálsbær. Rifinn 1980.

Litlahlíð. Nýbýli á erfðafestulandinu Sogamýrarbletti 9, byggt 1927. Íbúðarhús og gripahús við Grensásveg, stóðu enn 1961. Þau voru þar sem nú er suðausturhorn Grensásvegar og Miklubrautar.

Litlahlíð. Hæðardragið austan við Öskjuhlíð. Einnig nefnt Minni-Öskjuhlíð, Litla-Öskjuhlíð eða Golfskálahæð meðan Golfklúbbur Reykjavíkur hafði aðsetur þar.

Litlaholt. Torfbær sem stóð þar sem nú er Skólavörðustígur 17-19, reistur 1847 af Þorláki Péturssyni. Síðar einnig nefndur Þorláksbær. Rifinn um 1900.

Litlaholt. Bær við Grundarstíg.

Litlakjör. Matvöruverslun að Kaplaskjólsvegi 1

Litlaland. Lítið hús við Sundlaugaveg.

Litlaland. Steinbær við Lindargötu 9A, reistur 1889 af Guðrúnu Sigurðardóttur. Bærinn er löngu horfinn, líklega fyrir 1936.

Litlaland. Hús við Kaplaskjólsveg

Litlaland. Hús á erfðafestulandi á Vatnsmýrarbletti 21

Litlaland við Breiðholtsveg (1944)

Litlaland. Sjá Sólland.

Litlaland. Nýbýli frá um 1950 í landi Hólms norðaustur af bænum, norðan við Hólmsá, skammt sunnan við Suðurlandsveg,

Litlasel. Steinbær við Vesturgötu 61 sem enn stendur, reistur 1889 af Guðmundi Kristni Ólafssyni. Áður var þar torfbær, hjáleiga frá Seli sem fyrst er getið 1844.

Litli Arnarhóll. Sjá Arnarhólskot.

Litli Bakki. Lítið timburhús við Brunnstíg, síðar Mýrargötu 18, reist 1898 af Jóni Guðmundssyni og Kristínu Guðnadóttur. Rifið 1998. Einnig nefnt Jónsbakki.

Litli Foss. Sjá Heyvað.

Litli Garðbær. Sjá Garðbær.

Litli Hali. Sjá Hali.

Litli Hvammur. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Litli Hvammur. Hús á erfðafestulandi við Engjaveg (Þvottalaugarblettur 21).

Litli Hvammur. Tveir samliggjandi bæir með fjórum burstum, reistir á erfðafestulandi í Sogamýri árið 1919 af þeim Ingimundi Hallgrímssyni og Sumarliða Grímssyni. Stóðu þar sem nú eru Goðheimar 12. Bæirnir voru rifnir um eða eftir 1957.

Litli Kleppur. Sjá Skálholtskot.

Litli Melstaður. Timburhús við Grandaveg 32 á Bráðræðisholti, byggt 1907 af Guðmundi Pálssyni.

Litli Melur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Litli Skerjafjörður. Nafnið á hverfinu fyrir norðan vestur-austur flugbrautina á Reykjavíkurflugvelli, varð til eftir gerð vallarins 1940.

Litliás. Ás sem skagar fram austan Eiðsgrandans sem liggur í Geldinganes.

Litlibíll. Sjá Litla bílastöðin.

Litlibær. Steinbær á Bræðraborgarstíg 17, reistur 1890 af Jóni Oddssyni. Löngu horfinn.

Litlibær.  Tveir torfbæir með þessu nafni í Skuggahverfi þar sem síðar voru samliggjandi lóðir, Veghúsastígur 7 og Lindargata 28. Báðir bæirnir voru reistir skömmu eftir 1870. Annan reisti  Gissur Guðmundsson og var sá bær einnig kallaður Gissurargarður. Hinn reisti Rögnvaldur Rögnvaldsson. Bæirnir voru rifnir um eða upp úr1900.

Litlibær. Sjá Snússu.

Litlibær.  Torfbær í Grímsstaðaholti, reistur af Jónasi Benediktssyni 1878 en árið 1898 var reistur steinbær í hans stað af Halldóri Jónssyni. Var bærinn þá einnig kallaður Halldórsbær. Mikið hefur verið byggt við bæinn og tilheyrir hann nú Tómasarhaga 16b.

Litlibær. Torfbær sem reistur var af Gissuri Guðmundssyni upp úr 1870 þar sem síðar var Veghúsastígur 7. Stóð fram til um 1900.

Litlibær. Íbúðarhús við Ásveg, reist um 1930.

Litli Völlur. Steinbær við Brunnstíg, tilheyrði síðar Nýlendugötu 33. Rifinn eftir 1960.

Litlu Bergstaðir. Torfbær, reistur um 1850 þar sem nú er Bergstaðastræti 4. Rifinn nálægt aldamótum 1900.

Litlu Garðhús. Sjá Bakki.

Litlu Miðhús. Bær sem Ingiríður Einarsdóttir reisti 1883 þar sem nú er Lindargata 46. Stóð eitthvað fram yfir aldamótin 1900. Einnig kallaður Nýju Miðhús.

Litlu Steinsstaðir. Torfbær við Smiðjustíg 10, reistur árið 1872 og stóð fram yfir 1902.

Litunarhús Innréttinganna.  Upphaflega var húsið í Árhólmanum í Elliðaárdal en starfsemin var flutt inn til Reykjavíkur 1761 í hús þar sem nú er hús Hjálpræðishersins í Kirkjusræti 2. Litunarhúsið þar var rifið um 1800.

Liturinn. Málningarvöruverslun, stofnsett 1977 af Guðjóni Oddssyni og Gíslínu Kristjánsdóttur. Rekin í Síðumúla 15 til 1998.

Liverpool. Netavinnustofan, stofnsett af Th. Thorsteinsson & Co árið 1913 og voru þar meðal annars búnar til botnvörpur sem var ný iðngrein á Íslandi. Var til húsa á Vesturgötu 17 og var fyrsti forstöðumaður hennar Sigurjón Pétursson. Rekin til um 1927.

Liverpool. Verslun sem rekja má til þess að James Robb frá Liverpool stofnaði verslun í Hafnarstræti 8 árið 1816. Sonur hans, Hans Christian Robb stofnaði nýja verslun árið 1859 að Vesturgötu 3og kallaði Liverpool. Þar var síðan verslun með þessu nafni, einkum nýlendu- og matvöruverslun en síðar um hríð einnig veiðarfæraverslun, allt til ársins 1931. Var húsið jafnframt kallað Liverpool. Þá flutti aðalverslunin í Hafnarstræti 5 þar sem hún var til 1955. Útibú var á Laugavegi 57 á árunum 1923-1926, Laugavegi 49 frá 1926-1931, Bergstaðastræti 49 frá 1927-1928, Baldursgötu 11 frá 1928-1938, Ásvallagötu 1 frá 1931-1936, Laugavegi 76 frá 1931-1938, Sólvallagötu 9 frá 1936-1938, Hverfisgötu 59 frá 1935-1938 og Bergstaðastræti 54 frá 1936-1937. Liverpool lagði eftir 1940 smám saman mesta áherslu á búsáhöld og leikföng og árið 1955 var verslunin flutt úr Hafnarstræti 5 í fyrstu sjálfsafgreiðsluverslun landsins að Laugavegi 18a. Árið 1995 var hún flutt að Laugavegi 25 og var þá eingöngu með leikföng. Verslunin var rekin til 2005.

Lídó. Veitinga- og skemmtistaður, opnaður á efri hæð hússins Stakkahlíð 24 í febrúar 1959. Eigandi Þorvaldur Guðmundsson í Síld og fisk ásamt fleirum. Rekinn til 1968 en þá keypti Reykjavíkurborg staðinn og kallaði Tónabæ.

Líf. Hlutafélag, stofnað árið 1994, undir nafninu Lyfjaverslun Íslands og tók það yfir starfsemi Lyfjaverslunar ríkisins og hafði höfuðstöðvar sínar í Borgartúni 6 og 7. Fyrsti forstjóri hennar var Þór Sigþórsson. Flutti að Lynghálsi 13 árið 2002 og breyttist þá nafnið í Líf hf. var rekið til 2004 þegar Atorka hf tók félagið yfir.

Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar. Stofnaður 1930 og hét upphaflega Eftirlaunasjóður Reykjavíkurbæjar. Var rekinn af Reykjavíkurborg til 1999 en þá tók við rekstri hans Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga.

Lífland. Sjá Mjólkurfélag Reykjavíkur.

Líf og land

Lífsábyrgð sjómanna á þilskipum, tryggingafélag stofnað 1903.

Lífstykkjabúðin. Saumastofa og undirfataverslun, stofnuð af Elísabetu Kristjánsdóttur Foss árið 1916. Var fyrsta árið til húsa í Pósthússtræti 13 og eftir það á Laufásvegi 14 til 1919 en var þá eingöngu saumastofa. Þá var flutt í Kirkjustræti 4 og hafin jafnframt verslunarrekstur. Þar var starfsemin til 1924, þá í Austurstræti 4 til 1929 en eftir það í eigin húsnæði í Hafnarstræti 11 til 1952. Þaðan var flutt að Skólavörðustíg 3 þar sem verslun var til 1967. Eftir það var hún á Laugavegi 4 allt til ársins 2006 að hún flutti að Laugavegi 82.

Lífstykkjasalan. Verslun og saumastofa á Frakkastíg 7. Stofnsett 1951 af Stefaníu Ólafíu Erlendsdóttur og rekin til 1973.

Líkavarða. Landamerkjavarða sem var milli Laugarness og Klepps í holtinu skammt fyrir vestan Vatnagarða. Nafnið mun dregið af líkflutningum til Viðeyjar. Varðan er löngu horfin vegna framkvæmda í Sundahöfn.

Líkhússtígur. Sjá Suðurgata.

Líkn. Hjúkrunarfélag, stofnað 1914 fyrir forgöngu Christophine Bjarnhéðinsson hjúkrunarkonu til að veita fátækum ókeypis læknishjálp. Félagið setti á fót Hjálparstöð Líknar fyrir berklaveika í Kirkjustræti 12 árið 1919, stöðin flutti skömmu síðar í Sambandshúsið þar sem hún var til 1928, þaðan fór hún að Bárugötu 2 og árið 1935 í Templarasund 3. Árið 1927 var sett á laggirnar Ungbarnavernd Líknar sem var rekin í sama húsnæði og Hjálparstöðin. Árið 1940 fékk Líkn húsið Kirkjustræti 12 til afnota fyrir alla starfsemi sína. Félagið var lagt niður 1957 þegar Heilsuverndarstöðin tók við hlutverki þess.

Líkn. Einlyft múrsteinshús sem reist var af Christian L. Möller árið 1848 í Kirkjustræti 12. Árið 1851 eignaðist Halldór Kr. Friðriksson húsið og byggði timburhæð ofan á það. Eftir 1911 hafði Háskóli Íslands húsið til afnota en 1940 fékk Hjúkrunarfélagið Líkn húsið undir starfsemi sína og festist nafnið Líkn þá við húsið. Það var flutt í Árbæjarsafn 1975.

Líktorfa. Rétt við Köllunarklett.

Líktó. Skammt fyrir utan Gunnarshóla, nú er þar Sundahöfn.

Lín. Þvottahúsið. Stofnsett 1949. Var til húsa á Hraunteig 9 til 1965 en flutti þá í Ármúla 20. Mun hafa sameinast Þvottahúsinu Skyrtur og sloppar árið 1969.

Ljóðhús

Ljómi. . Smjörlíkisgerðin, stofnuð 1931 og var til húsa við Háteigsveg (síðar Þverholti 21). Hét upphaflega Smjörlíkisgerð Reykjavíkur. Fyrsti forstjóri hennar var Magnús Sch. Thorsteinsson. Smjörlíkisgerðin Ljómi sameinaðist öðrum smjörlíkisgerðum undir nafninu Smjörlíki hf árið 1964.

Ljónið. Húsið Laugavegur 49, byggt árið 1919. Svo nefnt eftir samnefndri verslun sem var þar fyrst eftir að það var reist.

Ljónið. Verslun á Laugavegi 49, sett á stofn af Gísla Hjálmarssyni frá Norðfirði, rekin til 1922.

Ljósafoss. Raftækaverslun og viðgerðarstofa, stofnuð af Jóni Sveinssyni og Ingólfi Bjarnasyni árið 1937. Var fyrst til húsa á Laugavegi 26 en flutti 1942 á Laugaveg 27 þar sem hún var til 1970.

Ljós og orka.  Heildverslun og raftækjaverslun. Stofnsett 1946 af Lúðvík Guðmundssyni. Áður hafði hann rekið raftækjaverslun undir eigin nafni frá árinu 1940, fyrst á Grettisgötu 58 en síðan á Laugavegi 46. Þar var Ljós og orka lengi en síðan á ýmsum stöðum þar til flutt var á Suðurlandsbraut 12 árið 1968 en síðast var verslunin í Skeifunni 19 frá 1989 til 2006.

Ljósmyndarafélag Íslands

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Ljósmyndastofa Jóns Kaldals. Stofnsett 1925 og rekin til um 1975, alla tíð að Laugavegi 11.

Ljósmyndastofa Lofts Guðmundssonar. Stofnsett 1925.

Ljósmyndastofa Magnúsar Ólafssonar. Sett á stofn í Reykjavík árið 1901 og var fyrstu árin til húsa í Pósthússtræti 16, síðar um skeið var hún í Aðalstræti 18 en um 1910 flutti hún í Templarasund 3. Þar var hún allt til ársins 1954, síðustu áratugina rekin af Ólafi, syni Magnúsar.

Ljósmyndastofa Sigfúsar Eymundssonar. Fyrsta reglulega ljósmyndastofan í Reykjavík, stofnsett 1876 og rekin til 1911 í Lækjargötu 2.

Ljósmyndavörur. Innflutnings- og þjónustufyrirtæki á sviði ljósmynda og kvikmynda. Stofnsett 1974 af Gísla Gestssyni. Var fyrstu árin í Kópavogi en fluttist 1982 til Reykjavíkur og hefur frá þeim tíma verið í Skipholti 31.

Ljósmyndir Rutar. Ljósmyndastofa, stofnuð 1988 af Rut Hallgrímsdóttur. Stofan er 2013 í Skipholti 31.

Ljósmæðrafélagið

Ljósmæðraskólinn

Ljósprentarafélag Íslands.  Sjá Offsetprentarafélag Íslands.

Logi. Blikksmiðja, stofnsett 1956 af Georg Jónssyni. Var til húsa í Síðumúla 25, síðar Síðumúla 35. Hætti starfsemi um 1985.

Loftkastalinn. Leikhús, stofnað 1995 af þeim Baltasar Kormák, Halli Helgasyni og Ingvari Þórðarsyni. Var það til húsa í Héðinshúsinu við Seljaveg 2 og starfrækt í um áratug en salurinn var síðan áfram rekinn með þessu nafni fyrir margs konar leiklistar- og tónlistarviðburði og aðrar uppákomur.

Loftleiðir. Flugfélag, stofnað 1944 til að annast póst- og farþegaflug innanlands. Aðalstofnendur voru flugmennirnir Alfreð Elíasson, Kristinn Olsen og Sigurður Ólafsson. Árið 1947 hóf félagið millilandaflug og á 7. áratug 20. aldar urðu Loftleiðir brautryðjendur í lággjaldaflugi milli Bandaríkjanna og Evrópu. Innanlandsflugi hætti félagið 1952. Félagið hóf starfsemi sína í flugskýlinu í Vatnagörðum en skömmu síðar varð Reykjavíkurflugvöllur miðstöð þess, meðal annars millilandaflugs félagsins allt til 1962. Eftir það var allt flug félagsins fært á Keflavíkurflugvöll. Harðnandi samkeppni leiddi til þess að félagið sameinaðist Flugfélagi Íslands árið 1973 undir nafninu Flugleiðir sem var myndað úr nöfnum flugfélaganna tveggja.

Loftsbryggja. Bátabryggja fyrir austan verbúðirnar í gömlu Reykjavíkurhöfn fyrir neðan Hafnarbúðir þar sem nú er vestasti hluti Grófarbakka, kennd við Loft Loftsson útgerðarmann sem lét gera bryggjuna um 1918. Hún var fjarlægð vegna uppfyllinga árið 1973.

Loftsbær. Sjá Valgerðarbær og Þingholtabæirnir.

Loftshús. Sjá Sandgerðishús.

Loftskeytastöðin í Gufunesi. Sjá Gufunesstöðin.

Loftskeytastöðin í Reykjavík. Hús reist á Melunum við Suðurgötu árið 1917. Loftskeytastöðin var rekin til 1963 en Háskóli Íslands eignaðist húsið 1961 og voru rannsóknastofur í raunvísindum í húsinu um árabil og einnig sleit námsbraut í þjóðfélagsfræðum þar skónum. Póstur og sími keypti húsið 1996 og opnaði þar fjarskiptasafn 1999. Árið 2010 var Náttúruminjasafni Íslands fenginn staður í húsinu.

Loftvarnanefnd Reykjavíkur. Á árunum 1940-1945 var starfandi loftvarnarnefnd í Reykjavík undir forystu lögreglustjórans. Hún skipulagði loftvarnir og loftvarnarbirgi fyrir almenna borgara og efndi til æfinga. Aftur var skipuð Loftvarnarnefnd 1951 og starfaði hún til 1958. Hlutverk hennar var að gera viðmiklar athuganir á húsum með tilliti til loftvarnabirgja og sjá til þess að birgðir og tæki væru til staðar ef til stórslysa eða árása úr lofti kæmi.

Lokufjall.  Örnefni í Esju þar sem hún gengur lengst til norðvesturs. Lokufjall er norðan Blikdals.

London. Tóbaksverslun, stofnsett 1925 af fyrirtækinu O. Johnson & Kaaber. Var fyrstu fimm árin í Austurstræti 1 en frá 1930 og allt til 2006 í Austurstræti 14.

Long Pool. Sjá Langhyl og Mjóddir.

Lóðamatsnefnd Reykjavíkur

Lókal. Alþjóleg leiklistarhátíð, haldin árlega í Reykjavík síðan 2008. Tilgangur hennar er að gefa borgarbúum tækifæri til að upplifa nýjustu straumana í leiklist.

Lómatjörn. Lítil tjörn sem var rétt sunnan við Blesugróf og neðan við Bústaði. Úr Tjörninni sem er horfin kom nyrðra lækjardragið að Fossvogalæk. Hún markaði landamerki milli Bústaða og Digraness í Kópavogi.

Lóskurðarstofa Innréttinganna.  Einlyft timburhús, reist árið 1765 í Aðalstræti 16. Enn er það varðveitt að hluta sem neðsta hæð í núverandi húsi sem er hluti af Hótel Reykjavík – centrum. Húsið fékk ýmis nöfn á fyrri tíð, svo sem Landfógetahúsið því að landfógetinn bjó í húsinu á árunum 1796-1828. Einnig var það nefnt Barnaskólinn því að þar var fyrsti barnaskóli Reykvíkinga sem rekinn var á árunum 1831-1849.

Lótus. Snyrtistofa í Nóatúni 17, stofnuð 2015 af Stínu Tyyet Nguyen.

Lóuhólar. Gata í Hólahverfi í Breiðholti, nefnd eftir Ólöfu Jónsdóttur sem var ein þriggja systra sem ólust upp á bænum Breiðholti.

Lóuhreiður. Kaffi- og veitingasstofa á annarri hæð Kjörgarðs, Laugavegi 59. Opnuð 1985 af Sigurveigu Gunnarsdóttur og Birgi Jónssyni, rekin til um 2007.

Lundey. Lítil eyja á sundunum norðvestur af Geldinganesi

Lundur. Hús við Þverveg.

Lundur. Tvílyft timburhús sem Stefán Jónsson reisti skammt frá Hlemmi, við Laugaveg 124 árið 1902. Þar var í fyrsta sinn gerilsneydd mjólk hér á landi. Húsið var rifið árið 1967.

Lúdó og Stefán. Vinsæl rokkhljómsveit sem starfaði á árunum 1957-67 og aftur af og til síðan, hét upphaflega Plútó. Spilaði mikið í Vetrargarðinum og á Þórscafé. Stofnendur hljómsveitarinnar voru Berti Möller, Elfar Berg, Hans Jensson og Hans Kragh Júlíusson. Á gullaldarárum hljómsveitarinnar á árunum 1962-65 voru tveir þeir síðarnefndu enn í henni en auk þeirra þeir Arthúr Moon, Baldur Már Arngrímsson, Rúnar Georgsson, Sigurður Þórarinsson og Stefán Jónsson.

Lúðrafélag Reykjavíkur. Sjá Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur

Lúðrasveit Austurbæjar. Sjá Skólahljómsveit Austurbæjar.

Lúðrasveit Hjálpræðishersins. Starfaði á árunum 1912 til 1976. Meðal stjórnanda voru Niels Edelbo, Jakob Harlyk, Árni Jóhannesson, Tryggvi Thorsteinsson, Karsten Anker, Odd Tellefsen og Jón Lindkvist.

Lúðrasveit KFUM „Sumargjöf“. Stofnuð 1912. Fyrsti stjórnandi hennar var Hallgrímur Þorsteinsson. Starfaði til 1919.

Lúðrasveit Laugarnesskóla. Sjá Skólahljómsveit Austurbæjar.

Lúðrasveit Reykjavíkur. Stofnuð 1922 með sameiningu Lúðrafélagana Hörpu og Gígju. Eitt fyrsta verk hennar var að reisa Hljómskálann í Reykjavík (sjá). Fyrsti stjórnandinn var Otto Böttcher.

Lúðrasveit verkalýðsins. Stofnuð 1953. Fyrsti stjórnandi hennar var Haraldur Guðmundsson.

Lúðrasveit Vesturbæjar. Sjá Skólahljómsveit Miðbæjar og Vesturbæjar.

Lúðurþeytarafélag Reykjavík. Fyrsta íslenska hljómsveitin, stofnuð 1876 að undirlagi Helga Helgasonar snikkara. Síðar kallað Lúðrafélag Reykjavíkur og að lokum Lúðrasveit Reykjavíkur. Starfaði til 1912.

Lúðvíksbær. Sjá Smiðjuholt.

Lúllabúð.  Matvöruverslun að Hverfisgötu 59 (61), stofnsett 1939 af Lúðvík Thorberg Þorgeirssyni og rekin til ársins 2000.

Lúmex. Ljósaverslun, stofnuð af Helga Kr. Eiríkssyni 1985. Var í Síðumúla 21 til 1997 en flutti þá í Skipholt 37.

Lyf og heilsa. Keðja apóteka, stofnsett 1999 þegar nokkur apótek sameinuðust. Árið 2010 voru útsölustaðir í Reykjavík fimm: í Austurveri, Domus Medica, Glæsibæ, Hringbraut 121 og Kringlunni. Önnur keðja, Apótekarinn, stofnsett 2002, er einnig á sömu höndum. Útsölustaðir hennar í Reykjavík eru að Bíldshöfða 20, Álfabakka 14 og Melhaga 20-22.

Lyfja. Keðja lyfjaverslana. Fyrsta verslunin var að Lágmúla 5, stofnsett 1996 af Inga Guðjónssyni og Róbert Melax. Baugur eignaðist meirihluta hlutabréfa árið 2000. Árið 2010 var keðjan með eina aðra verslun í Reykjavík, að Laugavegi 16.

Lyfjabúð Breiðholts. Stofnsett 1970 af Ingibjörgu Böðvarsdóttur apótekara að Arnarbakka 4-6. Síðar var apótekið nefnt Breiðholtsapótek en það rann inn í keðjuna Lyf og heilsu árið 1999.

Lyfjabúðin Iðunn. Stofnsett 1928 af Jóhönnu Dagmar Magnúsdóttur á Laugavegi 40. Flutti í Domus Medica 1995 þar sem hún var starfrækt til 1999 undir nafninu Iðunnarapótek. Sameinaðist þá Lyf og heilsu.

Lyfjadreifing, sjá Parlogis.

Lyfjatækniskóli Íslands. Stofnaður 1974 til að mennta aðstoðarfólk í apótekum og aðra sem unnu að lyfjagerð og sölu. Var fyrst í Hamrahlíð 17 en lengst af á Suðurlandsbraut 6. Fyrsti skólastjóri var Axel Sigurðsson. Skólinn var lagður niður 1992.

Lyfjaval.  Apótek sem þau Þorvaldur Árnason og Auður Harðardóttir stofnuðu að Þönglabakka 6 í Mjódd árið 2003. Frá 2006 hefur apótekið einnig verið í Álftamýri 1. Einnig er útibú í Kópavogi.

Lyfjaverslun Íslands. Sjá Líf.

Lyfjaverslun ríkisins. Með lögum árið 1922 tók landstjórnin sér einkaleyfi á lyfjainnflutningi og var lyfjaverslunin hluti af Áfengisverslun ríkisins (sjá). Fyrsti framkvæmdastjórinn var P. L. Mogensen.  Lyfjaverslunin var til húsa í Nýborg við Skúlagötu 6 en árið 1947 hóf hún framleiðslu á töflum í húsnæði við Miklubraut. Eftir 1954 var öll starfsemi Lyfjaverslunar ríkisins í Borgartúni 6 en hún var eftir sem áður deild í Áfengisverslun ríkisins. Árið 1969 var starfsemi Lyfjaverslunar ríkisins að skilin frá starfsemi ÁTVR en endanlegur aðskilnaður þessara fyrirtækja varð árið 1986. Fyrsti forstjóri Lyfjaverslunarinnar sem sjálfstæðrar stofnunar var Kristinn Stefánsson. Á árunum 1994-1995 var Lyfjaverslun ríkisins seld einkaaðilum og hét eftir það Lyfjaverslun Íslands (síðar Líf hf).

Lyfsalafélag Íslands.

Lyftir. Krana- og flutningafyrirtæki, stofnað um 1972.

Lykkja. Býli á Kjalarnesi.

Lymskulág. Lægð milli Vatnsendahvarfs og Fellahverfis í Breiðholti.

Lyngás. Dagheimili fyrir börn og unglinga með þroskahömlun sem Ás styrktarfélag rekur að Safamýri 5. Stofnsett 1961 og var fyrsti forstöðumaður heimilisins Jónína Eyvindsdóttir.

Lyngberg. Klettahæð skammt austan Nauthólsvíkur, austan farvegar Heita læksins.

Lyngbrekka. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf).

Lyngdalsvík. Lítil vík norður úr Rauðavatni, austan Sandvíkur.

Lyngdalur. Dalverpi sem liggur upp frá NA-verðu Rauðavatni.

Lynghagaróló. Róluleikvöllur milli Lynghaga og Tómasarhaga.

Lyngheimar. Leikskóli að Mururima 2, teiknaður af Ingimundi Sveinssyni. Tekinn í notkun 1998 og var Júlíana Hilmisdóttir fyrsti leikskólastjórinn.

Lyngholt. Nýbýli á erfðafestulandi á Sogamýrarbletti 26, stóð vestan við Grensásveg uppi í brekkunni.

Lyngholt. Íbúðarhús frá um 1950 i Hólmslandi milli Hólmsár og Suðurlandsvegar. Búið er að rífa húsið.

Lyngholt. Hús við Holtaveg.

Lyngholtsvík. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Lyngholtstangi. Hús i Hólmslandi við Suðurlandsbraut.

Lynghóll. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Lynghvammur. Íbúðarhús frá um 1950 i Hólmslandi milli Hólmsár og Suðurlandsvegar. Búið er að rífa húsið.

Lystadún.  Verksmiðja, stofnuð árið 1961 af Ögnu og Halldóri Jónssyni heildsala. Framleiddi einkum svampdýnur. Var til húsa í Dugguvogi 8 til 1987 en frá 1988 í Skútuvogi 11. Sameinaðist Pétri Snæland hf árið 1991 og hét eftir það Lystadún-Snæland. Húsgagnaverslunin Marco keypti fyrirtækið árið 2001 og hét það eftir það Lystadún-Marco og var til húsa í Mörkinni 4.

Lýðsbær.  Torfær á Holtsgötu 13, reistur fyrir eða um 1860 af Lýði Magnússyni. Einnig nefndur Litlibær. Rifinn 1883 en reistur steinbær á lóðinni. Síðar kom þar timburhús sem rifið var 1956. (Athuga betur)

Lýðslind. Vatnsból gegnt húsinu Lindarbrekku við Vesturvallagötu 6. Kennd við Lýð Magnússon í Lýðsbæ.

Lýsi. Fyrirtæki um framleiðslu og útflutning á lýsi, stofnsett 1938 af Tryggva og Þórði Ólafssonum. Um tíma flutti fyrirtækið auk þess út fiskimjöl og skreið í stórum stíll og átti ýmis dótturfyrirtæki, svo sem Fóðublönduna og Hydrol, og var stór hluthafi í öðrum. Höfðuðstöðvar Lýsis voru lengst af við Grandaveg 42 en árið 2005 voru þær fluttar að Fiskislóð 5-9 í Örfirisey.

Lýsing. Fjármögnunar- og eignaleigufyrirtæki, stofnað 1986 af Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands, Sjóvá og Brunabótafélagi Íslands. Fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Sveinn Hannesson. Það var fyrstu mánuðna í húsakynnum Búnaðarbankans við Hlemm en frá 1987-2006 að Suðurlandsbraut 22. Eftir það í Ármúla 3.

Lýsissamlag íslenskra botnvörpunga. Stofnað 1929 með aðild fjölmargra togarafélaga. Aðalfrumkvöðull fyrirtækisins og forstjóri var Ásgeir Þorsteinsson. Samlagið stofnsetti kaldhreinsistöð lýsis í svokölluðum Haukshúsum við Mýrargötu árið 1933 og herslustöð að Kletti 1948. Lýsissamlagið var lagt niður árið 1959.

Lýsisstöðin. Lifrarbræðsla Bernhards Petersen í landi Stóra-Sels í Vesturbænum.

Lækir. Hverfi í Laugarnesi þar sem götunöfn enda á –lækur. Hverfið afmarkast af Laugnarnesveg, Kleppsveg, Dalbraut, Sundlaugavegi og Laugalæk. Götnunöfnin Brekkulækur, Bugðulækur, Laugalækur og Rauðalækur voru ákveðin 1954 en síðar bættist Leirulækur við.

Lækjamót. Sjá Lækjarbakki.

Lækjarás. Dagheimili fyrir þroskahamlaða að Stjörnugróf 7. Stofnsett 1981 af Styrktarfélagi vangefinna sem nú heitir Ás styrktarfélag. Arkitektar heimilisins voru Helgi og Vilhjálmur hjálmarssynir. Fyrsti forstöðumaðurinn var Arnheiður Andrésdóttir.

Lækjarbakki. Hjáleiga frá Rauðará við vesturbakka Fúlalækjar. Einnig stundum nefnt Lækjarkot, Lækjamót, Lækjarós eða Fúlatjörn. Þar var torfbær snemma á 19. öld. og síðar steinbær sem Sturla Jónsson kaupmaður lét reisa, stundum kallaður Sturlubær.  Við hann var síðar byggð timburviðbygging. Síðast var húsið talið til Borgartúns og var rétt við Sindraportið og Klúbbinn. Stóð til um 1970.

Lækjarbotn. Örnefni þar sem Fúlilækur átti upptök sín, rétt vestur af þaer sem nú er Hótel Nordica.

Lækjarbotnar. Nýbýli út frá Hólmi, suðaustur af Selfjalli, byggt 1868.

Lækjarbrekka. Veitingahús

Lækjarbrekka. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Lækjarbugur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf) (1963).

Lækjargata. Gata frá Bankastræti að Fríkirkjuveg. Upphaflega lögð meðfram Læknum að vestanverðu 1839 en nafngiftin er frá 1848. Var stundum nefnd Heilagsandastræti í gamni á síðari hluta 19. aldar vegna þess að við hana bjuggu bæði biskupinn og dómkirkjupresturinn.

Lækjargata. Í Smálöndunum

Lækjarholt. Hús við Seljalandsveg.

Lækjarhvammur. Fyrsta sjálfstæða býlið sem byggðist úr landi Laugarness hins forna á síðari tímum. Bæjarstjórn Reykjavíkur úthlutaði Árna Gíslasyni pósti landi árið 1890 og reisti hann hús sem stóð rétt við þar sem nú eru mót Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsvegar fyrir vestan Hótel Nordica. Í húsinu var rekið útibú frá Barnaskóla Reykjavíkur 1921-1922. Það var rifið 1967.

Lækjarhvammur. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Lækjarhvoll. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Lækjarkot. Torfbær við Lækjargötu 10, upphaflega reistur af Einari Valdasyni 1799 og hét þá Kirkjuból. Síðar festist nafnið Lækjarkot við hann. Kristján konungur IX kom inn í bæinn í heimsókn sinni 1874. Bærinn var rifinn 1887.

Lækjarkot. Sjá Lækjarbakki.

Lækjarmót. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Lækjarós. Dagheimili fyrir þroskahefta í Stjörnugróf. Stofnsett 1981.

Lækjarós. Sjá Lækjarbakki.

Lækjartorg.  Upphaflega opið svæði vestan Lækjar, andspænis núverandi Stjórnarráðshúsi. Svæðinu var gefið nafnið Lækjartorg árið 1848. Í tímans rás varð torgið einn helsti samkomustaður Reykvíkinga. Þar var um áratugaskeið um miðbik 20. aldar miðstöð strætisvagna og leigubíla og á torginu voru haldnir fjölmennir útifundir. Árið 1974 var torginu breytt og eftir það minnkaði mjög vægi þess í borgarlífinu.

Lækjartungl. Sjá Tunglið.

Lækjartún. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf) (1963), stóð skammt fyrir austan akrein sem fyrst gengur inn á Reykjanesbraut frá Breiðholti, skammt fyrir vestan húsið Skálará sem enn stendur.

Lækjarver. Verslunarkjarni við Laugalæk 2-8, teiknaður af Geirharði Þorsteinssyni. Tekinn í notkun 1959.

Læknabrekka. Botnlangi í Háaleitishverfi sem kallaður var þessu nafni vegna þess hve mikið af læknum og tannlæknum bjó þar. Athuga hvaða gata þetta er.

Læknafélag Reykjavíkur. Stofnað 1909 og var fyrsta kjarafélag lækna. Fyrsti formaður þess var Guðmundur Björnsson. Gaf út Læknablaðið frá 1915.

Læknagarður. Hús læknardeildar og tannlæknadeildar Háskóla Íslands við Vatnsmýrarveg 16. Tannlæknadeild flutti í húsið 1982 og var það þá oft nefnt Tanngarður. Læknadeildin flutti fyrsta hluta starfsemi sinnar í húsið 1988.

Læknaskólinn. Stofnaður 1876 og rekinn í Reykjavík þar til Háskóli Íslands var stofnaður 1911. Fyrsti forstöðumaður hans var Jón Hjaltalín. Var hann fyrst til húsa í Kirkjustræti 2 en fluttist 1884 í Þingholtsstræti 25. Þaðan mun hafa flust  1902 í Landakotsspítalann uns Háskólinn var stofnaður.

Læknisgata. Sjá Vesturgata.

Læknishúsið. Einnig nefnt Prófessorshúsið. Tvílyft timburhús, reist á Kleppi árið 1907. Flutt í Árbæjarsafn 1978.

Lækur. Nýbýli á erfðafestulandinu Bústaðabletti 9, reist 1933. Húsið stendur enn og er nú Stjörnugróf 11.

Lækurinn. Afrennsli Tjarnarinnar til sjávar. Var nokkurn veginn þar sem nú er Lækjargata. Fyrr á öldum var hann kallaður Arnarhólslækur en einnig kemur fyrir nafnið Tjarnarlækur. Upphaflega rann hann milli grasi gróinna bakka og um eyrar og mýrlendi. Var hólmi í honum á einum stað. Árið 1852 voru bakkarnir hlaðnir upp og rann hann eftir það í beinum farvegi. Fyrsta brúin sem getið er við Lækinn var svokölluð Skálholtskotsbrú sem komin var 1787 niður af núverandi Bókhlöðustíg. Fyrstu brýrnar sem settar voru yfir Lækinn og talist gátu nokkur mannvirki komu árið 1828. Önnur var við ósinn þar sem alfaraleiðin inn í bæinn var en hin á móts við Stiftamtmannshúsið við Lækjartorg. Síðar komu fleiri brýr þar á meðal tvær steinbogabrýr, önnur var Skólabrúin frá 1845 og hin niður af Bankastræti frá 1866 en um og eftir aldamótin 1900 komu nokkrar steinsteyptar brýr yfir Lækinn. Eftir því sem bærinn stækkaði varð Lækurinn óþrifalegri því að mikið skólp og önnur óhreinindi runnu út í hann. Var því gripið til þess ráðs árið 1912 að byrgja Lækinn. Hefur hann runnið í lokuðum neðanjarðarstokk eða holræsi síðan.

Lærði skólinn. Sjá Menntaskólinn í Reykjavík

Lögberg. Hús lagadeildar Háskóla Íslands við Sæmundargötu 8, tekið í notkun 1971. Arkitekt hússins er Garðar Halldórsson.

Lögberg.  Tvílyft timburhús við Lækjarbotna sem reist var af Guðmundi Sigurðssyni árið….. Þar var um árabil greiðastaður fyrir ferðamenn. Húsið var rifið árið 1963 og nú liggur þjóðvegurinn austur yfir fjall yfir hússtæðið.

Lögberg. Matvöruverslun á Holtsgötu 1. Stofnuð um 1930 af Sverri Sigurðssyni og rekin til 1969.

Löggildingarstofan. Stofnsett 1919 og hafði hún einkarétt á að löggilda vogir og önnur mælitæki. Upphaflega heyrði Veðurstofan undir hana en árið 1925 var skilið þar á milli. Fyrsti forstöðumaður Löggildingarstofunnar var Þorkell Þorkelsson. Upp úr 1990 breyttist hlutverk Löggildingarstofu og tók hún þá að sér margs konar gæðastjórnun. Hún var lögð niður 2005 og tók Neytendastofa við hlutverki hennar.

Lögreglan í Reykjavík. Fyrstu lögregluþjónarnir voru skipaðir 1803 til aðstoðar bæjarfógeta. Frá 1906 var lögregluliðið skipað föstum mönnum sem störfuðu allt árið.

Lögreglufélag Reykjavíkur. Stofnsett 1936.

Lögreglustöð Reykjavíkur.

Lögsagnarumdæmi

Lönd og leiðir. Ferðaskrifstofa, stofnsett 1961 af Ingólfi Blöndal. Starfrækt til 1968 með skrifstofur í Aðalstræti 8.

Löndun. Fyrirtæki stofnað 1987 til að annast skipaafgreiðslu við Reykjavíkurhöfn. Stofnendur voru Stefán Sigurjónsson og fleiri. Höfðu lengi aðsetur í Faxaskála en síðar í Kjalarvogi 21.

Löngusker. Sker út á miðjum Skerjafirði sem koma vel upp á fjöru.

Löve-handrið. Fyrirtæki rekið af Þorsteini Löve múrara frá 1954 til 1964, sérhæfði sig í steyptum girðingum og svalahandriðum.

Maggabúð. Nýlenduvöruverslun Magnúsar Mekkínóssonar, sem rekin var á Baldursgötu 11 á árunum 1957-1990.

Maggabúð. Nýlendu- og vefnaðarvöruverslun. Stofnsett 1958 af Eyþóri Magnúsi Bæringssyni árið 1958. Var til húsa á Laugaveg 134. Síðan komu fleiri Maggabúðir, svo sem í Úthlíð 7 og á Framnesvegi 19 og loks að Kaplaskjólsvegi 43 sem Magnús rak til dauðadags 1972.

Magni. Verksmiðja á sviði skinna- og gæruiðnaðar, stofnsett 1937 og var fyrsti framkvæmdastjórinn Jóhann Karlsson. Var í Þingholtsstræti 23 til 1945, þá í Höfðatúni 10 til 1949 og loks í Brautarholti 22. Fluttist til Hveragerðis um 1953.

Magnús G. Guðnason. Steiniðja. Sjá Steiniðjan.

Magnúsarbær. Steinbær að Vatnsstíg 6, reistur 1894 af Magnúsi Pálssyni múrara. Löngu horfinn.

Magnúsarbær. Sjá Eirnýjarbær og Þingholtabæirnir.

Magnúsarbær. Sjá Krókur.

Malbikunarstöðin Höfði hf. Stofnuð 1996 og er í eigu Borgarsjóðs og Aflvaka. Varð til við sameiningu Malbikunarstöðvar Reykjavíkurborgar og Grjótnáms Reykjavíkurborgar.

Malbikunarstöð Reykjavíkurborgar. Lögð niður 1996.

Malín. Prjónastofan, stofnsett 1928 af Malín Hjartardóttur. Var á Laugavegi 20B til um 1945 en eftir það á Grettisgötu 3 til um 1970.

Malínubær. Sjá Teitsbær.

Manchester. Vefnaðarvöruverslun. Var til húsa á Laugaveg 40 frá 1926-1936, í Aðalstræti 6 1934-1951 og loks á Skólavörðustíg 4 til um 1974.

Mannakorn. Hljómsveit sem varð til með þessu nafni þegar samnefnd plata kom út árið 1976. Í henni voru upphaflega Magnús Eiriksson, sem samdi flest lögin, Pálmi Gunnarsson, Björn Björnsson, Baldur Már Arngrímsson og fleiri. Hljómsveitin var stofnuð upp úr Hljómsveit Pálma Gunnarssonar sem upphaflega hét Lísa og varð til um 1970.

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar. Stofnsett 2005.

Manntalsskrifstofa Reykjavíkur.

Mannvirkjastofnun. Sjálfstæð ríkisstofnun sem meðal annars hefur það hlutverk að framfylgja rafmagnsöryggismálum.

Marco. Umboðs- og heildsala, stofnuð árið 1956 af Þórhalli Þorlákssyni til að flytja inn net og veiðarfæri frá Japan. Árið 1987 hóf fyrirtækið rekstur húsgagnaverslunar sem sérhæfði sig í amerískum húsgögnum og var hún til húsa í Mörkinni 4. Árið 2001 keypti fyrirtækið Lystadún-Snæland og heitir það nú Lystadún-Marco. Heildverslunin Marco var fyrstu áratugina til húsa í Aðalstræti 6, síðar á Mýrargötu 26, þá á Langholtsvegi 111 en er nú í Síðumúla 13.

Marconistöngin. Árið 1905 var reist gríðarmikil loftskeytastöng á svokölluðu Félagstúni þar sem nú er húsið Höfði. Það var Marconifélagið sem stóð fyrir þessum framkvæmdum og var hægt í gegnum stöngina að taka á móti loftskeytum frá útlöndum. Það var í fyrsta sinn sem Ísland komst í beint fjarskiptasamband við umheiminn. Þegar Landsími Íslands tók til starfa 1906 hætti starfsemi Marconifélagsins á Íslandi.

Margrétarkot. Sjá Litla-Skildinganes.

Margróf. Sjá Markgróf.

Marine Camp. Sjá Camp Cook.

Marinehúsið. Kola- og vistageymsla danska flotans í Viðey.

Maríubakki. Gata í Neðra-Breiðholti, nefnd eftir Maríu Jónsdóttur sem var ein þriggja systra sem ólust upp á bænum Breiðholti.

Maríuhús.  Hús að Blesugróf 27 þar sem FAAS hefur rekið dagþjálfun fyrir alzheimersjúklinga og heilabilaða frá árinu 2008. Fyrsti forstöðumaður hússins var Sólborg Sumarliðadóttir.

Maríukirkja. Kirkja Kaþólska safnaðarins í Breiðholti við Raufarsel 4, helguð Maríu, stjörnu hafsins. Kirkjan var vígð 1985 en arkitekt hennar var Hannes Kr. Davíðsson.

Maríuminni. Hús sem Halldór Þórðarson lét reisa á Laugaveg 2 árið 1886 og enn stendur. Kennt við Maríu Kristjánsdóttur, konu Halldórs.

Markaðurinn.  Kvenfataverslun og tískuhús, stofnsett af Ragnari Þórðarsyni 1949 og rekið á ýmsum stöðum í Reykjavík, svo sem við Laugaveg 100 og Laugaveg 89, Hafnarstræti 11 og loks í Aðalstræti 9 1972-1988.

Markaklettur. Syðst í Breiðholtslandi sunnan í Vatnsendahæð. Í honum mættust lönd Breiðholts, Vatnsenda, Vífilsstaða og Hvammkots.

Markalækur. Sjá Merkjalækur.

Markgróf. Einnig nefnd Margróf. Lægð sem liggur suður frá Rauðavatni að ánni Bugðu.Um hana liggur nú Breiðholtsbraut.

Mars Trading Company. Innflutnings- og útflutningsfyrirtæki, stofnsett af Ægi Ólafssyni árið 1942, hét fyrst Heildverslunin Marz. Byggðist m.a. framan á viðskiptum við austanjárntjaldslönd.  Var í Ingólfsstræti 3 fyrstu árin, á Laugavegi 18B 1949-1953, Klapparstíg 26 1953-1955, Klapparstíg 20 1055-1966, þá á Laugavegi 103 frá 1966 fram yfir 1971 og síðan á ýmsum stöðum en fyrirtækið var rekið fram á 9. áratug 20. aldar.

Marteinn Einarsson & Co. Vefnaðarvöruverslun. Stofnsett 1912 af Marteini Einarssyni og hafði upphaflega á boðstólum vefnaðarvörur, nýlenduvörur og fleira. Varð síðar ein stærsta vefnaðarvöru- og fataverslun Reykjavíkur. Upphaflega var verslunin á Laugavegi 44 en fluttist 1918 á Laugaveg 29. Árið 1929 opnaði hún í nýju stórhýsi á Laugaveg 31 og var rekin þar í mörgum deildum und hún hætti 1965.

Marteinsbær

Mata. Upphaflega niðursuðuverksmiðja sem var í bragga við Skerjafjörð til 1950. Eftir það var hún rekin í húsnæði við Elliðarárvog fram yfir 1966. Eftir það var fyrirtækið rekið sem lítið umboðsfyrirtæki í eigu fjölskyldu Eggerts Kristjánssonar. Árið 1986 var félagið dubbað upp og tók þá yfir þann hluta Heildverslunar Eggerts Kristjánssonar sem verslaði með nýja ávexti og grænmeti. Hefur síðan verið leiðandi á því sviði með aðsetri í Sundagörðum 10.

Matardeild SS. Stofnsett 1908 þegar Sláturfélag Íslands keypti matardeild Thomsensmagasíns í Kolasundi 1. Var síðan í Hafnarstræti 19 og loks í Hafnarstræti 5 allt til ársins 1988 þegar Sláturfélagið hætti verslunarrekstri í Reykjavík.

Matborg.  Niðursuðuverksmiðja sem starfaði að Lindargötu 46-48 á árunum 1953-1963. Frumkvöðull að verksmiðjunni var Þorbjörn Jóhannesson kjötkaupmaður í versluninni Borg (sjá).

Matís. Hlutafélag í eigu ríkisins sem varð til árið 2006 með sameiningu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (Matra) og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Sinnir það rannsókna-, þjónustu og nýsköpunarstarfi í matvælaiðnaði og er til húsa á Vínlandsleið 12. Fyrsti forstjóri fyrirtækisins var Sjöfn Sigurgísladóttir.

Matkaup. Innkaupasamtök á sviði matvöru- og nýlenduvöruverslana, stofnuð 1957. Var til húsa á ýmsum stöðum framan af, svo sem Skólavörðustíg 12, Borgartúni 15 og 25 og Suðurlandsbraut 10. Frá 1969 var félagið í eigin húsnæði að Vatnagörðum 6. Árið 1990 hætti Matkaup starfsemi þegar Heildverslun Daníels Ólafssonar, Danól, keypti fyrirtækið.

Matstofa Austurbæjar. Veitingastaður, rekin að Laugaveg 116 á árunum 1947-1983, hét upphaflega Ýmir, stofnaður af Sigursæli Magnússyni og fleirum.

Matsveinafélag Íslands. Stofnað 1952 en hét Fiskimatsveinadeild Sambands matreiðslu- og framleiðslumanna til 1956. Fyrsti formaður þess var Bjarni Jónsson. Sameinaðist Sjómannafélagi Reykjavíkur árið 2006 undir nafninu Sjómannafélag Íslands.

Matsveina- og veitingaþjónafélag Íslands. Sjá Samtök matreiðslu- og framreiðslumanna.

Matsveina- og veitingaþjónafélag Reykjavíkur. Sjá Samtök matreiðslu- og framreiðslumanna.

Matsveina- og veitingaþjónaskóli Íslands. Sjá Hótel- og veitingaskóli Íslands.

Matvörumiðstöðin. Matvöruverslun í verslunarkjarnanum Lækjarveri við Laugalæk. Starfrækt frá 1959 og fram yfir 1990.

Matvæla- og veitingafélag Íslands (Matvís). Stofnsett 1996 með sameiningu nokkurra iðnaðarmannafélaga í matvæla- og veitingagreinum, svo sem bakara, framreiðslumanna, kjötiðnaðarmanna og matreiðslumanna og annarra sem starfa við framreiðslu, matreiðslu og sölu á matvælum. Var til húsa að Þarabakka 3 til ársins 2000 en síðan í Stórhöfða 31.

Matvælabúðin. Nýlenduvöruverslun, stofnuð 1956 og var fyrst í Njörvasundi 18 en var flutt í Efstasund  99 árið 1958 þar sem hún var rekin til 1983.

Mál og menning. Bókmenntafélagið. Stofnað 1937 af Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda og bókaútgáfunni Heimskringlu. Gaf út bækur og tímaritið Rauða penna til 1940 en eftir það Tímarit Máls og menningar. Helsti frumkvöðull og framkvæmdastjóri félagsins um áratugi var Kristinn E. Andrésson. Var til húsa á Laugavegi 38 til 1939, þá á Laugavegi 19 til 1962 en eftir það lengst af á Laugavegi 18.

Málarafélag Reykjavíkur.

Málarameistarafélag Reykjavíkur. Stofnað 1928 og var fyrsti formaður þess Einar Gíslason. Áður hafði starfað félag með sama nafni á árunum 1917-1920. Frá 1968 hefur félagið verið í eigin húsnæði að Skipholti 70.

Málarinn. Málningarvöruverslun, stofnuð af Pétri Guðmundssyni 1925. Var fyrst til húsa í Lækjargötu 2 en frá 1926-1976 í Bankastræti 7. Árið 1974 opnaði Málarinn nýja búð að Grensásvegi 11 og var þar til 1992 að hann flutti í Skeifuna 8. Um 1995 sameinaðist hann Versluninni Metró og hét eftir það Metró-Málarinn og 1997 bættist Veggfóðrarinn við. Hét verslunin þá Metró-Málarinn-Veggfóðrarinn og var alhliða byggingavöruverslun. Hætti árið 2001.

Málbjörg. Félag um stam. Stofnað 1991. Fyrsti formaður félagsins var Benedikt Benediktsson. Félagið hefur aðsetur í Hátúni 10b.

Málflutningsmannafélag Íslands, sjá Lögfræðingafélagið

Málleysingjaskólinn. Sjá Heyrnleysingjaskólinn.

Málmtækni. Innflutningsfyrirtæki á sviði málma og iðnaðarplasts. Stofnsett 1970 og annaðist upphaflega verktöku fyrir orkufyrirtæki og sá um smíði á tönkum og kassabílum. Var í Súðarvogi 28-29 til ársins 1975 en síðan í Vagnhöfða 29. (Örn Guðmarsson)

Málning. Málningarverksmiðja, stofnuð í Kópavogi 1953 af fjölskyldu Péturs Guðmundssonar í Málaranum og fleirum. Hluti starfseminar var flutt að Lynghálsi 2 í Reykjavík árið 1981 og verksmiðjan sjálf að Funahöfða 7-9 eftir bruna árið 1987. Á árunum 1998-1999 var aftur flutt í Kópavog.

Málverkasalan. Stofnuð 1961 af Kristjáni Fr. Guðmundssyni og var hún rekin til 1976, lengst af á Týsgötu 3.

Mánabakki. Hús við Breiðholtsveg (1963).

Mánaðagötur. Í Litla-Skerjafirði eru nokkrar götur sem kenndar eru við hin fornu mánaðaheiti. Þær heita Góugata, Hörpugata, Skerplugata og Þorragata. Ennfremur var þar Ýlisgata sem nú er horfin.

Mánagarður. Sjá Ásgarðar.

Mánahlíð. Örnefni skammt ofan Geitháls. Um hlíðina liggur Nesjavallaleið.

Mánastræti. Sjá Bjargarstígur.

Máttur. Heilsuræktarstöð.

Mávahlíð. Hús á erfðafestulandi

MEBA. Úra- og skartgripaverslun. Stofnuð 1947 og hét til 1979 Úra- og skrautgripaverslun Magnúsar E. Baldvinssonar. Var á Laugavegi 82 til 1949, þá á Laugavegi 12 til 1975 og á Laugavegi 8 til 1987. Eftir það í Kringlunni. Sömu aðilar opnuðu skartgripaverslunina Rhodium í Kringlunni um 1999.

Medúsahópurinn

Meðalheimar. Hús við Vesturlandsbraut.

Meistarafélag hárgreiðslukvenna Reykjavíkur.

Meistara- og verktakasamband byggingamanna. Félagið var lagt niður þegar stofnuð voru Samtök iðnaðarins 1994.

Meistarafélag hárskera. Upphaflega stofnað 1924 sem Rakarafélag Reykjavíkur. Nafnið breyttist síðar í Rakarameistarafélag Reykjavíkur og lok í Meistarafélag hárskera sem varð þá landsfélag. Fyrsti formaður félagsins var Sigurður Ólafsson.

Meistarafélag húsgagnabólstrara

Meistarafélag járniðnaðarmanna

Meistarafélag skipasmiða

Meistarafélag veggfóðrara í Reykjavík. Sjá Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara.

Meistaravöllur. Tún sem Pálmi Pálsson yfirkennari ræktaði á erfðafesturlandi vestan við Kaplaskjólsveg, norðan KR-svæðisins sem síðar kom. Hann reisti ennfremur samnefnt timburhús árið 1903 en bjó þar aldrei sjálfur. Einnig nefnt stundum Pálmahús. Það stóð þar sem nú eru Meistaravellir 17. Gatan er kennd við túnið. Húsið Meistaravöllur eða Pálmahús var rifið 1980.

Meistarinn. Matvinnslufyrirtæki á sviði tilbúinna rétta, stofnað 1981 af þeim Þórarni Guðlaugssyni og Vilmundi Jósefssyni. Var fyrst til húsa að Kleppsmýrarvegi 8 en frá um 1985 í Dugguvogi 3. Hét síðast Meistarinn-Veisluþjónustan. Fyrirtækið hætti 1997.

Mekka Wines & Spirits. Heildsala sem sérhæfir sig í áfengum drykkjum. Stofnsett 1995 og hét þá Allied Domecq Ísland en fékk núverandi nafn 2006 þegar Íslensk-Ameríska eignaðist meirihluta í fyrirtækinu.

Melabúðin. Matvöruverslun á Hagamel 39, stofnsett 1958 af Sigurði Magnússyni og hefur verið starfrækt síðan. Ein fyrsta sjálfsafgreiðslubúðin (kjörbúðin).

Melafjall. Fjall í Esjunni upp af svokölluðu Melahverfi, nyrst á Kjalarnesi.

Melahús. Sjá Melabraggi.

Melahverfi. Hverfi bæja nyrst í Kjalarneshreppi hinum forna austan Tíðaskarðs.

Melarnir. Íbúðahverfi í Vesturbæ, sunnan Hringbrautar, þar sem götuheiti enda á -mel. Fyrri hluti þeirra bera nöfn trjátegunda að undanteknum Hagamel. Árið 1937 voru ákveðin götunöfnin Birkimelur, Einimelur, Espimelur, Furumelur, Grenimelur, Hagamelur, Reynimelur og Víðimelur. Ennfremur götunöfnin Eikimelur, Eskimelur, Hrísamelur og Seljumelur sem aldrei urðu að veruleika. Ári síðar hófust byggingaframkvæmdir í hverfinu.

Melar. Hús i Elliðavatnslandi við Suðurlandsbraut.

Melar. Hús við Breiðholtsveg (1963).

Melar. Bær á Kjalarnesi.

Melararnir. Sjá Skildinganesmelar.

Melaseljadalur. Alldjúp og löng kvos upp með ánni Þverá, skammt vestan við Tindastaðabæi norðan við Esju.

Melaskóli. Grunnskóli við Hagamel 1, tekin í notkun 1946 og tók þá við hlutverki Skildinganesskóla (sjá). Skólahúsið er teiknað af Einari Sveinssyni en viðbygging frá 1999 er eftir Ögmund Skarphéðinsson. Fyrsti skólastjórinn var Arngrímur Kristjánsson.

Melatorg. Hringtorgið þar sem saman koma Hringbraut og Suðurgata. Nafngiftin er frá 1937.

Melavegur.  Fyrra heiti á þeim hluta Suðurgötu sem liggur sunnan Hringbrautar.

Melavellir. Nýbýli á erfðafestulandinu Sogamýrarbletti 14 við Hlíðarveg, síðar við Rauðagerði 27. Upphaflega reist árið 1930 af Frímanni Einarssyni. Þar var mikill búskapur um hríð, málningarverksmiðjan Júnó á stríðsárunum, saltfiskverkun upp úr 1947 en síðar eftir 1980 bílaumboð Ingvars Helgasonar.

Melavöllurinn. Aðalíþróttaleikvangur Reykvíkinga á árunum 1911-1957.  Upphaflegi völlurinn var 180×90 metrar að stærð og girtur bárujárnsgirðingu. Honum var komið upp af Íþróttasambandi Reykjavíkur og vígður 1911. Þessi völlur var aflagður 1925 og gerður nýr Melavöllur á vegum bæjarstjórnar, nokkru vestar en sá gamli. Var hann vígður 1926. Völlurinn lá meðfram Suðurgötu að vestanverðu þar sem Þjóðarbókhlaðan er nú og bílastæðin suður af henni. Hann var helmingi stærri en sá gamli og voru tennisvellir og fleira lagt syðst á hinu afgirta svæði. Yfirbyggð stúka með sæti fyrir 260 áhorfendur var reist árið 1930. Eftir að Laugardalsvöllurinn var tekinn í notkun 1957 var Melavöllurinn áfram notaður um árabil en árið 1985 var hann lagur undir bílastæði og öll mannvirki rifin.

Melbakkamýri. Mýri vestan við árkjafta Elliðaáa, nú í krika norðanaustanvert við þar sem Vesturlandsvegur og Sæbraut skerast.

Melbakki. Bakki vestan við vesturkvísl Elliðaáa rétt við Árkjafta þar sem kvíslin rann áður til sjávar.

Melbarð. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Melbrekka. Hús í Blesugróf (1964), nú Bleikjugróf 7.

Melbyesbær. Sjá Grímsbær.

Melbyesbær. Sjá Þorfinnsbær.

Melbær. Torfbær í Skjólunum. (athuga, þarna var steinbær sem reistur var 1893, rifinn 1936). Lóðin var síðar í eigu togarafélagsins Hængs.

Melbær. Nýbýli á erfðafestulandinu Sogamýrarbletti 12a, byggt 1927, nú Sogavegur 111-113. Burstabær úr steini, stendur enn.

Meldalur. Hús við Sundlaugaveg, talið til Kirkjuteigs 1957.

Melenni. Hús í Grafarholti.

Melgerði. Steinbær á Vatnsstíg 3, reistur 1895 af Brynjólfi Jónssyni. Rifinn 1919.

Melhagaróló. Róluleikvöllur milli Neshaga og Melhaga. Einnig kallaður Aparóló eða Kókakólaróló.

Melholt. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)

Melhól. Hús við Sundlaugaveg

Melkot. Býli við Suðurgötu, stóð beint fyrir ofan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Býlið var komið árið 1769 og stóð torfbærinn allt til ársins 1918 að hann var rifinn. Melkot er fyrirmyndin að Brekkukoti í Brekkukotsannál Halldórs Laxness.

Melshús. Gömul hjáleiga frá Reykjavík frá fornu fari, kennd við Skildinganesmela og stóð þar sem nú er nyrsti hluti Hólavallakirkjugarðar. Á 19. öld voru fimm bæir þegar flestir voru í Melshúsum. Árið 1903 voru þar þrír torfbæir og einn steinbær, Hringjarabærinn, en allir þessir bæir voru rifnir þegar kirkjugarðurinn var stækkaður til norðurs á árunum 1903-1905.

Melshús. Hús á Grímsstaðaholti, byggt 1913 af Geir Pálssyni, taldist Smyrilsvegur 24a, stóð í miðjum núverandi Hjarðarhaga á móts við nr. 13. Rifið fyrir 1960.

Melstaður. Hús á Grandavegi 38 á Bráðræðisholti, reist 1883 af Kristni Ólafssyni.

Melstaður. Hús á erfðafestulandi á Laugarásbletti 14 við Hólsveg (sama hús og er kallað við Kambsveg 30 1957?)

Melstaður. Býli á erfðafestulandi á Köllunarklettsbletti við Kleppsveg, merkt á kort 1947.

Melstaður. Timburhús í Blesugróf, nú Stjörnugróf 31.

Melsteðshús. Einlyft íbúðarhús úr timbri, reist 1818 á lóðinni Hafnarstræti 18 en stóð fast við Lækjartorg. Kennt við Sigurð Melsteð, forsöðumann Prestaskólans, sem lengi bjó þar. Húsið var rifið 1928.

Melsteðshús. Sjá Dillonshús.

Meltunga. Hús við Breiðholtsveg (1963).

Melur. Hús við Bleikargróf 1 (kannski sama hús og Melar)

Melurinn. Torfbær sem Þórir Jónsson virðist hafa byggt fyrir 1816 og stóð hann nálægt því sem síðar var Ásvallagata 40. Nefndur Þóriskot í sumum heimildum en annars yfirleitt Melurinn. Síðar var tví- eða þríbýlt á Melnum og voru bæirnir á svæðinu Ásvallagötu 40-44 til Sólvallagötu 23 og hét eitt húsið Smiðjan. Síðasti bærinn á Melnum (Smiðjan) var steinbær á Ásvallagötu 40, rifinn um 1967.

Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur. Ein af fastanefndum borgarinnar samkvæmt skipulagi frá 2005. Undir það heyrðu menningar- og markaðsmál.

Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar,  Varð til eftir skipulagsbreytingar 2005. Undir það heyra menningarmál og rekstur menningarstofnana og auk þess sinnir það ferðamálum og kynningu á Reykjavík og sér um skipulagningu og framkvæmd viðburða, svo sem menningarnóttar og vetrarhátíðar. Menningar- og ferðamálasvið hefur aðsetur í Aðalstræti 2 og var fyrsti forstöðumaður þess Svanhildur Konráðsdóttir.

Menningarmálanefnd Reykjavíkur. Komið á fót árið 1986 þegar allar menningarstofnanir og söfn borgarinnar voru sett undir einn hatt. Lauk hlutverki sínu þegar málaflokkurinn var færður undir Menningar- og ferðamálaráð árið 2005.

Menningar- og fræðslusamband alþýðu (MFA). Stofnað 1937 á vegum Alþýðuflokksins og ASÍ. Helstu hvatamenn að stofnun þess voru Stefán Pjetursson og Ármann Halldórsson. Sambandið tók yfir Alþýðuskólann (sjá) og rak hann en stóð jafnframt fyrir kraftmikilli bókaútgáfu sem dalaði þó eftir stríð og var kominn undir Bókaútgáfuna Helgafell um 1950. Árið 1969 var MFA endureist sem fræðslusamband á vegum ASÍ og voru helstu hvatamenn þess Sigurður E. Guðmundsson og Stefán Ögmundsson. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Hjörleifur Sigurðsson og var sambandið til húsa að Laugavegi 18 fyrstu árin en síðan á Grensásvegi 18 frá um 1977. Sambandið gekkst fyrir námskeiðum og Félagsmálaskóla alþýðu frá 1974. Árið 2003 sameinaðist MFA og Mímir-Tómstundaskólinn (sjá) í fyrirtækinu Mímir símenntun (sjá) sem rekin er af ASÍ.

Menningarstofnun Bandaríkjanna.

Menningarverðlaun Dagblaðsins

Menntaráð Reykjavíkurborgar

Menntaskólinn í Reykjavík. Elsti menntaskóli landsins við Lækjargötu og á hann rætur að rekja til latínuskólana á Hólum og í Skálholti. Á árunum 1805-1846 var skólinn á Bessastöðum en var þá fluttur í nýbyggt núverandi hús skólans. Arkitekt hússins var J. H. Koch en fyrsti rektor skólans eftir að hann flutti til Reykjavíkur var Sveinbjörn Egilsson. Á 19. öld var skólinn ýmist nefndur Reykjavíkur lærði skóli, Lærði skólinn, Reykjavíkurskóli eða Latínuskólinn. Á sal skólans var Alþingi Íslendinga háð á árunum 1845-1879, einnig þjóðfundurinn 1851. Árið 1904 var nafni skólans breytt í Hinn almenna menntaskóla í Reykjavík og árið 1937 fékk hann núverandi nafn. Heimavist var í skólanum til 1897 og sváfu piltar á Langalofti og Litlalofti sem voru á annarri hæð hússins. Leikfimihús var byggt við skólann árið 1857, hið fyrsta á landinu, og bókhlaða árið 1866 (Íþaka). Hús Menntaskólans eru nú níu talsins, nýbyggingar og eldri hús. Auk skólahúsins og Íþöku eru þau íþróttahús frá 1898, Fjósið (gamalt útihús að baki gamla skólahússins), Casa Christi (gamla KFUM-húsið frá 1907-1937), Casa Nova (nýbygging skólans frá 1964), Villa Nova við Bókhlöðustíg 7 (timburhús frá um 1900), Elísabetarhús við Þingholtsstræti (frá 1967) og Amtmannsstígur 2 (frá 1906).

Menntaskólinn við Hamrahlíð.  Stofnaður 1966 og er til húsa í Hamrahlíð 10. Fyrsti rektor skólans var Guðmundur Arnlaugsson. Árið 1972 var tekið upp áfangakerfi í skólanum í fyrsta sinn hérlendis. Um svipað leyti var stofnuð öldungadeild við skólann sem einnig var nýjung við framhaldsskóla á Íslandi.

Menntaskólinn við Sund. Stofnaður 1969, hét upphaflega Menntaskólinn við Tjörnina. Hann var þá til húsa í Miðbæjarskólanum við Fríkirkjuveg. Fyrsti rektor skólans var Björn Bjarnason.  Árið 1974 flutti hluti skólans í Vogaskóla í Gnoðarvogi 43 en áfram var kennt í Miðbæjarskólanum til 1976.  Nafni skólans var breytt 1977 í Menntaskólann við Sund enda var þá öll starfsemi hans komin í Gnoðarvog.

Menntaskólinn við Tjörnina. Sjá Menntaskólann við Sund.

Mennta- og leikskólasvið Reykjavíkurborgar.

Menntasvið Reykjavíkurborgar. Varð til árið 2005 og tók við af Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Leikskólum Reykjavíkur. Undir það heyrðu grunnskólar og leikskólar. Ári seinna voru leikskólar teknir undan Menntasviði. Var til húsa að Fríkirkjuvegi 1 en fluttist árið 2010 í Borgartún.

Menntavegur. Gata frá Nauthólstorgi að byggingum Háskólans í Reykjavík. Nafngift frá 2009.

Mensa Academica. Mötuneyti stúdenta í Lækjargötu 2 á árunum 1921-1929.

Merkisteinn, steinhlaðið hús á Vesturgötu 12

Merkisteinn. Nýbýli á erfðafestulandi við Grensásveg 3, reist af Carl Jensen vélstjóra 1928.

Merkjalækur. Vatnsrás eða lítill lækur ofan úr Langholti sunnanverðu sem féll í Elliðaárós. Hann skipti löndum Klepps og Bústaða. Einnig nefndur Markalækur.

Merkjastrengur. Veiðistaður ofarlega í Elliðaám (Dimmu) neðan Snókshólma.

Merkúr. Nýlenduvöruverslun, rekin af Haraldi Björnssyni á Hverfisgötu 64 á árunum  1922-1928.

Mezzoforte. Hljómsveit sem starfað hefur frá 1977 og spilar blöndu djass, rokks og popps. Hefur notið mikilla vinsælda heima og erlendis. Stofnendur voru Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari, Friðrik Karlsson gítarleikari, Gunnlaugur Briem trommuleikari og Jóhann Ásmundsson bassaleikari. Einnig má nefna Kristin Svavarsson saxófónleikari sem var með hljómsveitinni þegar hún var á hátindi frægðar sinnar.

Michelsen.

MG-félag Íslands. Samtök sjúklinga sem þjást af mysthenia gravis (vöðvaslensfári). Stofnað 1993 og var fyrsti formaður þess Ólöf Eysteinsdóttir.

Miðaftanshólar. Sjá Urðarhólar.

Miðaftanshólaurð. Sjá Urðarhólar.

Miðaftansklettar. Sjá Urðarhólar.

Miðaftansþúfa. Kennileiti á Gufunesás á syðstu mörkum Eiðisjarðarinnar.

Miðbakki. Hafnarkanturinn fyrir framan Tollstöðina og Hafnarhúsið í gömlu Reykjavíkurhöfn, milli Grófarbakka og Austurbakka. Fyrsti bakkinn var gerður við hafnargerðina 1913-1917 en hann var lengdur að Austurbakka árið 1942. Árunum 1992-1993 var bakkinn færður mikið fram.

Miðberg.  Félagsmiðstöð fyrir börn og unglinga í Gerðubergi 1 í Breiðholti, tók til starfa 1999 og tók þá við því hlutverki Fellahellis. Árið 2009 var stofnuð Félagsmiðstöðin Hundrað&eellefu og var Miðberg eftir það eingöngu frístundamiðstöð.

Miðborgarsamtök Reykjavíkur.  Heildarsamtök hagsmunaaðila í gamla Miðbænum í Reykjavík. Stofnsett 1997 með sameiningu Laugavegssamtakanna, Miðbæjarfélagsins og fleiri aðila. Fyrsti formaður samtakanna var Guðmundur G. Kristinsson.

Miðborg. Leikskóli sem varð til árið 2011 með sameiningu Barónsborgar, Lindarborgar og Njálsborgar og starfar hann á þremur stöðum: Njálsgötu 9 og 70 og Lindargötu 26/Veghúsastíg 5.

Miðborgin. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur tilheyra eftirfarandi svæði Miðborginni: Kvos, Grjótaþorp, Skólavörðuholt, Þingholt, Skuggahverfi og Vatnsmýri.

Miðbýli. Torfbær sem stóð þar sem nú er Bankastræti 14, reistur 1836 af Jóni Dagssyni. Einnig nefndur Skaftabær eftir Skafta Skaftasyni sem þar bjó um árabil.  Bærinn var rifinn 1891 en þá hafði verið reistur samnefndur steinbær á lóðinni.

Miðbýli. Torfbær sem stóð þar sem nú er Bakkastígur 4. Byggður 1868 af Jóni Árnasyni. Rifinn 1902 þegar reist var timburhús á lóðinni sem einnig var stundum nefnt þessu nafni.

Miðbæjarfélagið.

Miðbæjarmarkaðurinn. Verslanakjarni í húsi sem reist var 1972 í Aðalstræti 9

Miðbæjarskólinn. Reistur sem Barnaskóli Reykjavíkur við Fríkirkjuveg 1 árið 1898. Suðurálma skólans var reist 1907. Arkitekt hússins var Christian Brandstrup. Fyrsti skólastjórinn var Morten Hansen. Nafni skólans var breytt í Miðbæjarskóla þegar Austurbæjarskólinn tók til starfa 1930. Grunnskólahaldi í byggingunni lauk 1969 en hún hefur hýst ýmsar aðra skóla og fræðslustofnanir. Þar má nefna Námsflokka Reykjavíkur, Menntaskólann við Tjörnina, Leiklistarskóla Íslands, Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur, Þroskaþjálfaskólann, Tjarnarskólann, Miðskólann og Fræsðlumiðstöð Reykjavíkur. Skólar eins og Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn og Vesturbæjarskólinn höfðu og útibú í húsinu en frá 2011 fékk Kvennaskólinn allt húsið til afnota.

Miðbærinn. Gamli Miðbærinn er í grófum dráttum svæðið milli Lækjargötu og Aðalstrætis, öðru nafni Kvosin.

Miðbær.  Sjá Hlíðarhús.

Miðbær. Sjá Skálholtskot.

Miðbær. Sjá Stöðlakot.

Miðbær. Sjá Þingholtabæirnir.

Miðdalur. Steinhlaðið hús við Bræðraborgarstíg 19, reist af Jóni Guðmundssyni 1896. Stendur enn.

Miðfell. Stórt verktakafyrirtæki, stofnað 1964 af Leifi Hannessyni og fleirum. Hætti 1988.

Miðgarður. Kaffi- og veitingahús á Þórsgötu 1, stofnsett af Sósíalistafélagi Reykjavíkur árið 1947 og rekið til 1962.

Miðgarður. Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness. Stofnsett 1997 og var til húsa í Langarima 21 þar til hún var flutt að Gylfaflöt 5 árið 2011. Fyrsti framkvæmdastjóri Miðgarðs var Ingibjörg Sigurþórsdóttir.

Miðgrund. Torfbær á Bergstaðastræti 22, reistur 1872 af Sigurbjörgu Stefánsdóttur. Stundum nefndur Sigurbjargarbær. Í stað hans var reistur steinbær árið 1882 og var hann friðaður að ytra byrði árið 2011. Talið er að Bjargarstígur sé kenndur við Sigurbjörgu.

Miðholt. Bær við Bræðraborgarstíg 18, reistur af Þórði Þórðarsyni um 1879. Í stað bæjarins var reist samnefnt timburhús árið 1906 en það var rifið 1968. Það var stundum nefnt Guðmundarhús eftir Guðmundi Guðmundssyni sem þar bjó lengi (Ath aðrar upplýsingar í Reykvíkingar)

Miðholt. Sjá Guðnabær.

Miðhóll, hús við Grettisgötu

Miðhús. Steinbær við Bræðraborgarstíg 21b, reistur af Sveini Sveinssyni 1882. Árið 1921 var bærinn rifinn og reist samnefnt timburhús á lóðinni.

Miðhús. Torfbær við Lindargötu 43A, reistur af Helga Jónssyni árið 1848 eða fyrr. Árið 1897 var byggt samnefnt einlyft timburhús á lóðinni en það var flutt í Árbæjarsafn 1974.

Miðhúsavör. Var niður af Lindargötu 43a, við hliðina vestan við Móakotsvör. Báðar eru löngu horfnar undir uppfyllingar.

Miðkvörn. Veiðistaður neðst í eystri kvísl Elliðaáa, rétt neðan við Elliðaárbrýr eins og þær eru núna.

Miðmundadalur. Lægðasvæði fyrir suðaustan Reynisvatn milli Reynisvatnsheiðar og Hádegishæðar.

Miðmundadalur. Hús við Vesturlandsbraut.

Miðmundahæð. Sandhæð með urð í kring, eyktarmark beint í suður frá gamla Breiðholtsbænum. Nokkurn veginn þar sem göturnar Holtasel og Hæðarsel eru nú.

Miðsel. Steinbær með tveimur bustum sem var einn af Seljabæjunum, reistur 1872 af Magnúsi Vigfússyni og Guðrúnu Jónsdóttur. Miðselshúsin stóðu við Seljaveg 19 en voru rifin 1967.

Mið-Selsvör. Sjá Selsvarir.

Miðstræti. Gata í Þingholtunum milli Skálholtsstígs og Bókhlöðustígs. Lagning götunnar var ákveðin 1902 en áður var þarna tún sem hét Miðvöllur. Fyrsta nafn götunnar var Miðvallarstræti en það var síðan stytt í Miðstræti.

Miðvarartjörn. Tjörn nærri sjó á suðurhluta Engeyjar.

Miðvöllur. Tún sem var fyrir 1902 á þeim slóðum sem nú er Miðstræti.

Miðvör. Sjá Engeyjarvarir.

Miðvör. Sjá Skildinganesvarir.

Miklabraut. Breiðgata sem nær frá Miklatorgi og inn að Elliðaám. Nafngiftin er frá 1942.

Miklatorg. Hringtorg þar sem Hringbraut og Miklabraut mættust. Nafngiftin er frá um 1944. Árið 1988 var hringtorgið aflagt og í staðinn hafa komið mislæg gatnamót.

Miklatún. Sjá Klambratún.

Mikligarður. Sjá Amtmannshúsið.

Mikligarður. SÍS, KRON og nokkur önnur kaupfélög opnuðu stórmarkað með þessu nafni í Holtagörðum við Sund árið 1983. Á næstu árum voru opnaðar nokkrar aðrar verslanir undir merki Miklagarð, m.a. í Hafnarfirði og Garðabær og árið 1988 opnaði Mikligarður verslun við Hringbraut 121. Kaupstaður í Mjódd frá 1986 tilheyrði einnig verslunarkeðjunni. Mikligarður varð gjaldþrota árið 1993.

Milljónafélagið. Sjá P. J. Thorsteinsson & Co.

Minjasafn Orkuveitu Reykjavíkur. Stofnað 1990 að tilhlutan  Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Var til húsa í aðveitustöðinni við Rafstöðvaveg 1. Safnið var lagt niður 2011.

Minjavernd

Minni Bakki. Hús við Nesveg.

Minni-Öskjuhlíð. Sjá Litlahlíð.

Minningarssjóður Ingibjargar Hansen. Stofnaður 1921 til að styrkja fátæk börn í barnaskólum Reykjavíkur.

Mígandi. Vatnsrennsli við hamarinn Hanganda innst í norðanverðum Fossvogi. Einnig nefnt Votaberg.

Mímir. Málaskóli stofnsettur 1948 og var fyrsti forstöðumaður hans Haraldur Dungal en var síðan lengi undir stjórn Einars Pálssonar. Hét Berlitzskólinn til 1950. Var til húsa í Barmahlíð 13 til 1950, þá í Túngötu 5 1950-1955, Sólvallagötu 3 1955-1956, Hafnarstræti 15 1956-18, Brautarholti 4 1965-1985 og Ánanaustum 15 1985-1995. Skólinn var sameinaður Tómstundaskólanum árið 1995 og hét eftir það Mímir-Tómstundaskólinn. Eftir sameininguna var skólinn fyrst til húsa á Öldugötu 23 en frá 1996 á Grensásvegi 16A.  Enn urðu breytingar árið 2003 þegar skólinn sameinaðist Menningar- og fræðsluambandi alþýðu (MFA) og var eftir það fræðslufyrirtæki á sviði fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar, kallaður Mímir símenntun. Var sá skóli til húsa á Grensásvegi 16A til 2011 en þá flutti hann í Ofanleiti 2.

Mímir símenntun.  Sjá Mímir.

Mímir-Tómstundaskólinn. Sjá Mímir og Tómstundaskólinn.

Mínerva. Skyrtuverksmiðja, stofnuð af Magnúsi Víglundssyni 1957. Rekin að Bræðraborgarstíg 7 til 1966.

MÍR-salurinn

Mjóadalshæð. Hæð í Hólmsheiði, vestan og norðan Mjóadals.

Mjóamýri. Syðsti hluti Kringlumýrar, sunnan Miklubrautar.

Mjóamýri. Mýri sem liggur í lægðardragi vestan undir Vatnsendahæð þar sem nú er Jaðarsel og fleiri götur.

Mjódd. Örnefni í Breiðholti. Svæði sem var á mörkum Breiðholts og Breiðholtsmýrar og náði alveg niður undir Blesugróf. Hét áður Mjóidalur. Um Mjóddina lá leiðin frá Reykjavík upp að Breiðholtsbænum en nú er þarna þjónustukjarni fyrir byggðirnar í kring.

Mjóddir. Veiðistaðir í ánni Dimmu fyrir neðan Heyvaðshyl, ekki langt fyrir neðan Breiðholtsbraut. Ásamt Langhyl nokkru neðar kölluðu Englendingar, sem áttu Elliðaár fyrir 1906, veiðistaðina einu nafni Long Pool.

Mjóidalur.  Gróið dalverpi sem liggur upp af Bugðu og Fossnesi skammt austan við Almannadalsmynni í landi Hólms.

Mjóidalur. Sjá Mjódd.

Mjólkurbarinn. Veitingastaður í Mjólkurstöðinni á Laugaveg 162. Opnaður 1949 og veitti Laufey Sigurðardóttur honum forstöðu. Mikið notaður af mjólkurbílstjórum. Árið 1969 sameinaðist Mjólkurbarinn Brauðstofunni sem hafði verið til húsa á Vesturgötu 25 og hét eftir það Brauðstofan-Mjólkurbarinn. Rekinn til 1970.

Mjólkurbú Flóamanna. Verslun með mjólk og aðrar framleiðsluvörur Mjólkurbúsins var að Týsgötu 1 á árunum 1930-1935. Verslunarstjóri var Ingigerður Ögmundsdóttir.

Mjólkurfélag Reykjavíkur. Samvinnufélag stofnsett 1916 af bændum í nágrenni Reykjavíkur. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Jón Kristjánsson. Árið 1921 reisti Mjólkurfélagið hreinsunarstöð fyrir mjólk við Lindargötu 38 þar sem mjólkin var gerilsneydd. Var það fyrsta mjólkurstöðin á landinu. Rak það fjölmargar mjólkurbúðir í Reykjavík og hóf brátt að flytja inn margs konar rekstrarvörur til búskapar. Meðal annars rak félagið myllu til fóðurblöndunar. Árið 1930 tók Mjólkurfélagið í notkun nýja og fullkomna mjólkurstöð á Snorrabraut 54 en hún var tekin leigunámi af Mjólkursamsölunni í Reykjavík árið 1936 og hætti félagið þá mjólkurdreifingu.  Mjólkurfélagið reisti auk þess stórt verslunarhús í Hafnarstræti 5 en það hafði þá mikla verslun við bændur. Þar voru höfuðstöðvar fyrirtækisins ásamt fóðurblöndunni en árið 1952 hóf félagið að byggja nýtt stórhýsi á Laugavegi 164 og var þar árið eftir komið upp vöruafgreiðslu ásamt fóðurblöndun  en skrifstofur fluttu þangað 1957. Í húsinu rak síðan Mjólkurfélagið fjölmargar verslanir, meðal annars kjörbúð og búsáshaldaverslun, svokallaðar MR-búðir.  Árið 1965 hóf félagið framleiðslu í nýrri fóðurverksmiðju sinni í Brautarholti á Kjalarnesi og árið 1971 átti það aðild að bygginguni Kornhlöðunnar við Sundahöfn sem það hefur síðan eignast að mestu. Fóðurverksmiðjan var einnig flutt í Sundahöfn 1972.  Árið 1987 flutti félagið meginhluta starfsemi sinnar að Korngörðum 8 en MR-búðin, sem þjónustar nú einkum hesta- og aðra dýraeigendur, útivistarfólk, bændur og fl. flutti að Lynghálsi 3 árið 1998. Árið 2005 var nafni Mjólkurfélags Reykjavíkur breytt í Lífland.

Mjólkurfélagshúsið

Mjólkursamlag Kjalarnesþings. Stofnsett 1936 í þeim tilgangi að stofna félagsskap um mjólkurstöð Mjólkurfélags Reykjavíkur til gerilsneiðingar mjólkur. Fyrsti formaður sambandsins var Björn Birnir. Félagið er nú aðili að Landsambandi kúabænda.

Mjólkursamlag Reykjavíkur

Mjólkursamsalan í Reykjavík. Stofnsett 1935. Fékk einkaleyfi til dreifingar og smásölu mjólkur á svæðinu frá Gilsfirði til Skeiðarár. Gilti einkaleyfið til 1976 en þá voru sérstakar mjólkurbúðir á vegum hennar lagðar niður og var hún eftir það eingöngu heildsöluaðili. Mjólkursamsalan sameinaðist Mjólkurbúi Flóamanna 2005 og heitir nú Mjólkursamsalan ehf. Fyrsti forstjóri Mjólkursamsölunnar var Arnþór Þorsteinsson og voru skrifstofur hennar í Fiskifélagshúsinu við Skúlagötu en vöruhús í Sænsk-íslenska frystihúsinu. Rak hún 30 mjólkurbúðir í Reykjavík til að byrja með. Árið 1936 flutti hún í hús Mjólkurfélags Reykjavíkur að Snorrabraut 54 en ný mjólkurstöð að Laugavegi 162 var tekin í notkun 1949 (núverandi Þjóðskjalasafn). Þar var hún til 1986 að hún fluttist að Bitruhálsi 1.

Mjólkurstöðin. Hús Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Eldri Mjólkurstöðin var að Snorrabraut 54, rekin þar 1936-1949 en hún var reist af Mjólkurfélagi Reykjavíkur árið 1930.  Hin yngri var að Laugavegi 162, rekin þar 1949-1986. Á fyrstu árum Mjólkurstöðvarinnar við Laugaveg voru haldnir vinsælir dansleikir í húsinu.

Mjóstræti. Gata í Grjótaþorpi milli Fischersunds og Bröttugötu. Áður var þarna stígur eða sund sem upphaflega var hluti af Götuhúsastíg kallaðist í daglegu tali Mjósund. Stefna götunnar var ákveðin og gert við hana á árunum 1857-8.

Mjósund. Sjá Mjóstræti.

Mjóu-Sog. Austasti hluti Soganna.

Mjóumýrarvegur. Gata sem lá frá gatnamótum Klifvegar og Bústaðavegar til norðvesturs. Nyrðri endi hennar var þar sem nú er Hvassaleiti.

Mjöll. Sápugerð í Litla Skerjafirði undir stjórn Einars Sæmundssonar.

Mjölnir. Hlutafélag. Stofnað 1903 af Knud Zimsen verkfræðingi og fleirum til að mylja grjót og gera steina úr steinsteypu. Aðsetur félagsins var þar sem nú heitir Mjölnisholt. Félagið varð gjaldþrota 1910.

Mjölnisholt. Stutt gata sem nú liggur milli Laugavegar og Brautarholts, kennd við grjótmulningsverksmiðjuna Mjölni. Fram til 1942 hét gatan Mjölnisvegur og náði mun lengra í norður. Nyrsti hluti hennar heitir nú Skúlatún.

Mjölnisstöðin. Fiskverkunarhús og stakkstæði á vegum togarafélagsins Oturs á árunum milli stríða. Einnig nefnd Otursstöðin. Var við Mjölnisholt rétt fyrir vestan þar sem nú er Þjóðskjalasafn Íslands.

Mjölnisvegur. Sjá Mjölnisholt.

MND-félag Íslands. Stofnsett 1993 og var fyrsti formaður þess Rafn Jónsson. Aðsetur félagsins er í Hátúni 10b.

Model-flugfélag Reykjavíkur. Drengjafélag. Í því voru 180 drengir 1942.

Model Magasin. Tískufataframleiðsla, stofnuð af Jóni Þórissyni árið 1962. Verksmiðjan var á Laugaveg 178 til 1967, á Ytra-Kirkjusandi til 1975, að Tunguhálsi 9 til 1980 og síðan á Laugaveg 26 þar til verksmiðjan hætti um 1990. Einnig var saumastofa í Austurstræti 14 fyrsta áratuginn.

Mokka. Kaffihús, stofnað 1958 af hjónunum Guðnýju Guðjóns´dottur og Guðmundi Baldvinssyni. Varð fyrst til að kynna ítalska kaffimenningu á Íslandi. Hefur frá upphafi verið á sama stað, Skólavörðustíg 3a, og með sama sniði. Þar hafa jafnan verið myndlistarsýningar á veggjum.

Moldbrekkur. Brekkur vestan í Selás, áður í landi jarðarinnar Árbæjar.

Moonlight-klúbburinn. Skemmtiklúbbur sem starfaði á árunum 1925 til 1932 og gekkst einkum fyrir dansleikjum.

Morgunblaðið

Morgunblaðshöllin.  Húsið Aðalstræti 6 sem reist var af Morgunblaðinu og tekið í notkun 1956. Vegna stærðar sinnar fékk það þetta nafn.

Mosaik. Stofnað 1952 af Walter Jónssyni og fjölskyldu hans. Varð fyrst til að sérhæfa sig í steyptum girðingum í Reykjavík. Teiknuð voru munstur og mótin smíðuð í fyrirtækinu. Framleiddi einnig legsteina og lagði terazzo. Var til húsa í Þverholti en síðar í Hamarshöfða 4.

Móakot. Torfbær sem Jóhannes Guðmundsson reisti árið 1838 rétt fyrir ofan þar sem Kveldúlfshúsin við Skúlagötu 12 stóðu síðar. Þar var byggður samnefndur steinbær 1893. Á lóðinni var byggt timburhús 1902 sem einnig var nefnt þessu nafni.

Móakotslind. Helsta vatnsból Skuggahverfis í landi Móakots, var við horn Vatnsstígs og Lindargötu en báðar þessar götur draga nafn sitt af henni. Taugaveikifaraldur sem kom upp 1906 og mátti rekja til Móakotslindar varð til þess að ráðist var í gerð vatnsveitu fyrir Reykjavík.

Móakotsvör. Var niður af Lindargötu 43a, þétt austan við Miðhúsavör. Báðar eru löngu horfnar undir uppfyllingar.

Móar. Örnefni í Seljahverfi í Breiðholti, á við svæðið þar sem Seljaskóli stendur og þar í kring.

Móar. Gömul jörð í Kjalarneshreppi hinum forna. Bærinn stendur á flatlendi neðan þjóðvegar sunnan frá Esjubergi nær sjó.

Móberg.  Steinbær við Bræðraborgarstíg 26. Rifinn fyrir 1965.

Módelsamtökin. Samtök tískusýningarfólks, stofnuð af Unni Arngrímsdóttur, Pálínu Jónmundsdóttur og fleirum árið 1967. Var vinnumiðlun auk þess að standa fyrir tískusýningum og margvíslegum námskeiðum í háttvísi, framkomu og útliti. Störfuðu fram yfir árið 2000.

Módettukórinn

Mófell. Nýlenduvöruverslun sem rekin var í Hafnarstræti 16 á árunum 1954-1967.

Mógilsá. Jörð innst í Kollafirði. Bærinn er við norðurhorn fjarðarins við rætur Esju. Þar hefur frá 1967 verið Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins og mikil skógrækt.

Mógrafarblettur.  Svæði austan Rauðarár, nálægt því sem Laugavegur 118 var síðar.

Móholt. Sjá Grímsstaðaholt.

Móholt. Örnefni í Neðra-Breiðholti þar sem Bakkahverfi eru nú.

Móholt. Örnefni upp og austur af Gullkistuvík í vestanverðu Kjalarnesi.

Móhús. Sjá Laufás.

Móhús Innréttinganna. Stóð þar sem nú er Aðalstræti 6. Reist fyrir 1759 en líklega rifið 1825.

Móhyljir. Tveir veiðistaðir í Elliðaám. Efri hylurinn er rétt fyrir neðan norðvesturhorn Toppstöðvarinnar en sá neðri fyrir neðan hitaveitustokkinn og göngubrúna litlu neðar í ánum. Englendingar sem áttu árnar fyrir 1906 kölluðu staðina Pete‘s Pool.

Móhylsstallar. Veiðistaður í Elliðaánum við norðvesturhorn Toppstöðvarinnar.

Móhylsstrengir. Veiðistaðir í Elliðaám rétt fyrir ofan göngubrúna og hitaveitustokkinn neðan Toppstöðvarinnar.

Móritzarhús. Hús við Fálkagötu 25, byggt 1920 af Alwin Moritz.

Móskarðshnjúkar. Líbarítfjall sem gengur austur úr Esjunni.

Mótekja

Mótorvélstjórafélag Íslands. Stofnað 1942 af þeim sem lokið höfðu meiraprófi á námskeiðum Fiskifélags Íslands. Fyrsti formaður þess var Sveinn Jónsson. Félagið var sameinað Vélstjórafélagi Íslands 1968.

Mótollur. Settur á 1873 og jafnframt reglur um mótekju sem giltu fram í síðari heimsstyrjöld.

MR-búðin. Sjá Mjólkurfélag Reykjavíkur.

MS-félag Íslands. Hagsmunafélag fólks með MS. Stofnað 1968 af var helsti hvatamaður að stofnun þess Kjartan G. Guðmundsson. Árið 1986 opnaði félagið dagvist í leiguhúsnæði í Álandi en frá 1995 hefur dagvistin verið í eigin húsnæði félagsins, MS-setrinu að Sléttuvegi 5.

MS-setrið. Sjá MS-félag Íslands.

Müllersskólinn. Leikfimiskóli, kenndur við æfingakerfi Danans I. P. Muller. Settur á stofn af Jóni Þorsteinssyni íþróttakennara árið 1924. Var fyrstu árin í Austursræti 16 en á árunum 1928-1935 í risinu í Austurstræti 14. Flutti 1935 í nýtt íþróttahús Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu og hét eftir það Íþróttaskólinn.

Musica Nova. Félagsskapur, stofnaður 1959 i þeim tilgangi að kynna Íslendingum nýja og róttka tónlist. Stofnendur voru Einar G. Sveinbjörnsson, Fjölnir Stefánsson, Gunnar Egilson, Ingvar Jónasson, Jón Nordal, Magnús Blöndal Jóhannsson og Sigurður Markússon. Félagið starfaði til 1971 en var endurvakið 1981 og starfaði þá til 1994.

Múlabær. Dagheimili fyrir aldraða og öryrkja, stofnað 1983 að tilhlutan Reykjavíkurdeildar RKÍ og Samtaka aldraðra. Til húsa í Ármúla 34.

Múlakaffi. Veitingastaður við Hallarmúla, stofnsettur 1962 af Stefáni Ólafssyni matreiðslumeistara og fleirum. Hefur frá upphafi lagt áherslu á íslenskan heimilismat en rekur jafnframt víðtæka veisluþjónustu.

Múlakampur. Braggahverfi frá stríðsárunum fyrir ofan Suðurlandsbraut, rétt við gatnamót Reykjavegar og neðan malargryfjanna þar sem Ármúlaskóli reis síðar. Einnig nefnt Camp Casement og Camp Caledonia. Í hverfinu voru 30 braggar árið 1952 og voru í þeim allt að 150 manns þegar flest var. Síðast var búið í bragga í Múlakamp árið 1975.

Múlalundur. Öryrkjavinnustofur SÍBS, stofnaðar 1959. Sérhæfa sig í framleiðslu á plast- og pappavörum. Voru til húsa í Ármúla 34 til 1982 en fluttu þá í Hátún 10c. Árið 2010 voru vinnustofurnar fluttar að Reykjalundi.

Múlahverfi. Hverfi með götuheitum sem enda á –múli. Nafngiftin er sótt til býlisins Múla. Afmarkast af Suðurlandsbraut, Grensásveg, Miklubraut, Háaleitisbraut og Kringlumýrarbraut. Á stríðsárunum var þarna hverfi herbragga (Múlakampur) sem Íslendingar tóku svo yfir og bjuggu í ásamt ýmsum smáhýsum sem reist voru utan skipulags. Öll þessi hús eru horfin en í stað þeirra risu einkum iðnaðar, þjónustu- og verslunarhús milli 1955 og 1980. Múlarnir eru Ármúli, Fellsmúli Hallarmúli, Lágmúli, Selmúli, Síðumúli og Vegmúli.

Múlavegur. Vegurinn milli Suðurlandsbrautar og Langholtsvegar, þvert yfir Þvottalaugamýrar fékk nafn sitt 1928 og er kenndur við nýbýlið Múla við Suðurlandsbraut. Nú er Múlavegur mun styttri, einungis botnlangi norður af Engjaveg.

Múli. Landnámsjörð í Kjalarneshreppi hinum forna, talin hafa verið þar sem nú er Stardalur.

Múli. Erfðafestubýli við Suðurlandsbraut á horninu við Múlaveg, reist árið 1919 af þeim Guðmundi Kjartani Jónssyni og Guðríði Pálínu Jónsdóttur. Í húsinu var rekið útibú frá Barnaskóla Reykjavíkur 1923-1924. Húsið var rifið 1977.

Múlinn. Djassklúbbur, kenndur við Jón Múla Árnason. Stofnaður 1997 að tilhlutan Félags íslenskra hljómlistarmanna, Heita pottsins og veitangastaðarins Jómfrúarinnar.

Múrarafélag Reykjavíkur. Stofnað 1917 og var fyrsti formaður þess Einar Finnsson. Bæði meistarar og sveinar voru í férlaginu en árið 1933 hætti sú samstaða og stofnuð voru Múrarameistafélag Reykjavíkur og Sveinafélag múrara. Sveinafélagið tók árið 1941 aftur upp gamla nafnið: Múrarafélag Reykjavíkur.

Múrarameistarafélag Reykjavíkur

Múrinn. Sjá Stjórnarráðshúsið.

Múr- og steinsmiðafélagið í Reykjavík.

Músarnes. Lítið og mjótt nes vestur af kirkjustaðnum Brautarholti

Músarsund. Sjóleið norðvestan Kjalarness.

Músasund. Lítið sund sem fyrir 1930 lá úr Pósthússtræti milli Lækjargötu 10A og 10B og í Lækjargötu.

Músíkfélag Reykjavíkur. Stofnað 1897.

Músík og saga

Músíksjóður Guðjóns Sigurðssonar.

Músíktilraunir. Voru fyrst haldnar í Tónabæ 1982 og stóð húsið fyrir þeim ásamt Sambandi alþýðuskálda og tónlistarmanna (SATT). Þær eru vettvangur ungra hljómsveita til að flytja frumsamda tónlist og hafa fjölmargar þekktra hljómsveita hafa stigið þar sín fyrstu spor. Músíktilraunir voru haldnar í Tónabæ við Skaftahlíð til 2000 en síðan í ýmsum íþróttahúsum og samkomuhúsum. Síðari árin hefur Hitt húsið skiplagt þær.

Myllan-Brauð hf. Árið 1963 var Brauð hf. stofnað af þremur bakarameistunum til að baka brauð fyrir bakarí og aðra smásala og var fyrst til húsa í Kópavogi en frá 1974 í Skeifunni 11. Einn bakarameistaranna, Kristinn Albertsson, sem rekið hafði bakarí í Álfheimum 6 frá 1959, tók félagið yfir árið 1978 ásamt fjölskyldu sinni og frá 1982 voru brauð og kökur framleiddar undir vörumerkinu Myllan. Árið 1984 keypti fyrirtækið Kökuborg sem sérhæfði sig í að baka kökur og kökubotna. Frá 1988 var fyrirtækið til húsa í Skeifunni 19 og kallaðist eftir það Myllan-Brauð hf. Yfirtók samkeppnisaðilann Samsölubrauð árið 1998. Ennfremur hefur Myllan-Brauð hf. keypt fyrirtæki erlendis.

Myllan í Bankastræti

Myllulækjartjörn

Myndabúðin. Stofnsett 1914 af Guðmundi Ásbjörnssyni á Laugavegi 1og rekin til dauðadags hans 1952. Einnig nefnd Ramma- og veggmyndaverslun Guiðmundar Ásbjörnssonar. Þar voru þar á boðstólum veggmyndir, myndarammar, veggfóður og annað híbýlaskraut og einnig voru þar haldnar málverkasýningar. Verslunin var í tengslum við trésmíðaverkstæði Guðmundar sem hann hafði stofnað 1913 á sama stað.

Myndamót. Prentmyndagerð, stofnuð 1957 af Páli Vígkonarsyni. Var fyrstu árin á Hverfisgötu 50 en frá um 1960 í Aðalstræti 6. Lögð niður 1989 þegar Morgunblaðið keypti fyrirtækið og sameinaði það Árvakri.

Myndhöggvarafélagið í Reykjavík. Stofnað árið 1972.

Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Stofnaður 1939 sem einkaskóli af Lúðvíg Guðmundssyni. Skólinn hét upphaflega einungis Handíðaskólinn og var til húsa í niðurgröfnum kjallara á Hverfisgötu 57. Þar var kennd dráttlist, trésmíði, málmsmíði, pappavinna og föndur. Árið 1941 fékk skólinn eigin húsakynni að Grundarstíg 2A og var gerður að sjálfseignarstofnun. Þá var farið að kenna myndlist við hann og var nafninu breytt í Handíða- og myndlistaskólann. Skólinn var á Grundarstíg 2A til 1957 auk þess sem kennt var um árabil að Laugavegi 118. Hann flutti svo í Skipholt 1 árið 1957 þar sem hann var til loka. Árið 1965 varð skólinn formlega gerður að ríkisskóla og hét eftir það Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Gegndi hann margbreyttu hlutverki sem myndlistaskóli, listiðnaðar- og hönnunarskóli og kennaraskóli. Skólinn var lagður niður 1999 þegar Listaháskóli Íslands var stofnaður.

Myndlistaskólinn í Reykjavík. Stofnsettur 1947 og hét í upphafi Myndlistarskóli Félags íslenskra frístundamálara en fékk núverandi nafn 1951. Skólinn var frá upphafi hugsaður sem fræðsluvettvangur fyrir áhaugafólk um sjónlistir. Fyrsti skólastjórinn var Axel Helgason. Skólinn var til húsa á Laugavegi 166 til 1958 en flutti þá í Ásmundarsal á Freyjugötu 41. Þar var hann til 1979 að hann flutti að Laugaveg 118, þaðan fór hann á Tryggvagötu 15 þar sem hann var frá 1981-1998 en síðan þá hefur hann verið til húsa í JL-húsinu á Hringbraut 121.

Myra Camp. Braggahverfi sem bandaríska setuliðið reisti á stríðsárunum upp af Ægisgarði austan megin við götuna.

Myrkir músíkdagar. Árleg tónlistarhátíð sem var fyrst haldin 1980.

Mytchett Camp. Herbraggahverfi á stríðsárunum við Vélsmiðjuna Héðinn við Seljaveg.

Mýdalsá. Á sem rennur um Mýdal rétt fyrir neðan Tindstaðabæina á Kjalarnesi.

Mýdalur. Dalur sem vegurinn liggur um neðan Tindsstaðabæja á Kjalarnesi.

Mýrargata. Liggur frá Ægisgötu að gatnamótum Ánanausta og Grandagarðs. Nafn götunnar var ákveðið 1896 og er hún kennd við Hlíðarhúsamýri sem hún liggur en einnig var mýrin stundum kölluð Svartiskóli.

Mýrarholt. Hús við Bakkastíg 6, upphaflega torfbær, reistur 1859 af Einari Jónssyni, siðan steinbær og loks stórt steinhús sem nú stendur. Húsið Nýlendugata 30 frá 1929 er einnig nefnt Mýrarholt.

Mýrarholt. Kirkjujörð frá Brautarholti á Kjalarnesi. Var í neðri túnum Brautarholt um 100 metra suðaustur af Krosshól. Lagðist í eyði 1921.

Mýrarkampur (Myra Camp). Braggahverfi frá stríðsárunum við Ægisgarð, á horninu andspænis Hamri og Slippnum. Þar voru níu braggar og bjuggu Íslendingar fyrst í þeim 1943, 23 talsins, en síðast 1946.

Mýrarskyggnir. Hóll norður af Almannadal á mörkum jarðanna Grafarholts, Reynisvatns og Hólms.

Mýri, Torfbær sem stóð þar sem nú er Nýlendugata 33.

Mæðrafélagið

Mæðragarðurinn. Skrúðgarður syðst við Lækjargötu að austanverðu, komið á fót 1925 og var hann einkum hugsaður mæðrum með lítil börn. Í garðinum er styttan Móðurást eftir Nínu Sæmundson frá 1930 og var það fyrsta höggmyndin í Reykjavík sem ekki var minnismerki um nafngreindan einstakling.

Mæðrastyrksnefnd. Stofnuð 1928 af 15 kvenfélögum í Reykjavík fyrir forgöngu Kvenréttindafélags Íslands. Fyrsti formaður nefndarinnar var Laufey Valdimarsdóttir og var aðsetur hennar framan af í Þingholtsstræti 18. Nefndin var gerð að sjálfstæðri stofnun 1939. Hefur einkum starfað í þágu einstæðra mæðra og barna, meðal annars með matargjöfum.

Mælifell. Vefnaðarvöruverslun. Var á Laugavegi 68 árið 1950 en í Austurstræti 4 frá um 1953 til 1963.

Möguleikhúsið. Hefur starfað síðan 1990 og sýnir einungis barnaefni, allar sýningar eru ferðasýningar. Leikarahópurinn sem stóð að leikhúsinu í upphafi voru Alda Arnardóttir, Bjarni Tryggvason, Grétar Skúlason, Pétur Eggerz og Stefán Sturla Sigurjónsson.

Möðruvellir, hús við Ásveg 11, erfðafestuland.

Möllershús. Sjá Jóska húsið.

Möllersverslun. Kennd við Ole Peter Christian Möller og var hún rekin með hléum frá 1810 til 1836, fyrst í Jóska húsinu í Hafnarstræti 16 en síðar Austurstræti 14. Síðar rak Ole Peter Möller yngri samnefnda verslun í Hafnarstræti 16 á árunum 1859-1878.

Mörk. Gróðrarstöð, sett á legg af þeim Pétri N. Ólasayni og Mörthu Clöru Björnsson innst í Fossvogsdal við Stjörnugróf 18 árið 1967. Ein helsta uppeldisstöð landsins fyrir garð- og skógarplöntur.

Mörk. Steinbær, reistur 1898 við Bræðraborgarstíg 8b af Jóni Eiríkssyni, og síðan kom þar áfast samnefnt timburhús. Hvort tveggja rifið árið 1985. (Athuga aðrar upplýsingar í ritinu Reykvíkingar)

Mörkin. Félag áhugafólks um þjónustu við aldraða. Reisti íbúðarhúsnæði í Mörkinni (ath)

N1. Sjá Olíufélagið og Bílanaust.

Nafta. Hlutafélag um olíusölu, stofnað 1932 af Magnúsi Sveinssyni og fleirum, hét upphaflega Íslensk-rússneska verslunarfélagið. Var með bensínstöð við Faxagötu í Austurhöfninni frá 1934-1957 og bensín- og olíugeyma í Vatnagörðum frá 1936. Olíuverslun Íslands keypti eigur þess 1947.

Nasa. Skemmti- og dansstaður í Thorvaldsensstræti 2 við Austurvöll þar sem áður var Sjálfstæðishúsið og seinna Sigtún. Opnaður 2001 af þeim Garðari Kjartanssyni og Þormóði Jónssyni.

Nathan & Olsen. Heildsölufyrirtæki,stofnað 1912 af Dönunum Frits Nathan og Carl Olsen. Var fyrstu tvö árin til húsa í Hafnarstræti 21 en fluttu sig 1914 í Hafnarstræti 9. Húsið brann 1915 og var fyrirtækið um skamma hríð eftir það til húsa í Veltusundi 1 en frá 1916 í Austurstræti 16. Þar reistu Nathan & Olsen stórhýsi (Reykjavíkurapótek) á árunum 1916-1918 og voru þar með höfuðstöðvar sínar til 1928 að þeir fluttu á Vesturgötu 2, frá 1968 var fyrirtækið  í Ármúla 8 og loks frá 1988 í Vatnagörðum 18-22.

Nathan & Olsens-húsið. Sjá Reykjavíkurapótek.

Naustakot. Sjá Suðurkot.

Naustatangi. Eyri sem liggur út í Grafarvog að norðanverðu, drjúgan spöl fyrir innan Gullinbrú.

Naustið. Veitingastaður að Vesturgötu 8, opnaður 1954 af Halldóri S. Gröndal. Aðalsalur staðarins minnti á borðsal í gamalli skútu og var með kýraugu í stað glugga. Allir innanstokksmunir og skreytingar minntu á sjósókn. Uppi á lofti var bar í baðstofustíl. Innréttingar teiknaði Sveinn Kjarval. Naustið var áratugum saman einn þekktasti og vinsælasti veitingastaður Reykjavíkur en síðustu árin hallaði undan fæti og honum var lokað 2006.

Naustin. Gata milli Hafnarstrætis og Geirsgötu. Áður voru á þessum slóðum  uppsátur báta með þessu nafni.

Nautavað. Vað yfir Elliðaár (Dimmu), fyrir ofan svokölluð Þrengsli, nokkurn veginn þar sem göngustígur kemur niður úr Suðurhólum í Breiðholti.

Nauthóll. Býli á 19. öld sem byggðist úr landi Skildinganess við Skerjafjörð. Stóð við samnefndan hól upp af Nauthólsvík. Síðasti torfbærinn í Nauthól var brenndur árið 1902 vegna taugaveiki sem blossað hafði upp í bænum.

Nauthóll. Veitingastaður sem Ingvar Ágúst Þórisson opnaði í timburhúsi upp af Nauthólsvík árið 1999 og var hann rekinn til 2006. Í tengslum við byggingu Háskólans í Reykjavík var  opnaður nýr staður með þessu nafni árið 2010 og er hann á svipuðum slóðum og hinn fyrri.

Nauthólsmýri

Nauthólstorg. Hringtorg á mótum Nauthólsvegar og Menntavegar.

Nauthólsvegur. Vegur frá Hringbraut að Nauthólsvík.

Nauthólsvík.  Vík við Skerjafjörð í landi Skildinganess, skammt niður af Öskjuhlíð. Frá um 1930 notuðu Reykvíkingar víkina til sjó- og sólbaða. Árið 1969 var þó víkinni lokað til sjóbaða vegna mengunar. Á árunum 2000-2001 var Ylströndin í Nauthólsvík tekin í notkun. Reistir voru sjóvarnargarðar og gulum skeljasandi dælt inn fyrir þá. Í lóni þar fyrir innan kemur heitur og kaldur sjór saman en upp af víkinni er þjónustumiðstöð og setlaug.

Náman.  Hlutafélag, stofnað 1976, um rekstur sanddæluskips og jarðefnavinnslu. Fyrsti stjórnarformaðurinn var Halldór H. Jónsson.

Námsflokkar Reykjavíkur. Stofnaðir sem kvöldskóli á vegum Reykjavíkurbæjar  árið 1939. Stofnandi og aðalfrumkvöðull þeirra var Ágúst Sigurðsson og var hann skólastjóri til 1969. Frá 1972-2005 var Guðrún Halldórsdóttir skólastjóri. Námsflokkarnir voru til húsa  í Miðbæjarskólanum 1939-1969 og aftur 1976-2005. Í millitíðinni voru þeir í Laugarlækjarskóla. Um tíma var kennt á fleiri stöðum. Árið 2005 fluttu Námsflokkarnir að Þönglabakka 4 og árið 2012 að Suðurlandsbraut 32.

Námufélag Íslands. Stofnað 1908 til að rannsaka líklega námustaði á Íslandi og reka námugröft. Formaður félagsins var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri.

Nátthagavatn. Lítið vatn suðaustan við Elliðakot.

Náttúra. Hljómsveit

Náttúrufræðisfélagið. Stofnað 1889 til að koma upp náttúrugripasafni.

Náttúrugripasafnið

Náttúrulækningabúðin

Náttúrulækningafélag Íslands. Stofnað 1939.

Náttúrulækningafélag Reykjavíkur

Náttúruskóli Reykjavíkur. Tók til starfa 2005 sem samstarfsverkefni Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur, Menntasviðs Reykjavíkur, Leikskólasviðs Reykjavíkur, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Landverndar. Fyrsti verkefnisstjóri Náttúruskólans er Helena Óladóttir.  Skólinn er rekinn sem miðstöð þekkingar og upplýsingfar unm útinám og umhverfisvernd og rekur meðal annars útikennslustofu í Heiðmörk.

Neðra Breiðholt. Neðri hluti Breiðholtshverfis fyrir norðan Breiðholtsbraut. Samanstendur af götum sem heita Bakkar og Stekkir ásamt Mjóddinni.

Neðri-Bær. Veitingastaður í Síðumúla 34. Opnaður 1970 af þeim Sigurði Söebeck og Guðmundi V. Sigurjónssyni. Rekinn til 1976.

Neðri Grund. Hús við Breiðholtsveg (Blesugróf)(1963)

Neðri Kista. Sjá Stararhyljir.

Neðri Þrep. Veiðistaðir í norðurkvísl Elliðaáa þar sem hún einkennist af strengjum, rennum og stöllum. Eru á milli Seiðketils og Helluvaðs, rétt ofan við Félagsheimili Rafmagnsveitunnar.

Neðridalur. Íbúðarhús í Dísardal milli Bugðu og  Suðurlandsvegar, reist árið 1935. Búið var í því til 1990. Horfið.

Nemendaleikhúsið.

Nemendasamband Kvennaskólans. Stofnað 1938.

Nemendasamband Verslunarskólans. Stofnað 1939.

Neon. Rafljósagerð, sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, stofnuð 1952 af Karli Jóhanni Karlssyni. Var til húsa á Öldugötu 4 til 1959 en eftir það í Ármúla 5. Nafni fyrirtækisins var breytt í Neon-þjónustuna 1975. Flutti í Kópavog um 1979 og leið undir lok 1997 þegar það sameinaðist öðrum fyrirtækjum.

Neonþjónustan. Sjá Neon.

Nesbúð. Nýlenduvöruverslun að Nesvegi 39, stofnsett 1949 af Ingimar Jörgenssyni og rekin þar til 1959. Einnig rak hann verslun með sama nafni á Grensásvegi 24 frá 1956 til 1965.

Nesco. Verslun með útvarps- sjónvarps- og hljómflutningstæki. Stofnuð 1968 af Óla A. Bieltvedt og Erni Vilhjálmssyni. Var til húsa á Laugavegi 10 en opnaði einnig verslun í Kringlunni. Hætti 1988.

Nesjavellir

Neskirkja. Sóknarkirkja Nessöfnuðar við Neshaga 1, vígð árið 1957. Arkitekt hennar var Ágúst Pálsson.

Neskjör. Matvöruverslun, stofnsett 1972 af Ara Einarssyni á Nesvegi 33 (Ægisíðu 123). Rekin til 1999.

Nesskip. Skipafélag, stofnsett í Reykjavík 1974 og var fyrst til húsa í Hafnarhúsinu. Frá 1977-1983 var það síðan að Öldugötu 15 en eftir það voru höfuðstöðvarnar á Seltjarnarnesi. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Guðmundur Ásgeirsson.

Nessöfnuður. Stofnaður 1940 og nær hann yfir Vesturbæ sunnan Hringbrautar og Skerjafjörð. Fyrsti sóknarprestur safnaðarins var séra Jón Thorarensen.

Nesvegur. Upphaflega gamli Seltjarnarnesvegurinn sem lá frá Kaplaskjólsvegi og vestur á nesið. Götunafnið Nesvegur er frá 1945. Eftir að Hagarnir fóru að byggjast var Nesvegur framlengdur allt að Hagatorgi en síðar var gatnaskipan breytt og heitir nú sá hluti götunnar sem áður var austasti hluti Nesvegar Neshagi.

Nesvík. Vík sem gengur inn í Kjalarnes (nesið sjálft) suðvestanvert.

Netagerð Björns Benediktssonar. Stofnuð 1924 á Völundarlóðinni við Klapparstíg en frá 1933 var hún til húsa á horni Holtsgötu og Ánanausta. Þar voru meðal annars framleiddar botnvörpur og síldarnætur. Hætti 1959.

Netagerð Guðmundar Sveinssonar.

Netagerð Thorbergs Einarssonar.

Nettó. Lágvöruverðsverslun sem Kaupfélag Eyfirðinga opnaði að Þönglabakka 1 í Mjódd árið 1998. Árið 2008 bættist við önnur verslun í Hverafold 1-3 í Grafarvogi. Auk þéssu eru reknar Nettó-verslanir víðar um landið.

Netverk. Hugbúnaðarfyrirtæki, stofnsett af Holberg Mássyni 1993, starfaði til 2004.

Neyðarbrautin. Hugtak sem varð til árið 2013 um lítt notaða flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokallaða norðaustur/suðvesturflugbraut, sem ákveðið hafði verið að leggja niður en samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni og fleiri vildu að yrði áfram í notkun.

Neytendasamtökin. Stofnuð 1953 og hétu í upphafi Neytendasamtök Reykjavíkur. Fyrsti formaður þeirra var Sveinn Ásgeirsson. Fyrstu ár félagsins var skrifstofa neytendsamtakanna í Bankastræti 7 en síðan í Austurstræti 14 til 1968.

Neytendastofa. Stofnsett 2005.

New Mercur Camp. Herbraggahverfi á stríðsárunum í Blesugróf, rétt austan við Breiðholtsveg þar sem gatan Blesugróf er nú.

Niðurjöfnunarnefnd

Niðurkot. Bær á Kjalarnesi fyrir sunnan Álfsnes. Stóð við mitt Þerneyjarsund og fór í eyði 1886. Hét líklega Sundakot áður. Tóttir hans eru friðaðar en talið er að kaupstaðurinn í Þerneyjarundi sem þar var á miðöldum hafi verið í nágrenni við þær.

Nikkabar. Hverfiskrá á Hraunbergi 4 í Breiðholti, stofnsett 1996.

Nikulásarkot. Sjá Nýibær.

Nikulásarkotslind. Vatnsból sem var þar sem síðar var Flosaport á Klapparstíg 8.

Ninon. Tískuvöruverslun. Stofnsett 1932 af Önnu Friðriksson og rekin til um 1962. Var fyrst í Austurstræti 12 en lengi síðan í Bankastræti 7.

Níu líf

Njarðarstöðin. Fiskverkunarstöð togarafélagsins Njarðar. Hús og stakkstæði þar sem síðar var miðbik Skúlatúns. Rekið til 1932.

Njálsborg. Leikskóli sem tók til starfa árið 1986 (?)í eldra húsnæði að Njálsgötu 9. Árið 2011 var hann sameinaður Barónsborg og Lindarborg undir nafninu Miðborg.

Njörður. Togarafélag, stofnað 1913 og var fyrsti framkvæmdastjóri þess Elías Stefánsson. Gerði út tvo togara og rak fiskvinnslustöð til 1932.

Nonni. Barnafataverslun. Stofnsett 1942 af Hjálmtý Péturssyni og rekin til 1974, alla tíð á Vesturgötu 12.

Nonni. Vélsmiðja, stofnuð í Reykjavík 1975 af Þorsteini S. Jónssyni í tengslum við samnefnda vélsmiðju á Ólafsfirði. Í Reykjavík var einkum um að ræða innflutning og sölu á skipavélum o.fl. Var fyrst til húsa á Hverfisgötu 32 en síðan lengi á Grandagarði 5. Síðast var fyrirtækið á Langholtsvegi 109 til um 1999.

Nonni og manni.  Ráðgjafar- og auglýsingastofa, stofnsett af Ármanni Kr. Ólafssyni og Jóni Sæmundssyni 1991. Sameinaðist auglýsingastofunni Yddu árið 2002 undir nafninu Nonni og manni/Ydda en hét frá 2004 Ennemm. Nonni og manni voru fyrst til húsa í Bolholti 6, síðan lengi í Þverholti 14 en frá 2000 í Brautarholti 10.

Nonni og Manni/Ydda. Sjá Ydda, Nonni og manni og Ennemm.

Nora magasin. Búsáhaldaverslun í Pósthússtræti 9, stofnsett 1933 af Júlíusi Schopka. Rekin til 1958.

Nordborgarhús. Hafnarstræti 10-12. Reist 1792, einlyft timburhús með sölubúð og íbúð og pakkhús. Það sem eftir var af þessum húsum brann árið 1915.

Nordborgarverslun. Komst á legg í Reykjavík um 1790 og var í eigu Jes Thomsen kaupmanns í Nordborg á Als. Var í Hafnarstræti 10-12. Eftir 1814 var verslunin nefnd Knudtzonsverslun (sjá) eftir P. C. Knudtzon, tengdasyni Jes Thomsen yngra, sem hafði þá tekið við henni.

Nordalsíshús. Sjá Ísfélagið við Faxaflóa.

Nordic Affect.

Nordica Hotel. Á árunum 1970 til 1971 var nýtt hótel tekið í notkun við Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík sem kallaðist Hótel Esja og var þá í eigu bílakóngsins Kristjáns Kristjánssonar frá Akureyri. Á árunum 2001 til 2003 var hótelið stækkað um nær helming og fékk eftir það nafnið Nordica hotel .

Nordmannslaget. Félag Norðmanna á Íslandi, stofnað 1933. Áður hafði um hríð frá 1927 verið starfandi Den Norske Forening í Reykjavík. Fyrsti formaður Nordmannslaget var L. H. Müller. Hefur á síðari áratugum einkum beitt sér fyrir skógrækt á Ísland og á sumarbústaðinn Thorgeirsstaðir í Heiðmörk sem reistur var 1950.

Norðfjörðshús. Einlyft timburhús sem stendur  í Grjótagötu 5, reist af Ólafi Norðfjörð árið 1897.

Norðlingabraut. Gata sem liggur frá Suðurlandsbraut og suður og vestur utan um Norðlingahverfi að Þingtorgi. Áður hét stígur milli Norðlingaholts og Klapparholts þessu nafni og lá hann suður undir Elliðavatn.

Norðlingabúðir. Tóttir af gömlum búðum í Norðlingaholti við Elliðavatn, eru taldar tengjast þinghaldi í Þingnesi við vatnið.

Norðlingaholt. Holtið suðvestan við Rauðavatn þar sem nú eru götunar Þingás, Þverás og fleiri og allt að hesthúsunum í Víðidal. Talið er að örnefnið tengist ferðum Norðlendinga til þings eða á verstöðvar syðra.

Norðlingaholtshverfi. Byggðist eftir 2003 á svonefndu Klapparholti sunnan Rauðavatns og voru götuheiti ákveðin á því ári. Meginbrautir hverfisins heita Bugða, Elliðabraut og Norðlingabraut. Aðrar götur hafa endinguna –vað. Þær eru Árvað, Bjallavað, Búðavað, Elliðavað, Freyjuvað, Helluvað, Hestavað, Hólavað, Hólmvað, Kambavað, Kólguvað, Krókavað, Lindarvað, Lækjarvað, Miðvað, Rauðavað, Reiðvað, Sandavað, Selvað og Þingvað. Tvö torg eru í hverfinu: Búðatorg og Þingtorg.

Norðlingasteinn. Steinn við Norðlingavað yfir Fossvogslæk. Steininn var hornmark á jörðum Reykjavíkur og Laugarness.

Norðlingavað. Vað við ósa Fossvogslækjar, rétt ofan við fossinn Hangandi.

Norðlingavað. Veiðstaður í Elliðaám skammt neðan efstu brúarinnar en ofan hinna gömlu ármóta Dimmu og Bugðu.

Norðri. Bókaútgáfa og bókabúð. Bókaútgáfan var stofnuð á Akureyri um 1943 af Albert J. Finnbogasyni og Sigurði O. Björnssyni. SÍS keypti bókaútgáfuna 1947 og var hún eftir það í Reykjavík til um 1971 og hafði mikil umsvif í mörg ár. Einnig var rekin Bókabúð Norðra í Hafnarstræti 4 á árunum 1950-1970.

Norðurbakkar. Bakkarnir við ströndina á norðanverðri Austurey Viðeyjar.

Norðurbakki. Hafnarbakki í Gömlu höfninni við Norðurgarð innanverðan, einkum fyrir togara. Fyrsta bryggjan kom þarna á uppfyllingu á árunum 1965-1966 og var aukið við hana á næstu árum. Lokið var við Norðurbakka í núvernandi mynd árið 2005.

Norðurberg. Torfbær, reistur 1848 af Sigurði Jónssyni, stóð þar sem nú er Ingólfsstræti 23. Einnig nefndur Sigurðarbær. Rifinn árið 1887 þegar Runólfur Runólfsson reisti samnefndan steinbæ á lóðinni sem enn stendur.

Norðurberg. Einlyft timburhús við Brunnstíg 9, reist 1887 af Jóni Guðmundssyni. Löngu horfið.

Norðurbrunnur. Einn af þremur aðalbrunnum Engeyjar, nálægt sjó beint norður af bæjarhúsunum.

Norðurbugt. Sá hluti gömlu Reykjavíkurhafnar sem liggur milli Norðurgarðs og Grandabryggju í Örfirisey. Nafngiftin er frá 1982.

Norðurbær. Sjá Hlíðarhús.

Norðurbær. Sjá Skálholtskot.

Norðurbær. Sjá Stöðlakot.

Norðurbær. Sjá Þingholtabæirnir.

Norðurgarður. Hafnargarðurinn sem gerður var á árunum 1914-1917 frá Örfirisey út í hafnarkjaftinn. Upphaflega kallaður Örfiriseyjargarður. Gerður var viðlegukantur innan á garðinum á árunum 1964-1966 og lokið var þar við miklu stærri og breiðari hafnarbakka, Norðurbakka, árið 2005.

Norðurgrandi. Sjá Vesturgrandi.

Norðurgrandi. Grandi á norðanverðri Engey austarlega.

Norðurgröf. Gamalt lögbýli undir Kistufelli í Esju. Hét upphaflega Gröf.

Norðurhlíð. Hús á erfðafestulandi á Laugamýrarbletti 29 við Sundlaugaveg.

Norðurhólmi. Sjá Hólmurinn.

Norðurkot. Hjáleiga í landi Laugarnes, norðan við gamla bæjarstæðið. Einnig kallað Sjávarhólar eða Á fitinni.

Norðurkot. Nyrsti bærinn í svokölluðu Melahverfi í Kjalarnesheppi hinum forna, skammt fyrir norðan Hvalfjarðargöngin.

Norðurkotsvör. Vör við Norðurkot í Laugarnesi, þaðan var róið langt fram á 20. öld. Einnig nefnd Norðurvör.

Norðurleið. Rútufyrirtæki, stofnað 1950 af Lúðvík Á Jóhannessyni og fleirum og var Lúvík fyrsti forstjóri félagsins. Fékk sama ár sérleyfi á ætlunarferðum milli Reykjavíkur og Akureyrar. Hafði höfuðstöðvar í Reykjavík og aðstöðu fyrir viðgerðir á rútum í bragga á Grímsstaðaholti. Eftir 1969 var það til húsa í Skógarhlíð 10. Sameinaðist Landleiðum árið 1990 undir nafninu Norðurleið-Landleiðir en hið sameinaða fyrirtæki hætti starfsemi árið 2001.

Norðurleið-Landleiðir. Sjá Norðurleið.

Norðurmýrarblettir

Norðurmýri. Hverfi austan Skólavörðuholts, byggt í samnefndri mýri. Fyrsta skipulagða hverfið utan svokallaðrar Hringbrautar. Það var arkitektinn Einar Sveinsson sem aðhylltist stefnu funksjónalista (fúnkisstefnuna) sem skipulagði það og byggðist það upp á árunum 1936 til 1940. Sjá Íslendingasagnagötur.

Norðurnes. Nyrðsta nesið á Geldinganesi.

Norðurpóll. Einlyft timburhús sem reist var á Hverfisgötu 125 árið 1904 og var þá langt fyrir utan bæ. Guðmundur Hávarðsson sem reisti húsið rak þar samnefnt veitingahús. Húsið var flutt í burtu til bráðabirgða 2006 og stendur til að það fái nýja staðsetningu í nágrenni við Hlemm.

Norðurslóð. Gata við Norðurgarð í Örfirisey, nafngiftin er frá 1982.

Norðurstígur. Lítil ogt brött gata sem liggur frá Vesturgötu niður á Tryggvagötu. Götuheitið var komið 1896.

Norðurtjarnir. Tjarnir nærri sjó á norðanverðri Engey austarlega.

Norðurtjörn. Sjá Tjörnin.

Norðurver. Verslanamiðstöð í Hátúni 4A (á horni Nóatúns og Laugavegs). Meginhluti hússins var reistur 1964-1965 en á árunum 1970-1971 var lokið við efri hlutann. Forgöngu að byggingu hússins hafði Jón Júlíusson kaupmaður í Nóatúni. Hætt var að mestu að nota nafnið Norðurver um 1980.

Norðurvör. Sjá Norðurkotsvör.

Norræna eldfjallastöðin.  Stofnuð 1973 sem samnorrænt verkefni á Íslandi. Var til húsa í jarðfræðishúsi Háskólans (Grjótgarði) til 1996, þá á Grensásvegi 50 til 2004 að hún flutti í Öskju, hús náttúrufræðisviðs Háskóla Íslands. Fyrsti forstöðumaður hennar var Guðmundur Sigvaldason.

Norræna félagið. Stofnað 1922.

Norræna húsið. Norræn menningarmiðstöð í Vatnsmýri, reist á vegum Norðurlandaráðs og opnuð 1968. Arkitekt hússins var Alvar Aalto.

Norska bakaíið. Timburhús með brotnu þaki í Fischersundi 3, reist árið 1876 af Jörgen Emil Jensen bakara og hafði hann bakarí í kjallaranum en bjó uppi. Húsið var komið í mikla niðurníðslu þegar það var gert upp í upprunalegum stíl árið 1992.

Norska húsið. Sjá Stýrimannshús.

Norska húsið. Timburhús, byggt á Vesturgötu 40 árið 1881 af Endresen kaupmanni. Rifið 1977.

Norska samlagið. Stofnsett 1870 af norskum kaupsýslumönnum í Björgvin í samvinnu við Íslendinga, meðal annarra Sigfús Eymundsson. Norska samlagið hafði fastar verslanir í Reykjavík og víðar. Hús þess í Reykjavík voru á lóðinni Aðalstræti 3. Samlagið var leyst upp  1880.

Norska sendiráðið í Reykjavík. Stofnsett 1940 og var húsið Fjólugata 15 keypt sem sendiherrabústaður. Sendiráðið hefur frá um 1976 verið á Fjólugötu 17.

Northern Trading Company. Sjá NTC.

Northwear. Sölu- og framleiðslufyrirtæki á sviði fatnaðar, einkum vinnufatnaðar, stofnsett 1999.

Nostalgía. Tískuverslun með endurunninn fatnað. Stofnuð 2009 af þeim Urði Hákonardóttur og Gígju Ísis. Var fyrst til húsa á Laugavegi 30 en frá 2012 á Laugavegi 39.

Nova. Búsáhalda- og gjafavöruverslun á Barónsstíg 27. Stofnsett um 1934 og rekin til 1979.

Nóatún. Matvöruverslanir. Fyrsta verslunin var opnuð 1965 í verslanarmiðstöðinni Norðurveri við Hátún 4A (seinna Nóatúni 17) af Jóni I. Júliussyni (hann hafði áður rekið matvöruverslun í Samtúni). Næsta Nóatúnsverslun var opnuð í Rofabæ 39 árið 1973 (hét framan af Árbæjarmarkaðurinn). Eftir 1988 bættust svo fjölmargar Nóatúnsverslanir við, bæði í Reykjavík og annars staðar. Árið 2010 var Nóatún rekið á fjórum stöðum í Reykjavík: Nóatúni 17, Hringbraut 121, Háaleitisbraut 68 og Þjóðhildarstíg 2. Rekstaraðili Nóatúns frá 2003 var hlutafélagið Norvik.

Nói. Sjá Nói-Síríus.

Nói -Síríus. Brjóstsykursgerðin Nói var stofnsett 1920 af Eiríki Bech, Þorgils Ingvarssyni og fleirum. Var fyrst til húsa á Óðinsgötu 17, þá á Túngötu 2 og síðan Túngötu 5. Frá 1933 var fyrirtækið á Barónsstíg 2. Súkkulaðigerðin Síríus var stofnuð 1930 af Hallgrími Benediktssyni & Co og fleirum og var síðar rekin í náinni samvinnu við Brjóstsykursgerðina Nóa á Barónsstíg 2 uns fyrirtækin voru sameinuð undir nafninu Nói-Síríus árið 1977. Það ár var söludeild og lager hins sameinaða fyrirtækis flutt að Suðurlandsbraut 4 en árið 1993 flutti það í ný húsakynni að Hesthálsi 2-4.

Nónás. Stórgrýtt hæð suðvestur af Reynisvatni og norðan Leirdals.

Nónvarða. Hornvarða nyrst í Keldnasundum. Við hana mætast jarðirnar Keldur, Gufunes og Korpúlfsstaðir.

Nónvarða. Varða á Miðmundahæð á mörkum Hvammskots í Kópavogi og Breiðholts.

Nót. Félag netavinnufólks. Stofnað 1938.

NTC. Upphaflega heildverslunin Northern Trading Company, stofnsett 1946 af Pétri Halldórssyni. Var lengi til húsa á Grettisgötu 3. Frá 1976 varð fyrirtækið leiðandi í innflutningi, framleiðslu og sölu á tískufatnaði og var þá í eigu Ásgeirs Bolla Kjartanssonar og Svövu Johansen. Fyrsta verslun þess var Tískuverslunin Sautján sama ár. Árið 2012 rak fyrirtækið 13 tískuverslanir undir ýmsum nöfnum, langflestar í Kringlunni og Smáralind, ennfremur saumastofu í Reykjavík og fataframleiðslu erlendis. Verslanirnar voru Companys, Deres, Eva á Laugaveg 26, Focus, Gallerí Sautján, GS skór, Karakter, Kultur, Smash, Sparkz og Urban.

Nútímajazztríó Kristjáns Magnússonar. Sjá Tríó Kristjáns Magnússonar.

Nylon Plast. Verksmiðja til framleiðslu úr plasti og síðar heildverslun og verslun. Stofnuð af Haraldi Kristinssyni og fleirum. Var í Borgartúni 8 til 1964 en flutti þá á Nýlendugötu 14. Eftir 1970 var fyrirtækið flutt til Hafnarfjarðar.

Nýborg. Hús í Skjólunum

Nýborg. Vörugeymsluhús sem reist var handa svokallaðri Landsverslun árið 1917 á lóðinni Skúlagötu 6. Í húsinu var síðar pakkhús fyrir Áfengisverslun ríkisins og þar var jafnframt áfengisútsala allt til ársins 1965. Eftir að bruggun sterkra drykkja hófst á vegum Áfengisverslunarinnar 1935 fór hún fram í Nýborg og var svo til ársins 1970.  Húsið var rifið 1971.

Nýborg. Byggingavöru- og húsgagnaverslun, stofnsett 1966 af Sigurði Antonssyni. Var fyrst að Hverfisgötu 76, en lengst af eða til 1999 í Ármúla 23. Ennfremur var Nýborgarverslun í Skútuvogi 4 á árunum 1985-1994 og í Skútuvogi 6 frá 1998 til um 2005. Um tíma eftir 1981 var Nýborg  einnig með verslun í Kópavogi.

Nýbýlafélagið Landnám. Stofnað í Reykjavík 1924.

Nýdönsk. Popphljómsveit, stofnuð árið 1987. Stofnendur voru þeir Björn Jörundur Friðbjörnsson, Daníel Ágúst Haraldsson og Ólafur Hólm Einarssoin og Valdimar Bragi Bragaon.

Nýherji. Eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði tölvu- og upplýsingatækni. Stofnað 1992 með samruna IBM á Íslandi og Skrifstofuvéla-Sunds. Fyrsti forstjóri fyrirtækisins var Gunnar M. Hansson. Höfuðstöðvar  fyrirtækisins voru í Skaftahlíð 24 til ársins 2000 en eftir það í Borgartúni 37. Það rekur allmörg dótturfyrirtæki.

Nýhil.  Grasrótarfélagsskapur ungra listamanna, stofnaður 2002. Hefur staðið fyrir bókaútgáfu, einkum ljóðabóka, efnt til ljóðahátíða og fleira.

Nýhöfn. Nýlenduvöruverslun Hafnarstræti 18, stofnuð af Matthíasi Matthíassyni árið 1900 en hún var einungis rekin í tvö ár. Árið 1913 var svo aftur stofnuð verslun í húsinu með þessu nafni af Guðmundi Guðmundssyni frá Vegamótum og festist þá Nýhafnarnafnið við húsið um langa hríð. Á árunum 1988-1993 var svo loks rekinn sýningarsalurinn Nýhöfn í húsinu.

Nýibær. Torfbær við sem stóð þar sem nú er Sölvhólsgata 13. Hans er fyrst getið árið 1825. Þarna risu á næstu árum fleiri býli sem tilheyrðu Nýjabæ, svo sem Nikulásarkot, kennt við Nikulás Erlendsson, reist 1830, en sá bær stóð fram yfir 1922.(athuga)

Nýibær. Sjá Skaftafell.

Nýibær. Hús við Grettisgötu

Nýibær. Steinbær við Bakkastíg

Nýibær. Bær við Garðastræti

Nýi Garður. Stúdentagarður við Sæmundargötu 12, tekin í notkun 1943. Á sumrin var rekið hótel í húsinu. Eftir 1996 var Nýi garður tekin undir skrifstofur háskólakennara og háskólastofnanir.

Nýja bifreiðastöðin. Leigubílastöð, stofnsett laust eftir 1920 af Jakobi Sigurðssyni og fleirum. Var með aðsetur í Lækjargötu 2. Síðar var aðsetur hennar í kjallara Hótel Heklu við Lækjartorg og loks við Kolasund. Var um tíma með áæltlunarferðir austur fyrir fjall. Hætti störfum 1942.

Nýja bíó. Stofnsett 1912 og var annað kvikmyndahúsið í Reykjavík. Stofnendur voru hópur manna en fyrsti framkvæmdastjórinn var Pétur Brynjólfsson. Sýnt var í einum af sölum Hótels Íslands sem breytt hafði verið í bíósal. Árið 1920 var svo tekið í notkun nýtt bíóhús í Austurstræti 22b sem Finnur Thorlacius hafði teiknað. Var það fyrsta kvikmyndahúsið í Reykjavík sem sérstaklega var teiknað undir slíka starfsemi. Bíósalurinn var einnig mikið notaður til tónleika- og samkomuhalds. Nafni bíósins var breytt í Bíóhúsið árið 1986 en rekstrinum var hætt 1987.

Nýja blikksmiðjan. Stofnsett 1926 af Einari Pálssyni og Haraldi Andréssyni. Fyrstu þrjú árin var blikksmiðjan til húsa á Norðurstíg 3 en síðan í öðru húsnæði neðar við sömu götu. Árið 1942 flutti smiðjan að Höfðatúni 6 og 1966 að Ármúla 12. Síðast var hún 1976 til 1992 að Ármúla 30.

Nýja bókafélagið. Bókaútgáfa, stofnuð af Björgólfi Guðmundssyni og Páli Braga Kristjónssyni árið 1999. Var þá til húsa í Þverholti 14. Gekk inn í Eddu útgáfu árið 2003.

Nýja bókbandið. Stofnað 1916 af Brynjólfi Magnússyni. Var fyrst til húsa í Þingholtsstræti 6 en fluttist eftir nokkur ár að Laugaveg 3 og síðan Laugaveg 1 þar sem það var rekið fram yfir 1980.

Nýja efnalaugin. Stofnsett 1930 af Gunnari Gunnarssyni. Efnalaugin var til húsa á Baldursgötu 20 til 1936 en eftir það á Hverfisgötu 74 fram yfir stríð. Um skeið eftir 1950 var hún í Borgartúni 3, síðan frá 1951 í Höfðatúni 2 og loks í Súðarvogi 7 frá um 1960 til um 1968. Afgreiðslan var á Týsgötu 3 allra fyrst en síðan á Laugaveg 20B þar sem einnig var gufupressun og fleira. Síðustu árin sem Nýja efnalaugin var rekin hún einnig í Fischersundi 3.

Nýja flugstjórnarmiðstöðin. Sjá Flugmálastjórn Íslands.

Nýja kaffibrennslan. Sjá Rydenskaffi.

Nýja kökuhúsið. Stofnsett 1976 á Fálkagötu 18 af Birgi Páli Jónssyni. Fyritækið opnaði kaffihús í Ísafoldarhúsinu við Austurvöll árið 1977 þar sem það var rekið í um 20 ár og var þá eitt þekktasta kaffihús Miðbæjarins. Síðan kom samnefnt kaffihús og konditori á fleiri stöðum, m.a. á Laugavegi 20. Var orðinn stærsti smásöluaðilinn á brauði og kökum árið 1986. Nýja kökuhúsið var einn af byggingaraðilum Borgarkringlunnar 1991 og hefur á síðari árum einkum einbeitt sér að rekstri kaffihúsa í Kringlunni.

Nýja lestarfélagið. Stofnað í Reykjavík 1907 til að veita greiðan aðgang að erlendum blöðum, tímaritum og bókum.

Nýja ljósprentstofan. Stofnuð 1960 af Antoni Erlendssyni, hét upphaflega Nýja ljósprentunarstofan. Var í Brautarholti 22 til 1966 en eftir það á Skúlagötu 63. (var þar enn 1987)

Nýja sendibílastöðin. Stofnsett 1950 af sex bílstjórum með afgreiðslu í Aðalstræti 16. Árið 1956 fluttist afgreiðslan að Miklatorgi og 1970 í Skeifuna 8. Frá 1983 hefur aðsetur Nýju sendibílastöðvarinnar verið að Knarrarvogi 2.

Nýja skóverksmiðjan. Stofnuð 1948 af Magnúsi Víglundssyni og fleirum. Rekin á Bræðraborgarstíg 7 til 1966. Árið 1969 var verksmiðjuútbúnaðurinn keyptur til Egilsstaða.

Nýja vörubílastöðin. Stofnsett 1928 af Magnúsi Ólafssyni og starfrækt til 1931. Hafði aðsetur í Varðarhúsinu við Kalkofnsveg.

Nýja þvottahúsið. (Ránargata 50)

Nýju Miðhús. Sjá Litlu Miðhús.

Nýjatún. Tún vestan við Hólavallakirkjugarð sem náði vestur undir núverandi Hofsvallagötu. Ræktað um miðja 19. öld af þeim Agli Jónssyni og Torfa Seinssyni. Eftir 1920 hvarf túnið undir byggð.

Nýlenda. Torfbær, reistur 1871 af Gísla Jónssyni þar sem síðar var Nýlendugata 31. Árið 1883 reisti Gísli steinbæ í stað torfbæjarins en hann var fluttur á Árbæjarsafn árið 1973.

Nýlenda. Sjá Rauðarárkot.

Nýlendugata.  Gata milli Seljavegs og Norðurstígs, lögð um 1895. Upphaflega stígur að bænum Nýlendu sem sem stóð við Nýlendugötu 31 en er nú á Árbæjarsafni. Austan Ægisgötu er gatan aðskilinn frá meginhluta hennar.

Nýlistasafnið (Nýló). Stofnað 1978 af framsæknu myndlistarfólki. Aðalhvatamenn voru Níels Hafstein og Magnús Pálsson. Fyrsta árið var safnið í Mjölnisholti, síðan til 2004 að Vatnsstíg 3b en eftir það á Laugaveg 26.

Næpan. Stórt timburhús með turni sem Magnús Stepensen landshöfðingja lét reisa árið 1903 á Skálholtsstíg 7 eftir teikningu Magnúsar Th. S. Blöndahl og enn stendur. Húsið var kallað Landshöfðingjahúsið en vegna lögunar turnsins fékk það viðurnefnið Næpan sem festist við það.

Nærfatagerðin. Stofnsett 1936 af Ingibjörgu Bjarnadóttur og fl. Fyrsta verksmiðja sinnar tegundar á Íslandi. Var í Aðalstræti 9 en lengst af í Hafnarstræti 11. Rekin fram til um 1960.

Nærfata- og prjónlesverksmiðjan. Stofnsett 1946 af Magnúsi Víglundssyni og fleirum. Starfrækt á Bræðaborgarstíg 7 til 1966.

Nærkonuhúsið. Lítið timburhús í Austurstræti 18, reist um 1820 af Lars Möller. Kona hans Elisabet Möller var aðalljósmóðir bæjarins og fékk það nafn af henni. Rifið fyrir 1876. Einnig nefnt Jordemoderhus.

Næsti bar. Opnaður 1999 í Ingólfsstræti 1a.

O. Johnson & Kaaber. Fyrsta innlenda heildverslunin, stofnuð í kjölfar þess að landið komst í símasamband við heiminn árið 1906. Stofnendur voru Ólafur Johnson og Ludvig Kaaber. Var fyrst til húsa í Lækjargötu 4 en flutti í Hafnarstræti 1-3 árið 1915 þar sem starfsemin var til 1962. Það ár var flutt í Sætún 8 en árið 2004 að Tunguhálsi 1.

Oculus. Snyrtivöruverslun í Austurstræti 7, rekin af Stefáni Thorarensen apótekara.  Stofnsett um 1941 og rekin til 2001.

Oddahóll. Örnefni í sunnanverðu Klapparholti, nálægt Elliðavatni.

Oddaskyggnir. Örnefni í sunnanverðu Klapparholti, nálægt Elliðavatni.

Oddgeirsbær.  Steinbær við Framnesveg 4 með tveimur burstum sem síðan voru sambyggðar með einu þaki, reistur af Oddgeiri Bjarnasyni 1864, rifinn 1977.

Oddgeirsbæjarvör. Vör niður undan bænum Oddgeirsbæ, milli Stóru-Selsvarar og Litlu-Selsvarar. Einnig nefnd Miðselsvör.

Oddi. Hús félagsvísindasviðs Háskóla Íslands að Sturlugötu 3. Reist 1986. Arkitekt hússins er Maggi Júl. Jónsson.

Oddi. Prentsmiðja, stofnsett 1943 af Finnboga Rút Valdimarssyni, Baldri Eyþórssyni, Ellert Ágúst Magnússyni og Björgvin Benediktssyni. Var fyrsta árið til húsa í Ásmundarsal við Freyjugötu en flutti síðan að Grettisgötu 16 þar sem hún var til 1968. Eftir það var Prentsmiðjan á Bræðraborgarstíg 7-9 á árunum 1968-1980 og loks á Höfðabakka 7. Langstærsta prentsmiðja landsins og hefur einnig átt eða tekið þátt í rekstri annarra fyrirtækja, svo sem bókabúða og fjölmiðlafyrirtækja.

Oddsbær. Sjá Oddskot.

Oddshöfði. Lítið hús skammt fyrir ofan Vatnagarða sem reist var fyrir Odd sterka Siggeirsson af Skaganum árið 1935. Löngu horfið.

Oddskot. Torfbær við Bræðraborgarstíg, kenndur við Odd Oddsson tómthúsmann. Einnig kallaður Oddsbær. Síðar var samnefnt timburhús á lóðinni sem taldist Sólvallagata 39. Það mun hafa verið rifið um eða upp úr 1937 þegar núverandi hús var byggt.

Ofanleiti. Torfbær sem stóð þar sem nú er Ingólfsstræti 7, líklega reistur af Grími Árnasyni og ekki síðar en 1815. Bærinn var rifinn 1896 og timburhús byggt í staðinn sem enn stendur.

Offsetprent. Prentsmiðja, stofnuð 1945 af Hrólfi Benediktssyni og fleirum. Var til húsa m.a. á Hverfisgötu 61 og Hverfisgötu 74 en frá 1953 á Smiðjustíg 11. Sameinaðist Kynningu hf árið 1982 og var þá nafnið Offsetprent lagt niður.

Offsetprentarafélag Íslands. Stofnað 1951 en hét allt til 1957 Ljósprentarafélag Íslands. Rann inn í Grafíska sveinafélagið 1973.

Ofnasmiðjan. Stofnsett 1936 af Sveinbirni Jónssyni. Verksmiðjan var frá upphafi í Einholti 10/Háteigsvegi 7 og allt til um 2007.  Árið 2000 var stofnað sjálfstætt dótturfyrirtæki, Rými, sem var innflutningsfyrirtæki á sviði innréttinga, lagerbúnaðar, skápa og fl. og var það í nokkur ár í Kópavogi. Fyrirtækin voru sameinuð undir nafninu Rými Ofnasmiðjan árið 2005 og eru nú til húsa í Brautarholti 26.

Okakerið. Sjá Scandinavia.

Oldfellowhreyfingin. Fyrsta stúkan, Ingólfur, var stofnuð 1897.

Oldfellowhúsið

Olís. Sjá Olíuverslun Íslands.

Olíubryggjan. Bryggja við síldarmjölsverksmiðjuna í Örfirisey, upphaflega gerð fyrir Landsverslun árið 1917 til að skipa þar upp steinolíutunnum sem geymdar voru í eynni. Ný olíubryggja úr tré var gerð árið 1949. Frá henni var olíu fyrst í stað dælt í olíutankanna í eynni á árunum eftir 1951. Bryggjan var rifin 2011.

Olíudreifing. Sameiginlegt olíudreifingarfélag Olíufélagsins (síðar N1)  og Olís, stofnað árið 1995. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Knútur G. Hauksson. Höfuðstöðvar félagsins voru á Gelgjutanga við Kleppsmýrarveg en fluttu á Hólmaslóð 8-10 árið 2011.

Olíufélagið. Stofnsett 1946 og var SÍS stærsti hluthafinn. Fyrsti forstjóri þess var Sigurður Jónasson. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru til 1960 í Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu en frá 1960-1975 á Klapparstíg 25-27. Eftir það í nýbyggingu á Suðurlandsbraut 18. Olíutanka hafði félagið í Örfirisey frá 1951 og starfsemi í Gelgjutanga við Elliðaárvog frá sama tíma. Nafni félagsins var breytt í Ker árið 2002 og N1 árið 2007 eftir að það hafði sameinast Bílanausti.

Olíuhreinsunarstöðin. Stofnsett af Cæsari Mar árið 1940. Var fyrst að Þórsgötu 26 en frá 1943 í Sætúni 4. Þar fór fram hreinsun á olíu og jafnframt var þar rekin bílasmurstöð. Oliuhreinsunin hætti um 1958 en smurstöðin var rekin áfram.

Olíuportið. Auð lóð á Amtmannsstíg 2A sem Det Danske Petroleum Aktieselskab keypti eftir 1905 til að geyma þar olíubirgðir. Síðar eignaðist Hið íslenska steinolíuhlutafélag lóðina og geymdi þar steinolíu- og bensínbirgðir allt til 1920 en smurolíur fram yfir 1946.

Olíuportið við Melaveg. Komið upp af Landsverslun um 1917. Var staðsett austan við Melaveg (núverandi Suðurgötu), beint á móti Loftskeytastöðinni. Þar voru geymdar olíubirgðir Landsverslunar og síðan Olíuverslunar Íslands til um 1928.

Olíuportið við Sandvíkurveg. Var á vegum Hins íslenska steinolíuhlutafélags, nálægt því þar sem nú er Birkimelur.

Olíusalan. Sjá Skeljung.

Olíustöðin á Klöpp. Olíutankar og afgreiðsla við norðanverða Skúlagötu, reist á árunum 1927-1930 fyrir Olíuverslun Íslands (BP). Birgðastöðin var að mestu flutt í Laugarnes 1953 en áfram var þar bensínstöð og smurolíustöð. Síðustu mannvirkin á Klöpp voru rifin 1988 til að rýma fyrir lagningu Sæbrautar.

Olíustöðin í Laugarnesi.  BP á Íslandi (síðar Olíuverslun Íslands) reisti olíustöð 1947 rétt fyrir innan Laugarnestanga. Voru þar fjölmargir tankar, hús og bryggja. Stöðin var lögð niður 1997 og ári seinna voru tankarnir, alls 13 talsins, fluttir í burtu eða rifnir og sömuleiðis flest húsin.

Olíustöðin í Skildinganesi. Aðalinnflutnings- og birgðastöð Shell hf. (síðar Skeljungs) frá árinu 1928. Byggð með það fyrir augum að flytja inn olíur og bensín á stórum tankskipum beint frá framleiðslulöndum. Var þar olíubryggja, tankar og önnur mannvirki. Á stríðsárunum tóku Bretar olíustöðina yfir. Eftir 1970 fluttist birgðastöð Skeljungs í áföngum í Örfirisey en stöðin í Skildingnesi var þó áfram í notkun á vegum Skeljungs allt til ársins 1998. Eftir það voru öll mannvirki þar fjarlægð.

Olíustöðin í Viðey. Det Danske Petroleum Aktieselskab (DDPA), sem stórtækast var í innflutningi olíu til Íslands framan af 20. öld, gerði Viðeyjarstöðina eða Sundbakka á austurenda Viðeyjar að birgðastöð og umskipunarhöfn árið 1908. Þar var olíuport, gerð sérstök olíubryggja og reist olíuhús. Árið 1913 tók Hið íslenska steinolíuhlutafélag, sem var dótturfélag DDPA, við stöðinni og reisti þar olíugeymi árið 1927, líklega þann fyrsta á Íslandi. Olíustöðin i Viðey lagðist af um 1940.

Olíustöðin í Örfirisey. Fyrstu olíutankarnir í Örfirisey voru reistir af Olíufélaginu hf árið 1945 og voru það eingöngu gasolíugeymar. Svartolíutankar komu fyrst á vegum félagsins þar á árunum 1951-1952. Árið 1970 reisti Skeljungur geyma í eynni og árið 1976 var samþykkt að öll olíufélögin þrjú hefðu þar aðstöðu.

Olíuverslun Íslands hf. Stofnsett 1927. Hafði aðalumboð fyrir BP á Íslandi. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Héðinn Valdimarsson. Birgðastöð Olíuverslunarinnar var í svokölluðu Olíuporti suður á Melum, í nágrenni Loftskeytastöðvarinnar. Olíustöðin á Klöpp við Skúlagötu var svo tekin í notkun 1928 en á árunum 1951-1953 var olíubirðgastöðin flutt í Laugarnes þar sem hún var til 1999. Á síðari áratugum hefur félagið verið nefnt Olís.

Olnbogahylur. Sjá Eldhúshylur.

Olsensbær. Sjá Teitsbæ.

Olsenshús. Sjá Hjallhús.

Olsentún. Tún sem Carl Olsen heildsali ræktaði á erfðafestulandi sínu í Austurhlíð í Laugardal eftir 1920, nálægt þar sem World Class er núna. Á þessu túni var síðar fyrsti golfvöllur Íslands, tekinn í notkun 1935.

Olympía. Vefnaðarvöruverslun, síðar kvenundirfataverslun. Stofnuð 1938 af Hirti Jónssyni, Þorleifu Sigurðardóttur og Jóni Hjartarsyni. Var á Vesturgötu 11 til 1951 en eftir það á Laugaveg 26 fram til 1998. Einnig um tíma í Glæsibæ, Kringlunni og síðast í Mjódd.

Ondula. Hárgreiðslustofa. Stofnuð 1927 og var til húsa í Austurstræti 14 til 1936. Eftir það var hún í Aðalstræti 9 árin 1936-1967 en flutti þá að Skólavörðustíg 18. Var rekin fram yfir 1972.

Opal. Sælgætisgerð. Stofnuð 1944 af þeim Birni Jóhannssyni, Hagbarði Karlssyni og Jóni Guðlaugssyni. Var lengst af til húsa í Skipholti 29 til ársins 1986 en flutti þá að Fosshálsi 27. Sameinaðist Nóa-Síríus árið 1995 og er síðan til húsa að Hesthálsi 2-4 en framleiðslan var um tíma á Akureyri.

Optik. Gleraugnaverslun. Stofnuð um 1935 af þeim Hermanni Josefsson-Pietsch og Fríði G. Guðmundsdóttur. Var til húsa í Lækjargötu 8 til 1955 en flutti þá í Hafnarstræti 18. Þar var hún til 1983 að hún flutti í Hafnarstræti 20. Hætti um 2010.

Optima. Heildverslun, stofnuð 1953 af Lárusi Fjeldsted. Flutti inn ýmis heimilistæki fyrstu árin ásamt kósangasi. Varð einnig fyrst fyrirtækja til að flytja inn ljósritunarvélar árið 1953 og hefur æ síðan sérhæft sig í þeim og öðrum skrifstofuvörum og hugbúnaði. Hafði aðsetur í Garðastræti 17 frá um 1956 til um 1966, var um hríð á Laugavegi 116 en síðan á Suðurlandsbraut 10 frá 1969-1988. Þá var fyrirtækið í Ármúla 8 til 2006 að það flutti á Vínlandsleið 6-8.

Orator. Félag laganema við Háskóla Íslands, stofnað 1928 og mun fyrsti formaður þess hafa verið Jóhann G. Möller. Tímarit félagsins er Úlfljótur.

Orðabók Háskóla Íslands.  Formlega stofnuð 1948 og var verkefni hennar að vinna að gerð sögulegrar orðabókar frá 1540 til okkar daga. Fyrsti forstöðumaður hennar var Jakob Benediktsson. Orðabókin var til húsa í aðalbyggingu Háskóla Íslands til 1969 en flutti þá í Árnagarð. Frá 1991 var hún að Neshaga 16. Árið 2006 sameinaðist hún öðrum stofnunum undir nafninu Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Orka. Fyrirtæki, stofnað af hópi athafnamanna 1944, upphaflega til að annast vatnsboranir, byggingastarfsemi, verslunarrekstur o.fl. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Sigurður Jónasson. Fyrirtækið þróaðist síðan yfir í heildsölu á heimilistækjum, þungavinnuvélum, bílum, varahlutum í bíla og fl. Hafði FIAT-umboðið til 1966. Á síðari árum hefur það einkum annast innflutning á bílrúðum og bílalakki. Upphaflega var fyrirtækið til húsa á Lindargötu 9 en fluttist 1951 að Laugavegi 166 og var þar til 1960. Þaðan fór það að Laugavegi 178 þar sem það var til 1979. Eftir það var Orka í Síðumúla 32 til 1988 og þá í Faxafeni 12. Síðari árin hefur það verið til húsa að Stórhöfða 37.

Orka Náttúrunnar. Sjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkuveita Reykjavíkur. Fyrirtæki á vegum Reykjavíkurborgar sem varð til á árunum 1999-2000 þegar Vatnsveita Reykjavíkur, Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur sameinuðust. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Guðmundur Þóroddsson. Árið 2002 varð svo til sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur þegar Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Akraness og Borgarness gengu inn í fyrirtækið. Á árunum 2014-2015 var Orkuveitunni skipt upp í tvö dótturfyrirtæki, annars vegar Orku náttúrunnar sem sér um framleiðslu og sölu á rafmagni og hins vegar Veitur sem sjá um að reka vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu.

Orkustofnun. Stofnuð 1967 til að annast rannsóknir, áætlana- og skýrslugerðir og vera til ráðuneytis ríkisstjórninni í orkumálum. Tók við hlutverki raforkumálaskrifstofunnar sem áður var. Fyrsti orkumálastjórinn var Jakob Gíslason. Orkustofnun var á Laugavegi 116 til 1979 en eftir það á Grensásvegi 9.

Ormurinn langi. Sjá Langibar.

Oslóartréð. Árið 1952 gaf Oslóarborg Reykvíkingum í fyrsta sinn stórt jólatré sem komið var upp á móts við Dómkirkjuna og hélst sá siður árlega síðan. Er jafnan kveikt á ljósum þess við hátíðlega athöfn á jólaföstunni. Árið 2015 var tréð í síðasta sinn flutt frá Noregi en eftir það er hugmyndin að höggva tré í Heiðmörk til að koma fyrir á Austurvelli.

Osta- og smjörsalan. Stofnuð 1958 með aðild allra mjólkursamlaga í landinu. Var til húsa á Snorrabraut 54 til 1980 en fluttist þá að Bitruhálsi 2. Sameinaðist Mjólkursamsölunni 2006.

Ottesenshús. Sjá Dillonshús.

Otur. Togarafélag, stofnsett 1919. Framkvæmdastjóri félagsins var Jón Bjarni Pétursson.  Rekið til um 1938.

Otursstöðin. Sjá Mjölnisstöðin.

Outlet Skór. Skóverslun sem hóf starfsemi 2001. Kaupmaðurinn er Árni Rudolf og er hún til húsa að Fiskislóð 75.

Óðal við Austurvöll. Skemmtistaður og diskótek, sem bræðurnir Haukur og Jón Hjaltasynir opnuðu á efri hæð Austurstrætis 12a árið 1971 en á neðri hæðinni var veitingastaður þeirra Nautið. Hann var lagður niður 1975 og var allt húsnæðið þá tekið undir skemmtistaðinn. Óðal var rekið til 1985. Árið 1995 var aftur tekið upp nafnið Óðal á þessum stað sem í millitíðinni hafði heitað nöfnum eins og Kreml, Lennon, Rétt hjá Nonna og Gullið. Stóð Valur Magnússon fyrir hinu nýja Óðali. Breyttist hann ári síðar í Erotic Club Óðal með öðrum eiganda. Var hann lagður niður um 2008 en áfram var rekinn þar skemmtistaður með nafninu Óðal.

Óðinn. Málfundafélagið. Félag launþega í Sjálfstæðisflokknum, stofnað 1938. Fyrsti formaður þess var Sigurður Halldórsson. Til var eldra félag íhaldsmanna með sama nafni sem starfaði á árunum 1926-1934.

Óðinn. Reiðhjólaverkstæði. Stofnað 1930 af þeim Sigurði Guðmundssyni, Óskari Jónassyni og Ívari Jónssyni. Var í Bankastræti 7 til 1932 en eftir það í Bankastræti 2 fram yfir 1963.

Óðmenn. Hljómsveit

Óháði söfnuðinn. Stofnaður 1950 sem kristið trúfélag utan þjóðkirkjunnar af hópi sem klauf sig út úr Fríkirkjusöfnuðinum. Fyrsti prestur hans var séra Emil Björnsson.

Ólabúð. Sjá Bústaðabúðin.

Ólafsbakki. Hús, reist 1882 í Bakkatorfunni við Bakkastíg, kennt við Ólaf Björnsson. Stóð fast austan við Alliancehúsið. Það var flutt 1940 og stendur nú við Nýlendugötu 45.

Ólafsdalur. Hús á erfðafestulandi í Kaplaskjólsmýri 4

Ólafshús. Timburhús við Grundarstíg 5B, reist um 1910, kennt við húsbyggjandann Ólaf Þórðarson.

Ólafshús. Reisulegt timburhús á Sundbakka í Viðey, reist um 1907 og kennt við Ólaf Briem. Einnig nefnt Kontórhúsið.

Ólafsvör. Vör fyrir neðan Ólafsbakka, rétt fyrir vestan Gíslavör, kennd við Ólaf á Ólafsbakka.

Ólafur Gíslason & Co. Stofnsett 1923 af Ólafi Gíslasyni og Einari Péturssyni sem innflutnings- og útflutningsverslun, einkum með margs konar þungavöru. Frá 1986 hefur fyrirtækið eingöngu verið innflutningsfyrirtæki. Var fyrst til húsa í Bankastræti 11 en flutti 1925 í Hafnarstræti 10 og var þar til 1964. Þaðan var flutt í Sundaborg í Sundahöfn árið 1974 og hefur verið þar á ýmsum stöðum, nú í Sundaborg 7.

Ólakaffi. Lítill veitingastaður í Hafnarstræti 16. Opnaður 1935 af Ólafi Ólafssyni og rekinn til um 1965.

Ós. Hús á erfðafestulandi á Engjavegi (Kleppsmýrarblettur 14).

Óskotsheiði. Heiði beint í austur frá Reynisvatni handan Reynisvatnsáss og norðan Langavatnsheiðar.

P. J. Thorsteinsson & co. Útgerðar- og fiskverkunarfélag, stofnað árið 1907 með dönsku og íslensku hlutafé. Helstu íslensku stofnendurrnir voru Pétur J. Thorsteinsson og Thor Jensen. Félagið var oftast kallað Milljónafélagið í daglegu tali þar sem hlutafé þess átti að vera ein milljón sem þótti geypifé. Höfuðstöðvar félagsins voru í Viðey (Sundbakka) en auk þess var starfsemi á Bíldudal, Patreksfirði og í Hafnarfirði. Félagið varð gjaldþrota árið 1914.

P. O. Bernburg með flokk. Sjá Hljómsveit P. O. Bernburg.

Pandóra. Kvenfataverslun, stofnuð upp úr 1950 af Ingibjörgu Jónu Jónsdóttur. Var lengst af að Kirkjutorgi 4 en síðast á Laugaveg 59. Starfrækt til um 1993.

Papco. Stórt iðnaðarfyrirtæki með framleiðslu á hreinlætispappír fyrir heimili og fyrirtæki sem sérgrein. Stofnsett árið 1983 af Benedikt Valtýssyni og fleirum og var fyrst í húsakynnum Kassagerðarinnar en frá 1984 í Fellsmúla 24 og frá 1988 að Stórhöfða 42.

Papilla. Hárgreiðslustofa, stofnsett 1980 af þeim Torfa Geirmundssyni og Dootheu Magnúsdóttur. Var á Laugavegi 24 til 1993 en eftir það á Laugavegi 25.

París. Verslun með vefnaðarvörur, glervörur, hjúkrunarvörur og fl. Stofnsett af Thoru Friðriksson og Kristínu Sigurðsson árið 1916. Var í Kolasundi. Lagðist niður í nokkur ár en var opnuð aftur í Ingólfshvoli, Hafnarstræti 14, árið 1925 og rekin til um 1967.

Parísarbúðin. Kvenfataverslun, stofnsett 1925 af Runólfi og Þorbergi Kjartanssonum. Var að Laugavegi 15 til 1933, þá í Bankastræti 7 frá 1933-1956, í Austurstræti 8 frá 1957-1997 og loks í Austurstræti 3 þar til hún hætti 2002.

Parísartískan. Kvenfataverslun, opnuð 1963 af þeim Rúnu Guðmundsdóttur og Gyðu Árnadóttir. Til húsa í Hafnarstræti 8 til 1986 en þá var verslunin flutt að Laugavegi 71 þar sem hún var til um 1993. Ný verslun með þessu nafni var opnuð í Skipholti 29B árið 2008.

Parket og gólf. Verslun sem sérhæfir sig í gólf- og veggefnum ásamt gluggum. Stofnsett 1985 af Ómari Friðþjófssyni og Sigurði Ólafssyni. Hét Parketgólf til 1992, þá um skeið Teppabúðin-Parketgólf, en frá 1994 Parket og gólf. Var fyrstu árin á Suðurlandsbraut 20 en flutti í Vegmúla 2 árið 1994. Árið 2000 var verslunin komin í Ármúla 23 en þaðan var hún flutt í Ármúla 32 árið 2009.

Parkinsonsamtökin á Íslandi. Stofnsett 1983 og var fyrsti formaður þeirra Jón Óttar Ragnarsson. Aðsetur þeirra er í Hátúni 10b.

Parlogis. Fyrirtæki sem fékk þetta nafn 2005 en átti sér rætur í fyrirtækinu Lyfjadreifingu, sem stofnað var 1995, og Dreifingardeild Lyfjaverslunar Íslands. Framkvæmdastjóri þess frá 2005 hefur verið Guðný Rósa Þorvarðardóttir. Árið 2010 var fyrirtækið að mestu í eigu Vestia, dótturfyrirtækis Landsbankans. Það er til húsa á Krókhálsi 14.

Paul Smith. Sjá Smith & Norland.

Payne‘s Pool. Sjá Stararhyljir.

Payne‘s Stream. Sjá Stararhyljir.

Páll Óskar og Milljónamæringarnir

Páll Þorgeirsson & Co. Umboðs- og heildverslun, einkum á sviði timburinnflutnings. Stofnuð 1942 og var framan af eða til 1952 í Hamarshúsinu, síðan að Laugaveg 22 til 1969 og loks í Ármúla 27 til 1986. Þá rann fyrirtækið inn í Þ.Þorgrímsson.

Pálmabær. Sjá Holtastaðir.

Pálmahús. Sjá Meistarvöllur.

Pálsbyrgi. Gömul tótt á klapparhóli sunnan Suðurlandsvegar, nú í NA-horni lóðarinnar Klettháls 7, talin bústaður einsetumanns.

Pálsbær. Sjá Holt.

Pálsbær. Torfbær sem stóð þar sem síðar var Bjargarstígur 16. Reistur um 1850.  Einnig nefndur Pontukot. Stóð fram yfir aldamótin 1900.

Pálsbær. Steinhús neðarlega við Klapparstíg

Pálsbær. Sjá Litlagerði.

Pálsbær. Sjá Pálshús.

Pálsflaga. Einnig nefnt Pálsflak. Sker á Viðeyjarsundi, beint norður af Skarfaskeri.

Pálsflak. Sjá Pálsflaga.

Pálshús. Torfbær við Lágholtsveg á Bráðræðisholti, kenndur við Pál Magnússon. Árið 1895 var reistur steinbær í stað torfbæjarins sem einnig var nefndur Pálsbær eða Pálshús. Rifinn fyrir 1962.

Pálshús. Timburhús við Sölvhólsgötu 14, reist árið 1905 af Páli Hafliðasyni.

Pálshús. Lítið timburhús við Bræðraborgarstíg 38, reist 1903 af Páli Ingva Níelssyni.

Pálshús. Lítið timburhús við Bræðraborgarstíg 39, reist 1903 af Páli Jónssyni og Elínu Hjartardóttur. Einnig nefnt Pálsbær.

Pelikan. Popphljómsveit stofnuð árið 1973. Upphaflega voru í sveitinni þeir Ásgeir Óskarsson, Björgvin Gíslason, Gunnar Hermennason, Ómar Óskarsson og Pétur Kristjánsson. Hljómsveitin hætti að spila 1978 en var endurvakin nokkrum sinnum, svo sem 1987-1988, 1993 og 2001.

Pelsinn. Fyrsta sérvöruverslunin með pelsa. Stofnsett 1976 af Ester Ólafsdóttur og Karli. J. Steingrímssyni. Var til húsa að Njálsgötu 14 til 1978 en síðan að Kirkjutorgi 4.

Peningalykt. Ólykt frá grútar- og síldarbræðslum sem oft lagði yfir Reykjavík úr Örfirisey og fiskimjölsverksmiðjunni Kletti í Laugarnesi. Geir Zoëga útgerðarmaður mun fyrstur hafa notað þetta orð en hann var með grútarbræðslu í Örfirisey.

Penninn. Pappírs- og ritfangaverslun, stofnuð 1932 af þeim Baldvini og Halldóri Dungal. Frá um 1980 einnig bókaverslun, húsgagnadeild og myndlistar- og teiknideild. Var til húsa í Ingólfshvoli, Hafnarstræti 14, í upphafi til 1954 en fluttist þá í Hafnarstræti 18. Útibú frá versluninni var á Laugaveg 69 frá 1943-1954 en eftir það til 1982 á Laugaveg 84. Þriðja útibúið bættist við á Laugaveg 176 (178) um 1966 en árið 1975 kom í þess stað glæsileg og stór verslun í Hallarmúla 2. Þar hafa síðan verið höfuðstöðvar verslunarinnar. Verslunin í Hafnarstræti 18 var lögð niður 1987. Í staðinn komu nýjar verslanir í Kringlunni og Austurstræti 10 og var sú síðarnefnda rekin til um 1998. Árið 1989 sameinuðust Penninn og Eymundsson og hét fyrirtækið eftir það Penninn-Eymundsson.

Pereatið. Uppþot nemenda í Lærða skólanum gegn Sveinbirni Egilssyni í janúar árið 1850. Gengu þeir að heimili hans og hrópuðu á latínu „pereat“ sem útleggst „niður með hann“. Ástæðan var sú, að þeir voru að mótmæla skylduaðild að bindindisfélagi sem rektor vildi þröngva upp á þá til þess að stemma stigu við drykkjuskap skólapiltanna. Í raun var þetta angi af þeim óróa sem greip um sig eftir febrúarbyltinguna í París árið 1848.

Perlan. Útsýnis- og veitingahús sem Hitaveita Reykjavíkur reisti á toppi vatnsgeymanna á Öskjuhlíð árið 1991. Veitingahúsið snýst og hefur orðið eitt af helstu kennileitum borgarinnar.

Persilklukkan.  Sjálflýsandi klukka á Lækjartorgi sem sett var upp árið 1929 af Versluninni Liverpool. Gegndi hún síðan því hlutverki að vera helsta klukkan í Miðbænum og klukka Strætisvagna Reykjavíkur meðan miðstöð þeirra var á Lækjartorgi. Nafn sitt dró hún af því að á henni var auglýsing frá fyrirtækinu Heinkel sem framleiddi Persíl-þvottaduft. Sýndi hún konu á hvítum sumarkjól á grænum grunni. Frá 1978 hefur klukkan verið í eigu Reykjavíkurborgar.

Petersenshús. Sjá Enska húsið.

Petersensverslun. Rekin af Pétri Jónssyni Petersen á árunum 1829-1849, var til húsa í Austurstræti 1.

Pete‘s Pool. Sjá Móhylji.

Petræusfjós. Sjá Fjós Innréttinganna.

Petræushús. Sjá Veltan.

Petræusarhús. Sjá Biskupstofa.

Petræusverslun. Kennd við Westy Petræus sem hóf kaupmennsku í Reykjavík 1797 ásamt félaga sínum Svane. Þeir keyptu ein fjögur hús Innréttinganna 1799 en brátt varð Petræus einn um hituna. Verslun hans var alla tíð í Fálkahúsinu í Hafnarstræti 1eða þar til Petræus lést árið 1828.

Peysan. Prjónastofa, stofnsett 1942 af Gerði Pálsdóttur. Var á ýmsum stöðum í bænum en flutti í eigið húsnæði í Bolholti 6 árið 1960. Var þar til um 1994 en var þá keypt af Öryrkjabandalagi Íslands og rekin af því til um 1998 í Hátúni 10.

Peysudeildin. Sérverslun, stofnsett 1972. Var í Aðalstræti 9 til 1990 en flutti þá að Laugavegi 84 en hætti fljótlega eftir það.

Pétur Snæland.  Hlutafélag, stofnað 1949 sem bílaverkstæði en frá 1953 hófst framleiðsla á latex og svampi í rúmdýnur og kodda í nýju verksmiðjuhúsi á Vesturgötu 71. Árið 1977 var opnuð húsgagnaverslun á vegum fyrirtækisins í Síðumúla 34 sem síðar fluttist í Síðumúla 23. Árið 1985 var ný verksmiðja reist við Suðurströnd á Seltjarnarnesi en árið 1988 fór fyrirtækið í þrot. Það var svo sameinað Lystadún árið 1991 undir nafninu Lystadún-Snæland.

Pétursbúð. Nýlenduvöruverslun, stofnsett 1942 af Pétri Jensen. Var á Njálsgötu 106  og einnig á Nesvegi 39 frá 1959. Hætti um 1961.

Pétursbúð. Fyrsta verslunin í Laugarnesi, sett á laggirnar 1927 af bræðrunum Ólafi og Pétri Þorgrímssonum. Hún var til húsa í kjallara hússins Viðvík við Laugarnesveg. Einnig kölluð Þorgrímsbúð.

Pétursbúð. Hverfisverslun á Ránargötu 15.

Pétursbær. Sjá Bjarg.

Péturshús. Timburhús á Bræðraborgarstíg 20, reist árið 1905 af Pétri Bjarnasyni.

Péturslón. Sjá Hólmurinn.

Pfaff. Saumavélaverslun, stofnuð 1929 af Magnúsi Þorgeirssyni. Síðar voru þar á boðstólum barnavagnar, ferðatöskur, prjónavélar og með tímanum margt fleira, svo sem margs konar heimilis- og rafmagnstæki. Var til húsa á Bergstaðastræti 7 til 1939 en eftir það er verslunin á Skólavörðustíg 1A. Þar var í áföngum reist mikið verslunarhús sem var fullbyggt um 1948. Þar var verslunin til 1979 en flutti þá í Borgartún 20. Eftir 1995 hefur verslunin verið að Grensásvegi 19 en um tíma var einnig verslun á þess vegum í Kringlunni.

Pirola. Snyrti- og hárgreiðslustofa, stofnsett 1937 af þeim Laufeyju Bjarnadóttur, Margréti Hrómundsdóttur og Þóru Borg. Var á Vesturgötu 2 til 1950 en á Grettisgötu 31 á árunum 1951-1972. Þá flutti stofan að Njálsgötu 49 þar sem hún var rekin til 1985 en eftir það var hún í Kjörgarði, Laugavegi 59, til um 1993.

Pizza 67. Pitsukeðja sem stofnuð var 1992 af þeimÁrna Björgvinssyni,  Einari Kristjánssyni, Georg Georgiou og Guðjóni Gíslasyni. Fyrsti staðurinn var opnaður að Nethyl 2 en eftir þrjú ár voru staðirnir orðnir 16. Árið 2013 var starfsemin í sjö löndum.

Pizza Hut. Stofnsett á Íslandi 1988 af Steindóri Ólafssyni og fjölskyldu. Var á Hótel Esju, síðar Hótel Nordica, frá upphafi til 2010. Einnig voru um árabil Pizza Hut-staðir í Mjódd, Kringlunni og á Sprengisandi við Bústaðaveg.

Pizzahúsið. Opnað af Ólafi Þór Jónssyni árið 1981 á Grensásveg 7 en flutti á Grensásveg 10 árið 1985. Starfaði til um 2002.

Pípugerð Reykjavíkurbæjar. Stofnuð 1946 af Reykjavíkurbæ og var hún framan af til húsa í bröggum við Langholtsveg en flutt árið 1965 í gamalt grjótnám í Ártúnshöfða.

Pípugerðin. Fyrirtæki sem var á Hofsbökkum í landi jarðarinnar Hofs á Kjalarnesi. Þar voru steypt rör og holsteinar.

Pípuverksmiðjan Reykjavíkur. Stofnuð 1907. Síðar Pípuverksmiðjan hf.

Pítan. Veitingastaður, opnaður 1982 á Bergþórugötu 21 af Jakobi Hólm og Eiríki Finnssyni. Nýr staður undir þessu nafni var opnaður í Skipholti 50c árið 1986 og hefur hann verið rekinn síðan.

Planið. Sjá Steinplanið.

Plúsferðir. Dótturfyrirtæki Úrvals-Útsýnar (sjá) sem varð til þegar síðarnefnda fyrirtækið keypti ferðaskrifstrofuna Alis i Hafnarfirði árið 1996. Sérhæfði sig í ódýrum ferðum til Evrópulanda, einkum Danmerkur og Bretlands. Fyrsti framkvæmdastjóri Plúsferða var Laufey Jóhannsdóttir. Var til húsa í Faxafeni 5 fyrstu árin en síðan í Lágmúla 4.

Plútó. Sjá Lúdó.

Polaris. Heildverslun, einkum á sviði glerinnflutnings, stofnuð af Páli G. Jónssyni. Fór einnig yfir á svið ferðasölu 1978 og árið 1986 var stofnuð Ferðaskrifstofan Polaris. (athuga)

PON. Umboðs- og heildverslun, stofnsett af Pétri O. Nikulássyni árið 1962 og bar í fyrstunni nafn hans en var síðan breytt í PON. Sérhæfði sig í útgerðarvörum og tækjum, einkum lyfturum. Var til húsa á Vesturgötu 39 til 1973 en flutti þá í Tryggvagötu 8 og síðar Tryggvagötu 16. Vöru- og lyftaralager var á Eyjarslóð 9 frá 1987. Fyfrirtækið flutti til Hafnarfjarðar 2001.

Pops, hljómsveit

Port Reykjavík. Árið 1905 var stofnað hlutafélagið Höfn til að gera hafnarbryggju við Skerjafjörð milli Skildinganess og Nauthóls og leggja járnbraut þaðan inn í bæinn. Aðalforgöngumaður þessa máls var Ólafur Árnason. Árið 1913 stofnaði Einar Benediktsson skáld hlutafélag á Bretlandseyjum um sömu hugmynd og kallaðist það The Harbours and Piers Association. Keypti það hluta af jörðinni Skildinganesi í þessu skyni. Í skýrslu Einars til hluthafa kallaði hann fyrirhugaða höfn Port Reykjavík og reiknaði með að hún risi brátt Reykjavík yfir höfuð. Sumarið 1913 hófust töluverðar framkvæmdir við gerð hafskipabryggju við Kýrhamar rétt fyrir innan Nauthól en ekki varð framhald á þeim næsta sumar og fór fyrirtækið út um þúfur.

Potentiam. Þungarokkshljómsveit sem starfað hefur frá 1997. Í henni eru Birgir Már Þorgeirsson, Einar Thorberg Guðmundsson, Engilbert Hauksson og Guðmundur Óli Pálmason,

Poulsen. Upphaflega Verslun Vald. Poulsen sem sérhæfði sig í vélum og járnvörum. Stofnsett árið 1910 þegar Valdemar Poulsen járnsteypumaður hóf að auglýsa vörur til sölu. Fyrirtækið var frá upphafi til húsa á Klapparstíg 29 og þar í grennd en þar var Verslun Vald. Poulsen rekin fram yfir 1970. Árið 1967 var svo opnuð ný verslun að Suðurlandsbraut 10 og þar var hún til 2001 að flutt var í Skeifuna 2. Frá þeim tíma heitir fyrirtækið einungis Poulsen og sérhæfir sig einkum í bifreiðaþjónustu.

Pólar. Rafgeymaverksmiðja, stofnsett 1951 af hópi manna. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Runólfur Sæmundsson. Verksmiðjan var fyrstu árin á Hverfisgötu 89, þá á árunum 1953-1956 í Borgartúni 1 en flutti síðan í eigin húsnæði í Einholti 6 þar sem hún var til húsa til 2003. Einnig var hún með húsið Þverholt 15 um árabil. Verksmiðjan breyttist í samsetningarverksmiðju upp úr 1968 en er nú rekin sem heildsala í Kringlunni 6.

Pólarnir. Fjölbýlishús úr timbri við Flugvallarbraut fyrir neðan Miklatorg ásamt tveimur minni húsum. Einnig nefnt Suðurpóll. Tilheyrði upphaflega Laufásvegi. Húsin voru reist til bráðabirgða af fátækranefnd Reykjavíkur á árunum 1916-1918 til að leysa úr miklum húsnæðisvandræðum. Voru í húsunum 46 íbúðir og tvær til viðbótar í litlu húsi sem nefnt var Kálfakot. Pólarnir voru rifnir árið 1965 en Kálfakot stóð fram undir 1990.

Póló. Lakkrísgerðin. Var komin 1957 og var enn til 1972. Var á Baldursgötu 9 1963, í Ármúla 14 um 1970. Ath nánar.

Pólýfónkórinn

Póst- og símaskólinn. Rekinn á vegum Pósts og síma á árunum 1968 til um 1991. Þar var stundað póstnám, símritanám, símsmiðanám, rafeindavirkjanám og fleira. Skólinn var fyrst til húsa í Austurstræti 12 en síðan lengst af á Sölvhólsgötu 11. Fyrsti skólastjórinn var Kristján Helgason

Pósthúsið í Reykjavík. Póstmeistaraembættið í Reykjavík var stofnað 1872 og var fyrsta pósthúsið í Hafnarstræti 18. Áður haðfi verið dönsk póstafgreiðsla í Vesturgötu 2 1869-1870 og Hafnarstræti 18 1870-1872. Árið 1874 var pósthúsið flutt í einlyft timburhús í Pósthússtræti 11. Þaðan var það flutt í Pósthússtræti 3 árið 1898 (Gamla barnaskólann). Nýtt pósthús var reist í Pósthússtræti 5 árið 1915 og þar var aðalpósthús Reykvíkinga uns flutt var í Póstmiðstöðina á Suðurlandsbraut 28 og Ármúla 25 árið 1984.

Pósthússtræti. Gata frá Geirsgötu að Kirkjustræti. Upphaflega var hún stígur sem lagður var árið 1861 frá Austurstræti að Dómkirkjunni. Eftir að pósthús kom á lóðina þar sem Hótel Borg er núna, en það var árið 1872, var farið að kalla götuna Póststræti. Árið 1882 var Póststræti framlengt niður að sjó og breikkað en nafnið Pósthússtræti kemur fyrst fyrir árið 1887. Gatan ber nafn með rentu því að Pósthúsið í Reykjavík var síðar á tveimur öðrum stöðum við hana.

Póstmannafélag Íslands

Póstmiðstöðin. Pósthúsið í Reykjavík var aflagt sem aðalpósthús árið 1984 og varð eftir það póstútibú en aðalstöðvarnar fluttust í Póstmiðstöðina á Suðurlandsbraut 28 og Ármúla 25. Árið 1999 var svo tekin í notkun Póstmiðstöðin að Stórhöfða 32. Önnur póstútibú eru að Þönglabakka 4, Hraunbæ 119 og Hverafold 1-3.

Póststræti. Sjá Pósthússtræti.

Póstur og sími. Sjá Íslandspóstur og Landsími Íslands.

Pravda. Veitingastaður í Austurstræti 22.

Prentarablokkin. Stór íbúðablokk á mótum Laugarnesvegar og Kleppsvegar (Laugarnesvegur 116 og 118 og Kleppsvegur 2, 4 og 6) sem Byggingarsamvinnufélag prentara reisti á árunum 1956-1959 eftir teikningum Einars Sveinssonar arkitekts. Í blokkinni eru 59 íbúðir.

Prentmet. Prentsmiðja, stofnuð 1992 af Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttur. Var fyrst til húsa á Suðurlandsbraut 50, síðan í Skeifunni 6 frá 1995 og að Lynghálsi 1 frá 2003. Hefur keypt upp ýmsar smærri prentsmiðjur.

Prentmyndasmiðafélag Íslands. Stofnsett 1947. Rann inn í Grafíska sveinafélagið 1973.

Prentmyndastofan.  Prentmyndagerð, stofnuð 1973 af þeim Þorkeli Snævar Árnasyni og Þóri Herði Jóhannssyni. Var í Brautarholti 16 til 1985 en flutti þá í Súðarvog 7. Fyrirtækið lagði niður starfsemi 2001.

Prentmyndir. Myndamótagerð, stofnuð 1946 af Páli Finnbogasyni og fleirum. Var í Skúlatúni 2 til 1949 en eftir það á Laugavegi 2. Starfaði til um 1967.

Prentsmiðja Ágústs Sigurðssonar (PÁS).

Prentsmiðja Einars Þórðarsonar. Stofnuð 1876 þegar Einar keypti Landsprentsmiðjuna í Aðalstræti 9 og rak hana áfram þar. Hún hætti 1886.

Prentsmiðja Davids Östlund. Sjá Aldarprentsmiðjan.

Prentsmiðja Guðmundar Jóhannssonar. Starfrækt á árunum 1945-1975, lengst af á Nýlendugötu 14.

Prentsmiðja Hallgríms Benediktssonar. Rekin á Bergstaðastræti 19 á árunum 1918-1940.

Prentsmiðja Jóns Helgasonar. Stofnsett 1926. Var á Bergstaðastræti 27 til 1965 en flutti þá í eigið húsnæði í Síðumúla 16. Sameinaðist Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg árið 1973.

Prentsmiðjupósturinn. Sjá Ingólfsbrunnur.

Prestaskólinn. Stofnaður 1847 og starfræktur fram að stofnun Háskóla Íslands 1911. Fyrsti forstöðumaður hans var Pétur Pétursson. Hann var til 1851 til húsa í Lærða skólanum, þá að Hafnarstræti 21 til 1873 o g loks í Austurstræti 22 eftir það.

Prestssker. Eitt af skerjunum í Skerjafirði, út af Skildinganesjörðinni.

Prikið. Adlonbar (sjá) sem Silli og Valdi settu á stofn í Bankastræti 12 um 1950. Fékk fljótt nafnið Prikið í daglegu tali. Þar var jafnan sérstök stemmning kaffigesta, oft þeirra sömu árum saman. Um 1992 fékk staðurinn vínveitingaleyfi en gömlu innréttingarnar halda sér að mestu.

Prófessorahverfið. Sjá Háskólahverfið.

Prófessorshúsið. Sjá Læknishúsið.

Prýðisfélagið Skjöldur. Samtök íbúa Skerjafjarðar sunnan flugvallar, stofnuð 1994.

Purrkur Pillnikk. Hljómsveit sem spratt upp úr síðpönkbylgjunni og starfaði á árunum 1981-1982. Í henni voru Ásgeir R. Bragason, Bragi Ólafsson, Einar Örn Benediktsson og Friðrik Erlingsson.

Pöntunarfélag Grímsstaðaholts. Stofnað 1933. Framkvæmdastjóri var Stefán Árnason. Opnaði verslun á Fálkagötu 25 árið 1936 en flutti hana að Fálkagötu 18 árið 1943 og var þar bæði nýlenduvöru- og vefnaðarvöruverslun. KRON tók félagið yfir árið 1949.

Pöntunarfélag verkamanna. Sjá KRON.

Q4U. Pönkhljómsveit sem starfaði með hléum 1980-1996. Upphaflega voru í henni Berglind Garðarsdóttir, Elínborg Halldórsdóttir, Gunnþór Sigurðsson, Steinþór Stefánsson og fleiri.

Quarashi. Vinsæl rapp/hip hop hljómsveit sem starfaði á árunum 1996-2005 og öðlaðist nokkra frægð erlendis. Í hljómsveitinni í upphafi voru þeir Höskuldur Ólafsson, Ómar Örn Hauksson, Steinar Orri Fjeldsted og Sölvi Blöndal.

R. B. Rúm. Stofnsett 1943, enn til 2013.

R. Sigmundsson. Innflutningsfyrirtæki og verslun, einkum á sviði siglinga- og fiskleitartækja en síðar einnig gps-tækja. Stofnsett 1947 af Ríkarði Sigmundssyni. Var í fyrstunni við Kalkofnsveg, síðan um tíma í Hafnarstræti 10-12, í Garðastræti 13 frá um 1957 til 1969, þá í Tryggvagötu 8 (síðar 16), til 1998 þegar það flutti í nýbyggingu á Fiskislóð 16. Frá 2007 hefur fyrirtækið verið til húsa í Klettagörðum 25 og fært mjög út kvíarnar með kaupum á Vélasölunni, Radiomiðun og fleiri fyrirtækjum.

Radisson Blu Hótel Saga. Sjá Hótel Saga.

Radisson SAS Hótel Saga. Sjá Hótel Saga.

Radíóbúðin. Stofnsett af hjónunum Halldóri Laxdal og Sigríði Axelsdóttur árið 1950, var upphaflega viðgerðarverkstæði á Laugavegi 166 en þróaðist einnig í verslun eftir að flutt var í Veltusund 1 árið 1952.  Árið 1962 fluttist búðin að Klapparstíg 26 og varð fyrst allra verslana til að flytja inn sjónvörp. Þar var hún til 1977 en jafnframt var opnuð önnur búð í Skipholti 19 árið 1973 sem rekin var til 1998.

Radíómiðun. Fyrirtæki á sviði fjarskiptabúnaðar, upphaflega stofnað 1957 af bræðrunum Baldri og Vernharði Bjarnasonum. Sameinaðist Ísmar árið 2003 og gekk í nokkur ár undir nafninu Radíómiðun-Ísmar. Var lengst af til húsa á Grandagarði 7-9 en frá 2006 á Suðurlandsbraut 30. Sameinaðist R. Sigmundsson árið 2006.

Radíótækni.

Radíóverkstæði Landssímans. Sjá Birgðahús Landssímans.

Radíóvirkinn.  Verslun og verkstæði, stofnsett 1959. Sérhæfði sig í loftnetum, talstöðvum, spennibreytum og mælitækjum. Var á Laugaveg 20B til 1962, þá á Skólavörðustíg 10 til 1977, á Týsgötu 1 frá 1977-1992 og loks í Borgartúni 22 fram til um 1998. Mun hafa flutt í Kópavog.

Radisson SAS 1919 hótel. Opnað 2005 í Eimskipafélagshúsinu í Pósthússtræti 2.

Rafall. Sjá Raforku.

Rafboði. Fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í skiparaflögnum, stofnað 1972 af Hauki Þorsteinssyni og Smára Hermannsyni. Var fyrstu árin í Garðabæ en haslaði sér völl árið 1982 að Eyjarslóð 9 í Reykjavík og reistu síðan nýtt verkstæðishús við Ægisgarð árið 1997 og voru þar í nokkur ár.

Rafborg.  Fyrirtæki sem sérhæfir sig í innflutningi og sölu á rafhlöðum. Stofnað 1967 af Ólafi Ágúst Ólafssyni og Ragnari Borg. Var til húsa að Rauðarárstíg 1 til 2002 en eftir það í Sundaborg 3 og loks Sundaborg 7.

Rafbúð. Raftækjaverslun, stofnsett 1966 af Gunnari Guðmundssyni. Var í Domus Medica til um 1993 og í Bíldshöfða 16 frá 1988 til 1998 en þá var verslunin seld til Smith & Norland.

Rafeindaþjónustan (Konráð Gíslason). Virðist stofnað um 1974 og rekið til 1998 þegar fyrirtækið sameinaðist Áttavitaþjónustunni undir nafninu Raför. (Grandagarði 1a 1980, síðar Eyjarslóð 9)

Rafgeislahitun. Fyrirtæki sem framleiddi rafkerfi til húshitunar. Stofnað 1954 af Guðlaugi Jónssyni og fleirum. Var til húsa í Garðastræti 6 til 1957, þá í Einholti 2 til 1963 og loks á Grensásvegi 22. Hætti 1966.

Rafheimar. Upplýsinga- og fræðasetur um rafmagn. Stofnað 1998 af Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Til húsa við Rafstöðvaveg 1.

Rafiðn. Fyrirtæki sem þjónar framleiðlsufyrirtækjum í rafeindaiðnaði, stofnsett 1982. Starmýri 2 árið 2000?

Raflux. Sjá Raforku.

Rafiðnaðarsamband Íslands. Starfsgreinasamband, stofnað 1970 og voru fimm aðildarfélög stofnfélagar. Fyrsti formaður þess var Óskar Hallgrímsson.  Frá 1979 hafði sambandið aðsetur að Háaleitisbraut 68 en frá 2000 að Stórhöfða 31.

Rafmagn. Verslun með rafmagnsvörur, stofnuð 1929 af þeim Höskuldi Baldvinssyni verkfræðingi, Hans R. Þórðarsyni og rafvirkjunum Hafliða Gíslasyni, Óskari Árnasyni og Sigurði Gíslasyni. Gissur Pálsson keypti fyrirtækið 1932 og rak það síðan áratugum saman. Síðast var það í eigu Hafsteins Oddssonar. Verslunin vare til húsa í Hafnarstræti 18 til 1932 en þá á Vesturgötu 3 til um 1935 en lengst eftir það á Vesturgötu 10 eða allt til ársi9ns 1987. Eftir það var verslunin í Skipholti 31 en hún mun hafa hætt 1996.

Rafmagnsveita Reykjavíkur. Stofnsett árið 1921 þegar Elliðaárvirkjun tók til starfa. Fyrsti rafmagnsstjórinn var Steingrímur Jónsson. Síðar stóð Rafmagnsveitan fyrir þremur Sogsvirkjunum. Skrifstofur Rafmagnsveitunnar voru á ýmsum stöðum fyrstu árin en á árunum 1930-1962 voru höfuðstöðvar hennar í Tjarnargötu 12. Árið 1962 voru þær fluttar í Hafnarhúsið. Verkstjórn, birgðavarsla og rafmagnsverkstæði voru lengst af í Barónsfjósinu gamla á horni Barónsstígs og Hverfisgötu. Á árunum 1972 til 1984 flutti öll starfsemi Rafmagnsveitunnar í byggingar sem standa við Suðurlandsbraut 34 og Ármúla 31. Orkuveita Reykjavíkur tók yfir starfsemi Rafmagnsveitunnar 1999.

Raforka. Raftækjavinnustofa og verslun, stofnsett 1941 af Gísla Jóhanni Sigurðssyni og Holger P. Gíslasyni. Var fyrsta árið á Óðinsgötu 13 en flutti að Vesturgötu 2 árið 1942. Hét Rafall fyrstu árin en 1951 var Gísli orðinn einn eigandi og breyttist þá nafni fyrirtækisins í Raforku. Árið 1943 lét fyrirtækið hengja upp raflýsta jólabjöllu á mótum Vesturgötu og Aðalstrætis og var það fyrsta raflýsta jólaskreytingin utandyra í Reykjavík. Raftækjaverslunin var flutt af Vesturgötu í Austurstræti 8 árið 1968, þó með viðkomu á Grandagarði í millitíðinni, en nafni hennar var breytt í Raflux árið 1973. Var hún á ýmsum stöðum svo sem Grandagarði 7 frá 1971, Rauðalæk 2 um tíma og loks í Síðumúla 8. Raforka var rekin sem raftækjavinnustofa til 1997.

Rafstöðvarvegur. Vegurinn frá Vesturlandsvegi að Rafstöðinni við Elliðaár.

Rafteikning.  Verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki á sviði rafmagnsverkfræði. Stofnsett af Agli Skúla Ingibergssyni og Guðmundi Jónssyni árið 1965. Var til húsa á ýmsum stöðum á fyrstu árunum, svo sem Álftamýri 9, Síðumúla 23 og Ármúla 11. Var frá 1982 í Borgartúni 17 en síðustu árin á Suðurlandsbraut 4. Sameinaðist Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (sjá) árið 2008.

Raftíðni.

Raftækjaeinkasala ríkisins. Sjá Raftækjasalan.

Raftækjasalan. Heildverslun á sviði rafmagnstækja, stofnsett 1941 eftir að Raftækjaeinkasala ríkisins, sem stofnuð var 1935,  hafði verið lögð niður. Jón Á. Bjarnason rak verslunina en hún var lengst af til húsa í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og á Vesturgötu 17. Lögð niður um 1965.

Raftækjaverslun Íslands. Hlutafélag, stofnað 1929 með nýtingu straumvatna til rafmagnsframleiðslu með nýrri tækni fyrir augum en einnig innflutningi á búnaði til rafmagnsframleiðslu og rafmagnstækjum.  Aðalstofnandi félagsins var Sigurður Jónasson en með honum voru Sigurður Kristinsson forstjóri SÍS og fleiri. Fyrirtækið var rekið til 1935 en lagðist þá niður um hríð en virðist hafa verið endurvakið 1945 með nýjum hluthöfum að einhverju leyti og þá fyrst og fremst með innflutning á rafmagnstækjum fyrir augum. Var rekið til 2008 að það var sameinað fyrirtækinu Rönning. Raftækjaverslun Íslands var með útsölu á Laugavegi 6 árin 1930-31, þá á Vesturgötu 3 til 1933 og loks á Tryggvagötu 28 til 1935. Frá 1945 til 1948 var það í Hafnarstræti 17, síðan í eitt ár í Austurstræti 22B, þá í hafnarstræti 10-12 á árunum 1949-1958. Það var á Skólavörðustíg 3 á árunum 1958 til 1969, á Ægisgötu 7 1969-1986, Knarrarvogi 2 1986-1995 og loks að Skútuvogi 1 til 2008.

Raftækjaverslun Júlíusar Björnssonar. Stofnuð 1920 og rekin fram til 1970, lengst af í Austurstræti 12.

Raftækjaverslun Lúðvíks Guðmundssonar. Sjá Ljós og orka.

Rafver. Rafverktakafyrirtæki og viðgerðarþjónusta, stofnað 1956 af þeim Einari Ágústssyni, Gudmund Axel Hansen, Haraldi Hermannssyni, Jóni Ágústssyni, Sigurði Sveinssyni og Þórði Þorvarðarsyni. Hafði fyrstu árin aðsetur á Holtsgötu 41 en síðan í Einholti 6 til 1967. Síðan hefur fyrirtækið verið rekið í Skeifunni 3E og þar hefur frá 1984 verið verslun og heildsala þess.

Rafmagnsvirkjafélag Reykjavíkur. Sjá Félag íslenskra rafvirkja.

Raforkusjóður Kjalarneshrepps. Stofnsettur 1943 til að stuðla að rafvæðingu sveitarinnar sem komst til framkvæmda eftir 1950.

Rafvirkjafélag Reykjavíkur. Sjá Félag íslenskra rafvirkja.

Raför.  Rafeindafyrirtæki og verkfræðiþjónusta, varð til árið 1998 þegar Rafeindaþjónustan Örfirisey og Áttavitaþjónustan sameinuðust. Var til húsa á Eyjarslóð 9 en síðar í Sundaborg 1.

Ragnar herrafataverslun. Stofnsett 1979 af Ragnari Guðmundssyni. Var á Barónsstíg 27 til 1984 en eftir það á Laugavegi 61-63. Rekin til um 1996.

Ragnar Þórðarson & co. Vefnaðarvöru- og fataverslun, stofnsett árið 1942, síðar heildverslun. Til húsa í Aðalstræti 9. Var síðar breytt í Ragnar Þórðarson hf.

Ragnarsbúð. Nýlendu- og matvöruverslun á Fálkagötu 2, stofnuð 1946 af Rögnvaldi Ragnari Gunnlaugssyni og rekin til 1950 og svo aftur 1955-1997.

Ragnarsbúð. Einnig kölluð Raggasjoppa. Var á Laugarnesvegi eða við Laugalæk.

Rakarafélag Reykjavíkur. Sjá Meistarafélag hárskera.

Rakarameistarafélag Reykjavíkur. Sjá Meistarafélag hárskera.

Rakarastofa Einars Eyjólfssonar.  Að Álfheimum 31. Komin 1963, enn rekin.

Rakarastofa Eyjólfs Jóhannessonar. Stofnsett 1923 í Bankastræti 12 og var rekin þar allt til ársins 1984.

Rakarastofa Eyjólfs Jónssonar frá Herru. Rekin á árunum 1907-1936. Var lengi í Austurstræti 17 en frá 1923 í Aðalstræti 6.

Rakarastofa Leifs og Kára. Rekin á Frakkastíg 10 af þeim Kára Elíassyni og Leifi Jóhannessyni á árunum 1949-2001.

Rakarastofa Runólfs Eiríkssonar. Sjá Hársnyrtistofa miðbæjarins.

Rakarastofa Sigurðar Ólafssonar. Stofnsett 1907 af Kjarani Ólafssyni og Sigurði Ólafssyni. Var fyrst í Lækjargötu 2, þá í Melsteðshúsi við Lækjartorg en frá 1908-1921 í Hafnarstræti 16. Árið 1921 flutti stofan í Eimskipafélagshúsið í Pósthússtræti 2 og starfaði þar til 1988.

Ramma- og veggmyndaverslun Guðmundar Ásbjörnssonar. Sjá Myndabúðin.

Rammagerðin. Stofnsett 1940 af Jóhannesi Bjarnasyni. Sérhæfði sig upphaflega í römmum og myndum en þróaðist í að vera alhliða gjafavöruverslun, einkum fyrir erlenda ferðamenn. Verslunin var fyrstu tvö árin á Laugavegi 53, þá í Hótel Heklu við Lækjartorg til 1945. Frá þeim tíma til 1972 var hún í Hafnarstræti 17 en eftir það hefur aðalverslunin verið í Hafnarstræti 19. Árið 1963 var fyrsta útibúið opnað í Hafnarstræti 5 en það var flutt í Austurstræti 3 árið 1970 og var þar til 1976. Upp úr 1970 tók Rammagerðin að opna útibú á hótelum og flugvöllum.

Randersku húsin. Sjá Brekkmannshús.

Rangá. Matvöruverslun, stofnsett 1931 af Jóni Jónssyni frá Ekru í Rangárvallasýslu. Var á Hverfisgötu 71til ársins 1948 en flutti þá í Skipasund 56. Útibú var rekið í Efstasundi 27 frá 1984 til 1991.

Rangæingafélagið. Stofnsett 1935. Fyrsti formaður þess var A. J. Johnson.

Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins. Sett á laggirnar 1965 og tók við þeim verkefnum sem Rannsóknastofa Fiskifélags Íslands hafði áður haft. Fyrsti forstjóri stofnunarinnar var Þórður Þorbjarnarson og voru höfuðstöðvar hennar á Skúlagötu 4. Árið 2006 sameinaðist hún tveimur öðrum rannsóknastofum í fyrirtækinu Matís.

Rannsóknastofa Háskólans í meina- og gerlafræði

Rannsóknastofa Hjartaverndar. Sjá Hjartavernd.

Ratholes. Sjá Hólmahlein.

Rauða húsið. Hús við Reykjanesbraut. Skammt frá Nesti. Byggt upp úr gömlu hesthúsi um 1950 af þeim Páli Ragnarssyni og Hönnu ?

Rauða Myllan. Kaffihús á Laugavegi 22, rekið þar á árunum 1959 til um 1976.

Rauðabásás. Ás upp af Rauðabás nyrst í landi Eiðis við Geldinganes.

Rauðakrossbúðin. Verslun með notuð föt. Fyrsta búðin var opnuð árið 2000 á Hverfisgötu 29 en flutt á Laugaveg 12b árið 2002 þar sem hún hefur verið síðan. Önnur Rauðakrossbúð var opnuð við Hlemmtorg árið 2008.

Rauðará. Einnig nefnd Rauðarárlækur. Upptök árinnar voru í Norðurmýri og rann hún nokkurn veginn ár sem nú er Gunnarsbraut og niður í Rauðarárvík.

Rauðará. Jörð á Seltjarnarnesi sem snemma er talin hafa byggst úr landi Reykjavíkur. Jörðin var lögð undir lögsögu Reykjavíkurkaupstaðar 1835 en bæjarstjórn keypti hana 1886. Búskapur lagðist niður á Rauðará 1942. Síðustu bæjarhúsin stóðu þar sem nú er hús frímúrara við Skúlagötu 55 en þau voru rifin 1971.

Rauðarárgrafir. Miklar mógrafir í Rauðarármýri (sjá).

Rauðarárholt.  Holtið milli Kringlumýrar og Norðurmýrar. Byrjar upp af Hlemmi en Sjómannaskólinn stendur efst á holtinu.

Rauðarárkot. Torfbær, reistur árið 1821 af Eyjólfi Þorkelssyni austan við túngarð Rauðarár en vestan við húsið Höfða sem síðar kom. Einnig nefndur Nýlenda.

Rauðarárlækur. Sjá Rauðará.

Rauðarármýri. Mýrlendi sem var þar sem nú er nyrðri hluti götunnar Nóatúns.

Rauðarárstígur. Gata á mörkum Rauðarárholts og Norðurmýrar, liggur milli Skúlagötu og Miklubrautar. Nafnið kemur fyrst fyrir árið 1906.

Rauðarártraðir

Rauðarárvík. Víkin vestan við býlið Rauðará, nokkurn veginn þar sem Skúlatorg er nú.

Rauðarárvör. Austan Rauðarár í Rauðarárvík, nú horfin undir uppfyllingar.

Rauðavatn. Stöðuvatn austan við Selás og norðan við Norðlingaholt.

Rauðavatnsskógur. Sjá Skógræktin við Rauðavatn.

Rauðhólar. Þyrping gervigíga í Elliðaárhrauni, sunnan Suðurlandsvegar en norðaustur af Elliðavatni. Hólunum var spillt með mikilli efnistöku, einkum á stríðsárunum seinni en efni úr þeim var m.a. notað við gerð Reykjavíkurflugvallar. Árið 1961 voru Rauðhólar friðlýstir og 1974 varð Rauðhólasvæðið fólkvangur.

Rauðhólsgil. Liggur úr Haukafjöllum neðan Svínaskarðs í Esju og kemur saman við Tröllagljúfur í Leirvogsá.

Rauðibás. Örnefni við sjóinn nyrðst í landi Eiðis við Geldinganes, rétt austan við Litlaás.

Rauði kross Íslands. Stofnaður 1924 með höfðuðstöðvar í Reykjavík. Fyrsti formaðurinn var Sveinn Björnsson. Rauði krossinn lét þegar hjúkrunarmál og sjúkraflutninga til sín taka en umsvifin jukust mjög á stríðsárunum. Hefur hann síðan gengist fyrir hjálparstarfi um allan heim, rekið sjúkraheimili í Reykjavík og fleira. Reykjavíkurdeild Rauða krossins var stofnuð 1950 og var fyrsti formaður hennar séra Jón Auðuns. Var verkefni hennar framan af einkum sjúkraflutningar, námskeiðahald og rekstur sumardvalarstaða fyrir börn utan borgarinnar. Sérstök kvennadeild var og stofnuð í Reykjavík og var fyrsti formaður hennar Sigríður Thoroddsen. Skrifstofur Rauða krossins voru á ýmsum stöðum í borginni, svo sem Hafnarstræti 5, Thorvaldsensstræti 6, Öldugötu 4, Nóatúni 21 og Rauðarárstíg 18 en árið 1997 flutti Rauði krossinn í nýtt húsnæði sem hann hafði látið byggja í Efstaleiti 9.

Rauðir pennar

Rauðsokkuhreyfingin. Grasrótarhreyfing um kvenfrelsi, varð til í Reykjavík árið 1970. Eftir 1974 varð hún að hreyfingu með Marxísku yfirbragði en leið undir lok um 1982.

Rauðuhnúkar. Móbergshryggur rétt vestan við Bláfjöll.

Ráðagerði.  Steinbær með viðbyggingum á baklóð við Sólvallagötu 68, reistur af Árna Jónssyni 1883.

Ráðherrabústaðurinn. Hús Hannesar Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrans, að Tjarnargötu 32, reist árið 1907. Húsið er að grunni til komið frá Sólbakka á Flateyri þar sem Ellefsen hvalveiðimaður hafði reist það 1892 en var mikið stækkað og breytt eftir að það kom til Reykjavíkur. Árið 1909 keypti landstjórnin húsið og var það síðan opinber bústaður ráðherra Íslands og síðan forsætisráðherra allt til um 1940. Eftir það hefur það verið notað sem gististaður erlendra þjóðhöfðingja ásamt því að vera móttökuhús og fundastaður ríkisstjórna.

Ráðhús Reykjavíkur. Við Tjörnina. Í húsinu er aðsetur borgarstjórnar Reykjavíkur , skrifstofur borgarstjóra, stór sýninga- og samkomusalur ásamt kaffihúsi. Húsið var formlega tekið í notkun 1992. Arkitektar hússins eru Margrét Harðardóttir og Steve Christer.

Ráðleysa. Lítill steinbær Egils Diðrikssonar sem stóð á Laugavegi 40 frá 1888 fram til um 1905. Bærinn var úr alfaraleið þegar hann var reistur og þótti ekki mikil fyrirhyggja að reisa hann á þessum stað. Af því var hann kallaður þessu nafni.

Ráðningarstofa Reykjavíkurbæjar [-borgar]. Sjá Vinnumiðlun Reykjavíkur.

Rásin. Örnefni í landi Breiðholts, lá frá Mjóumýri og niður hallann sunnan við bæinn, þar er nú miðja Seljahverfis.

Redesdale Camp. Sjá Camp King.

Regínubær. Torfbær á Hverfisgötu 40 sem taldist til Kasthúsa. Bærinn var reistur af Jóhannesi Magnússyni 1847. Siðar bjó í bænum Regína M. Jónsdóttir og var bærinn nefndur eftir henni. Hann var rifinn um 1903.

REI.

Reiða- og seglameistarafélag Reykjavíkur.

Reiðhöllin í Víðidal. Um 3000 fermetra hús sem rerist var fyrir forgöngu Búnaðarfélags Íslands og fleiri samtaka og einstaklinga og tekið í notkun 1987 við skeiðvöllin í Víðidal við Elliðaár. Þar hafa síðan verið haldnar reiðsýningar og aðrar samkomur auk þess sem í húsinu eru veitingasalir og þar fer fram reiðkennsla. Arkitekt hússins var Valdimar G. Guðmundsson.

Reiðskarð. Gömul þjóðleið ofan Ártúns og niður að Álftnesingavaði á Elliðaám. Nú er þar göngustígur sem tengir Ártúnsholt við Elliðaárdal.

Rein. Bifreiðaverkstæði á Fitjakotshálsi á Kjalarnesi.

Reinholt Andersson. Klæðaskerastofa og verslun, stofnsett 1896. Fyrstu tvö árin var stofan í Hafnarstræti 16, þá í Glasgow við Vesturgötu, í Austurstræti 3 frá 1898-1902, Aðalstræti 9 frá 1902-1911 og Austurstræti 2 frá 1911-1916. Árið 1916 flutti Andersson sig með stofu sína og verslun á Laugaveg 2 og þar var hún rekin allt til um 1955. Meðal annars var þar húfugerð, sú eina á landinu.

Reipslagarabrautin. Braut þar sem nú er vesturhluti Hafnarstrætis frá Pósthússtræti að Aðalstræti. Einnig nefnd Kaðlarabraut. Þar voru snúnir kaðlar á dögum Innréttinganna á 18. öld.

Reipslagarahúsið. Torfhús með fjórum herbergjum sem reist var upp úr 1750 og stóð þar sem nú er Hafnarstræti 16, rifið um 1792. Einnig nefnt Kaðlarahús eða Kaðlaspunahús.

Reknetafélagið við Faxaflóa. Stofnað 1899 til að veiða síld til beitu með reknetum. Formaður félagsins sem starfaði í nokkur ár var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri.

Reki. Þjónustufyrirtæki við sjávarútveginn, stofnsett 1988. Hefur á síðari árum sérhæft sig í síum og síuútbúnaði fyrir atvinnutæki, atvinnubíla og iðnað. Var fyrst á Fiskislóð 90, þá á Grandagarði 5 frá 1992 og frá 2001 á Fiskislóð 57-59.

Rekstrarvörur. Verslunar-  og framleiðslufyrirtæki með hreinlætisvörur og almennar rekstarvörur. Stofnað 1982 af Kristjáni Einarssyni og Sigríði Hermannsdóttur.  Fyrirtækið var að Laugateigi 20 fyrsta árið en síðan á Langholtsvegi 109 til 1986 en hefur síðan verið á Réttarhálsi 2.

Remedía. Verslun og heildsala með hjúkrunar- og snyrtivörur. Stofnsett 1937 í Austurstræti 7 en síðar lengi til húsa í Austurstræti 6 og á ýmsum öðrum stöðum í bænum, síðast í Fákafeni fram yfir aldamótin 2000.

Restaurationen í Oddfellowhúsinu. Sjá Tjarnarcafé.

Reykdalsbær. Sjá Richdalsbær.

Reykholt. Bárujárnsklætt timburhús að Vatnsmýrarvegi 26 (taldist áður til Laufásvegar), reist af Gísla H. Gíslasyni trésmið og konu hans Kristbjörgu Herdísi Helgadóttur  1926-1928. Rifið um 2005.

Reykhólar. Íbúðarhús Steingríms Pálssonar á erfðafestulandi á Laugamýrarbletti 19 við Kleppsveg.

Reykhúsið. Stofnsett 1923 af Hjalta Lýðssyni og N. Fjeldberg. Var til húsa á Grettisgötu 50B til 1968 en eftir það í Skipholti 37 til um 1978. Reykhúsið var rekið í tengslum við Kjöt- og fiskmetisgerðina (sjá) sem lengst af eða til um 1943 var rekin á Grettisgötu 64. Í fyrirtækinu fór fram auk reykingar margvísleg kjöt- og fiskvinnsla. Einnig voru reknar Kjötverslanir Hjalta Lýðssonar, lengst á Grettisgötu 64 eða frá um 1930 til 1956 og í Verkamannabústöðunum á Hofsvallagötu 16 frá 1935 til um 1963.

Reykir. Íbúðarhús Björns Arnórssonar heildsala frá þriðja áratugnum á erfðafestulandi á Laugamýrarbletti 12 við Sundlaugaveg,